Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Dónaskapur stjórnvalda ótrúlegur

Í sjö mánuði hafa Hagsmunasamtök heimilanna beðið eftir því að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, standi við orð sín frá fyrsta blaðamannafundi sínum um að samráð yrði haft við Hagsmunasamtök heimilanna.  Ekkert hefur gerst.  Við erum komin í hóp með listum og menningu sem gott er að vísa til í hátíðarræðum, en þegar á reynir býr ekkert að baki.

Dónaskapur stjórnvalda gagnvart fólkinu í landinu er ótrúlegur.  Mánuðum saman nefna þau ekki vanda heimilanna á nafn eða gera lítið úr vandanum.  Árni Páll "ekkert í mannlegu valdi" Árnason og Gylfi "glittir í löngutöng" Magnússon koma ítrekað fram í fjölmiðlum og sýna þvílíkan greindarskort að mann verkjar í skrokkinn að hlusta á þá.  "Hvar er" Jóhanna Sigurðardóttir bauð fólki inn af götunni og taldi sig þar með uppfylla þetta með samráðið.  Við hvað eru blessaðir ráðamenn hræddir?  Að við höfum rétt fyrir okkur?  Að tillögur okkar séu betri en þeirra?  Að við fáum heiðurinn af aðgerðum til bjargar heimilunum?  Ég veit það ekki, en hitt veit ég að það næst alltaf betri árangur þegar talað er við fólk en ekki (niður) til þess.

Ég, sem stjórnarmaður hjá Hagsmunasamtökum heimilanna, var í morgun á fundi með sendinefnd lettneskra embættismanna.  Við vorum beðin um að hitta þetta unga fólk (líklegast allt á þrítugsaldri) og segja frá reynslu okkar af samskiptum við stjórnvöld og hvernig stjórnvöldum gengi að koma sínum málstað á framfæri.  Ég sagði þeim þann nöturlega sannleika, að stjórnvöld á Íslandi hafa ekki ennþá talað við fulltrúa neytenda um stöðu mála í þjóðfélaginu.  Ekki orð.  Ég benti þeim á að samræður væru mjög mikilvægar, því aðeins eftir samræður væri hægt að skilgreina viðfangsefnið.  Ég varaði þau líka við því að skilgreining mætti ekki vera einhliða ákvörðun stjórnvalda eða bankanna.  Neytendur (lántakendur) væru líka hluti af myndinni og þeirra sjónarmið væru jafn rétthá, ef ekki rétthærri, en sjónarmið hinna.  Það værum jú við sem þyrftum að bera byrðarnar, þegar allt kemur til alls.  Ég vona að lettnesk stjórnvöld geti lært að okkar biturri reynslu og að þau þori að tala VIÐ þegna sína.  Íslensk þora bara að tala TIL og jafnvel NIÐUR TIL þegna sinna.

Eitt sem við skulum alveg hafa á hreinu.  Það verður engin lausn á fjárhagsvanda heimilanna samþykkt, nema hún hafi verið mótuð í samvinnu við heimilin.  Við treystum ekki bönkunum og við treystum ekki stjórnvöldum.


mbl.is Ítreka kröfur um aðgerðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjaldþrot Seðlabankans stærsti bitinn

Þetta eru forvitnilegar tölur sem birtar eru í Hagtíðindum.  Ef ekki hefði verið fyrir gjaldþrot Seðlabankans, þá værum við í þokkalegum málum.  Það kostaði ríkissjóð ríflega 192 milljarða að bjarga Davíð og co úr snörunni og munið að þeim fannst samt ekki þörf á því að víkja sæti. 

Það hefur mikið verið talað um stórgjaldþrot einstakra útrásarfyrirtækja og -einstaklinga, en hér höfum við það svart á hvítu.  Gjaldþrot Seðlabanka Íslands er stærsti skellurinn sem íslenskir skattborgarar þurfa að bera í bili að vegna hruns bankakerfisins!

Það hefur verið talað um óábyrg útlán Landsbankans, þar sem safnað var fé inn á Icesave til að nota í útlán vitandi um bakábyrgð íslenska tryggingasjóðsins.  En hér er það Seðlabanki Íslands sem stefndi sjálfum sér í þrot með óábyrgum útlánum og það sem meira er tók nokkra minni aðila með sér í fallinu.  Munurinn á Seðlabankanum og öðrum fjármálastofnunum, er að Seðlabankinn er með 100% ríkisábyrgð.  Það er alveg sama hversu óvarlega bankinn fer með fé sitt, ríkið kemur alltaf til bjargar.

Séu þessar upplýsingar skoðaðar í samhengi ýmissa ummæla fyrrverandi formanns bankastjórnar Seðlabankans, þá verða ummæli hans hjákátleg.  Ekki að ég ætli að kenna honum einum um þetta, en hver Íslendingur þarf að greiða 640.000 kr. vegna þessa klúðurs Seðlabankans.  Fyrir mína fjölskyldu gerir það þrjár milljónir átta hundruð og fjörtíu þúsund krónur (3.840.000 kr.).  Það sem meira er.  Ekki er víst hvort öll kurl séu komin til grafar.


mbl.is 200 milljarða í mínus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýja-Kaupþing krafsar í bakkann

Heldur finnst mér hún aum vörnin sem Nýja Kaupþings heldur uppi í þessu máli:

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, segir í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 38 frá árinu 2001, að ekki sé „heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.“ Það er hins vegar löglegt að veita lán í erlendum gjaldmiðli. Slík lán bera erlenda vexti en skuldbindingar í íslenskum krónum bera íslenska vexti.

Ef það eiga að vera öll rökin að það velti á hvert vaxtaviðmiðið er hvort fjárskuldbinding er í íslenskum krónum eða ekki, þá velti ég því fyrir mér hvers vegna er þá verið að  tala um "gengistryggingu" og "gengisviðmið" í mörgum þessara lánasamninga.  Og þegar um er að ræða blandað lán, þ.e. að hluta með viðmið í íslenskum krónum og hluta í erlendum gjaldmiðli, hvar fellur það inn í þessa skilgreiningu Nýja Kaupþings.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa fengið munnleg álit fjölmargra lögmanna og lögfræðinga um þetta mál.  Ef samtökin væru nægilega fjársterk, þá hefðum við óskað eftir skriflegum rökstuðningi og greitt fyrir hann.  Við höfum líka heimildir fyrir því að gert sé ráð fyrir því að gengistryggð lán heimilanna verði flutt frá gömlu bönkunum til þeirra nýju með allt að 50% afslætti.  Hvers vegna skyldi það vera?  Ætli það sé vegna þess að menn efast um lögmæti lánanna?  Spyr sá sem veit ekki.


mbl.is Engin gjaldeyrislán hjá Nýja-Kaupþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svikamylla bankanna

Ég hef verið að bíða eftir þessari kæru í nokkurn tíma, en satt best að segja, þá hef ég ekki skilið af hverju Fjármálaeftirlitið og efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hafi ekkert gert í málinu hingað til.

Þegar gengistryggð lán voru fyrst boðin á markaði, þá var farið mjög leynt með þau.  Það var líklegast á haustdögum 2003 sem fyrstu lánin voru veitt til einstaklinga.  Byrjað var að bjóða bankastarfsmönnum þessi lán í bakherbergjum bankanna, í kjölfarið komu djarfir einstaklingar utan bankanna og loks stóð þetta öllum til boða. Ástæðan fyrir því að fólk sótti í svona lán var einföld:  Gengið var stöðugt og vextir lágir.  Áhættan af lántökunni virtist lítil, þar sem allar spár bentu til þess að hér yrði þokkalegur stöðugleiki í langan tíma.  Einnig, ef maður skoðað þróun gengis aftur í tímann, þá kom í ljós að þó svo gengið hefði vissulega lækkað nokkuð taktfast, þá var sú lækkun ekki nema á bilinu 1,5-2,0% á ári að jafnaði.  Að taka lán í lágvaxtamyntum með jafnvel 2,5-3,5% vaxtaálagi var því alltaf betri kostur, en að taka verðtryggt íslenskt lán.  Stærsti kosturinn var náttúrulega sá, að í hvert sinn sem greitt var af láninu, þá lækkaði höfuðstóll þess.

Þetta var svo sem allt í lagi, þar til bankarnir hófu útrás sína að alvöru.  Nú þurftu þeir allt í einu meira fé til að lána út.  Þá var svikamyllan búin til í formi jöklabréfa. 

Er einhver sem skilur hvernig standi á því að útgreiðsla jöklabréfa hefur svona mikil áhrif á gjaldeyrisforða þjóðarinnar?  Það eru jú erlendir aðilar sem standa að banki jöklabréfunum, þ.e. gáfu þau út, og því ættu erlendir aðilar að greiða afborganirnar.  Ekki voru menn að gefa út skuldabréf á Íslandi til að geyma peninginn hér á landi?  Nei, útgáfa jöklabréfanna var til þess gerð að fá lánaða peninga til að nota.  Það voru tvær leiðir fyrir menn að hagnast á því.  Önnur var að gera vaxtaskiptasamninga og hin að treysta á að krónan myndi veikjast verulega.

Höfum fyrst á hreinu að jöklabréfin voru hugmynd íslensku bankanna.  Þá vantaði krónur til að lána út hér á landi og einnig erlendan gjaldeyri til að lána út erlendis.  Það sem íslensku bankarnir gerðu má lesa í lýsingu Gylfa Magnússonar á Vísindavefnum:

Í grundvallaratriðum er enginn munur á jöklabréfum og skuldabréfi sem íslenskur banki hefur gefið út í sömu mynt, nema hvað útgefandinn er erlendur í öðru tilfellinu og innlendur í hinu. Í báðum tilfellum á sá sem kaupir bréfið kröfu á útgefandann um greiðslu á vöxtum og höfuðstól í íslenskum krónum. Erlendir aðilar hafa hins vegar yfirleitt ekki mikinn áhuga á að skulda í krónum og þurfa þar með bæði að búa við gengisáhættu og háa vexti. Því semja útgefendur jöklabréfa alla jafna við íslenskan banka um vaxta- og gjaldmiðilskipti. Með því er átt við að íslenski bankinn tekur að sér að greiða vexti og afborganir í krónum. Íslenski bankinn tekur á sama tíma lán í erlendri mynt sem útgefandi jöklabréfsins tekur að sér að greiða af í staðinn. Íslenski bankinn fær síðan krónurnar sem fengust fyrir sölu jöklabréfsins en útgefandi jöklabréfsins fær andvirði erlenda lánsins. Alla jafna eru reyndar ýmsir milliliðir í þessu ferli en það breytir lítt heildarmyndinni og verður hlutverk þeirra því ekki rakið hér.

Hér erum við með þá stöðu, að erlendir aðilar gáfu út jöklabréfin.  Kaupendur voru ýmsir aðilar, bæði erlendir og innlendir. Íslensku bankarnir tóku að sér a selja bréfin og líka að greiða þau til baka.  Á móti tóku íslensku bankarnir erlend lán, sem útgefendur jöklabréfanna taka að sér að greiða.  Hvor um sig tekur því áhættu í eigin mynt þó lánin/skuldabréfin séu í mynt annars lands.

Peningarnir sem komu inn í íslensku bankana með jöklabréfunum voru m.a. notaðir til að lána út gengistryggð lán til innlendra aðila.  Þó upphaflega skuldbindingin hafi verið í erlendri mynt, þá er endurgreiðslan í íslenskum krónum, en ekki erlendum gjaldeyri.  Þarna er verið að stilla upp svikamyllunni. 

Svikamyllan sjálf gekk út á að upphæðin sem við (almenningur) skuldum í CHF, EUR, USD eða JPY yfirfært á núverandi gengi, er ekki sama upphæð og bankarnir skulda vegna þessara útlána.  Hún var það til að byrja með meðan gengið var stöðugt, en það stóð aldrei til að halda því stöðugu.  Markmiðið var alltaf að festa sem flesta í netinu meðan gengið var sterkt og síðan að láta gengið gossa.  Og það gekk eftir.  En við það jukust ekki skuldir bankanna.  Þeir voru jú búnir að gera vaxtaskiptasamninga við erlenda útgefendur jöklabréfanna.  Skuldir bankanna, sem stóðu að baki stórum hluta gengistryggðra útlána til einstaklinga og fyrirtækja, voru í íslenskum krónum!

Ég efast um að menn hafi ætlað að láta hlutina fara jafn illa og raun ber vitni.  Bankarnir hefðu líklegast komist upp með þetta, ef gengið hefði bara lækkað um 5-10%, en ekki 40-50%.  Þeir féllu því á eigin bragði.


mbl.is Kaupþing kært fyrir stórfelld fjársvik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gunnar Tómasson tekur að öllu undir kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna

Það var forvitnilegt viðtalið að Gunnar Tómasson, hagfræðing, í Kastljósi í kvöld.  Í viðtalinu, þá tekur Gunnar fullkomlega undir málflutning og kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna, sem samtökin hafa sett fram frá stofnun þeirra í janúar.  Tvö stærstu málin okkar hafa verið leiðrétting höfuðstóls lána vegna forsendubrests og að gengistryggð lán séu ólögleg.  Vægt er til orða tekið að Gunnar hafi stutt þessar kröfur okkar.  Nú er bara spurning hvort hann sé nægilega málsmetandi einstaklingur til þess að stjórnvöld hlusti.

Annars er Gunnar ekki einn um það að hafa tekið undir skoðanir okkar.  Þeim fjölgar á hverjum degi.  Á föstudaginn vorum við á fundi með vinnuhópi hjá BSRB, þar sem ekkert kom á milli mála að okkar málflutningur ætti að vera grunnurinn af þeirri lausn sem bjóða þarf upp á.  Eina spurningin sem ég hef, er hvers vegna hefur það tekið menn svona langan tíma að átta sig á hinum óumflýjanlega sannleika.  Hagkerfið verður ekki endurreist fyrr en búið er að endurreisa heimilin.


Steingrímur í talnablekkingaleik

Samkvæmt frétt í Fréttablaðinu virðist Steingrímur J. Sigfússon ekki hafa mikla áhyggjur af skuldastöðu þjóðarinnar.  Í fréttinni segir:

Steingrímur segir að þarna séu birtar heildartölur þar sem staða bankanna sé reiknuð inn í stöðu þjóðarbúsins. Þegar hagur ríkisins sé metinn sé eðlilegra að horfa á hreina stöðu án bankanna. Þar sé staðan neikvæð, en ekki nema um 600 milljarða, sem sé vel innan þeirra marka sem búist hafi verið við.

„Þetta eru vissulega þungar og miklar skuldir, það er alveg ljóst. En það þarf að hafa í huga hvaða verðmætasköpun stendur þar að baki, og hvaða hlutfall af þjóðartekjum er útflutningur. Þar stöndum við vel að vígi og erum með hlutfallslega fremur kraftmikinn útflutning. Það lagar stöðuna, eftir því sem útflutningstekjur eru hærra hlutfall af veltu hagkerfisins ræður landið við hærra skuldahlutfall," segir Steingrímur.

Nú er Steingrímur í talnaleik og auk þess fer hann með rangt mál. Staðreyndin er að skuldirnar sem við ætlum að borga sjálfviljug eru 233% af þjóðarframleiðslu.  Já, skuldirnar sem ætlum að borga eða að minnsta kosti viljum gera allt sem við getum til að borga.  Heildarskuldir þjóðarbúsins við útlönd (utan gömlu bankanna) voru 3.320 milljarðar.  Þetta er talsvert hærri tala en kom fram í minnisblaði Seðlabankans til fjárlaganefndar vegna Icesave umræðunnar.

Það er blekking að undanskilja skuldir gömlu bankanna, þar sem hluti þeirra verður greiddur.  Skuldir þeirra voru metnar á 11.000 milljarða og það á að greiða 10-30% af því jafnvel meira. Gerir það 1.100 - 3.300 milljarða hið minnsta eða 78-230% af þjóðarframleiðslu. Af hverju tekur Steingrímur þetta ekki með? Það er talnaleikur að tala síðan um að munurinn á skuldum og eignum sé bara 600 milljarðar. Talnaleikur sem er þessu gjörsamlega óviðkomandi. Þeir sem eiga eignirnar eru nefnilega í flestum tilfellum aðrir en þeir sem skulda. Því verður aldrei hægt að treysta á að eignirnar verði seldar og peningarnir fluttir til Íslands svo hægt sé að borga skuldirnar.

Hver er tilgangurinn hjá Steingrími með þessari blekkingu veit ég ekki? Vandinn hverfur ekkert þó hausnum sé troðið ofan í sandinn.


Kannski er verið að sýna okkur..

Þessi "ég elska þig, ég elska þig ekki" snúningur á því hvort mál Íslands verði tekið fyrir hjá stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er kannski til að sýna okkur að við komumst líklegast alveg af án þeirra.  Ég get t.d. ekki séð að ástandið hafi versnað neitt verulega síðustu mánuði.  Ástandið er jafnvel ívið skárra en það var í janúar og þá var það svipað og í lok október.  Vandamálið er ekki hvort við fáum lán AGS og allra hinna, heldur hvort ríkisstjórn Íslands geti komið ýmsum hlutum í verk, sem hafa ekki komist á dagskrá.

Ég spyr bara:  Af hverju ætti AGS að taka mál Íslands á dagskrá, þegar ekkert er að gerast í innri málum landsins?  Þrátt fyrir lokalokalokafrest FME varðandi fjármögnun bankanna og útgáfu stofnefnahagsreiknings þeirra, þá er því ekki lokið.  Þrátt fyrir kvalaróp heimilanna í landinu, þá er(að því ég best veit) ekki byrjað að ræða þau mál af neinu alvöru, nema í besta falli í einhverju bakherbergjum ráðuneytanna.  Þrátt fyrir stigvaxandi og langvarandi atvinnuleysi, þá hefur ekki eitt einasta verkefni farið í gang sem gæti spornað gegn atvinnuleysi til skamms tíma.  Og þrátt fyrir ítrekuð boð lífeyrissjóðanna um að koma með fjármagn til atvinnuskapandi verkefna, þá gerist ekkert.  Hvernig væri að einhver læknir færi í heimsókn á stjórnarheimilið og athugaði með lífsmörk þeirra sem þar eru til húsa?

Ég hef nefnt það áður og vil koma því á framfæri einu sinni enn:  Af hverju hafa ekki verið í gangi vinnuhópar sérfræðinga sem einblína hver á sitt viðfangsefnið?  Þessum hópum var komið á fót í október, strax eftir hrunið, en svo gufuðu þeir upp.   6. nóvember birti ég eftirfarandi lista með hugmyndum að vinnuhópum.  Listann birti ég aftur 24. nóvember og enn einu sinni í mars.   

  1. Fjármálaumhverfi: Verkefnið að fara yfir og endurskoða allt regluumhverfi fjármálamarkaðarins.
  2. Bankahrunið og afleiðingar þess:  Verkefnið að fara yfir aðdraganda bankahrunsins svo hægt sé að læra af reynslunni og draga menn til ábyrgða.
  3. Atvinnumál:  Verkefnið að tryggja eins hátt atvinnustig í landinu og hægt er á komandi mánuðum.
  4. Húsnæðismál:  Verkefnið að finna leiðir til að koma veltu á fasteignamarkaði aftur á stað.
  5. Skuldir heimilanna:  Verkefnið að finna leiðir til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna í landinu.
  6. Ímynd Íslands:  Verkefnið að endurreisa ímynd Íslands á alþjóðavettvangi.
  7. Félagslegir þættir:  Verkefnið að byggja upp félagslega innviði landsins.
  8. Ríkisfjármál: Verkefnið að móta hugmyndir um hvernig rétta má af stöðu ríkissjóðs.
  9. Peningamál: Verkefnið að fara ofan í peningamálastefnu Seðlabanka Íslands, endurskoða hana eftir þörfum og hrinda í framkvæmd breyttri stefnu með það að markmiði endurreisa traust umheimsins á Seðlabanka Íslands  [Þessu er lokið]
  10. Gengismál:  Verkefnið að skoða möguleika í gengismálum og leggja fram tillögur um framtíðartilhögun.
  11. Verðbólga og verðbætur:  Verkefnið að fara yfir fyrirkomulag þessara mála og leggja til umbætur sem gætu stuðlað að auknum stöðugleika.
  12. Framtíð Íslands - Á hverju ætlum við að lifa: Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi nýja atvinnuvegi.
  13. Framtíð Íslands - Hvernig þjóðfélag viljum við:  Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi inniviði þjóðfélagsins.

Því miður hefur lítið sem ekkert gerst í þessum málum, a.m.k. á yfirborðinu.  Af hverju?  Þora stjórnmálamenn ekki að hleypa einhverjum sem gætu haft góðar hugmyndir að umræðuborðinu?  Eða halda menn að þeir fái einhverja pakkalausn frá AGS eða ESB?  Austfirðingar biðu í 25 ár eftir stóriðju og var lítið annað gert í atvinnuuppbyggingu á svæðinu á meðan.  Verður það sama upp á tengingunum núna, að Samfylkingin bíður og bíður í þeirri von að allt bjargist, þegar ESB björgunarsveitin mætir.  Hvernig væri nú að taka sig saman í andlitinu, fara að kljást við viðfangsefnin og koma með hugmyndir að lausnum?  Það þýðir ekki að draga sig inn í einhverja skel af því að viðfangsefnið sé stórt.  Það leystist ekki nema unnið sé að lausninni með færustu sérfræðingum og hagsmunaaðilum.  Mér liggur við að segja, að þeir einu sem mega missa sín eru stjórnmálamenn.


mbl.is Ekki á dagskrá 14. september
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins tvær leiðir færar: Leiðrétting núna eða afskrift síðar

Morgunblaðið birtir grein eftir mig á bls. 29 í laugardagsblaðinu og síðan tengil við lengri útgáfu af henni á netinu.  Hér fyrir neðan er þessi lengri útgáfa.

Aðeins tvær leiðir færar:  Leiðrétting núna eða afskrift síðar

Um áramótin 2007/2008 var nokkuð gott fjárhagslegt jafnvægi á íslenskum heimilum.  Krónan hafði vissulega lítillega veikst frá því hún var sterkust um mitt sumar 2007 og verðbólga hafði látið kræla á sér samhliða þessari veikingu, en fjárhagsstaða heimilanna var nokkuð góð.  En þetta var svikalogn.  Undirniðri var óvættur mikill að undirbúa árás á íslenska hagkerfið og átti hann eftir að kippa fótunum undan velflestum heimilum og fyrirtækjum landsins.  Það sem meira er, óvættur átti eftir að éta foreldra sína, fjármálakerfið.

Undanfarna tuttugu mánuði hefur íslenska hagkerfið gengið í gegnum ótrúlegt öldurót.  Hver fellibylurinn á fætur öðrum hefur dunið á ströndum hagkerfisins og lagt í rúst fjármálakerfið, ríkissjóð, fyrirtækin í landinu og heimilin.  En óvætturinn hefur ekki enn náð að seðja hungur sitt og hefur læst skolt sinn um heimilin og fyrirtækin í landinu.  Að foreldrunum gengnum hreiðraði hann um sig hjá nýjum herrum í formi ríkisrekinna banka.  Og þar ætlar hann að nærast á bráð sinni og þenjast út, eins og púkinn á fjósbitanum hjá Sæmundi fróða hér forðum.

Heimilin í landinu hafa mörg hver verið mergsogin.  Höfuðstólar lána þeirra hafa hækkað upp úr öllu valdi og það hafa afborganirnar líka gert.  Ríkisvaldið hefur nokkrum sinnum gripið til vanmáttugra tilrauna til að rétta hjálparhönd, en þær flestar engu skilað og hinar litlu.  Fjármálafyrirtækin með nýju bankana í fylkingarbrjósti sýna skilning á ástandi í orði, en ekki á borði.  Þau virðast ekki skilja, að eigi framtíðin að snúast um val á milli heimilanna og þeirra, þá verða þau að falla fram á sverðið.

Staða nær allra lántakenda er þannig, að forsendur þeirra fyrir lántökum hafa brostið.  Lán sem tekin voru við góð skilyrði hafa tekið breytingum sem enginn gerði ráð fyrir og fáir ráða við.  Líkja má breytingunni við efnahagslegar hamfarir með engu minni áhrif en er hraun og aska færði byggðina í Vestmannaeyjum í kaf veturinn 1973.  Hvort það var úrlausnum ríkisvaldsins að kenna eða einhverju öðru, þá er íbúatala Vestmannaeyja ekki ennþá búin að ná sömu hæðum og fyrir gos.  Er það virkilega þetta sem við viljum sjá gerast fyrir Ísland?  Fólki gert að bera tjón sitt óbætt eða lítt bætt og að fólk flytji burtu vegna þess að það treystir ekki samfélaginu eða vill ekki að börn þeirra alist upp við þá ógn sem felst í óstöðugu efnahagsumhverfi.

Fjármálafyrirtækin verða að átta sig á því, að þau munu aldrei innheimta að fullu þau lán sem þau eiga hjá viðskiptavinum sínum.  Það getur verið að endurheimturnar verði 70-80% af verðtryggðum lánum, 45-55% af gengistryggðum lánum og eitthvað svipað af öðrum lánum.  Þó svo að eignir fólks standi undir veðsetningunni, þá gera tekjur þess það líklegast ekki.  Og þó tekjurnar geri það, þá er ekki víst að greiðsluviljinn sé til staðar.  Mjög mörgum Íslendingum finnst nefnilega sem fjármálafyrirtækin hafi brotist inn á heimili þeirra og stolið af þeim miklum verðmætum.  Fólki finnst síðan óréttlátt að greiða þurfi þjófunum ekki bara upphaflegu skuldina, heldur einnig þann kostnað sem hlaust af innbrotinu.

Allir innlendir lántakendur hafa orðið fyrir miklu tjóni vegna efnahagshrunsins.  Vissulega hafa fjármálafyrirtæki líka orðið fyrir tjóni, en munurinn er að mörg þeirra tóku virkan þátt í efla og styrkja óvættinn og hvetja hann til dáða.  Þau eru því flest á einn eða annan hátt ábyrg á tilvist hans.

Leiðin niður á við

Eins og ég sé ástandið í þjóðfélaginu, þá er bara um tvær leiðir að ræða.  Leið eitt er að fjármálafyrirtækin gangi fram af hörku og innheimti lánin í topp sem mun leiða til fjöldagjaldþrot og yfirtöku fjármálafyrirtækja á þeim veðum sem sett voru fyrir lánunum.  Þar sem veðin hafa fallið í verði, þá munu fjármálafyrirtækin annars vegar ekki fá lánin að fullu greidd og hins vegar ekki geta selt eignirnar á því verði sem þær voru teknar yfir á.  Nýir eigendur munu því geta keypt fasteignir ódýrt, sem mun valda ennþá meiri verðlækkun á fasteignamarkaði en þegar er orðin.  Stór hluti landsmanna, þ.e. þeir sem fóru í gjaldþrot eða greiðsluaðlögun, verða óvirkir á fjárfestingamarkaði í fjölda mörg ár og upp í áratugi, en það veltur allt á því hve lengi fjármálafyrirtækin munu reyna að rukka inn eftirstöðvar lánanna sem ekki fengust greidd upp í topp.  Áhrifin verða geigvænleg fyrir íslenskt samfélag.  Neysla dregst saman, velta fyrirtækja minnkar, skatttekjur ríkis og sveitafélaga verður ekki svipur hjá sjón.  Þetta bitnar á atvinnustiginu, samneyslunni og velferðarkerfinu.  Kreppan verður dýpri og lengri en nokkurn órar fyrir.  Fólksflótti verður mikill og svört atvinnustarfsemi regla frekar en undantekning.  Hagvöxtur dregst verulega saman.

Leiðin upp úr kreppunni

Leið tvö er að lántakendur fái verulega leiðréttingu á höfuðstóli lána sinna, t.d. til samræmis við stöðu lána 31.12.2007 að teknu tilliti til greiðslna inn á höfuðstól og afborganir síðustu 20 mánuði.  Í fyrsta lagi eru mörg lagaleg rök fyrir því að þetta verði gert.  Bara til að nefna fáein, þá er það 36. gr. laga nr. 7/1936, samningalaga, en þar er fjallað um ógildingu samninga vegna forsendubrests.  Í tölulið c segir t.d.: „Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag.“  Í lögum nr. 46/4005 um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir er í 9. gr. ákvæði um að víkja megi til hliðar fjárhagslegri tryggingarráðstöfun, „ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera ákvæðið fyrir sig“.  Nú í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur er greinum 13 og 14 tekið fram, að eingöngu er heimilt „að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs..Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu..“  Tel ég þessi lagalegu rök vera nokkuð traust og vex stöðugt í hópi þeirra lögfræðinga sem telja þau nægilega sterk til að vinna dómsmál gegn fjármálafyrirtækjunum. 

Í öðru lagi eru það viðskiptaleg rök.  Það hefur oft sýnt sig, að sé komið til móts við skuldara með niðurfellingu, afskrift eða leiðréttingu á höfuðstól láns, þá innheimtist í raun hærra hlutfall af höfuðstólnum en annars myndi gerast.  Heildarafskriftin/niðurfærslan/leiðréttingin verður því minni, en annars yrði.  Ástæðan er að skuldarinn verður áfram virkur viðskiptavinur fjármálafyrirtækisins og stendur oftar í skilum, þar sem greiðsluviljanum er viðhaldið.  Viðskiptavinur sem finnst hann njóta réttlætis og sanngirni, er betri viðskiptavinur, en sá sem finnst hann órétti beittur.  Virkur viðskiptamaður er verðmætari fyrir fjármálafyrirtækið, en hinn sem er sífellt á flótta með peningana sína og forðast að greiða skuldir sínar.  

Í þriðja lagi eru það siðferðisleg rök.  Flest, ef ekki öll, fjármálafyrirtæki tóku á einn eða annan hátt þátt í hrunadansinum.  Það er engin afsökun að hafa haft gjaldeyrisjöfnuð í jafnvægi eða hafa ekki ætlað að valda tjóni, dansinn var stiginn taktfastur án þess að hugsað væri fyrir afleiðingunum.  Áhættustjórnun fyrirtækjanna brást, of mikil áhætta var tekin og þegar spilaborgin hrundi, þá reyndust viðbragðsáætlanir ekki vera til staðar.  Vissulega var hlutur fjármálafyrirtækja misjafn í hruninu, en þeir sem horfðu á og gerðu ekkert til að stoppa ofbeldið eru líka sekir.  Það getur því ekkert íslenskt fjármálafyrirtæki talið sig vera saklaust í þessum efnum. 

Í fjórða lagi eru það efnahagsleg rök.  Þetta eru raunar bara andstæðan við fyrri kostinn.  Ef greiðslubyrði lána verður létt með leiðréttingu á höfuðstóli lána, þá eykst neyslan, velta fyrirtækja, skatttekjur, samneysla og við verjum velferðarkerfið.  Fleiri verða virkir á fjárfestingamarkaði og verðfall fasteigna stöðvast.  Staðið verður vörð um eignir fólks og fyrirtækja.  Tiltrúin á hagkerfinu eykst og viljinn til að vera virkur þátttakandi líka.  Verulega dregur úr atvinnuleysi og þar með útgjöldum ríkisins til þeirra þátta.  Ánægðari þjóðfélagsþegnar skila meiri og betri vinnu og þar með auknum hagvexti.  Fólk sér fram á bjartari tíð og að framtíð þess verði best borgið hér á landi.  Aukin hagvöxtur og auknar skatttekjur gætu síðan hjálpað við að greiða niður skuldaklafana sem nú hvíla á þjóðinni.  Og hvort sem fólk telur það kost eða ókost, aukið líkurnar á skjótri inngöngu Íslands í ESB og upptöku evru.

Leiðréttingin er ódýrari fyrir kröfuhafa

Nú segir einhver að leið tvö sé of kostnaðarsöm og einhver þurfi að borga.  Það er bæði rétt og rangt.  Leið tvö er ódýrari en leið eitt fyrir þá sem þurfa að bera kostnaðinn.  Ástæðan er sú, að sá hluti lánanna sem verður leiðréttur/afskrifaður/færður niður í leið tvö mun hvort eð er að mestu tapast í leið eitt.  Þetta er svo kallaður sokkinn kostnaður.  Auk þess mun leið eitt hafa í för með sér frekari útlánatöp sem ekki eru komin upp á yfirborðið núna, vegna dvínandi greiðsluvilja, þverrandi greiðslugetu, fjölgun atvinnulausra o.s.frv.  Leið eitt mun því í reynd kosta fjármálafyrirtækin meiri afskriftir lána, en leið tvö.

Í mínum huga bendir allt til þess að leið tvö sé leiðin út úr kreppunni.  Hún hefur yfirburði yfir leið eitt fyrir alla nema kannski fjármagnseigendur, sem ætla að nýta sér kreppuástandið og brunaútsölur til að komast yfir eignir ódýrt.  Fyrir alla aðra er leið tvö hagstæðari.  Ég er búinn að nefna lántakendur, fjármálafyrirtækin, fyrirtækin, ríkissjóð og sveitarfélögin, en hvað með lánadrottna fjármálafyrirtækjanna.  Gagnvart þeim eru rökin alveg þau sömu og hjá fjármálafyrirtækjunum.  Sé greiðslugetu og greiðsluvilja lántakenda (þ.e. heimila og fyrirtækja) haldið við, þá hafa fjármálafyrirtækin meiri tekjur til að nota í uppgjör við lánadrottna sína.  Endurheimtur lánadrottnanna verða því betri eftir leið tvö en eftir leið eitt. 

Gerðardómur gæti höggvið á hnútinn

Nú vantar bara einhvern með nægilegan kjark til að þróa lausn fyrir skuldara landsins í samræmi við leið tvö.  Ég tel fjármálafyrirtækin ekki vera rétta aðilann, a.m.k. án aðkomu annarra, heldur verða lánadrottnar þeirra og fulltrúar neytenda að koma því að skilgreina og útfæra lausnina.  Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, hefur lagt til gerðardóm sem vettvang slíkrar vinnu.  Ég tel það reynandi meðan enginn kemur með betri uppástungu.  A.m.k. treysti ég ekki fjármálafyrirtækjum landsins til að koma með sanngjarna og réttláta lausn.  Ég treysti ekki heldur stjórnmálamönnum eða embættismönnum.  Gerðardómur, þar sem sæti eiga fulltrúar lánadrottna íslensku fjármálafyrirtækjanna, þ.m.t. Íbúðalánasjóðs, fulltrúar neytenda, hlutlausir aðilar skipaðir af Hæstarétti eða lagadeildum háskólanna og síðan fulltrúum fjármálafyrirtækjanna, er leið sem reynandi er að fara.  Hvet ég stjórnvöld til að skipa slíkan gerðardóm sem fyrst í samráði við hagsmunaaðila beggja vegna borðsins, sem þá jafnframt gangast undir niðurstöðu hans án undanbragða.  Til að tryggja það verður að gæta jafnræðis við skipan dómsins milli þeirra sem gæta hagsmuna neytenda og þeirra sem gæta hagsmuna kröfuhafa.

 

Marinó G. Njálsson

Höfundur er stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna og sjálfstætt starfandi ráðgjafi um áhættu- og öryggisstjórnun

 


Gylfi, Gylfi, Gylfi, hlustar þú á sjálfan þig?

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, greinir frá því í viðtali við visir.is að hann vonist til "að vera með fullmótaðar tillögur til lausna á skuldavanda heimilanna þegar þing kemur saman um næstu mánaðamót".  Fagna ég þessari yfirlýsingu, en get samt ekki annað en tekið þessu með fullri varúð.  Af hverju geri ég það?  Jú, vegna eftirfarandi orða ráðherrans:

Það er auðvitað þannig að skuldavandi heimilanna er kannski fyrst og fremst kominn fram vegna þess að raunlaun hafa lækkað verulega en lánin staðið í stað og jafnvel hækkað.

Hvað er maðurinn að segja?  Að lánin hafi staðið í stað! Bíddu, Gylfi, hvar hefur þú haldið þig síðustu mánuði og upp í 2 ár.  Að segja að lánin hafi "jafnvel hækkað" gerir það að maður efast um heilsu ráðherrans.  Er einhver heilaþvottur í gangi hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar?  Lánin hafa ekki staðið í stað, Gylfi. Þau hafa stökkbreyst á síðustu 2 árum.

Ok, annað í málflutningi ráðherrans er í góðu lagi og getur orðið að umræðugrundvelli. Það sýnir jafnframt að verið er að huga að lausnum.  Stjórnvöld verða þó að átta sig á því, að lausn sem ekki tryggir hagsmuni lántakenda er betur geymd ofan í skúffu.  Lausn sem ekki er samin í samvinnu við hagsmunasamtök neytenda, er betur geymd ofan í skúffu.  Lausn sem er lausn stjórnvalda á óþægilegu vandamáli, en ekki lausn neytenda, er betur geymd ofan í skúffu.  Kallið alla hagsmunaaðila að samningaborðinu.  Núna er gríðarlega gott tækifæri til að fara í mikla leiðréttingu skulda heimilanna og fyrirtækjanna.  Notum það, því það kemur ekki aftur, nema önnur kollsteypa verður í íslensku samfélagi.


"Við erum hagfræðingar. Við tölum í raunvöxtum"

Þetta voru orð Þórólfs Matthíassonar í Kastljósinu áðan.  Hann var að setja ofan í við Tryggva Þór Herbertsson, þegar Tryggvi talaði um að skuldirnar myndu tikka á 15% vöxtum.  Þetta væru sko ekki raunvextir, þeir væru lægri.  Tryggvi brást við og sagði það alveg rétt og þá kom þetta kostulega andsvar Þórólfs "Við erum hagfræðingar. Við tölum í raunvöxtum".  Svei mér, ef það rigndi ekki upp í nefið á honum, þegar hann sagði þetta, svo hátt reigði hann hausinn.

Þórólfur, þegar þú mátt vera að því að koma niður úr fílabeinsturni hagfræðikenninganna, þá kemstu líklegast að því að vextir eru vextir hvaða nafni þeir heita.  Fyrir allan almenning, kannski ekki þá sem búa í fílabeinsturni háskólasamfélagsins, en fyrir okkur hin, þá er okkur nákvæmlega sama hvort vextirnir heita nafnvextir, raunvextir, vextir eða verðbætur.  Allt eru þetta útgjöld sem ráðast af óvægni á budduna.  Og við borgum líka vextina sem halda raunvöxtunum ofan verðbólgunnar.

Annars á ég ofsalega erfitt með að skilja Þórólf.  Hann virðist fastur í einhverjum hagfræðikenningum og gleyma alveg að tengja þær við raunveruleikann.  Nú setur hann fram tillögu um tekjutengingu afborgana húsnæðislána.  Þessi hugmynd er hugsanlega flott í útópíu hagfræðinnar, þar sem gert er ráð fyrir hagvexti, tekjuaukningu, kaupmáttaraukningu og síðan stöðugleika.  Tekjutengingar í íslensku samfélagi hafa alltaf orðið til að skapa óréttlæti vegna þeirra jaðaráhrifa sem kemur út úr tekjutengingunni.  Ef einstaklingur eykur tekjur sínar um 100.000 kr. með aukinni vinnu, þá fara 41% í skatta og lífeyrissjóðsiðgjald, 4% í námslán og síðan kannski 15% - 20% í afborganir lána (miðað við tillögu Þórólfs).  Við þetta bætist lækkun vaxtabóta og barnabóta og hugsanlega hátekjuskattur.  Eftir standa innan við þriðjungur af 100.000 krónunum.  Hvað gerir þá viðkomandi?  Hann leitar frekar eftir svörtum tekjum, vegna þess að þá heldur hann öllum 100 þúsund kallinum.

Í Kastljósinu í kvöld talaði Þórólfur einu sinni sem oftar um kostnaðinn af leiðréttingu lána heimilanna.  Honum er ótrúlega tíðrætt um þetta og fékk liðsmann í formi Jóns Steinssonar sem var með grein í Mogganum í dag.  Þeir tala um að leiðrétting núna kosti skattgreiðendur svo mikið.  Þetta er algjört bull.  Við höfum val.  Hægt er að fara í leiðréttinguna núna eða afskriftir síðar.  Ég hef skrifað grein um þetta, sem mun birtast í Morgunblaðinu á næstu dögum á sama stað og grein Jóns.  Þar færi ég rök fyrir því að líklegast er ódýrara að fara núna í leiðréttingar, heldur en að stefna stórum hluta þjóðarinnar í gjaldþrot.  Auk þess liggja fyrir því viðskiptaleg rök, lögfræðileg rök og siðferðileg rök.  En tvö þau síðari mælast náttúrulega ekki í útópískum hagfræðiformúlum Þórólfs Matthíassonar.  Með fullri virðingu fyrir hagfræðiformúlum, þá eru niðurstöður þeirra engu betri en tölurnar sem settar eru inn í þær.  Séu forsendurnar rangar, þá verða niðurstöðurnar bara bull.  Rubbish in, rubbish out.  Hafi eitthvað sannast undanfarin ár, þá er það nákvæmlega þetta.

(Ég mun birta greinina sem fór í Moggann um leið og hún verður birt þar.  Þó verður það talsvert lengri útgáfa.)


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 276
  • Frá upphafi: 1680564

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband