Bloggfærslur mánaðarins, október 2008
31.10.2008 | 23:38
Forvitnilegt viðtal, þegar horft er í baksýnisspegilinn
Í írafárinu sem varð við þjóðnýtingu Glitnis, þá yfirsást mér viðtal Björgvins Guðmundssonar, blaðamanns Morgunblaðsins, við Þorvarð Tjörva Ólafsson, hagfræðing á hagfræðisviði Seðlabanka Íslands, en viðtalið birtist mánudaginn 29. september. Ég rakst á það áðan og held að það sé öllum holl lesning, þar sem í því viðurkennir Tjörvi raunar að seðlabankar og fjármálaeftirlit hafi gert röð af mistökum, sem leiddu til þeirrar fjármálakreppu sem núna ríður yfir. Sérstaklega þykir mér vænt að sjá að hann hnýtir í Basel regluverkið, en ég hef einmitt gagnrýnt það, og að menn hafi gleymt að hafa eftirlit með "hinu" bankakerfinu.
Annað í þessu viðtali, sem birt er að morgni örlagaríkasta dags í hagsögu landsins, er eftirfarandi:
Almennt séð eru því hlutverk seðlabanka óbreytt frá því fyrir kreppuna. Umhverfið er hins vegar allt annað og áskoranirnar meiri. Sjálfsumgleði sumra seðlabankamanna hefur beðið skipbrot. Blómaskeiði síðustu ára er lokið og seðlabankar þurfa að taka á honum stóra sínum, læra af kreppunni sem nú skekur heimsbúskapinn og treysta innviði fjármálakerfisins til að komast í gegnum þessa kreppu en um leið draga úr líkum á frekari kreppum í framtíðinni.
Daginn sem þetta er sagt hrynur íslenska hagkerfið vegna "sjálfumgleði sumra seðlabankamanna".
Viðtalið er öllum holl lesning, ekki síst stjórnmálamönnum. Það sem Seðlabankinn gæti líklegast lært af því, er að heimurinn hefur ekki tíma til að bíða eftir því að fræðilegri umræðu ljúki. Menn þurfa að grípa strax inn í um leið og brestir birtast til að koma í veg fyrir að allt springi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
31.10.2008 | 18:52
Mikilvægt að varðveita þessar minjar
Ég vil hvetja Alþingi og ríkisstjórn til að vernda þessar minjar eins vel og kostur er. Þarna eru greinilega ómetanlegar miinjar um það sem gerðist "fyrir landnám", þar sem svo virðist sem þessar minjar séu eldri en landnámsskálinn. Ég hef heyrt að Alþingi muni fórna bílakjallara sem átti að vera þarna og einnig eigi að tengja saman svæðið á Alþingisreitnum og landnámssýninguna. Annars verðu forvitnilegt að fá nákvæma aldursgreiningu frá svæðinu og kannski breytast ártöl Íslandssögunnar eitthvað.
Ég hef líka heyrt, að mjög líklega sé að finna frekari menjar á svæði við Suðurgötu og á horni Suðurgötu og Túngötu. Nú er lag að leggja fjármagn í frekari rannsóknir og gera svæðið að okkar Akrópólis. Það gæti vissulega haft mikil áhrif á umferð á svæðinu, en það er þess virði.
Fótspor Ingólfs við Alþingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
31.10.2008 | 01:14
Vogunarsjóðurinn Ísland og aðrir sjóðir - 100% öryggi er ekki til
Menn keppast hver við annan þveran að gagnrýna alla sem hægt er fyrir vafasamar fjárfestingar, svindl með peningasjóði, svindl með bótasjóði, áhættusækni og skort á framsýni. Ég hef svo sem ekki gert neina fræðilega úttekt á bótasjóðum, fjárfestingum lífeyrissjóða, fjárfestingum peningasjóða eða hvað það nú er annað sem virðist hafa mistekist á undanförnum mánuðum og árum. Í einhverjum tilfellum hafa orðið alvarleg mistök, í öðrum er um afleiðingu þess hruns sem enginn gerði ráð fyrir og í enn öðrum (ef marka má "orðið á götunni", samt ekki það á eyjan.is) þá hafa menn verið að misnota sjóðina til að útvega bönkunum og vildarviðskiptavinum þeirra fjármagn. Ég ætla hvorki að fjalla um mistök eða svik, en ég vona að hvort um sig séu sjaldgæfar undantekningar og enginn sjóðsstjóri hafi látið misnota sig á þann hátt.
Mér vitanlega þá gilda strangar reglur um fjárfestingar bótasjóða og peningasjóða. Ég hef fulla trú á því að menn hafi a.m.k. framan af verið að vanda sig virkilega vel. Þar sem ég þekkti til bótasjóðs hjá einu tryggingarfélagi, þá hélt þar algjör snillingur utan um sjóðinn. Þetta var maður sem tókst að gera gull úr öllu. Ég hef því enga trú á öðru, sjái þessi einstaklingur enn um stjórn sjóðsins, en að þar sé fylgt ströngum faglegum reglum. Málið er að landslag fjárfestinga hefur breyst gjörsamlega síðustu 10 mánuði eða svo. Fjárfestingar, sem taldar voru gulltryggðar um síðustu áramót eru ónýtar í dag. Af hverju ættu bótasjóðir og peningasjóðir ekki að hafa tapað eins og UBS bankinn í Sviss, Royal Bank of Scotland eða Lehman Brothers?
Ég skil alveg að fólk sé reitt, en 100 ára stormurinn gekk yfir hagkerfi heimsins og fæstir voru með flóðavarnir til að verjast hamfarabylgjunni sem fylgdi. Fólk verður að átta sig á því að allar fjárfestingar, sama hvaða nafni þær nefnast, eru áhættusamar? Og ekki bara fjárfestingar. Það að lifa á Íslandi er áhættusamt fjárhagslega vegna óstöðugs efnahagsástands. Getur einhver hérna nefnt mér eina einustu ríkisstjórn þessa lýðveldis sem hefur tekið af ábyrgð á ríkisfjármálum, haldið gengi í jafnvægi, verðbólgunni í skefjum, atvinnustigi háu og hagvexti jöfnum, stöðugum og skynsömum. Það er alltaf verið að tala um að bankarnir og Seðlabanki hafi gert Ísland að einum stórum vogunarsjóði. Ja, hér eru fréttir: Ísland hefur alla tíð verið einn stór vogunarsjóður og það löngu áður en vogunarsjóðirnir urðu til. Að búa í landi, þar sem maður getur aldrei treyst á að verðbólgu verði haldið í skefjum, að krónan haldist stöðug eða vaxtastig sé viðunandi er ekkert annað en óvissureið á borð við vogunarsjóð.
En aftur að sjóðunum. Peningasjóðir eiga að vera alveg gulltryggðir. Ég man þegar ég lagði pening í slíka sjóði fyrir 10 árum eða svo (peningamarkaðsbréf hjá Landsbréfum), þá var markmiðið að vera með óbundna reikninga, sem gáfu betri ávöxtun en almennar bankabækur og voru traustir. Ég gat vegna þeirrar upphæðar sem ég var með (2 - 3 milljónir) líka fengið að kaupa víxla. Peningamarkaðsbréfin gáfu 5 - 8% ársávöxtun, en víxlarnir allt að 15%. Munurinn var að peningamarkaðsbréfin voru laus með dags fyrirvara, en víxlarnir voru bundnir í 30, 60 eða 90 daga. Við skulum alveg hafa eitt á hreinu. Áhættan af víxlunum var margfalt meiri en af peningamarkaðsbréfunum. Það var m.a. þess vegna sem ég fékk meiri ávöxtun af þeim. Ég veit ekki hvað þjónustufulltrúar bankanna sögðu við fólk, þegar það féllst á að flytja innistæður sínar af almennum reikningum (eða þess vegna verðtryggðum) yfir í peningasjóði. Eitt hefði þó átt að fylgja: Hærri vextir bera meiri áhættu. Þetta er einfaldasta regla áhættustýringar. Hafi einhverjum dottið í hug að 5% hærri ávöxtun yki á engan hátt áhættuna, þá lifði sá hinn sami í blekkingu.
Þetta er eins og keyra bíl. Gefum okkur að maður þurfi að komast á milli Reykjavíkur og Akureyrar fyrir ákveðinn tíma, segjum kl 18.00. Við getum í grófum dráttum farið 2 leiðir að þessu. 1. Lagt tímanlega af stað og ekið á 70 - 90 km/klst. allan tímann (eða þess vegna hægar) og komið tímanlega, segjum milli 5 og 6. Ef eitthvað fer úrskeiðis, svo sem bilun, dekk springur eða við verðum bensínlaus, þá er tæpt að við náum á tilsettum tíma. Lítil hætta er á slysum, þar sem við ökum tiltölulega rólega, og bensíneyðsla er hófleg. Ef við lendum í slysi, þá verður tjón og meiðsl lítil. 2. Lagt af stað eftir hádegi og allt gefið í botn. Ekkert svigrúm fyrir áföll, slysahætta eykst og einnig bensíneyðslan. Ef við lendum í slysi er tjón mikið og löng sjúkrahúslega framunda, ef ekki bara banaslys.
Ef við segjum að hraðinn sé ávöxtunin, aksturstíminn sé tíminn sem það tekur okkur að ná ákveðinni ávöxtun og slysahættan og bensíneyðslan lýsi áhættunni okkar, þá sjáum við að aukinn hraði á peningamyndun eykur áhættu. Það er alveg sama hvað einhver þjónustufulltrúi segir, peningasjóðir eru ekki tryggðir í bak og fyrir. Þeir standa af sér flesta storma, en aldrei hamfaraveður, 100 ára storma. Það getur orðið banaslys. Spurningin er: Áttu þjónustufulltrúarnir að vara við 100 ára stormi eftir að Glitnir var þjóðnýttur? Átti að vara viðskiptavini strax við að í peningasjóðunum fælist meiri áhætta en í innlánsreikningunum? Svo getum við spurt þá sem lögðu inn á Icesave hvort hafi verið öruggara, að leggja inn á Icesave í Englandi eða eiga inni í peningasjóði á Íslandi.
Sagan segir okkur (þ.e. fram til 6. október 2008) að peningasjóðir hafi verið gulltryggð ávöxtunarleið. Tölfræði síðustu mánuði og ár segir okkur það. Alveg eins og tölfræði síðustu ára sagði stórum bönkum úti í heimi að áhættan af undirmálslánunum var ásættanleg. Fyrst að stóru aðilarnir með alla sína sérfræðiþekkingu klikkuðu, af hverju áttu einhverjir eyjaskeggir í norðri að vita betur?
Ég tek það fram að ég átti ekkert inni í peningasjóðum, en það er af þeirri einföldu ástæðu að allt mitt eigið fé er bundið í steinsteypu og meiri steinsteypu en ég kæri mig um, þar sem ég get ekki selt núverandi húsnæði og næ ekki að gera íbúðarhæft húsið sem ég er að byggja. Þannig hefur eigið fé mitt brunnið hratt upp síðustu mánuði, en næstu 8 ár á undan hafði það líka byggst upp með ævintýralegum hætti. Hver er nettó hagnaður minn af þeim peningi sem ég átti 1999 og fór í steinsteypu það ár? Líklega fimmföldun, ef ekki meira. Fer eftir genginu. Hvað á það við um marga aðra? Alveg örugglega fjölmarga.
Líklegt er að fjöldi fólks fari illa út úr peningasjóðum bankanna, en hve margt af þeim var áður búið að græða helling á því að veðja á vogunarsjóðinn Ísland? Ég geri mér grein fyrir að margir fara með neikvæðan höfuðstól út úr falli bankanna og stefna í gjaldþrot vegna þess. Þeim þarf að hjálpa. En hve margir eru í plús miðað við stöðuna 2002, hafa lifað góðu lífi undanfarin ár vegna betri tekna, en þurfa núna að draga saman seglin án þess að þrot blasi við? Áttu nokkur hundruð þúsund í upphafi og eiga nokkrar milljónir núna eftir að hafa fengið 65% út úr peningasjóðum. Keyptu kannski fyrir kr. 200.000 í Búnaðabankanum á genginu kr. 1,69 og seldu svo hluta á genginu 450 þegar bankinn hét KB banki eða 1150 á síðasta ári.
Þetta fólk kvartaði ekki þegar áræðnin skilaði sér í hagnaði, en það verður að skilja að til að auka möguleika á miklum hagnaði, þá eykur maður um leið líkurnar á miklu tapi. Þetta er grundvallarregla áhættustjórnunar. Og önnur grundvallarregla: 100% öryggi er ekki til. Við getum nálgast það út í það óendanlega, en við munum aldrei ná því. Spurningin er að finna jafnvægið á milli vænts taps, þ.e. ásættanlegrar áhættu, og kostnaðarins við að auka öryggið frekar. Hvenær er öryggið orðið nógu mikið til þess að það borgar sig ekki að auka það.
Við höfum fjórar leiðir til að fást við áhættu: 1. Grípa til ráðstafana til að draga úr henni eða eyða alveg. 2. Sætta okkur við hana. 3. Forðast hana með breyttum aðferðum/atferli. 4. Færa hana til annars aðila (sbr. tryggingar). Áhættan af vogunarsjóðinum Íslandi er hægt að meðhöndla eftir öllum þessum leiðum, en ef hún er óbærileg, þá getum við forðast hana með því að flytja úr landi. Við þurfum bara að muna, að önnur áhætta kemur í staðinn. Áhættuna varðandi peningasjóðina var best að meðhöndla með því að forðast þá eða dreifa á fleiri en einn sjóð. Raunar er málið þannig, að enginn ráðgjafi hefði átt að ráðleggja viðskiptavini sínum að setja alla peninga sína á einn stað. Hafi það verið gert, þá er nauðsynlegt að breyta þessu í verklagsreglum bankanna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
30.10.2008 | 14:38
Betra lýðræði í Austur-Evrópu en á Íslandi
Það er í raun stórfurðulegt að fylgjast með öllu þessu máli í kringum lánið frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Hér á landi er um pukur að ræða, þar sem enginn fær að vita neitt. Á sama tíma eru Úkraína og Ungverjaland einnig að taka svona lán. Þar fer umræðan um lánið fram fyrir opnum tjöldum og lögð er áhersla á að þing landanna samþykki lántökuna. Forsætisráðherra Ungverjalands neitaði t.d. að taka lánið, nema breið samstaða allra flokka á ungverska þinginu næðist um málið. Allir flokkar urðu að samþykja lántökuna, ekki bara sumir. Allir fá að vita um hvað málið snýst, ekki bara sumir. Sama er uppi á teningunum í Úkraínu.
Við stærum okkur af því að eiga elsta löggjafaþing í heiminum. Við stærum okkur af því að vera vestrænt lýðræðisríki með ríka lýðræðishefð. Við teljum okkur vera þess megn að gagnrýna önnur ríki vegna stjórnarhátta þeirra. En ríkisstjórn Íslands, sem starfar í umboði Alþingis og þjóðarinnar, telur hvorki ástæðu til að upplýsa Alþingi eða almenning um hvað var samið við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Hún telur ekki ástæðu til að upplýsa Alþingi eða almenning um hver staða efnahagsmála er og hvaða úrræði hún telur sig hafa í stöðunni.
Það er stórmerkilegt, að ríkisstjórn Ísland skuli telja Íslandi best stjórnað með einræðislegum tilburðum, meðan gömlu kommúnista einræðisríkin í Austur-Evrópu leggja allt upp úr því að treysta þingræði og þar með lýðræði sinna landa.
Síðan má spyrja sig, hvort öðru vísi væri fyrir okkur komið, ef ríkisstjórnin hefði orðið við ábendingum ríkisstjórna Bretlands og Bandaríkjanna og seðlabanka Bretlands, Bandaríkjanna og Evrópu í sumar um að vandamál íslenska hagkerfisins væri svo alvarlegt að aðkoma Alþjóða gjaldeyrissjóðsins væri nauðsynlegt. Vinur er nefnilega sá sem til vamms segir. Mér sýnist sem Ungverjar og Úkraínumenn hafi ákveðið að læra af mistökum Íslendinga með því að leita til IMF áður en hagkerfið og/eða bankakerfið komast í þrot.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
29.10.2008 | 13:39
Námskeið hjá Staðlaráði Íslands: Stjórnun upplýsingaöryggis samkvæmt ISO 27001 og ISO 27002 - Lykilatriði og notkun
Þar sem persónuvernd og upplýsingaöryggi eru mínar ær og kýr, þá langar mig að vekja athygli á því að Staðlaráð Íslands heldur reglulega námskeið um þá tvo staðla sem fjalla um þessi mál. Þetta eru staðlarnir ÍST ISO/IEC 27001 Upplýsingatækni - Stjórnkerfi upplýsingaöryggis - Kröfur og ÍST ISO/IEC 27002 Upplýsingatækni - Starfsvenjur fyrir stjórnun upplýsingaöryggis. Næsta námskeið verður haldið 20. nóvember nk. og má skrá sig með því að hafa samband við Staðlaráð í síma 520-7150.
Það er tvær ástæður fyrir því að ég vil vekja athygli á þessu. Önnur er mjög sjálfhverf, en þannig vill til að ég er leiðbeinandi á þessum námskeiðum. Hin er, að mínu viti hafa mjög margir mjög gott af því að kynna sér efni þessara staðla vegna starfa sinna. Ástæðan er einföld. Nær allir rekstraraðilar, hvort sem er á hinum svo kallaða almenna markaðir eða hinum opinbera vinna með mikið magn af viðkvæmum upplýsingum. Hluti af þessum upplýsingum er á rafrænu formi, en mjög mikið magn er ennþá á pappír að ógleymdum þeim upplýsingum sem fólk býr yfir. Hafi menn ekki leitt hugann að því hvernig er best að verja þessar upplýsingar fyrir tjóni og óleyfilegum aðgangi, þá eru mestar líkur á því að menn séu ekki búnir undir áföll eða uppákomur.
Stjórnun upplýsingaöryggis snýst í stórum dráttum um að tryggja þrennt: leynd/trúnað, réttleika/nákvæmni og tiltækileika/aðgengi. Leynd eða trúnaður snýst um að þeir einir eigi að hafa aðgang að upplýsingum sem til þess hafa heimild. Réttleiki/nákvæmni snýst um að upplýsingum sé haldið réttum í gegnum vinnsluferlið og á vörslutíma. En tiltækileiki/aðgengi snýst um að þeir sem hafa til þess heimild hafi aðgang að upplýsingunum þegar þeir þess þurfa. Það má því segja að stjórnun upplýsingaöryggis snúist um að þeir, sem til þess hafa heimild, eigi að hafa aðgang að réttum og nákvæmum upplýsingum þegar þeir þurfa á því að halda.
Þetta eru skýr og skilmerkileg markmið. Staðlarnir ISO 27001 og ISO 27002 eiga einmitt að aðstoða ábyrgðaraðila upplýsinganna að ná þessum markmiðum. Þeir þykja báðir mjög góðir til síns brúks, þó svo að þeir séu ekki alfullkomnir. Þeir þykja a.m.k. það góðir að Persónuvernd, Fjármálaeftirlit og Póst- og fjarskiptastofnun vísa öll til staðlanna sem tækja eða tóla sem hægt er að nota til uppfylla kröfur um upplýsingaöryggi, persónuvernd og öryggi fjarskipta. Það hlýtur því að vera full ástæða fyrir aðila sem þurfa að uppfylla persónuverndarlög og reglur, leiðbeinandi tilmæli FME og ákvæði um öryggi í fjarskiptum að kynna sér efni þeirra nánar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.10.2008 | 09:27
Furðulegur hringlandaháttur
Hann er furðulegur þessi hringlandaháttur Seðlabankans. Fyrir fáeinum dögum voru stýrivextir lækkaðir um 3,5% til að fá blóð atvinnulífsins til að renna aftur og núna á að nota snöggfrystingu til að setja allt í bakkgír. Það verður spennandi að sjá hver rök Seðlabankans verða, en hugsanlega er þetta hluti af skilmálum IMF. A.m.k. getur Seðlabankinn ekki borið fyrir sig verðbólgutölum gærdagsins, þar sem það var fyrirséð eftir lækkun krónunnar í september að verðbólga í október yrði talsvert hærri en í september. Hafi menn ekki séð það fyrir, þá voru menn einfaldlega ekki starfi sínu vaxnir.
Ég var svo sem búinn að spá því að stýrivextir myndu hækka vegna hækkandi verðbólgu, þar sem ég efaðist um að Seðlabankinn vildi hafa neikvæða raunstýrivexti. Auðvitað lifði maður í voninni með að Seðlabankinn eins og aðrir vildu taka þátt í kreppunni með fyrirtækjum og almenningi, en það var borin von. Hugsanlega er Seðlabankinn með þessu að reyna að fá meiri pening inn í bankann eða koma í veg fyrir útflæði gjaldeyris, en eftir allt sem á undan er gengið, þá er þetta ekki það sem atvinnulífið og almenningur þurfa.
Stýrivextir hækkaðir um 6 prósentur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
28.10.2008 | 00:17
Verðbólga sem hefði geta orðið - Endurbirt vegna áskorunar
Í vor (28.4.) birti ég færslu sem ég hef verið beðinn um að endurbirta svo hægt sé að bæta við hana athugasemdum. Hún kemur hér fyrir neðan. Þetta er að sjálfsögðu bara pæling og ekkert sem þarna er sagt getur orðið að veruleika núna. Með því að smella á fyrirsögnina er farið í upprunalegu færsluna og getur fólk þá lesið það sem fór á milli mín og Steingríms Jónssonar (Delberts).
Verðbólga sem hefði geta orðið
Það var í einmánuði 2001 að Seðlabanki Íslands ákvað að setja gengið á flot og taka upp verðbólgumarkmið til að stjórna peningamálum. Af einhverri ástæðu ákvað Seðlabankinn að nota hina séríslensku vísitölumælingu með húsnæðiskostnaði sem viðmið í staðinn fyrir að nota alþjóðlega viðurkenndar og samanburðarhæfar aðferðir við að mæla verðbólguna. Vissulega er rík hefð hér á landi að nota þessa vísitölumælingu og vísitala með og án húsnæðis stóðu í svipuðu gildi á þeim tíma, þ.e. í 206,5 með húsnæðisliðnum og 205,0 án hans. Vandamálið er og var að hún var og er hvergi notuð í nágrannalöndum okkar og ekki innan Evrópusambandsins. Það var því rangt af Seðlabankanum að nota vísitölu með húsnæðisliðnum sem viðmið sitt. Þessi ranga ákvörðun hefur haft ansi margt neikvætt í för með sér. Það sem gerðist á næstu mánuðum og árum eftir að þetta verðbólguviðmið var tekið upp, var svo sem ekki með öllu fyrirséð, en margt hefði farið á annan veg ef verðbólga hefði verið mæld án húsnæðisliðar.
Þróun vísitalna
Mismunurinn á breytingum á þessum tveimur vísitölu er ótrúlegur á síðustu 7 árum. Vísitala með húsnæðislið hefur hækkað úr 206,5 í 300,3 eða um 45,4% meðan vísitalan án húsnæðisliðar hefur farið úr 205 stigum í 269,6 eða um 31,5%. Reikna má með því að hluti þessarar hækkunar sé afleidd hækkun vegna fyrri vísitöluhækkunar.
Á tímabilinu frá apríl 2001 til apríl 2008 hefur verðbólga samkvæmt viðmiði Seðlabankans verið 68 sinnum (af 85 mánuðum) yfir verðbólgumarkmiði bankans og því kallað á aðgerðir bankans við stjórn peningamála (sjá nánar athugasemd nr. 6 við blogg mitt 11.4.). Eina tímabilið sem verðbólga með húsnæði hefur verið innan markmiða Seðlabankans er frá nóvember 2002 til apríl 2004. Ef notast hefði verið við vísitölu án húsnæðis, þá hefði verðbólga aðeins mælst 39 sinnum yfir verðbólgumarkmiðum, þar af 17 fyrstu mánuðina meðan markaðurinn var að venjast þeirri breytingu að krónan væri á floti. Næst fór verðbólga án húsnæðis óverulega upp fyrir verðbólgumarkmið á tímabilinu frá júní til desember 2004, þá í ,,bankakreppunni fyrri" frá maí 2006 til apríl 2007 og loks síðustu 3 mánuði.
Hvað hefði farið á annan veg?
En hverju hefði það breytt fyrir íslenskt efnahagslíf, ef verðbólgumarkmið Seðlabankans hefðu stuðst við vísitölu án húsnæðisliðar. Í fljótu bragði virðist mér það vera eftirfarandi:
- Stöðugleiki væri í íslensku efnahagslífi.
- Stýrivextir væru á bilinu 3 - 5%.
- Hækkun á markaðsverði húsnæðis hefði ekki farið jafnmikið út í verðlag í formi afleiddra hækkana og verðbólgumæling án húsnæðisliðar hefði verið ennþá lægri. Verðbólgan núna stæði í kringum 1,2% í staðinn fyrir 10,6% (11,8%).
- Íslenska krónan stæði traust og gengisvísitalan væri í kringum 120, ef ekki lægri. Það teldist góð staða, þar sem verðbólga á Íslandi hefði verið með lægsta móti á Evrópska efnahagssvæðinu samhliða góðum hagvexti.
- Hinn mikli hagvöxtur hefði skilað sér betur til samfélagsins, en ekki brunnið upp í verðbólgu.
- Kaupmáttur launa hefði haldist góður sem hefði leitt af sér meira jafnvægi á vinnumarkaði.
- Verðtryggð lán hefðu hækkað óverulega (1,5 - 2% á ári) fyrir utan tímabilið frá apríl 2001 til ágúst 2002 og síðan frá maí 2006 til apríl 2007, þar sem hækkunin hefði numið 6 - 10% í hvort skipti. Raunar er ekki víst að ,,bankakreppan fyrri" hefði orðið jafn skörp og raun bar vitni.
- Skuldir heimilanna hefðu aukist minna, m.a. vegna minni áhrifa af verðbótaþætti lána. Þessi áhrif gætu numið 20 - 30%, m.a. vegna afleiddra áhrifa.
- Þjóðfélagið hefði ekki verið jafn berskjaldað fyrir lausafjárkreppunni og raun ber vitni, þar sem gengi krónunnar hefði verið sterkt af eigin rammleika, en ekki vegna vaxtastefnu Seðlabankans. Spákaupmennska með vaxtamunasamninga hefði því ekki haft þær afleiðingar sem við höfum mátt horfa upp á síðustu mánuði. Jöklabréfin hefðu ekki komið til.
- Rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja væri þeim mun hagstæðara og talsverðar líkur væru á því að þetta hagstæða umhverfi hefði laðað hingað erlenda aðila til frekari fjárfestinga.
- Staða ríkissjóðs væri ennþá sterkari en raun ber vitni.
Búið og gert
Það er náttúrulega um seinan að horfa á þetta þessum augum. Þetta er búið og gert og verður ekki aftur tekið. Þessi íslenska sérviska að mæla verðbólgu á annan hátt en gert er í kringum okkur hefur reynst þjóðarbúskapnum dýr. Það getur vel verið að aðrir hafi sýnt þessari mælingu áhuga og hún sé ekki svo vitlaus, en hún hefur skekkt allan samanburð. Í samfélagi þjóða er samanburðarhæfni mjög mikilvæg. Hún hefur líka skekkt samkeppni, þar sem ósamanburðarhæf mælingin hefur gert það að verkum að stýrivextir hafa verið hækkaðir upp úr öllu valdi sem dregið hefur úr samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Í 33 mánuði á tímabilinu frá ágúst 2002 til apríl 2008 hefur Seðlabankinn talið sig hafa ástæði til að halda stýrivöxtum uppi, þegar í reynd hann hefði ekki þurft þess. (Teknir allir mánuðir á þessum tímabili þar sem vísitala neysluverðs án húsnæðis var undir 3%, en vísitala með húsnæði yfir 3%.) Þarna fór Seðlabankinn á mis við tækifæri til að styrkja hagkerfið og auka stöðugleika þess, en í staðinn ýttu aðgerðir hans undir óstöðugleika. Fyrst varð vaxtamunurinn til þess að gengið styrktist meira en góðu hófi gegndi og undanfarna mánuði hefur hann stuðlað að veikingu krónunnar (að hluta vegna spákaupmennsku). Hvorugt af þessu hefði gerst á jafn öfgakenndan hátt og raun bar vitni ef stýrivextir Seðlabankans hefðu verið nær stýrivöxtum seðlabanka í nágrannalöndum okkar.
Hvað er framundan?
Stóra spurningin núna er hvort þetta verðbólguskot sé liðið hjá. Það er ýmislegt sem bendir til annars. Í fyrsta lagi, þá er húsnæðisliðurinn ennþá að halda uppi 12 mánaða vísitölumælingunni. Það mun líklegast halda áfram fram á mitt ár og þá mun verðbólgan fara hægt og sígandi niður á við. Þetta ræðst þó mikið af þróun gengis. Haldist krónan veik áfram (yfir 140 stigum), þá munu áhrifin vara lengur. Hækki gengi krónunnar tiltölulega hratt, þannig að gengisvísitala fari í um 130 á næstu 4 vikum, þá munum við sjá verðbólgutölur í kringum 6% með haustinu. Síðast þegar gengisvísitalan fór í 150 (þ.e. í nóv. 2001), þá hélst verðbólga (án húsnæðisliðar) yfir 6% fram í maí 2002. Eftir gengislækkunina á vormánuðum 2006, hélst verðbólgan án húsnæðisliðar yfir 5,5% fram í febrúar 2007. Það er því ljóst að svona verðbólguskot það mælist lengi, þó svo að verðbólga milli mánaða lækki hratt.
Þegar jafnvægi verður náð á húsnæðismarkaði, þá verður líklegast tímabært að breyta verðbólgumarkmiðum Seðlabankans, þannig að miðað verði við vísitölu neysluverðs án húsnæðisliðar. Slík mæling endurspeglar mun betur raunverulega breytingu á útgjöldum heimilanna en vísitala með húsnæðisliðnum. Ekki gera ráð fyrir að það gerist fyrr en eftir 3 - 5 ár. Um sama leiti er skynsamlegt að leggja af verðtryggingu lána. Hún er barn síns tíma og þó hún hafi átt rétt á sér í kringum 1980, þá eru aðstæður allt aðrar í dag. Þó verðtryggð lán hverfi, þá er ekki þar með sagt að ekki megi nota vísitölur til viðmiðunar við alls konar útreikninga. Ýmsir hafa haldið því fram að verðtrygging sé nauðsynleg fyrir lífeyrissjóðina, en ég held að það sé ekki rétt. Sjóðirnir þurfa áfram að ávaxta fé sitt eins vel og hægt er og reikna síðan áunnin réttindi sjóðfélaga út frá því. Verðtrygging hefur ekki komið í veg fyrir skerðingu réttinda né stuðlað að hækkun þeirra. Það hefur alfarið ráðist af því hve góðir stjórnendur sjóðanna hafa verið í að ávaxta eigur sjóðanna/sjóðfélaganna. Þeir sem ég þekki til (og þekki nokkuð marga) hafa verið einstaklega góðir í gegnum tíðina, þó síðasta ár hafi kannski ekki gefið sömu ávöxtun og árin þar á undan. En við skulum muna að þetta er langhlaup, ekki spretthlaup.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.10.2008 | 09:45
Minni hækkun en efni stóðu til
Þrátt fyrir að verðbólga sé að setja enn eitt metið á þessari öld, þá er hækkun hennar mun minni en efni stóðu til eftir mikla lækkun krónunnar frá miðjum september fram að mánaðarmótum. Það getur bara þýtt eitt. Innflutningur hefur nokkurn veginn lagst af. Ný vara er ekki að berast til landsins, annars vegar vegna þess að innflytjendur eru í skuld við erlenda birgja eða þurfa að staðgreiða og hins vegar vegna þess að menn vita að ekki er hægt að bjóða Íslendingum upp á þær hækkanir sem þyrftu að verða miðað við breytingar á gengi.
Ég veit af aðila, sem hefði miðað við lækkun krónunnar, þurft að hækka vöru sem viðkomandi fékk nýja sendingu af úr 16.900 kr. í 26.900 kr., en veit að það gengur ekki. Þessi aðili hefur því um tvennt að ræða, annars vegar að lækka álagningu sína um tugi prósenta eða sleppa því að setja vöruna í sölu.
Það verður fróðlegt að sjá þróun næstu vikna og mánaða, en vonandi bendir þetta til þess að verðbólgukúfurinn verði ekki eins snarpur og staða krónunnar benti til í lok september. Ef við gerum ráð fyrir að hækkun vísitölu milli október og nóvember verði á bilinu 2/3 af hækkun milli september og október og það dragi á svipaðan hátt úr hækkun vísitölu neysluverðs fram í janúar, þá getum vi samt búist við því að verðbólgan toppi í hátt í 18% fljótlega eftir áramót. Dragi hraðar úr hækkun vísitölunnar milli mánaða, segjum hún verði þriðjungur hækkunar mánaðarins á undan, þá verður toppnum náð í 16%. Ef hækkunin helst aftur óbreytt á milli mánaða næstu þrjá mánuði, þá toppar verðbólgan vel yfir 20%. Auðvitað fáum við ekki svona línulegt ferli, en þetta gefur einhverja hugmynd um hvað gæti gerst.
Verðbólgan nú 15,9% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.10.2008 | 20:27
Icesave var einum degi frá breskri lögsögu!
Ég var að hluta á viðtalsbrotið við Björgólf Thor í fréttum á Stöð 2. Þar segir hann fullum fetum að Seðlabanki Íslands hafi neitað Landsbankanum um 200 milljóna punda lán sem átti að nota til að færa Icesave-reikningana yfir í breska lögsögu. Svo virðist sem þessa upphæð hafi átt að nota til að greiða tryggingargjald í breska tryggingarsjóð innistæðueigenda (mín ályktun). Það væri fróðlegt að vita hvers vegna Seðlabankinn tók þessa ákvörðun. Mig langar ekkert að vita hver tók hana, bara hvaða rök lágu að baki ákvörðuninni. Það væri líka fróðlegt að vita hvaða upplýsingar lágu að baki ákvörðun ríkisstjórnarinnar um setningu neyðarlaganna mánudaginn 6. október. Það hefur hvergi komið fram hvaða greiðslur Landsbankinn gat ekki staðið við eða hve hátt lán Landsbankinn bað um frá Seðlabankanum.
Mér finnst sem alltaf séu að bætast við nýir krókar á þetta mál, sem gerir það sífellt gruggugra og óskiljanlegra. Og einhvern veginn er það þannig að allir þræðir þess liggja til Seðlabankans.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
25.10.2008 | 21:48
Á hverju munu Íslendingar lifa?
Við stöndum frammi fyrir því að enn ein tilraunin í atvinnusköpun og verðmætaaukningu hefur runnið út í sandinn. Á undan hafa farið síldin, loðdýrarækt, fiskeldið, rækjuveiðin og nú síðast bankakerfið. Vafalaust mætti telja fleiri gullkálfa, en ég læt þessa duga. Allt hefur þetta fallið vegna fyrirhyggjuleysi þeirra sem voru í þessum atvinnugreinum. Menn hugsuðu að þetta hlyti bara að ganga, þar sem útlendingum hafði heppnast að láta þetta ganga. En annað kom á daginn. Það er eins og í öllu þessu hafi gleymst að sígandi lukka er best. (Sígandi lukka þýðir hófsemi.) Það er líklegast stærsta vandamál okkar Íslendinga, að við erum alltaf að leita að töfralausnum og þegar við teljum okkur hafa fundið þær, þá á að taka heiminn með trompi. Minnimáttarkomplexar okkar eru svo ríkjandi, að við getum ekki sætt okkur við neitt annað, en að geta slegið þeim bestu við. Garðar Hólm er út um allt í okkar samfélagi. Menn sem eru á fullu að sannfæra okkur hvað þeir eru frægir og stórir úti í heimi, þegar í reynd þeir eru bara litlir karlar.
En þetta innlegg átti ekki að fjalla um það sem mistókst, nema í þeim tilgangi að við gætum lært af því. Spurningin er aftur: á hverju við Íslendingar munum lifa í framtíðinni? Hér fyrir neðan er listi yfir fyrirtæki og starfsemi í okkar litla landi sem gætu hjálpað okkur við að byggja upp nýtt Ísland. Þetta eru fyrirtæki sem hafa skapað okkur útflutningstekjur undanfarin ár en eru ekki alltaf talin upp í því samhengi eða eru minna áberandi en stóriðjan, sjávaraútvegurinn, fjármálastarfsemin, Actavis, Marel og Össur. Listinn er tekinn saman af Róland R. Assier,sem m.a. kennir við Leiðsöguskólann, og er fenginn úr námsefni í áfanganum Atvinnuvegir 101. Vona ég að Róland sé ósárt um að ég birti þessar upplýsingar hér. Tekið skal fram að listinn miðar með fáum undantekningum við hlutina, eins og þeir voru við lok síðasta árs. Hugsanlega hafa því fyrirtæki hætt starfsemi, sem eru á listanum, og önnur bæst við sem ættu að vera þar. Það væri gott, ef lesendur bloggsins eru til í að bæta við fleiri aðilum sem skapa þjóðinni útflutningstekjum. Athugið að ferðaþjónustan telst ekki til fyrirtækja með útflutningstekjur, þó vissulega séu gjaldeyristekjur greinarinnar miklar (sjá nánar neðst).
Iðnaðarvörur:
- Fiskvinnsluvélar og vélar
- Skaginn
- Traust
- 3 X Stál
- Klaki
- Mesa
- Landsmiðjan
- Vélfag
- Formax
- Samey...
- Kæli- og frystibúnaður
- Celcíus
- STG
- Kælikerfi
- Frost
- Optimar
- Búnaður til fiskveiða
- Hampiðjan/J. Hinriksson
- Netagerð Vestfjarða
- Fjarðarnet
- DNG sjóvélar
- Bátasmiðjur:
- Trefjar
- Bátasmiðja Guðmundar
- Ósey
- Mótun Bátastöðin Knörr
- Seigla
- Samtak
- og fleiri og fleiri
- Plastiðnaður
- Sæplast
- Borgarplast
- Reykjalundur
- Set
- Umbúðir og prent
- Plastprent
- Kassagerðin
- Oddi
Hugvit og hátækni:
- Hátækni
- Vaki
- MarOrka
- Ecoprocess
- Hafmynd
- Fjölblendir
- Stjörn-Oddi
- Framleiðslutækni
- Íslenska lífmassafélagið
- Icelandic Green Polyol
- Límtré
- Alur
- MT-bílar
- PetroModel
- Líftækni, lyf og heilsu- og snyrtivörur
- Saga Medica
- Orf líftækni
- Primex
- Norður ehf.
- NorðurÍs
- NimbleGen Systems Iceland
- Ensímtækni/Zymetech
- Ísgel
- Lífeind
- Lýsi
- Móðir Jörð
- Blue Lagoon
- Iceherbs
- Purity Herbs
- Prokaria
- Genís
- Lækningartækni
- Medcare-Flaga
- Kine
- Viasys Healthcare
- Oxymap
Upplýsingatækni
- Hugbúnaður, hugbúnaðar- og margmiðlunarþróun
- Hugbúnaður fyrir sjávarútveginn og matvælavinnslu
- Hugbúnaður fyrir stórmarkaði og stórverslanir
- Hugbúnaður fyrir heilbrigðisgeirann
- Hugbúnaður fyrir hitaveitukerfi
- Hugbúnaður fyrir hernað
- Hugbúnaður fyrir miðlun stafræns efnis
- Ljósleiðaranet
- Samskiptalausnir
- Skjalastjórnun, stjórnun viðskiptatengsla
- Öryggiskerfi
- Tölvuleikir
- Margmiðlun o.fl.
- EJS International, Marel, Flaga, Hugur, Industria, Hugvit, Memphis, Kögun, Taugagreining, Gagarín, Menn og mýs, Mentor, Landsteinar Strengur, 3-plus, OpenHand, Caoz, CCP, Track-Well o.s.frv.
Fatnaður:
- Vinnufatnaður
- 66°N/Max
- Trico
- Tískufatnaður
- Sportey
- Nikita
- 66°N
- Zo-on
- Cintamani
- Spakmannspjarir
- Annað
- Ullarlopi, ullarband
- Víkurprjón
- Ístex
- Glófi
- Loðskinn
- Sjávarleður
Drykkjavörur
- Vatn
- Icelandic Glacial
- Icelandia PLC
- Iceland Water
- Glacier World
Við þetta má svo bæta sjávarútvegi, stóriðju, fjármálastarfsemi, Marel og Össuri.
En gjaldeyristekjur verða ekki bara við útflutning. Einn er sá vettvangur sem skapar miklar gjaldeyristekjur en það er ferðaþjónustan. Þar gnæfa flugfélögin, Icelandair og IcelandExpress, upp úr, en í það heila voru gjaldeyristekjur af ferðamönnum um 50 milljarðar á síðasta ári, saman borið við 80 milljarða af útflutningi áls og 128 milljarða vegna útflutnings sjávarafurða.
Veiking krónunnar á þessu ári mun hafa mikil áhrif til hækkunar á útflutnings og gjaldeyristekjum.
Bloggar | Breytt 26.10.2008 kl. 00:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 37
- Sl. sólarhring: 66
- Sl. viku: 345
- Frá upphafi: 1680483
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 40
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði