Leita í fréttum mbl.is

Eru gengistryggð lán ólögleg?

Í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur er í greinum 13 og 14 fjallað um vísitölutengingu skuldbindinga.

VI. kafli. Verðtrygging sparifjár og lánsfjár.
13. gr. Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað.
Afleiðusamningar falla ekki undir ákvæði þessa kafla.
14. gr. Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. [Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár frá fyrsta degi þar næsta mánaðar.]*
Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi.

*(L. 51/2007. 1. mgr.)

Það vekur athygli í þessum greinum, sem "gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum" að "[h]eimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé .. sé grundvöllurinn verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs" eða "hlutabréfavísi[tala]..eða safn slíkra vísitalna".  Þó svo að greinin banni ekki beint aðrar tengingar, þá verður að túlka hana á þann hátt.  Það er jú verið að nefna það sem er heimilt á grundvelli reglunnar "allt er bannað sem er ekki sérstaklega leyft".  Ekki væri verið að nota orðið "heimilt", nema vegna þess að annað er bannað.

Í greinargerð með frumvarpinu (sjá http://www.althingi.is/altext/126/s/0872.html) segir um 13. og 14. gr.:

    Í 13. gr. frumvarpsins er fjallað um gildissvið kafla um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.
    Í 1. mgr. er lagt til að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla verði felldar niður. Frá 1960 var almennt óheimilt að binda skuldbinding ar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Þessi almenna regla var tekin upp í lög nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl. („Ólafslög“). Með breytingum á þeim árið 1989 var þó heimilað að gengisbinda skuldbindingar í íslenskum krónum með sérstökum gengis vísitölum, ECU og SDR, sem Seðlabankinn birti. Þessi breyting var liður í auknu frelsi í gjaldeyrismálum á sínum tíma. Gengisbinding á grundvelli þessara vísitalna hefur notið tak markaðrar hylli.
    Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.

(Leturbreytingar: MGN)

Ég fæ ekki betur séð en að gengistryggð lán, hvort heldur hrein eða með myntkörfu í bland við íslenskar krónur, séu ólögleg! ".. ekki verður heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla".  Verður það nokkuð skýrar?  Fjármálafyrirtækin eru búin að vera að selja ólögleg lán í fjölmörg ár.

Þar sem  þessi lán eru helsti dragbítur margra heimila og fyrirtækja, þá skiptir þetta miklu máli.  Hvernig stendur á því að Fjármálaeftirlit, Seðlabanki Íslands og viðskiptaráðuneytið hafa látið þetta óátalið?  Hvað segir ríkissaksóknari við þessu?  Mér finnst alveg með ólíkindum að þetta hafi verið látið óátalið í öll þessi ár, þegar reyndin er að með lögum nr. 38/2001 var löggjafinn að banna þessi lán.

Nú þýðir ekki fyrir fjármálafyrirtæki að ætla sér að snúa út úr og segja að þetta hafi verið skuldbindingar í erlendum gjaldmiðli.  Lánsumsóknir eru undantekningarlaust um fjárhæð í íslensum krónum, útborgun lánanna var í íslenskum krónum, afborganir lánanna eru/voru í íslenskum krónum og þegar upplýsingar eru gefnar um stöðu lánanna, þá eru þær gefnar í íslenskum krónum.  Auk þess er einn möguleiki að fá blandað lán, þar sem hluti þess er miðaður við verðtryggð kjör samkvæmt vísitölu neysluverðs meðan restin er miðuð við "dagsgengi erlendra gjaldmiðla".  Nú er spurningin hvort skjól gömlu bankanna fyrir lögsóknum muni koma í veg fyrir að lántakendur sem tóku hin ólöglegu lán geti leitað réttar síns.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll

Þess utan er auðvitað sá forsendubrestur sem felst í því að bankar börðu á neytendum til að auka eigin hagnað með því að taka stöðu á móti krónunni. Það eru svik við lántakendur og þjóðina.

Kv.

Sveinbjörn

Sveinbjörn (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 04:18

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sveinbjörn, ég fjallaði um þetta í færslu hér 13.2.2009, sjá Er hægt að ógilda verðtryggða og gengistryggða lánasamninga?.  Í athugasemd bendir EE elle (15.2.2009 kl .17.06) á fleiri lagagreinar sem gætu komið að notum, auk þess sem ég fjalla um lög nr. 38/2001 í annarri athugasemd.

Marinó G. Njálsson, 17.4.2009 kl. 08:33

3 identicon

Sæll,

Það verður að segjast að þetta er verulega áhugaverður puntur sem þú ert með Marinó og fróðlegt væri, og beinlínis nauðsinnilegt, að einhver fylgi þessu máli eftir.

Eina lausnin sem lánafyrirtæki hefðu þá væri að breyta þessu í verðtryggt lán (eða óverðtryggt á ofur-ofur vöxtum) frá upphaflegum tökudegi og skoða allar greiðslur fram að þessu sem innborgun (ofborgun). 

Annar vinkill væri svo hvort ekki sé unnt að láta vexti (á tökudegi) standa óbreytta enda þótt þeir hafi verið á erlenda láninu eru það samt vaxtakjörin sem í boði voru (ekki ólöglegt að bjóða góða vexti). Fínt að hafa <2% vexti í Íslenskri mynt (fyrrum JPY lán).

Magnús Orri Einarsson (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 08:45

4 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Það þurfti því miður þjóðar gjaldþrot til þess að íslenski sauðurinn áttaði sig á því hversu mikið íslenskir bankar hafa svindlað á honum, með þeygjandi samþykki íslenskra stjórnmálaflokka.  Ísland hefur verið Djöflaeyja í langan tíma, nú er þetta orðið Þrælaeyja.  Þú & aðrir eruð að standa vaktina sem betur fer, okkur - þjóðinni (& Solla stirða) er gróflega misboðið - "við mótmælum öll..." - Talsmaður neytenda tekur undir okkar sjónarmið, en hvar er t.d. rödd Óla grís - hvar er rödd verkalýðshreyfingarinnar okkar??????

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson, 17.4.2009 kl. 11:49

5 identicon

Þetta var flott ábending. Leiðtogar þjóðarinnar virðast hvorki lesa lög sem sem þeir setja sjálfir (sbr. þetta) né það sem þeir tileinka sér að utan (sbr. EES samninginn, sem gerir okkur ábyrg fyrir Icesave).

ragnar (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 13:02

6 Smámynd: Hörður Valdimarsson

Marinó þú getur ekki litið á þetta svona eins og þú gerir. Ég las um þetta á sínum tíma með þessi lán en þessi svokölluðu jöklabréf eru ekki íslenskt fyrirbæri. Þetta form hefur veið í gangi síðan 1990 þegar japanir fóru að gefa út skuldabréf í Nýa Sjálandi og Ástralíu. Íslenski bankinn er einungis milligöngumaður um veitingu lánanna en lánveitandinn erlendur banki eða sjóður. Ef ég man rétt þá ábyrgðist bankin einungis fast gengi í 2 daga á meðan þetta var að ganga í gegn.

Ég stóð frammi fyrir því að loknu námi 2004 hvort ég myndi koma heim. Leist ekkert á húsnæðisverð eða lánakjör íslensk eða erlend. Ég hef vitað í langan tíma að þetta myndi falla þarna heima. Strax árið 2004 gat maður séð að allt þetta kerfi bæði í heiminum og heima var snar galið. Ég bjóst satt að segja við því að þetta myndi falla mikið fyrr en lengi er þó hægt að lengja í hengingarólinni. Menn lækka til að mynda ekki skatta í einni þeirri mestu uppsveiflu sem verið hefur á íslandi. Efnahagsstjórnin á Íslandi var einfaldlega glötuð. Í flestum siðuðum löndum heims vinna seðlabanki og ríkisstjórn saman. Menn minnka ekki peningamagn í umferð með stýrivaxtahækkun til þess að auka það svo aftur með skattalækkunum.

Hörður Valdimarsson, 17.4.2009 kl. 14:11

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hörður, ég er ekki að tala um jöklabréfin.  Ég er að tala um lán lánastofnana til almennings og fyrirtækja í íslenskum krónum með gengistryggingu.  Lán sem hafa verið kölluð myntkörfulán.

Marinó G. Njálsson, 17.4.2009 kl. 14:20

8 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Þetta er nú ekki svona með mitt myntkörfulán eins og þú ert að lýsa. Ég veit ekki frá hvaða bönkum þú hefur séð greiðsluseðla en ég er með mitt lán frá Frjásla fjárfestingabankanum. Ég sótti reyndar um lánsupphæð í íslenskum krónum en tiltók að ég vildi hafa það í svissneskum frönkum og japönskum jenum. Bankinn hins vegar lánaði mér tiltekna upphæð í þessum gjaldmiðlum en síðan keypti hann þessar upphæðir af mér og greiddi lánið út í íslenskum krónum.

Hins vegar eru allir greiðsluseðlar einungis í þeim gjalmiðlum, sem ég tók að láni. Þar eru bæði afborganir og vextir reiknaðir í þessum gjaldmiðlum. Síðan eru eftirstöðvar láns bæði fyrir og eftir greiðslu sýndar á greiðsluseðlinum. Það eina, sem reiknað er yfir í íslenskar krónur eru greiðslur hvers mánaðar. Það eru sýndar bæði afborganir og vextir af hvorri mynt fyrir sig og síðan sýnd samtala þeirra upphæða. Þær upphæðir eru síðan umreiknaðar í íslenskar krónur. Þær upphæðir eru svo lagðar saman og greiðslugjaldi bætt við og þar með kemur sú upphæð, sem ég á að greiða.

Samkvæmt því, sem stóð á heimasíðu bankans þegar þeir voru að fara fram á það við þá, sem vildu frysta greiðslur eða taka upp fastar greiðslu og fóru fram á að gengisviðmiði yrði breytt að þá geta lántakar mætt í bankann með þá gjaldmiðla, sem lánin eru í og greitt þau þannig ef menn eru ekki ánægðir með það gengi, sem bankinn notar. Ég get því ekki betur séð en að um sé að ræða lán í svissneskum frönkum og japönskum jenum en að mér sé gefin kostur á að greiða af því í íslenskum krónum miðað við gengi á tilteknum degi.

Hitt er annað mál að það má vera að aðrir bankar hafi sín formsatriði þannig að lán þeirra séu í raun ólögleg. Einnig má vel vara að lán frá Frjálsa fjárfestingabankanum séu líka ólögleg þó þetta sé svona sett upp gangvart lántaka. Það væri fróðlegt að sjá hvaða afleiðingar það hafi ef svo er.

Sigurður M Grétarsson, 17.4.2009 kl. 15:51

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hver er þinn punktur, Sigurður?  Ég set fram spurningu og gott og vel þú vilt ekki taka undir það sem rætt er um.  Ég tók lán hjá þssum sama banka og sótti um í íslenskum krónum.  Minn skilningur var að gengisbindingin virkaði eins og hver önnur vísitölubinding, en biði upp á hagstæðari vexti.  Ég tók þessi lán vitandi vits um að gengið gæti lækkað, en gekk út frá því að þetta væri íslenskt lán ekki erlent.  Ég meira að segja óskaði einu sinni eftir því að fá lánið greitt út í erlendum gjaldmiðli, en fékk neitun.

Ég tek það fram að ég hef fengið mjög góða þjónustu hjá bankanum og hefur hann staðið sig mun betur en ríkisbankarnir í því að koma til móts við mig sem viðskiptavin.  T.d. er sá kostur að greiða kr. 5.500 á mánuði miðað við hverja milljón af upphaflega höfuðstólnum mun betri kostur en annars staðar er boðið.  Það breytir því samt ekki, að hafi bankanum verið bannað með lögum að bjóða gengisbundin lán, þá átti hann ekki að gefa mér kost á slíku láni.  Um það snýst þessi spurning.

Eitt í viðbót varðandi þetta:  Ég er alveg viss um að gengistryggt lán í JPY og CHF er til langframa mun hagstæðara lán en verðtryggt eftir íslensku leiðinni.  En það verður það ekki nema krónan styrkist verulaga.

Marinó G. Njálsson, 17.4.2009 kl. 18:28

10 Smámynd: Þórður Björn Sigurðsson

Tíminn er eins og krónan,
og krónan er köld og djúp
eins og vitund mín sjálfs.

Og tíminn er eins og mynd,
sem er máluð af krónunni
og mér til hálfs.

Og tíminn og krónan
renna veglaust til þurrðar
inn í vitund mín sjálfs.

Þórður Björn Sigurðsson, 17.4.2009 kl. 19:36

11 identicon

 

 Marinó, get ekki skilið lögin sem þú komst með að ofan neitt öðruvisi en að gengislánin hafi verið ólögleg.  Og fólkið samt pínt út á gaddinn af glæpabönkum sem lugu að almennum og peningalega ófróðum borgurum landsins um eðli gengislánasamninga og/eða kusu að þegja yfir hættuni sem þeir einir vissu um.  Það er alveg ótrúlegur níðingsskapur gegn fólki.  Og hvað yfirvöld landsins hafa lengi verið óviljug að hlusta á lærða menn.  Undarlegt hvað allt þarf að vera dýrast og hæst og ýktast í drungalega og gráa Frostlandi miðað við önnur lönd.  Og eins og þú sagðir í öðrum pistli:"Það er naumast að við erum rík".

Eins og ég lýsti um daginn, kvartaði ég til Úrskurðarnefndar um fjármálafyrirtæki og benti á forsendubrest og svik og svindl vegna gengisláns.  Nei, kröfunni var hafnað, sko Avant á ekki að vera ábyrgt fyrir gengisfallinu.  (En ég skal vera það).  Getur verið að fjármálafyrirtækin hafi óeðlileg völd?  Kannski svipað og Tryggingafélög þegar kemur að skaðabótum?  Næst fór ég með málið til Neytendasamtakanna og þar er það nú.  

EE elle (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 22:51

12 identicon

Nei, meinti Neytendastofu.

EE elle (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 23:04

13 Smámynd: Marinó G. Njálsson

EE elle, ég hef einmitt sent upplýsingarnar frá þér frá því um daginn til talsmanns neytenda og Björns Þorra Viktorssonar lögmanns.  Báðum fannst þetta áhugavert.

Ég held að við séum smátt og smátt að byggja undir gott mál.  Vandinn er hvað það tekur langan tíma.

Björn Þorri var á fundi hjá Hagsmunasamtökum heimilanna í gær og sagðist hafa spurst fyrir um gengistryggðu lánin og ákvæði laga nr. 38/2001 hjá FME og sagði um það "FME grípur um klofið á sér, þegar þetta er nefnt".  Ætli hann eigi við að mönnum verði brátt í brók af hræðslu við þessa umræðu?  Það er þá aldrei.

Marinó G. Njálsson, 17.4.2009 kl. 23:04

14 identicon

Eitt ótrúlegt og undarlegt svikaland.  Og það þurfum við fólkið að stoppa.  Já, það er e-ð bogið við hvað bankar og tryggingafélög komast upp með gegn fólki.  Takk Marinó. 

EE elle (IP-tala skráð) 17.4.2009 kl. 23:25

16 identicon

Lögsóknir eru þegar að hefjast byggðar meðal annars á þessum lögum. Það sem er réttast að gera til að kenna lánastofnunum þá lexíu sem þær þurfa er að fella lánin úr gildi. Í besta falli að þau verði greidd vaxtalaust.

Ólafur Garðarsson (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 02:06

17 identicon

Leikmaður hlýtur að draga þá ályktun að gengistryggð lán séu ólögleg.

Ekki þarf furða sig meir á því að fúsk hafi viðgengist árum saman í samfélaginu. Meiraðsegja stendur til að halda áfram á sömu braut. Undanbrögð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna í sambandi við persónukjör eru ágætt dæmi. Þar héldust í hendur fúsk og óheilindi:

http://www.borgarahreyfingin.is/2009/04/02/lydraediskrafa-borgarahreyfingarinnar-um-breytingar-a-kosningalogum-er-til-ad-auka-ahrif-almennra-kjosenda-i-kosningum/ 

Málsókn Hagsmunasamtaka heimilanna er sannkallað þjóðþrifaverk.  

Ónýt og utangátta stjórnarandstaða er ein forsenda þess að hér hrundi efnahagslífið til grunna. Alþingi hefur því miður verið dregið niður í svaðið. Það líkist klúbbi stertimenna fremur en vettvangi almannahagsmuna.

Gerum öðruvísi 25. apríl. Setjum X við O.

www.borgarahreyfingin.is 

Rómverji (IP-tala skráð) 18.4.2009 kl. 20:10

18 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Marinó. Það, sem ég er að fara er það að hugsanlega geti þessi formsatriði, sem ég nefndi verið skilgreind þannig að lánin séu í svissneskum frönkum og japönskum jenum en ekki íslenskum krónum. Það er hins vegar ekkert öruggt með eitt eða neitt í því og hugsanlega er þetta misnunandi milli banka.

Hitt er annað mál að ef það er hugsanlega eitthvað til í þessu hjá þér þá væri rétt að láta á það reyna með einhverjum hætti áður en samið er um verð á skuldabréfasöfnum gömlu bankanna yfir í þá nýju rétt eins og með þau atriði, sem þið eruð að aðstoða fólk við að kæra vegna forsendubrests með verðtryggðu lánin. Það væri samt væntanlega hægt að semja um tiltekna greiðslu en að hluta verði haldið eftir þangað til niðurstaða fæst í þessar kærur. Því þyrftuð þið hjá Hagsmunasamtökum heimilanna helst að aðstoða einhvern við að leggja fram kæru áður en gengið er frá þeim samningum.

Ástæða þess að það er nauðsynlegt að klára þetta áður en gengið er frá samningum við þrotabú gömlu bankanna er sú að ef ekki er gert ráð fyrir þessu við verðmat skuldabréfasafnanna þegar nýju bankarnir kaupa þau og síðan vinni viðkomandi lántakar sín mál þá lendir sá skellur á nýju bönkunnum og þar með á íslenskum skattgreiðsendum en ekki erlendu kröfuhöfunum.

Þú mátt ekki skilja orð mín nú og fyrr þannig að ég sé að gæta hagsmuna banka og lánastofnanna. Ég styð ykkur heilshugar með ykkar kærur á bankanna og vona að þið vinnið þau mál. Ég er hins vegar á móti flatri niðurfellingu skulda eins og þið í Hagsmunasamtökum heimilanna, Borgarhreifingin og Framsóknarflokkurinn hafið boðað vegna þess að slíkt mun skaða íslenskan efnahag og vera tilfærsla á peningum frá þeim verst settu til þeirra betur settu. Ég tel mun skynsamlegra að fara út í aðgerðir, sem beinast beint að þeim verst settu og að láta þá, sem geta bjargað sér sjálfir gera það. Ég get til dæmis ekki séð hvernig það hjálpar við að fækka hér gjaldþrotum að mínar skuldir séu lækkaðar um 20%.

Ég er alveg sammála þér að 5.500 kr. tilboðið er besta tilboðið, sem lántökum myntkörfulána hefur boðist en það var í upphafi háð vissum skilmálum, sem ég var ekki tilbúin til að samþykkja og þegar það var á endanum dregið til baka var greiðslubyrði lánsins farin að minnka þannig að ég sleppti þessu alveg og hef einfaldlega greitt af mínu láni eins og um var samið í upphafi. Ég er líka sammála því að væntenlega er það hagstæðara til lengir tíma litið heldur en þau verðtryggðu lán, sem ég greiddi upp með myntkörfuláninu. Enda er það svo að núna er lánið mitt með innan við 2% vöxtum. Á síðasta greiðsluseðli voru vextirnir á svissneska frankanum 1,90% og á japanska jeninu 1,98%. Það gerir til dæmis það að verkum að ef ég færi að breyta láninu núna yfir í íslenskt verðtryggt lán þá myndi greiðslubyrðin hækka um 25-30%. Það þarf því töluverða dýfu í genginu til að það verði verri kostur að vera áfram með þetta lán.

Sigurður M Grétarsson, 19.4.2009 kl. 13:44

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður, ég er mun sáttari við þetta innlegg þitt.  Ég var farinn að halda að værir í vinnu hjá áróðursdeild einhvers banka

Ég er alveg klár á því að bankarnir ætluðu sér að fara framhjá þessari lagagrein og hafa fengið Samtök fjármálafyrirtækja til að leggja lagalegan grunn að þessu.  Það í raun kemur mér ekki við sem lántakanda, þar sem ég fékk ekki að vita við lántökuna af 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001.  Bara það segir mér að menn voru og eru með óhreint mjöl í pokahorninu.

Ég held að ennþá sé mjög langt í land með samninga við erlenda kröfuhafa og ég held að það sé lítið mál að setja fyrirvara í þá samninga um niðurstöður dómsmála á þessum grunni sem og annarra dómsmála sem verður örugglega höfðað vegna forsendubrests, ólöglegrar íhlutunar á markaði o.s.frv.

Gengistryggð lán eru í mínum huga hagstæðari til langs tíma, en það fer þó eftir útgáfudegi.  En væri ekki ennþá hagstæðara að fá þeim breytt yfir í íslenskar krónur frá útgáfudegi, en greiða í samræmi við vaxtakjör lánsins.  Það er nefnilega ekkert sem bannar að bjóða vexti í samræmi við LIBOR.  Það er eingöngu tenging lánsins við dagsgengi erlendsgjaldmiðils sem er í andstöðu við vilja Alþingis, sbr. greinargerð með frumvarpinu.

Marinó G. Njálsson, 19.4.2009 kl. 14:05

20 identicon

Frábært framtak Marinó. Hvers vegna var stjórnarskráin brotin og fólki gert óheimilt að fara í mál við bankanna? Vegna þess að stjórnvöld vissu vel að búið var að brjóta á þegnum landsins. Ekki aðeins vegna þess að reglur voru brotnar hér eins og þú bendir á, heldur tóku bankarnir afstöðu GEGN krónunni og hvöttu svo fólk til að taka myntkörfulán! Þá lánuðu þeir sjálfum sér og hvor öðrum til að endurfjármagna sig og hækka hlutabréfaverðið.

Svo kemur viðskiptaráðherra og stjórnin með greiðsluaðlögun, til að lengja í ólinni og sýna almenningi að hrunið sem var ekki af okkar völdum, verður borgar í gegnum nefið (eins og Bretinn segir), hver einasta króna mjólkuð út úr okkur, ef ekki núna, þá síðar. 

Það þarf að draga stjórnendur bankanna fyrir dóm, það þarf að annað hvort gera þá útlæga eða hækka hámarksrefsingar í dómskerfinu því 16 ár eru vellystingar fyrir þá. Þá þarf hópsmálssókn gegn bönkunum.

Hvers vegna voru bankarnir ekki látnir falla. Ríkið hefði geta bjargað innistæðueigendum (upp að einhverju marki) hér heima og losnað undan óborganlegum skuldum við erlenda kröfuhafa, stofnað tímabundinn ríkisbankanna til að halda útlánastarfssemi gangandi og taka kreppuna strax og skárr heldur en til eilífðar. 

Megi sem flestir lesa þennan pistil þinn og stíga í vitið. Tíminn er kominn!

Sigurður (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 04:49

21 identicon

EE elle (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 09:44

22 identicon

Ég var líka farin að halda Sigurður að þú "værir í vinnu hjá áróðursdeild einhvers banka" confused smiley #17449 :http://salvor.blog.is/blog/salvor/entry/855600/

EE elle (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 10:40

23 identicon

Meinti Sigurð M G, ekki Sigurð næst hér að ofan.

EE elle (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 11:12

24 identicon

Ég velti fyrir mér ummælum Sigurðar M. hér að ofan;

"Ég sótti reyndar um lánsupphæð í íslenskum krónum en tiltók að ég vildi hafa það í svissneskum frönkum og japönskum jenum. Bankinn hins vegar lánaði mér tiltekna upphæð í þessum gjaldmiðlum en síðan keypti hann þessar upphæðir af mér og greiddi lánið út í íslenskum krónum."

Þarna segir hann að bankinn hafi í raun keypt upphæðina og greitt hana út í íslenskum krónum... og ég velti fyrir mér hvort það þýði ekki að í raun eigi bankinn þá bara rétt á því að miða allan lánstímann við það gengi sem skráð var þennan tiltekna dag sem hann keypti lánið? Væri það kannski eðlilegra með þessi erlendu lán, að bankinn fái greitt í samræmi við það gengi sem skráð var á þeim tíma sem lánið var tekið?

Ég hef litla trú á að dómstólar viðurkenni rétt skuldara hér í landinu, en það er þó flott framtak að prófa að lögsækja. Ég gæti trúað að það væri áhrifameira og árangursríkara að fara með það fyrir dómstóla í ESB - er það hægt?

Dómskerfið hér er varðhundur hagsmuna ríkis og valdhafa. Ég hef enga trú á að þeir dæmi almenningi í hag. Því miður :(

Andrea Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 21.4.2009 kl. 17:27

25 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður, því miður eru ekki til úrræði í íslenskum lögum sem leyfa hópmálsókn.  Björn Bjarnason er búinn koma í veg fyrir slík réttarúrræði fyrir neytendur á sama hátt og hann drap gjafmálsóknina.  En ein arfleifð Sjálfstæðisflokksins sem almenningur þarf að líða fyrir.

Marinó G. Njálsson, 21.4.2009 kl. 17:50

26 identicon

Ekki skrifa undir ný skuldaskjöl né skilmálabreytingar án fyrirvara

Nú er Avant farið að semja við fólk.  En af hverju nú?  Þeir hafa ekki viljað semja við neinn!  Getur það verið vegna þessa?: http://www.heimilin.is/varnarthing/index.php?option=com_content&view=article&id=199:gengistryggd-
lan-ologleg&catid=58:frettir

Og þessa: http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/04/16/lantakendur_stefna_og_vilja_lanum_hnekkt/

Og þessara orða lögmanns: Ekki skrifa undir ný skuldaskjöl né skilmálabreytingar án fyrirvara: http://eyjan.is/silfuregils/2009/02/13/hugleidingar-logmanns/

EE elle (IP-tala skráð) 25.4.2009 kl. 09:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 4
  • Sl. sólarhring: 125
  • Sl. viku: 687
  • Frá upphafi: 1677709

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband