Leita í fréttum mbl.is

Óverðtryggt en samt betur tryggt en verðtryggt!

Ég fagna því að Landsbankinn ætli að bjóða óverðtryggð húsnæðislán, en vil samt vara við því að lánin eru samt á vissan hátt verðtryggð eða a.m.k. vel tryggð.  Stýrivaxtatenging lánanna gerir það nefnilega að verkum, að á þeim eru nær undantekningarlaust raunvextir upp á 3,5 til 9,5%.  Það er nefnilega þannig að frá því í janúar 1994 hafa raunstýrivextir, þ.e. stýrivextir umfram verðbólgu, aðeins 10 sinnum farið undir 2%, 45 sinnum verið á bilinu 2 - 4%, 75 sinnum verið á bilinu 4 - 6%, 39 sinnum verið á bilinu 6 - 8% og 9 sinnum verið hærri en 8%.  Við erum að tala um RAUNSTÝRIVEXTI.  Meðalraunstýrivextir frá janúar 1994 eru 4,70% og miðgildi 4,69%.  Miðað við þetta, þá væru meðalvextir af þessum lánum 6,2% umfram verðbólgu eða talsvert hærri en þegar best lét haustið 2004 og 0,8% hærra en núverandi vextir Íbúðalánasjóðs.  Ef við horfum 5 ár aftur í tímann, þá eru meðalraunstýrivextir 5,1% og meðalgildið 5,28%.

Eins og þetta boð Landsbankans lítur út í mínum augum, þá er þetta bara enn ein leið til verðtryggingar.  Eina leiðin fyrir þessa vexti til að lækka er að verðbólgan lækki.  Munurinn er að verðbótaþátturinn leggst ekki á höfuðstólinn heldur greiðist út á hverjum gjalddaga.  Miðað við 18% stýrivexti og 10 milljón króna eftirstöðvar, þá þýðir það 1.950 þúsund á ári eða 162 þúsund á mánuði í vaxtagreiðslu.

Ég vara fólk við að taka svona láni án þess að liggja vel yfir öllum tölum.

Mig langar að koma með nokkrar hugmyndir að lánum, sem lánastofnanir geta velt fyrir sér að bjóða upp á:

  1. Tengja vexti af lánunum við vexti af sparifé.   Nú eru t.d. vextir af almennum sparisjóðsbókum Landsbankans 6,5%, þ.e. 10,5% lægri en stýrivextir.
  2. Haldið verði áfram að bjóða upp á verðtryggð lán, þar sem hækkun höfuðstóls er greidd upp jafnóðum.  Það er alveg sama trix, bara önnur aðferð við tryggingu. 
  3. Að bankinn taki á sig sömu áhættu af verðbólgu og lántakandinn, þ.e. aðilar deili verðbólguáhættunni á milli sín.  Sé verðbólgan 10%, þá greiðir lántakandinn 5% og lánveitandinn tekur á sig 5%. 
  4. Að boðið verði upp á verðtryggð lán með þaki á verðtrygginguna.  Þetta þak verði 4%.  Fari verðbólga umfram 4%, þá falli það sem umfram er niður.  Einnig verið sett þak á nafnvexti lánanna.
  5. Boðið verði upp á lán með breytilegum óverðtryggðum vöxtum.  Lánin eru til langs tíma, en vextir haldast fastir í 3 ár í senn.  Þá er samið um vextina til næstu þriggja ára og jafnframt getur lántakandi greitt lánið upp, þ.e. flutt viðskiptin annað.
  6. Síðan það sem ég vildi allra helst sjá.  Óverðtryggð húsnæðislán með 2% nafnvöxtum.
Núverandi lánafyrirkomulag er eiginlega aðför að lántakendum og verðbólguhvetjandi.  Viljum við fá stöðugleika í efnahagslífið, þá verða lánveitendur að taka ábyrgð.  Það gengur ekki að Seðlabankinn sé einn um að stjórna peningamálum, ef lánastofnanir fara sínu fram.  Ég held að þurfi lánastofnanir að taka á sig hluta verðbólgunnar, þá breytist útlánastefna þeirra.  Þenslan verður óvinur þeirra, en ekki helsta tekjulind, eins og núna.
mbl.is Landsbankinn býður óverðtryggð íbúðalán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Er verðhjöðnunin að byrja? Þarf þá ekki að losna við verðtryggðu lánin áður en verðhjöðnunin hefst handa við að éta upp verðtryggðu skuldirnar?  Annars hef ég litla trú á að verðhjöðnun verði fyrr en krónan er fallin allveg niður.

Trúverðuleiki bankana fær menn til að halda að hér sé verið að setja gildru Og það sama halda menn um tilögu Framsóknarflokksins.

Offari, 6.4.2009 kl. 19:14

2 identicon

Þetta er rétt hjá þér - þessi lán eru með okurvöxtum, breytilegum vöxtum (til að geta hækkað vextina ef allt fer til fjandans) og svo frestun afborgana og hluta vaxtagreiðslna í einhvern tíma... kom on, þetta hljómar bara eins og verðtryggð lán, höfuðstóllinn hækkar þó þú borgir af þeim, þú veist aldrei hvernig framtíðin verður (breytilegir vextir)... bara auglýsingatrix

Gullvagninn (IP-tala skráð) 6.4.2009 kl. 20:12

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mér finnst þessi setning alveg óborganleg:

Eins henta lánin þeim sem vilja skilmálabreyta íbúðalánum í erlendri mynt yfir í íslenskar krónur og telja að óverðtryggðir vextir muni lækka í framtíðinni og krónan veikjast.

Hvað gerist ef krónan veikist?  Þá fer verðbólgan af stað.  Í framhaldinu hækka stýrivextir til að halda þeim hærri en verðbólgan er.  Hættið að blekkja fólk.  Eini munurinn á þessum lánum og verðtryggðum lánum, er að lántakendur greiða verðbæturnar strax.   Sá sem er með 30 milljónir áhvílandi í 10% verðbólgu þarf líklegast að greiða 16,2% vexti eða 4 milljónir 860 þúsund.  Ætli Landsbankinn aðnota 7% þakið, er greiðslan samt 2,1 milljón og 2,7 milljónir bætast við höfuðstólinn.  Úps, það er búið að "verðbæta" höfuðstólinn.

Marinó G. Njálsson, 6.4.2009 kl. 21:58

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

EFTIRFARANDI ER EKKI ÆTLAÐ SEM RÁÐLEGGINGAR UM FJÁRFESTINGAR NÉ KAUP EÐA SÖLU EIGNA, HVORKI ÁÞREIFANLEGRA NÉ ÓEFNISLEGRA. HÖFUNDUR HEFUR EKKI ATVINNU AF FJÁRMÁLARÁÐGJÖF OG AFSALAR SÉR ÞVÍ LAGALEGRI ÁBYRGÐ ÞAR AÐ LÚTANDI. 

Alveg sama hvernig þetta er reiknað, þá græðir bankin ef ekki gerast kraftaverk í efnahagslífinu á næstunni. Þetta er því mun betri trygging fyrir fjármagnseigandann en verðtryggingin fyrir það sem í vændum er. Ég ætla að halda dauðahaldi í verðtryggða lánið mitt með 4,8% vöxtunum og horfa á höfuðstólinn súnka niður í þeirri verðhjöðnun sem framundan er. Verði öðrum að góðu.

Guðmundur Ásgeirsson, 7.4.2009 kl. 00:01

5 identicon

Hvað með 2% vexti og launavísitölu?

Doddi D (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 01:19

6 identicon

Það er mikill misskilningur að verðtryggingin sá alvont fyrirbæri. Ég segi síður en svo, enda má segja að þjóðin hafi haft til lengri tíma mjög góða reynslu af verðtryggingunni ef grannt er skoðað  og fordómalaust.

Vextir án verðtryggingar verða nefnilega alltaf dýrari í raun og líka áhættumeiri fyrir skuldarann til lengri tíma litið.

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 7.4.2009 kl. 06:21

7 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Marinó. Ef þú veist af fagfjárfestum, sem eru til í að kaupa skuldabréf í íslenskum krónum með þeim skilmálum, sem þú telur þarna upp, þá skalt þú endilega láta forráðamenn Íbúðalánasjóðs vita af þeim. Ég þori að fullyrða að þeir vita ekki af neinum slíkum fjárfestum.

Því miður geta hvorki Íbúðalánasjóður né bankarnir útvegað lán á betri kjörum en þeri geta sjálfir fengið til að fjármagna lánveitingar sínar.

Sigurður M Grétarsson, 7.4.2009 kl. 12:20

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður, ef mönnum bjóðast ekki betri kjör, þá taka þeir þessum kjörum.  Svo einfalt er það.  Þetta snýst bara um það að skortur hefur verið á peningum í umferð fyrir bankana og því hafa þeir sprengt upp vaxtarammann.  Ef hæsta ávöxtun sem hægt er að fá gefur 5% ávöxtun, hvort er þá betra að fá þó 5% eða geyma peninginn undir koddanum og fá ekki neitt?

Marinó G. Njálsson, 7.4.2009 kl. 12:26

9 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Það eru margar aðra fjárfestingaleiðir í boði heldur en að lána til húsnæðiskaupa. Þegar gjaldeyrishöftin verða minnkuð mun mönnum standa til boða enn fleiri fjárfestingakostir. Það mun því aldrei verða svo að ekkert annað standi til boða en húsnæðisskuldabréf.

Ef raunvextir eru neikvæðir er hagkvæmara að kaupa gull heldur en að lána peningana. Það er því óraunhæft að gera ráð fyrir því að fagfjárfestar kaupi skuldabréf með neikvæðri raunávöxtun eða með mikilli hættu á slíku.

Sigurður M Grétarsson, 7.4.2009 kl. 12:32

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður, út um allan heim er boðið upp á langtímalán með lágum vöxtum, t.d. er vaxtaþak í Danmörku 5%.  Af hverju eiga önnur lögmál að gilda á Íslandi?

Marinó G. Njálsson, 7.4.2009 kl. 12:38

11 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Af nákvæmlega þeirri ástæðu, sem ég nefndi í fyrri athugasemd minni. Það eru til fagfjárfestar, sem eru tilbúnir að kaupa óverðtryggð langtímaskuldabréf í dönskum krónum með 5% vöxtum. Því segi ég. Ef þú veist um einhverja fagfjárfesta, sem eru tilbúnir að kaupa sams konar bréf í íslenskum krónum þá skalt þú endilega láta forráðamenn Íbúðalánasjóðs vita.

Ég er alveg sammála þér í því að það er mjög mikilvægt að íslensk heimili geti fengið sams konar kjör á sínum lánum. Slíkt er hins vegar ekki á ákvörðunarvaldi Alþingis eða ríkisstjórnar Íslands. Það er einfaldlega ákvörðun aðila á markaði. Ef það á að fara að banna þær gerðir skuldabréfa, sem þeir eru tilbúnir til að kaupa þá fjárfesta þeir bara annars staðar. Ef stjórnvöld ákveða með lögum lægri vexti en skapast á frjálsum markaði þá verður afleiðingin sú að það framboð á lánsfé verður minna en eftirspurn og þar með þarf að fara að handstýra því hverjir fá lán og hverjir ekki og það endar með pólitískum klíkuskap. Þetta þekkja þeir, sem muna eftir áttunda áratugnum.

Ég sé aðeins eina lausn á þessu. Við göngum í ESB og tökum upp Evru. Þá geta íslensk heimili fengið lán á þeim kjörum, sem myndst á Evrusvæðinu. Þangað til sitjum við uppi með íslensku krónuna og lánskjör, sem myndast á skuldabréfamarkaði með íslenskar krónur.

Sigurður M Grétarsson, 7.4.2009 kl. 15:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 1678220

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband