Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

Af kommum og punktum í tölum

Hvernig á að lesa tölur? Er talan 100,000 lesin 100 eða 100 þúsund?  Það fer eftir því á hvaða tungumáli er verið að rita.  Fréttin um 100 stigin hans Tigers er upprunin frá Bandaríkjunum, þannig hann er með 100.000 stig en ekki 100.  Stöðuna í FedEX keppninni má sjá með því að smella hér.
mbl.is Sabbatini skrefi nær 660 millj. verðlaunapotti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Láglaunalandið Bandaríkin

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að ýmislegt í efnahagslífi Bandaríkjanna stæði veikum fótum.  Táknin hafa verið víða, svo sem í lágum launum, lágu vöruverði, lágu gengi dalsins, miklum viðskiptahalla, miklum fjárlagahalla, vaxandi atvinnuleysi og getuleysi þeirra til að kljást við afleiðingar fellibylsins Katrínar.  Merkilegust hefur mér þótt sú þróun að ýmsar framleiðslugreinar hafa verið að flytjast úr landi, m.a. til Mexíkó og Kína.  Það er eins og innviðir samfélagsins séu ekki nógu sterkir og traustir.  Ég verð að viðurkenna, að mér finnst þetta ekki geta gengið til langframa.

Í mínum huga eru þrjú af þessum atriðum stærstu veikleikamerkin og hugsanlega þau sem eru nú þess valdandi að það hriktir í fjármálakerfi heimsins.  Mikilvægasta atriðið af þessu eru lág laun.  Ekki nokkur maður hér á landi eða í Vestur-Evrópu myndi láta bjóða sér þau laun, sem almennt eru í boði í Bandaríkjunum.  Vissulega fá margir góð laun þar, en almenningur er á launum sem hafa lítið hækkað undanfarin 20 ár eða svo.  Það þarf ekki annað en að fara inn á vefsíður með atvinnuauglýsingum til að sjá hvaða laun eru í boði.  Afleiðingin af lágum launum er að halda verður vöruverði niðri og það er gert með öllum tiltækum ráðum, en helst með því að beina innkaupum til framleiðenda með lágan framleiðslukostnað, sem leiðir af sér að framleiða þarf vöruna í löndum með ennþá lægri launum.  Mér er minnisstætt atriði í mynd eftir Michel Moore, þar sem hann var að fjalla um verksmiðju í Bandaríkjunum sem hafði náð mikilli sölu með eina af afurðum sínum.  Vegna vinsældanna varð að leggja verksmiðjuna niður og flytja framleiðsluna úr landi!

Auðvitað má koma með þau rök að launin séu ekki endilega lág, heldur er það lágt gengi dalsins sem geri launin lág í alþjóðlegum samanburði.  Þetta eru vissulega góð rök, en þau halda ekki, þar sem jafnvel þó gengið væri 20 - 30% hærra, þá eru lægstu laun í Bandaríkjunum smánarleg sem hlutfall af framfærslukostnaði einstaklingsins.  Stór hluti Bandaríkjamanna þarf að hafa verulega mikið fyrir framfærslu sinni.  Ansi margir spjallþættir (sem m.a. eru sýndir í íslensku sjónvarpi) fjalla talsvert um þá fátækt og mér liggur við að segja örbirgð sem margir Bandaríkjamenn búa við.  Það er ekki óalgengt að millistéttarfólk sé í fleiru en einu starfi og að lágmarki vinna báðir foreldrar úti.  Í lágstéttunum, þá virðist ekki óalgengt að fólk sé í þremur störfum og allir sem veltingnum geta valdið eru í því að afla tekna.

Þriðja atriðið sem mér finnst vera varhugavert, er viðvarandi fjárlagahalli þjóðarinnar.  Það er ekki langt í það, að skatttekjur alríkisstjórnarinnar munu ekki duga fyrir öðru en greiðslu vaxta og afborgana lána og hugsanlega útgjöldum til heilbrigðismála.  Ríkisstjórn Bush hefur farið slíkum offörum í lántökum að menn tala um að það sé ekki bara búið að taka lán út á skatta barna núverandi skattborgara heldur líka ófæddra barnabarna þeirra.  Og á meðan laun hins almenna launamanns halda áfram að vera við hungurmörk, þá eru engar líkur á að tekjur alríkisstjórnarinnar aukist nægilega til að rétta skútuna af. 


Ég hélt að svona menn væru ósnertanlegir

Dudek, Belletti og J.A. Reyes hafa allir tryggt liðum sínum stóra titla með góðri frammistöðu í leikjum sem réðu úrslitum.  Hér fyrir nokkrum árum hefði það tryggt þeim öruggan sess hjá liðum sínum um aldur og ævi, en nú er öldin önnur.  Eftir að Dudek tryggði Liverpool Evrópumeistaratitilinn spilaði hann varla heilan leik fyrir liðið.  Belletti var ýtt til hliðar eftir að hann skoraði markið mikilvæga gegn Arsenal.  Og Jose Antonio Reyes hélt að hann hefði nú tryggt sér fastan samning hjá Real eftir að hafa skorað 2 mörk sem tryggðu liðinu spænska meistaratitilinn sl. vor.  Það borgar sig sem sagt ekki að vera hetjan sem tryggði titilinn.
mbl.is Chelsea búið að semja við Belletti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samtals ekki samfellt

Stundum breytir eitt orð innihaldi verulega.  Í fréttinni, sem verið er að þýða hér, segir:

TIGER WOODS has held the World Number One position for a total of 456 weeks and has extended his lead over Jim Furyk, the World Number Two, to 13.41 average points.

Þetta er þýtt:

Tiger Woods frá Bandaríkjunum er sem fyrr í efsta sæti heimslistans í golfi sem var uppfærður í dag en Woods hefur verið í efsta sæti heimslistans í 456 vikur samfellt og er hann langt á undan Jim Furyk sem er annar á heimslistanum.

Þarna hefur þýðandanum orðið á smá skissa.  Það er rétt að Tiger Woods hefur verið lengi efstur á heimslistanum í golfi, en Vijay Singh ýtti Tiger af toppnum 5. september 2004 og hélt efsta sætinu þar til Tiger komst aftur á toppinn 12. júní 2005.  Tiger Woods er því búinn að vera á toppnum samfellt í 112 vikur en hafði áður verið mest 253 vikur samfellt á toppnum, sem er náttúrulega frábær árangur. 

Þess má geta að Tiger komst fyrst í efsta sæti Golf World Ranking listans árið 15. júní 1997, þ.e. viku 24 árið 1997 og hefur því verið í efsta sæti í 456 vikur af síðustu 527. Met sem varla verður nokkurn tímann slegið.

 


mbl.is Woods hefur verið efstur á heimslistanum í 456 vikur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta líður hjá

Það er líklegast aðeins eitt sem er öruggt í þessum heimi og það er að allt mun breytast.  Það ástand sem núna er á mörkuðunum mun liða hjá, alveg eins og það ástand sem var á mörkuðunum síðustu mánuði leið hjá.  Þeir einu sem tapa eru þeir sem neyðast til að selja og það er ekki einu sinni víst að þeir tapi, þar sem hagnaður þeirra verður hugsanlega langt umfram útlagðan kostnað.

Markaðir hafa áður stigið hátt til himins og síðan lækkað.  Fyrsta alvarlega dæmið um þetta var verðbréfahrunið á Wall Street sem leiddi til kreppunnar miklu.  Síðari tímadæmi eru mánudagurinn 19. október 1987, sem oft er nefndur Black Monday, en þann dag varð metlækkun á Dow Jones vísitölunni, þegar hún lækkaði um rúmlega 500 stig, sem á þeim tíma nam tæplega 20% lækkun.  Ef meðfylgjandi mynd er skoðuð þá séðst lækkunin sem hnykkur á miðri línunni.  interact-chartVið sjáum líka að það tók markaðinn ekki nema tvö ár að hrista af sér 20% fall.

Það sama á við um krónuna og verðbréfamarkaðinn.  Gríðarlegar hækkanir hafa verið upp á síðkastið og þær hafa liðið hjá.  Miklar lækkanir hafa orðið og nú eru þær að einhverju leiti að líða hjá.  Hlutirnir versna bara, ef menn panikera, eins og gerðist 19. október 1987, þegar fjöldi manna framdi sjálfsmorð. 

Íslenski markaðurinn hefur hrist af sér allar lækkanir hingað til og ég reikna með að þessi lækkunarhrina líði hjá. 


mbl.is Lækkun í Kauphöllinni orðin 3,35% í dag; langmest í Exista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Barry Bonds - Kóngur hafnaboltans

Í nótt gerðist það sem hafnaboltaaðdáendur hafa beðið eftir.  Barry Bonds, leikmaður hafnaboltaliðs San Francisco Giants, bætti met Hank Aarons ,,sleggjunnar", þegar hann náði ,,heimhlaupi" (,,home run") nr. 756.  Methlaupið, sem jafnframt var 22. heimhlaup Bonds á tímabilinu, kom í 5. lotu leiks Giants gegn Washington Nationals, þegar hann sló boltann út af vellinum og upp í stúkuna fyrir aftan hægri útherjann (right outfielder). Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út á AT&T leikvanginum, heimavelli Giants, og tafðist leikurinn um 10 mínútur á meðan Bonds var fagnað.  Þetta var í þriðja sinn í leiknum, sem Bonds náði höggi (hit), en hann hafði áður náð tveimur höfnum (double) og einni höfn (single).  Honum var skipt út af eftir methlaupið.  Giants töpuðu leiknum 8 - 6.

Aðeins eru fjórir dagar síðan Bonds jafnaði met Hank Aarons (sett árið 1976) sem átti að standa um aldur og ævi.  Hlaupi nr. 755 náði hann sl. laugardag í leik á móti San Diego Padriates.  Þriðji maður á listanum er hin goðsagnakenndi Babe Ruth með 714.  Eru þeir einu mennirnir sem náð hafa að slá yfir 700 heimhlaup á ferlinum.  Hank sló sitt 715. heimhlaup árið 1974 og hélt því metinu í 33 ár.

Það hefur tekið hinn 43 ára gamla Bonds 22 ár að ná metinu.  Á leiðinni að metinu hefur Bonds sett fjölmörg önnur met eða er meðal efstu manna.  Þar má nefna að hann á met fyrir 40  ára og eldri, enginn hefur fengið fríaferð á 1. höfn (göngur/walks) eins oft og hann eða 2.540 og viljandi göngur, 679, hvoru tveggja sem gerir heimhlaupsmetið hans ennþá merkilegra.  Þá er Bonds aðeins annar maðurinn í sögu hafnaboltans til að eiga bæði heimhlaupsmetin, þ.e. heildarfjölda heimhlaupa og fjöldi heimhlaupa á einu tímabili (73, sett árið 2001).  Babe Ruth hélt þessu meti frá 1921 til 1961 eða í rúm 40 ár.  Bonds hefur sjö sinnum verið valinn besti leikmaður Þjóðardeildarinnar, mun oftar en nokkur annar leikmaður í sögu hafnaboltans.  Hann hefur 14 sinnum verið valinn í stjörnulið deildarinnar.

Það fer ekkert á milli mála að Barry Bonds er einn merkilegasti íþróttamaður sögunnar.  Vissulega hefur skugga borið á feril hans, vegna ásakana um steranotkun, sem hann hefur ávalt neitað.  Hefur hann af þeim sökum verið ákaflega óvinsæll meðal aðdáenda annarra liða en á sama hátt elskaður og dáður af aðdáendum Ginats.  Á þessu virðist hafa orðið breyting sl. laugardag, þegar áhorfendur í San Diego stóðu þrisvar á fætur til að hylla Bonds eftir að hann jafnaði met Hank Aarons, en eins einkennilegt og það virðist kom eftir kast frá kastara sem var fyrir nokkrum árum dæmdur í 15 leikjabann vegna steranotkunar.

Hægt er að lesa meira um Barry Bonds og ótrúlegan feril hans með því að smella hér


mbl.is Barry Bonds setur nýtt met í bandaríska hafnaboltanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú var gott að vinna á fartölvu

Það þarf ekki langt rafmangsleysi til að skemma mikla vinnu.  Augnabliks rafmagnsleysið á höfuðborgarsvæðinu áðan varð þess valdandi að símalínur urðu rauðglóandi hjá mörgum tölvufyrirtækjum.  ,,Netþjóninn hrundi.  Hver ber ábyrgð?", spurðu margir sem hringdu til Tölvulistans, tjáði Ásgeir Bjarnason eigandi fyrirtækisins, þegar ég átti leið í nýju búðina hans í Hliðarsmára.  Hann svaraði náttúrulega ,,Ekki við", sem er alveg rétt og einnig efast ég um að Landsnet bæti fjárhagslegan skaða.

Hvað ætli þessa bilun í Hvalfirði og keðjuverkunin, sem hún olli, kosti þjóðarbúið mikið?  Þegar þessi orð eru skrifuð, hafa flestir fengið rafmagn aftur, en þó ekki allir.  Flestir misstu rafmagnið í stutta stund, en einhverjir landshlutar voru án rafmagns í nokkurn tíma.  Í besta falli blikkuðu ljós, en í versta falli hrundu tölvukerfi og símkerfi.  Það hefur því þurft að endurræsa netþjóna og símkerfi, að maður tali nú ekki um einmenningstölvurnar sem fólk vinnur við um allt land.  Í mörgum tilfellum þarf að kalla út þjónustuaðila til að koma öllu í gang aftur, meðan aðrir geta séð um þetta sjálfir.  Þúsund kallarnir eru farnir að fjúka út um gluggana nokkuð víða.  Svo er það eins og á Akranesi, þar sem ekki er búist við að símkerfið komist á fyrr en á morgun.  Hér er hægt að mæla tjónið í tugum þúsunda.  Bara þann hluta tjónsins, sem nær til þess að endurræsa tölvur og símkerfi, er örugglega hægt að meta í tugum milljóna, ef ekki meira.  Þá er eftir að meta tapað vinnu, en hún felst í tvennu.  Annars vegar er það vinnan sem fór í súginn, þegar rafmagnið fór, þ.e. óvistuð skjöl, hálfkláraðar færslur, o.s.frv. og hins vegar tíminn sem fór í að bíða meðan tölvur voru endurræstar, símkerfi fóru að virka o.s.frv.  Fyrra atriðið getur vegið talsvert þungt, þó svo að mörg skrifstofukerfi, svo sem Microsoft Office kerfi, visti sjálfkrafa recovery-skrár, þá gildir það ekki alltaf.  Neyðist maður til að skrifa textann upp á nýtt, þá er ekki víst að hann hafi verið eins góður og þessi sem glataðist.  Síðara atriðið vegur oft þyngra, vegna þess að þá kemur að mannlega þættinum.  Menn standa upp og fá sér kaffi eða fara að kjafta við næsta mann.  Aðrir grípa tækifærið og skreppa út o.s.frv.  Áhrifin af stuttri rafmagnstruflun, geta varað í talsvert langan tíma eftir að rafmagnið er komið á aftur, vegna þess að þetta var óundirbúin truflun.  Það má því búast við því að þessi hluti tjónsins sé margfaldur á við það sem nefnt var áðan.  Nú eru tölurnar alveg örugglega farnar að hlaupa á hundruðum milljóna króna.

Það getur vel verið að vinnan, sem glataðist, vegi ekki þungt miðað við annan tíma sem fer í súginn dags daglega, en þetta er samt tjón sem fyrirtækið þarf að sitja uppi með.  En dragist það á langinn, að vinna fólks komist í eðlilegt horf, þá getur verið gott að snúa sér að því sem alltaf hefur setið á hakanum, þ.e. að taka til á skrifborðinu.  Það getur líka verið gott að hafa undirbúna áætlun um hvernig eigi að bregðast við svona uppákomu.  Hvað á að gera ef netþjóninn endurræsir sig ekki, símkerfið virkar ekki, o.s.frv.  Gott er að meta hvort þörf er á að hafa rafbakhjarl (UPS) til að koma í veg fyrir að mikilvægur búnaður detti út.  Sem betur fer eru mörg fyrirtæki með slíkan búnað, en hvað með hina?  Margir, og ég þar á meðal, nota eingöngu fartölvur, en þær þola tækja best svona truflanir.

Að lokum vil ég nefna, að í maí og júní árið 2000 voru miklar truflanir á raforkukerfinu, sérstaklega suð-vestur horninu, þar sem spennusveiflur voru verulegar.  Þá fór þrennt saman:  Nesjavallarvirkjun var tekin í notkun, verið var að stækka járnblendiverksmiðjuna frekar en að verið var að gangsetja Norðurál og loks var verið að taka í notkun nýja kerskála í Straumsvík.  Núna eru svipaðir hlutir í gangi, þ.e. verið er að taka í notkun álver Fjarðaráls, Fljótsdalsvirkjun verður gangsett fljótlega sem og Hellisheiðarvirkjun.  Tvisvar á stuttum tíma hafa komið upp atvik, sem valdið hafa keðjuverkjun á raforkukerfið.  Spurning er hvort búast megi við fleiri sambærilegum truflunum á næstu vikum og mánuðum?  Hvað sem því líður, þá mæli ég með því að öll fyrirtæki skoði þær öryggisráðstafanir sem þau viðhafa til að koma í veg fyrir tjón vegna rafmagnstruflana og þær áætlanir sem þau hafa til að bregðast við slíkum uppákomum.


mbl.is Truflun í spennustöð olli keðjuverkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útflutningur á raforku

Þessi umræða um útflutning á rafmagni um sæstreng kemur alltaf upp með jöfnu millibili.  Á tímabilinu frá 1978 til 1985 var hún nokkuð áberandi og svo hefur hún dúkkað upp öðru hvoru síðan.  Ég stúderaði raforkukerfi landsins mjög ítarlega á háskólaárum mínum og gerði ein tvö lokaverkefni, þar sem reiknilíkan vegna raforkuframleiðslu var viðfangsefnið.  Annað við Háskóla Íslands og hitt við Stanford háskóla í Kaliforníu, þar sem ég var við nám í aðgerðarannsóknum (operations research). 

Aðalleiðbeinandi minn við lokaverkefnið í Stanford var Alan S. Mann einn helsta ráðgjafa Alþjóðabankans í orkumálum.  Hann var á þeim tíma einnig helsti ráðgjafi Norðmanna, Tyrkja og Pakistana í þessum málum og þá sérstaklega þeim efnum sem sneri að vatnsorku.  Ég bar upp við hann þessa hugmynd um útflutning raforku um sæstreng, þar sem ég vildi taka inn í verkefnið mitt þau mál sem helst voru í umræðunni hér á landi.  Svar hans var einfalt.  Ef Ísland vildi flytja út raforku, þá væri best að gera það á föstu formi með útflutningi afurða þeirra fyrirtækja sem nýta raforku við framleiðslu sína hér á landi.  Að flytja út raforku um sæstreng væri svipað og flytja málmgrýti óunnið frá námasvæði til málmbræðslu í fjarlægu landi eða svo tekin væri samlíking sem við skiljum vel, að flytja fiskinn óunninn úr landi.  Það er staðreynd að því meiri verðmætasköpun sem verður á upprunastað náttúruauðlindarinnar, þess betra er það fyrir samfélagið.  (Hans orð í hnotskurn.)  Þess vegna er, þó það sé hart að viðurkenna, betra að framleiða raforku fyrir álver á Íslandi, en að flytja hana um sæstreng til álvers í, segjum, Skotlandi.

Ég geri mér grein fyrir að Þorkell Helgason er ekki að segja, að hefja eigi útflutning um sæstreng.  Hann er fyrst og fremst að segja að hagkvæmara væri að gera það, en að flytja út vetni. 

Ég held að áður en við förum of langt fram úr okkur og skipuleggjum vetnisútflutning í stórum stíl, þá þarf að ákveða hvaða náttúruauðlindir við ætlum að nota til framleiðslunnar.  Stórvirkjanir virðast ekki vera uppi á pallborði almennings í landinu um þessar mundir og efnileg háhitasvæði eru mörg jafnmikil auðlind ósnortin.  Við verðum líka að gera okkur grein fyrir hve mikla orku þjóðin sjálf þarf til að viðhalda vexti sínum og atvinnulífsins.  Við þurfum að ákveða í hvað önnur orka má fara, þ.e. stóriðju, netþjónabú, olíuhreinsunarstöð, vetnisframleiðslu, ylrækt o.s.frv.  Það er ekki einkamál stjórnmálamanna, hvort heldur á landsvísu eða heima í héraði, eða orkufyrirtækjanna hvar verður virkjað.  Hafnfirðingar hafa sýnt okkur hvernig íbúalýðræði getur virkað og því verður að taka strax tillit til vilja íbúanna.  Kosningar á fjögurra ára fresti eru ekki lengur ávísun á að hægt sé að ákveða hvað sem er. 

Það góða við þessa umræðu, er að hún sýnir okkur hægt er að nota raforku frá virkjunum okkar til annars en stóriðju.  Það eru fleiri möguleikar.  Við skulum samt varast að draga þá ályktun að aðrir kostir en stóriðja séu ekki mengandi.  Það er einfaldlega rangt.  Það getur vel verið að útblástur CO2 sé minni frá netþjónabúi eða vetnisframleiðslu eða raforkuflutningi um sæstreng, en það eru alveg örugglega önnur atriði sem menga og skemma.  T.d. þyrfti sæstrengurinn að liggja á hafsbotninum, sem yrði því fyrir áhrifum af strengnum og röskun vegna lagningu hans.  Á sínum tíma var t.d. talað um að líftæknifyrirtæki væru ekki mengandi eins og stóriðja, en það sem fáir vita er að þau skila m.a. frá sér geislavirkum úrgangi sem þarf að farga á sérstakan hátt.  Það fylgir mengun og röskun allri starfsemi.  Hún er bara mismunandi eftir eðli starfseminnar.  Svo verður hver að dæma fyrir sig hvort viðkomandi finnst hún er ásættanleg eða ekki.


mbl.is Sæstrengur fremur en vetnisflutningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðuleg mótsögn Danske Bank

Danske Bank virðist vera eitthvað í nöp við Ísland.  Í dag birta þeir viðvörun um að allt geti farið í kalda kol hér sem og í Tyrklandi, Ungverjalandi og Suður-Afríku.   Ef greiningarefni bankans er hins vegar skoðað, þá má þar finna nokkrar skýrslur/umsagnir um hina svo kölluðu ,,Emerging Markets" eða ,,nýmarkaði" án þess að fjallað sé um Ísland.  Bankinn hefur m.a. undanfarna tvo mánuði birt skýrslur sem hann kallar Emerging Market Briefer, þar sem fjallað er um horfur á nýmörkuðum. Svo furðulega vill til að hvorki í í skýrslunni fyrir júlí, sem kom út 2/7 og má finna hér, né í skýrslunni fyrir ágúst, sem kom í dag og má finna hér, er að finna stafkrók um Ísland.  Þannig að í almennri greiningarvinnu bankans um nýmarkaði, þá gefur hann ekki út álit sitt á Íslandi, en þegar vara þarf við versnandi horfum og hafa um það verulega neikvæð orð, þá er Ísland allt í einu þess virði að nefna.

Nú þegar þessi viðvörun bankans er lesin frekar, þá er talað um mikinn fjárlagahalla, en það á ekki við um Ísland.  Viðskiptahallinn er mikill, en fjárlög eru ekki bara í jafnvægi, heldur hafa tekjur ríkissjóðs reynst mun meiri en áætlað var.  Síðan er talað um fjármögnun fjárlagahalla sem vandamál og það geti valdið vanda.  Þar sem hallinn er lítill sem enginn, þá getur þetta varla verið vandamál.  Kannski er veriða að vísa í fjármögnun viðskiptabankanna, en íslensku bankarnir eru allir vel fjármagnaðir um þessar mundir og hafa verið að sýna verulega góða afkomu og sama á við um flest önnur íslensk útrásarfyrirtæki.  Loks tala Danir um að kauptækifæri séu ekki mörg.  Íslensk fyrirtæki hafa nú hingað til náð að hrista af sér slíka spádóma Dananna og vonandi gerist það aftur núna.  A.m.k. hafa einhverjar greiningardeildir verið að spá fyrir um 20% hækkun Kaupþings og afkoma Landsbanka og Glitnis er ekkert til að kvarta yfir.  Það stendur því ekki mikið eftir af viðvörun Dananna annað en að krónan gæti veikst, sem allir vita og reikna með.  Til hvers Ísland var haft þarna með veit ég ekki, en það er ekki af þeim ástæðum sem nefndar eru í skjalinu.

Það er alvarlegur hlutur þegar banki eins og Danske Bank kemur með órökstuddar ályktanir um stöðu efnahagsmála hér á landi.  Síðast tók það íslenska hagkerfið heilt ár að jafna sig eftir það sem ég vil kalla dylgjur Dananna.  Nú er spurningin hvort viðbrögð héðan komi skjótt eða hvort við látum þetta yfir okkur ganga.  


mbl.is Danske Bank varar við ástandi mála á nýmörkuðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 37
  • Sl. sólarhring: 66
  • Sl. viku: 345
  • Frá upphafi: 1680483

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 40
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband