Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Af hverju núna en ekki í október?

Það er svo merkilegt með Sjálfstæðisflokkinn, að hann fer ekki að vinna skipulega fyrr en hann missir völdin.  Hér er flokkurinn að setja á fót endurreisnarnefnd, sem mjög gott framtak. Málið er að ég hef það á tilfinningunni að hún eigi frekar að vera pólitískt tæki í kosningabaráttunni til að tryggja flokknum fylgi, en að raunveruleg alvara liggi þarna að baki.

Ásmundur Stefánsson stjórnaði neyðarnefndum  á vegum ríkisstjórnarinnar í vikunum eftir hrun bankanna.  Þar voru starfandi margir góðir hópar sem unnu í mikilli upplýsingaöflun.  Þegar menn ætluðu að koma með einhverjar tillögur, þá var (að sögn heimildarmanns míns) slegið á fingurna og sagt að þetta mætti, þetta væri ómögulegt og þetta væri ekki hægt.  Á þá að taka það alvarlega, að Sjálfstæðisflokkurinn sé tilbúinn að fara að skoða endurreisn atvinnulífsins, þegar búið er að koma flokknum frá völdum.  Hvers konar brandari er þetta?  Í fjóra mánuði meðan Sjálfstæðisflokkurinn hafði tök á að koma einhverju endurreisnarstarfi í framkvæmd, er nánast ekkert gert í þá veru, en daginn sem honum er skipt út af, þá verður hann skyndilega alvitur.  Af hverju fóru þessi 4 mánuðir í súginn?  Er það ekki ljóst að það er betra að hann sitji á hliðarlínunni, þar sem þá þorir hann að koma með hugmyndir?

Málið er að hjá Sjálfstæðisflokknum snýst allt um eigin hag flokksins.  Það snýst um að leiðtoginn geti komið inn á landsfund sem hinn stóri sterki.  Forsætisráðherrann ráðalausi og kraftlausi óx ásmegin og hugmyndaflug daginn sem kærastan sparkaði honum.  Sjávarútvegsráðherrann, sem hafði hafnað hugmyndum um atvinnuhvalveiðar í haust, skreið úr holunni sinni og tilkynnti stórpólitíska ákvörðun daginn eftir að pólitískt vald hans þvarr.

Ég er ekki að kvarta undan því að Sjálfstæðisflokkurinn sé að vakna til lífsins.  Ég hefði bara gjarnan viljað að hann hefði verið svona vakandi síðustu 4 mánuði, en ekki bara síðustu 4 daga.

Nú bíð ég bara spenntur eftir fleiri góðum hlutum frá flokknum, t.d. að hann átti sig á neyð heimilanna, fáránleika peningamálastefnu Seðlabankans, hvernig þjóðin hefur verið kúguð til samninga af AGS og erlendum þjóðum og spillingunni sem hefur verið innan flokksins í tengslum við útrásina og fall bankanna.


mbl.is Vilhjálmur leiðir endurreisnarnefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið dulda atvinnuleysi á Íslandi

Þetta er hátt hlutfall, en það má ekki gleymast að á Íslandi er eiginlega ekkert langtíma atvinnuleysi. Þegar Páll Pétursson var félagsmálaráðherra ákvað hann að færa alla sem höfðu verið atvinnulausir “of lengi” af atvinnuleysisskrá yfir í greiðslukerfi Tryggingastofnunar og á lífeyrissjóðina. Þannig að í staðinn fyrir að hafa t.d. hóp kvenna, sem gátu ekki farið í hvaða störf sem er, atvinnulausar, þá fengu þær alls konar örorkugreiningar sem ekki höfðu verið hafðar í hávegum fram að því. Við þetta fjölgaði gífurlega þeim sem þiggja örorkubætur, en atvinnulausum fækkaði. Þetta er hið dulda atvinnuleysi á Íslandi og er ekkert annað en fölsun á tölum.

Ókosturinn við þetta fyrirkomulag er að örorkugreiðslur eru ákaflega íþyngjandi á marga lífeyrissjóði.  Þetta á sérstaklega við þá sjóði sem tengdir eru stórum kvennastéttum og síðan þá sem eru með sjómenn.  Það er nefnilega staðreynd að þetta eru þeir hópar sem hverfa fyrst af vinnumarkaði.  Þar sem langtímaatvinnuleysi er ekki viðurkennt á Íslandi, þá hefur fólk ekki um annað að velja, en að fara á örorkubætur. Eins og áður segir, greiða lífeyrissjóðirnir háar upphæðir í örorkubætur til sjóðfélaga sinna. Hefur þessi mikla fjölgun þeirra sem þiggja örorkugreiðslur m.a. leitt til þess að hækka hefur þurft iðgjald (þ.e. mótframlag launagreiðenda) til sjóðanna.

Spurningin er hvort sé betra að greiða hærra iðgjald til lífeyrissjóðanna og safna fólki á örorkubætur eða hækka greiðsluna í atvinnuleysistryggingasjóð og greiða fólki atvinnuleysisbætur. Munurinn gagnvart þeim sem þiggur greiðsluna, er að ef hann er öryrki, þá þarf hann ekki að vera virkur í atvinnuleit og nýtur alls konar réttinda/afslátta sem honum býðst annars ekki.

Þessu á núna að snúa við með tvennu móti. Fyrst á að hverfa frá örorkumati og taka upp starfsorkumat og gera þannig stórum hluta fólks kleift að vera í hlutastarfi án þess að missa allan rétt til örorkubóta. Hitt er að stofnaður hefur verið Starfsendurhæfingarsjóður sem á að aðstoða fólk við að efla starfsorku sína í kjölfar slysa eða veikinda, þannig að viðkomandi fer aftur út á vinnumarkaðinn í staðinn fyrir að fara á örorkubætur. Starfsendurhæfingarsjóður tók til starfa núna um áramótin og eru nokkur forverkefni komin í gang. Ég þekki þar aðeins til og verð að segja að þar er í gangi mjög metnaðarfull starfsemi undir stjórn Vigdísar Jónsdóttur hagfræðings.


mbl.is 15 þúsund manns metnir 75% öryrkjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðsynlegt að færa niður verðmæti/höfuðstól veðlána

Ég tel nauðsynlegt að við þetta mat verði höfuðstóll veðlána heimilanna hjá bönkunum færður niður í þá tölu sem þau stóðu í 1. janúar 2008 og síðan afborganir síðustu 12 mánaða dregnar frá.  Það er út í hött að gera ráð fyrir að þessi veðlán innheimtist í samræmi við stöðu höfuðstóls á síðustu 4 mánuðum.  Verði miðað við núverandi stöðu lánanna, þá er búið að byggja verulegt fyrirséð tap inn í stofnefnahagsreikning bankanna.  Mun skynsamlegra er að tapið verði eftir í gömlu bönkunum eða það verði afskrifað strax.
mbl.is Mat á eignum og skuldum bankanna miðar vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða óstöðugleiki er á gjaldeyrismarkaði?

Ég verð að viðurkenna, að ég skil ekki þessa yfirlýsingu Marks Flanagans.  Hvaða óstöðugleiki er á gjaldeyrismarkaði?  Það eru gjaldeyrishöft, þannig að enginn má fara út með pening nema að hann hafi leyfi til þess.  Varla telst það "óstöðugleiki".  Þeir sem fá greitt fyrir útflutning verða að koma með gjaldeyrinn inn í landið.  Varla telst það "óstöðugleiki".  Krónan hefur verið að styrkjast verulega undanfarna daga, sem var markmiðið með háum stýrivöxtum, svo varla telst það "óstöðugleiki".

Hver er þá þessi óstöðugleiki?  Er ekki bara málið, að það á að tryggja fjármagnseigendum ennþá stærri hlut að útgjöldum ríkissjóðs!

Ef blessaður maðurinn hefði talað um pólitískan óstöðugleika, þá hefði ég skilið rökin.  Eins ef hann hefði talið mikilvægt að kreista líftóruna úr fyrirtækjum og heimilum í landinu, þá hefði ég skilið að það þyrfti að halda stýrivöxtum háum.

Ég skora á bankastjórn Seðlabankans um að lækka stýrivextina strax niður í 15% og hunsa þannig vanhugsaða tillögu IMF um þetta mál.  Hver hagfræðingurinn á fætur öðrum er að gagnrýna hávaxtastefnu IMF og nú síðast steig Joseph Stiglitz, fyrrverandi aðstoðarbankastjóri og yfirhagfræðingur Alþjóðabankans, fram og segir IMF vera að endurtaka fyrri mistök


mbl.is IMF: Munu ræða mögulega vaxtalækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðbólgumæling gefur tilefni til bjartsýni og lækkunar stýrivaxta

Hægt er að segja margt um þessa verðbólgumælingu og þó furðulegt sé flest jákvætt. 0,57% hækkun vísitölu neysluverð verður að teljast mjög temmilegt miðað við allar hækkanir ríkisstjórnarinnar á síðustu vikum síðasta árs og svo þær hækkanir sem urðu um mánaðarmótin.  Ekki má heldur líta framhjá hækkun á eldsneyti.  Ef ekki væri fyrir útsölurnar, þá hefði mælingin orðið hærri.

Eitt atriði kemur til lækkunar á verðbólgumælingunni, en það er að í síðustu 12 mælingum á undan þessari, þá var í reynd verið að mæla 54 vikna verðbólgu, en frá og með þessari nær mælingin yfir 52 vikur.  Ástæðan er að mælingartímabili var breytt í byrjun síðasta árs og í staðinn fyrir að mæla verð á einum degi í upphafi mánaðar, þá hefur frá janúar 2008 verið stuðst við mælingu á nokkurra daga bili um miðjan mánuð.

En aftur að því jákvæða.  0,57% hækkun vísitölu neysluverðs milli mánaða þýðir að verðbólguhraðinn (þ.e. vísitöluhækkun milli mánaða yfirfærð á 12 mánuði) lækkar úr 18,25% í 6,84%.  Jafnframt fer 3 mánaðaverðbólga (þ.e. verðbólga síðustu þriggja mánaða yfirfærð á 12 mánuði) úr 22,07% niður í 15,5%.  Fyrri talan segir að slegið hefur verulega á verðbólguna á milli mánaða og að verðbætur sem bætast á lán 1. mars verða ekki eins svakalegar og þær hafa verið undanfarna mánuði.  (Verðbæturnar sem bætast á 1. febrúar taka aftur mið af 1,52% hækkun vísitölu neysluverðs sem varð milli nóvember og desember.)  Þriggja mánaða verðbólgan gefur í mínum huga vísbendingu um að Seðlabankinn hafi núna svigrúm til að lækka stýrivexti.  Vissulega er 12 mánaða verðbólgan ennþá há, en eins og ég hef margoft bent á hér, þá er hún fortíðarmæling.  Seðlabankinn hefur ítrekað sagt í rökstuðningi sínum fyrir háum stýrivöxtum, að verði sé að bregðast við undirliggjandi verðbólguþrýstingi.  Nú er þessu öfugt farið.  Undirliggjandi þrýstingur er horfinn og framundan er tími hóflegrar verðbólgu.  Af þeirri ástæðu, þarf ekki að halda vöxtum háum.

Að lokum get ég ekki staðist þá freistingu að vitna í forsætisráðherra, Geir H. Haarde.  Þegar verðbólgutölur vegna desember voru birtar, þá tók Ísland í dag viðtal við blessaðan manninn.  Í því viðtali segir Geir, að hann telji verðbólguna sem þá mældist, þ.e. 18,1%, vera toppinn.  Ég andmælti þessu í athugasemd við færslu hér (sjá Það er vont en það venst) og taldi það útilokað, þar sem verðbólgumælingin í janúar í fyrra hafi verið svo lág (0,2%) og útilokað væri að hækkun vísitölu milli mánaða núna gæti orðið það lítil.  En núna held ég að mér sé óhætt að fullyrða, að komi ekki til óvæntrar kollsteypu, þá er toppinum náð.  Erfiðasta 12 mánaðatímabili í verðbólgusögu Íslands síðan 1990 er því að baki. 

Ef við horfum til 3 mánaða verðbólgu, þá bendir margt til þess, að lækkun hennar verður mjög mikil á næstu mánuðum.  Sjálfur geri ég ráð fyrir að 3 mánaðaverðbólga í febrúar verði komin ofan í um 11%, tæp 6% í mars, undir 5% í apríl og verði síðan í um 3% strax í maí. Þar sem ég tel að Seðlabankinn eigi að nota 3 mánaða verðbólgu sem grunn við ákvörðun stýrivaxta, þá held ég því fram að hægt eigi að vera að lækka stýrivextina mjög skarpt á næstu mánuðum og þeir eigi að geta verið komnir niður í 6% í apríl/maí.


mbl.is Verðbólgan 18,6%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vernda hagsmuni heimilanna

Það er gott að sjá að Samfylkingin er með aðgerðaáætlun til að vernda hagsmuni heimilanna.  Nú er bara að fá nægan liðstyrk til að hrinda þessu í framkvæmd ekki seinna en strax. 

Staða heimilanna og fyrirtækjanna er orðin erfið. Aðgerðir síðustu rúmlega 100 daga hafa því miður litlu skilað og nú er tími til kominn að við sjáum raunverulegar aðgerðir.


mbl.is Samfylkingin setti tíu skilyrði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Notaðu starfsþrekið til að verja heimilin

Það er fagnaðarefni að Geir H. Haarde telur sig hafa fullt starfsþrek og ég vona að hann haldi því þrátt fyrir þessu alvarlegu veikindi.  Óska ég honum alls hins besta.

Ég vil eindregið hvetja hann til að finna það atriði á verkefnalista ríkisstjórnarinnar sem heitir "verjum heimilin í landinu".  Ég efast ekkert um að slíkt atriði er á listanum.  Ástæðan er einföld.  Sem stjórnarmanni í Hagsmunasamtökum heimilanna berast mér til eyrna alls konar sögur frá fólki sem segir farir sínar ekki sléttar í viðskiptum sínum við ríkisbankana.  Harkan hjá þeim er slík við innheimtu, að 1 milljón króna skuld á síðari veðrétti er vísað í nauðungaruppboð án nokkurra möguleika á samningum.  Hvað er í gangi?  Eru ríkisbankarnir ekki búnir að fá skýr tilmæli frá ríkisstjórninni að sýna fólki biðlund?

Ein aðalkrafa Hagsmunasamtaka heimilanna er að aðförum að heimilunum sé hætt.  Að sett sé tímabundið bann með lögum við nauðungaruppboðum á íbúðarhúsnæði fjölskyldna í landinu.  Það er ekki að ástæðulausu, sem þessi krafa er sett fram.  Tilmæli eru ekki nóg.

Ég hef fullan skilning á þörf ríkisbankanna til að innheimta skuldir, en mér finnst að þeir eigi að hafa í huga, að það voru þeirra gjörðir sem komu þjóðinni í þá stöðu sem hún er í.  Það er þjóðin sem er að borga fyrir misgjörðir þeirra og þjóðin á það inni hjá bönkunum að þeir haldi að sér höndum með innheimtuaðgerðir.  Þjóðin á það líka inni að bankarnir létti undir með fólkinu og fyrirtækjunum.

Ég vil hvetja alla sem hafa sögur um óbilgirni ríkisbankanna eða harkalegar innheimtuaðgerðir, sérstaklega út af léttvægu vanskilum, að senda þær til Hagsmunasamtaka heimilanna á póstfangið heimilin@heimilin.is.


mbl.is Geir með fullt starfsþrek
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Oft var þörf en nú er nauðsyn

Báðir formenn stjórnarflokkanna eru hættulega veikir.  Geir og Ingibjörg eru ekki í neinu standi til að leiða það endurreisnarstarf sem er í gangi.  Eina lausnin á þessu er, að hér verði stofnuð einhvers konar neyðarstjórn.  Hún getur verið þjóðstjórn, utanþingsstjórn eða sambland af þessu tvennu.

Veikindi Ingibjargar og Geirs gera ekkert annað en að styðja við þá kröfu að ríkisstjórnin fari frá.  Ég skil ekki eftir hverju er verið að bíða.  Veikindi þeirra beggja eru lífshættuleg, þó æxlið hjá Ingibjörgu séu ekki illkynja.  Í morgun fékk ég póst frá lækni sem sagði:

Það undrar mig að einhver með sjúkdóm sem Ingibjörg, sé ekki búinn að segja af sér. Það þarf fulla dómgreind til að stjórna og kannski þarf dómgreind til að vita að sjúkdómurinn sem hún hefur getur truflað dómgreind. 

Nú hafa veikindi Geirs bæst við.  Með fullri virðingu fyrir þeim tveimur, þá eru það hagsmunir þjóðarinnar, að þau víki sætum.  Hér er ekki pláss fyrir pólitískan menntað eða misskilda ættjarðarást.  Ég geri mér fulla grein fyrir því að þau telja sig færa um að takast á við verkið, en þau eru það ekki.  Það er ábyrgðarhlutur að þau haldi áfram.  Ég sætti mig ekki við það, að þau setji sig á þann stall, að þau séu ómissandi.  Þau eru það ekki.  Raunar það er þeim báðum fyrir bestu að víkja sætum hleypa nýju fólki að.

Ég er raunar þeirrar skoðunar, eins og ég hef marg oft lýst yfir, að fara þurfi í gagngera endurskoðun á stjórnskipulagi lýðveldisins.  Svo ég ítreki enn einu sinni, það sem ég hef skrifað hér, þá eru tillögur mínar í stórum dráttum eftirfarandi:

  1. Við taka ný ríkisstjórn, nokkurs konar þjóðstjórn/neyðarstjórn. Háskóla rektor verði falið að velja einstaklinga úr samfélaginu til að gegna störfum ráðherra.  Engar hömlur verði settar á það hvaða starfi viðkomandi gegnir í dag.  Hlutverk þessarar ríkisstjórnar verði að taka yfir endurreisn hagkerfisins með öllum tiltækum ráðum, auk þess að sinna öllum hefðbundnum verkum ríkisstjórnar.
  2. Sett verði á fót stjórnlagaþing og kosið til þess.  Hlutverk stjórnlagaþingsins verði að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá og nýja stjórnskipan.
  3. Alþingi verði áfram starfandi og heldur sínu striki, en jafnframt verði boðað til þingkosninga sem fari fram í vor. Tilgangur hins nýja þings verði fyrst og fremst að fara yfir lagasafnið, áhættugreina það, kostnaðargreina, finna veilur í því og leggja fram frumvörp til breytingar með það að markmiði að gera lagaumhverfið manneskjulegra og koma á siðbót í íslensku samfélagi. Hlutverk þess verði jafnframt að breyta lögum í samræmi við niðurstöður stjórnlagaþingsins, en ljóst er að margar breytingar þarf að gera.  Sérstaklega á að skoða innleiðingu á lögum og reglum sem tengjast EES samningnum. Þetta þing sitji í takmarkaðan tíma 12-18 mánuði.
  4. Haustið 2010 verði boðað aftur til kosninga í samræmi við nýja stjórnskipan. Neyðarstjórnin sitji fram að þessum seinni kosningum, en eftir þær verði mynduð ríkisstjórn í samræmi við nýja stjórnskipan.
  5. Inni í nýrri stjórnskipan verði algjör aðskilnaður löggjafarvalds og framkvæmdarvalds.
  6. Stofnuð verði ný fastanefnd innan þingsins, laganefnd, sem hafi það hlutverk að framkvæma (með hjálp færustu sérfræðinga) áhættu- og kostnaðarmat á öllum frumvörpum sem lögð eru fyrir Alþingi.  Jafnframt sjái hún til þess, að slíkt mat sé framkvæmt á núgildandi lögum og reglum.  Einnig verði það hlutverk nefndarinnar að tryggja, að hjá Alþingi verði til skilningur á frumvörpum áður en þau eru lögð fram, kynna þau fyrir þjóðinni með því að birta þau, t.d. á opnu umræðusvæði á vefnum, og óska eftir ábendingum um það sem betur mætti fara.

 


mbl.is Ingibjörg Sólrún komin heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagsmunasamtök heimilanna

Merki samtakanna

 

Ég vil minna fólk á að skrá sig í Hagsmunasamtök heimilanna.  Við erum þegar farin að ná athygli ráðamanna og þeir vilja tala við okkur.  Næstkomandi laugardag, 24. janúar, milli kl. 11 og 13 verður opinn vinnufundur í Borgartúni 3.  Á fundinum verður rætt um verðtryggð lán, gjaldeyrislán (myntkörfu) og lagabreytingar.  Allir eru velkomnir.

Hjálpið okkur að standa vörð um heimilin sem grunnstoð samfélagsins.  Sendið okkur erindi og uppástungur á heimilin@heimilin.is.  Takið þátt í að móta kröfur til stjórnvalda og tillögur um það hvernig bæta má hag heimilanna og koma þeim út úr þeim ógöngum sem mikil verðbólga, háir stýrivextir og hrun krónunnar hafa orsakað.  Allt of mörg heimili líða fyrir þetta, þó sem betur fer það eigi ekki við öll heimilin í landinu.


Af hverju er svæðið ekki girt af?

Svo virðist sem óeirðir síðustu tvö kvöld hafi af stofni til verið haldið uppi af ungmennum undir lögaldri.  (Ég kalla þetta "óeirðir" vegna þess að ég geri greinarmun á mómælunum og því að kveikja elda og kasta grjóti í lögreglu.)  Þessi ungmenni hafa af mikilli vanhugsun ráðist með offorsi að lögreglumönnum og verið að egna þá til viðbragða.  Og viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Piparúði, kylfur og táragas hefur allt verið notað til að hemja "skrílinn".  En ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvort ekki séu önnur vægari úrræði.

Ég vil leggja það til, að lögreglan girði af annars vegar svæðin í kringum Alþingishúsið og hins vegar Stjórnarráðið.  Eftir það ætti að vera mun auðveldara að hafa stjórn á mótmælendum og ætti alveg að vera hægt að forðast átök við nátthrafnana.

Bara svona hugmynd til að koma í veg fyrir að þetta endi með ósköpum.


mbl.is Börn að atast í lögreglumönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband