Ég er staddur í Ungverjalandi. Nánar tiltekið Búdapest. Borgin er ákaflega falleg, enda er borgarstæðið einstaklega skemmtilegt. Dóná skiptir borginni í Búda og Pest eins og alltaf hefur verið. Ég fór á Þjóðminjasafn þeirra Ungverja, sem er til húsa í ægifagurri byggingu/höll á hæð sem gnæfir yfir Dóná Búda megin í borginni. Það fer ekkert á milli mála að Ungverjar eru stoltir af uppruna sínum, þó það hafi alltof oft verið hlutskipti þeirra að vera undirokaðir af öðrum. Oftar en ekki hafa þeir farið undan stjórn eins ríkis til þess eins að lenda undir járnhæl annars. Kannski hafa liðið fáein ár þar sem þeir fengu um frjálst höfuð að strjúka, en svo hefur næsta bylgja innrásar dunið yfir. Það liggur við að fara þurfi aftur fyrir Kristburð til að finna langt samfellt tímabil, þar sem Ungverjar voru sjálfs síns herrar. Þeir eiga sína frelsishetju, Lajos Batthyany sem ólíkt okkar frelsishetju, var tekin af lífi vegna þess að yfirmanni austurríska herliðsins í borginni stóð ógn af honum. Það er hægt að greina það á Þjóðminjasafninu, að Ungverjum gremst þetta ennþá. Ég taldi ekki hve margar myndir og styttur eru af Batthyany í þeim sal, þar sem frelsisbaráttunni er gerð skil. Það er eins og Ungverjar hafi misst af gullnu tækifæri við að öðlast sjálfstæði við dauða Batthyanys og að þessi missir hafi dregið þá inni í atburðarás sem var þeim ekkert sérlega geðfeld.
En nú hefur frelsið fengist, bara til þess eins að ganga í Evrópusambandið. Efnahagur landsins er ekki góður og gerir lítið annað en að versna. Sagt er að hálf milljón Ungverja hafi misst vinnuna í sumar. Fyrir 10 milljón manna þjóð er það áfall. Evrópusambandspeningarnir eru ekki að skila sér, segja innfæddir. Ríkisstjórnin er hræðileg og spillt. Sagt er að í henni séu börn og barnabörn fyrrum ráðamanna frá tímum kommúnismans. Þau hafa bara skipt um nöfn. (Ég sel þetta ekki dýrar en ég keypti það.) Maður verður var við eymdina á einn hátt. Það er útigangsfólk og heimilisleysingjar um allt. Ég hef hvergi séð eins mikið að fólki í slíkri aðstöðu nema kannski þegar ég var í Bandaríkjunum. Það er með ólíkindum að sjá fólk á öllum aldri búandi sér til fleti hvar sem hægt er að finna stað sem helst þurr. Undirgangar eru vinsælir og eru öll skúmaskot nýtt. Þetta er sorglegt að sjá og í mikilli andstöðu við mannfjöldann sem fyllir allar verslunarmiðstöðvar og verslunargötur.
Ungverjar eru mjög blandaðir, en hinn meðal Íslendingur fellur vel inn í fjöldann. Ég veit ekki hversu oft ég hef fundið hér tvífara fólks, sem ég þekki heima. Það eina sem greinir þá frá okkur mörlöndunum er tungumálið, sem er ekki auðvelt.
Verðlag hér er mjög lágt miðað við það sem við eyjaskeggjar eigum að venjast. Gjaldmiðillinn, forintas, er skráð á um 0,34 kr., en verð á vöru er samt það sama hér og heima, nema mynteiningin er önnur. Kannski ekki alltaf, en alltof oft. Það sama á náttúrulega við um launin. Mesta furða að íslenskir ferðafrömuðir hafi ekki uppgötvað Ungverjaland sem kjörinn stað til að fara í verslunarferðir. Vissulega lengra að fara hingað en til Skotlands og Írlands, en ég trúi að verðlag hér sé lægra. Svo er bara miklu menningarlegra að heimsækja borgina fögru við ána bláu (sem er að vísu grá). Búdapest getur státað af nokkrum stórum verslunarmiðstöðvum. Í hjarta borgarinnar er West End, sem þeir segja að sé sú stærsta í Evrópu. Þar úir og grúir af alls kyns litlum og meðalstórum verslunum. Við göngugötuna Váci utca er svo að finna stærri verslanir og í Árkád Bevásár verslunarmiðstöðinni við Örs Vesér Tere lestarstöðina hafa allar verslanir nægt rými. Þarna eru öll merkin sem við þekkjum á klakanum og svo öll hin sem ekki sjá sér fært að vera þar. Og verðið er ákaflega hagstætt.
Almenningssamgöngur eru mjög góðar, þannig að það tekur ekki nema nokkrar mínútur að ferðast endana á milli í borginni. Manni standa til boða jarðlestir, sporvagnar og nokkrar gerðir strætisvagna. Dugi það ekki, þá eru mjög ódýrir leigubílar út um allt. Nú vofir að vísu yfir verkfall starfsmanna í almenningssamgöngum, þannig að kannski er ekki heppilegt að fara stefna mörgum hingað á næstu vikum eða mánuðum.
Ef maður leitar að gistingu hér á internetinu, þá sér maður að hér er mikið framboð af ódýrri gistingu. Dvelji maður hér í nokkra daga, þá er auðvelt að fá leigða íbúð á þetta 10 til 30 evrur nóttina fyrir alla fjölskylduna. Vilji maður frekar hótel, þá er hægt að fá ódýra gistingu á jafnvel hinum glæsilegustu hótelum. Auðvitað er líka fullt af hótelum sem ekki eru góð og maður getur alltaf lent í svikahröppum. Eina vandamálið er að ekki er flogið beint milli Íslands og Ungverjalands nema í takmarkaðan tíma á hverju ári.
Fyrir íslenska athafnamenn, þá er ég sannfærður um að hér eru mörg góð kauptækifæri. Fasteignaverð virðist vera lágt, en það gæti stafað af því að viðhaldi bygginga hefur verið ábótavant. Nú þar sem verðlag er lágt, þá kostar ekki mikið að gera upp íbúðir, ef maður bara nær að ráða góðan verktaka sem stendur við það sem hann segir. Tilkoma IKEA hefur líka auðveldað endurnýjun húsbúnaðar. Kíkti þangað um daginn til að skoða og mér sýndist sem það kostaði innan við 40.000 íslenskar krónur að fylla herbergi með húsgögnum, þ.e. rúmi með góðri dýnu, fataskáp, kommóðu og borði með fjórum stólum, auk ýmissa smáhluta. Sé ekki fyrir mér að gera svona góð kaup í Kauptúni.