Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Enn ein árásin á tölvukerfi fjármálafyrirtækis í USA

Nýlega gaf verðbréfafyrirtækið TD Ameritrade út yfirlýsingu um að brotist hafi verið inn í gagnagrunn fyrirtækisins.  Í yfirlýsingunni kom fram að fyrirtækið ,,hafi uppgötvað og upprætt óheimilan kóða úr kerfum sínum sem hafði opnað fyrir aðgang að innri gagnagrunnum".  Ástæðan fyrir því að þetta gat átt sér stað, er að sögn sérfræðings í upplýsingaöryggismálum, ófullnægjandi stýringar og eftirlit til að greina óheimilan aðgang að gögnum.

Þegar farið er að rýna betur ofan í frásögn af þessu atviki, þá kemur í ljós að haldnar voru margvíslegar færsluskrár (loggar) sem notaðar voru til að fylgjast með gagnaaðgangi.  Vandamálið var að ekkert ferli var til staðar til að ákveða hvaða aðgangur var eðlilegur og hvað taldist frávik og þar með aðgangur sem þurfti að skoða betur.  Það er ekki nóg að vera með flottar verklagsreglur um söfnun aðgangsupplýsinga, ef ekki eru til staðar aðferðir til að vinna úr upplýsingunum og vara samstundis við því ef frávik koma í ljós.

Árásin hjá Ameritrade var mjög lymskuleg.  Hún var gerð með vefkóða sem var virkjaður innan gagnagrunnskerfisins.  Gagnalekinn var framkvæmdur með því að grípa upplýsingar um leið og þær voru notaðar af notanda með heimild, þannig að kóðinn framkallaði ekki aðgangsfærslu í gagnagrunninn.  Síðan voru upplýsingarnar sendar bæði til þess sem beðið hafði um þær og til tölvuþrjótanna.

Þessi árás sýnir, að stöðugt er þörf á því að þróa nýjar varnir við innbrotum.  Þó svo að þetta innbrot hafi tengst fjármálafyrirtæki, þá hefði þarna alveg eins geta verið flugfélag eða heilbrigðisstofnun eða bara einhver önnur starfsemi.  Það sem mestu máli virðist þó skipta, er að færsluskrár séu reglulega yfirfarnar, að fyrirtæki skilgreini hvað telst vera frávik frá eðlilegri notkun og viðvaranir séu sendar viðeigandi aðilum ef slík frávik koma upp.  Þetta tvennt síðast nefnda er kannski það sem helst hefur skort og því uppgötvast ekki atvik fyrr en löngu eftir að þau áttu sér stað.


Auðkennisþjófnaður er mikið vandamál hjá bandarískum bönkum

Auðkennisþjófnaður (e. identity theft) er það sem bandarískir neytendur kvarta mest undan samkvæmt upplýsingum frá Federal Trade Commission í Bandaríkjunum.  Sífellt fjölgar afbrotum þar sem upplýsingum er stolið.  Þessi atvik eru talin ógn við friðhelgi, neytendaviðskipti og jafnvel stöðugleika hagkerfisins.  Gagnasöfn með viðkvæmum persónuupplýsingum eru orðið megin skotmörk hakkara, auðkennisþjófa og óheiðarlegra starfsmanna sem og skipulagðrar glæpastarfsemi.  Talið er að 10 milljónir Bandaríkjamanna séu árlega fórnarlömb auðkennisþjófa.

Miklar vangaveltur hafa verið í Bandaríkjunum um það hvernig hægt sé að sporna við þessari þróun.  Settar hafa verið ýmsar reglugerðir bæði á vegum einstakra fylkja og alríkisstjórnarinnar, þar sem fjármálastofnanir þurfa að uppfylla strangar kröfur sem ætlað er að vernda viðkvæmar persónuupplýsingar.  Fjölmargar eftirlitsstofnanir hafa gefið út sínar eigin reglur og leiðbeiningar til fjármálastofnana um það hvernig hægt sé að taka á því vandamáli sem auðkennisþjófnaður er.  Þrátt fyrir þetta er áætlað að tjón vegna auðkennisþjófnaðar toppi 1 milljarð dala á næstu 5 árum og er þá bara um beinan kostnað að ræða.  Annar kostnaður verður ekki mældur í peningum, en það er hlutir eins og orðspor, töpuð viðskipti, verri möguleikar á fjármögnun og lækkun á markaðsvirði.  Til viðbótar þessu þurfa fyrirtæki í Bandaríkjum að senda öllum viðskiptavinum sínum tilkynningu, ef gagnaþjófnaður hefur átt sér stað.

Auðkennisþjófnaður er ekki eins auðveldur hér á landi, en eftir því sem viðskipti yfir internetið aukast, þar sem greitt er með greiðslukortum, aukast líkurnar á því að Íslendingar lendi í klóm auðkennisþjófa.  Nú auðkennisþjófnaður þarf ekki að snúast um peninga, eins og Ólína Þorvarðardóttir komst að um daginn.  Fölsun á uppruna sms-skilaboða er eitt form auðkennisþjófnaðar.


,,Beinar útsendingar" Sýnar frá NFL

Þegar þessi orð eru rituð, kl. 22:00, er að hefjast ,,bein" útsending á Sýn frá leik Jacksonville Jaguars og Denver Broncos í bandaríska fótboltanum.  Það vill svo til að sömu stundu er staðan í leiknum 20 gegn 7 Jaguars í vil enda langt komið í 3. fjórðungi leiksins, því leikurinn hófst fyrir einum og hálfum tíma eða svo.  Það er með ólíkindum, að Sýn skuli auglýsa þennan leik sem beina útsendingu, sérstaklega þegar haft er í huga að ekkert af leiknum verður í beinni.  Er ekki bara hægt að koma hreint fram og segja rétt frá.  Þetta er upptaka af leik Jacksonville og Denver eða seinkuð útstending.  Þó svo að útsendingin hefði hafist á auglýstum tíma, þ.e. kl. 21:30, þá hefði samt ekki náðst að sýna síðustu mínútur leiksins beint.

Fjölgar umferðarlagabrotum við hert eftirlit?

Í Fréttablaðinu í dag var eftirfarandi frétt:

 

Umferðarlagabrotum fjölgar um fimmtung
Umferðarlagabrotum fjölgaði um tuttugu prósent í ágústmánuði miðað við sama tíma í fyrra.

Umferðarlagabrotum fjölgaði um tuttugu prósent í ágústmánuði miðað við sama tíma í fyrra. Fíkniefnabrotum fækkaði um 38 prósent, og hegningarlagabrotum fækkaði um átján prósent. Þetta kemur fram í skýrslu Ríkislögreglustjóra um afbrotatölfræði í ágústmánuði, sem kom út í gær.

Hraðamyndavélar í Hvalfjarðargöngum, Hvalfjarðarsveit og á höfuðborgarsvæðinu eru sagðar ein helsta orsökin fyrir mikilli fjölgun hraðakstursbrota milli ára. Til að mynda tuttugufaldaðist fjöldi hraðakstursbrota hjá lögreglustjóranum á Snæfellsnesi vegna tveggja hraðamyndavéla við þjóðveg númer eitt. - sþs

 Það sem vakti athygli mína við þessa frétt var hvernig tekist hefur að snúa þessu með umferðarlagabrotin gjörsamlega á hvolf.  Það er greinilegt samkvæmt skilningi blaðamanns (og þess sem ritar textann í skýrslu Ríkislögreglustjóra) að besta leiðin til að losna við öll umferðarlagabrot er að taka allar hraðamyndavélar úr sambandi, því að tilkoma fleiri myndavéla hefur gert það að verkum að hraðakstursbrotum hefur fjölgað!!!  Bíddu við, hér er eitthvað stórlega vitlaust.  Við vitum ekkert hvort að brotunum hefur fjölgað eða fækkað.  Það eina sem er vitað, er að fleiri hafa mælst á of miklum hraða, þ.e. skráðum brotum hefur fjölgað.  Það hafa sem sagt fleiri verið staðnir að hraðakstursbrotum, eins og raunar segir í skýrslu RLS.

Mjög margir ökumenn brjóta umferðarlög á hverjum degi og komast upp með það.  Hert umferðareftirlit dregur oftast úr brotum, en verður aftur til þess að fleiri eru sektaðir.  Fjölgun sekta vegna þess að eftirlit hefur verið hert, segir ekkert um það hvort brotum hafi fjölgað eða fækkað.   Samkvæmt rökhyggju RLS (og blaðamanns), þá leiðir hert umferðareftirlit til fjölgun brota.  Með sömu rökum má komast það þeirri niðurstöðu að best er að hafa ekkert eftirlit, því þá eru engin brot.

Ég vil halda því fram, að umferðarlagabrotum hafi farið fækkandi síðustu mánuði eða frá því að frávik frá hraðamörkum voru lækkuð og hraðamyndavélum var fjölgað.  Hvoru tveggja hefur stuðlað að því að hraðinn í umferðinni hefur lækkað.  Áður þótti sjálfsagt að aka allt að 20 km/klst. hraðar en skráður hámarkshraði.  Nú fara menn helst ekki meira en 5 - 10 km/klst. hraðar og mun algengara er að bílstjórar haldi sig við eða undir hámarkshraða.  Þeir sem aka um Vesturlandsveg og vita af hraðamyndavélum í Hvalfjarðargöngum og undir Hafnarfjalli haga flestir akstri eftir því.  Bílstjórar vita að 70 km/klst. er hámarkið í Hvalfjarðargöngunum og flestir vita að þar eru hraðamyndavélar.  Af þeirri ástæðu aka langsamlega flestir á löglegum hraða þar (a.m.k. þar til þeir koma að myndavélunum).  Hert eftirlit og hraðamyndavélar stuðla því að fækkun brota, en verður á móti til þess að fleiri brot uppgötvast.  Kannski teljast umferðarlagabrot bara vera brot, ef þau uppgötvast!!!


Skipulag Vatnsendahlíðar og hækkun lóðarverðs

Í Fréttablaðinu í gær var auglýsing frá Kópavogsbæ um úthlutun lóða í Vatnsendahlíð við Elliðavatn.  Sem húsbyggjanda í Þingum, þá vöktu nokkur atriði athygli mína.

  1. Nýr skóli á að rísa og er hann staðsettur það langt frá aðalbyggingasvæðinu, að það verður styttra fyrir skólabörn af annars vegar vestasta hluta svæðisins og hins vegar nyrsta hluta svæðisins að fara annað hvort í Hörðuvallaskóla eða Vatnsendaskóla.  Staðsetning skólans bendir til þess að stefnt er að því að létta vatnsvernd af svæðinu milli þess sem nú er verið að auglýsa til úthlutunar og Heiðmerkur og þar eigi eftir að koma mjög stórt hverfi.
  2. Aðeins er gert ráð einni umferðaræð út úr hverfinu, þ.e. Þingmannaleið.  Er ég ansi hræddur um að hún muni ekki duga, þegar viðbótin sem ég nefni að ofan verður komin.  Það væri strax til bóta að gera ráð fyrir annarri tengingu við Vatnsendaveg um svæðið sunnanvert eða um Elliðahvammsveg.
  3. Verð á lóðum hefur allt að þrefaldast frá því að úthlutað var síðast í Þingum.  Árið 2005 kostaði einbýlishúsalóð um kr. 7,2 milljónir, en nú er verð þeirra á bilinu kr. 13 - 20 milljónir.  Og þetta er bara grunngjald.  Ef reglur eru eitthvað svipaðar nú og áður, þá geta húsbyggjendur átt von á að þurfa að punga út einhverjum milljónum til viðbótar, þegar stærð húsanna er komin á hreint.
  4. Hylja á Vatnsendahlíðina algjörlega með byggð, þó einhver græn rönd eigi að vera þarna, þá er það reynsla manna í Kópavogi, að það er tímabundið ástand og það er bara tímaspursmál hvenær skipulögð verður byggð á þeim.
Ég hef mestar áhyggjur af umferðinni og sé fram á að það verði erfitt að komast út úr hverfinu, þegar fram líða stundir.

Hvað með sæstreng?

Það er ekki nema rúmur mánuður síðan að í fréttum voru vangaveltur um útflutning rafmagns um sæstreng (sem að mér finnst slæm hugmynd - sjá blogg mitt frá 4.8.2007 Útflutningur á raforku).  Nú virðist ekki vera hægt að koma rafmagni til fyrirhugaðs álvers í Helguvík, þar sem sveitarfélögin á Reykjanesi vilja ekki fleiri loftlínur og Landsnet telur ekki fýsilegt að leggja þær í jörðu þar sem þær myndu liggja um jarðskjálfta- og jarðhitasvæði.  Mér dettur þá bara í hug:  Af hverju ekki að leggja sæstreng?  Það virðist ýmislegt mæla með því sem fýsilegum kosti.  Vissulega þyrfti að finna leið út í sjó, en eftir að hún er fundin, er leiðin bein og breið.  Sjónmengun af línum væri úr sögunni og sloppið væri við að leggja línurnar um jarðskjálfta- og jarðhitasvæði með tilheyrandi raski.  Ég er ekki með þessu að gera lítið úr því raski sem yrði í sjónum, en það væri örugglega hægt að gera ýmislegt til að halda því í lágmarki.
mbl.is Landsnet: Skoða þarf forsendur Grindavíkurbæjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nick Leeson og Baringsbanki

Það er sagt um Nick Leeson, að hann sé einni maðurinn sem hafi skrifað tékka sem bankinn átti ekki innistæðu fyrir.  Á ensku er sagt:  Nick Leeson is the only man to have written a check and the bank bounced.

Það er athyglisvert viðtalið við hann í Markaði Fréttablaðsins í dag.  Hann hefur svo sem lýst þessu á prenti áður, að það hafi verið innra eftirlit bankans sem klikkaði.  Hann hefði aldrei geta gert það sem hann gerði, ef ekki hefði verið fyrir samþykki yfirmanna sinna og það að þeir voru að fara á svig við lögin.  Það er þess vegna sem innra eftirlit verður að vera óháð function innan fyrirtækja.  Og ytri endurskoðendur verða líka að vera óháðir fyrirtækjum.  Atvik, eins og Baringsbanka málið, Enron, World Com, Parmalat og mörg önnur eru dæmi um það þegar innri og ytri endurskoðendur eru ýmist blekktir eða fengnir til að taka þátt í svindlinu.  Afleiðingin er aukið regluverk á borð við Sarbanes-Oxley, fyrirtækjalaga tilskipanir Evrópubandsins og fjölbreytileg tilmæli fjármálaeftirlita um allan heim.  Síðan kvarta menn yfir eftirlitsiðnaðinum og segja hann vera að drepa allt.  Við megum ekki gleyma, að ef hægt væri að treysta öllum til að haga sér í samræmi við almenna siðferðisvitund, þá væri þetta ekkert mál.  Eftirlitsiðnaðurinn er afleiðing af siðferðisbrestum svipuðum þeim sem Nick Leeson varð uppvís af. 

Ég viðurkenni það alveg fúslega sem sérfræðingur í upplýsingaöryggismálum, að ef mér og mínum kollegum hefði tekist betur í gegnum tíðina að selja fyrirtækjum hugmyndina um þörf fyrir og nytsemi öryggisráðstafana, þá væri ekki eins mikil þörf fyrir eftirlitsstofnanir að setja alls konar reglur og kvaðir um ráðstafanir.  Innra eftirlit og öryggisskipulag virkar mun betur, þegar fyrirtæki átta sig á nytsemi þessara starfsþátta, í staðinn fyrir að líta á þetta sem íþyngjandi kvöð.  Raunar sýna gögn frá OMX (norrænu kauphöllinni) að þau fyrirtæki sem best hafa staðið sig í innleiðingu góðra stjórnarhátta eru að standa sig markvert betur á markaði, en þau sem verst standa í innleiðingu góðra stjórnarhátta.  Á rúmlega fjögurra ára tímabili frá 2001 til 2005 jókst markaðsvirði fyrrnefnda hópsins um 32% umfram aukningu markaðsvirði síðarnefnda hópsins.  Fyrir fyrirtæki sem skráð eru í Kauphöll Íslands er þetta spurning um hundruðir ef ekki yfir þúsund milljarða.


Indlandsbanki hakkaður

Tölvuþrjótar brutu sér leið inn á vefsetur Indlandsbanka (Bank of India) í lok ágúst.  Þrjótunum tókst að fella inn í kóða vefsíðunnar 30 mismunandi spillikóða, þar með talið ormi, fimm trójukóðum til niðurhals, þremur rótartólum og nokkrum kóðum til að stela aðgangsorðum.  Sjá má hvernig þetta birtist á þessu myndbandi sem er að finna á YouTube (myndband).  Árásin var rakin til rússneskra þrjóta sem kenna sig við Russian Business Network (RBN) og eru með aðsetur í Pétursborg.

Árásin á Indlandsbanka er bara enn eitt dæmi um árás á vefsetur mikilsmetins fyrirtækis.   Ekki er vitað hvernig árásin var framkvæmd, en hún nýtir sér veikleika í Internet Explorer frá Microsoft.  Það er heldur ekki vitað hve margir urðu fyrir áhrifum af árásinni eða hvort einhverjum peningum hafi verið stolið.


Stiglækkandi skattur fyrir alla

Ég er þeirrar skoðunar að þörf er gagngerra breytinga á því skattkerfi sem við búum við hér á landi.  Tryggja þarf að allir borgi sama skatt fyrir sömu tekjur burt séð frá því hvaðan tekjurnar eru fengnar.  Í núverandi umhverfi fer það eftir eðli teknanna hve hátt skatthlutfallið er.  Þetta býður upp á ákveðna hættu að einstaklingar telji fram lægri atvinnutekjur en þarf til framfærslu með vísan til þess að þeir hafi svo og svo miklar fjármagnstekjur.  Ég tek það skýrt fram, að mér finnst sjálfsagt, að hver maður leiti allra löglegra leiða til að lækka skattgreiðslur sínar.

Lækkun skatts á lögaðila í 18% og upptaka 10% fjármagnstekjuskatts var mjög stórt framfaraskref og hefur haft gífurleg áhrif á uppgang efnahagslífsins og fyrir alla muni má ekki glata því sem þar hefur áunnist.  En nú er tími til að taka næsta skref í skattkerfisbreytingunni og láta fleiri njóta.

Hin almenna hugsun í skattheimtu hefur verið sú að með hækkandi tekjum eigi skattprósentan að hækka.  Í okkar umhverfi hefur þessu á vissan hátt verið snúið við, en þó bara fyrir suma.  Þ.e. hafi menn nægar tekjur til að leggja til hliðar (eða útsjónarsemi) þá geta þeir látið hluta af eigum sínum vinna sjálfstætt fyrir sig á lægri skattprósentu.  Verður þetta til þess að tveir einstaklingar með sömu tekjur eru að greiða mismunandi upphæð í tekjuskatt, vegna þess að uppruni teknanna er mismunandi.  Mörgum finnst þetta óréttlátt, sérstaklega þegar menn virðast vera að keppast við að gefa upp sem lægstar launatekjur (sbr. tekjublað Frjálsrar verslunar), en hafa síðan himinháar fjármagnstekjur.

Það er til ein leið gegn þessu.  Hún er einfaldlega að taka upp skattkerfi sem er með stiglækkandi skattprósentu án tillits til uppruna teknanna.  Þannig gæti upphafsprósentan verið á bilinu 24 - 30% og hún síðan látin lækka niður í 10%.  Persónuafslátturinn væri látinn halda sér sem og bótakerfið líka.  Útsvar til sveitarfélaganna væri síðan fast hlutfall af skattprósentunni, t.d. 40%, og það á allar tekjur.

Hugmyndin með þessu kerfi er að allir greiði jafnháan skatt af sömu tekjum á tillits til uppruna teknanna.  Ég geri mér grein fyrir að þetta fellur ekki að þeirri jafnaðarmennsku skattahugmyndafræði sem hefur verið ríkjandi síðustu áratugi hér á landi og á hinum Norðurlöndunum, að hinir ríku eigi að greiða hlutfallslega meira af stigvaxandi tekjum til samfélagsins.  Það fellur ekki vel inn í þá mynd, að hinn almenni launamaður greiði 30% af 250 þúsund kr. tekjum meðan hátekjumaðurinn greiðir bara 10% af tekjum yfir 2 milljónum kr. á mánuði.  En hafa verður í huga að báðir greiða jafn mikið að sömu tekjum.  Tekjutenging bóta gerir það svo að verkum, að láglaunafólk og barnafólk fær meira tilbaka í gegnum barnabætur, vaxtabætur o.s.frv. en þeir sem hafa hærri tekjur.

Þessi aðferð er vissulega flóknari í framkvæmd en núverandi skattkerfi, þar sem skattprósentan breytist sífellt á ákveðnu bili tekjuskalans.  Þetta má leysa á einfaldan hátt með því að tilgreina krónutöluna sem á að greiða fyrir tilteknar tekjur í stað prósentunnar sem á að greiða.  Vissulega gæti það orðið stór tafla sem væri flett upp í, en flestir nota einhvers konar launaforrit við launaútreikninga og því sæi upplýsingatæknin um úrvinnsluna.

Helstu kostnir við þessa aðferð eru að allir eru að greiða sömu skatta af sömu tekjum án tillits til uppruna þeirra.  Kerfið er vinnuhvetjandi, þ.e. fólk heldur meira eftir af stigvaxandi tekjum.  Það er gagnsætt, þar sem greiddir skattar endurspegla nákvæmlega allar tekjur en ekki bara sumar tekjur.  Ekki þarf lengur að vera með alls konar leikfimi við gerð starfskjarasamninga, svo sem með kaupréttarsamningum, þar sem allar tekjur eru meðhöndlaðar eins.

Ég get alveg skilið að þessi hugmynd stuði einhvern, þar sem lagt er til að heildarskattbyrði þeirra sem lægri hafi tekjur verði meiri en þeirra sem hærri tekjurnar hafa.  Málið er að sú staða er þegar komin upp, þar sem ofurtekjurnar í dag koma í gegnum fjármagnstekjur.  


Ungverjaland - miðja Evrópu

Ég er staddur í Ungverjalandi.  Nánar tiltekið Búdapest.  Borgin er ákaflega falleg, enda er borgarstæðið einstaklega skemmtilegt.  Dóná skiptir borginni í Búda og Pest eins og alltaf hefur verið.  Ég fór á Þjóðminjasafn þeirra Ungverja, sem er til húsa í ægifagurri byggingu/höll á hæð sem gnæfir yfir Dóná Búda megin í borginni.  Það fer ekkert á milli mála að Ungverjar eru stoltir af uppruna sínum, þó það hafi alltof oft verið hlutskipti þeirra að vera undirokaðir af öðrum.  Oftar en ekki hafa þeir farið undan stjórn eins ríkis til þess eins að lenda undir járnhæl annars.  Kannski hafa liðið fáein ár þar sem þeir fengu um frjálst höfuð að strjúka, en svo hefur næsta bylgja innrásar dunið yfir.  Það liggur við að fara þurfi aftur fyrir Kristburð til að finna langt samfellt tímabil, þar sem Ungverjar voru sjálfs síns herrar.  Þeir eiga sína frelsishetju, Lajos Batthyany sem ólíkt okkar frelsishetju, var tekin af lífi vegna þess að yfirmanni austurríska herliðsins í borginni stóð ógn af honum.  Það er hægt að greina það á Þjóðminjasafninu, að Ungverjum gremst þetta ennþá.  Ég taldi ekki hve margar myndir og styttur eru af Batthyany í þeim sal, þar sem frelsisbaráttunni er gerð skil.  Það er eins og Ungverjar hafi misst af gullnu tækifæri við að öðlast sjálfstæði við dauða Batthyanys og að þessi missir hafi dregið þá inni í atburðarás sem var þeim ekkert sérlega geðfeld.

En nú hefur frelsið fengist, bara til þess eins að ganga í Evrópusambandið.  Efnahagur landsins er ekki góður og gerir lítið annað en að versna.  Sagt er að hálf milljón Ungverja hafi misst vinnuna í sumar.  Fyrir 10 milljón manna þjóð er það áfall.  Evrópusambandspeningarnir eru ekki að skila sér, segja innfæddir.  Ríkisstjórnin er hræðileg og spillt.  Sagt er að í henni séu börn og barnabörn fyrrum ráðamanna frá tímum kommúnismans.  Þau hafa bara skipt um nöfn.  (Ég sel þetta ekki dýrar en ég keypti það.)  Maður verður var við eymdina á einn hátt.  Það er útigangsfólk og heimilisleysingjar um allt.  Ég hef hvergi séð eins mikið að fólki í slíkri aðstöðu nema kannski þegar ég var í Bandaríkjunum.  Það er með ólíkindum að sjá fólk á öllum aldri búandi sér til fleti hvar sem hægt er að finna stað sem helst þurr.  Undirgangar eru vinsælir og eru öll skúmaskot nýtt.  Þetta er sorglegt að sjá og í mikilli andstöðu við mannfjöldann sem fyllir allar verslunarmiðstöðvar og verslunargötur.

Ungverjar eru mjög blandaðir, en hinn meðal Íslendingur fellur vel inn í fjöldann.  Ég veit ekki hversu oft ég hef fundið hér tvífara fólks, sem ég þekki heima. Það eina sem greinir þá frá okkur mörlöndunum er tungumálið, sem er ekki auðvelt.

Verðlag hér er mjög lágt miðað við það sem við eyjaskeggjar eigum að venjast.  Gjaldmiðillinn, forintas, er skráð á um 0,34 kr., en verð á vöru er samt það sama hér og heima, nema mynteiningin er önnur.  Kannski ekki alltaf, en alltof oft.  Það sama á náttúrulega við um launin.  Mesta furða að íslenskir ferðafrömuðir hafi ekki uppgötvað Ungverjaland sem kjörinn stað til að fara í verslunarferðir.  Vissulega lengra að fara hingað en til Skotlands og Írlands, en ég trúi að verðlag hér sé lægra.  Svo er bara miklu menningarlegra að heimsækja borgina fögru við ána bláu (sem er að vísu grá).  Búdapest getur státað af nokkrum stórum verslunarmiðstöðvum.  Í hjarta borgarinnar er West End, sem þeir segja að sé sú stærsta í Evrópu.  Þar úir og grúir af alls kyns litlum og meðalstórum verslunum.  Við göngugötuna Váci utca er svo að finna stærri verslanir og í Árkád Bevásár verslunarmiðstöðinni við Örs Vesér Tere lestarstöðina hafa allar verslanir nægt rými.  Þarna eru öll merkin sem við þekkjum á klakanum og svo öll hin sem ekki sjá sér fært að vera þar.  Og verðið er ákaflega hagstætt. 

Almenningssamgöngur eru mjög góðar, þannig að það tekur ekki nema nokkrar mínútur að ferðast endana á milli í borginni.  Manni standa til boða jarðlestir, sporvagnar og nokkrar gerðir strætisvagna.  Dugi það ekki, þá eru mjög ódýrir leigubílar út um allt.  Nú vofir að vísu yfir verkfall starfsmanna í almenningssamgöngum, þannig að kannski er ekki heppilegt að fara stefna mörgum hingað á næstu vikum eða mánuðum.

Ef maður leitar að gistingu hér á internetinu, þá sér maður að hér er mikið framboð af ódýrri gistingu.  Dvelji maður hér í nokkra daga, þá er auðvelt að fá leigða íbúð á þetta 10 til 30 evrur nóttina fyrir alla fjölskylduna.  Vilji maður frekar hótel, þá er hægt að fá ódýra gistingu á jafnvel hinum glæsilegustu hótelum.  Auðvitað er líka fullt af hótelum sem ekki eru góð og maður getur alltaf lent í svikahröppum.  Eina vandamálið er að ekki er flogið beint milli Íslands og Ungverjalands nema í takmarkaðan tíma á hverju ári. 

Fyrir íslenska athafnamenn, þá er ég sannfærður um að hér eru mörg góð kauptækifæri.  Fasteignaverð virðist vera lágt, en það gæti stafað af því að viðhaldi bygginga hefur verið ábótavant.  Nú þar sem verðlag er lágt, þá kostar ekki mikið að gera upp íbúðir, ef maður bara nær að ráða góðan verktaka sem stendur við það sem hann segir.  Tilkoma IKEA hefur líka auðveldað endurnýjun húsbúnaðar.  Kíkti þangað um daginn til að skoða og mér sýndist sem það kostaði innan við 40.000 íslenskar krónur að fylla herbergi með húsgögnum, þ.e. rúmi með góðri dýnu, fataskáp, kommóðu og borði með fjórum stólum, auk ýmissa smáhluta.  Sé ekki fyrir mér að gera svona góð kaup í Kauptúni.


Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband