Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011

Getum unnið allar þjóðirnar á góðum degi

Ótrúlegum drætti er lokið.  Þó íslenska landsliðið hafi ekki riðið feitum hesti frá síðustu leikjum sínum í undankeppni EM og gekk einnig illa í síðust undankeppni HM, þá er riðill algjör happadráttur.  Að lenda í riðli með Noregi, án efa annað af tveimur veikustu þjóðunum í efsta styrkleika flokki, Slóveníu veikustu þjóðinni í 2. styrkleikaflokki, Sviss sem vissulega er þokkalega sterk þjóð af 3. styrkleikaflokki að vera, Albaníu sem hefur verið í sókn við eigum að vinna Albani á heimavelli og Kýpur sem er með okkur í riðil fyrir EM.  Allar þjóðirnar er hægt að vinna á heimavelli og við ættum að geta sótt stig til allra á útivelli.

Ég var búinn að vonast til þess að við lentum á móti Noregi, Slóveníu, Hvít-Rússum, Norður-Írum og Færeyingum, en það sem mestu skipti var að fá Noreg og Slóveníu.


mbl.is Íslendingar heppnir með HM-riðil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhættustýringin er að rakna upp - Stærra hrun í kortunum

Ástandið í fjármálaheiminum er að verða sífellt ískyggilegri.  Eftir því sem fleiri bankar og lönd festast í vef fjármálakreppunnar, þá reyna fjármagnseigendur og þá sérstaklega vogunarsjóðir að bjarga því sem bjargað verður í eignasöfnum sínum.  Því miður virðist margt benda til þess að leikurinn sé tapaður og leikflétturnar leið margar hverjar til þess að ástandið versni frekar en að það batni.

Þegar undirmálslánin fóru að falla á gjalddaga í stórum stíl 2005 og 2006, þá höfðu flestir bankar borð fyrir báru og gátu leyft sér að taka tapi upp á jafnvel 10 ma. USD án þess að hiksta neitt of mikið.  Þannig afskrifaði svissneski UBS þá upphæð í febrúar 2007 vegna ársins 2006.  Ýmsir fjárfestar höfðu tekið stöðu ýmist með eða á móti UBS vegna þessara lána, þannig að hópurinn sem tók á sig tapið var talsvert stór.  UBS tókst þannig líka að dreifa hluta af tapinu til viðskiptafélaga sinna sem flestir voru vogunarsjóðir út um allan heim.  Fyrir vogunarsjóðina var þetta lítið mál enda eignir þeirra eitthvað um 516.000 ma. USD.  Hafa skal þó í huga, að þurfi vogunarsjóðir að afskrifa 10 ma.USD, þá má reikna með að áhrifin verði tíföld, þ.e. frumafskrift upp á 10 ma. USD er með afleiddar afskriftir upp á 90 ma. USD.

Það sem vogunarsjóðirnir vita, er að afleiðuviðskipti snúast um áhættu.  Báðir hópar, þ.e. kaupendur og seljendur, eru að stjórna áhættu sinni með viðskiptunum.  Hvor hópur um sig sér tækifæri í viðskiptunum og þó flestir vilji draga úr áhættu sinni eru aðrir áhættusæknir eða einfaldlega sjá eitthvað í stöðunni sem aðrir sjá ekki.  Í þessum bransa helst hagnaðarvonin í hendur við áhættuna sem tekin er.  Þess meiri áhætta, þess meiri getur hagnaðurinn orðið, en á móti aukast líka líkurnar á því að allt fari á versta veg.

Margir hafa farið flatt á fjárhættuspilinu sem afleiðuviðskiptin eru.  Bearings Bank í Singapore leyfði t.d. Nick Leeson, starfsmanni sínum, að leika lausum hala upp úr 1990 sem varð til þess að hann setti bankann á hausinn.  Allt byrjaði þetta hjá Leeson á litlum upphæðum sem síðan undu upp á sig.  Meðan allt lék í lyndi, þá kvartaði enginn, en svo fór eitthvað úrskeiðis.  Til að rétta hlut sinn, þá tók Leeson sífellt stærri áhættur og loks fékk hann allt framan í sig.  Bankinn varð gjaldþrota.

Áhættumatið þarf að virka þegar illa gengur

Eftir að bankakerfið hrundi á okkur hér á landi í byrjun október 2008, skrifaði ég nokkrar færslur um hvað hefði farið úrskeiðis.  Við skoðun á umfjöllun fjölmiðla um fjölmörg fyrirtæki, sem gekk vel meðan skynsemin réð ríkjum á markaðnum, en féllu á nefið um leið og markaðirnir fóru í panikástand, þá virtist sama atriðið koma upp aftur og aftur.  Áhættustjórnun þeirra byggði á því að tap á einum stað myndi vinnast upp með hagnaði á öðrum stað.  Sveifla niður á einum eignaflokki yrði jöfnuð út með sveiflu upp á öðrum eignaflokki.  Enginn gerði ráð fyrir að niðursveiflan sogaði til sín marga eignaflokka, þar sem menn töldu sig hafa dreift áhættunni nægilega mikið.  Málið er að áhættudreifingin var fullnægjandi fyrir eðlilegt árferðin, en dugði ekki þegar óróleiki var mikill á mörkuðum, eins og var frá miðju ári 2007 fram á haust 2008.

Vogunarsjóðir, bankar og fjárfestar virðast ítrekað falla í sömu gryfjuna, þ.e. að gera ráð fyrir að ekki komi að skuldadögum.  Fjárfestingar eru fjármagnaðar með annarra manna peningum og litlu eiginfé.  Teknar eru gríðarlegar stöður sem ganga út á að niðursveiflan verði aldrei það mikil að uppsveifla annarra þátta skili ekki nægum hagnaði til að greiða fyrir hana þegar hún er á gjalddaga.  Vandinn við verðbréfaviðskipti er nefnilega ekki sveiflurnar heldur hvar fjárfestingin er í sveiflunni þegar kallið kemur.

Þar sem áhættustjórnun, stjórnun rekstarsamfellu og neyðarstjórnun er hluti af því sem ég hef fengist við sem ráðgjafi undanfarin 11 ár, þá hef ég fylgist ég með því hvernig fyrirtæki eru undir áfall búin.  Áhættustjórnun fjármálafyrirtækja virðist almennt snúast um áhættu tengdri einstaka fjármálagjörningum eða í mesta lagi tengdra gjörninga.  Hvergi virðist vera skoðað hvernig á að bergðast við, ef áfallið er meira um sig.  Auðvitað á ekki að gera slíkt mat eftir á, heldur á áhættustjórnunin að koma í veg fyrir að fyrirtækið taki óhóflega áhættu fari allt á versta veg.  En það er betra að framkvæma eftir á mat og læra af mistökunum, en að gera ekkert mat.

Líkja má áhættustjórnun við strengjafræði eðlisfræðinnar.  Hvert atriði sem skoðað er, er einn strengur.  Við byrjum á láni eða búnaði og skoðum sveiflur sem geta orðið í hverjum einasta þætti.  Meðan þættirnir sveiflast sjálfstætt, áháðir öðrum þáttum, þá jafnast þetta út.  Séu sveiflurnar samhverfar, þá getur komið upp vandamál.  Þar sem eingöngu er um eina eign að ræða, þá skiptir þetta líklegast ekki máli.  Því er súmmað út og safn eigna skoðað.  Hvernig haga strengir hverrar eignar fyrir sig sér?  Vega aðrar eignir upp samhverfu sveifluna í eignunum sem við skoðuðum fyrst?  Gerist það, þá er allt í lagi, en sé hætta á að sveiflunar hjá öðrum eignum lendi í sömu samhverfu og þeim sem fyrst voru skoðaðar, þá getur vandinn augljóslega orðinn stærri.  Lag fyrir lag er farið í gegn um allar eignir og eignasöfn fyrirtækisins og áhrifin af samhverfri sveiflu metin.  Jafnframt er skoðað hvernig er hægt að bregðast við ef það gerist.

Áhættumat fyrir þjóðfélag er ekki ósvipað.  Strengir fyrir fjármálageirann eru skoðaðir niður á hvert fyrirtæki, síðan flokk fyrirtækja og loks þjóðfélagið í heild.  Bregðast þarf við með ráðstöfunum, þar sem sveiflurnar eru samhverfar.  Sé það ekki gert, þá getur farið mjög illa, fari eitthvað úrskeiðis.  Ráðstöfunum, sem hér vísað til, er ekki ætlað að breyta sveiflunni.  Hún getur verið af hinu góða.  Nei, þeim er ætlað að takmarka tjónið sem kynni að hljótast af hverju því sem gerist.  T.d. að safna í sjóð til að eiga fyrir afborgun ef svo færi að ekki fáist endurfjármögnun láns.

Staðreyndin er að menn gleymdu sér í velgengninni.  Hætta skal leik, þá hæst hann stendur, segir íslenskur málháttur.  Og annar segir, ganga skal hægt um gleðinnar dyr.  Hvoru tveggja hefur sýnt sig vera rétt. 

Vogunarsjóðir eru í hættu að hrynja

Eins og áður segir, eru eignir vogunarsjóða eitthvað í kringum 516.000 ma. USD.  Þessi upphæð nemur um tíföldu verðmæti eignanna sem vogunarveðmálin byggja á.  Áhrifin á eignarýrnun eða verðhruni er því mikið.  Þegar einn geiri lækkar í verði, er mjög mikilvægt fyrir vogunarsjóðina að annar geiri hækki í verði.  Hugsanlega er hægt að rekja hækkun hrávöruverðs til þess að verið er að vega upp eignabruna í Bandaríkjunum.  Hvaða rök eru fyrir því að japanska jenið hefur rokið upp úr öllu, þegar áhrifin af jarðskjálftanum hefðu átt að virka í öfuga átt?  Af hverju hefur lágvaxtamyntin svissneski frankinn hækkað og hækkað?  Öll verðmyndun á markaði byggir á því að viðhalda jafnvægi og þetta er liður í því.

Fyrsti stóri vogunarsjóðurinn sem hrundi var LTCM í New York árið 1998.  Hann var fyrirmynd allra og allt breyttist í gull sem sjóðurinn snerti.  Svo kom rússneska fjármálakreppan og niðurstaðan var 4,6 milljarða dala tap hjá sjóðnum á fjórum mánuðum.  Tapið var svo hrikalegt, að menn töldu hættu á keðjuverkun nema gripið væri inn í.  Og það gerði Seðlabanki New York (Federal Reserve Bank of New York) með aðstoð helstu lánadrottna.  (Bankastjóri hans á þeim tíma var Timothy Geitner, núverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna.)  LTCM var nefnilega talið of stórt til að falla.  Hið gríðarlega tap sjóðsins var afleiðing af röngu áhættumati byggðu á reiknilíkni framkvæmdu af tölvu.  Hafa skal í huga að tveir af eigendum LTCM voru Myron Scholes og Robert C. Merton sem fengu Nóblesverðlaunin í hagfræði 1997 vegna rannsókna sinna á hegðun verðbréfa, m.a. Black-Scholes formúluna, sem hafði gert betur en nokkrar aðrar að segja fyrir um þróun afleiða, þ.e. „stock options“.  Verk þeirra Merton og Scholes höfðu gengið út á að lágmarka áhættu í verðbréfaviðskiptum.  Það var því mikið áfall fyrir markaðinn í heild, þegar í ljós kom, að slíkt grundvallarverk, sem rannsóknir þeirra höfðu skilað af sér, gekk bara upp, þegar markaðirnir höguðu sér af samkvæmt forskrift.  Áhættumat þarf hins vegar alltaf að gera ráð fyrir hinu ómögulega.  Sama er hve varlega menn fara og dreifa „eggjunum“ sínum í margar „körfur“, „kröfurnar“ gætu allar óvart verið í sömu stóru „körfunni“.  Menn súmmuðu einfaldlega ekki nógu langt út.

Þarna kemur aftur að strengjafræðinni.  Möguleikinn er nefnilega að strengirnir sveiflist hver um sig sjálfstætt, en eru síðan í safni strengja sem sveiflast í samhverfum með öðrum.  Síðan kemur slinkur á stóra strenginn og þeir litlu smella í samhverfu með „ófyrirséðum“ afleiðingum.  Ef störf höfundar við áhættustjórnun hafa leitt eitthvað í ljós, þá er það að maður veit aldrei hvenær slinkurinn kemur og hvaða áhrif hann hefur, en að halda því fram að eitthvað sé ófyrirséð er rangt.  Það er ekki til neitt sem er ófyrirséð, eingöngu það sem ekki hefur verið gert ráð fyrir.  Rétt framkvæmt áhættumat gerir ráð fyrir öllu, þannig að ekkert verði „ófyrirséð“.  Áhættumatið þarf að virka þegar illa gengur.

Hvert stefnir?

Og þá komum við að stöðunni í dag.  Þegar fjármálakreppan skall á um mitt sumar 2007, þá fóru vogunarsjóðirnir að haga sér líkt og Nick Leeson.  Í staðinn fyrir að sætta sig við tiltölulega saklaust tap var byrjað að leggja meira og meira undir.  Ef mönnum hefði tekist að taka slagsíðuna árið 2007 á kinnina þá hefði framhaldið orðið öðru vísi.  En í staðinn var dómínókubbunum ýtt af stað.  Eða eigum við að segja, að menn bjuggu til samhverfa sveiflu í áhættu á stærra svæði.  Bears Stern féll og þá Lehman Brothers, Ísland fylgdi og Írland komst í hann krappann.  Vogunarsjóðirnir töpuðu háum fjárhæðum á Bears Stern og Lehman Brothers og þá peninga töldu menn sig verða að endurheimta.  Settur var þrýstingur á veikasta hlekkinn í evru samstarfinu og nú er ekki bara Grikkland fallið, Írland hefur dregist dýpra niður í svaðið, Ítalía, Portúgal, Spánn og að ég tali nú ekki um ríkin innan ESB í austurhluta Evrópu.  Á þetta bætist að bandaríska hagkerfið er í alvarlegum vanda.  Ástandið er sjálfskaparvíti annars vegar vogunarsjóða sem eru að reyna að bjarga eigin skinni og misvitra ríkisstjórna og seðlabanka, sem telja það vera blett á egóið að geta ekki ráðið við ástandið.

Daginn sem ríkisstjórnir og seðlabankar um allan heim átta sig á því, að það er ekki hlutverk þeirra og alls ekki hlutverk skattgreiðenda, að vera mótvægi við áhættu sem vogunarsjóðir taka, þá mun ástandið byrja að snúast við.  Einhverjar merkilegar stofnanir munu ekki lifa það af og svo verður bara að vera. Náttúran hefur sýnt okkur margoft að oft er stórbruni nauðsynlegur undanfari þess að endurnýjunin geti átt sér stað.


mbl.is Bandarískir bankar eiga mikið undir evrusvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýringarnar á lækkun skulda eru margar, en ættu að vera fleiri - Rangar upplýsingar um skuldastöðu heimilanna

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, er í stuttu viðtali við Morgunblaðið í dag.  Í viðtalinu er m.a. vikið að þeim upplýsingum að skuldir heimilanna hafi lækkað um heila 14,4 ma.kr. milli upplýsinga í skattframtölum 2011 og 2010.  Já, þetta eru heilir 14,4 ma.kr. þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi dæmt gengistrygginguna vera ólöglega verðtryggingu um mitt sl. ár.  Ríkisskattstjóri getur sér til um að ástæðan sé að fjármálafyrirtækin hafi verið byrjuð að afskrifa skuldir og fólk hafi tekið sparnað til að greiða upp skuldir.  Hvorutveggja er rétt, þar sem einhverjar "afskriftir" hafa átt sér stað án þess að það telji í háum upphæðum samkvæmt upplýsingum frá bönkunum.  Að fólk hafi tekið út sparnað er hins vegar rétt, þar sem á fimmta tug þúsunda hefur tekið út séreignarsparnað sinn svo nemur tugum milljarða og líklegt er að eitthvað af þeim peningi hafi farið í að lækka skuldir.

Tvennt nefnir ríkisskattstjóri ekki.  Annað er til lækkunar skulda og hitt hefði átt að lækka skuldir mun meira.  Fyrra atriðið er að verðbólga á síðasta ári var 1,8% og því hefði öllum sem skulda verðtryggð lán átt að takast að greiða niður af höfuðstólnum, þ.e. afborganir á höfuðstól hefðu átt að vera hærri en hækkun höfuðstóls vegna verðbóta.  Síðara atriðið er að 16. júní 2010 þá felldi Hæstiréttur tvo dóma í málum nr. 92/2010 og 153/2010, þar sem rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að gengistrygging væri ólögleg verðtrygging og því ætti að þurrka allar hækkanir höfuðstóls vegna breytingar á krónunni af lánunum.  Málið er að fjármálafyrirtækin hunsuðu þessa dóma og sendu inn rangar upplýsingar til skattayfirvalda vegna stöðu áður gengistryggðra lána.  Þrátt fyrir að ég hafi bent ríkisskattstjóra á þessi lögbrot fjármálafyrirtækjanna, þá virðist mér sem hann hafi látið ábendingu mína sem vind um eyru þjóta.  A.m.k. kemur ekki fram í skuldastöðu heimilanna, að lánin hefi verið færð inn á skattframtölin í samræmi við úrskurði Hæstaréttar.  Sýnir þetta því miður samtryggingu kerfisins.  Fjármálafyrirtækin geta gert hvað sem er og allir innan stjórnkerfisins virðast samþykkja hegðun þeirra sama hvort um er að ræða lögbrot eða siðferðisbrot.

Árni Páll Árnason hefur gengið manna lengst fram í því að verja lögbrot fjármálafyrirtækjanna.  Með frumvarpi sínu um vexti áður gengistryggðra lána gaf hann fjármálafyrirtækjunum líklegast um 150 milljarða á kostnað heimilanna.  Raunar gaf hann kröfuhöfum lögbrjótanna, þ.e. hrunbankanna, þessa upphæð (þó hugsanlega renni hluti af henni til nýju bankanna og ætti að nýtast í launauppbætur fyrir starfsfólk).  Rök hans eru stjórnarskrárvarinn réttur kröfuhafa og hann gæti lent í lögsóknum kröfuhafanna.  Manninum er ekki alltaf sjálfrátt og svo er í þetta sinn.  Í fyrsta lagi, þá höfðu kröfuhafarnir þegar gefið eftir þessar kröfur.  Það var því ekki verið að hafa neitt af þeim.  Í öðru lagi, hvað með stjórnarskrárvarinn rétt minn sem lántaka að ekki verði sett á mig afturvirk íþyngjandi löggjöf.  Í þriðja lagi, hvað með mannréttindi.  Nei, Árni Páll er svo hræddur við kröfuhafa að honum verður líklegast brátt í brók í hvert sinn sem hann hugsar til þessara óvætta í mannsmynd.

Kaldhæðnin í þessu er að umheimurinn heldur að fólk hafi verið tekið fram yfir kröfuhafa á Íslandi.  Staðreyndin er sú að kröfuhafar fá allt sem hægt er að kreista út úr fólki með góðu móti.  Til þess fá þeir aðstoð frá skattinum með fölsuðum upplýsingum í skattframtölum, fjármálaráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra sem bera óttablandna virðingu fyrir "erlendum kröfuhöfum", frá Seðlabanka Íslands sem áttar sig ekki á því að efnahagsstöðugleiki verður ekki tryggður nema fjárhagur fyrirtækja og heimila verður tryggður, Fjármálaeftirlitinu sem ennþá heldur að hlutverk þess sé að verja fjármálafyrirtækin en ekki sjá til þess að þau fari að lögum og Alþingi sem hefur ekki kjark til að rísa upp gegn ofríki ríkisstjórnarinnar, þó öllum þingmönnum megi vera ljóst að verið sé að brjóta á rétti almennings.


mbl.is Heimilin eru hætt að safna skuldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draga fjármálafyrirtæki samninga á langinn svo þau geti innheimt hærri vexti og kostnað?

Ég hef nokkur dæmi fyrir framan mig um óeðlilegan drátt fjármálafyrirtækja við að ganga til eða ganga frá samningum við viðskiptavini sína.  Lengst hafa liðið meira en tvö ár frá því að fyrirtæki óskaði eftir samningum, þar til fjármálafyrirtækinu þóknaðist að ljúka þeim.  Að sjálfsögðu krafist fjármálafyrirtæki fullra vaxta og kostnaðar fyrir það tímabil sem fjármálafyrirtækið tók sér aukalega.

Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvort tilgangur fjármálafyrirtækjanna sé að blóðmjólka viðskiptavininn eins og kostur er.  Hvers vegna ætti banki sem fékk greidda tugi milljóna inn á vörslureikning (þ.e. reikning sem viðskiptavinurinn hefur enga stjórn á) að draga það í 12 - 15 mánuði, ef ekki lengur, að gera upp lán með vörslufénu?  Síðan fer uppgjörið fram með fullum vöxtum, dráttarvöxtum, innheimtukostnaði, vanskilakostnaði og guð má vita hvað.  Eru þetta eðlilegir viðskiptahættir? 

Fáránleikinn í þessu er að dómstólar hafa bakkað fjármálafyrirtækin upp í þessari vitleysu og dæmt fólk og fyrirtæki til að greiða allan kostnað sem fjármálafyrirtækin hafa krafist, þó verulegur hluti viðbótarkostnaðar sé til kominn vegna þess að fjármálafyrirtækin eru að draga fólk og fyrirtæki á asnaeyrunum og bíða eins lengi og hægt er að ganga frá uppgjöri.  Við lestur dómsmála má síðan sjá að samningar hafa jafnvel tekist milli aðila, en fjármálafyrirtækið fallið frá þeim eða bætt við kröfum á síðustu stundu að því virðist í þeim eina tilgangi að hleypa málum upp.  Er alveg með ólíkindum að slík háttsemi varði ekki við lög og ennþá vitlausara að dómstólar skuli ekki setja ofan í við fjármálafyrirtækin vegna slíkrar háttsemi.

Mig langar að nefna hér nokkur dæmi (tekið fram að þetta eru allt raunveruleg dæmi):

1.  Bjóða átti hús upp vegna vanskila.  Eigandanum tókst að selja húsið en bankinn setti það skilyrði að söluandvirðið, sem var vel umfram skuldir, yrði geymt á vörslureikningi.  18 mánuðum síðar var féð ennþá inni á vörslureikningnum og lánið óuppgert.  Eigandinn þurfti allan tímann að búa inni á skyldmennum, þar sem viðkomandi fékk hvergi lánafyrirgreiðslu vegna þess að bankinn breytti ekki vanskilamerkingu hjá CreditInfo.

2.  Fyrirtæki lenti í vanskilum með lán sín.  Það átti eign sem dugði fyrir stærstum hluta þeirra lána sem voru í vanskilum, þ.e. gat greitt upp megnið af lánunum með eigninni, og reksturinn gat síðan staðið undir restinni.  Bankinn tók sér tvö ár að hugsa málið!  Á meðan hrönnuðust upp vanskil og kostnaður, sem bankinn krafðist að fá greiddan við uppgjör.  Uppgjör, sem fólst í því að bankinn tók yfir eignina (sem boðin var strax í upphafi) og skuldajafnaði gegn hluta þeirra lána sem fyrirtækið var með, fór að lokum fram en fyrirtækið þurfti að greiða drjúgan viðbótarkostnað vegna vinnubragða bankans.  Eigandi fyrirtækisins hafði nánast einu sinni í mánuði rekið á eftir því að samningarnir væru kláraðir, en það kom nær alltaf það svar að þetta væri í athugun.

3.  Eldri hjón lentu í vandræðum með lánin sín.  Þau buðu bankanum að taka upp í sumarbústað sem þau áttu austur í sveit.  Þau máttu bíða í 12 mánuði eftir niðurstöðu og í millitíðinni seldu þau hjólhýsi, minnkuðu við sig í bíl og tóku út séreignarsparnað.  Þau misstu samt sumarhúsið sitt.

4.  Ég er með fjölmörg dæmi um fólk með tvær eignir sem hafa reynt að ná frjálsum samningum við fjármálafyrirtæki.  Viðskiptavinirnir hafa lagt fram tilboð sem fjármálafyrirtækin hafa hafnað með hreinu neii, en þegar þau hafa verið beðin um tillögu að lausn þá er fólki svarað með þögninni.  Grófasta dæmið er tæplega tveggja ára bið eftir tilboði um uppgjör og ennþá hefur tilboð ekki borist, þrátt fyrir að ítrekað hafi verið gengið eftir því.

5.  Hjón fengu að skila lóð og fengu hana endurgreidda frá Reykjavíkurborg.  Upphæðin var hærri en skuld við komandi við fjármálafyrirtæki.  Greiðslan frá borginni var lögð inn á vörslureikning.  Það var á síðasta ári.  Fjármálafyrirtækið vill gera lánið upp þannig að vextir á láninu frá því greiðslan frá borginni barst eru umtalsvert hærri en vextirnir af vörslureikningnum!  (Ég er með fleiri en eitt dæmi um nákvæmlega þetta.)

6.  En þessi aðferð að draga samninga eins lengi og hægt er nær til fleiri þátta en húsnæðislána.  Það er sama hvernig lánaviðskipti einstaklingur eða fyrirtæki eru með, óskir um samninga og uppgjör eru hummaðar fram af sér eins lengi og kostur er.  Snúist óskin um að skuldbreyta úr hærri vöxtum í lægri, skuldajafna eða bara gera upp há sem lága skuld sem bera háa vexti, þá draga þau allt á langinn en passa sig vandlega að krefjast allra þeirra vaxta sem mögulegt er að krefjast.

Ég gæti talið til mun fleiri dæmi og hvet fólk til að bæta sínum dæmum við í athugasemdum.

Fjármálafyrirtækin bera fyrir sig að málin séu svo flókin.  Ég skil ekki hversu flókið það getur verið að nota greiðslu upp á segjum 40 m.kr. til að borga upp lán sem stendur í 32 m.kr.  Nei, í staðinn er beðið með að reikna út uppgjörið, þar til upphæðin er komin í 45 m.kr. með vöxtum, dráttarvöxtum og kostnaði, svo viðskiptavinurinn skuldar fjármálafyrirtækinu en ekki öfugt.  Ég skil heldur ekki hvað er svo flókið að miða uppgjör við þann dag, þegar peningarnir komust sannanlega í vörslu fjármálafyrirtækisins eða voru fjármálafyrirtækinu tiltækir.  Ég skil heldur ekki hversu flókið það er fyrir fjármálafyrirtæki að ganga til samninga við fólk og fyrirtæki um skuldajöfnun á grunni yfirtöku eigna. Ég skil ekki af hverju fjármálafyrirtæki fara með nær öll mál fyrir dómstóla, þegar viðskiptavinurinn hefur bein í nefinu að standa á rétti sínum.  Ætli það sé vegna þess að neytendalöggjöf á Íslandi er fótum troðin af dómstólum?

Fjármálafyrirtækin skortir ekki afsakanirnar, þegar þau fresta málum.  Klassískt er að bera fyrir sig að hinn eða þessi, sem þurfi að fjalla um málið, sé í fríi.  (Eins og þau hafi aldrei heyrt talað um staðgengla.)  Þá eru það blessaðar lánanefndirnar, sem koma greinilega allt of sjaldan saman eða eru stórlega undirmannaðar.  Í nokkrum tilfellum hafa fjármálafyrirtæki borið fyrir sig óvissuna um uppgjör gengistryggðra lána, þrátt fyrir að viðskiptavinir hafi nýtt sér tilboð þeirra haustið 2009 um skuldbreytingu í íslenskar krónur.  Menn hafa flaggað lögunum hans Árna Páls um afturvirka vexti.  Dómar Hæstaréttar hafa menn notað sem afsakanir.  Þetta minnir mig helst á alkólista sem er með fullt af afsökunum fyrir að drekka.  En það er sama hver afsökunin er, alltaf passa fjármálafyrirtækin sig á því að vaxtareikna lánin og bæta við vanskilakostnaði.

Ég er þess handviss að þessi aðferðafræði fjármálafyrirtækjanna er úthugsuð taktík hjá þeim, sem sýnir náttúrulega ótrúlega breglað viðskiptasiðferði.  Þau vita alveg upp á hár hvernig þau geta mjólkað sem mest út úr viðskiptavininum.  Er nema von að fólk treystir ekki fjármálafyrirtækjunum!  Ég auglýsti einhvern tímann eftir heiðarlegu bankafólki.  Ég held ég þurfi að fara að endurbirta þá auglýsingu fyrr en síðar.  Síðan auglýsi ég eftir einhverjum innan stjórnkerfisins, að ég tali nú ekki innan Alþingis, sem hefur bein í nefinu til að stoppa fjármálafyrirtækin af í þessari vitleysu sinni.

Staða viðskiptavina fjármálafyrirtækjanna er vonlaus.  Þeir geta ekki þvingað fyrirtækin til samninga.  Þeir geta ekki greitt fjárhæðir inn á lánin, ef fjármálafyrirtækið neitar að færa inngreiðsluna inn.  Þeir geta ekki afhent fjármálafyrirtækinu afsal af eign nema fjármálafyrirtækið hafi samþykkt samning þar að lútandi.  Nei, fjármálafyrirtæki hafa öll trompin á hendi sér og vita það.  Ég veit að mörgum líður eins og þeim sé haldið í gíslingu fjármálafyrirtækjanna og verði ekki sleppt nema gegn ofurháu lausnargjaldi.  Tveggja ára seðlabankavextir af 20 m.kr. láni geta hlaupið á hærri tölu en árslaun viðkomandi skuldara.


Geta bankamenn (og fleiri) átt yfir höfði sér allt að 6 ára fangelsi vegna gengistryggðra útlána fjármálafyrirtækjanna?

Ég var spurður að því um daginn hvort að útgáfa og innheimta fjármálafyrirtækja á gengistryggðum lánum gæti hafa verið refsiverð athöfn.  Vísaði viðkomandi þá sérstaklega til 264. gr. laga nr. 19/1940 almennra hegningarlaga.  Þar sem mér finnst eðlilegt að svara fyrirspurnum sem til mín berast (þó það dragist stundum og gleymist líka oft), þá lagðist ég í smá rannsókn á þessu máli.

Samkvæmt 17. gr. laga nr. 38/2001, þá varðar það sektum ef brotið er gegn ákvæðum VI. kafla laganna.  Svo vill til að Hæstiréttur hefur komist að þeirri niðurstöðu að Landsbanki Íslands (síðar NBI hf. og núna Landsbankinn hf.), Kaupþing banki (síðar Nýi Kaupþing banki og núna Arion banki), Glitnir (síðar Nýi Glitnir og núna Íslandsbanki), Lýsing hf., SP-fjármögnun hf., Avant hf. og Frjálsi fjárfestingabankinn hf. (líklegast Drómi hf. í dag) brutu öll gegn 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, en þessar greinar eru einmitt í VI. kafla laganna.  17. gr. hljjóðar sem hér segir:

Brot á VI. kafla laga þessara varða sektum nema þyngri refsing liggi við broti samkvæmt öðrum lögum.

Nú í lögum nr. 19/1940 almennum hegningarlögum segir í 248. gr.: 

Ef maður kemur öðrum manni til að hafast eitthvað að eða láta eitthvað ógert með því á ólögmætan hátt að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd hans um einhver atvik, og hefur þannig fé af honum eða öðrum, þá varðar það fangelsi allt að 6 árum.

og í 264. gr. segir m.a.:

Hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á lögum þessum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða meðal annars umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skal sæta fangelsi allt að 6 árum.

Nú veit ég bara að þeir bankar, sem ég á í viðskiptum við, reyndu allt síðast liðið ár (og einn raunar fram í mars á þessu ári) að innheimta hjá mér afborganir með gengistryggingu þrátt fyrir dóma Hæstaréttar frá 16. júní í fyrra.  Virðist mér sem með því hefi þeir verið að brjóta gegn 248. gr. hegningarlaga.  Nú mér voru sendar innheimtukröfur á hverjum gjalddaga og greiddi ég þær eins lengi og ég gat og þar til ég áttaði mig á því að um ólöglegar innheimtukröfur að ræða.  Sýnist mér sem það hafi verið brot á 264. gr. laganna.  Brot gegn báðum þessum greinum varða allt að 6 ára fangelsi og samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 81.gr. hegningarlaga, þá fyrnist sök vegna slíkra brota á 10 árum.  Einhverjum gæti dottið í hug að sekt sé ekki refsing, en því er fljót svarað:  Refsing getur hvort heldur verið sekt, skilorðsbundinn fangelsisdómur eða óskilorðsbundinn fangelsisdómur.  Ákvæði 264. gr. nær því yfir brot á VI. kafla laga nr. 38/2001.

En það er búið að leiðrétta þessi lán, hugsa vafalaust einhverjir.  Er það svo?  Er virkilega búið að leiðrétta að fullu þá hækkun lána einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélagasem kom til vegna þess sem RNA vísar til sem möguleg lögbrot stjórnenda og eigenda fjármálafyrirtækjanna?  Hvað síðan með allar vörslusviptingarnar og uppboð sem gerð voru á grunni ólöglegrar gengistryggingar?

Það eru síðan ekki bara bankamenn sem gætu átt yfir höfði sér kæru vegna brota á 264. gr.  hegningarlaga.  Greinin tekur nefnilega til allra sem aðstoða við brotin.  Þar koma ansi margir við sögu, svo sem skilanefndarmenn, slitastjórnir, vörslusviptingaaðilar, sýslumenn og fulltrúar þeirra, dómarar, starfsmenn Fjármálaeftirlitsins, starfsmenn Seðlabanka Íslands, starfsmenn stjórnarráðsins, ráðherrar og jafnvel þingmenn, þó fimm síðast töldu taki beinan þátt í verknaðnum, þá aðstoðuðu aðgerðir þeirra eða aðgerðarleysi fjármálafyrirtækin í brotum sínum.

Nú þýðir ekki fyrir fjármálafyrirtækin að bera fyrir grandleysi, þar sem samtök þeirra sendu inn umsögn við frumvarp að lögum nr. 38/2001 þar sem bent var á að þessi lán yrðu ólögleg færi þessi hluti frumvarpsins óbreyttur í gegn um Alþingi.  Brotaviljinn var því ótvíræður og ásetningurinn einbeittur.  Seðlabankinn og viðskiptaráðuneytið höfðu á vormánuðum 2009 í höndum lögfræðiálit þar sem sagt var nánast augljóst að gengistrygging væri ólögleg.  Búið var að benda FME á hið sama.  Gr. 264 segir ekkert um að viðkomandi þurfi að vera meðvitaður um lögbrotið, þannig að ekki hægt að bera þekkingarleysi fyrir sér.

Þetta eru náttúrulega bara mínar vangaveltur í kjölfar spurningarinnar sem ég fékk og væri gott að fá viðhorf löglærðra einstaklinga á þeim.  Einnig væri áhugavert að fá ábendingar um það hverjir það eru sem gætu kært þennan verknað, hverja væri í reynd hægt að kæra og hvert ætti að kæra.  Síðan væri gott að vita hvort slík kæra yrði til þess að um opinbert mál eða einkamál yrði að ræða. 

Það er með þetta eins og margt annað, að væri búið að leysa skuldamál heimila og fyrirtækja með farsælum hætti, þá væri fólk ekki velta þessum hlutum fyrir sér.  Enginn er mér vitandi á leiðinni með að kæra einn eða neinn vegna þessara mála, en ljóst er að farið er að styttast í kveikjuþræðinum.


Limbó

Kaþólskir trúa (trúðu) því að sálir óskírðra barna fari til Limbó meðan verið væri að ákveða hvort þær enda í hreinsunareldinum eða á betri stað.  Sama á við um þá sem höfðu syndgað, en dóu í sátt við guð.  Þeir einir fara á betri staðinn sem fengið hafa fyrirgefningu synda sinna hjá Kristi, en hinir enda í helvíti.  Limbó er það sem einnig er kallaður forgarður helvítis.

Mér sýnist sem ástandinu í þjóðfélaginu í dag sé best lýst með orðinu LIMBÓ, a.m.k. þegar kemur að skuldastöðu heimilanna og fyrirtækja og fjárhagsstöðu lífeyrissjóða og fjármálafyrirtækja.  Heimilin eru send til umboðsmanns skuldara eða þjónustufulltrúa fjármálafyrirtækjanna og þar bíða þau í limbó eftir þvi að fá að vita hvort tekið er á málum þeirra á jákvæðan hátt eða þeim sagt að éta það sem úti frýs.  Fyrirtækjunum var beint inn á Beinu brautina fjármálafyrirtækjanna.  Eftir að sótt er um, þá bíða þau í ofvæni eftir því að vita hvort þau fái úrlausn sinna mála eða er sagt að éta það sem úti frýs.  Í seinni hópinn virðast helst fara fyrirtæki sem eru í samkeppni við fyrirtæki í eigu bankanna eða bankarnir eru búnir að koma í hendur "réttra" aðila.  Nú lifeyrissjóðirnir eru í limbó þar sem þeir vita ekki hvers virði mikilvægar eignir þeirra eru eða hvort þeir skuldi jafnvel 40% af eignum sínum aðilum sem léku á þá eins og smákrakka.  Loks eru fjármálafyrirtækin í limbó þar sem hafa ekki hugmynd um hvers virði lánasöfnin þeirra eru, hver niðurstaða mýgrúts af dómsmálum verður, hvort viðskiptavinir þeirra vilja yfirhöfuð eiga viðskipti við þau í framtíðinni og bara hvort þau lifi af næsta óróa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Óvissan sem skapaðist við hrun bankanna í október 2008 og ekki síður við fall SPRON í mars 2009 er því miður ennþá til staðar hjá gríðarlega stórum hópum í þjóðfélaginu.  Það sem ég varaði við í október og nóvember 2008 og febrúar 2009, að fjármálafyrirtækin eignuðust stóran hluta fyrirtækja og fasteignir heimilanna, hefur gengið eftir.  Fjármálafyrirtækin sem orsökuðu hrunið (og hin nýju afsprengi þeirra) eru hægt og bítandi að eignast allar eignir í þjóðfélaginu og skilja viðskiptavinina (sem hljóta núna að vera fyrrverandi) nánast eignalausa.  Ótrúlega fáránleg niðurstaða.  Og séu menn ekki hlíðnir og borgi allt, þá geta þeir lent í skuldafangelsi, en hinir sem orsökuðu hrunið, þeir eru bara í góðum málum enda voru þeir með allt sitt í einkahlutafélögum.  Fáránleikinn tekur síðan engan endi í því að margir af þeim sem voru í fínum stöðum í hrunbönkunum, eru að vinna fyrir slitastjórnir, skilanefndir og nýju bankana að því að herða hengingarólina um fólk og fyrirtæki eða hirða af þeim allar eignir.  Sem sagt starfsfólkið sem hannaði atburðarásina er að sjá til þess að hún endi eins og til var ætlast.

Einu sinni var ég heppinn en ekki lengur

Fyrir þremur árum, þá taldi ég mig vera mjög heppinn með að vera í viðskiptum við SPRON og fyrir sjóðsins.  Þar var gott starfsfólk og allar ákvarðanir voru teknar hratt og vel af starfsfólki sem passaði sig á því að halda góðri nánd við viðskiptavininn.  Nú er öldin önnur.

Það verða að teljast einhver stærstu mistök stjórnvalda að láta ekki SPRON fara sömu leið og hin fjármálafyrirtækin, þ.e. stofna nýtt fjármálafyrirtæki á rústum hins gamla.  Í staðinn kom svarthol.  Eins og fólk veit hefur svarthol þann eiginleika að sjúga allt til sín og skila engu til baka.  Ótrúlega margir snúa sér til mín varðandi viðskipti sín við þetta fyrirtæki, sem í dag heitir Drómi.  Það ber nafn með rentu.  Reipinu Dróma var ætlað að binda Fenrisúlfinn fastan í goðaheimum, en gerði lítið gagn.  Kannski þeir ættu að skipta um nafn á fyrirtækinu og kallað það Gleipnir, því það var jú Gleipnir sem skilaði niðurstöðunni sem búist var við.

Ég segi að þetta hafi verið stærstu mistök stjórnvalda og langar að útskýra það í stuttu máli.  Þar sem stofnaðir voru nýir bankar á rústum hrunbankanna, þá voru þeir í reynd starfræktir áfram bara undir nýjum kennitölu (þó deila megi um það hvort það er nýja eða gamla kennitalan sem í reynd sú sem gildir).  Þar með var viðhaldi samfeldni í rekstri og viðskiptum við viðskiptavini hrunbankanna.  SPRON var settur gjaldþrot.  Þar með breyttist viðskiptasambandið milli sjóðsins og viðskiptavinanna í samband milli þrotabús sem heyrir undir löggjöf um gjaldþrotaskipti og skuldara þrotabúsins, þ.e. við sem voru áður viðskiptavinir SPRON/FF erum búin að missa þá stöðu og þrotabúið þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af því að viðhalda samfeldni.  Lög um gjaldþrotaskipti virka líka þannig, að skiptastjóra er hreinlega skylt að hámarka virði eigna og kröfuhafar geta kært slitastjóra sem ekki sinnir þeirri skyldu sinni.

Hugsanlega ætluðu stjórnvöld að sýna mátt sinn og megin, þegar ákveðið var að setja SPRON/FF í þrot í staðinn fyrir að fara þá leið sem farið var gagnvart hrunbönkunum.  Þúsundir fyrrverandi viðskiptavina sjóðsins eru nú að líða fyrir þá vöðvahnykkingu. 


Verðtryggð húsnæðislán með 0,5 - 1,5% vöxtum

Væri það ekki draumur í dós, ef íslenskum húsnæðiskaupendum byðust verðtryggð húsnæðislán með 0,5 - 1,5% vöxtum ofan á verðtryggingu?  Þetta er veruleikinn í Ísrael.

Ísrael ásamt Chile og Íslandi eru einu löndin í heiminum (sem ég veit af), sem bjóða almenningi verðtryggð lán.   Öll þessi lönd tóku upp verðtryggð lán vegna mikillar verðbólgu sem át upp höfuðstól lánanna fyrir tíma verðtryggingarinnar. 

Chile

Kerfið í Chile er gjörólíkt því sem við höfum og því erfitt til samanburðar.  Notuð er eining UF eða Unidad de Fomento) sem er nokkurs konar gjaldmiðill húsnæðislána.  Seðlabankinn heldur utan um "gengi" UF og birtir mánaðarlega.  Þrátt fyrir ítrekaða leit, þá hefur mér ekki tekist að finna nákvæmar upplýsingar um hve háir verðtryggðir vextir eru í Chile, en það sem ég hef fundið er að vextirnir hafi byrjað mjög háir í kringum 1990 (8,5%) en hafi síðan farið lækkandi (standa núna í 4,5- 5,5%).  Óverðtryggðir breytilegir vextir standa hins vegar í 3,3-3,5%!  Verðbólga í Chile hefur á undanförnum 4 árum verið á bilinu 2,5 - 5% og fer hækkandi.  Gengi UF tekur siðan mið af bæði vöxtunum og verðbólgunni.

Ísrael

Ég var á ferð um landið með hóp af Ísraelum og færði húsnæðislánakerfið í tal við fyrrverandi bankamann.  Í Ísrael er boðið upp á fjölbreytta möguleika og meðal annars verðtryggð húsnæðislán, s.k. Madad lán.  Samkvæmt upplýsingum þessa manns, þá eru verðtryggðir vextir um 0,5 - 1,0%.  Samkvæmt upplýsingum af vef Seðlabanka Ísrael, þá er bilið meira eða 0,5 - 2,0%.  (Þetta eru glærur sem sýna á blaðsíðu 9 verðbólgu og bls. 11 nafnvexti húsnæðislána, þ.e. vextina ásamt verðtryggingunni.  CPI er verðtrygging.)  Samkvæmt sömu upplýsingum eru óverðtryggðir húsnæðisvextir um 2,0 - 2,5% lægri en nafnvextir verðtryggðra lána!  Merkilegt er að skoða uppfjöllun í skýrslu verðtryggingarnefndarinnar um verðtryggða vexti í Ísrael, en þar er fundin ein heimild sem gefur upp 3,5% vexti.  Heimildin er frá fasteignasölu (!) í staðinn fyrir að vitna í seðlabankann.

Þegar ég fór að skoða nánar upplýsingar á vefnum, þá rakst ég á vef íbúðalánafyrirtækis.  Þar er fjallað um ýmsa fjármögnunarkosti og rætt um kosti þeirra og galla.  Um verðtryggð lán segir:

Inflation indexed rates, either fixed or variable

Whether the rate is fixed or variable, the capital is indexed to inflation.
This plan does not offer many advantages.
For now, we do not recommend it.

Já, einmitt það.  Þó vextirnir séu lágir, þá sér þetta fyrirtæki ekki marga kosti og mælir ekki með þessu lánaformi.  Er það í andstöðu við niðurstöðu skýrslu verðtryggingarnefndarinnar.

Í öðru skjali frá húsnæðislánafyrirtækinu First Israeli Mortgages er fjallað um ýmis lánaform og m.a. verðtryggð lán.  Fyrirsögnin á þeim kafla sem fjallar um verðtryggð lán er:

The best loan for you (if you are a bank)

Og síðar segir:

You may be wondering, why would anyone choose a madad-linked loan and how would anyone ever be able to convince a customer to take one?  The answer is: they don’t need to.  Many borrowers convince themselves.  When inquiring about mortgages, unknowing banking customers receive offers from “their” bank, which may seem very attractive.  These offers are targeted at making the consumer feel he/she can afford the new house with a fairly low monthly payment.  Interest rates are quoted as “3.5% fixed for 20 years”.  What is often not stressed is that the borrower’s balance is linked to madad, which will cause the effective interest rate to be much higher.  Consumers choose madad loans because they often carry the lowest initial monthly payment obtainable.  Some aggressive lenders will even offer 40-year loan terms only on Madad linked loan products.  Banks prefer to sell madad linked loan products for many reasons.  Firstly, they are hedged against inflation- this means that the bank has essentially no risk in terms of the value of their outstanding loans depreciating.  Second, linked loans carry a very low default risk because payments are rising gradually-especially in the first 10 years of the loan term.  If an adjustable rate loan such as Prime adjusts upward by 2-3%, the monthly payments on the loan will rise much more than on a madad linked loan, even assuming a substantial inflation rate.  The “payment shock” that the borrower will have to absorb on an adjustable Prime linked loan will be much more straining than on the inflation-linked loan.  In a model showing a rapid 3% rise in interest rates to combat an elevated 6% annual inflation rate, the madad-linked loan’s monthly payment takes almost 7 years to catch up to that of the Prime loan.  Despite the fact that the madad linked borrower paying a 3.5% fixed interest rate pays an effective 14.46% per annum over the life of the loan, the lack of payment shock in the first 10 years makes the risk of a borrower default much less likely.

Sem sagt 3,5% fastir vextir á verðtryggðu láni jafngilda í reynd 14,46% árlegum vöxtum, þar sem við erum að greiða vextina yfir 10 ára tímabil.  Hvað ætli þá 4,5% vextir að ég tali nú ekki um 6,0% vextir telji hátt í árlegum lántökukostnaði.


Brosandi ferðaþjónusta um allt land

Ég er nýkominn úr 12 daga ferð um landið með ísraelskan hóp.  Alls staðar sem ég kom með hópinn, sem var með mikið af sérþörfum, þá var tekið á móti honum með bros á vör.  Þjónustulund hótelstarfsmanna og veitingamanna, að ég tali nú ekki um brosmildi, var alveg til fyrirmyndar.  Auðvitað voru sumir broslyndari en aðrir.  Á skalanum 1 til 10 fékk enginn staður undir 9, en hann Sorin hjá Fosshóteli á Laugum, Daniella hjá Hótel Stykkishólmi og Sunna Mjöll hjá Fosshóteli á Húsavík sprengdu þó skalann og fá Smile frá mér. Og auðvitað hún Birna í Breiðuvík sem tekur á móti öllum með fríu kaffi/te/kakói sem koma til hennar, þó eingöngu sé til að komast á salernið!

Með þessu er ég á engan hátt að kasta rýrð á ótrúlega flott starfsfólk allra staðanna sem lögðu sig í líma við að verða við sérviskulegum óskum, læra framandi siði, sveigja reglur sínar svo hótelgestirnir yrðu ánægðir og svona mætti lengi telja.  Og trúið mér af nógu var að taka.

Takk fyrir frábærar móttökur á Hótel Hafnarfirði, Hótel Dyrhólaey, Gerði í Suðursveit, Icelandairhótel Héraði, Fosshótel Laugum, Fosshótel Húsavík, Hótel Staðarflöt, Hótel Ísafirði og Hótel Stykkishólmi.  Þið voruð öll æðisleg og dáist ég af natni ykkar, þolinmæði, þjónustulund og brosmildi.  Ferðalangarnir voru einstaklega hrifnir af ykkur öllum.  Þið sýnduð og sönnuðuð að þolinmæðin þrautir vinnur.

--

Spádeild Veðurstofunnar fær aftur fýlukarlinn frá mér.  Á hverjum morgni fór ég á netið til að skoða nýjustu verðuspá.  Svo leit ég út um gluggann og sá eitthvað gjörólíkt. :-(


mbl.is Vinalegasta viðmótið í ferðaþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband