Leita í fréttum mbl.is

Sanngirni þegar ráðherra hentar og röng lagatilvitnun

Ekki halda að ég sé kominn með Gylfa Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, á heilann, þó ég fjalli mikið um ummæli hans í gær og í dag.  Hann er bara endalaus uppspretta glórulausra ummæla, að ég get ekki annað en dregið þau fram.

Í þessu stutta viðtali við mbl.is sem þessi færsla er tengd við, þá eru nokkur ótrúlega furðuleg ummæli.  Langar mig að skoða þau:

1.   Dýrt að lánin verði á upprunalegum vöxtum:  Þegar gengistryggð lán stóðu almenningi til boða, þá voru þau á góðum vöxtum.  Þessir vextir eru betri í dag vegna þess að LIBOR-vextir hafa verið mjög lágir frá haustdögum 2008.  Þeir eiga eftir að hækka.  Evru-vextir voru dæmigert á bilinu 4,5-5,5%, vextir á pund voru 5,5-6,5% og vextir á dollara frá 4,0-5,0%.  Bætum ofan á þetta 2,5-3,5% vaxtaálagi fyrir íbúðalán og 5-9% fyrir bílalán og þá liggja vextir sem bundnir eru þessum myntum í 6,5-10% fyrir íbúðalán og 9-15,5% fyrir bílalán. Vissulega eru margir með lán í jenum og frönkum og þar lágu vextir lengi í kringum 0,5% fyrir jen og 1,5% fyrir franka.  Þess vegna sóttist fólk eftir þessum lánum og bankarnir buðu upp á þessa vexti meðan verðbólgan fór vel uppfyrir 8%.  Frá janúar 2005 til mars 2008, þ.e. á þeim tíma sem flest gengistryggð lán voru veitt, var verðbólga á bilinu 2,8-8,6% og var mest allan tímann hærri en 4%.  Nú eru LIBOR vextirnir vissulega lægri, en það er tímabundið ástand.  Verðbólgan er á niðurleið, þannig að óverðtryggðir vextir hér á landi munu lækka.  Við erum því að tala um tímabundið ástand þar sem vaxtamunur á innlánsvöxtum og útlánsvöxtum er lítill.  En hafi bankarnir haft efni á því að bjóða þessa vexti haustið 2006 í 8,6% verðbólgu, þá ættu þeir örugglega að hafa efni á því núna í 6-7% verðbólgu.

2.  Þungbært fyrir hagkerfið:  Hvers vegna er það þungbærara fyrir hagkerfið að hagnaður bankanna dregst eitthvað saman, en skatttekjur ríkisins aukast vegna aukinnar neyslu, miðað við að bankarnir sýni góðan hagnað en neysla og skatttekjur dragast saman?  Ég skil ekki svona röksemdarfærslu.  Það hlýtur að vera mjög gott fyrir hagkerfið að fólk hafi meira á milli handanna í staðinn fyrir að peningarnir leiti inn í banka sem (samkvæmt orðum Gylfa sjálfs) koma þeim ekki í umferð.

3.  Það segir enginn Hæstarétti fyrir verkum:  Mikið er gott að ráðherra er búinn að átta sig á því.  Ég get svarið, að mér fannst hann hafa verið að gera það í óteljandi ummælum í gær.

4.  Ósanngjörn lausn fyrir aðra lántakendur og lánveitendur, ef hluti þjóðarinnar fær gjafvexti sem lántakar hefðu aldrei geta fengið nema gert hafi verið ráð fyrir að um væru að ræða erlend lán með erlendum vöxtum: Það er nú svo margt í þessu, að ég ætla að búta þetta niður.

4.a  Ósanngjörn lausn fyrir aðra lántakendur og lánveitendur:  Sanngirni gildir í báðar áttir.  Af hverju er þetta ósanngjarnt núna, en þar það ekki þegar fólk var að kikkna undan byrðunum?  Er það bara ósanngjarnt þegar þeir ríku tapa?  Nei, ósanngirnið felst í vaxtastiginu, gengishruninu, verðbólgunni, verðbótunum og markaðsmisnotkun og fjárglæfraspili fjármálafyrirtækja, stjórnenda þeirra og eigenda í undanfara hrunsins.  Ósanngirnið felst í óbilgirni fjármálafyrirtækja og stjórnvalda að koma til móts við skuldsett heimili og fyrirtæki og verja í staðinn sökudólga hrunsins með kjafti og klóm.  Lántakar hafa ekki verið ósanngjarnir í sínum kröfum og ég held ekki að margir hafi búist við þeim málalyktum sem urðu í Hæstarétti í síðustu viku.  Það er ekki lántökum gengistryggðra lána að kenna, að SP-fjármögnun og Lýsing völdu að vera ekki með varakröfur eða varavarakröfu.  Lántakar gengistryggðra lána hafa ekki verið spurðir um hvernig framtíðarlánakerfi landsins á að vera, hvað þá hvaða vextir eiga að vera í framtíðinni á þeim lánum sem hér um ræðir.  Nei, það eina sem gerst hefur, er að menn kalla "ósanngjarnt, ósanngjarnt".

4.b  hluti þjóðarinnar fær gjafvexti:  Ég hef að nokkru svarað þessu að ofan.  En af hverju eru þetta gjafvextir núna en ekki áður en dómurinn féll.  Vextirnir hafa ekkert breyst svo ég viti.

4.c   lántakar hefðu aldrei geta fengið nema gert hafi verið ráð fyrir að um væru að ræða erlend lán með erlendum vöxtum: Hvað er maðurinn að segja?  Áttu við, Gylfi Magnússon, að bankarnir hafi veitt þessi lán í þeirri vissu að krónan myndi veikjast svo og svo mikið til þess að þeir gætu fengið góðan gengishagnað af þeim?  Takk fyrir.  Þú ert að leggja lántökum upp í hendur mjög góð rök í skaðabótamálum gegn bönkunum.  Hvaða máli skiptir í reynd hvernig fjármögnun lánanna var háttað?  Ég veit ekki betur en að þú, Gylfi Magnússon, haldir fram í svari eftir þig á Vísindavef Háskóla Íslands að í reynd hafi þessi lán verið fjármögnuð með vaxtaskiptasamningum í tengslum við jöklabréfin.  Vissulega mín túlkun á þínum orðum, en þú segir þar eitthvað á þann veg, að bankarnir hafi tekið lán í útlöndum og erlendir aðilar hafi gefið út jöklabréfin.  Síðan tóku erlendu aðilarnir að sér að greiða erlendu lánin, en íslensku bankarnir jöklabréfin.  Þannig kom aldrei ein evra af erlendu lánunum til landsins og fór aldrei ein króna af jöklabréfunum úr landi.  Krónurnar fóru í að veita "erlend lán" og gengistryggð lán á Íslandi.

5.  Ekki hvarflað að neinum að niðurstaðan yrði sú að gengistryggingin féll en vextirnir stæðu:  Æi, Gylfi, láttu ekki svona.  Björn Þorri Viktorsson sendi þér bréf í maí í fyrra, þar sem hann varaði þig við þessu.  Gunnar Tómasson, hagfræðingur sendi þér bréf í september í fyrra og varaði við þessu.  Skoðaðu þessa færslu hennar Láru Hönnu Löngu vitað um lögleysuna og þú sérð að það var búið að vara við þessu.  Þú bara hlustaðir ekki.  Ég skrifaði líka færslu um þessa vangaveltu mína og taldi einsýnt að ekkert kæmi í veg fyrir að LIBOR-vextirnir héldu þó gengistryggingin félli.  Vísaði ég þar til greinarinnar, sem þú kannt greinilega ekki og skoða á eftir.

6.  Í lögunum er beinlínis ákvæði sem kveður á um það að ef samningsákvæði um vexti eða annað endurgjald fyrir lán sé dæmt ólögmætt, þá eigi að miða við vexti Seðlabankans:  Sko, það er lágmark að fara rétt með tilvitnanir í lög. Í 18. gr. laga nr. 38/2001, sem ráðherra er að vísa í segir:

Ef samningur um vexti eða annað endurgjald fyrir lánveitingu eða umlíðun skuldar eða dráttarvexti telst ógildur og hafi endurgjald verið greitt ber kröfuhafa að endurgreiða skuldara þá fjárhæð sem hann hefur þannig ranglega af honum haft.  Við ákvörðun endurgreiðslu skal miða við vexti skv. 4. gr., eftir því sem við getur átt.

Og í 4. gr. segir:

Þegar greiða ber vexti skv. 3. gr., en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr.

Takið sérstaklega eftir feitletruðu orðunum.  18. gr. á við um endurgreiðslu frá kröfuhafa og 4. gr. á bara við þegar vextir eða viðmið þeirra eru ekki tilgreind.

Síðan segir í b og c-lið 36. gr. laga nr. 7/1936:

Komi upp vafi um merkingu samnings sem nefndur er í 1. mgr. 36. gr. a skal túlka samninginn neytandanum í hag.

Þó skal eigi taka tillit til atvika sem síðar komu til, neytanda í óhag.

Það er sama hvernig Gylfi snýr þessu, þá vernda lögin neytandann en ekki lánveitandann.

Ég gæti haldið áfram og tekið ræðu Gylfa á þingi í dag, en ég nenni því ekki.


mbl.is Hagkerfið þolir ekki samningsvexti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Edda Karlsdóttir

 Góður eins og venjulega!

Edda Karlsdóttir, 24.6.2010 kl. 20:12

2 Smámynd: Steinar Immanúel Sörensson

Ég er nú ekkert ofurgreindur en þurfti nú ekki að lesa þessar laga klausur oft til að átta mig á innihaldi þeirra.

Ég er bara svo forviða á ummælum Gylfa að mig svimar

Steinar Immanúel Sörensson, 24.6.2010 kl. 20:24

3 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég vil vekja sérstaka athygli á þessu myndbandi frá borgarafundi á vegum greiðsluverkfallsnefndar Hagsmunasamtaka heimilanna þann 18. september á síðasta ári.

Hlustið vel á Gylfa (frá og með tímapunkti 2:32.) Hann segir orðrétt, aðspurður um lögmæti gengistryggðra lána:

Í þessu tilviki er uppi réttarágreiningur. Úr honum skera dómstólar. Þegar úrskurður dómstóla liggur fyrir, þá fara menn að sjálfsögðu eftir honum. Það er bara einfaldlega þannig sem að réttarríkið virkar.

Það er átakanlegt, hvað maðurinn er mikill svikari orða sinna.

Burt með hann úr embætti á stundinni!

Theódór Norðkvist, 24.6.2010 kl. 20:27

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Takk fyrir þetta, Theódór.

Hér er viðbótartilvitnun í Gylfa:

Viðskiptaráðherra segir óásættanlegt að hluti Íslendinga fái lán á vildarkjörum á kostnað samborgara sinna, eftir að Hæstiréttur dæmdi gengistryggingar lána ólöglegar. 

Í fyrsta lagi er ekkert sem bendir til að þetta sé á kostnað samborgara sinna.  Í öðru lagi, þá hafa þessi "vildarkjör" kostað mörg heimili blóð svita og tár og önnur hafa fært fórnir sem ekki verða bættar.

Mér finnst að maðurinn eigi að fara huga að skaðanum sem þessi lán hafa valdið og sýna örlítið meiri nærgætni.  Fólk svipti sig lífi út af þessum lánum, fjölskyldur splundruðust, sumir flúðu land, aðrir misstu lífsviðurværi sitt og heimili.  Mér finnst þessi leiðrétting sem lánþegar eru að fá smávægileg miðað við það sem fólk hefur þurft að þola.  Og ekki fá allir eins mikið til baka og Gylfi heldur. 

Marinó G. Njálsson, 24.6.2010 kl. 20:51

5 identicon

Hvað kallast lán í íslenskum krónum á 2% vöxtum til sérvaldra banka??

Guðmundur Andri (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 21:12

6 identicon

Sæll Marinó. Mig langar að gera athugasemd við fyrsta kaflann í þessu bloggi.

"Þegar gengistryggð lán stóðu almenningi til boða, þá voru þau á góðum vöxtum. Þessir vextir eru betri í dag vegna þess að LIBOR-vextir hafa verið mjög lágir frá haustdögum 2008. Þeir eiga eftir að hækka. Evru-vextir voru dæmigert á bilinu 4,5-5,5%, vextir á pund voru 5,5-6,5% og vextir á dollara frá 4,0-5,0%. Bætum ofan á þetta 2,5-3,5% vaxtaálagi fyrir íbúðalán og 5-9% fyrir bílalán og þá liggja vextir sem bundnir eru þessum myntum í 6,5-10% fyrir íbúðalán og 9-15,5% fyrir bílalán."

Og þá spyr ég af hverju HH geta ekki sætt sig við að gengistryggðu lánin beri vexti sem samsvara stýrivöxtum Seðlabankans? Þeir eru lægri en 15,5% sem þú tekur sem hæsta viðmið fyrir bílalánin?

"Þess vegna sóttist fólk eftir þessum lánum og bankarnir buðu upp á þessa vexti meðan verðbólgan fór vel uppfyrir 8%."

Hér kemurðu að mikilvægu atriði sem er að fólk sóttist eftir þessum lánum sem er í mótsögn við fullyrðingar HH og fleiri aðila um að bankar og fjármögnunarfyrirtækin hafi otað þessum lánum að fólki.

"Frá janúar 2005 til mars 2008, þ.e. á þeim tíma sem flest gengistryggð lán voru veitt, var verðbólga á bilinu 2,8-8,6% og var mest allan tímann hærri en 4%. Nú eru LIBOR vextirnir vissulega lægri, en það er tímabundið ástand. Verðbólgan er á niðurleið, þannig að óverðtryggðir vextir hér á landi munu lækka. Við erum því að tala um tímabundið ástand þar sem vaxtamunur á innlánsvöxtum og útlánsvöxtum er lítill. En hafi bankarnir haft efni á því að bjóða þessa vexti haustið 2006 í 8,6% verðbólgu, þá ættu þeir örugglega að hafa efni á því núna í 6-7% verðbólgu."

Þarna tekurðu tímabil (2006) þar sem bankarnir höfðu umtalsvert stærri efnahagsreikning, talsvert meira af fjármagni í umferð (erlendar lánalínur) og gátu veitt lán með hagstæðari kjörum en núna.

Og enn skil ég ekki þessa viðmiðun við LIBOR vexti því um leið og gengistrygging er dæmd ólögleg þá geta vaxtakjörin á þeim lánum ekki miðast við þá vexti. Það er eina rökrétta framhaldið því LIBOR vextirnir miðuðust við gengistrygggingu. Þegar hún er fallin þá hljóta samnningsaðilar, lántaki og lánveitandi að þurfa að semja um nýja vaxtaviðmiðun.

Svo er rétt að benda HH á að í öllum samningum eru endurskoðunarákvæði og ég vil að HH hugi sérstaklega að þeirri hlið því ef allt fer stál í stál þá veifa fyrirtækin þessum ákvæðum.

Ég vil sanngirni og réttlæti en ekki bara á annan veginn. Lántakar hafa greitt grátlega mikið af bílalánum sínum og það er sorglegt hvaða afleiðingar það hefur haft á fjölskyldur. Nú þegar gengistryggingin er ólögmæt þá þurfa aðilar að setjast að samningarborði og ég vona svo sannarlega að lántakar njóti verulega góðs af því. Það má segja sannarlega að lánveitendur hafi notið góðs af ólögmætum samningum en mér finnst óréttlátt að jafnvel þó þeir samningar séu í uppnámi skuli krafan vera þannig að nú skuli blóð renna. Er ekki nóg komið af slíkum hugsunarhætti? Er ekki komin þörf á samfélagssáttmála þar sem ALLIR leggi sitt af mörkum?

Fyrirgefðu hvað þetta er langt en mér ofbýður þá blóðugu skolta sem sjást og heyrist í.

Hafþór Baldvinsson (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 21:33

7 identicon

Hvað er gert við dæmda menn ( geta líka verið fyrirtæki ) , eftir hæstarréttardóm  ?

,,Í þessu tilviki er uppi réttarágreiningur. Úr honum skera dómstólar. Þegar úrskurður dómstóla liggur fyrir, þá fara menn að sjálfsögðu eftir honum. Það er bara einfaldlega þannig sem að réttarríkið virkar."

Eigum VIÐ ekki að koma lögum yfir þessi fyrirtæki  ???

Eru Lýsing og SP-fjármögnun ekki í höndum erlendra banka ?

JR (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 21:36

8 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Við Hafþór vil ég segja eitt. Hvers vegna í veröldinni ættu lántakar að semja um lakari kjör við fjármálastofnanir sem ekki höfðu minnsta áhuga á því að semja um fyrir dóm.

Sigurður Sigurðsson, 24.6.2010 kl. 21:57

9 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Takk fyrir góða og greinilega færslu um þetta stóra mál sem þvælt er með fram og til baka. Tel að það sé fyrst og fremst gert til að rugla fólk í ríminu og gera það óöruggt gagnvart því að sækja rétt sinn.

Varðandi það að skilja lagaklausur, þá er það rétt hjá Steingr Imanuel að það er nauðsynlegt að lesa þær vel yfir og melta meiningu orða. Þú ert væntanlega ekki að lesa þennan laga texta yfir í fyrsta sinn núna Marinó og á þeim forsendum finnst mér gott að fá þínar skýringar og ég treysti þeim.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 24.6.2010 kl. 22:07

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hafþór, ég næ svo sem alveg hvað þú ert að fara, en segð þú mér:  Hvar hefur þú lesið að HH geti ekki sætt sig við eitthvað annað en samningsvexti í framtíðinni?  Eina sem við höfum sagt er að samningsvextir skulu notaðir frá lántökudegi til dagsins í dag.  Við höfum ekkert tjáð okkur um fyrirkomulagið í framtíðinni.  Athugasemd þín missir því marks að þessu leiti.

Ég er að benda á, að samningsvextirnir eru vissulega lágir núna, en þeir hafa ekki alltaf verið það, og að banka hafi áður boðið lága vexti í meiri verðbólgu en núna.

Ég hef alltaf sagt að sanngirni virki í báðar áttir.  Ég get ekki krafist sanngirni af öðrum, ef ég ætla að sýna honum síðan óbilgirni.  Málið er samt að okkar var sýnd óbilgirni og skil vel að hér eigi gyðingsdómsreglan "auga fyrir auga" að gilda í stað kristnu reglunnar um "það sem þér viljið að mennirnir gjöri yður...".

Þeir sem tóku þessi lán á fyrri hluta tímabilsins sóttust almennt eftir þessum lánum, en á seinni hluta þess var þessum lánum otað að fólki.  Ég tel HH ekki vera í neinni mótsögn, en það var einmitt á þeim tíma sem lánunum var otað að fólki, sem við sjáum fyrir okkur í baksýnisspeglinum, að bankarnir hafi verið að smala lántökum í gildrur sínar.

Af hverju halda menn að  LIBOR vextir geti ekki gilt áfram?  Það setti einn athugasemd inn um daginn, þar sem bent var á að á vef BBA (British Bankers Association) væri einmitt fjálglega talað um lán í einni mynt með vaxtatengingu við aðra.

Við erum vel meðvituð um endurskoðunarákvæðin.

Við höfum þegar óskað eftir fundum með bankastjórunum þremur og fengið góðar undirtektir, þó ekkert sé ákveðið.  Orð eru til alls vís og samningar nást ekki nema fólk ræði saman.

Marinó G. Njálsson, 24.6.2010 kl. 22:19

11 Smámynd: Sigurður Sigurðsson

Takk takk fyrir frábæra færslu Marinó.

Sigurður Sigurðsson, 24.6.2010 kl. 22:19

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Já, Hólmfríður, maður er orðinn útlærður í a.m.k. sumum lögum

Marinó G. Njálsson, 24.6.2010 kl. 22:22

13 Smámynd: Edda Karlsdóttir

Það er ótrúlegt það írafár sem skapast allt í einu útaf þessum blessuðu vöxtum. Í mörg ár hafa lánastofnanir lánað þessi gengistryggðu lán með þeim vöxtum sem um ræðir en nú er uppi fótur og fit vegna þess að búið er að ógilda gengistrygginguna. Það hlýtur einfaldlega að vera þannig í pottinn búið að lánastofnanir hafa verið með það á hreinu að krónan myndi falla enda kom á daginn að bankarnir beinlínis tóku stöðu gegn krónunni. Segjum svo að krónan hefði styrkst þá hefðu lánastofnanirnar líklega setið í súpunni er það ekki? Skv. öllu þessu fjaðrafoki um vextina hljóta bankarnir að hafa vitað hvað þeir ætluðu að gera í sambandi við krónuræfilinn og þéna á tá og fingri af öllu saman eða hvað!

Edda Karlsdóttir, 24.6.2010 kl. 22:22

14 identicon

Sælt veri fólkið, varðandi þessi endurskoðunarákvæði...eru þau ekki eftir 3-5 ár í flestum þessara samninga? Sá tími gæti jafnvel verið kominn. Spyr sá sem ekki veit. Eru þá ekki núverandi vextir látnir halda sér frá upphafi samnings til þessarra 3-5 ára. Og geta þá ekki lánafyrirtækin tekið þetta 3-5 ára "vaxtatap" á sig en svo í framhaldinu (bráðlega) hækkað vextina einhliða og minnkað skaðann?? Geta þeir hækkað vextina upp úr öllu valdi, einhliða? OK, ef bankarnir gera það, þá auðvitað fer lántaki og tekur annað lán á hagstæðari vöxtum og borgar hitt lánið upp, ekki satt? En erum við þá ekki komin á sama stað og aðrir í þjóðfélaginu. Eina sem við "græddum" eru þessir lágu vextir (sem notabene voru ástæðan fyrir því að við tókum þessi lán) á fyrstu 3-5 árunum.

Þorsteinn (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 23:18

15 identicon

Íslandsbanki hefur sagt að hann standi af sér samningsbundna vexti og Arion líka, hvernig væri að þessir 44.000 sem eru með erlend bílalán að hluta eða öllu leiti (ca. 130 þúsund manns mv. þrjá á hverju heimili) myndu færa sig yfir til þess sem tekur á skarið og klárar uppgjör við sína viðskiptavini, ég veit að ég færi með viðskipti mín í þann banka, hef frá hruni verið að leita af góðum banka til að fara með viðskiptin til, en því miður ekki fundið.

ESB segir Samfylkingin en getur ekki hugsað sér að fólk greiði lánin til baka á sama hátt og evrópubúar, þ.e. greiði til baka höfuðstól lánsins + samningsbundna vexti, nei það finnst þeim skelfilega ósanngjörn niðurstaða.

Ingvaldur (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 23:24

16 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Við skulum hafa í huga að Neytendastofa hefur hafnað og vikið til hliðar sumum af þessum endurskoðunarákvæðum, þannig að þau eru ekki alls staðar virk eða að þau hafa breyst frá því að samingar voru gerðir.

Marinó G. Njálsson, 24.6.2010 kl. 23:31

17 identicon

Takk fyrir það Marinó,

Varðandi færslu mína hér fyrr um þessi endurskoðunarákvæði 3-5 ár...þá var ég auðvitað að hugsa um húsnæðislán...þ.e lán sem eru til 20- 40 ára.

Þorsteinn (IP-tala skráð) 24.6.2010 kl. 23:40

18 identicon

Það sem ég var að gera athugasemdir við Marinó var af góðum huga gert svo það sé á hreinu.

Fyrst langar mig að svara Sigurði. Hann segir:"Við Hafþór vil ég segja eitt. Hvers vegna í veröldinni ættu lántakar að semja um lakari kjör við fjármálastofnanir sem ekki höfðu minnsta áhuga á því að semja um fyrir dóm."

Ástæðan fyrir því að fjármálastofnanir vildu ekki semja er einföld. Þær biðu eftir dómi Hæstaréttar.

Marinó þú spyrð mig hvar ég hafi lesið að HH geti ekki sætt sig við sætt sig við eitthvað annað en samningsvexti í framtíðinni. Ekki ætla ég að standa í þrætu um það mál en minni á tillögur sem HH sendi frá sér þ. 23. júní þar sem segir um niðurstöðu Hæstaréttar "Vaxtakjör, lánstími og

önnur ákvæði lánasamninga þessa skulu standa óbreyttir."

Tillögurnar sem koma í framhaldinu miðast síðan við þessa niðurstöðu.

Af því dreg ég þá ályktun að HH telji að vaxtakjör þessara lána skuli standa óbreytt. Þar af leiðir að HH geti ekki sætt sig við t.d. stýrivexti SÍ.

Þetta er samt ekki stóra málið heldur hvort hægt er að ná almennri sátt um framhaldið.

Tillögur HH frá 23. júní eru ágætt innlegg í það sáttaferli.

Að öðru leyti held ég að skoðanir mínar fari ágætlega saman við þínar skoðanir og HH að öðru leyti. Ég er ekki óvinurinn. Á undanförnum árum hef ég horft upp á fólk missa bílana sína, lenda í fjárnámi og þar með á vanskilaskrá, verða gjaldþrota og jafnvel hefur fólk misst sitt húsnæði. Ekki endilega vegna gengistryggingar heldur fremur vegna hrunsins.

Þá eru því miður daprar fréttir af einstaklingum sem hafa tekið eigið líf vegna þessa alls.

Svo ég hvet HH til að halda áfram með það starf sem þau hafa með höndum.

Hafþór Baldvinsson (IP-tala skráð) 25.6.2010 kl. 01:42

19 identicon

Mig langar að benda á eina af meginreglum laga um samningsgerð umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 sem lánveitendur tönnluðust á fyrir dómi og víðar, samningar skulu standa. Hvergi í lögum (að því er ég fæ séð) þeim sem gilda um lán af þeim toga sem hér er tekist á um eru settar takmarkanir sem banna aðilum að semja um vexti eins og gert var þegar um þessi lán var samið.  Þykir mér því einsýnt, eins og ég hef reyndar haldið fram í verkefni sem ég vann ásamt fleirum við Háskólann á Bifröst, að lánasamningar þessir standi óbreyttir að undanskildu hinu ólögmæta ákvæði um gengistryggingu.  Hafþór heldur öðru fram hér að ofan og bið ég hann endilega um að benda mér á þær lagagreinar sem hann telur að verði þess valdandi að viðmiðun við LIBOR vexti mynta verði ólögmæt um leið og gengistryggingin.

Arnar (IP-tala skráð) 25.6.2010 kl. 10:26

20 Smámynd: Dexter Morgan

Segjum nú svo, að viðskiptaráðherra sé nú umhugað um almenning í landinu; svo vitnað sé í hans orð "Viðskiptaráðherra segir óásættanlegt að hluti Íslendinga fái lán á vildarkjörum á kostnað samborgara sinna". Og þá tiltek ég dæmi:

EF ekki hefði komið til hrun og gengið haldist stöðugt, hvað þá. Hefði þessi hópur, sem tók gengisrtyggð lán á 2% vöxtum verið að greiða þau lán á "kosnað samborgara sinna". Hinir sem voru/eru með verðtryggð lán, hefðu samt sem áður þurft að búa við himinháa stýrivexti og bullandi verðbólgu. Hefði þá mátt búast við því að viðskiptaráðherra talaði um þá greiðslubyrgði sem "óásættanlega", og jafnvel kallað þetta "okur-kjör" og beitt sér fyrir því að *leiðrétta* þau lán ? Maður er alveg gáttaður á þessu. En ég ætla ekki að efast eitt augnablik að þetta endar allt fyrir dómstólum.

Dexter Morgan, 25.6.2010 kl. 13:41

21 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Dexter, þetta er einmitt hluti af mínum rökstuðningi.

Annars vil ég benda á að 36. gr. laga nr. 7/1936 ver réttindi neytenda og tiltekur að sé ágreiningur milli samningsaðila um túlkun, þá gildir túlkun neytandans.

Marinó G. Njálsson, 25.6.2010 kl. 17:11

22 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Eignaleigufyrirtækin sömdu einfaldlega af sér, það er ekkert sem bannar þeim það heldur er það sennilega bara einn mesti klaufaskapur í allri fjármálasögu vesturlanda. Ábyrgðin á því klúðri er ekki skattgreiðenda og því munu þeir ekki bera tjón af því, heldur eru það kröfuhafar gömlu bankanna sem eru þegar búnir að taka það tjón á sig þegar lánin voru færð úr þrotabúunum á hálfvirði. Restin er bara bókhaldsuppgjör.

En gullkornin halda áfram að hrökkva af vörum Gylfa. Hann er búinn að mála sig svo langt út í horn að hann er búinn að stilla sér upp við vegg, gott ef hann er ekki hreinlega kominn inn í vegginn!

Guðmundur Ásgeirsson, 25.6.2010 kl. 17:15

23 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Enginn skattgreiðandi mun tapa krónu á þessum samningum þegar bankarnir hætta að þynna krónuna með óábyrgum útlánum.

Með dómi hæstaréttar er skapaður 912 miljarða króna jákvæður hvati fyrir bankakerfið að halda verðbólgu innan við þá vaxtatölu sem þessi lán bera. 

Þetta er eitt það besta gæfuspor sem hagkerfið gat tekið.

Vilhjálmur Árnason, 29.6.2010 kl. 21:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 4
  • Sl. sólarhring: 208
  • Sl. viku: 567
  • Frá upphafi: 1677584

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband