Leita í fréttum mbl.is

Ekki ráð nema í tíma sé tekið

Það verður að segjast eins og er, að uppbyggingar- og endurreisnarvinnan gengur allt of hægt.  Sumt sem hefði virkar ofboðslega gott í október er orðið að klóri í bakkann núna í apríl.  Ég skil ekki af hverju viðbrögð stjórnvalda eru svona ómarkviss og hæg.  Það er ekki eins og margir kostir séu í stöðunni.

Ég hef undanfarna 8 mánuði eða svo bent á ýmislegt sem mætti gera til að létta undir með heimilum og fyrirtækjum.  Sumt hefur orðið að veruleika seint um síðir, annað hefur ekki hlotið hljómgrunn og síðan eru nokkur atriði sem sumir aðhyllast en aðrir ekki.  Langar mig að rifja upp helstu tillögur mínar.  Ítarlegan lista yfir skrif mín um þessi efni er hægt að sjá í færslunni Undanfari falls og uppbygging: Tenglar á skrif mín frá því 16. febrúar.  En skoðum tillögur mínar í dagsetningaröð:

  1. Eftir að Íbúðalánasjóður bauð upp á frystingu lána þeirra sem sitja uppi með tvö hús, þ.e. hafa keypt/byggt og geta ekki selt, stakk ég upp á því að önnur fjármálafyrirtæki gerðu slíkt hið sama.  Þetta var 27. ágúst 2008 (sjá Bankarnir bjóði upp á frystingu lána).  Þessu var loks hrint í framkvæmd í vikunni.  Það tók sjö og hálfan mánuð að gera það sem var augljóst.
  2. Mikið hefur verið ritað um leiðréttingu lána.  Ég lagði slíka leið til fyrst í færslu 28. september 2008 (sjá Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum) og hef síðan ítrekað þetta í nokkrum færslum, svo sem Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning, Tillögur talsmanns neytenda, Hinn almenni borgari á að blæða og Færa þarf höfuðstól lánanna niður sem allar birtust á síðasta ári og síðan ótal færslur á þessu ári.
  3. Hugmyndir um hækkun vaxtabóta setti í fram 6. október (sjá Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning).  Nú liggur frumvarp fyrir Alþingi sem gengur allt of skammt og er bara plástur á fótbrot, en ekki úrræði sem skipta sköpum.  Ég legg til fjór- til sexföldun vaxtabóta og afnám eignamarka.  Einnig að fólki verði heimilt að taka vexti bílalána inn í vaxtabótaútreikning.
  4. Í sömu færslu legg ég til:
    1. Hækkun bóta almannatrygginga sem nemur verðbólgu ársins.
    2. Afnám skerðingar vegna fjármagnstekna gagnvart lífeyrisbótum (var gert gagnvart úttekt á séreignasparnaði, en það er ekki nóg)
  5. Ég hvet til þess að strax verði farið í að verja störfin í landinu og halda uppi atvinnustiginu í færslunum Að halda uppi atvinnu skiptir sköpum, Mikilvægast að varðveita störfin og Hvar setjum við varnarlínuna? og raunar geng svo langt að greiða fyrirtækjum frekar fyrir að hafa fólk í vinnu, en að greiða fólki fyrir að hafa ekki vinnu.  Hvet ég jafnframt til þess að farið verði í mannaflsfrekar framkvæmdir, svo sem við frágang skjala í skjalasöfnum, viðhaldsvinnu við byggingar ríkisins og umbætur á ferðamannastöðum.
  6. Ég hef tvisvar komið fram með tillögur að aðgerðahópum, fyrst 6.11.2008 (sjá Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum), og hefur einn þeirra komist á koppinn (Velferðarvaktin).  Ég hef síðan ítrekað þetta nokkrum sinnum (sjá Aðgerðaráætlun fyrir Ísland og aftur hér Aðgerðaráætlun fyrir nýtt Ísland).
  7. Í gríni eða kannski frekar ákúru DV með vali á ríkisstjórn alþýðunnar (sjá Ríkisstjórn alþýðunnar í DV) kom ég með nokkra hugmyndir (8.11.2008):
    1. Skipt yrði um Seðlabankastjóra og útlendingur fenginn í starfið. - Búið og gert
    2. Ég lagði líka til að William H. Buiter og fleiri málsmetandi aðilar yrðu fengnir Seðlabankastjóra til aðstoðar.  - Búið og gert
    3. Ég lagði til að efnt yrði til kosninga og þær haldnar 1. mars 2009.  - Búið og gert, þó dagsetningin sé 25. apríl.
    4. Einnig er gerð tillaga að þjóðstjórn/neyðarstjórn sem starfaði fram á haustið 2010.
  8. 10. nóvember spurði ég Þurfum við stjórnarbyltingu?  - Óhætt er að segja:  Búið og gert.
  9. Nú Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð í janúar og þar hef ég beitt mér fyrir aðgerðum.
  10. Ég bendi síðan á í færslu frá 19. janúar að hægt er að nota ýmsar aðgerðir sem boðaðar hafa verið til að bjarga Seðlabankanum til að bjarga heimilunum (sjá Björgunaraðgerðir vegna Seðlabankans geta nýst heimilunum og Tillaga um aðgerðir fyrir heimilin) og síðar bendi ég á að nota megi afskriftir bankanna í sama tilgangi (sjá meðal annars Taka á sig tapið hjá þeim stóru, en hvað með litlu aðilana?, Það er víst hægt að færa lánin niður).  Þetta er í grunninn það sem Framsókn, Tryggvi Þór Herbertsson og Lilja Mósesdóttir hafa öll tekið upp á sína arma og eru útfærslur á hugmyndum mínum í lið 2 að ofan.
  11. 23. janúar geri ég aftur tillögu að þjóðstjórn/neyðarstjórn, en auk þess tillögu að stjórnlagaþingi með meiru (sjá Oft var þörf en nú er nauðsyn).
  12. Ég geri síðan tilraun til að greina vanda heimilanna í færslunni Vandi heimilanna: Tilraun til greiningar.  Þar skoða ég ýmis úrræði og hugmyndir, sumt frá mér komin annað frá öðrum:
    1. Greiðsluaðlögun (upphafleg hugmynd frá Halli Magnússyni) - Búið og gert vegna almennra skulda, veðskuldir ennþá í meðferð þingsins.
    2. Útgreiðsla séreignasparnaðar (veit ekki hver átti fyrstur hugmyndina) - Komið í framkvæmd (Viðbót:  Samkvæmt athugasemd þá segir Jakob Þór Haraldsson að hann hafi fyrst komið fram með þessa hugmynd í ágúst eða september 2008.)
    3. Kúlulán (Guðlaugur Þór kom með þessa hugmynd)
    4. Frysting eða lenging lána (m.a. hugmynd frá mér í ágúst 2008) - komið í framkvæmd
    5. Skilmálabreytingar lána (hugmynd Hagsmunasamtaka heimilanna)
    6. Niðurfærsla og afskriftir höfuðstóls lána (upphafleg hugmynd frá mér í september 2008)
    7. Stöðvun aðfara (krafa Hagsmunasamtaka heimilanna) - komið í framkvæmd
    8. Breyta lögum um nauðungarsölur til að koma í veg fyrir að sýslumenn standi fyrir brunaútsölu. (Krafa HH)
    9. Jafna ábyrgð milli lánatakanda og lánveitanda (krafa HH).
    10. Skuldir takmarkist við það sem sett er að veði (krafa HH).
    11. Skoða áhrif minnkandi neyslu á hagkerfið og velferðarkerfið
    12. Takmarka áhrif einstakra kröfuhafa (með óverulega hagsmuni) til að koma í veg fyrir samninga
  13. Í færslu 13. febrúar velti ég fyrir mér hvort lagalegur grundvöllur er fyrir því að ógilda lánasamninga, þar sem forsendubrestur hafi orðið.  Nokkrir hópar eru þegar að skoða þetta.
  14. Stöðvun nauðungarsölu var komið á með lögum fyrir nokkrum vikum.  Í upphaflega frumvarpinu var gert ráð fyrir að nauðungarsölur yrðu stöðvaðar til 31. ágúst.  Ég kom að þessu máli sem umsagnaraðili fyrir höng Hagsmunasamtaka heimilanna og gerði þar þá tillögu að frestunin yrði til 31. október.  Alþingi féllst á það.
  15. Um miðjan febrúar geri ég tillögu um að það sé hreinlega gefið upp á nýtt (sjá Game over - Gefa þarf upp á nýtt).  Ég var svo sem ekki einn um þá hugmynd á þessum tíma, en henni hefur vissulega vaxtið fiskur um hrygg.
  16. 19. febrúar bendi ég á þá augljósu staðreynd að bHagsmunir heimilanna eru hagsmunir þjóðarinnar.  Nú bíð ég eftir því að stjórnmálamenn átti sig á því.
  17. Ég hef ítrekað hvatt til jafnræði sparnaðarforma, en þar hefur lítið gengið.  600 milljarðar fóru í að bjarga innistæðum í bönkunum og yfir 200 milljarðar í að rétta að nokkru við peningasjóði, en almennir hlutabréfaeigendur, sjóðfélagar í lífeyrissjóðum og fasteignaeigendur eiga að bera tap sitt að fullu.  Hvers vegna á einn aðili að taka á sig milljóna eða tug milljóna tap á eigin fé í fasteign meðan nágranni hans fær milljónir eða tugir milljóna af ótryggðum innistæðum greiddar út?  Mér finnst þetta ekki snúast um að ekki eigi að tryggja innistæðurnar.  Það á að gæta jafnræðis.
  18. Loks vil ég nefna nokkrar tillögur að nýjum lánum.  Landsbankinn heldur greinilega að fólk sé kálhausar.  Ég segi ekki meir.  Stýrivaxtatryggðu lánin þeirra er einn stór brandari og vara ég fólk sterklega við að falla í þá gildru að taka slík lán.  Ég kom því í færslunni Óverðtryggt en samt betur tryggt en verðtryggt! með nokkrar hugmyndir sem eru mun hagstæðari fyrir lántakendur:
    1. Tengja vexti af lánunum við vexti af sparifé.   Nú eru t.d. vextir af almennum sparisjóðsbókum Landsbankans 6,5%, þ.e. 10,5% lægri en stýrivextir.
    2. Haldið verði áfram að bjóða upp á verðtryggð lán, þar sem hækkun höfuðstóls er greidd upp jafnóðum.  Það er alveg sama trix, bara önnur aðferð við tryggingu. 
    3. Að bankinn taki á sig sömu áhættu af verðbólgu og lántakandinn, þ.e. aðilar deili verðbólguáhættunni á milli sín.  Sé verðbólgan 10%, þá greiðir lántakandinn 5% og lánveitandinn tekur á sig 5%. 
    4. Að boðið verði upp á verðtryggð lán með þaki á verðtrygginguna.  Þetta þak verði 4%.  Fari verðbólga umfram 4%, þá falli það sem umfram er niður.  Einnig verið sett þak á nafnvexti lánanna.
    5. Boðið verði upp á lán með breytilegum óverðtryggðum vöxtum.  Lánin eru til langs tíma, en vextir haldast fastir í 3 ár í senn.  Þá er samið um vextina til næstu þriggja ára og jafnframt getur lántakandi greitt lánið upp, þ.e. flutt viðskiptin annað.
    6. Síðan það sem ég vildi allra helst sjá.  Óverðtryggð húsnæðislán með 2% nafnvöxtum.
Nú væri gaman að sjá hvort tvær síðustu ríkisstjórnir hafi verið svona frjóar og ekki síður áhugavert að sjá hvort eitthvað af þessum hugmyndum hafi eða muni rata inn í stefnuskrár flokkanna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Tvær síðustu ríkisstjórnir hafa því miður ekki ennþá áttað sig á því hvert vandamálið er.  Ég sé að þú skilur hver vandinn er en eitthvað stöðvar þingmenn í að skilja vandann. Nú væri gott að finna hvða það er sem stöðvar skilning þingmanna svo hægt sé að losa um þá stíflu svo hægt sé að virkja okkar þingmenn til góðra verka.

Offari, 9.4.2009 kl. 16:56

2 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Kæri Marinó í lið 12 (grein 2) þá segist þú ekki vita hver kom fram með þá hugmynd að hægt yrði að greiða út "séreignasparnað" - sú snildar hugmynd kom frá mér í ágúst eða september 2008.  Jakob Þór Haraldsson & ráðgjafafyrirtækið Heilbrigð skynsemi, vinsamlega koma því að - takk....  Ég er sammála öllu því sem "þú og hagsmunasamtök heimilina eru að reyna að gera fyrir þjóðina" - hið besta mál..!

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson, 9.4.2009 kl. 18:30

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Jakob, þetta er komið inn

Marinó G. Njálsson, 9.4.2009 kl. 18:50

4 Smámynd: Jakob Þór Haraldsson

Tusen takk, - mercy - kærar þakkir fyrir það Marinó..!

Jakob Þór Haraldsson, 9.4.2009 kl. 19:23

5 identicon

Frábær samantekt og hvet ég þig til þess að fá birt í blöðum og senda sem link á alla þingmenn, að auki.

Ein viðbótarútfærsla gæti verið sú hugmynd að húsnæðislán bæru 2% vexti auk launavísitölu, eða miðuðu við vísitölu lágmarkslauna. Þannig ættu bæði lántakandi og lánveitandi að geta unað glaðir við sitt.

Doddi D (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 05:08

6 identicon

Sæll Marinó. Þakka þér fyrir þína "stjórnarandstöðu" með hag heimila að brjósti. Virkilega fróðlegt að lesa í gegnum staðreyndirnar sem þú birtir og tek undir með síðasta ræðumanni. Tók mér svo það bessaleyfi að setja link í þessa færslu þína hjá mér.  

Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 09:21

7 identicon

Takk fyrir að halda þessu á lofti í allan vetur, Marinó. Það er með eindæmum að ekki sé hlustað á ykkur sem berjist á hæl og hnakka að fá ráðamenn til að fara í þessar nauðsynlegu aðgerðir. Þetta er í pólitískum skotgröfum og ömurlegt að lesa sumt sem er skrifað, finnst oft að verið sé að tala niður til skuldara, hvort sem það eru lítil og meðalstór fyrirtæki eða heimili. Takk aftur fyrir að berjast!

Soffía (IP-tala skráð) 10.4.2009 kl. 09:33

8 Smámynd: Haukur Nikulásson

Viðbrögð stjórnvalda eru svona hæg Marinó af því að þau Jóhanna og Steingrímur þekkja ekki þessa erfiðleika af eigin raun. Þau eru búin að vera á vernduðum vinnustað of lengi.

Þegar svona stórkostlegt hrun á sér stað þarf stórkostlegar aðgerðir til að rétta málin af aftur og það virðist ofar þeirra skilningi.

Einnig er stór og sorglegur þáttur í þeirra málflutningi að þeim virðist ekki ljóst að skuldarar þessa lands hafa verið teknir í rassgatið svo um munar í brostnum forsendum og svikum. Þau sjá ekkert rétt við að leiðrétta skuldastöðu jafnt og eignastöðu og það er svo mikið skilningsleysi að það tekur ekki tali.

Haukur Nikulásson, 10.4.2009 kl. 10:11

9 identicon

Hvers vegna í ósköpunum að bæta við vaxtagreiðslum af bílalánum inn í vaxtabótastofninn?

Bílar og útgjöld tengd bifreiðum eru í flestum tilfellum af sama meiði og aðrar neysluvörur. Í sama flokki og mjólk og brauð. Geti maður gúdderað þá skýringu, þá sést jafnframt að bílalán eru eins og langtímalán fyrir hverjum öðrum neysluvörum. Hvers vegna eiga allir (skattgreiðendur) að borga tilbaka vexti til þeirra sem taka slík lán, í formi vaxtabóta?

Vaxtabætur er umbun fyrir að borga vexti, sem til koma vegna lántöku. Með hækkunum þeirra er verið að umbuna þeim sem koma sér í miklar skuldir. Ég get svosem skilið þrýsting á það að auka þessar bætur núna, vegna ástandsins, en eina vitræna langtímamarkmiðið hlýtur að vera að eyða þeim út.

Þrándur (IP-tala skráð) 11.4.2009 kl. 14:23

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þrándur, vegna þess að hækkun bílalána vegna lækkunar gengis var alveg jafn ósanngjarnt og hækkun húsnæðislána.  Þetta snýst allt um að annar aðili lánasamnings var í ósanngirnri stöðu til að hafa áhrif á framvindu samningsins.  Af hverju á tegund lánsins að skipta máli, ef einstaklingur hefur verið beittur órétti? 

Tillaga mín snerist um að gera fólki kleift að lifa af.  Ég setti a.m.k. fram tillögur, sem er meira en flestir aðrir, þar með talið allir þingmenn þjóðarinnar, gerðu.  Ég taldi að ástandið væri orðið það alvarlegt í september að úrræða væri þörf.  Bentu mér á einn stjórnmálamann sem var sama sinnis!

Marinó G. Njálsson, 11.4.2009 kl. 14:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 1680019

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband