Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Enn hittir gagnrýnin gagnrýnandann heima

Það var vissulega slæmt að starfsmenn SPRON hafi þurft að heyra af örlögum vinnustaðar síns í beinni útsendingu, en þeir fengu þó réttar upplýsingar.  Mig rekur nefnilega minni til blaðamannafunda (í beinni útsendingu), þar sem saman stóðu Geir H. Haarde og Björgvin G. Sigurðsson.  Þar var fullyrt að ENGINN bankamaður myndi missa vinnuna.  Þar var líka fullyrt að lífeyrir landsmanna yrði varinn.  Síðan lofuðu þessi aðilar einhverju fleiru, sem ég hef ekki geð í mér að rifja upp.  Hversu ógeðfeldið og óheppilegt sem það var hjá Gylfa Magnússyni að segja fólkinu frá því að líklegast myndu mjög margi missa vinnuna, þá LAUG hann þó ekki upp í opið geðið á fólki.
mbl.is Gerði Alþingi grein fyrir sparisjóðaaðgerðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur einhver útskýrt fyrir mér...

Ég get stundum verið svo tregur að það er með ólíkindum.  Nú er svona fattleysi dottið yfir mig.  Þetta eru raunar tvö aðskilin mál.  Annað kom fram í málflutningi Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur og hitt í frétt á visir.is.  Tökum fyrst Sigríði.

Sigríður hélt því fram í Silfri Egils að það kostað of mikið að færa niður lán heimilanna og síðan væri algjörlega út í hött að færa niður lán þeirra sem ekki þurftu á því að halda.  Vésteinn Gauti, félagi minn hjá Hagsmunasamtökum heimilanna, setti fram þá hugmynd til að koma í veg fyrir það, þá væri einfaldlega dregið frá niðurfærslunni sú upphæð sem viðkomandi fékk gefins frá okkur skattborgurum, þegar ákveðið var að tryggja allar innistæður.  Þannig að ef einhver "ríkisbubbi" ætti að fá 6 milljónir niðurfærðar af lánum sínum og hefði fengið 7 milljónir gefins vegna viðbótarinnistæðutryggingarinnar, þá einfaldlega fengi hann ekki neitt.  Sigríður var snögg til svara, en hugsaði ekki eins búast má við af dóttur skákmeistara og lék því af sér.  Hún sagði að það hefðu nú ekki verið svo margir sem hefðu fengið björgun! Stuttu áður hafði hún ekki neitað því að björgunin hefði ekki numið undir 600 milljörðum og ætti hún nú að vita töluna hafandi setið í bankaráði Seðlabankans.  Hún sagði jafnframt að það væri of kostnaðarsamt að færa niður húsnæðislán heimilanna.  Nú er það þetta sem ég fatta ekki:  Ef örfáir aðilar (einstaklingar og fyrirtæki) fengu björgun upp á að minnsta kosti 600 milljarða með innistæðutryggingum, af hverju er verið að hafa áhyggjur af því þó þeir fái nokkrar milljónir í viðbót? Og í þessu samhengi:  Var það virkilega nauðsynlegt að bæta þessum örfáu aðilum innistæður sínar upp í topp og koma þannig af stað icesave málinu?  Hefði ekki verið nóg að tryggja innistæður almennings upp í topp, en setja þak á innistæðutryggingu hinna sem betur voru stæðir? Er ekki bara málið, að verið var að bjarga einhverjum flokksgæðingum.  T.d. væri fróðlegt að vita hvað ráðherrar fyrri ríkisstjórnar högnuðust á botnlausri innistæðutryggingu.

En af því Sigríði finnst þessi aðgerð svo dýr, þá er ég búinn að reikna út hve mikið aðgerðir Hagsmunasamtaka heimilanna myndu kosta.  Við leggjum sem sagt til að gengistryggð lán þeirra sem þess óska verði færð yfir í verðtryggð lán frá útgáfudegi.  Þau taki verðbætur eins og önnur verðtryggð lán og afborganir til 1. janúar 2008 verði metnar inn á sama hátt og um verðtryggð lán væri að ræða.  Frá 1. janúar 2008 komi 4% þak á árlegar verðbætur verðtryggðra lána (og þar með líka gengistryggðu lánanna sem breytt var í verðtryggð).  Samkvæmt upplýsingum sem finna má með góðri yfirlegu yfir gögnum frá Seðlabankanum, þá voru gengistryggð húsnæðislána lánakerfisins eitthvað um 145 milljarðar.  107 milljarðar voru í lánum bankakerfisins (þ.e. þríburanna og sparisjóðanna) og síðan voru á að giska 37 milljarðar í útlánum annarra lánafyrirtækja.  Hugsanlega eru þessi 37 milljarðar of há tala.  Gerum nú ráð fyrir að helmingurinn af þessum 145 milljörðum sé tilkomin vegna falls krónunnar, þ.e. 72,5 milljarðar, og sama upphæð sé það sem eftir stendur af höfuðstól lánanna.  Gerum nú ráð fyrir 15% verðbótum ofan á höfuðstólinn til 1. janúar 2008 og þá stendur hann í rúmlega 83 milljörðum.  Loks bætist við 4% verðbótaþakið, þ.e. ríflega 3 milljarðar.  72,5 milljarðarnir af höfuðstólnum stendur þá í tæplega 87 milljörðum.  Kostnaðurinn við breytinguna á gengistryggðum húsnæðislánum er þá 145 - 87 = 58 milljarðar.

Þá eru það verðtryggðu húsnæðislánin.  Mér telst til að verðtryggð húsnæðislán alls lánakerfisins hafi verið um 1.250 milljarðar um síðustu ára mót.  Ef verðbætur fyrir 2008 eru takmarkaðar við 4%, þá þurfum við fyrst að taka 17,9% hækkun ársins frá og bæta síðan 4% ofan á.  Þá kemur í ljós að lánin stæðu í 1.102 milljörðum og kostnaðurinn við þessa leiðréttingu væri því 1.250 - 1.102 = 148 milljarðar.  Samtals væri því kostnaðurinn af hugmyndum Hagsmunasamtaka heimilanna 148 + 58 = 206 milljarðar.

Þetta er lægri tala en fór í peningasjóðina og þetta er líklegast vel innan við þriðjungur þess sem innistæðueigendum var tryggður með neyðarlögunum.  Þetta er rétt rúmlega 3/4 af kostnaði við björgun Seðlabankans, sem síðan er búið kosta meira vegna þrots Sparisjóðabankans og SPRON og fyrirhugaðrar greiðslu ríkissjóðs inn í smærri fjármálafyrirtæki.

Þá er komið að hinu sem ég fatta ekki.  Sparisjóðabankinn og smærri fjármálafyrirtæki tóku endurhverf lán hjá Seðlabankanum.  Alls urðu þessi lán upp á 345 milljarða.  Smærri fjármálafyrirtæki lögðu skuldabréf, sem þau höfðu keypt af þríburunum, sem veð fyrir lánunum.  Við fall bankanna, þá gerði Seðlabankinn veðkall.  Hann eignaðist skuldabréfin frá þríburunum og mat þau verðlaus.  Samt seldi Seðlabankinn ríkissjóði bréfin á 270 milljarða, þ.e. með 75 milljarða afslætti.  Mér sýnist Seðlabankinn virka þarna eins og versti handrukkari að ég tali nú ekki um bílalánafyrirtæki.  Tekur eignina af eigandanum, en segir hann samt skulda öll lánin sem viðkomandi tók til að fjármagna eignina!  Finnur samt góðan kaupanda að bréfunum og selur með litlum afslætti. Loks heldur hann áfram að ganga á upprunalega skuldarann og krefur um fullt uppgjör.  Í mínum huga ætlar Seðlabankinn sér að fá töluna margfalda til baka.  Getur einhver skýrt út fyrir mér í hverju hugsanavillan er fólgin?

Til að skýra þetta betur

Áður en bankarnir féllu:

  • Kaup smærri fjármálafyrirtækja á skuldabréfum þríburanna:  345 milljarðar
  • Endurhverf lán smærri fjármálafyrirtækja hjá Seðlabankanum:  345 milljarðar
  • Veð Seðlabankans í skuldabréfum sem smærri fjármálafyrirtæki leggja til: 345 milljarðar

Við og eftir fall bankanna:

  • Seðlabankinn tekur yfir veðin sem smærri fjármálafyrirtæki lögðu fram og þau tapa eign sinni:  345 milljarðar
  • Seðlabankinn metur veðin verðlaus og biður um frekari veð:  345 milljarðar (hugsanlega lægri tala)
  • Seðlabankinn selur ríkinu skuldabréfin og tekur á sig 75 milljarða afskrift:  270 milljarðar
  • Ríkið ákveður að afskrifa skuldabréfin sem það keypti af Seðlabankanum, eftirstöðvar: 50 milljarðar
  • Skuld smærri fjármálafyrirtækja við Seðlabankann:  345 milljarðar (a.m.k. þannig er þessu stillt upp)
  • Ríkið rukkar smærri fjármálafyrirtæki vegna skuldabréfanna.

Ef ríkið er búið að afskrifa allt nema 50 milljarða af 345 milljarða skuldabréfa eign smærri fjármálafyrirtækja sem lögð var fram sem trygging, hvernig stendur á því að Sparisjóðabankinn skuldaði Seðlabankanum 150 milljarðar?  Var þetta allt bara blöff?  Gat ekki ríkið alveg eins keypt þessi bréf af smærri fjármálafyrirtækjunum beint og þau notað peninginn til að greiða upp lán sín hjá Seðlabankanum? Eins og ég segi.  Ég er stundum svo einstaklega tregur og þetta fatta ég engan veginn.


SPRON in memoriam

Sparisjóðurinn minn, SPRON, er allur.  Hann var lýstur látinn af Gylfa Magnússyni, viðskiptaráðherra, á fréttamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu.  Búi hins látna hefur verið ráðstafað og fellur það að mestu í hlut afkvæmi hans, þ.e. Kaupþings, þó svo að afkvæmið hafi í fyrir löngu slitið öll tengsl við uppruna sinn og fyrirgert sér erfðarétti.  Mun ég syrgja hinn látna og votta starfsfólki og aðstandendum samúð mína.  Ég vil þakka þeim fjölmörgu starfsmönnum SPRON, Frjálsa fjárfestingabankans og Netbankans fyrir viðskiptin og góða þjónustu í gegnum tíðina.  Þið hafði sýnt einstaka þjónustulund og eigið bestu þakkir fyrir.

Að SPRON flytjist yfir í Kaupþing er í sjálfu sér ekkert annað en það sem stefndi í sl. haust.  Þá benti allt til þess að SPRON sameinaðist Kaupþingi í kjölfar þeirra erfiðleika sem SPRON átti í þá.  Ekkert varð úr því vegna falls Kaupþings og var ég fenginn því, en þetta reyndist skammgóður vermir.  Nú er það búið að gerast sem ég óttaðist.

Gylfi Magnússon segir að ekki flytjist allur hluti af starfsemi SPRON til Nýja Kaupþings.  Það verður að koma skjótt í ljós hvað fer á milli og hvað verður eftir.

 


mbl.is SPRON til Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hækkun vaxtabóta - plástur á fótbrot!

Ríkisstjórnin hefur lagt fram frumvarp um hækkun vaxtabóta.  Eiga þetta að vera tímabundnar hækkanir um 25%.  Það eru öll ósköpin.  Í þetta eiga að fara 2 milljarðar sem eiga fást með tekjuskatti af útborguðum séreignasparnaði.  Þannig að heimilin eiga að borga sér hærri vaxtabætur með því að taka út sparnað.  Hugmyndaauðgin er ótrúleg.

Annars var ég á fundi efnahags- og skattanefndar Alþingis í morgun.  Ásamt mér komu fyrir nefndina fulltrúar fjármálaráðuneytis og Samtaka atvinnulífsins.  Fulltrúi fjármálaráðuneytisins lagði til breytingar sem mun hækka vaxtabætur enn frekar fyrir tekjulægri hópa og lýst mér vel á þá útfærslu.  Fulltrúi Samtaka atvinnulífsins lagðist aftur GEGN hækkun vaxtabóta, vegna þess að þetta væri svo dýr aðgerð.  Verð ég að viðurkenna, að mér fannst þessi málflutningur vera Samtökum atvinnulífsins til minnkunar.   Það var eins og SA fatti ekki að heimilin og fyrirtækin eru saman í slagnum um að ná peningunum frá bönkunum.  Ekki í slag sín á milli.

Mér telst til að aðgerðir tveggja ríkisstjórna til hagsbóta fyrir heimilin hafi frá hruni bankanna numið innan við 500 milljónum.  Nú er ætlunin að bæta 2 milljörðum við, sem á að taka af séreignasparnaði landsmanna!  Samanlagt virka aðgerðir tveggja ríkisstjórna til hagsbóta heimilunum, eins og læknir mynd meðhöndla fótbrot með einu litlum plástri.

Á sama tíma er búið að tryggja 1.100 milljarða innistæður í bak og fyrir.  Það er búið að setja á þriðja hundrað milljarða í peningasjóði og það er búið að leggja Seðlabankanum til 270 milljarða.  Ég hefði mikinn áhuga á að vita hverjir það voru sem fengu áhættufé sitt á innistæðureikningum bætt upp í topp.  Ég vildi gjarnan fá að vita hverjir þurftu á því að halda að fá allar innistæður tryggðar, hver dreifingin á upphæðum var og hvort ekki hefði mátt sleppa því að tryggja einhverjar innistæður vegna þess að þeir aðilar "þurfa ekki björgunar við".  Ég vil líka fá að vita hvers vegna það taldist ekki fífldirfska og áhættusækni að geyma meira en 3 milljónir inni á innistæðureikningum, en það er, að sumra áliti, mátulegt á almenning að tapa háum upphæðum við hækkun höfuðstóls lána eða þegar hlutfé þess í bönkunum varð verðlaust.

Annars tel ég að rétt sé að fjórfalda upphæð vaxtabóta, en ekki hækka um fjórðung.  Fyrir mörg heimili mun það skipta sköpum hvaða endurgreiðslur koma 1. ágúst.


Bankarnir sísvangir eða gráðugir?

Bandarísk stjórnvöld eru á síðustu mánuðum búin að dæla þúsundum milljarða dala í bankakerfið, en það er svo furðulega vill til að í hvert sinn sem meira er bætt við lækkar gengi fjármálafyrirtækja á markaði.  Mér sýnist ástæðan vera einföld:  Peningamennirnir eru búnir að átta sig á því að bandarísk stjórnvöld eru með djúpa vasa og eru tilbúin að seilast sífellt dýpra.  Menn ætla að láta reyna á hve miklu stjórnvöld eru tilbúin að setja í bankakerfið og þar með bjarga í raun gjaldþrota fjármálafyrirtækjum.

Annars virðist Ben Bernanke, seðlabankastjóri, hafa áttað sig á því að ekki dugar að dæla sífellt peningum inn í fjármálafyrirtækin.  Koma þurfi heimilum og fyrirtækjum beint til hjálpar.  Þetta sem samfylkingarframbjóðandi sagði um daginn að væri ekki hægt vegna þess að það hefði ekki verið gert áður, er greinilega hægt.  Spurningin er bara að ganga hreint til verks.

Ég held að það sé fullreynt að hagkerfi heimsins verður ekki bjargað með því að dæla sífellt meiri peningum inn í bankana.  Menn verða að fara að snúa sér að því að bjarga fólkinu.  Bankar koma og fara, en það er fólkið/skattgreiðendurnir sem halda hagkerfinu gangandi.  Út um allan heim hefur neysla dregist svo mikið saman, að það stefnir í gríðarlegt atvinnuleysi og fjöldagjaldþrot fyrirtækja og heimila.  Er það virkilega þess virði að bjarga gírugum fjármálafyrirtækjum á kostnað alls hins?


Rangar áherslur í slökkvistarfi

Ég eiginlega má til að fá þessa mynd lánaða.  Sá hana fyrst hjá Agli, en hún lýsir einmitt veruleika íslenskra heimila og fyrirtækja.  Öll einbeitingin fer í að bjarga bönkunum, en menn átta sig ekki á því að eldurinn frá bönkunum er fyrir löngu búin að berast í flest heimili og fyrirtæki í landinu.  Sumum var vissulega bjargað með því að ábyrgjast allar innistæður upp í topp, en 42% heimila í landinu er með neikvætt eigið fé sé miðað við fasteignamat eða stefnir hraðbyri í að vera með neikvætt eigið fé.  Raunar held ég að þetta hlutfall sé mun hærra, þar sem inni í töluna vantar lán frá lífeyrissjóðum, námslán, yfirdráttarlán, bílalán og alls konar önnur lán.

 

rescueplan.jpg

 


Aðalfundur Hagsmunasamtaka heimilanna

Ég vil vekja athygli á því að í kvöld fer fram aðalfundur Hagsmunasamtaka heimilanna  í HÁSKÓLANUM Í REYKJAVÍK.

Fundurinn hefst stundvíslega klukkan 19:30.

Dagskrá aðalfundar:

1.      Skýrsla stjórnar
2.      Reikningar félagsins
3.      Lagabreytingar
4.      Kosning stjórnar, varamanna og skoðunarmanna.
5.      Önnur mál

Ég hvet félagsmenn til að mæta.


Afleiðing af reglubreytingu 30. júní 2003 - Blame it on Basel, taka tvö

Ég hef nokkrum sinnum bent á að þensluna í þjóðfélaginu sem síðan varð að útrásinni megi (meðal annars) rekja til reglubreytinga sem komu í framkvæmd 1. júlí 2003.  Daginn áður gaf FME í samráði við Seðlabankann út nýjar reglur nr. 530/2003 um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja.  Reglurnar eru byggðar á svo kölluðum BASEL II reglum (The New Basel Capital Accord) Alþjóðagreiðslubankans (Bank of international settlements) frá 2001.  Ég hafði svo sem aldrei svart á hvítu staðfestingu á þessari tilgátu minni, en nú sýnist mér sem ríkisskattstjóri hafi komið með þessa staðfestingu.

Ég skýrði þessa tilgátu mína í færslunni Blame it on Basel frá 15.4.2008, en þar segi ég m.a.:

Árið 2001 var gefin út endurskoðuð og mun ítarlegri útgáfa [reglum um eiginfjárstýringu] sem gengur undir heitinu The New Basel Capital Accord eða Basel II.  Í þessari nýju útgáfu voru gerðar ýmsar breytingar á kröfum til áhættustjórnunar og ætla ég ekki að þykjast þekkja þær allar.  Þó veit ég af tveimur mikilvægum breytingum.  Önnur snertir störf mín sem ráðgjafa, en hún snýst um rekstraráhættu, og hin snýr að kröfu um eiginfjárhlutfall útlánastofnana og er líklegast völd af öllum þeim vandræðum sem hafa verið að hellast yfir fjármálakerfi Vesturlanda undanfarið ár eða svo.

Bæði í útgáfunni frá 1988 og þeirri nýju er notast við áhættustuðul til að draga úr eða auka eiginfjárkröfur.  Í 1988 reglunum giltu mun strangari reglur um t.d. hvaða veðlán gátu verið með "afslætti" en í nýju reglunum.  Þannig voru það fyrst og fremst lán á fyrsta veðrétti sem gátu veitt slíkan "afslátt", en í reglunum frá 2001, þá fá öll lán til einstaklinga með veði í íbúðarhúsnæði 50% afslátt frá kröfum um eiginfjárhlutfall.  Auk þess lækkuðu kröfur vegna útlána til "traustra" fyrirtækja úr 100% niður í 50%.  Þessum reglum var hrint í framkvæmd hér á landi með reglum Seðlabankans um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja nr. 530/2003 frá 30. júní 2003.  Með reglunum var útlánageta fjármálafyrirtækja nokkurn veginn tvöfölduð á einni nóttu.  Bankar sem áður gátu lánað 100 kr. fyrir hverjar 8 kr. í eigin fé, gátu nú lánað 200 kr. gegn þessum 8 kr. til "traustra" fyrirtækja eða gegn fasteignaveði í íbúðarhúsnæði.  Á móti var gerð stífari krafa til greiðsluhæfi lántakenda.

Hér á landi gerðist það til að byrja með að útlán til fyrirtækja jukust, sem m.a. dró vagninn í landvinningum fyrirtækja erlendis og viðskipti í Kauphöllinni urðu líflegri.

Nú hefur ríkisskattstjóri sem sagt staðfest að bankarnir juku gríðarlega strax árið 2003 útlán sín "til "traustra" fyrirtækja".  Síðan má ekki gleyma því að lán á milli banka voru einnig auðvelduð, sem þýddi betra aðgengi fjármálafyrirtækja að lánsfé.

Tilgáta mín á sínum var að það hefðu verið breytingar á regluverki vegna eiginfjárkröfu sem hafi verið valdar að hinni miklu þenslu sem hér varð frá árinu 2003 og endurspeglaðist m.a. í húsnæðislánunum árið 2004.  Mér sýnist sem tölur ríkisskattstjóra bakka þá tilgátu mína.  Því segi ég enn og aftur:  Blame it on Basel.

Mér finnst vera kominn tími til, að menn fari að skoða gaumgæfulega hlut Basel-nefndar Alþjóðagreiðslubankans í aðdraganda fjármálakreppunnar.  Ég tek það fram að Basel II regluverkið er í flesta staði til mikilla bóta, sé rétt eftir því farið.  Í mínum huga var tvennt í Basel II sem klikkaði.  Fyrra atriðið er að of skarpt var farið í að lækka áhættustuðul útlána.  Hann var lækkaður úr 1,0 vegna lána til "traustra" fyrirtækja og gegn veð í húsnæði niður í 0,5 með einu pennastriki árið 2001 (kom í framkvæmd hér 2003) og síðan niður í 0,35 árið 2005 (kom til framkvæmda hér 2. mars 2007).  Þarna hefði verið betra að taka mörg lítil skref á 10 - 15 árum, ef ekki lengri tíma.  Þar með hefði orðið hægfara aðlögun í staðinn fyrir að allt í einu jókst peningamagn í umferð í stóru stökki.  Síðara atriðið er hve háður útreikningur á eiginfjárkröfum í Basel II er mati matsfyrirtækjanna á fyrirtækjum og verðbréfum.  Matsfyrirtækjunum var annars vegar falið allt of mikið vald, sem þau stóðu alls ekki undir, og þeim var gefinn allt of stuttur tími.  Því varð niðurstaðan eins og oft áður: "rubbish in, rubbish out". 

En ekki bara það.  Eins og sagði, þá er rétt útfærsla á Basel II reglunum til mikilla úrbóta, en það kostar vinnu og frjálsræðið var ekki eins mikið og áður.  Því fóru fjármálafyrirtæki þá leið að búa til pappíra sem hægt var að versla með framhjá Basel II reglunum.  Áður en Basel II reglurnar komu til, þá var vottur af slíkum pappírum, en það breyttist svo um munaði.  Markaður sem varla mældist árið 1999 er í dag talin nema 516 þúsund milljörðum dollara! (Heimsframleiðslan er talin 56 þúsund dollarar.)  Þetta er markaður með kaup og sölu á alls konar afleiðum, skuldatryggingum og hvað þetta nú það heitir og allt framhjá öllu eftirliti.  Vissulega er það ekki Basel II að kenna að þetta gerðist, þar sem það var hverju landi í sjálfsvald sett að hindra myndun þessa "hliðarmarkaðar", en menn fóru þessa leið til að komast hjá eftirlitinu og hömlunum sem reglurnar settu.

Það er kaldhæðni að reglurnar sem áttu að bæta regluverk fjármálakerfisins eiga líklegast stærstan þátt í því að setja fjármálakerfið á hliðina.  Ekki vegna þess að regluverkið hafi ekki verið nógu gott.  Heldur vegna þess að fjölmargir stórir aðilar töldu sig ekki þurfa að vinna eftir því.


mbl.is 15.685 milljarða skuldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandi Sparisjóðabankans og ráðþrot ríkisvaldsins

Samkvæmt frétt á visir.is, þá segir Steingrímur J. Sigfússon "að það sé takmarkað hve mikið ríkið geti lagt að mörkum til aðstoðar Sparisjóðabankanum."  Síðan segir í fréttinni:

Steingrímur segir að áfram sé unnið að málefnum Sparisjóðabankans og leitað að lausnum í samvinnu við erlenda kröfuhafa bankans. Að þessari vinnu komi Seðlabankinn auk stjórnvalda og að Fjármálaeftirlitið fylgist með því sem gerist.

Eins og kunnugt er af fréttum glímir Sparisjóðabankinn við vanda upp á um 150 milljarða kr. Þar af eru 70-75 milljarðar kröfur frá ríkissjóði eftir að ríkið yfirtók skuldabréfaeign Seðlabankans í gömlu bönkunum þremur fyrr í vetur.

Maður verður eiginlega alltaf meira og meira hissa eftir því sem fjallað er meira um þessi mál og hér er eitt mál sem ég fatta ekki.

Eins og ég skil málið, þá fékk Sparisjóðabankinn lán hjá Seðlabankanum og endurlánaði til Kaupþings, Glitnis og/eða Landsbankans (þ.e. gömlu bankanna).  Viðkomandi bankar gáfu út skuldabréf sem Sparisjóðabankinn lagði sem veð gegn láninu í Seðlabankanum.  Á ákveðnum tímapunkti gerði Seðlabankinn veðkall og hirti skuldabréfin af Sparisjóðabankanum, en hann virðist þrátt fyrir það sitja uppi með skuldina.  Seðlabankinn átti við fall bankanna 345 milljarða í svona "eiturbréfum" sem gerði eiginfjárstöðu bankans neikvæða.  Ríkissjóður keypti "eiturbréfin" af Seðlabankanum fyrir 270 milljarða, þ.e. fékk 75 milljarða í afslátt, og ákvað strax að afskrifa 220 milljarða.  Eftir standa 50 milljarðar og svo virðist sem þessir 50 milljarðar eigi allir að falla á Sparisjóðabankann.

Af 345 milljörðunum sem Seðlabankinn átti í "eiturbréfum" frá bönkunum þremur, þá á að afskrifa allt nema 50 milljarða og það kemur í hlut Sparisjóðabankans að greiða.  Bankarnir þrír eiga ekki að greiða neitt.  Það á ekki einu sinni að reyna að rukka þá.  Ég hélt í einfeldni minni, að þessi 50 milljarðar, sem eru þá um 15% af 345 milljörðunum, væri það sem talið var að bankarnir gætu greitt, en ekki væri ætlunin að það kæmi í hlut hins litla Sparisjóðabanka að greiða "eiturbréfin".

 


Stýrivextir geta lækkað meira

Greining Íslandsbanka kemur hér með spá um 0,5% lækkun stýrivaxta.  Það er alveg rétt ályktun, ef gengið er út frá núverandi verðbólgu.  Málið er að Seðlabankinn hefur aldrei miðað við verðbólgu á hverjum tíma við ákvörðun stýrivaxta.  Það hefur alltaf verið litið til verðbólgu næstu mánaða.  Vissulega er núna komin sérstök peningastefnunefnd hjá Seðlabankanum og hún mun líklegast nota önnur viðmið en áður voru notuð.  Verðbólguvæntingar hljóta þó að skipta máli.

Nú stefnir allt í að verðbólgumæling fyrir mars gefi ársverðbólgu upp á 16 - 16,5% og í apríl verði ársverðbólgan komin niður í 12,5 - 13,5%.  Eftir það dragi úr verðbólgu sem nemur 1 - 1,5% á mánuði það sem eftir lifir árs.  Miðað er við að ekkert nýtt áfall ríði yfir þjóðina á þessum tíma.  (Kannski er það full bjartsýnt.)  En hvað kemur þetta stýrivöxtum við?  Jú, þetta er spurning um hver háir raunstýrivextir eiga að vera.  Víðast hvar í heiminum eru raunstýrivextir neikvæðir um 3 - 5%.  Ef við gefum okkur að slíkt gerist líka hér á landi, þá gætu stýrivextir farið strax niður um 5 - 7%.  Sé miðað við að raunstýrivextir séu á núlli, þá gætu stýrivextir lækkað um 1,5 - 2%. Ég sé aftur enga ástæðu til þess að raunstýrivextir séu jákvæðir í því efnahagsástandi sem núna ríkir.

Hver sem niðurstaðan verður núna, þá mun gefast tækifæri til að lækka stýrivexti um 3 - 3,5% í lok apríl og síðan um 1 - 1,5% á mánuði það sem eftir er árs.


mbl.is Spá stýrivaxtalækkun á fimmtudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 81
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband