Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010

Samningsstaða NBI er ekki góð, það er aftur geta bankans til að semja.

Samkvæmt frétt á ruv.is, þá segir Steinþór Pálsson, bankastjóri NBI, samningsstaða bankans sé góð.  Hvernig dettur manninum í hug að samningsstaða bankans sé góð?  Hún er ömurleg.  Bankinn tók yfir ólögleg lán frá Landsbankanum og bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur hafa sagt að gengistrygging þeirra sé óheimil.  Héraðsdómur gekk lengra en Hæstiréttur og þó gengistryggingarhluti dóms héraðsdóms hafi ekki ratað inn í dómsorð Hæstaréttar, þá fer ekkert á milli mála að lán NBI eru ólögleg.

Ég veit ekki hver gaf bankastjóranum lögfræðiráðgjöf varðandi þetta mál, en sá hinn sami hefur greinilega ekki lesið dómsorð Jóns Finnbjörnssonar, héraðsdómara, í máli NBI gegn Þráni.  Þar kemur nefnilega skýrt fram að vextir haldist þó gengistryggingin hverfi:

Dómari þessa máls er í einu og öllu sammála þeirri niðurstöðu sem er svo skýrlega orðuð í þessum dómi [þ.e. héraðsdómi frá 12. febrúar].  Telur hann m.ö.o. að ekki sé heimilt að reikna fjárhæð skuldar varnaraðila með þeirri hækkun sem sóknaraðili reiknar vegna breytinga á gengi jens og svissnesks franka gagnvart íslenskri krónu.  Telur hann að miða verði við upphaflegan höfuðstól auk áfallinna vaxta, en að ekki sé heimilt að reikna annars konar verðtryggingu í stað gengisviðmiðunar.

Þetta getur vart verið skýrar.  Miða skal við upphaflegan höfuðstól auk áfallinna vaxta.  Þó svo að Hæstiréttur hafi ekki tilgreint þetta, þá hefur héraðsdómur gert það og engin ástæða til annars en að Hæstiréttur taki undir það ef til þess kemur að hann taki afstöðu til málsins.  Ég verð að viðurkenna, að mér fannst miður, að rétturinn skyldi ekki gera það í úrskurði sínum.

Við skulum hafa í huga að þegar gengistryggðu lánin voru veitt, þá sættu fjármálafyrirtæki sig við lága, breytilega vexti.  Af hverju ættu þær forsendur að hafa breyst við það að gengistengingin, sem ýmist hækkað eða lækkaði kröfuna, er tekin úr sambandi?  Gleymum því ekki að bankarnir fengu 45% afslátt af lánasöfnum heimilanna við flutning frá gömlu bönkunum til þeirra nýju, samkvæmt upplýsingum í októberskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.  Þessi afsláttur var notaður á síðasta ári til að mynda 80 milljarða hagnað bankanna og allt að 30% ávöxtun eigin fjár, þrátt fyrir að AGS hafi bannað bönkunum að færa gengishagnað vegna lána til tekna!  Ég myndi segja að samningsstaða NBI sé slæm en geta þeirra til að semja sé góð.

Annars er ýmislegt áhugavert í frétt ruv.is og sérstaklega eftirfarandi:

Almenningur hefur frá hruni barist við að greiða af lánum sínum sem Hæstiréttur hefur núna dæmt að hluta til ólögleg. Ekki má gleyma að bönkunum ber skylda til að gæta hagsmuna viðskiptavina sinna en einnig að lánasafnið sem fært var úr gömlu bönkunum og yfir í nýju bankanna hefur þegar verið skrifað niður um tugi prósenta en lántakar rukkaðir að fullu nema þegar sérstökum úrræðum hefur verið beitt.


Ótrúlegur misskilningur um áhrif vaxtalaga

Mér virðist vera í gangi einhver misskilningur um áhrif vaxtalaga nr. 38/2001 á vaxtakjör hinna fyrrum gengistryggðu lána.  Í Fréttablaðinu í dag eru vangaveltur um að menn geti notað vexti Seðlabankans.  Það er ekkert í vaxtalögunum sem leyfir það á neytendahliðina, eingöngu vegna vaxta sem kröfuhafar þurfa að greiða komi til endurgreiðslu (18.gr.).  Auk þess verndar 36. gr. samningalaga, nr. 7/1936, neytendur en þar er tilgreint, að eingöngu sé hægt að víkja ákvæðum samnings til hliðar sé það neytendum til hagsbóta.  Sjá nánar síðustu færslu mína:  Skuldauppgjör er einfalt í mínum huga - Öll gengistryggð lán undir
mbl.is Bíða enn í óvissu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldauppgjör er einfalt í mínum huga - Öll gengistryggð lán undir

Ég hef lengi velt fyrir mér hvernig skuldauppgjör ætti að fara fram ef gengistrygging yrði dæmd ólögleg, eins og gerðist sl. miðvikudag.  Ég hef jú haft í rúmt ár þá bjargföstu trú að gengistryggingin væri ólögleg og að dómstólar gætu ekki komist að annarri niðurstöðu.  Af þeim sökum hef ég velt uppgjörinu fyrir mér. 

Óvissan varðandi uppgjörið veltur fyrst og fremst á vöxtunum.  Það er mín skoðun að ekkert banni LIBOR vaxtaviðmið til að ákvarða breytilega vexti lána.  Ég reikna því með að hinir breytilegu vextir lánanna haldist og breytist eftir sömu forsendu og áður.  Skoðað til baka er einfalt að gera nauðsynlega útreikninga.  Greiðslur eru bornar saman við greiðsluáætlun.  Það sem er vangreitt er fært fjármálafyrirtækinu til tekna, en það sem er ofgreitt er fært því til gjalda.  Vextir eru reiknaðir af nettóstöðu og þeim bætt við hvora hlið eins og við á.  Svo er lagt saman og fundinn mismunur á hliðunum tveimur.  Sé mismunurinn fjármálafyrirtækinu í hag, þá greiðir lántakinn, en annars er annað hvort hægt að færa inneign lántakans til lækkunar á höfuðstóli lánsins eða sem beina greiðslu lántakans.

Ástæðurnar fyrir því, að ég tel upprunalega vexti gilda eru tvær:

  1. Vaxtalögin nr. 38/2001 tiltaka á tveimur stöðum atriði sem eru lántökum í hag.  Í 2. gr. segir að eingöngu ákvæði II. og IV. kafla séu frávíkjanleg og síðan segir: "Þó er ávallt heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara."  Fyrst er það að nefna að ákvæði um bann við annarri verðtryggingu en við vísitölu neysluverðs er að finna í VI. kafla og ákvæði um viðurlög er að finna í 18. gr. VII. kafla, en þar segir: "Ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti telst ógildur og hafi endurgjald verið greitt ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft. Við ákvörðun endurgreiðslu skal miða við vexti skv. 4. gr., eftir því sem við getur átt."  Fyrst skal nefna að vissulega má túlka dóm Hæstaréttar að samningur um "annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar" hafi verið gerður ógildur.  En þessi grein á eingöngu við ef kröfuhafi þarf að endurgreiða lántaka.  Í 4. gr. er aftur ákvæði um vexti, en þar segir:  "Þegar greiða ber vexti skv. 3. gr., en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr."  Skoðum þetta þrennt í samhengi.  Ákvæði 4.gr. eru fjárvíkjanleg, en ekki hinna tveggja.  13. og 14. gr. banna gengistryggingu og 18. gr. segir eingöngu til um hvernig reikna á út vexti til að finna út upphæð endurgreiðslu.  4. gr. tiltekur síðan hvernig ákveða eigi vexti ef "hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin".  Málið er að hvorutveggja er gert.  Hundraðshluti og vaxtaviðmið eru samviskusamlega gefin upp, þ.e. LIBOR-vextir eru gefnir sem vaxtaviðmið og vaxtaálag er gefið upp sem hundraðshluti.
  2. Í 36. gr. 1.mgr. í lögum nr. 7/1936, samningalögum segir: "Samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig, sbr. þó 36. gr. c. Hið sama á við um aðra löggerninga." Í tölulið c segir svo:  "Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans."  Þarna er tiltekið að eingöngu er hægt að víkja samningi til hliðar að hann sé neytanda í óhag.

Hér er ég með tvær tilvitnanir í mjög mikilvæg lög er snerta lánasamninga og í báðum tilfellum er sagt að eingöngu megi breyta samningi að það sé neytanda ekki í óhag.  Samkvæmt þessu verður ekki hægt að gera afturvirkar breytingar á áður gengistryggðum lánasamningum hvað sem gerist svo í framtíðinni.  Fjármálafyrirtækin sitja uppi með þá vexti sem ákveðnir voru hverju sinni og geta eingöngu breytt þeim síðar í samræmi við ákvæði lánasamningsins, ef neytandinn (lántakinn) gerir kröfu um slíkt.

Nú varðandi hvaða vexti á að reikna á vangreiðslur eða ofgreiðslur, þá gildir 4. gr. laga nr. 38/2001 og síðan ákvæði III. kafla sem fjallar um dráttavexti.  Hingað til hefur það ekki vafist fyrir dómstólum að reikna þessar fjárhæðir út, þannig að fjármálafyrirtækin ættu að vera í enn minni vanda.

Öll gengistryggð lán undir

Nokkur fjármálafyrirtæki hafa sent frá sér tilkynningar í dag, þar sem efast er um að þeirra lán falli undir niðurstöðu Hæstaréttar.   Mér fannst Hæstiréttur vera nokkuð skýr með þetta, þar sem hann segir:

Lög nr. 38/2001 heimila ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 eru ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, og verður því ekki samið um grundvöll verðtryggingar, sem ekki er stoð fyrir í lögum.

Gengistryggðir lánasamningar margra  fjármálafyrirtækja eru í myntkörfum og breytast ákvæði samninganna lítið, ef nokkuð, þó íslenskar krónur flækist inn í myntkörfuna.  Þeir samningar sem snerta mig persónulega, hafa allir orðið "gengistryggingu" eða aðra tilvísun í breytingar á gengi inni í ákvæðum samninganna.  Hvaða þörf er á slíkum ákvæðum, ef upprunalega samningsupphæðin var ekki í íslenskum krónum?  Lán í svissneskum frönkum þarf ekki gengistryggingu eða tilvísun í að höfuðstóll breytist í samræmi við gengi frankans.  Það er öllu ljóst, að lán í frönkum helst í frönkum og höfuðstóllinn lækkar í frönkum eftir því sem greitt er af láninu.  Ég get alveg skilið, að fyrirtækin vilji fá endanlega úr því skorið fyrir dómstólum hvernig túlka beri einhver jaðartilfelli, en það er alveg á hreinu í mínum huga, að velflestir gengistryggðir/"erlendir" lánasamningar einstaklinga og heimila við fjármálafyrirtæki falla undir dóm Hæstaréttar.

"Óverðugir" fá líka leiðréttingu

Í netheimaumræðunni hefur víða komið upp sú gagnrýni að þeir sem tóku gengistryggð lán hafi tekið meiri áhættu en aðrir og því sé óréttlátt, að þeir fái þessa "afskrift".  Fyrst er um þetta að segja, að þetta er ekki afskrift.  Þetta er leiðrétting.  Hitt er að það er sama hvað er gert, það fá alltaf einhverjir leiðréttingu sem ekki þurfa á því að halda eða hafa hagað fjármálum sínum af gáleysi eða glæfraskap.  Það er ekkert við því að gera.  Auk þess: Hver er þess verður að segja til um hver er verður leiðréttingarinnar?  Ég er það alveg örugglega ekki og þekki raunar engan sem er það.

Að lokum vil ég benda á, að baráttan um forsendubrest verðtryggðra lána er í gangi.  Reykjavíkurborg og Orkuveita Reykjavíkur hafa varðað þá leið með því að samþykkja forsendubrest í verðtryggðum samningum við verktaka.   Þó svo að slíkar ákvarðanir verði seint fordæmisgefandi, þá hjálpa þær í baráttu okkar hinna.  Nú vantar okkur bara lög um hópmálsóknir til að geta lokið því stríði og er ég jafnsannfærður um að það vinnist, eins og ég var sannfærður um að gengistryggingin væri óheimil.


mbl.is Vill sátt um skuldauppgjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru gengistryggð lán ólögleg? - Endurbirt færsla frá 17.4.2009

Í tilefni dóma Hæstaréttar frá 16. júní um lögmæti gengistryggingarinnar, þá má ég til að endurbirta færslu mína frá 17. apríl á síðasta ári.

Eru gengistryggð lán ólögleg?

Í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur er í greinum 13 og 14 fjallað um vísitölutengingu skuldbindinga.

VI. kafli. Verðtrygging sparifjár og lánsfjár.
13. gr. Ákvæði þessa kafla gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem umsamið eða áskilið er að greiðslurnar skuli verðtryggðar. Með verðtryggingu er í þessum kafla átt við breytingu í hlutfalli við innlenda verðvísitölu. Um heimildir til verðtryggingar fer skv. 14. gr. nema lög kveði á um annað.
Afleiðusamningar falla ekki undir ákvæði þessa kafla.
14. gr. Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. [Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár frá fyrsta degi þar næsta mánaðar.]*
Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi.

*(L. 51/2007. 1. mgr.)

Það vekur athygli í þessum greinum, sem "gilda um skuldbindingar sem varða sparifé og lánsfé í íslenskum krónum" að "[h]eimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé .. sé grundvöllurinn verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs" eða "hlutabréfavísi[tala]..eða safn slíkra vísitalna".  Þó svo að greinin banni ekki beint aðrar tengingar, þá verður að túlka hana á þann hátt.  Það er jú verið að nefna það sem er heimilt á grundvelli reglunnar "allt er bannað sem er ekki sérstaklega leyft".  Ekki væri verið að nota orðið "heimilt", nema vegna þess að annað er bannað.

Í greinargerð með frumvarpinu (sjá http://www.althingi.is/altext/126/s/0872.html) segir um 13. og 14. gr.:

    Í 13. gr. frumvarpsins er fjallað um gildissvið kafla um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.
    Í 1. mgr. er lagt til að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla verði felldar niður. Frá 1960 var almennt óheimilt að binda skuldbinding ar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Þessi almenna regla var tekin upp í lög nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl. („Ólafslög“). Með breytingum á þeim árið 1989 var þó heimilað að gengisbinda skuldbindingar í íslenskum krónum með sérstökum gengis vísitölum, ECU og SDR, sem Seðlabankinn birti. Þessi breyting var liður í auknu frelsi í gjaldeyrismálum á sínum tíma. Gengisbinding á grundvelli þessara vísitalna hefur notið tak markaðrar hylli.
    Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.

(Leturbreytingar: MGN)

Ég fæ ekki betur séð en að gengistryggð lán, hvort heldur hrein eða með myntkörfu í bland við íslenskar krónur, séu ólögleg! ".. ekki verður heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla".  Verður það nokkuð skýrar?  Fjármálafyrirtækin eru búin að vera að selja ólögleg lán í fjölmörg ár.

Þar sem  þessi lán eru helsti dragbítur margra heimila og fyrirtækja, þá skiptir þetta miklu máli.  Hvernig stendur á því að Fjármálaeftirlit, Seðlabanki Íslands og viðskiptaráðuneytið hafa látið þetta óátalið?  Hvað segir ríkissaksóknari við þessu?  Mér finnst alveg með ólíkindum að þetta hafi verið látið óátalið í öll þessi ár, þegar reyndin er að með lögum nr. 38/2001 var löggjafinn að banna þessi lán.

Nú þýðir ekki fyrir fjármálafyrirtæki að ætla sér að snúa út úr og segja að þetta hafi verið skuldbindingar í erlendum gjaldmiðli.  Lánsumsóknir eru undantekningarlaust um fjárhæð í íslensum krónum, útborgun lánanna var í íslenskum krónum, afborganir lánanna eru/voru í íslenskum krónum og þegar upplýsingar eru gefnar um stöðu lánanna, þá eru þær gefnar í íslenskum krónum.  Auk þess er einn möguleiki að fá blandað lán, þar sem hluti þess er miðaður við verðtryggð kjör samkvæmt vísitölu neysluverðs meðan restin er miðuð við "dagsgengi erlendra gjaldmiðla".  Nú er spurningin hvort skjól gömlu bankanna fyrir lögsóknum muni koma í veg fyrir að lántakendur sem tóku hin ólöglegu lán geti leitað réttar síns.

----

Ég fæ ekki betur séð en að Hæstiréttur hafi alfarið tekið undir sjónarmið mín í þessari færslu og er það vel.  Næstu dagar munu leiða í ljós hve mikið fjármálafyrirtæki munu tjalda í því skjóli "að okkar lán eru öðruvísi", þegar það skiptir ekki máli.  Þau eru að vísu flest byrjuð og finnst mér að þau eigi að hætta þeirri vitleysu.  Er það virkilega það sem við þurfum núna, að fjármálafyrirtækin ætli að draga lántaka í stórum stíl fyrir dómstóla.  Ég held ekki.  Nú er tími til kominn að setjast niður (nokkuð sem hefði betur verið gert fyrir ári eða tveimur), fara yfir stöðuna og finna niðurstöðu sem allir geta lifað við.  Það hefur nefnilega aldrei, mér vitanlega, verið ætlun lántaka að fá neitt annað út úr þessu en sanngjarna og réttláta leiðréttingu á forsendubresti lána sinna.  Aldrei hefur staðið neitt annað til en að greiða upp skuldir í samræmi við upprunalega greiðsluáætlun og eðlilega þróun gengis og verðlags. 


Virðingarverð fyrstu viðbrögð SPRON og Frjálsa - Landsbankinn í afneitun

Ég get ekki annað en fagnað þessum fyrstu viðbrögðum SPRON og Frjálsa fjárfestingabankans við dómi Hæstaréttar.  Fyrirtækin, sem hafa setið undir ámæli um að gera ekkert og hlusta lítið á viðskiptavini sína, hafa núna tekið virðingarvert skref til móts við lántaka sína.  Vil ég hrósa þeim fyrir þetta framtak þeirra.

Úrræðið er ekki nýtt, því Frjálsi bauð, a.m.k. sumum, viðskiptavinum sínum þetta úrræði strax í september eða október 2008.  Margir viðskiptavinir nýttu sér það, þar á meðal færsluhöfundur.

Ég get ekki annað en hvatt fólk til að taka þessu úrræði, því vandséð er að betri boð fáist.  Ég get ekki séð að þetta skaði lántaka eða að þeir missi einhvern rétt til leiðréttinga síðar.

Nú bíð ég bara eftir því að önnur fjármálafyrirtæki taki við sér.  Fyrstu viðbrögð frá Landsbankanum benda til að hann ég í algjörri afneitun.  Í orðsendingu frá bankastjóra vegna dóms Hæstaréttar um lögmæti gengistryggðra lána segir m.a.:

Dómurinn náði ekki beint til erlendra lána Landsbankans og yfirstjórn bankans telur þau lán séu í fullu samræmi við íslensk lög.

Hér er yfirstjórn Landsbankans í afneitun.  Lán Landsbankans eru sambærileg jafngildislán og annað af þeim bílalánum sem dæmt var um.  Höfuðstóll lána Landsbankans, a.m.k. þeirra sem ég er með hjá bankanum, er tilgreindur í íslenskum krónum sagður jafngilda tiltekinni upphæð í erlendum myntum.   Ég get ekki séð að Landsbankinn græði eitt eða neitt á þessari afstöðu sinni og vil minna á, að við tilfærslu lánasafna heimilanna frá gamla Landsbankanum til þess nýja var veittur um 50% afsláttur á gengistryggðum lánum heimilanna og 70% afsláttur af gengistryggðum fyrirtækja.  Það er hrein ósvífni að bankinn ætli að innheimta þessi lán miðað við dagsgengi eftir hina mjög svo ótvíræðu niðurstöðu Hæstaréttar.


mbl.is Bjóða lántakendum upp á framlengingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn að reyna að forðast að greiða það sem rétt er - Leikjafræðin brást fjármálafyrirtækjunum

Ég vona innilega að í eftirfarandi tilvitnun í frétt mbl.is sé eitthvað rangt haft eftir viðmælanda:

„Þessi dómur snýr aðallega um formsatriði málsins þannig að það er vafasamt að það sé hægt að draga af honum víðtækar ályktanir. Ég held að það detti engum í hug að álykta sem svo að menn sleppi frá skuldum sínum,“ segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ, um dóm Hæstaréttar um gengislán.

Í fyrsta lagi, þá er það ekki rétt að dómur Hæstaréttar snúist um formsatriði.  Hann snýst um grundvallaratriði.  Grundvallaratriði getur aldrei verið formsatriði.  Þetta grundvallaratriði er að íslensk lán má ekki binda við gengi erlendra gjaldmiðla.  Hvernig getur Andrési Magnússyni dottið í hug að nota "formsatriði" um það.  Þetta er þvílíkt grundvallaratriði, að mönnum þótti eðlilegt að geta þess tvisvar í athugasemdum við frumvarpi að lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.  Í öðru lagi, þá hefur aldrei neinn óskað eftir því að kröfurnar falli niður í heild, eingöngu hina ólöglegu viðbót við útreikninga fjármálafyrirtækjanna á eftirstöðvum lánanna.  Lántakar hafa óskað eftir sanngirni og réttlæti og voru tilbúnir að koma til samninga við fjármálafyrirtækin um lausn málanna.  Því boði var ekki tekið og þess vegna kom til afskipta Hæstaréttar.

Andrés heldur áfram:

Hæstiréttur lætur því ósvarað hvað kemur í staðinn. Það er engin varakrafa höfð uppi í málinu. Er það vísitölubinding og vextir? Þessu er ekki svarað og ályktunin sem maður hlýtur að draga er að stjórnvöld verði að höggva á hnútinn og það er það sem ég er að kalla eftir.

Af hverju á eitthvað að koma í staðinn?  Ég get ekki séð að neitt komi í staðinn afturvirkt.  Fjármálafyrirtækin fengu kjaftshögg og þau verða bara að sitja uppi með það.  Framvirkt, þá hafa fjármálafyrirtækin nokkra möguleika og löggjafinn líka.  Eðlilegasta næsta skref er fyrir þessa aðila að setjast niður með hagsmunaaðilum á neytendahliðinni og sjá hvað líklegt er að neytendur eru tilbúnir að sætta sig við.  Varla vilja þau fá annað högg, því reikna má með því að það verði rothögg.  En hvað gæti komið í staðinn?  Hagsmunasamtök heimilanna hafa oftar en einu sinni viðrað þá hugmynd að framtíðarlánakerfi innihaldi hvað varðar íbúðarlán, þak á verðbætur og þak á vexti, hvort heldur verðtryggða eða óverðtryggða.  Það kemur t.d. ekki til greina, að í stað gengistryggingar komi verðtrygging nema að hún sé með þaki á árlegar verðbætur og raunvextir séu svipaðir og þeir sem Íbúðalánasjóður býður í dag.  Varðandi óverðtryggða vexti, þá eru samtökin sátt við þá vexti, sem fjármálafyrirtækin eru að bjóða í dag.  Hér er ég bara að greina frá því sem komið hefur fram opinberlega frá samtökunum og ætti því ekki að koma neinum á óvart.

Komi stjórnvöld með eitthvað inngrip, sem verður í óþökk hagsmunasamtaka lánþega, þá kalla þau yfir sig átök.  Það er því algjört grundvallaratriði að haft sé samráð við þessa aðila, hvort þeir eru talsmaður neytenda, Hagsmunasamtök heimilanna, Neytendasamtökin, Samtök lánþega eða hverjir aðrir það eru sem hafa barist fyrir hagsmunum lánþega og neytenda.  Því miður hafa stjórnvöld ekki verið í þeim hópi í því mæli sem æskilegt hefur verið.

En aftur að Andrési Magnússyni.  Hann hamrar á því að ekki hafi verið um efnisdóma að ræða.  Það er bara ekki rétt.  Hæstiréttur tók á afgerandi hátt á efnisatriðum, eins og málsaðilar lögðu þá fyrir dóminn.  Það er ekki við Hæstarétt að sakast, að fjármálafyrirtækin klikkuðu á leikjafræðinni.  Þau lögðu allt undir og töpuðu.

Ég þekki aðeins til leikjafræðinnar og veit að hún snýst um að hámarka afrakstur sinn að teknu tilliti til aðgerða mótaðilans.  Með því að sleppa varakröfum, þá léku fjármálafyrirtækin af sér.  Ekki er hægt að líta á þennan afleik á neinn annan hátt en fyrirtækin hafi verið full örugg með sig.  Hið ólöglega athæfi hafði fengið að viðgangast svo lengi, að ekki kom til greina að Hæstiréttur færi að fetta fingur út í það.  Á vissan hátt má segja að niðurstaðan hafi verið mátuleg á fyrirtækin vegna hroka þeirra.

Í mínum huga er niðurstaða Hæstaréttar alveg hrein og skýr:  Gengistrygging íslenskra lána er óheimil og hún skal falla niður.  Ekkert kemur í staðinn frá lántökudegi þar til samningur um annað hefur náðst milli lántaka og lánveitenda.

En það er meira:  Fjármálafyrirtækin hafa mjög líklega skapað sér bótaskyldu gagnvart lántökum.  Þá er ég ekki bara að vísa til þess augljósa vegna ofgreiðslu afborgana og vaxta.  Nei, ég er líka að tala um fjárhagslegan skaða sem lántakar hafa orðið fyrir vegna hinnar ólöglegu hækkunar höfuðstóls og greiðslna.  Í mörgum tilfellum hafa lántakar þurft að taka ný og óhagstæð lán, selja eignir á fáránlegu verði, verið sviptir eignum sínum, verið settir í gjaldþrot eða þurft að leita úrræða á borð við sértækrar skuldaaðlögunar og greiðsluaðlögunar.  Þetta hefur sundarð fjölskyldum, valdið heilsutjóni vegna álags og dæmi munu vera um að fólk hafi svipt sig lífi.  Sumt verður ekki bætt og líklega verða fjármálafyrirtækin heldur ekki krafin um það.  Annað munu lántakar sækja á hendur fyrirtækjunum.  Síðan má mjög líklega draga fram alls konar efnahagsleg áhrif.


mbl.is Sleppa ekki frá skuldunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það voru þrír dómar í dag - Úrskurður í máli NBI gegn Þráni staðfestur

Athygli fólks hefur í dag verið á bílalánadómunum tveimur sem féllu í Hæstarétti, en ennþá stærri dómur féll líka í dag.  Það var í máli NBI gegn Þráni ehf., þar sem NBI krafist gjaldþrotaskipta á Þráni ehf.  Héraðsdómur hafnaði í úrskurði sínum 30. apríl sl. beiðni NBI og hélt ég að þeim úrskurði hefði ekki verið áfrýjað, enda komu upplýsingar um slíkt ekki fram á vefi Hæstaréttar.  Nú kemur upp úr dúrnum að dómnum var áfrýjað og niðurstaða í því máli var tilkynnt í dag.  Hæstiréttur staðfestir úrskurð héraðsdóms í einu og öllu sjá:

317/2010 NBI hf. (Aðalsteinn E. Jónasson hrl.) gegn Þráni ehf. (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) (Kveðinn upp: 16.6.2010 ) 

Þessi úrskurður er mun mikilvægari en bílalánamálin, þar sem hann fjallar um lán sem eru með hinum dæmigerðu jafngildisákvæðum, eins og eru hvað algengust í lánasamningum.  Hann er líka mikilvægur vegna þess, að héraðsdómur komast að þeirri niðurstöðu að engin önnur trygging skuli koma í stað gengistryggingar eða eins og segir í dómnum:

Dómari þessa máls er í einu og öllu sammála þeirri niðurstöðu sem er svo skýrlega orðuð í þessum dómi.  Telur hann m.ö.o. að ekki sé heimilt að reikna fjárhæð skuldar varnaraðila með þeirri hækkun sem sóknaraðili reiknar vegna breytinga á gengi jens og svissnesks franka gagnvart íslenskri krónu.  Telur hann að miða verði við upphaflegan höfuðstól auk áfallinna vaxta, en að ekki sé heimilt að reikna annars konar verðtryggingu í stað gengisviðmiðunar.  

Hér það svart á hvítu og enginn vafi.  Gengistryggingin er ólögleg og ekkert annað kemur í staðinn.  Lánin munu ekki taka verðtryggingu eða fá á sig himin háa óverðtryggða vexti.  Þetta er þrefalt yppon hvorki meira né minna.


mbl.is Hafna kröfu um gjaldþrotaskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almenningur á inni afsökunarbeiðni frá stjórnvöldum

Í heil 9 ár hafa verið í gildi lög nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.  Þessi lög tiltóku skýrt og greinilega að eina verðtrygging sem heimil væri á Íslandi væri samkvæmt vísitölu neysluverðs og hlutabréfavísitölum innlendum og erlendum.  Þrátt fyrir þetta hefur gengistrygging viðgengist í lánasamningum mest allan þennan tíma.  Fjármálaeftirlit, Seðlabanki Ísland og viðskiptaráðuneyti hafa látið þetta viðgangast án afskipta.  Nú hefur Hæstiréttur staðfest að lögin hafi verið skýr allan tímann og að vilji löggjafans hafi verið að gengistrygging væri ólögleg. 

Mér finnst að stjórnvöld skuldi almenningi afsökunarbeiðni.  Mér sýnist einnig að þeir aðilar innan FME, Seðlabankans og ráðuneytisins, sem höfðu með þessi mál að gera ættu að huga að stöðu sinni.  Hæstiréttur er með dómi sínum að setja verulega ofan í við þessa aðila.  Hann er að benda þeim á, að þeir unnu starf sitt ekki nógu vel, þar sem þeir leyfðu fjármálafyrirtækjum að bjóða upp á ólöglega afurð.  Ætli það séu fleiri ólöglegar afurðir sem leyndast í safni þessara fyrirtækja, sem FME og fleiri ættu að vera búnir að stoppa fyrir löngu?  Þurfum við að bíða eftir Hæstarétti til að stöðva það?


mbl.is Hefur áhrif á almenn viðskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hæstiréttur sammála Hagsmunasamtökum heimilanna - Gengistrygging er óheimil

Ég segi bara:

Til hamingju með daginn. 

Hæstiréttur Íslands hefur kveðið upp þann dóm að samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur sé óheimilt að binda lán í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.  Sjá dómana hér:

92/2010 Óskar Sindri Atlason (Björn Þorri Viktorsson hrl.) gegn SP. fjármögnun hf. (Sigurmar K. Albertsson hrl.) 

og

153/2010 Lýsing hf. (Sigurmar K. Albertsson hrl.) gegn Jóhanni Rafni Hreiðarssyni og Trausta Snæ Friðrikssyni (Ragnar Baldursson hrl., Ólafur Rúnar Ólafsson hdl.) 

Björn Þorri Viktorsson, Ragnar Baldursson og Ólafur Rúnar Ólafsson þökk fyrir baráttu ykkar og hafa farið með málin í gegn um tvö dómstig.

Það var 12. febrúar 2009, sem ég minntist fyrst á það í færslu hér, að gengistrygging væri líklegast í andstöðu við ofangreind lög.  Síðan hef ég ítrekað tekið þetta mál upp og bent á þær lagaskýringar sem Hæstiréttur bendir á.  Þá á ég við:

Var því lagt til grundvallar að um lánssamning í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu hefði verið að ræða. Talið var að samningur aðila bæri skýrlega með sér að hann væri um lán í íslenskum krónum. Kaupverð bifreiðarinnar og mánaðarlegar greiðslur voru tilgreind í íslenskum krónum. Þá kom berum orðum fram að íslensk fjárhæð hverrar afborgunar ætti að breytast eftir gengi á þeim erlendu myntum, sem mið var tekið af. Af þessum sökum var talið ótvírætt að samningur aðilanna væri um skuldbindingu í íslenskum krónum og félli hann því undir reglur VI. kafla laga nr. 38/2001. Rakið var að í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 38/2001, og öðrum lögskýringargögnum varðandi þau hefði ítrekað verið tekið fram að með þeim yrðu felldar niður heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla og að rétt væri að taka af allan vafa þar af lútandi. Talið var að vilji löggjafans kæmi skýrlega fram í því að í orðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 væri eingöngu mælt fyrir um heimild til að beita tilteknum tegundum verðtryggingar, en þar væri ekkert rætt um þær tegundir sem óheimilt væri að beita. Lög nr. 38/2001 heimiluðu ekki að lán í íslenskum krónum væru verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Þá væru reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, og yrði því ekki samið um grundvöll verðtryggingar, sem ekki væri stoð fyrir í lögum.

Eftir að ég hafði rætt þessi mál við Eyvind G. Gunnarsson, lektor við Háskóla Íslands, var ég endanlega sannfærður um að gengistryggingin væri óheimil og núna hefur Hæstiréttur tekið undir það.

Ég reikna með að þungu fargi sé létt af mörgum lántökum, þ.e. þeim sem tóku gengistryggð lán.  Ég býst líka við að þeir sem tóku verðtryggð lán finnist sem þeir standi verr eftir og vilji fá hlut sinn leiðréttan.  Það hlýtur að vera rökrétt framhald.

Dómur Hæstaréttar í dag er fordæmisgefandi, þrátt fyrir að hann fjalli um tvö tiltekin mál.  Það er þessi texti dómsins:

Talið var að vilji löggjafans kæmi skýrlega fram í því að í orðum 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 væri eingöngu mælt fyrir um heimild til að beita tilteknum tegundum verðtryggingar, en þar væri ekkert rætt um þær tegundir sem óheimilt væri að beita. Lög nr. 38/2001 heimiluðu ekki að lán í íslenskum krónum væru verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Þá væru reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, og yrði því ekki samið um grundvöll verðtryggingar, sem ekki væri stoð fyrir í lögum. 

Það er þessi ófrávíkjanleiki annars vegar og að lögin heimiluðu bara ákveðna tegund verðtryggingar og gengistrygging er ekki ein af þeim.

Nú geta margir fagnað í kvöld og á morgun, en á föstudaginn þurfa lántakar, lánveitendur og löggjafinn að átta sig betur á nýjum veruleika án lagaóvissu.


mbl.is Gengistryggingin dæmd óheimil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hæstiréttur kveður upp dóma um gengistryggingu í dag

Ég vil vekja athygli á því að Hæstiréttur mun kveða upp dóma í tveimur bílalánamálum í dag.  Dómarnir verða birtir á vef réttarins k. 16.00 og verður að finna hér.  Ég mun að sjálfsögðu fjalla um dómana síðar í dag.

Málin sem um er að ræða eru:

92/2010 Óskar Sindri Atlason (Björn Þorri Viktorsson hrl.) gegn SP. fjármögnun hf. (Sigurmar K. Albertsson hrl.) 

og

153/2010 Lýsing hf. (Sigurmar K. Albertsson hrl.) gegn Jóhanni Rafni Hreiðarssyni og Trausta Snæ Friðrikssyni (Ragnar Baldursson hrl., Ólafur Rúnar Ólafsson hdl.) 

(Mun ég setja tengla inn um leið og þeir verða aðgengilegir.)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 1678226

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband