Leita í fréttum mbl.is

Óli Björn segir kosningarnar ekki snúast um spillingastyrkina!

Ég var að hlusta á Óla Björn Kárason á Bylgjunni áðan.  Hann var að býsnast yfir því að kosningabaráttan snerist um smámuni, eins og styrki til stjórnmálaflokkanna, en ekki það máli skiptir.  Ég á eiginlega ekki orð.

Ég hélt að þetta styrkjamál væri eiginlega kjarni málsins.  Það snýst um heilindi stjórnmálamanna og hvort enn sé við líði fyrirgreiðslupólitík fortíðarinnar.  Mér finnst það skipta miklu máli hvort stjórnmálamenn séu ennþá að taka við því sem er ekki hægt að túlka á neinn hátt nema mútugreiðslum stórfyrirtækja til einstakra stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka.  Síðast í kvöld var í fréttum Stöðvar 2 nefnt að nokkrir stjórnmálamenn, þar á meðal báðir efstu menn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hefðu tekið við milljónastyrkjum vegna prófkjörsbaráttunnar haustið 2006.  Eru þetta virkilega mennirnir sem við viljum fá inn á þing?  Því neita ég að trúa og þess vegna snúast þessar kosningar um spillingarstyrkina.  Þær snúast líka um uppbyggingu atvinnulífsins, endurreisn heimilanna og framtíðarsýn fyrir þjóðina. 

Gallinn er að fæstir hafa flokkarnir nokkuð fram að færa í þessum efnum.  Samt eru fimm þessara flokka búnir að hafa hátt í sjö mánuði frá hruni bankanna til að koma með hugmyndir.  Af hverju eigum við að trúa því að þeir hafi eitthvað fram að færa núna, þegar þeir hafa ekkert gert síðustu mánuði?  Af hverju hafa ekki verið í gangi virkir aðgerðahópar á vegum stjórnvalda til að finna lausnir?

Kosningarnar á laugardag snúast um traust.  Þær snúast um að losna við spillta stjórnmálamenn út af Alþingi.  Þess vegna skipta spillingarstyrkirnir máli. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

..... og svo kallar hann eftir B-plani frá Jóhönnu og Samfylkingunni, sem á að fjalla um það hvað skuli gert ef þjóðin hafnar ESB aðild.

Jah  mikið væri nú gott og gaman ef flokksfélagar Óla, hefðu getað þrykkt fram sínu B-plani 30.september s.l., eða jafnvel C-plani, eða bara einhverju plani.  Heyrst hefur að í hillu í Seðlabankanum hafi nú verið einhvers konar slíkt plan, það hefur trúlega verið feigðarplan.

Sammála því að kosningar n.k. laugardag snúast um að berja spillinguna út.  Það gerir fólk með því að kjósa þá sem "minnst" eru spilltir. 

Jenný Stefanía Jensdóttir, 21.4.2009 kl. 19:44

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Góður pistill hjá þér. Ég held nú reyndar að Framsóknarflokkurinn hafi gert heilmikið til að hreinsa til. Alla vega tók ég þátt í því.  Hér í Reykjavík þar sem ég er 4. maður á lista í suður þá eru listarnir þannig að allt er nýtt fólk, fólk sem ekki hefur setið á þingi. Framsóknarflokkurinn hefur líka lagt fram lausnir.

Það er ekki langt síðan að Framsóknarflokkurinn var ímynd spillingar í íslenskum stjórnmálum. Það er von mín að sú stund komi að bent sé á Framsóknarflokkinn sem gott fordæmi fyrir siðvæðingu í stjórnmálum. Ég held að við þurfum traust. En við þurfum líka festu. ég held við náum mestum árangri með að breyta gömlu stjórnmálaflokkunum. Nýir flokkar koma og fara

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 21.4.2009 kl. 20:53

3 identicon

Nú er ljóst af fréttum að flestir flokkar sem eru í framboði og margir einstakir stjórnmálamenn hafa þegið styrki frá fyrirtækjum. Mér sýnist ljóst að enginn sé með hreint borð í þeim efnum. Þetta er auðvitað áfall fyrir kjósendur og töluverð vinna fyrir frambjóðendur og flokka að endurvinna traust kjósenda EN ég vil ekki gera þetta að aðalmáli kosninganna og finnst það eigi ekki að vera aðalmálið þó það sé alvarlegt.

Öllu alvarlegri er staða heimilanna og fyrirtækjanna í landinu þar sem EKKERT hefur verið gert og ENGIN raunsæ lausn í sjónmáli - hvorki í kosningaloforðum eða á stefnuskrám flokkanna. Þær litlu aðgerðir sem þessi minnihlutastjórn hefur gripið til virka ekki eins og t.d. lítið dæmi úr fréttum kvöldsins sýnir. En þar kom fram að kona hafi sótt um fyrstingu lána í bankanum sínum eftir að hafa misst vinnuna, minnug hátíðlegrar undirskriftar Jóhönnu og co um það efni. En ó nei! EKki komið í gagnið og kemur kannski aldrei!

Bankarnir eru algjörlega óstarfhæfir og jafnvel fyrirtæki sem enn eru á floti fá enga fyrirgreiðslu þar og hvernig ætli ástandið sé þá með hin? Engin fyrirtæki:engin atvinna

Krónan er í frjálsu falli og við búum við mestu gjaldeyrishöft sem þekkjast héðan og til Albaníu.

Láðu mér ekki (eða Óla Birni) þó við höfum ekki sérlega miklar áhyggjur af þessum styrkveitingum. Hefðum þær kannski meiri ef grunnþörfum fólks í þessu landi væri sinnt.

En þetta er náttúrulega agalega gott fyrir þá sem eru í framboði að geta lamið á þessum fréttum og hvert öðru í stað þess að benda á lausnir á alvarlegum vandamálum sem hrjá okkur almenning í þessu guðsvolaða landi.

Soffía (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 21:08

4 identicon

Það hefur ekki verið merkilegt hingað til sem þessi Óli Björn Kárason hefur fram að færa !  Þess vegna er það ekki úr háum að falla !

Hef velt því fyrir mér hvað það er í sjálfstæðisflokknum sem kemur svona mönnum áfram ?

JR (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 21:42

5 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Ég tek undir hvert orð hjá Marinó.

Soffía, ég er þeirrar skoðunar að við, sem þjóð, erum að súpa seyðið af því að hafa verið undir stjórn fólks sem ekkert sá að því að selja sjálfstæði sitt fyrir fjárstuðning í prófkjöri og framboði.

Fólk sem ekki gat, þegar á reyndi, stuggað við hinum gjafmildu útrásarbarbörum vegna þess að þá hefði þurft að útskýra vandræðaleg fjármálatengsl.

Þetta er kjarni málsins. Það að minnihlutaríkisstjórnin sé ekki búin að kippa kreppunni í liðinn og koma krónunni á flot, ef ekki flug, er fullkomlega skiljanlegt í ljósi þess að styrkþegarnir létu arðránið óáreitt í áraraðir.

Það stendur ekki steinn yfir steini í íslenska bankakerfinu eftir að fjármálaplágan gekk hér yfir. Það er svo stórt gat á fjárlögum landsins að við megum þakka fyrir að ná endum saman fyrir 2020.

Innræti styrkþeganna, grúppía útrásarbarbaranna er kjarni málsins. Slíku fólki verður að skola út úr íslenskum stjórnmálum ef við eigum að eygja einhverja von um sjálfstæða framtíð.

Sigurður Ingi Jónsson, 21.4.2009 kl. 21:45

6 identicon

Stjórnmálamenn sem ekki þjóna þjóð sinni af heilindum, eru í röngu starfi. Nú verður spillingunni að linna í íslenskum stjórnmálum. Það er ófært að þeir sem hafa nóga peninga milli handanna geti keypt sig framfyrir í röðinni. Það er langur vegur frá að allt sé komið upp á borð í þeim efnum. Sátt næst ekki með þjóðinni fyrr en allt verður hreinsað. Þorgerður Katrín, stattu við stóru orðin!

Óli Björn var fyrsti maður til að lýsa því yfir daginn eftir hrun (í Kastljósi) að við hefðum öll verið þátttakendur í glæpnum. Hann gat talað fyrir sig en EKKI MIG.

Ef fólk ætlar virkilega að kjósa þessa spillingarflokka aftur yfir sig ætti það alla vega að strika yfir spillingarnöfnin.

Kolla (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 22:34

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

JR, það vill svo til að ég hef haft vissa trú á Óla Birni.  Hann var ákaflega skynsamur strákur þegar hann var yngri.  Ég held bara að hann, eins og fleiri Sjálfstæðismenn, hafi bara hendst út af sporinu við fall bankanna og þeim gangi illa finna rétta braut.

Soffía, þjóðin var svikin af gerspilltu liði stjórnmálamanna.  Þeir fengu lánaðan bílinn minn og klessukeyrðu hann.  Ég á að bera tjónið.  Þú verður að fyrirgefa, ef ég treysti þeim ekki til að keyra hinn bílinn á heimilinu.  Kosningarnar snúast um traust, þ.e. hverjum við viljum treysta til að leiða þjóðina út úr vandanum.  Er það þeim sem klessukeyrðu bílinn eða hinum sem hafa ekkert af sér gert?  Er það þeim sem tóku við himinháum greiðslum frá fyrirtækjum sem fengu síðan með leyfi undir eftirliti þessara manna að klessukeyra alla bíla almennings eða hinum sem hafa ekkert af sér gert?  Ég velkist ekki í vafa hvorn kostinn ég kýs.

Salvör, mér finnst það gott að þið séuð búin að taka til, en mér sýnist sem það sé bara á yfirborðinu.  Þið þurfið líka að losa ykkur við "flokkseigendafélagið".

Marinó G. Njálsson, 21.4.2009 kl. 22:44

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Kosningarnar snúast um að við höfum tækifæri til að skipta út spillingarliðinu.  Ég skil vel að einhverjir vilja halda áfram að kjósa "flokkinn sinn", en notið þá að minnsta kosti rétt ykkar til að strika út þá sem leyfðu fjármálafyrirtækjunum að leggja landið í rúst.  Strikið yfir þá sem setið hafa á Alþingi frá hruninu og hafa ekkert gert.  Veljið inn fríska fætur og nýja vendi.

Ef okkur verður nauðgað aftur, þá verður það að minnsta kosti ekki sami ofbeldismaðurinn.  En ég veit, þangað sækir klárinn sem hann er kvaldastur.  Ég segi bara, verði þeim að góðu sem ákveða að kyssa á höndina með vöndinn, en verið ekki hissa þegar þið finnið fyrir honum aftur.  Ekki koma þá hlaupandi og kvarta.  YKKAR ER VALIÐ.

Marinó G. Njálsson, 21.4.2009 kl. 23:09

9 Smámynd: Björn Heiðdal

Var bílnum ekki bara stolið og þjófarnir heita Jón Ásgeir og Davíð Oddsson?

Björn Heiðdal, 21.4.2009 kl. 23:58

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Björn, það er hægt að taka alls konar samlíkingar og þetta er ein af þeim.  Mér finnst samt skipta mestu máli að þeir sem voru við stjórnvölin stóðu sig ekki og ég get ekki hugsað þá hugsun til enda að þeim verði verðlaunað fyrir það með nýju umboði frá þjóðinni.

Marinó G. Njálsson, 22.4.2009 kl. 00:21

11 identicon

Einn fagran vordag árið 2007 átti eftirfarandi símtal sér stað milli stjórnmálamanns í ríkisstjórn Íslands og bankamanns á framabraut.

S - Sæll ----ráðherra hérna

B- Blessaður, allt gott að frétta úr stjórnarráðinu

S- Jú jú blessaður vertu, bráðum að koma sumarfrí og þá smellum við okkur út ég og frúin..... (smá þögn), uh heyrðu

B- Já hvað segirðu

S- Ég var að spá í smá viðskipti þú veist, svona "special deal" you know, ég og frúin að fara út sko, og þó gengið sé mjög hagstætt, þökk sé jöklabréfunum ykkar he he... má alltaf gera meiri viðskipti er það ekki?

B- Að sjálfsögðu, má ég mæla með bréfum í -------- þau munu örugglega hækka meðan þið eruð úti

S- þú gengur þá frá þessu og selur síðan þegar þú heldur að bréfin hækki ekki meira

B- Að sjáfsögðu, þetta eru "special deal" kjörin sem þú færð, hvað á ég að kaupa/lána fyrir miklu? Má ég mæla með fyrir 10 milljónir?

S- Já og síðan fyrir fimm milljónir í einhverju öðru sem gefur góðan arð þegar við komum úr fríinu.

B- Ég geng frá þessu strax og góða ferð út.

S- Takk fyrir og blessaður.

Samtal endar.

Tæpum 2 árum síðar hittast þeir fyrir tilviljun hjá sameiginlegum kunningja og skiptast kurteisislega á kveðjum og taka stutt spjall saman. Bankamaðurinn starfar ekki lengur hjá bankanum enda fór hann á hausinn en komst í skilanefnd hjá öðrum banka og ber sig sæmilega.

Stjórnmálamaðurinn varð að víkja vegna kröfu um endurnýjun en flokkurinn útvegar eitthvað þægilegt í staðin, og svo er það náin ættingi sem verður í efsta sæti þannig að þetta blessast allt saman.

Góðar stundir.

Toni (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 02:59

12 identicon

Óli Björn hefur greinilega misst sig í gerjuðum vínberjum og fengið bæði í haus og maga. En pistlarnir þínir Marinó eru til mikillar fyrirmyndar, vel ígrundaðir, vel rökstuddir og hnitmiðaðir. Ég bendi svo á illa ígrundaðar og órökstuddar rógsauglýsingar sjálfstæðismanna sem svo gera ekki annað en að fæla fólk enn frekar frá Sjálfstæðisflokknum, sem fjarlægist þjóðina á hraða ljóssins.

Stefán (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 09:10

13 Smámynd: Offari

Kosningarnar snúast um traust og leiðir til úrbóta. Kosningarbaráttan hefur hinsvegar verið að mestu byggð á því að efla vantraust í garð annara frekar en að byggja upp traust.

Framsókn hefur reynt að byggja upp traust og líka reynt að koma með launir. Ég met þann vilja mikils en þjóðin treystir ekki. Vg virðist hafa traust og vilja til að bæta ástandið. Þetta sýnist mér vera þeir tveir einu af gömlu flokkunum sem hafa vilja til að bæta ástandið.

Samfylking og Sjálfstæðisflokkur vilja fresta vandanum í þeirri von að þetta reddist. Ég hef því miður enga trú á að þetta reddist við það eitt að bíða eftir að þetta líði hjá.

Ég er líka hræddur um að ná þingið ekki trausti þjóðarinar gangi úrbætur ekkert eða hægt. Við verðum einfaldlega að geta treyst þeim sem stjórna svo hægt verði að finna leiðir án þess að þær séu rakkaðar jafnóðum niður.

Offari, 22.4.2009 kl. 09:40

14 Smámynd: Hrannar Baldursson

Sæll Marínó,

Reyndar held ég kjarni málsins sé aðeins dýpri en styrkjamálin, en styrkjamálin eru aðeins reykurinn sem við sjáum. Eldurinn logar sjálfsagt ennþá glatt þarna undir. 

Reyndar segir þú: "Það snýst um heilindi stjórnmálamanna og hvort enn sé við líði fyrirgreiðslupólitík fortíðarinnar."

En þar er ég algjörlega sammála þér.

Styrktarmálin eru afleiðing, en heilindin eru kjarning.

Stórðgóð færsla hjá þér eins og við er að búast.

Hrannar Baldursson, 22.4.2009 kl. 10:38

15 Smámynd: Hrannar Baldursson

Afsakaðu Marinó fyrir að ég skuli vera með einhverja heilabilun sem lætur mig ósjálfrátt skrifa "Marínó".

Hrannar Baldursson, 22.4.2009 kl. 10:39

16 identicon

Ég trúi því ekki að á kjördag, muni  nokkur maður sem fylgst hefur með umræðunni undanfarið, kjósa D.B.S.

Þar sem spillingin drýpur af hverju strái, og allir flokkarnir reyna að fela bókhald sitt fram yfir kosningar. Þeir eru allir jafn sekir.

Við höfum val. Gefum spillingunni frí!! 

Kjósum einfaldlega alt annað.  

Arnór Valdimarsson (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 11:58

17 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Nú virðist fylgi Samfylkingarinnar vera að eflast á kostnað Sjálfstæðisflokksins og er spurningin hvort þarna séu ekki Evrópusinnar úr Sjálfstæðisflokknum að stökkva yfir á Samfylkinguna.

Marinó G. Njálsson, 22.4.2009 kl. 16:39

18 Smámynd: Finnur Bárðarson

Sumar færslur les maður bara og kinkar kolli, engu við að bæta.

Finnur Bárðarson, 22.4.2009 kl. 17:29

19 Smámynd: TARA

Ef kosningarnar snúast um traust...hvað í ósköpunum ráðleggurðu þá fólki að kjósa ??

TARA, 22.4.2009 kl. 18:29

20 Smámynd: Marinó G. Njálsson

TARA, mikið er traust þitt á mér að spyrja mig svona.  Hver og einn verður að finna út hverjum hann treystir.  Ég er í þeirri stöðu að þrátt fyrir að þekkja persónulega efsta fólk á fleiri en einum lista hjá fjórflokknum, þá treysti ég ekki flokkunum.  Þeir voru á vaktinni í aðdraganda hrunsins, meðan það gekk yfir eða eftir hrunið.  Úrræði þeirra til að rétta við atvinnulífið og verja störfin eru nánast engin.  Úrræði þeirra til bjargar heimilunum eru nánast engin (Framsókn undanþegin).  Ég spurði mig hvort ég ætti að treysta þeim til góðra verka eftir kosningar og komst að þeirri niðurstöðu að ég gæti það ekki.  Mitt atkvæði mun því lenda hjá Borgarahreyfingunni.  Efstu menn þeirra í Kraganum eru báðir mjög traustir menn og ég hef ákveðið að treysta þeim til góðra verka.

Ég legg áherslu á að hver og einn taki sína ákvörðun út frá sínum forsendum.  Ég veit bara að ríkisvaldið tók bílinn minn traustataki og lánaði hann fjárglæframönnum.  Þeir rústuðu bílnum en ætlast til þess að ég beri skaðann.  Ég get ekki treyst þeim sem tóku bílinn minn traustataki og ég treysti ekki fjárglæframönnunum sem eyðilögðu hann.  Ég ákvað því að velja milli hinna sem ekki tóku þátt í þessu eða hafa komið að þessu.

Ég vel líka Borgarahreyfinguna vegna þess að eitt helsta baráttumál þeirra er að koma heimilunum til bjargar og þeir byggja á hugmynd sem ég og Hagsmunasamtök heimilanna hafa sett fram.

Marinó G. Njálsson, 22.4.2009 kl. 20:55

21 Smámynd: TARA

Takk fyrir þetta Marinó.

TARA, 22.4.2009 kl. 21:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 1678172

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband