Leita í fréttum mbl.is

Grein Jóns G. Jónssonar í Morgunblaðinu í dag - Skyldulesning fyrir þá sem vilja fá skýra mynd af stöðu bankanna

Jón G. Jónsson skrifar grein undir heitinu "Endurreisn án eftirskjálfta" sem birt er í Morgunblaðinu í dag.  Þetta er ákaflega áhugaverð grein, sem ég tel eiga erindi til allra sem vilja fá skýrari mynd af stöðu bankanna.

Mig langar að vitna í greinina á nokkrum stöðum.  Jón byrjar grein sína svona:

ENDURREISN bankanna er mikilvægasta efnahagsmál þjóðarinnar, en jafnframt það flóknasta í úrlausn. Samkvæmt tillögum Fjármálaeftirlitsins (FME) frá því í október á stærð nýju bankanna að miðast við innlendar eignir. Stofnefnahagsreikningar þeirra frá nóvember gera ráð fyrir eignum upp á 2.500 milljarða (áður en ríkið leggur fram eigið fé). Um mitt ár 2008 voru innlendar eignir gömlu bankanna þriggja 5.000 milljarðar, þar af einungis 3.000 milljarðar í íslenskum krónum. Gert er ráð fyrir því að eignir verði keyptar á 50% af bókfærðu verði, en niðurstöður verðmats, sem lauk 15. apríl, hafa þó enn ekki verið birtar. Nýju bankarnir gefa svo út skuldabréf til þeirra gömlu fyrir 1.200 milljarða, eða mismuninn á yfirteknum eignum (2.500 milljörðum) og innlánsskuldum (1.300 milljörðum). Nýlegar yfirlýsingar fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra benda reyndar til að bankarnir verði minni. Hins vegar bendir ekkert til að aðferðunum verði breytt. 

Þarna lýsir hann aðferðafræðinni sem nota á við gerð stofnefnahagsreiknings bankanna.  Þetta var svo sem vitað, en þetta er nauðsynlegur inngangur að því sem síðar kemur.

Ísland er eins og Indónesía, ekki Svíþjóð

Aðstæður hér á landi eru í engu líkar þeim sem voru í Svíþjóð árið 1992, en svipar mest til Indónesíu í Asíukreppunni 1997-1999 hvað varðar gengishrap, stýrivaxtastig, skuldatryggingarálag, erlenda skuldsetningu fyrirtækja og tengsl við banka landsins. Eignaumsýslufélag Indónesíu tók yfir vanskilalán sem námu 80% af bankakerfinu og endurheimti aðeins 30% af lánsfjárhæð. Nýju bankarnir eiga að taka yfir útlán upp á 4.000 milljarða að bókverði, eða 2.000 milljarða að markaðsverði. Samkvæmt þessum tölum má ætla að tap íslenska ríkisins gæti orðið 320 milljarðar, bara vegna afskrifta vanskilalána (ef þau eru tekin yfir á 40%, en venjuleg lán á 90%).

Hér er athyglisverð leiðrétting á viðtekinni trú manna að hægt sé að bera Ísland við Svíþjóð.  Mér hefur alltaf fundist sá samanburður einkennilegur og viljað frekar bera saman við Asíuríkin, þar sem þau urðu fyrir árás spákaupmanna á gjaldmiðla.  Vissulega var sú atlaga að einhverju leiti byggð á öðrum forsendum en hér.

Stærð nýju bankanna miðist við innlend innlán

Ekkert land í heiminum hefur jafnmikil tækifæri til að láta aðra kosta endurreisn sína, en þá verða nýju bankarnir að verða minni. Þeir keyptu þannig aðeins bestu eignir gömlu bankanna, sem næmi innistæðum, eða 1.300 milljörðum, í stað 2.500 milljarða áður, og gæfu þannig ekki út nein skuldabréf. Stærð bankakerfisins væri þá eins og hjá nágrannaþjóðum. Hlutafjárframlag ríkisins væri minna, eða 130 milljarðar, í stað þeirra 385 milljarða sem eru á fjárlögum. Nýju bankarnir gætu tekið til sín skuldir sjávarútvegsins og þannig færðist fiskveiðikvótinn óbeint í hendurnar á þjóðinni. Slíkir bankar fengju betra lánshæfismat og þá yrði auðveldara að einkavæða. Fjárhagsleg áhætta ríkissjóðs sem hluthafa og Seðlabanka sem mótaðila á millibankamarkaði minnkar einnig. Erlendir kröfuhafar hefðu meiri áhuga á að eignast slíka banka.

Mig langar að setja spurningu við eitt atriði í þessum texta.  Verði eingöngu bestu eignirnar keyptar hvernig verður það framkvæmt, þar sem fólk er með 100% lán á húsinu sinu, staða þess er í raun komið í 150 - 200%, en það stendur undir 80% láni.  Þýðir það þá að þetta lán verður eftir í gamla bankanum?  Hvað verður um lánin sem verða eftir í gömlu bönkunum?  Verða þau afskrifuð, færð niður eða gengið að lántakendum og veðum?

Jón kemur næst með áhugaverð lausn á fjármögnun bankanna, verðtryggingunni og jöklabréfunum:

Einnig má nota endurskipulagninguna til að létta á verðtryggingu útlána og gjaldeyrishöftum. Í stað hlutafjár frá ríkinu gætu bankarnir fjármagnað ný útlán með útgáfu óverðtryggðra skuldabréfa til þess, og lánað áfram viðskiptavinum sínum. Þannig væru útlán bankanna óverðtryggð. Vegna jöklabréfanna er stór hluti innistæðna í eigu erlendra aðila. Margar ástæður eru fyrir nýju bankana að taka þær ekki yfir (t.d. fylgja þeim vanskilalán og of dýrt er fyrir bankana að greiða háa vexti af þeim, ef þeir geta ekki lánað þær út á betri kjörum). Með því að skilja þær eftir í gömlu bönkunum gætum við fest þær þangað til greiðslustöðvun lyki í lok næsta árs. Þannig mundi þrýstingur á krónuna minnka, eftirspurn eftir ríkisskuldabréfum aukast og skilyrði til vaxtalækkunar myndast.

Og hann heldur áfram:

Samkvæmt þessu yrði stór hluti lána íslenskra fyrirtækja eftir í gömlu bönkunum. Þess vegna þarf eignaumsýslufélag til að endurskipuleggja fjárhag þeirra og styðja við bakið á nýju bönkunum, eins og umsýslufélög í öðrum löndum hafa gert. Fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja er forsenda fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs. Bein niðurfærsla skulda virkar ekki. Þá þyrftum við að búa til of stórt bankakerfi til að hún næði til sem flestra. Einnig tapaðist stærsti hluti eiginfjár bankanna við þetta. Niðurfærslan gæti líka leitt til lögsókna lánardrottna nýju bankanna. Einnig eru vandamál íslenskra fyrirtækja jafnflókin og þau eru mörg og ómarkviss skuldaniðurfærsla gæti aukið útlánatap bankanna síðar meir.

Næst fjallar hann um hlutverk og stöðu ríkissjóðs í þessu öllu.  Þar er mjög skýr greining sett fram:

Efnahagsleg ábyrgð, siðferðisleg skylda

Ríkið hefur ferns konar hagsmuni vegna falls og endurreisnar bankanna: sem stjórnvald, sem hluthafi í nýju bönkunum, sem forgangskröfuhafi í þá gömlu í gegnum Tryggingasjóð innistæðueigenda (að mestu leyti Landsbankann vegna Icesave) og sem venjulegur kröfuhafi (eins og erlendir bankar) í gegnum Seðlabanka (í formi markaðsbréfa o.fl.). Mikilvægt er að ríkið útbúi heildaráætlun út frá þessum hagsmunum og endurreisi bankana án þess að tilfallandi kostnaður setji ríkissjóð í þrot. Bestu mælikvarðar á árangri eru lánshæfismat Íslands og skuldatryggingarálag. Forða verður að Standard & Poor´s (S&P) lækki matið niður í »ófjárfestingarhæfan« (non-investment grade) flokk. S&P segir að hætta sé á lækkun ef kostnaður við endurreisn bankanna verði of mikill. Því miður eru alþjóðlegir lánsfjármarkaðir svartsýnir á horfur hér og skuldatryggingarálag ríkisins svipað þeim sem eru með mun lægra lánshæfismat en við.

Jón endar grein sína með áhugaverðum ábendingum og upplýsingum:

Erlendir kröfuhafar munu bera stóran hluta af afskriftum skulda íslenskra fyrirtækja. Sem fagfjárfestar eiga þeir líka að gera það frekar en íslenskir skattborgarar. Þeir voru oft varaðir við íslensku bönkunum en lánuðu þeim samt á betri kjörum en þeir gátu fengið á skuldatryggingamarkaði. Við berum hins vegar siðferðislega skyldu gagnvart þeim. Við vitum ekki hvort eignum hefur verið skotið undan en við skuldum alþjóðlegum fjárfestum að gera allt til að endurheimta þær og færa þeim. Það er ekki nóg að fá hingað franskan saksóknara fjóra daga í mánuði. Við ættum að fá til liðs við okkur aðila sem eltu uppi eignir Saddams Husseins og Ferdinands Marcos á sínum tíma. Tjón erlendra lánardrottna á falli íslensku bankanna í fyrra er a.m.k. tvöfalt meira en tap lánardrottna Enron árið 2001. Hagsmunir okkar eru einnig miklir: íslenskur iðnaður er fjármagnsfrekur og þarf á erlendu fjármagni að halda. Og þangað til við tökum á þessum hlutum af alvöru verður engin viðspyrna. Þeim sem vilja bera ábyrgð á endurreisninni ber að hafa þetta í huga.

Þessi grein er sem ferskur andblær inn í umræðuna.  Án öfga, án blússandi varnar.  Það verður samt fróðlegt að sjá á næstum dögum hvort Jón reynist sannspár um stofnefnahagsreikning bankanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég bendi sérstaklega á eftirfarandi: "Ekkert land í heiminum hefur jafnmikil tækifæri til að láta aðra kosta endurreisn sína".

Þetta er mjög mikilvægt atriði, því aðrar þjóðir eru að bjarga sínum bönkum með gríðarlegu fjármagni frá skattgreiðendum, en við létum þá fara á hausinn og það er í raun kostur.

Sveinn hinn Ungi (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 18:09

2 Smámynd: Björn Heiðdal

Frá mínum bæjardyrum séð þá snýst þetta um leik að tölum.  Kannski frekar flókið spil með engum leiðarvísir.  Allir að passa upp á sitt og síðan koma misgáfaðir stjórnmálamenn sem reiða sig á erlenda ráðgjafa.  Ráðgjafa sem kannski hafa aðra hagsmuni en íslenska að leiðarljósi. 

Væri ekki nær að einfalda þetta alþjóðlega peningakerfi og miða peningamagn í umferð við raunveruleg verðmæti.  Síðan er ég á því að betra sé að hafa nokkra litla banka en einn stóran.  Það sé vænlegra fyrir okkur til lengri tíma en að Ísland sé allt einn stór vogunarsjóður með 100% ríkisábyrgð.

Björn Heiðdal, 24.4.2009 kl. 21:42

3 identicon

Er þá ekki bara málið að fella niður 80 í stað 20% skuldum einsog sumir vilja gera og henda tapinu í erlenda lánadrottna og vera með örbanka, vel að merkja seldist Landsbankinn á ca 10 miljarða á sínum tíma og hví ættum við að þurfa að vera með 10X stærri banka núna en þá.  Er ekki nokkuð ljóst að einhver af erlendu lánadrottnunum munu véfengja neyðarlögin einhverntímann og þá muni koma í ljós að þau standast ekki skoðun, eða hvað(ég veit ekki bara óttast)

Ragnar (IP-tala skráð) 25.4.2009 kl. 09:46

4 identicon

Er það ekki naivismi að halda að kröfuhafar sætti sig til lengdar að taka á sig þetta gríðarlega mikla tap sem þeir verða fyrir í íslensku bönkunum ?

Hvað ætlum við að gera í staðinn ? Aðeisn að þyggja með því að afskrifa eins mikið og mögulegt er en senda hratið yfir til kröfuhafanna ? Hvaða áhrif hefur það til lengri tíma ?

*Aukið vaxtaálag á bankanna

*Aukið skuldatryggingarálag á ríkissjóð

*Rúið lánstraust á allt sem íslenskt er

o.s.frv.

Við skuldum þessum kröfuhöfum a.m.k. þann heiðarleik að leggja mikla fjármuni í að rannsaka þessi mál. Fá aðstoð erlenda stofnanna sem eru sérhæfðar í að kafa ofan í slík mál. Ég er að tala um alþjóðlega rannsókn, ekki innlenda. Að ráða til sín norsk-franskan ráðgjafa dugar ekki til. Við þurfum mörg hundrum manna rannsóknarteymi. Mér er sama þótt það kosti milljarð eða 10 milljarða. Tap Íslands er hvort er orðið það stórt að eini möguleikinn að við fáum aftur alþjóðlega viðurkenningu er að við stöndum okkar plikt hér.

Sú rannsóknarvinna er eitthvað sem við getum notfært okkur til að öðlast aftur mannorðsmissin sem þjóðin hefur orðið fyrir.

Bjorn Kristinsson (IP-tala skráð) 25.4.2009 kl. 12:32

5 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Nafni minn og Seltirningurinn bregst ekki frekar en í skákinni hér forðum daga.

Jón Baldur Lorange, 25.4.2009 kl. 17:13

6 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Sæll Marínó ...ertu nokkuð með þessa grein til að senda mér.

Vilhjálmur Árnason, 28.4.2009 kl. 01:24

7 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Og svo væri ég til í að fá nánari útskýringu á því hversvegna íslenskur iðnaður er fjármagnsfrekur ?

Bara svo að ég fái betri yfirsýn. Ertu að meina að íslenskur Iðnaður verði að fá erlend lán,, og hann geti ekki notað innlent lánsfé vegnaþess hve dýrt það er ?

Eða ertu að tala um eitthvað annað.

Hafa íslenskir bankar ekki getað séð um að lána íslenskum fyrirtækjum í eðlilegum rekstri. Er það partur af þenslu undangenginna ára.Að fyrirtæki hafa farið eftir erlendu lánsfé ótæpilega, ? Nú er ég að spurja um svið sem ég þekki ekki mjög vel en er að reyna að fá betri innsýn í.

Vilhjálmur Árnason, 28.4.2009 kl. 01:41

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Villi, greinin er að mestu í færslunni og síðan getur þú fundið hana á Silfri-Egils.

Marinó G. Njálsson, 28.4.2009 kl. 08:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 1678126

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 45
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband