Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, september 2009

Hvaða stöðugleiki er mikilvægur?

Já, hvaða stöðugleiki er mikilvægastur?  Maður getur ekki annað en spurt sig þessarar spurningar eftir að niðurstaða peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands er ljós.  Ekki það að ákvörðunin komi á óvart, þar sem forsendur fyrri ákvarðana um vaxtastig hafa ekkert breyst.

En svo ég svari spurningunni, þá sýnist mér að sá stöðugleiki sem sé mikilvægastur sé stöðugleiki stöðnunar, hárra vaxta og lágs atvinnustigs.  Ef menn eru að verja krónuna, þá hefur það greinilega mistekist, þar sem vaxtastig SÍ hefur lítið gert til að hjálpa krónunni til að endurheimta styrk.  Vissulega vitum við ekki hvort krónan væri veikari, ef vextirnir væru lægri, en hátt vaxtastig er ígildi veikari krónu.  Þurfi atvinnulífið og heimilin að greiða 5-7% of háa vexti, þá er það alveg jafnslæmt, ef ekki verra en að krónan væri þessum prósentum veikari.  Einnig má færa sterk rök fyrir því að háir stýrivextir gefi til kynna að trú SÍ á efnahagsumbótum hér á landi sé lítil.  En þá á móti hvernig eiga umbæturnar að eiga sér stað, ef SÍ þrengir sífellt svigrúmið til umbóta með vaxtastefnu sinni.

Ég hef áður nefnt að mér finnst rökvilla í því að halda þurfi stýrivöxtum háum þar til gjaldeyrishöftunum verði aflétt.  Þetta er sama rökvilla og SÍ hefur lent í áður eða nánar tiltekið í mars 2001.  Að mínu áliti, og höfum í huga að ég er bara með tvær gráður í aðgerðarannsóknum, sem oft eru kölluð bestunarfræði, þá er betra að eiga inni möguleika á stýrivaxtahækkun við afnám gjaldeyrishaftanna, en að vera með vextina svo háa þegar höftin eru afnumin, að ekkert svigrúm er til hækkunar vaxtanna nema það hafi í för með sér náðarhögg á atvinnustarfsemi í landinu.  Það eru í mínum huga öll rök fyrir því að lækka stýrivexti skarpt í undanfara afnáms gjaldeyrishaftanna til þess að eiga borð fyrir báru varðandi hækkun þeirra þegar höftin eru afnumin.

Ætli galli sé ekki bara að líkön hagfræðinnar skorti skilning á rökfræði.


mbl.is Stýrivextir áfram 12%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ASÍ vill staðfesta stuldinn

Frétt mbl.is sýnir að ASÍ er ekki í takti við við fólkið í landinu.  Um það þarf ekki að hafa fleiri orð.  Ekki einu sinni fjöldi þeirra sem er í vanda, er á réttu róli hjá þeim.  Mér finnst það sorglegt að sjá að ASÍ vill með aðgerðunum staðfesta stuldinn og leggja blessun sína yfir hann.  Ég vona innilega að stjórnvöld lepji þetta ekki upp eftir þeim.  Það verður stríðsyfirlýsing.

Það er gott og blessað að breyta lögum um greiðsluaðlögun, en að miða allt við þá sem eru yfirskuldsettir og yfirveðsettir er einfaldlega röng nálgun.  Það var brotist inn hjá okkur öllum og það þarf að bæta öllum tjónið.  Hagsmunasamtök heimilanna gera sér grein fyrir að hver og einn verður að bera einhverja "sjálfsábyrgð", en tillögur ASÍ, eins og þær birtast í þessari frétt, eru óásættanlegar.


mbl.is Mæta vanda 10.000 fjölskyldna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að lúffa eða standa keikur?

Íslensk stjórnvöld mótuðu stefnu varðandi auðlindaskatt vegna olíuvinnslu á Drekasvæðinu.  Nú hafa tvö fyrirtæki, sem sótt höfðu um sérleyfi til leitar, ákveðið að hætta við og bera fyrir sig íþyngjandi skatta.  Ég er nokkuð viss um að það hefði engu máli skipt hvert skatthlutfallið hefði orðið, fyrirtækin hefðu kvartað.  Í mínum huga er spurningin einföld:  Er ákvörðun um skattana tekin af íslenskum stjórnvöldum eða erlendum fyrirtækjum?  Ætla íslensk stjórnvöld að standa keik eða lúffa?  Eru innan þeirra menn eða mýs?

Mér sýnist sem hin erlendu fyrirtæki vilji láta reyna á hversu slæm staða íslenska þjóðarbúsins er.   Ég veit að hún er slæm en hún batnar ekki við það að gefa eftir í þessu máli.  Hagnaður, ef nokkur, af olíuvinnslu verður ekki fyrr löngu eftir að við höfum lagt núverandi kreppu að baki.  Það er því alveg óþarfi að verða óstöðugur í hnjánum, þó þessi tvö fyrirtæki hætti við.  Bíðum í tvö ár og auglýsum þá aftur.  Ef við breytum stefnunni, þá sýnum við umheiminum að auðvelt er að beygja litla Ísland.  Er það virkilega skilaboðin sem við viljum senda út núna?

Eitt er alveg víst.  Sé vinnanlegt magn olíu á Drekasvæðinu, þá breytist það ekkert þó beðið sé.  Líklegra er að verðmæti svæðisins geri ekkert annað en að aukast.  Nú hafa Norðmenn ákveðið að Jan Mayen svæðið sé þess virði að skoða og það segir mér að fleiri eigi eftir að fá áhuga.  Eru sinna skipti Sagex Petroleum og Lindir Exploration miklu frekar til komin vegna þess, að þau sjá fram á að norsk stjórnvöld greiði kostnað vegna óvissunnar á svæði, en um leið og búið verður að staðfesta að olía er norðan landhelgislínunnar, þá verði áhættan minni vegna leitar sunnan hennar.  Og á sama hátt, ef ekkert finnst norðan línunnar, þá verður það ekki áhættunnar virði að leita sunnan hennar.  Eins og ég sé þetta, þá er þetta með skattana bara léleg átilla.


mbl.is Skattarnir afar íþyngjandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

30% er stórkostlegt

Mér finnst það stórkostlegt að ríflega 30% aðspurðra segðust tilbúnir að fara í greiðsluverkfall.  Höfum í huga að þetta er aðgerð sem aldrei hefur verið farið í fyrr og því framandi fyrir fólki.  Þessi tala 30% er mun hærra hlutfall, en við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna áttum von á.  Fólk var að gæla við tölur frá 5% og upp í besta falli 20%.  30% eða ígildi 75.000 manns er því langt umfram okkar björtustu vonir.  Takk fyrir undirtektirnar.

Tekið skal fram að Hagsmunasamtök heimilanna hafa fengið mikið af upphringingum og tölvupósti frá ólíklegustu aðilum, þar sem lýst er yfir stuðningi við aðgerðirnar.  Meðal annars innan úr bönkunum!  Fólk er orðið þreytt á úrræðaleysi stjórnvalda og vill sjá eitthvað gerast.  Það vill almennar aðgerðir, sem bæta sem flestum það tjón sem fáeinir einstaklingar ollu almennum lántakendum. 


mbl.is Innan við þriðjungur tilbúinn í greiðsluverkfall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn þögli meirihluti kveður upp raust sína

Ef niðurstöður skoðunarkönnunar Capacent fyrir Hagsmunasamtök heimilanna eru færðar yfir á þjóðina, þá kemur í ljós að 80% landsmanna vilja afnema verðtrygginguna.  ÁTTATÍU AF HUNDRAÐI.  Það jafngildir meira en 200 þúsund manns 16 ára og eldri vilja láta afnema verðtryggingu.  Aðeins 9,3% vilja halda í verðtrygginguna og þá er helst að finna í hópi þeirra yngstu, 16-24 ára, þar sem nærri 22% vildu halda í verðtryggingu og önnur 22% hafa ekki skoðun á málinu og svo í hópi þeirra elstu, 65 ára og eldri, þar sem tæp 15% vilja halda verðtryggingunni.

Það kom fram á fundi Hagsmunasamtaka heimilanna sl. fimmtudag, að þeir þrír sérfræðingar, sem þar voru, viðskiptaráðherra og tveir hagfræðingar, töldu afnám verðtryggingar EKKI vera hættulega fyrir lífeyrissjóðina.  Sjálfur hef ég bent á þau rök, að umtalsvert stærri hluti eigna sjóðanna er í verðtryggðum eignum en nemur verðtryggðum útgjöldum þeirra.  Sjóðirnir treysti því ekki eins mikið á verðtrygginguna og ýmsir talsmenn verðtryggingar halda fram.

En það var fleira í skoðunarkönnuninni sem stjórnvöld ættu að huga að.  Rúmur helmingur landsmanna segist með naumindum eða ekki ná endum saman og 75% vilja að verðtryggð og gengistryggð lán verði leiðrétt.

Jóhanna og Steingrímur, nú er komið að ykkur að hlusta á Hagsmunasamtök heimilanna.  Það kemur nefnilega í ljós að þjóðin er sammála okkur.


mbl.is Ná ekki endum saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lán færð til ÍLS og hvað svo?

Samkvæmt frétt í Fréttablaðinu í morgun eru í gangi viðræður um mögulega yfirtöku Íbúðalánasjóðs á öllum húsnæðislánum bankanna.  Nefnd sem dóms-, félagsmála- og viðskiptaráðherra hefur verið að skoða ýmis úrræði fyrir fólk í greiðsluerfiðleikum og virðast menn hallast á að þetta sé góð hugmynd.

Því ber að fagna, að núna tæpu ári frá falli Glitnis og rúmum 18 mánuðum frá hruni krónunnar í mars 2008, að loks sé farið að örla á einhverjum hugmyndum.  Vandinn er að það sem nefnt er í frétt Fréttablaðsins er ekkert nýtt og það er enginn lausn fólgin í því.  Þá á ég við, að enginn vandi er leystur með því að flytja lánin yfir.  Þetta er bara millileikur.

Það gleðilega við fréttina, er að Samfylkingin virðist loksins vera að viðurkenna þá staðreynd að grípa þarf til almennra aðgerða, þ.e. aðgerða sem ná jafnt til stórra hópa lántakenda.  Það slæma við fréttina, er að það hafi tekið þessa "ráðherranefnd" tvo mánuði að komast að sömu niðurstöðu og tók ríkisstjórn Geirs H. Haarde hálfa dagsstund að komast að fyrir tæpu ári.  Heimildin til að færa lánin yfir í ÍLS var nefnilega sett í lög við setningu neyðarlaganna 6. október 2008. 

Ég frétti svo sem af þessu síðast liðinn miðvikudag.  Þá fór ég í hópi fólks á fund félagsmálaráðherra, Árna Páls Árnasonar.  Hópinn skipuðu fulltrúar aðila sem stóðu að ákalli til ríkisstjórnarinnar í febrúar og aftur núna í september.  Þetta eru Hagsmunasamtök heimilanna, Búseti á norðurlandi, Húseigendafélagið, Félag fasteignasala, talsmaður neytenda og Lögmenn í Laugardal.  Við fórum á fund ráðherra og kynntum honum okkar sjónarmið og ósk um að fá að vera þátttakandi í mótun lausna fyrir skuldsett heimili landsins.  Við bíðum ennþá eftir viðbrögðum ráðherra við því.

Ég hef nokkrum sinnum reynt að greina þann vanda sem við er að eiga.  Í stórum dráttum má segja að hann sé að höfuðstóll og afborganir lána hafa hækkað það mikið vegna verðbólgu og lækkunar á gengi krónunnar, að lántakendur ráða illa eða alls ekkert við greiðslubyrðina og að eigið fé fólks í húseignum þess hefur skerst verulega, horfið með öllu og í mörgum tilfellum orðið neikvætt.  Ekkert af þessu breytist við það að færa húsnæðislán frá bönkum og sparisjóðum til ÍLS.  Hugsanlega verður auðveldara að finna lausnir, en það veltur á því á hvaða "verði" ÍLS "kaupir" lánin af bönkunum og sparisjóðunum.  Hvaða afslátt fær ÍLS á lánasöfnunum og munu allir núverandi eigendur lánanna samþykkja "tilboð" ÍLS?

Ég ætla hvorki að lofa né lasta þessa hugmynd, enda er hún enn í mótun.  Það er auk þess ómögulegt að geta sér til um hvað ÍLS á síðan að gera við lánin.  Því gildir hið fornkveðna að dag skal lofa að kveldi og mey að morgni.

En hvað gæti ÍLS gert við lánasöfnin?  Við þessu eru líklegast mörg svör og mörg ólík viðhorf.  Nokkuð er ljóst, að ekki á að fara út í þessa fimleika með lánasöfnin nema ætlunin sé að fara út í einhverja leiðréttingu á höfuðstólum lánanna.  Ég er þeirrar skoðunar að best sé að aðgerðir verði hvað almennastar.  Verðbætur verðtryggðra lána verði skertar afturvirkt og gengi gengistryggðra lána verði miðað við t.d. lántökudag eða 1. janúar 2008 og þau látin fylgja verðtryggðum lánum eftir það.  (Ég er líka með fleiri hugmyndir, en ætla að halda þeim fyrir mig sjálfan í bili.)  Síðan verði farið út í sértækar aðgerðir fyrir þá hópa sem ennþá eru í vanda, þ.e. eru ennþá með neikvætt eigið fé, eru ennþá með ónóga greiðslugetu og þá sem sitja uppi með tvær fasteignir vegna sölutregðu.  Markmiðið verði að koma sem flestum út úr þeim vanda sem glæfraskapur örfárra einstaklinga komu þjóðinni í.


Verður hlustað núna?

Það sem Baldur Pétursson er að segja, erum ég og Hagsmunasamtök heimilanna búin að vera að segja í marga mánuði.  Það er hrun krónunnar, ekki fall bankanna sem er mesti vandi heimilanna, fyrirtækjanna, sveitarfélaganna og ríkisins.  Fall bankanna var bara nokkur nokkur púsl í miklu stærri mynd, sem bankarnir vissulega tóku virkan þátt í að búa til, en fall þeirra sem slíkt er minnsta málið.

Ef hér hefði ekki orðið gengishrun, heldur bankarnir bara fallið, þá værum við fyrir löngu komin yfir þetta.  Svo einfalt er það.  Þá væru ekki 70% fyrirtækja tæknilega gjaldþrota eða 30% heimila.  Vissulega væri mikið atvinnuleysi, en mun auðveldara hefði verið að endurreisa bankana, þar sem gæði lánasafna þeirra væru meiri.

Ég er ekki bjartsýnn á, að hægt sé að styrkja krónuna um 30%.  Það þýðir gengisvísitala upp á 164 og Evru upp á 126 kr.  Ég hefði ekkert á móti því, en það er nákvæmlega ekkert í spilunum sem bendir til þess að krónan geti styrkst þetta mikið.  Ef eitthvað er, þá eru öll rök fyrir hinu gagnstæða, þ.e. að krónan haldist áfram þetta veik eða veikist frekar vegna hinna miklu skulda þjóðarinnar.  3.400 milljarðar eru skuldir sem við ætlum að standa við og greiða upp, því annars eignast erlendir kröfuhafar mikil verðmæti í landinu, þ.m.t. öll helstu fyrirtæki landsins og auðlindir til lands og sjávar.

En ég spyr:  Verður hlustað núna, þegar maður með réttan stimpil á rassinum tjáir sig um þessi mál?


mbl.is Erlendar skuldir 30% of háar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stuðningur úr óvæntri átt - Fleiri sjá ljósið

Þorvarður Tjörvi Ólafsson, hagfræðingur hjá Seðlabanka Íslands flutti erindi í um "endurskipulagningu skulda heimila og fyrirtækja í kjölfar kerfislægrar fjármálakreppu", svo ég hafi fullan titil á erindi hans.  Verð ég bara að segja, að loksins hefur einhverjum hagfræðingi tekist að finna fræðilegan rökstuðning við því sem við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna höfum haldið fram frá því í janúar og ég raunar hér á blogginu frá því í október í fyrra.  Mikilvægur þáttur í því að endurreisa efnahagslífið er að koma til móts við heimilin í landinu og létta af þeim hluta af skuldum þeirra.  Við höfum sagt að valið standi milli þess að leiðrétta núna eða afskrifa síðar.  Loks höfum við sagt að því fyrr sem farið er í leiðréttinguna, því fyrr hefst batinn í hagkerfinu.

Í dag stígur Þorvarður Tjörvi fram og tekur undir allt sem við höfum sagt.  Máli sínu til stuðnings vitnar hann í lærdóm sem menn hafa dregið af fyrri fjármálakreppum, en þær hafa víst verið 120 á síðustu 39 árum í heiminum öllum.  Og lærdómurinn er

að endurskipulagning skulda einkaaðila sé mikilvægur þáttur í endurreisn efnahagslífsins í kjölfar kerfislægrar fjármálakreppu. 

En Þorvarður Tjörvi lætur ekki þar við sitja.  Hann bendir á, að

efnahagsvandræði eins geira eiga það til að velta yfir á aðra geira og magnast á leið sinni um bankakerfið

þ.e. að verði ekki tekið á vandkvæðum einstakra þátta, í þessu tilfelli heimilanna, þá muni það bitna á öðrum þáttum (alveg eins og HH hefur ítrekað haldið fram).  Og síðan segir hann að

án aðgerða er lúta að endurskipulagningu skulda einkaaðila er veruleg hætta á að vítahringur gjaldþrota, greiðsluerfiðleika og atvinnuleysis hafi langvarandi skaðleg áhrif á framleiðslu og atvinnu sem grafi undan endurreisn fjármálakerfisins, seinki efnahagsmata og auki þar með kostnað vegna kreppunnar auk þess sem samfélagssátt verði stefnt í voða. 

Þetta er allt sem HH hefur haldið ítrekað fram undanfarna 8 mánuði án þess að stjórnvöld hafi séð ástæðu til að taka undir.  Ætli Þorvarður Tjörvi sé í réttu liði, þannig að hægt sé að taka mark á orðum hans.  Ég hef nefnilega á tilfinningunni að bara sé hlustað á þá sem eru með Jóhönnu í liði!

En Þorvarður Tjörvi var ekki hættur.  Næst sagði hann í erindi sínu:

Reynslan sýnir að aðgerðir til aðstoðar heimilum og fyrirtækjum hafa tilhneigingu til að dragast á langinn með kostnaðarsömum afleiðingum, auk þess sem ekki hefur verið gætt nægilegs samræmis við endurskipulagningu skulda við mótun annarra aðgerða stjórnvalda, einkum endurreisn bankakerfis.

Hann er ekki að lýsa reynslunni hér á landi, þó það mætti halda.  Nei, þetta er reynslan af fjármálakreppum undanfarinna 39 ára.  Merkilegt hvað íslensk stjórnvöld virðast falla í alla sömu pytti og stjórnvöld í öðrum löndum.  Þurfa menn alltaf að gera mistökin sjálfir til að geta lært af þeim?  Er mönnum fyrirmunað að læra af mistökum annarra?

Vissulega hafa menn gert margt rétt hér á landi undanfarið ár eða svo.  En vandinn er að hvert skref hefur bara tekið svo langan tíma, að allt virðist í eintómu klúðri.  Til að losna úr klúðrinu verður að taka djarfar ákvarðanir.  Fyrirmyndirnar eru til staðar.  Í Mexikó og Chíle umbreyttu menn lánum sem tengd voru við erlenda gjaldmiðla á hagstæðara gengi en viðgekkst á markaði.  Það voru meira að segja veittar tryggingar gegn verulegum gengissveiflum.  Í þessum löndum voru íbúðalán á lægri vöxtum til lengri tíma.  Ef stjórnvöld í þessum löndum, sem hingað til hafa ekki talist til efnahagsundra, gátu gert þetta, þá geta íslensk stjórnvöld gert það líka.  Vissulega eru ókostir við svona íhlutun, en varla telst núverandi ástand vera óskastaða.  Þorvarður Tjörvi benti þó á, að betri árangur næðist yfirleitt, þegar um beint samstarf, já SAMSTARF, væri milli lántaka og kröfuhafa.  Ekki einhliða ákvarðanir kröfuhafanna (bankanna), heldur SAMSTARF lántaka og kröfuhafa.  Eru bankamenn að hlusta?

Þorvarður Tjörvi endaði kynningu sína á eftirfarandi:

Endurskipulagning skulda er krefjandi en brýnt viðfangsefni sem við stöndum frammi fyrir og hvernig okkur mun ganga mun hafa áhrif á hversu vel okkur tekst til við að skjóta styrkari stoðum undir efnahagsbata, lífvænlegt bankakerfi og samfélagslega sátt án þess að stefna sjálfbærni ríkisfjármála í voða.

Og í svari við spurningu sem beint var að honum, sagði hann (þó ekki orðrétt):

Alltaf betra að fara STRAX í endurskipulagningu í staðinn fyrir að fresta vandanum!

Mikið er ég búinn að bíða lengi eftir því að heyra einhvern innan íslensku stjórnsýslunnar segja það sem Þorvarður Tjörvi Ólafsson sagði á kynningunni í dag.  Nú er bara að vona, að Tjörvi sé í "réttu" liði, þannig að Jóhanna, Steingrímur og Árni Páll hlusti á það sem hann hafði að segja.


mbl.is Ríður á endurskipulagningu skulda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýn Hagsmunasamtaka heimilanna orðin að veruleika

Hagsmunasamtök heimilanna vöruðu við því síðast liðinn vetur að neysla heimilanna myndi dragast mikið saman, meðan ekkert væri gert í lánamálum þeirra.  Okkar sýn var og er mjög einföld:

Til að standa undir aukinni greiðslubyrði lánanna, dregur fólk saman í neyslu.  Samdrátturinn í neyslunni veldur minni veltu hjá fyrirtækjum og minni neysluskatttekjum ríkisins.  Það fyrra leiðir til minni eftirspurn/þörf fyrir vinnuafli.  Hið síðara að ríkið verður að skera meira niður eða bæta í álögur á almenning.  Meiri álögur valda ennþá minni neyslu og nýr hringur hefst.  Haldi þetta svona áfram kemur annað hrun.

Það þurfti svo sem engan snilling til að sjá þetta gerast og ég satt best að segja skil ekki af hverju núna tæpu ári frá hruni bankanna og rúmum tveimur árum eftir að krónan byrjaði að lækka, ekkert hafi verið gert að viti fyrir heimilin í landinu.  Það er eins og stjórnvöld skilji ekki þau einföldu sannindi, að besta leiðin til að vinna sig út úr kreppu er að breikka skattstofnana, ekki að ráðast af sífellt meiri þunga á einn þeirra.  Heimilin ráða ekki við öll þau margþættu verk sem Steingrímur og Jóhanna ætla þeim.  Þau geta ekki á sama tíma staðið undir neyslu og neyslusköttum, greitt stökkbreytta höfuðstóla lána sinna, greitt fyrir enduruppbyggingu bankakerfisins og greitt fyrir enduruppbyggingu hagkerfisins.  Með fullri virðingu, þá eru byrðarnar sem Jóhanna og Steingrímur ætla heimilunum allt of þungar, þær eru ósanngjarnar og óréttlátar.  Stefna ríkisstjórnarinnar virðist vera að hneppa heimilin í ævilangan þrældóm fjármálakerfisins.  Eða eins og ég segi í síðustu færslu: Heimilin eiga að vera galeiðuþrælar fjármálafyrirtækja


mbl.is Neysla heimila dregst stöðugt saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimilin eiga að vera galeiðuþrælar fjármálafyrirtækja

Samkvæmt frétt á pressan.is eru uppi hugmyndir um að tekjutengja afborganir húsnæðislána í samræmi við hugmynd Þórólfs Matthíassonar, prófessors.  Ég vil eindregið vara við þessari hugmynd.  Hér er um fátæktargildru að ræða, eins og allar aðrar tekjutengingar í þessu þjóðfélagi.

Það er besta mál að notast við tekjutekningar, þegar búið er að skilgreina hvað teljast viðunandi tekjur  og hver er framfærsluþörfin.  En það hefur ekki verið gert.  Í staðinn er skorið af tekjum fólks án tillits til þess hvort tekjurnar duga fyrir framfærslu eða ekki.  Raunar er ástandið oft svo fáránlegt, að hækki einstaklingur um þúsund kalla í tekjum, þá hverfa tekjutengdar bætur upp á tugi þúsunda.

Sú hugmynd að tekjutengja afborganir lána er bara sönnun þess, að jafnaðarmenn og vinstri sósalistar á Íslandi ætla að stuðla að þjóðnýtingu eigna heimilanna og gefa þær fjármálafyrirtækjum.  Öðruvísi mér áður brá, þegar það var stefna vinstri sósíalista að þjóðnýta fyrirtæki til að gefa þau þegnunum.  Ætla Vinstri-grænir virkilega að samþykkja að rányrkja fjármálafyrirtækjanna á undanförnum árum verði staðfest og fasteignir heimilanna færðar þeim á silfurfati.  Skiptir engu hvers ólögleg og ósanngjörn aðför fjármálafyrirtækjanna var að heimilum landsmanna, ætla Vinstri-grænir virkilega að lúffa vegna þess að það gæti stefnt stjórnarsamstarfinu í voða.

Það er kjaftæði að það muni kosta ríkissjóð eitthvað af viti að koma til móts við kröfur Hagsmunasamtaka heimilanna og fjölmargra annarra aðila að LEIÐRÉTTA stökkbreyttan höfuðstól lána heimilanna.  Það er gert ráð fyrir 2.800 milljörðum í bönkunum þremur í afskriftir lána.  Ekki borgar ríkissjóður það.  Það stefnir allt í að SPRON muni afskrifa 40-50% af sínum útlánum, ef ekki meira.  BYR er, ef marka á slúðrið, að ná samningi við sína kröfuhafa um ekki minni afskriftir.  Af hverju fer Íbúðalánasjóður ekki í samningaviðræður við sína kröfuhafa?

Ef ríkisstjórnin ætlar að samþykkja rányrkju fjármálafyrirtækjanna, þá mun ég láta verða af því að finna mér starf úti í heimi.  Ég ætla ekki að bjóða börnunum mínum upp á umhverfi, þar sem það þykir sjálfsagt og eðlilegt að þjóðnýta eigur fólks, svo fjármagnseignendur þurfi engu að tapa.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa varað við því frá því í febrúar, að nota eigi fasteignir heimilanna til að endurreisa bankakerfið.  Miðað við frétt Pressunnar, þá virðist ekki bara það ætla verða staðreynd, heldur á að binda alla launamenn landsins á árar bankakerfisins og drífa það áfram.  Heimilin eiga að vera galeiðuþrælar fjármálakerfisins um aldur og ævi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 3
  • Sl. sólarhring: 125
  • Sl. viku: 686
  • Frá upphafi: 1677708

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband