Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013
26.4.2013 | 00:21
Ef það væri persónukjör..
Ég hef verið að skoða listana sem eru í framboði fyrir komandi kosningar í Suðvesturkjördæmi, þar sem mér er náðarsamlegast leyft að kjósa, þó ég hafi lögheimili í Danmörku. Ég viðurkenni fúslega, að á flestum listum eru einstaklingar sem ég myndi gjarnan vilja sjá inni á þingi, en líka aðrir sem mér hryllir við að eigi möguleika á þingsæti. Ég gerði það því að gamni mínu að setja saman lista yfir þá 13 einstaklinga úr Suðvesturkjördæmi sem ég myndi velja væri persónukjör. Listinn er raðaður eftir framboðum og vel ég eingöngu úr hópi 10 efstu á hverjum lista.
A: Björt framtíð: Guðlaug Kristjánsdóttir (3. sæti)
B: Framsókn: Eygló Harðardóttir (1. sæti) og Willum Þór Þórsson (2. sæti)
D: Sjálfstæðisflokkur: Ragnheiður Ríkharðsdóttir (2. sæti)
I: Flokkur heimilanna: Birgir Ö. Guðjónsson (3. sæti)
L: Lýðræðisvaktin: Lýður Árnason (1. sæti)
S: Samfylkingin: Katrín Júlíusdóttir (2. sæti) og Margrét Kristmannsdóttir (9. sæti)
T: Dögun: Margrét Tryggvadóttir (1. sæti) og Jón Jósef Bjarnason (3. sæti)
V: Vinstrihreyfingin - grænt framboð: Ögmundur Jónasson (1. sæti) og Kristín Helga Gunnarsdóttir (8. sæti)
Þ: Píratar: Birgitta Jónsdóttir (1. sæti)
Tekið skal fram að mun fleiri komu til greina, en þetta eru þeir 13 einstaklingar sem enduðu á topp 13 hjá mér. 8 konur og 5 karlar. Blanda af öllum listum, enda er ég að velja fólk sem ég treysti til góðra verka, en mun ekki standa í málþófi og vitleysu. Ég náttúrulega þekki ekki nema brot af því fólki sem er á listunum og því gæti mér hafa yfirsést góðir einstaklingar.
Stóru nöfnin sem vantar eru formenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar. Þeir enduðu í sætum 15 til 20.
Renndi yfir önnur kjördæmi og gat ansi oft ekki fyllt þingmannatöluna! Líklegast vegna þess að ég kann ekki deili á fólkinu, en ekki vegna mannkosta þess. Ég hefði valið 4 af A-lista, 11 af B-lista, 7 af D-lista, 2 af G-lista, 1 af H-lista, 3 af I-lista, 7 af L-lista, 6 af S-lista, 7 af T-lista, 6 af V-lista og 4 af Þ-lista og 5 sæti gat ég ekki fyllt! Með þessa skiptingu inni á þingi, þá er ljóst að minnst þyrfti 4 flokka af 11 til að mynda meirihluta! Fjör á þingi með slíka fjölbreytni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.12.2013 kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.4.2013 | 16:47
Brýnustu málin eftir kosningar - endurbirt færsla með viðbót
Mig langar að endurbirta hér færslu sem ég birti fyrir fjórum árum nánast upp á dag, þ.e. 23. apríl 2009. Klippi þó ofan af henni efsta hlutann, þar sem hann er um borgarafund sem var tilefni færslunnar og felldi út atriði sem voru bundin við tíma. Færslan snýst um þau mál sem ég taldi brýn fyrir síðustu kosningar og sýnist mér ansi þau vera enn á listanum fyrir kosningarnar framundan.
Brýnustu málin eftir kosningar
Mig langar að skoða hvað mér finnast vera brýnustu verkefni næstu ríkisstjórnar. Þau voru brýnustu verkefni núverandi ríkisstjórnar og ríkisstjórnarinnar þar á undan. Ég geri mér engar vonir um að næstu ríkisstjórn farnist neitt betur en hinum fyrri en útiloka það ekki.
1. Koma á fót starfhæfu bankakerfi: Meðan fjármálakerfið virkar ekki eðlilega, þá flæðir blóðið ekki um hagkerfið. Það er betra að ríkisstjórnin einblíni á að byggja upp einn banka og geri hann vel starfhæfan, en að reyna að byggja upp þrjá og hjakka sífellt í sama farinu. Lausnin er að kröfuhafar gömlu bankanna taki yfir t.d. Íslandsbanka og Kaupþing, en ríkið haldi Landsbankanum. Ríkið leggi sínum banka til þá 385 milljarða sem áttu alls að fara inn í bankana, en kröfuhafarnir sjái um að endurfjármagna bankana sem þeir fá í hendur. Þessu þarf að ljúka innan 30 daga.
2. Stöðva aukningu atvinnuleysis: Það hefði átt að vera fyrsta hlutverk ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að gera allt til að aðstoða fyrirtæki við að hafa fólk í vinnu. Í staðinn var farin sú leið að safna fólki á atvinnuleysisbætur. Þetta voru líklegast stærstu mistök þeirrar ríkisstjórnar í kjölfar bankahrunsins. Núverandi ríkisstjórn hefur ekki boðið upp á nein úrræði. Fyrir hvert starf sem hefur tapast, þarf að vinna upp eitt starf. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar skyldi ekki þennan einfalda sannleika. Þess vegna eru hátt í 20 þúsund manns án atvinnu. Ég hef lagt til að fyrirtækjum sé borgað fyrir að hafa fólk í vinnu í staðinn fyrir að borga fólki fyrir að hafa ekki vinnu. Ráðast þarf í verkið strax. Ekki eftir viku eða hálfan mánuð eða í haust.
3. Skapa atvinnulífinu eðlilegt rekstrarumhverfi svo endurbygging þess geti hafist: Það er atvinnulífið sem skapar störfin. Ríkisstjórnir skapa skilyrðin. Búið er að setja milljarða á milljarða ofan í atvinnuleysisbætur, sem hægt hefði verið að nota til að aðstoða atvinnulífið. Fái einn ríkisbanki 385 milljarða framlag frá ríkinu, þá ætti að vera hægt að koma hjólum atvinnulífsins í gang. Kröfuhafar hinna tveggja sjá um að endurfjármagna þá og samkeppni myndi vonandi skapast. Ráðast þarf í víðtækar breytingar á lögum. T.d. þarf að fella tímabundið niður öll launatengd gjöld. Fyrirtæki eru að greiða hátt í 14% í mótframlag í lífeyrissjóð og tryggingargjald. Með því að fella þessi gjöld niður í 12 mánuði má skapa skilyrði fyrir 8 - 10% fjölgun starfa og 4% hækkun launa, þar sem launakostnaður lækkar sem þessu nemur. Síðan má endurvekja þessi gjöld á næstu 3 - 5 árum, þegar efnahagslífið hefur rétt úr kútnum. Ég átta mig á því að sum fyrirtæki þurfa ekki á þessu að halda, en hvað með það. Við erum að bjarga fjöldanum.
4. Skapa heimilunum eðlileg skilyrði svo þeim hætti að blæða: Atriði 1 og 3 hjálpa heimilunum mikið, en það þarf meira til. Lækka þarf greiðslubyrði lána og leiðrétta höfuðstól þeirra. Með því er komið til móts við heimilin vegna óréttlátrar hækkunar höfuðstól vegna hruns krónunnar. Heimilin eru mörg hver komin með bakið upp við vegg. Úrræði þessara heimila er að hætta að greiða lánin eða hætta neyslu. Margir eiga ekki aðra úrkosti. Við skulum hafa í huga að sífellt stærri hluti lána heimilanna eru að tapast vegna þess að þau ráða ekki við þau. Því fyrr sem lánveitendur átta sig á því að hér er um sokkinn kostnað að ræða og fara í afskriftir, þess betra. [..]
5. Fara þarf í aðgerðir til að verja velferðarkerfi: Lífeyrisþegar hafa margir farið mjög illa út úr kreppunni. Huga þarf að stöðu þeirra. Einnig þarf að huga að stöðu atvinnulausra, en enginn nær að framfleyta sér og fjölskyldu á atvinnuleysisbótum samhliða því að greiða af húsnæðislánum.
6. Móta þarf framtíðarsýn fyrir Ísland: Það er tími til kominn að stjórnvöld ákveði hvaða stefnu á að taka í nokkrum grundvallar málum. Ég gerði tillögu að eftirfarandi aðgerðahópum í færslu hér 6.11.[2008] og 24.11.[2008] og er ég eiginlega gáttaður á því að þeir hafi ekki verið settir á fót strax á fyrstu dögum eftir bankahrunið:
- Fjármálaumhverfi: Verkefnið að fara yfir og endurskoða allt regluumhverfi fjármálamarkaðarins.
- Bankahrunið og afleiðingar þess: Verkefnið að fara yfir aðdraganda bankahrunsins svo hægt sé að læra af reynslunni og draga menn til ábyrgða.- Er í vinnslu
- Atvinnumál: Verkefnið að tryggja eins hátt atvinnustig í landinu og hægt er á komandi mánuðum.
- Húsnæðismál: Verkefnið að finna leiðir til að koma veltu á fasteignamarkaði aftur á stað.
- Skuldir heimilanna: Verkefnið að finna leiðir til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna í landinu.
- Ímynd Íslands: Verkefnið að endurreisa ímynd Íslands á alþjóðavettvangi.
- Félagslegir þættir: Verkefnið að byggja upp félagslega innviði landsins.
- Ríkisfjármál: Verkefnið að móta hugmyndir um hvernig rétta má af stöðu ríkissjóðs. [- Lokið]
- Peningamál: Verkefnið að fara ofan í peningamálastefnu Seðlabanka Íslands, endurskoða hana eftir þörfum og hrinda í framkvæmd breyttri stefnu með það að markmiði endurreisa traust umheimsins á Seðlabanka Íslands - Er í gangi
- Gengismál: Verkefnið að skoða möguleika í gengismálum og leggja fram tillögur um framtíðartilhögun.
- Verðbólga og verðbætur: Verkefnið að fara yfir fyrirkomulag þessara mála og leggja til umbætur sem gætu stuðlað að auknum stöðugleika.
- Framtíð Íslands - Á hverju ætlum við að lifa: Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi nýja atvinnuvegi.
- Framtíð Íslands - Hvernig þjóðfélag viljum við: Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi inniviði þjóðfélagsins.
Í færslunni 24.11.[2008] bætti ég auk þess við:
Almenningur bíður eftir áætlunum frá stjórnvöldum um hvað á að gera. Þá er ég að tala um áætlanir sem greiða úr þeim vanda sem almenningur stendur frammi fyrir. Þær tillögur sem hingað til hafa komið, hafa einblínt á að auka skuldir fólks og tryggja því atvinnuleysisbætur. Ég get ekki séð að þetta sé það sem fólkið í landinu vill. Ég fyrir mína parta vil sjá að tekjur mínar dugi fyrir útgjöldum. Ég vil sjá að fyrirtækjum verði gert kleift að halda fólki í vinnu og að rekstur þeirra breytist ekki of mikið. Ég vil sjá að rekstrargrundvöllur fyrirtækja og heimila í landinu verði styrktur, þannig að þjóðfélagið dafni en grotni ekki niður. Ég vil sjá hið opinbera fara út í mannaflsfrek verkefni, þó svo að það kosti pening. Ég vil sjá hið opinbera viðhalda þjónustustigi sínu, en ekki samdrátt. ... Ég hef kallað eftir því farið sé í endurreisn íslenska þjóðfélagsins, en ekki aukið á samdráttinn með niðurskurði. Það besta sem hægt er að hugsa sér fyrir samfélagið, er að tekjur fólks aukist, að sem flestir borgi skatta, að framleiðsla aukist, að útflutningur aukist. Þetta er grunnurinn að nýju Íslandi og þennan grunn er hægt að leggja strax. Við þurfum öll að leggjast á árarnar svo að þetta megi verða.
Ég skora á öll framboðin að skoða þetta mál vandlega og leggist saman á árarnar. Ég skora á stjórnmálaflokkana að koma upp úr skotgröfunum og stofna þjóðstjórn að loknum kosningum. Verkefnin þarf að leysa í sameiningu og fá til þess aðstoð færustu sérfræðinga.
---
19.04.2013:
Svo mörg voru þau orð 23. apríl 2009. Af fyrstu 5 liðum verkefnalistans hefur í mesta lagi tekist að færa tvö þeirra í rétta átt, þ.e. endurreisn fjármálakerfisins og atvinnulausum hefur fækkað (þó höldur séu um vinnandi fólki hafi fjölgað). Betur hefur gengið með atriðin 12 í 6. lið, þó þar hefði líka mátt gera betur.
Við listann hafa hins vegar bæst nokkrir liðir og ber þar hæst skuldastaðan við útlönd. Hún var vissulega alvarleg, þegar færslan var skrifuð á sínum tíma, en hafði ekki verið dreginn fram í umræðuna af sama krafti og síðar.
Því miður auðnaðist núverandi ríkisstjórn ekki sú gæfa að vinna nægilega á listanum að ofan. Það væri samt öfugmæli, að segja að hún skili landinu í verra ástandi en hún tók við því. Svo er alls ekki. En ég held að allir geti hins vegar sammælst um, að hún nær ekki að skila því eins langt áfram og Jóhanna, Steingrímur og við öll hin vonuðumst eftir. Bæði er, að vandinn var mun meiri en menn áttu von á og síðan held ég að stjórnvöld hafi hallað sér um of að ráðgjöf frá gerendunum í staðinn fyrir að hlusta á þjóðina. Ekki auðveldaði það henni verkið, að sumir þingflokkar töldu það vera sína heilögu skyldu að leggja alla þá steina í veg endurreisnarinnar og þeir komust yfir. Ríkisstjórnin stóð því ekki bara í þeim sporum að hafa eingöngu úr efnivið brunarústa að moða, heldur var bæði margt sem sýndist sæmilega heillegt, verr farið þegar að var gáð og síðan gusu reglulega upp nýir eldar, þar sem menn héldu að búið væri að slökkva þá að fullu. Ansi oft liggur grunur um íkveikju.
Þó það nú væri að eitthvað hefði áunnist á 48 mánuðum. Ég veit ekki nokkra ríkisstjórn sem hefur ekki álpast til að gera eitthvað rétt. En eftirskrift ríkisstjórnarinnar verður um verkin sem ekki tókst að ljúka, allt frá hinni hræðilega misheppnuðu skjaldborg um heimilin til þess að klúðra stjórnarskrármálinu jafn herfilega og raunin var. Jóhanna og Steingrímur munu að sjálfsögðu reyna að skreyta sig með öllum þeim blómum sem þau finna, en ég held að þau hefðu kosið sér stórfenglegri blómvönd, en þann sem þau enda með.
Ég er ekki sannfærður um að öðruvísi samsett ríkisstjórn hefði komist betur frá málum. Fyrst er það, að Hreyfingin var ekki nógu öflug til að afreka slíkt og hinir tveir flokkarnir hafa því miður ekki söguna með sér. Held þó að ríkisstjórnin hefði átt að leita meira samráðs við bæði Framsókn og Hreyfinguna. Skil t.d. ekki hvers vegna efnahagstillögur Framsóknar voru ekki teknar til nánari skoðunar. Hef heldur aldrei skilið, að það sé nánast furðuverk, að foringi stjórnarandstöðuflokks vinni að málefnum sem eru góð fyrir þjóðina, svo vitnað sé í fræg orð Ólafar Nordal, fyrrverandi varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Ég hefði einmitt haldið að stjórnarandstaðan hefði geta fengið prik hjá kjósendum með því að aðstoða núverandi ríkisstjórn í að leiða þjóðina út úr hremmingunum. A.m.k. Sjálfstæðisflokkurinn tók þann pól í hæðina, eins og ég upplifi ástandið síðast liðin 4 ár, að flækjast frekar fyrir.
Stærstu mistök núverandi ríkisstjórnar voru annars vegar, það sem ég nefndi áðan, að leita eftir ráðgjöf frá gerendunum og hins vegar að láta Samfylkinguna komast upp með að einblína á að ESB og evran væru lífsbjörgin. Hugsanlega verður það niðurstaðan eftir einhver ár eða áratugi, en ekki er boðlegt að tefja endurreisnina meðan beðið er eftir að dyr "himnaríkis" opnist.
Endurreisnin er upp á okkur sjálf komin. Hún krefst þátttöku allra og hún krefst þess að rekstrarskilyrði heimila og fyrirtækja verði gerð viðunandi. Margt var gert vel á yfirstandandi kjörtímabili, en betur má ef duga skal.
Endurreisn | Breytt 5.12.2013 kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2013 | 12:42
Snjóhengjan
Ekki er loku fyrir það skotið, að orðið snjóhengja hafi hlotið nýja merkingu í íslensku máli. Hefðbundið hafa snjóhengjur ógnað lífi og limum fólks þar sem mikið hefur snjóað og snjóflóðahætta myndast. Á Íslandi hefur engin náttúruvá á síðustu tveimur árhundruðum kostað eins mörg mannslíf á landi og einmitt snjóhengjur sem hafa brotnað og komið af stað snjóflóðum með geigvænlegum afleiðingum.
Nýja merking orðsins er aftur vísun í efnahagslega ógn. Þetta eru krónueignir þrotabúa hrunbankanna sem gæti þurft að greiða kröfuhöfum þeirra út við uppgjör bankanna. Ég hef að vísu viljað vera með víðari skilgreiningu á þessari snjóhengju og vísa til mismuninn á mögulegu útflæði fjármagns frá landinu og því sem mögulega fer hina leiðina næstu 5-10 árin. Ógnin við hagkerfið sem fellst í þessum snjóhengjum er gríðarleg og nauðsynlegt er að finna langtíma lausn sem gerir ástandið viðunandi.
Stofnuð hefur verið síða, snjohengjan.is, þar sem hvatt er til umræðu um snjóhengjuvandann og leitað sé lausnar á honum. Að síðunni standa fjölmargir einstaklingar með ólíkan bakgrunn, en fólk á það sameiginlegt að vilja auka umræðuna og hvetja stjórnmálamenn til að móta skýra afstöðu í málinu. Snjóhengjan er grafalvarleg ógn við stöðugleika í landinu og verði ekki fundin ásættanleg lausn fyrir Ísland, þá getur það fest þjóðina í skuldaklafa um ófyrirséða framtíð. Ekkert nema happdrættisvinningur á við fund stórra olíulinda myndi leysa þjóðina undan slíkum klafa og jafnvel það væri fugl í skógi.
Umræðan um snjóhengjuna hefur sem betur fer orðið meiri í samfélaginu hina síðustu mánuði. Ég skrifaði fyrstu færsluna mína um erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins síðari hluta apríl 2009, þegar ég fjalla um erindi Haraldar Líndals Haraldssonar á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Í færslu 13. júlí, 2009 segi ég Icesave er slæmt, en ekki stærsta vandamálið. Byrja ég þá færslu á orðunum:
Ég veit ekki hve margir átta sig á því, en samkvæmt tölum sem finna má á vef Seðlabanka Íslands, þá eru vaxtaberandi erlendar skuldir innlendra aðila, annarra en gömlu bankanna þriggja, gríðarlega miklar. Í árslok 2008 voru þessar skuldir 3.649 milljarðar króna.
Þessi tala hefur breyst mikið frá því ég birti hana þarna í júlí 2009 og er helst eins og Seðlabankanum sé ógerlegt að festa hendur á rétta upphæð. Bæði er að hún er mjög kvik, t.d. var hún komin í 4.483 milljarða kr. í lok 1. ársfjórðungs 2009, þ.e. þremur mánuðum síðar, og hitt að Seðlabankinn virðist ekki hafa annað hvort aðgang að öllum tölum eða er sífellt að skipta um skoðun hvaða tölur beri að telja með. Hafa því tölur oft ekki verið samanburðarhæfar þegar sama taflan er sótt á vef Seðlabankans með nokkurra mánaða millibili.
Einhvers staðar segir að fortíðin hverfi aldrei og hún muni fylgja manni inn í framtíðina þar til tekið er á þeim málum sem eru óuppgerð. Snjóhengjan er eitt slíkt mál. Hún er mál úr fortíðinni, sem mun halda áfram að vofa yfir okkur uns henni er eytt. Spurningin er bara hvort hún hrynji yfir þjóðfélagið í formi eyðandi snjóflóðs eða verður farið skipulega í að fjarlægja hana og tjónið af henni verður takmarkað eins og kostur er. Hún er þegar búin að valda miklu tjóni, spurningin er bara hver mikið verður það til viðbótar.
Róbert Wessman stofnar snjohengjan.is | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Snjóhengjur | Breytt 5.12.2013 kl. 23:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.4.2013 | 22:46
Hverjir hagnast mest á niðurfærslu skulda heimilanna?
Margir hafa vaðið á súðum og óskapast yfir því að þeir sem hagnist mest á almennri niðurfærslu skulda séu þeir sem skulda mest. Örugglega má finna einhver rök fyrir slíku, en ég er langt frá því að vera sannfærður um að svo sé.
Í síðustu færslu minni gerði ég tilraun til að greina vanda heimilanna. Samkvæmt henni þá má skipta heimilum í 9 hópa sem hér segir:
- Heimili í framfærsluvanda
- Heimili í greiðsluvanda
- Heimili í skuldavanda
- Heimili á leið í greiðsluvanda
- Heimili sem halda sjó
- Vel sett heimili
- Heimili með tvær eignir og hafa greiðslugetu til að standa undir annarri
- Heimili með engar húsnæðisskuldir og býr í eigin húsnæði
- Heimili með nánast engar skuldir
Tekið skal fram að fólk í leiguhúsnæði getur verið í hvaða flokki sem er nema síst flokkum 7 og 8.
Lánin sem lagt er til að séu færð niður
Markmið aðgerða, sem Hagsmunasamtök heimilanna, Hreyfingin/Dögun, Framsóknarflokkurinn, Hægri grænir og hugsanlega fleiri hafa talað fyrir, er að lækka skuldir vegna öflunar húsnæðis fyrir lögheimili (og viðhalds, endurbóta, framkvæmda o.s.frv.). Upphæð þessara lána í dag er metin á bilinu 1.200 - 1.300 milljarðar kr. Önnur lán heimilanna eru líklegast hátt í 6-700 milljarðar. Af þessum 1.200 - 1.300 milljörðum eru einhver þeirra gengistryggð, önnur eru óverðtryggð en flest eru verðtryggð. Af gengistryggðu lánunum, þá hafa flest þeirra, ekki öll, þegar verið leiðrétt eða munu verða leiðrétt í samræmi við dóma Hæstaréttar í málum 600/2011 og 464/2012. Einhver hluti fær ekki leiðréttingu samkvæmt þeim dómum og myndi því falla undir almenna leiðréttingu. Af öðrum lánum, þá er þegar búið að lækka þau um nálægt 50 milljörðum, en óljóst er þó hvernig þessir 50 milljarðar skiptast milli lána vegna öflunar húsnæðis og annarra lána. Loks er talsverður hluti lána, sem hvílir á húsnæði landsmanna, sem er ekki kominn til vegna öflunar húsnæðis. Þau geta valdið því að viðkomandi heimili eru í vanda.
Spurningin er alltaf hve langt á að ganga í leiðréttingu annarra skulda en lána vegna öflunar húsnæðis. Á árunum 2004 til 2007 nýttu margir sér aukna möguleika til lántöku í að leyfa sér meira. Á hverjum einasta fundi sem ég hef átt með Pétri Blöndal hefur hann spurt um jeppafólkið, snjósleðana og sumarbústaðina. Þetta fólk varð líka fyrir forsendubresti, en Hagsmunasamtök heimilanna tóku meðvitaða ákvörðun um að einblína á lán til öflunar húsnæðis. Því er það nánast kjánalegt, að það hafi verið bílalán sem urðu til þess að gengistryggingin var dæmd ólögleg.
Mergur míns máls er, að ekki eru öll lán sem hvíla á heimilum landsmanna vegna öflunar húsnæðis, viðhalds þess, endurbóta, framkvæmda við húsnæðið eða nánast umhverfi þess. Ákveðinn hluti er neyslulán, lán vegna tómstunda gamans, kaupa á sumarbústað eða alls konar fjárfestingum. Enginn hefur farið í þá vinnu að greina til hvers lánin voru tekin, en auðvelt er að sjá, að hafi 5 milljón kr. lán verið endurfjármagnað með 8 milljón kr. láni, þá fór mismunurinn í eitthvað annað og ekki endilega húsnæðistengda hluti. Spurningin er hve langt viljum við ganga í að greina þetta. Eigum við ekki bara að treysta því að öll lán sem Skatturinn hefur viðurkennt að hverra vextir mynda stofn til vaxtabóta, teljist til þeirra lána sem a.m.k. falli undir þessa niðurfærslu skulda. Út frá því myndi ég halda að spurningin sé ekki endilega hverjir hafa skuldsett sig mest, heldur hvernig er skuldsetning fólk vegna húsnæðis.
Hverjum nýtast aðgerðirnar best?
Lítið fer á milli mála, að sá sem skuldar meira mun fá hærri niðurfærslu í krónum en sá sem minna skuldar. Á sama hátt hefur sá fyrri líka fengið meiri hækkun á lánið sitt. En er það þessi krónutala sem skiptir mestu máli varðandi ávinning fólks? Í mínum huga segir hún bara hluta sögunnar. Skoðum hópana að ofan:
Hópur 1: Heimili í framfærsluvanda hagnast af allri niðurfærslulána, sama hve há hún er, en það breytir því líklegast ekki að það verður áfram í framfærsluvanda. Niðurfærsla lána hefur því engin áhrif á framfærsluvanda heimilanna og þau verða því áfram í hópi 1.
Hópur 2: Heimili í greiðsluvanda eru þau heimili sem ekki hafa getað greitt af lánum sínum eða þurft að velja á milli þess og ýmissa neysluútgjalda. Þessi heimili eru dæmigert i vanskilum. 20-25% lækkun húsnæðislána þeirra og þar með afborgana gæti leitt til þess að þau gætu færst frá því að vera í greiðsluvanda og yfir í aðra hópa , þá helst hópa 4 og 5. Þessi heimili hagnast því gríðarlega á niðurfærslunni, þó svo að hún þurfi ekki að vera eins há í krónum talið og hjá þeim sem mesta niðurfærslu fá.
Hópur 3: Heimili í skuldavanda eru skilgreind þau heimili sem erum með neikvætt eigið fé í fasteign. Alveg er ljóst að fyrir þennan hóp getur svona niðurfærsla skipt sköpum. Allt í einu er heimilið ekki bundið af húsnæðinu, þ.e. hægt er að skipta um húsnæði. Hagnaður þessa hóps heimila er því mældur í mörgu öðru en krónum og aurum. Höfum þó í huga að margir í þessum hópi hafa mögulega farið í gegn um 110% leiðina og fólk fær ekki sama afsláttinn tvisvar. Ekki er víst að þeir efnuðustu, sem skulda mest, fari endilega í jákvætt eigið fé í fasteign við þessa aðgerð, þar sem stærsti hluti lána þeirra, er líklegast vegna annars en húsnæðis.
Hópur 4: Heimili á leið í greiðsluvanda hafa líklega skorið mikið niður í neysluútgjöldum til að eiga fyrir afborgunum lána, tekið út séreignasparnað og gengið á annan sparnað. Svona niðurfærsla yrði því himnasending fyrir þennan hóp, þar sem hann færðist lengra frá því að lenda í greiðsluvanda. Höfum í huga að þessi hópur er líklegast allur meðal þeirra ríflega 50% heimila sem eiga erfitt með að ná endum saman eða þeim 38% sem eiga ekki fyrir óvæntum útgjöldum.
Hópur 5: Heimili sem halda sjó. Líkt og með hóp 4, þá halda þessi heimili sjó vegna þess að þau hafa hagrætt í heimilisrekstrinum og gengið á sparnað. Niðurfærsla myndi létta af þeim pressunni, en er augljóslega ekki lífsbjörg, þar sem þau þurftu ekki á henni að halda.
Hópur 6: Niðurfærsla húsnæðisskulda skipta vel stæð heimili nánast engu máli, en þau eru líka fá og því ekki stór hluti af heildinni. Vissulega myndu þau líklegast fá til sín hlutfallslega hærri tölu af niðurfærslunum en fjöldi þeirra segir til um. Lítill vandi er að setja skurði á slíkt, eins og ég kem að á eftir.
Hópur 7: Heimili með tvær eignir munu við svona aðgerð komast í betri stöðu. Hvort það dygði, fer einfaldlega eftir því hve alvarleg staða þeirra er.
Hópar 8 og 9: Lækkun húsnæðislána skipta þessi heimili ekki máli að öðru leiti en því að það mun liðkast um húsnæðismarkaðinn.
Af þessari yfirferð, þá er það alveg rétt að heimili með há húsnæðislán munu fá mesta niðurfærslu. Líklegt er að slíkt nýtist tekju- og eignamiklum heimili vel þegar upphæðir eru skoðaðar, en hef trú á að slík aðgerð hafi mun meiri ávinning í för með sér fyrir heimili í hópum 2, 3, 4 og 5. Fyrir þessi heimili felst mesti ávinningurinn í því að létta á stöðunni. Krónur og aurar skipta þessi heimili máli, en hitt skiptir þó meira máli, þ.e. að geta um frjálst höfuð strokið eða a.m.k. færast nær því að komast í slíka stöðu.
Væri hægt að setja skurð á niðurfærslu lánanna
Ég skapaði mér ekki vinsældir innan stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna, þegar ég setti inn í sérálit mitt hugmynd að skurði á niðurfærsluna sem samtökin höfðu lagt fram. Alveg eins og margir sem tjáð sig hafa um þessi mál, þá fannst mér blóðugt að fólk sem hafði fasteignalán nánast upp á punt fengi leiðréttingu. Ástæðan var ekki síður sú, að mér fannst greinilegt að tiltekinn hópur væri með þessi lán eingöngu vegna þess, að hann gæti fengið betri ávöxtun peninga sinna með því að greiða lánin ekki niður, en hafa féð í annarri ávöxtun.
Í séráliti mínu við skýrslu sérfræðingahópsins svo kallaða er því undirkafli sem ber heitið Skerðingar vegna tekna. Vil ég birta hann hér nánast óbreyttan. Hafa skal í huga að í honum tala ég um ráðstöfunartekjur, þ.e. tekjur eftir skatta. Tölurnar eru miðaðar við október 2010, þannig að líklegast þarf að hækka þær um 6% eða þar um bil. Einnig skal hafa í huga, að miðað er við 4% þak á verðbætur og það er reiknað frá 1.1.2008 til 1.10.2010. Í núverandi tillögum Framsóknar og Dögunar er miðað við 2,5% bætur og árin eru orðin fimm.
"5.4 Skerðingar vegna tekna
Fulltrúi Hagsmunasamtaka heimilanna hefur ítrekað lagt til, að tillögur samtakanna varðandi verðtryggð lán verði skoðaðar út frá því að settar séu takmarkanir við ráðstöfunartekjur eða hreina eign. Eðlilegast sé að miða við ráðstöfunartekjur, þar sem þær segja til um greiðslugetu. Sala eigna getur að sjálfsögðu aukið ráðstöfunartekjur. Til þess að geta ákveðið áhrif svona skurðpunkta vantar nauðsynlegar upplýsingar um fjölskyldustærð, enda telja samtökin að ekki megi setja eina skurðlínu fyrir alla.
Dæmi um skerðingu: Skerðingar fari að gæta við ráðstöfunartekjur upp á 3,5 m.kr. fyrir einstaklinga og hækki um 660.000 kr. með hverju barni. Áhrif 15,5% leiðréttingarinnar minnki hlutfallslega með auknum ráðstöfunartekjum þar til þær ná 5,0 m.kr. hjá einstaklingi (að viðbættum áhrifum vegna barna). Hjá hjónum hefjist skerðing við ráðstöfunartekjur upp á 6,0 m.kr. og hækki um 660.000 kr. með hverju barni. Leiðréttingin lækki hlutfallslega uns ráðstöfunartekjur eru komnar í 8,0 m.kr. hjá hjónum (að viðbættum áhrifum vegna barna). Þetta má sjá nánar í eftirfarandi töflu, sem sýnir bil ráðstöfunartekna sem skerðing nær yfir í þessu dæmi. Þó hér sé eingöngu sýnt fyrir allt að fjögur börn, þá heldur upphæðin áfram að hækka með fjölda barna. Tölur eru í milljónum króna:
|
| Barnlaus | 1 barn | 2 börn | 3 börn | 4 börn |
Einstaklingur | Skerðing hefst | 3,5 | 4,16 | 4,82 | 5,48 | 6,14 |
| Afsl. fellur niður | 5,0 | 5,66 | 6,32 | 6,98 | 7,64 |
Hjón | Skerðing hefst | 6,0 | 6,66 | 7,32 | 7,98 | 8,64 |
| Afsl. fellur niður | 8,0 | 8,66 | 9,32 | 9,98 | 10,64 |
--
Fyrir þá sem sjá ofsjónum yfir því að ekki sé farið eftir efnahagi fólks, þegar ákveðið er að bæta því tjón sem flestir álíta að lögbrot fjármálafyrirtækja, stjórnenda þeirra, stjórnarmanna og vildarviðskiptavina hafi valdið, þá er þetta leið sem menn geta skoðað. Þessi leið er flóknari í framkvæmd, þar sem allar fjármálastofnanir þyrftu að fá upplýsingar um ráðstöfunartekjur hvers og eins heimilis sem ætti í hlut.
Annar ávinningur af niðurfærslu
Mér hefur fundist alveg vanta alvarlega umræðu um hvaða annan ávinning þjóðfélagið mun hafa af svona niðurfærslu húsnæðislána. Sjálfur hef ég margoft farið í gegn um það hér á þessari síðu. Langar mig að gera það einu sinni enn.
Velta á fasteignamarkaði: Við núverandi skilyrði er fasteignamarkaðurinn hálf lamaður. Stórir hópar húsnæðiseigenda eru fastir í húsnæði sínu vegna skuldsetningar. Stækkandi fjölskyldur geta ekki stækkað við sig og minnkandi geta ekki minnkað við sig. Fólk sem gæti undir eðlilegum kringumstæðum selt eignir til að losa fjármuni, getur það ekki, þar sem kaupendur er ekki að finna.
Eignir streyma til lánveitenda: Með sífellt hækkandi skuldastöðu, m.a. vegna áhrifa verðtryggingarinnar, þá færast fleiri heimili yfir í neikvæða eiginfjárstöðu. Vissulega endurspeglar fasteignamat ekki alls staðar á landinu markaðsverð, en því er ætlað að gera það. Úrræði margra verður að gefast upp og láta lánveitandann hirða kofann. Með um 50% heimila í þeirri stöðu í dag, að eiga erfitt með að ná endum saman, þá erum við í þeirri sérkennilegu stöðu að stór hluti þessara heimila gæti lent í því að missa húsnæðið sitt. Þegar eru um 4.500 íbúðir í eigu fjármálafyrirtækja, en reikna má með að andvirði þeirra sé ekki undir 110 milljörðum miðað við fasteignamat íbúða er rétt tæplega 25 m.kr. (Heildarfasteignarmat íbúðarhúsnæðis er 3.105 milljarðar og eignirnar alls 125.000 miðað við upplýsingar á vef Þjóðskrár.) Ef 12% af um 73.000 heimilum er þegar í vanskilum og það fer allt á versta veg, þá hækkum við þessa tölu upp í á að giska 330 milljarða kr. Af þessu er ljóst að komist 15-20% íbúðarhúsnæðis í eigu fjármálafyrirtækja, þá mun það ríða þeim að fullu. 20% niðurfærsla fasteignalána mun örugglega snúa þessari þróun við. Hún mun líka gera það að verkum að brennimerkt fólk, þ.e. það sem missti húsnæði sitt til fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða vegna stöðu sinnar, verður hreinsað af slíkum brennimerkjum og getur því farið aftur út á fasteignamarkaðinn.
Velta á neytendamarkaði: Ég veit ekki hvaða tilfinningu fólk hefur almennt, en fyrir mig sem dvel bara á Íslandi 1-2 vikur í hverjum mánuði og jafnvel minna, þá finn ég vel fyrir breytingu í hvert sinn sem ég kem heim. Einhvern veginn virðist alls staðar vera minna að gera. Tómum verslunarrýmum fjölgar, fólk kvartar undan samdrætti í viðskiptum og minna vöruvali. Það, sem er til, hefur hækkað í verði, þannig að minna fæst fyrir peninginn. Fólk hefur sagt upp áskrift að öllum "óþarfa", svo sem viðbótarsjónvarpsstöðvum, dagblöðum, tímaritum og bókaklúbbum. Þetta hefur síðan áhrif á atvinnumarkaðinn og fjárfestingar fyrirtækja, að maður tali nú ekki um skatttekjur ríkisins. Menn geta mælt einhverjar jákvæðar breytingar á þessum þáttum, en fyrr mætti nú vera í yfir 50% verðbólgu á 5 árum. 20% lækkun lána mun ekki þýða 20% aukning neyslufjár. Hlutfallið verður eitthvað minna. Margir munu þó nýta það aukna fé sem þeir hafa umleikis til að versla það sem hefur beðið betri tíma. Aðrir munu vonandi safna í sjóð. Gefum okkur að velta á neytendavörumarkaði aukist um 10% við þessa aðgerð. Það þýðir 10% hækkun virðisaukaskatts til ríkisins, mun leiða til fjölgunar starfa og vonandi meiri fjárfestinga í atvinnulífinu. Vissulega kallar það á aukinn innflutning, en vonandi mun aukin fjárfesting í atvinnulífinu leiða til aukins útflutnings.
Ég ætla ekki að fullyrða að svona aðgerð borgi sig sjálf, þ.e. að hún skili til baka til þess sem leggur út peninginn, öllu til baka. Til langframa er ég hins vegar full viss að hún gerir mun meira fyrir þjóðfélagið en sá kostnaður sem af henni er. Hitt er annað mál, að svona aðgerð verða að fylgja alls konar hliðaraðgerðir eða samverkandi aðgerðir, til að fyrirbyggja að núverandi ástand skapist aftur. Af nám verðtryggingar á neytendalánum er þar efst á blaði. Menn hafa furðað sig á því, að fólk sem hafði ekki tekjur í erlendri mynt væri að taka lán í erlendri mynt. Verðtryggð króna er erlend mynt samanborið við óverðtryggðu launakrónuna. Fólk sem ekki hefur verðtryggðar tekjur á ekkert frekar að taka verðtryggð lán, en þeir sem hafa tekjur í krónum eiga ekki að taka lán í jenum eða frönkum. Samhliða brotthvarfi verðtryggðra neytendalána, þá þarf að gjörbreyta húsnæðislánamarkaðinum. Ýmsar hugmyndir hafa komið upp og þær þarf að skoða.
Þá þarf að breyta fjölmörgu í kringum kröfurétt, en það er efni í sjálfstæða færslu.
Skuldamál heimilanna | Breytt 5.12.2013 kl. 23:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.4.2013 | 13:06
Hver er vandi heimilanna og hvað þarf að gera?
Mikið fer fyrir umræðunni um stöðu heimilanna í kosningaumfjöllun. Flestir flokkar hafa einhverja skoðun á málinu, en ekki allt of margir þá þekkingu sem nauðsynleg er, ef taka á afstöðu til jafn mikilvægs máls. Einn frambjóðandi sagði í sjónvarpssal um daginn að ekki væri búið að greina hver staðan er, annar segir að lítið hafi farið fyrir umræðunni um þá verst settu, þá vilja sumir ekki bjarga þeim sem eiga sæmilega til hnífs og skeiðar og loks kemur þessi umræða um að almenn niðurfærsla komi þeim ríkustu best. Sama viðhorf kom fram hjá nokkrum fjölmiðlamönnum í Silfri Egils í dag.
Ég vara við því að færslan er löng, en það er vegna þess að í henni er fjallað um marga þætti málsins, þ.e.:
- Markmiðin
- Greiningu vandans
- Leiðir og lausnir
- Lausnirnar mátaðar
- Rök fyrir aðgerðum
Markmið ekki virt
Á vormánuðum 2010 sat ég sem fulltrúi Hreyfingarinnar í starfshópi á vegum efnahags- og viðskiptaráðherra. Hlutverk hópsins átti að vera að meta árangurinn af setningu laga 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishruns, og skoða álitaefni sem upp koma við framkvæmdina, "sem og álitaefni tengd þinglýsingum og stöðu síðari veðhafa, samkeppnisréttarleg álitaefni sem tengjast lögunum og þörf á takmörkun á gildistíma laganna". Svo áttum við líka að "skoða stofnun nýs embættis umboðsmanns skuldara sem m.a. skuli gæta hags og réttinda skuldara, beita sér fyrir því að áhrif laga þessara séu í samræmi við markmið þeirra, vinna að því að tryggja jafnræði, sanngirni og gagnsæi í samskiptum og samningum fjármálafyrirtækja við skuldara og taka við og meðhöndla ábendingar og mál um misbeitingu laganna". Því miður fékk hópurinn ekki að ljúka vinnu sinni, enda hefði það getað dregið fram í dagsljósið hvers handónýtt úrræðin voru sem bankarnir bjuggu til útfrá texta laganna.
Um haustið, þ.e. október og nóvember 2010, sat ég í svo nefndum sérfræðingahópi um skuldamál heimilanna. Hann átti að taka sama upplýsingar vegna fyrirhugaðra aðgerða, en þær áttu að hafa eftirfarandi markmið:
- Fólk hafi þak yfir höfuðið.
- Skuldsett fólk nái endum saman.
- Byrðum dreift á sanngjarnan hátt.
- Aðgerðir skilvirkar, áhrifa gæti fljótt.
- Umsýslukostnaður sé sem minnstur.
Af greinargerð um fjárhagsstöðu heimilanna, sem útbúin var af heilum fimm ráðuneytum og birt var 4. apríl sl. og Lífskjararannsókn Hagstofu Íslands 2012, sem birt var sama dag, er ljóst að eitthvað gekk ekki eftir. Um 3 fjölskyldur hafa á dag misst húsnæðið ofan af sér frá síðari hluta árs 2009 (frysting á nauðungarsölum var fram eftir ári), 48,5% heimila á í erfiðleikum með að ná endum saman og 36% heimila geta ekki mætt óvæntum útgjöldum upp á 157.000 kr. með þeim leiðum sem venjulega nýtast þeim til að standa undir útgjöldum.
Byrðum hrunsins hefur að fárra mati verið dreift á sanngjarnan hátt, en um 50 milljarðar hafa farið í að lækka lán með 110% leiðréttingunni og sértækri skuldaaðlögun. (Höfum í huga að þegar þessar leiðir voru kynntar í seinna skiptið í byrjun desember 2010, þá var gert ráð fyrir að yfir 90 milljarðar færu í þessar aðgerðir.) Ekki verður sagt að aðgerðirnar hafi verið skilvirkar og áhrifa þeirra gætt fljótt. Samkvæmt upplýsingum í greinargerð ráðuneytanna voru 20.830 heimili með neikvætt eigið fé í árslok 2009, en 21.515 í árlok 2011 eða fjölgun um tæp 700. Vissulega varð fækkun milli 2010 og 2011, en hafa verður í huga að þá höfðu mörg fjármálafyrirtæki uppreiknað áður gengistryggð lán til einhverrar veruleikafirrtrar tölu. Síðan er rétt að nefna að í árslok 2008 voru ríflega 5.000 færri heimili í neikvæðri eiginfjárstöðu en 3 árum síðar. Varðandi umsýslukostnaðinn, þá held ég að mörg heimili séu að upplifa óheyrilegan kostað af þessu öllu í gegn um ýmis brögð fjármálafyrirtækjanna, þó svo að ekki hafi verið greidd stimpilgjöld og önnur fáránleg gjöld til hins opinbera.
Vandi heimilanna greindur
"Sérfræðingahópurinn" greindi heimilin niður í nokkra hópa. Ég ætla að mestu að halda mig við þá hópaskiptingu, en tel nauðsynlegt að bregða aðeins út af henni. Tekið skal fram að hvert heimili getur fallið í fleiri en einn hóp.
Hópur 1 - Heimili í framfærsluvanda: Þegar framfærsluvandi er metinn, þá þarf fyrst að ákveða framfærsluviðmið. Þegar vinna "sérfræðingahópsins" fór fram, var eingöngu hægt að nota viðmið frá Umboðsmanni skuldara, en þar sem það var (og er) naumhyggjuviðmið sem fólki er eingöngu ætlað að lifa af í mjög stuttan tíma, þá fékk ég því framgengt að notað var hærra viðmið, þ.e. viðmiðið var tvöfaldað. Hafa skal í huga að mörg fastaútgjöld eru ekki í grunnviðmiðinu, svo sem kostnaður vegna ungbarna, leikskólagjöld, samgöngur, símakostnaður og tryggingar svo fátt eitt sé nefnt. Tvöföldun viðmiðanna er því algjört lágmark, en gefur líklegast ekki raunhæfa mynd á raunverulegum framfærslukostnaði heimilanna. Þegar tvöfalda viðmiðið var notað, þá fékkst út að rúmlega 7.000 heimili voru í framfærsluvanda, 4.033 einhleypir og 3.064 hjón/sambýlisfólk. Hvor hópur um sig getur verið með barn/börn á heimilinu. Þessi hópur var sem sagt ekki með nægar tekjur til að framfleyta heimilinu, hvað þá að geta greitt af lánum.
Þar sem þessi hópur féll ekki undir verksvið sérfræðingahópsins, þá gerði hann engar tillögur fyrir þá sem ekki gátu framfleytt sér og sínum. Ég aftur á móti fjallaði um þennan hóp í erindi mínum, þegar ég kynnti sérálitið mitt á fundi í Þjóðmenningarhúsinu um miðja nóvember og hvatti stjórnvöld til að huga að vanda þessa hóps. Fyrir hann gildir ekkert annað, en að auka tekjur hans. Hafa skal þó í huga, að einhver af þessum "heimilum" eru einstaklingar/pör sem búa á stofnunum eða dvalarheimilum og eru með mjög takmörkuð persónuleg útgjöld.
Hópur 2 - Heimili í greiðsluvanda: Almennt þegar talað er um fjárhagsvanda heimila, þá er talað um greiðsluvanda, þ.e. tekjur duga ekki fyrir þeim útgjöldum sem . Útreikningar sérfræðingahópsins bentu til þess að í árslok 2009 hafi um 17.763 heimili verið í greiðsluvanda. Eru þá þau heimili sem eru í hópi 1 meðtalin. Fyrir heimili í hópi 2 breytir miklu að létt sé á greiðslubyrði lána, en það þarf ekki að vera nóg. Ýmsar leiðir eru til að létta á greiðslubyrðinni og algengast er að reynt sé að semja við fjármálastofnunum framlengingu lánanna með von um að betri tíð sé framundan með blóm í haga. Slíkt er hættuleg blekking. Engin ástæða er til að ætla að lenging lána geri nokkuð annað en að fresta vandanum. Í núverandi atvinnuástandi er því bara um eitt að ræða: Lækkun lána niður í greiðslugetu.
Hópur 3 - Heimili í skuldavanda: Hvað er að vera í skuldavanda? Samkvæmt þeirri skilgreiningu sem virðist notast við í dag, er það að skulda meira en maður á. En er þá allt ungt fólk sem hefur verið á námslánum í skuldavanda? Algengast er að ungt fólk sé með neikvætt eigið fé í mörg ár eftir að háskólanámi lýkur. Neikvætt eigið fé er því ekki sjálfkrafa skuldavandi. Neikvætt eigið fé er ekki skuldavandi nema að öðru af tveimur skilyrðum uppfylltum: A. Að neikvæða eiginféð sé í eign sem þarf að selja, hver sem eignin er; B. Samhliða skuldavandanum fari greiðsluvandi.
Í vinnunni í "sérfræðihópunum" komst ég að því að fullt af heimilum er með bullandi neikvætt eigið fé í fasteignum sínum, en er með svo miklar tekjur að það skiptir ekki máli. Raunar vekur furðu að nokkur lánastofnun hafi leyft að lánunum væri þinglýst á eignina, en það er náttúrulega mál þess sem lánaði. Í lok árs 2009 voru ríflega 20.000 heimili með neikvætt eigið fé, þ.e. flokkuðust í skuldavanda. Af þeim voru rúm 8.000 bæði í skuldavanda og greiðsluvanda, sem þýðir að ríflega 12.000 heimili stóðu undir greiðslubyrði lána, þó hluti lánanna væri umfram virði eigna.
Hópur 4 - Heimili á leið í greiðsluvanda: Í upphafi árs 2008 voru eignir heimilanna í sparnaði alveg ágætar, þá sérstaklega í lífeyrissparnaði. Vandinn var að lífeyrissparnaðurinn var ekki aðgengilegur. Alþingi samþykkti þá lög sem leyfðu fólki að taka út séreignasparnað. Tilgangurinn var tvíþættur, annars vegar að gefa heimilunum aðgang að fé til að greiða lán og hins vegar að afla ríkissjóði og sveitarfélögum skatttekna. Ég hef ekki nákvæmlega tölu á fjölda þeirra heimila sem nýttu sér þetta úrræði, en síðustu tölur gáfu til kynna að yfir 60.000 manns hefðu nýtt sér úrræðið. En hvað svo? Þegar sparnaðurinn var uppurinn, hvað átti þá að taka við? Miðað við að 48,5% heimila eða um 60.000 heimili telja sig eiga í erfiðleikum með að láta enda ná saman, þá má búast við að yfir 40.000 heimili séu á leið í greiðsluvanda.
Hópur 5 - Heimili sem halda sjó: Þessi heimili hafa dregið úr neyslu til að standa í skilum en ekki gengið að sparnaði. Tölur sem sérfræðingahópurinn vann með gefa til kynna að þetta hafi á þeim tíma verið um 20.000 heimili. Þessi heimili munu líklegast hægt og sígandi koma sér í þokkalega stöðu. Hafa skal í huga að hluti þessara heimila er líka í hópi 3.
Hópur 6 - Vel sett heimili: Þetta eru raunar tveir hópar, þ.e. annars vegar eignafólk með einkaskuldir sem val, þ.e. vextir af húsnæðislánum eru lægri en ávöxtun af öðrum eignum, og hins vegar fólk með góðar tekjur og þarf ekki að hafa áhyggjur af háum útgjöldum. Samanlagt eru þetta um 20.000 heimili. Hafa skal í huga að hluti þeirra er líka í hópi 3.
Hópur 7 - Heimili með tvær eignir og hefur greiðslugetu til að standa undir annarri: Kannski ekki stór hópur, var um 1.100 heimili í október 2010, en reynslan frá kreppum í öðrum löndum er að þessi hópur kemur almennt verst út úr þeim.
Hópur 8 - Heimili með engar húsnæðisskuldir og býr í eigin húsnæði: Þetta er nokkuð stór hópur eða um 30.000 heimili. Hann getur samt verið með aðrar skuldir sem eru að slaga heimilisreksturinn. Heimili í þessum hópi geta því verið í greiðsluvanda.
Hópur 9 - Heimili með nánast engar skuldir: Hafa skal í huga að um 24.000 heimili eru annars vegar ungmenni sem enn búa í foreldrahúsum eða ellilífeyrisþegar sem búa hjá börnum sínum eða á dvalarheimilum. Þessi hópur getur þó verið í framfærsluvanda, þ.e. tilheyrt hópi 1.
Markmið aðgerða
Sérfræðingahópurinn komst að þeirri niðurstöðu í vinnu sinni að markmið aðgerða ætti að vera sem hér segir (kemur þó ekki fram í skýrslu hópsins, bara í séráliti mínu):
- Að fækka eins og kostur er í hópi 2 (munum að hópur 1 var ekki í verkahringsérfræðingahópsins) með ýmsum úrræðum. Með þessu fækkaði í hópi 3 í leiðinni.
- Koma í veg fyrir að heimili færðust úr hópi 4 yfir í hóp 2.
- Hjálpa þeim sem verða áfram í hópi 2 eftir aðrar aðgerðir sem hraðast í gegn um það ferli sem virðist óumflýjanlegt, þ.e. nauðungarsölu, greiðsluaðlögun og gjaldþrot.
- Færa sem flesta úr hópi 4 yfir í nýja útgáfu af hópi 5, þar sem fólk getur tekið upp eðlilega lifnaðarhætti.
- Hjálpa þeim sem eftir verða í hópi 4 sem sömu úrræðum og þeir sem eru í hópi 2 munu njóta.
Leiðir/lausnir
Sérfræðingahópurinn reyndi að velta við eins mörgum steinum og hægt var til að finna leiðir sem væru færar. Sumar þeirra voru farnar í handónýtri útfærslu fjármálafyrirtækjanna. Tel ég þær upp hér fyrir neðan í eitthvað breyttri mynd:
Leið 1 - Almenn niðurfærsla skulda: Leið Hagsmunasamtaka heimilanna, Hreyfingarinnar (núna Dögunar), Hægri grænna og Framsóknarflokksins og fleiri hópa. Helstu andmæli við þessari leið er að mönnum vex í augum að einhverjir sem ekki eru þess verðir fái niðurfærslu og að hinir ríku fái mest. Leiðina mætti framkvæma með þaki á upphæð, eign eða ráðstöfunartekjur allt að teknu tilliti til fjölskyldustærðar. Nýtist öllum ríflega 72.000 heimila með húsnæðisskuldir. Gera skal þó ráð fyrir að umtalsverður fjöldi heimila hefur þegar fengið einhverjar leiðréttingar, annars vegar í gegn um sértæka skuldaaðlögun, en ekki síst í gegn um gengislánadóma Hæstaréttar.
Leið 2 - Aðlögun skulda að eignastöðu: Aðlögun skulda að eignarstöðu, sem er útfærsla af sértækri skuldaaðlögun, oft vísað til sem 80-110% leiðar, þar sem skuldir eru strax færðar niður í 110% af eign og ef ekki er greiðslugeta fyrir því, þá má fara með hana niður í 80% og munurinn á 80 og 110 er sett á 3 ára biðlán. Einnig má útfæra þetta sem niðurfærslu í eitthvað annað hlutfall, svo sem 100%, 70% eða 60%, en þá er líklega alveg eins gott að fara leið 3. Þessi leið var útfærð af fjármálafyrirtækjunum, en á annan hátt en sérfræðingahópurinn ræddi hana. Þar með nýttist hún mun færri heimilum, en gert var ráð fyrir. Talsverður hópur heimila fór í gegn um 110% leiðina eða sértæka skuldaaðlögun. Vegna takmarkanna á þeim leiðum hefur það ekki reynst nóg.
Leið 3 - Greiðslumat: Setja fólk einfaldlega í greiðslumat og laga skuldir að greiðslugetu með fyrirvara varðandi breytingar á greiðslugetu á næstu 3 - 6 árum.
Leið 4 - Hækkun vaxtabóta: Hækkun vaxtabóta og húsaleigubóta til að gera fólki kleift að greiða hærri upphæð, en almennar tekjur ráða við. Þetta má líka kalla niðurgreiðslu vaxta. Leiðin var farin og heilum 2 milljörðum bætt í auknar vaxtabætur. Nýttist þeim tekjulægstu en var eins og skvetta vatni á gæs. Breytingarnar sem gerðar voru á vaxtabótakerfinu varð til þess að það fækkaði í hópi þeirra heimila sem fengu vaxtabætur. Þannig að hærri upphæð dreifðist á færri heimili.
Leið 5 - Hjálpa fólki að minnka við sig: Hjálpa fólki að skipta um húsnæði og fara í ódýrara. Hægt er að útfæra þetta á ýmsa vegu, en tryggja yrði að fólk væri ekki að tapa eigin fé í leiðinni. Ég hef aldrei skilið hvers vegna þessi leið var ekki farin. Fjármálafyrirtækin eiga um þessar mundir eitthvað yfir 4.600 íbúðir, þar af Íbúðalánasjóður yfir 2.600. Af hverju bjóða þessi fyrirtæki ekki upp á skiptimarkað fyrir þá sem vilja minnka við sig til að létt á skuldum?
Leið 6 - Kaupleiga: Kaupleiga, lánardrottnar taka yfir eign og leigi til baka. Eitthvað verið rætt, en ekki komið í framkvæmd svo ég viti til.
Leið 7 - Lyklafrumvarpsleiðin: Lyklafrumvarpsleið, þ.e. að lánardrottnar taka yfir eign og skuldari er laus allra mála.
Heimili í framfærsluvanda eru utan þessara leiða, en nánast eina leiðin til að hjálpa þeim er gagnger fjárhagsleg endurskipulagning heimilisins og fjárhagsaðstoð. Engin lausn er að sveitafélögin taki við framfærslu þessara heimila. Leita þarf annarra ráða, sem ég ætla ekki út í hér. Einhverjir munu losna úr þessari stöðu með bættu atvinnuástandi.
Að máta lausnir
Hér fyrir neðan hef ég raðað leiðunum á hópana. Eru úrræðin merkt eftir því í hvaða röð ég tel þær nýtast best eða eigi að framkvæma þær.
Leiðir | 1 | 2 | 3 | 4 | 5 | 6 | 7 |
Hópur 2 | 1 |
| 3 | 2 | 4 | 5 |
|
Hópur 3 | 1 | 2 | 3 |
| 4 |
| 5 |
Hópur 4 | 1 |
| 3 | 2 | 4 |
|
|
Hópur 5 | 1 |
|
| 2 |
|
|
|
Hópur 7 | 1 |
|
|
|
|
| 2 |
Ég lít svo á, eftir vinnu mína í þeim tveimur hópum, sem ég nefndi að framan, að eðlilegast sé að koma til móts við heimilin með almenna niðurfærslu þeirra skulda sem ýmist hækkuðu verulega vegna verðbólgu og banka- og gjaldeyrishrunsins eða urðu til þegar fólk var að reyna að halda sér á floti vegna þessa. Flest áður gengistryggðra lána hafa verið leiðrétt, en ekki öll. Óverðtryggð lán hafa nánast alveg verið fyrir utan þessa umræðu, en mörg heimili brugðu á það ráð að auka við slíka lántöku til að brúa bilið hjá sér. Þær almennu leiðréttingar sem ég tala um, kæmu að sjálfsögðu bara til framkvæmdar að því marki sem lán hafa ekki þegar verið leiðrétt.
Einn banki hefur komið til móts við viðskiptavini sína með almennri aðgerð vegna neyslulána, þ.e. Landsbankinn með lækkun annarra skulda, meðan hinir hafa mér vitanlega ekki gert neitt í þá veru.
Hafa skal í huga, að þegar búið er að koma til móts við heimili í hópi 7, þá getur verið að þau verði eftir það áfram í hópum 2 eða 3.
Ég reikna með að gagnvart hópum 4 og 5 þá þurfi í flestum tilfellum ekki önnur úrræði en almenna leiðréttingu. Misjafnt er hverjir úr þeim hópum munu fá vaxtabætur og síðan þyrfti lítill hluti heimila í hópi 4 að fá nýtt greiðslumat með aðlögun skulda að útkomu þess, hvort heldur í formi breytingar á lánum eða að fólki væri hjálpað að færa sig yfir í ódýrara húsnæði.
Aðgerðir fyrir heimili í hópum 2 og 3 eru greinilega flóknari, en hvert skref þar miðar að því að fækka þeim sem þurfa sértækari úrræði.
Af hverju þessar aðgerðir?
Ég hef oft verið spurður að því hvers vegna þurfi svona aðgerðir fyrir heimilin. Eiga þeir sem tóku lánin ekki bara að bera ábyrgð á sínum skuldum? Þessu er svo sem bæði fljót svarað og ekki síður þörf á því að svara í lengra máli.
Fyrst stutta svarið: Hækkun skulda heimilanna á árinu 2008 er nánast eingöngu tilkomin vegna meintra lögbrota hrunbankanna, stjórnenda þeirra og eigenda og afleiðinga þessara lögbrota. Sérstakur saksóknari rekur nú fjölmörg mál, þar sem stefnt er vegna grófrar markaðsmisnotkunar og skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er nánast full af upplýsingum um þessi meintu lögbrot. Er hægt að jafna þessu við að hrunbankarnir hafi brotist inn á heimili landsins og stolið þaðan verðmætum upp á nokkur hundruð milljarða. Eðlilegt er að það tjón sem heimilin urðu fyrir verði bætt.
Langa svarið: Að sjálfsögðu er stutta svarið innifalið í langa svarinu, en þess fyrir utan eru rökin efnahagsleg, viðskiptaleg, félagsleg, lagaleg og siðferðisleg:
Í fyrsta lagi eru mörg lagaleg rök fyrir því að þetta verði gert. Bara til að nefna fáein, þá er það 36. gr. laga nr. 7/1936, samningalaga, en þar er fjallað um ógildingu samninga vegna forsendubrests. Í tölulið c segir t.d.: Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Í lögum nr. 46/2005 um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir er í 9. gr. ákvæði um að víkja megi til hliðar fjárhagslegri tryggingarráðstöfun, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera ákvæðið fyrir sig. Tel ég þessi lagalegu rök vera nokkuð traust og vex stöðugt í hópi þeirra lögfræðinga sem telja þau nægilega sterk til að vinna dómsmál gegn fjármálafyrirtækjunum.
Í öðru lagi eru það viðskiptaleg rök. Það hefur oft sýnt sig, að sé komið til móts við skuldara með niðurfellingu, afskrift eða leiðréttingu á höfuðstól láns, þá innheimtist í raun hærra hlutfall af höfuðstólnum en annars myndi gerast. Heildarafskriftin/niðurfærslan/leiðréttingin verður því minni, en annars yrði. Ástæðan er að skuldarinn verður áfram virkur viðskiptavinur fjármálafyrirtækisins og stendur oftar í skilum, þar sem greiðsluviljanum er viðhaldið. Viðskiptavinur sem finnst hann njóta réttlætis og sanngirni, er betri viðskiptavinur, en sá sem finnst hann órétti beittur. Virkur viðskiptamaður er verðmætari fyrir fjármálafyrirtækið, en hinn sem er sífellt á flótta með peningana sína og forðast að greiða skuldir sínar. Nú þurfi fjármálafyrirtækin á annað borð að afskrifa lán til að geta komið yfirteknum eignum aftur í umferð, hvers vegna má þessi afskrift ekki eiga sér stað gagnvart núverandi eiganda eignarinnar? Af hverju er það bara hægt gagnvart nýjum eiganda?
Í þriðja lagi eru það siðferðisleg rök. Flest, ef ekki öll, fjármálafyrirtæki tóku á einn eða annan hátt þátt í hrunadansinum. Það er engin afsökun að hafa haft gjaldeyrisjöfnuð í jafnvægi eða hafa ekki ætlað að valda tjóni, dansinn var stiginn taktfastur án þess að hugsað væri fyrir afleiðingunum. Áhættustjórnun fyrirtækjanna brást, of mikil áhætta var tekin og þegar spilaborgin hrundi, þá reyndust viðbragðsáætlanir ekki vera til staðar. Vissulega var hlutur fjármálafyrirtækja misjafn í hruninu, en þeir sem horfðu á og gerðu ekkert til að stoppa vitleysuna eru líka sekir. Það getur því ekkert íslenskt fjármálafyrirtæki talið sig vera saklaust í þessum efnum.
Í fjórða lagi eru það efnahagsleg rök. Þetta eru raunar bara andstæðan við fyrri kostinn. Ef greiðslubyrði lána verður létt með leiðréttingu á höfuðstóli lána, þá eykst neyslan, velta fyrirtækja, skatttekjur, samneysla og við verjum velferðarkerfið. Fleiri verða virkir á fjárfestingamarkaði og verðfall fasteigna stöðvast. Staðið verður vörð um eignir fólks og fyrirtækja. Tiltrúin á hagkerfinu eykst og viljinn til að vera virkur þátttakandi líka. Verulega dregur úr atvinnuleysi og þar með útgjöldum ríkisins til þeirra þátta. Ánægðari þjóðfélagsþegnar skila meiri og betri vinnu og þar með auknum hagvexti. Fólk sér fram á bjartari tíð og að framtíð þess verði best borgið hér á landi. Aukin hagvöxtur og auknar skatttekjur gætu síðan hjálpað við að greiða niður skuldaklafana sem nú hvíla á þjóðinni. Annar vinkill í efnahagslegu rökin eru að bankarnir mega hreinlega ekki hagnast meira því stór hluti hagnaðarins eykur á gjaldeyrisvanda þjóðarinnar. Aðgangsharka fjármálafyrirtækjanna er því hrein ógn við stöðugleika í efnahagslífinu.
Í fimmta lagi eru það félagsleg rök. Eins og mál hafa þróast eru sífellt stærri hópur að lenda utangarðs í þjóðfélaginu. Fólk hefur ekki bara misst allar eigur sínar, heldur er það í auknu mæli að verða komið upp á sveitafélögin eða það dettur inn í hið svarta hagkerfi. Biðraðir þar sem eru matarúthlutanir hafa lítið styst og jafnvel frekar þróast í gagnstæða átt. Fjölmargar fjölskyldur eiga ekki í nein hús að venda og eru nánast á vergangi. Fjölgi í þessum hópi, þá færast byrðarnar yfir á skattgreiðendur og nauðsynlegt verður að fjölga félagslegum úrræðum í húsnæðiskerfinu.
Lokaorð
Þetta er orðin löng færsla, en ég vona að hún verði gott innlegg í umræðuna fram að kosningum. Ef það er einhver flokkur sem er í vafa um út á hvað þetta gengur eða hefur ekki fólk innan sinna vébanda, sem hefur næga þekkingu á þessum málum, þá vona ég að þeir hinir sömu geti nýtt sér þessa grein.
Í fimm ár hafa heimili landsins glímt við meiri fjárhagsvanda en líklegast frá því í kreppunni miklu. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr vanda heimilanna í byrjun níunda áratugarins og ekki heldur þeim vanda sem heimili á landsbyggðinni hafa mátt kljást við í fleiri áratugi. Framganga stjórnvalda á þeim tíma er ekkert nema hneyksli. Landsbyggðin upplifði að þeir sem gátu fluttust burt, en átthagafjötrarnir héldu öðrum, þar sem fólk sat fast í eignum sínum. Ástandið á Suðurnesjum er verra en tárum tekur og þar er fólk að missa húsnæði sitt í stórum stíl. Stjórnvöld og fjármálafyrirtæki verða að vakna upp af þyrniróssvefni sínum. Að gera stóran hluta heimila landsins óvirkan á eignamarkaði er stórhættulegt. Kynslóðin sem á að standa undir nýjabruminu í atvinnulífinu hefur ekki efni á því, þar sem það á ekkert eigið fé í húsnæði sínu.
Við þá sem segja: "Þetta er ekki hægt", vil ég bara segja: "Allt er hægt, ef viljinn er fyrir hendi. Þetta er viðfangsefni, sem til eru margar lausnir á. Við þurfum bara að fara yfir þær opnum huga og velja þá fýsilegustu." Ég er sannfærður um, að séu allar hugmyndirnar lagðar á borðið og færustu einstaklingar fengnir til að vinna eina hugmynd út úr þeim öllum, þá finnist lausn sem hægt er að hrinda í framkvæmd.
Skuldamál heimilanna | Breytt 5.12.2013 kl. 23:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 46
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 41
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði