Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009
13.1.2009 | 17:03
Traustur maður valinn
Minn ágæti vinur, Ólafur Þór Hauksson, sýslumaður á Akranesi, hefur gefið kost á sér og verið valinn til að gegna embætti sérstaks saksóknara. Þar fer góður og traustur maður. Vona ég að hann fái að vinna verk sitt, því ég veit að hann mun gera það af vandvirkni, réttsýni og nákvæmni.
Kosturinn við Óla í þessu kunningjasamfélagi eru margir. Má þar fyrst nefna, að mér vitanlega, er hann ekki tengdur eða mægður inn í neina af valdafjölskyldum þjóðarinnar. Hvorki á hinu pólitíska sviði né hinu fjármálalega. Börnin hans eru ekki orðin nógu gömul til að vera farin að vinna, svo ekki gerir það hann vanhæfan. En fyrst og fremst er hann heiðarlegur og góður maður sem hefur verið alveg laus við þátttöku í hagsmunapoti undangenginna ára.
Ég óska honum góðs gengis í nýju starfi og óska Birni Bjarnasyni til hamingju með að hafa valið hann til verksins. Ég vona jafnframt að fjölmiðlar leyfi Óla að vinna verk sitt og fókusi umfjöllun sína um verkið sem hann hefur tekið sér fyrir hendur. Ég get alveg sannfært ykkur fjölmiðlafólk um það, að þið munuð ekki finna neitt á hann umfram einn eða tvo reikninga sem ekki voru greiddir á eindaga, ef ykkur tekst það þá.
Ólafur Þór Hauksson verður sérstakur saksóknari | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
13.1.2009 | 11:32
Nær skuldlaus ríkissjóður skuldar 653 milljarða!
Ég verð að viðurkenna, að það er eitthvað í þessari frétt sem stemmir ekki við fyrri yfirlýsingar um "nær skuldlausan ríkissjóð". Samkvæmt fréttinni eru skuldir ríkissjóðs "rúmir 653 milljarðar króna án tillits til allra skuldbindinga sem falla á ríkissjóð vegna falls bankanna". Í mínum huga þýðir það að lán sem tekin hafa verið eftir 7. október eru ekki inni í þessari tölu, þar sem þau eru vegna falls bankanna.
Ég spyr bara í hverju felast þessar skuldir, hvenær var stofnað til þeirra, til hvers vegna var stofnað til þeirra, hvenær eru þær á gjalddaga, hve háa vexti bera þær og hvað eru miklar eignir að baki þessum skuldum (þ.e. hve mikið eru ríkisskuldabréf sem seld eru til fjárfesta)? Mig fýsir líka að vita hve há lán og skuldbindingar hafa fallið á ríkið vegna falls bankanna og af hverju eru þær tölur ekki birtar í þessu uppgjöri. Það er jú vitað að ríkið greiddi háar upphæðir inn í bankana og að maður tali nú ekki til Seðlabankans. Það er líka vitað að ríkið fékk lán frá AGS (sem verður að teljast vegna falls bankanna), en svo vitum við ekkert meira.
Ég held að við eigum rétt á nánari upplýsingum og sundurgreiningu þessara skulda. Annars er þetta enn eitt dæmið um það pukur og leynd sem stjórnvöld og Seðlabanki viðhafa.
Ríkið skuldar 653 milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.1.2009 | 22:28
Búa Íslendingar við þingræði eða flokksræði?
Í tilefni viðtals Egils Helgasonar við Njörð P. Njarðvík í dag langar mig að endurbirta grein eftir mig sem birt var í Morgunblaðinu fyrir all nokkru. Einnig langar mig til að vera með getraun um það hvenær þessi grein var birt. Ég tek það fram að greinin er ekki birt í heild og hún er lítillega breytt. Viðbætur eru innan hornklofa, en úrfellingar táknaðar með tveimur puntkum (..). En hér kemur greinin:
Vanvirðing Alþingis við þjóðina
Hráskinnaleikur Alþingis varðandi kaup og kjör alþingismanna hefur sýnt landsmönnum að vinnureglur Alþingis geta kallað á stórslys. Sjálfum finnst mér ákvörðunin [um breytingar á kjörum] alþingismanna ekki vera aðalmálið, heldur hvernig staðið var að lagasetningunni...Það sem almenningur hefur orðið vitni að eru einkennin af meinsemd sem grafið hefur um sig á Alþingi. Meinsemdin sjálf er vinnubrögð Alþingis. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem einkennin birtast og þau eiga eftir að gera það oftar, breyti Alþingi ekki vinnubrögðum sínum.
Skoðum hvað átt er við: Lagt er fyrir Alþingi frumvarp um breytingar á lögum..Frumvarpið er þingtekið, keyrt í gegnum þrjár umræður á þingi, afgreitt til þingnefndar þess á milli og að lokum fer fram atkvæðagreiðsla, þar sem breytingarnar eru samþykktar. Allt er þetta gert á 4 klst. ..
Því miður viðhefur Alþingi oft vinnubrögð, sem eru hvorki því né þjóðinni samboðin. Þar er ég að tala um þingfundi langt fram eftir nóttu í kapphlaupinu við að ljúka þingstörfum á eins stuttum tíma og hægt er. Síðustu dagana fyrir jól og fyrir frestun þings á vorin er eins og þingmenn séu í akkorði. Markmiðið virðist vera að komast sem fyrst heim til sín í frí. Afleiðing af þessum vinnubrögðum eru alls konar villur og mistök sem eiga sér stað við lagasetningu. (Nokkuð sem er ekki líðandi.) Það er eins og þingmenn hafi ekki tíma til að sinna starfi sínu.
Meðal annarra orða, getur það verið að það sé ekki fullt starf að vera alþingismaður? A.m.k. eru alltof mörg dæmi um það, að þingmenn sinni öðrum störfum með þingmennsku. Og sum störf eru sko engin hlutastörf. Þingmenn hafa samhliða þingmennsku gegnt framkvæmdastjórn fyrirtækja, formennsku í launþegasamtökum, að ég tali nú ekki um að vera ráðherra.
Hvert er vandamálið?
Ofangreind dæmi eru angi af mun stærra vandamáli, sem snertir vinnubrögð Alþingis almennt. Áður en hægt er að koma með lausnir verður að skilgreina vandamálið nánar. Eftirtalin atriði hljóta að vera þar ofarlega:
- Þingstörfum er hraðað eins og kostur er til að þingmenn komist heim til sín. Það er meðal annars gert með fundum fram á morgun dag eftir dag.
- Þingmenn eru í mörgum störfum og hafa ekki tíma til að sinna þingmennsku sem skyldi.
- Lagabreytingum er hraðað í gegnum þing án þess að tryggð sé málefnaleg umræða.
- Lög eru ekki nógu skýr og gefa framkvæmdarvaldinu of frjálsar hendur um túlkun við útgáfu reglugerða.
- Lögum, sem samþykkt eru á Alþingi að kvöldi, er ætlað að taka gildi að morgni. Oft er það óframkvæmanlegt eða illframkvæmanlegt af tæknilegum ástæðum.
Hægt væri að halda áfram, en ætli þetta dugi ekki.
Hvað er til ráða?
Vissulega er afmörkun sú, sem hér er sett fram, hvorki nákvæm né fullnægjandi og bera lausnirnar þess vott. Auk þess hef ég ekki öll hugtök á hreinu og gæti því ruglað þeim saman, en ég vona að hugmyndir mínar komist í gegn.
Í fyrsta lagi þarf afnema þessi auknu sumar- og jólafrí þingmanna. Það er fyllilega viðurkennt að þingmenn þurfa að eiga samskipti við kjósendur sína, en .. það eru engin rök sem segja að þingmenn þurfi lengra jóla- og sumarfrí en aðrir launþegar í landinu.
Í öðru lagi þarf að breyta reglum um þingsköp þannig að Alþingi sé skylt að hlíta lögum um hvíldartíma. Settar verði hömlur á lengd þingfunda .. og þar með taka fyrir næturfundi. Óheimilt verði að taka sama frumvarpið til fleiri en einnar umræðu á sama degi nema brýna nauðsyn beri til (þröngt skilgreint). [(Þessu hefur að hluta verið breytt síðan greinin var rituð og birt.)] Það er nauðsynlegt fyrir alþingismenn að hvíla sig á umræðuefni, t.d. til að finna rökvillur í framsetningu, finna ágreiningsefni sem nauðsynlegt er að taka á og kanna undirtektir almennings á umdeildum frumvarpstextum.
Í þriðja lagi verða þingmenn að sjá sóma sinn í því að láta allar ákvarðanir um starfskjör sín .. í hendur .. aðila utan þingsins. Með þessu eru þingmenn og Alþingi hafin yfir allan vafa um eiginhagsmunarekstur.
Í fjórða lagi þarf að setja lög um það, að lög sem breyta stórlega (skilgreina þarf hvað telst "stórlega") réttindum landsmanna/lögaðila geti ekki tekið gildi fyrr en einum til sex mánuðum eftir að forseti Íslands hefur staðfest lögin. T.d. verið að afgreiða frumvarp til fjárlaga (og lagabreytingar sem þeim fylgja) í síðasta lagi 30. nóvember ár hvert. Þetta þarfnast að sjálfsögðu nánari útfærslu. Setja þarf ákvæði um neyðarrétt (þröngt skilgreint) sem heimilar að lög taki gildi um leið og forseti hefur staðfest þau [og þau verið birt í Stjórnartíðindum].
Í fimmta lagi þarf að gera þá sjálfsögðu kröfu til þingmanna, að þeir séu ekki í .. starfi hjá öðrum aðila samhliða þingstörfum. Treysti þingmenn sér ekki til að hlíta slíku skilyrði, þá glati þeir rétti sínum til þingsetu og varamaður taki sæti þeirra. Vissulega er þörf á því að þingmenn hafi góð tengsl við aðila utan Alþingis, en eftir að frambjóðendur hafa verið kosnir inn á þing eru þeir í vinnu fyrir þjóðina en ekki hagsmunaaðila. Raunar tilgreina stjórnsýslulög, að einstaklingur geti ekki tekið þátt í ákvörðunartöku sem tengjast hagsmunum hans of mikið. Slíkar reglur eiga, þar sem hægt er að koma því við, að gilda um þingmenn einnig. (Þetta þarf að skilgreina nánar.) Einnig má færa rök fyrir því, að ef þingmennska er ekki umfangmeira starf, en raun ber vitni, væri hægt að fækka þingmönnum og hafa þá í fullu starfi.
Í sjötta lagi þarf að tryggja að framkvæmdavaldið geti ekki sniðgengið vilja löggjafavaldsins við útgáfu reglugerða eða hindra framgang laga með því að draga úr hömlum að gefa út reglugerðir sem eru nauðsynlegar til þess að lög geti í raun tekið gildi.
Í sjöunda lagi er nauðsynlegt að greina betur á milli löggjafavalds og framkvæmdavalds. Eins og staða mála er .. vart hægt að tala um þrískiptingu valdsins. Löggjafavaldið og framkvæmdavaldið eru að hluta til einn og sami aðilinn. Hægt er að draga í efa að hér sé í reyn þingræði. Nær væri að tala um flokksræði. Þingmenn eru með fáum undantekningum mjög hallir undir flokkinn sem stofnun. Ákvörðun flokksins (oft flokksformannsins) er það sem gildir. Þess fyrir utan gegnir einn flokksformaðurinn stöðu forsætisráðherra, þannig að þingmenn stjórnarflokka hlíta í raun framkvæmdavaldinu. Vissulega taka ýmis stefnumál ríkisstjórna breytingum í meðferðum þingflokka, en aðskilnaður löggjafavalds og framkvæmdavalds í sumum tilfellum óskýrari fyrir vikið. Þetta atriði kallar á grundvallarbreytingu á stjórnskipan lýðveldisins og þar með stjórnarskrárbreytingu. Framkvæma má þessa breytingu í nokkrum skrefum og væri fyrsta skrefið að varamenn taki sæti ráðherra á þingi. Þetta þarf ekki að kalla á aukin útgjöld, því samhliða þessu væri hægt að fækka þingmönnum um tíu.
----
Eins og ég sagði í innganginum, þá var þessi grein birt fyrir nokkuð mörgum árum. Sumt sem í henni stendur hefur tekið breytingum, þá helst hvað varðar þingsköp. Annað er óbreytt og allt of margt bundið sömu óþolandi annmörkum.
Þetta er meira til gamans gert að endurbirta greinina til að sýna að þó hlutirnir breytist, þá virðast þeir ekki breytast neitt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
10.1.2009 | 13:43
Rök fyrir háum stýrivöxtum standast ekki
Ég hef oftar en einu sinni bent á það, að rökin fyrir því að halda stýrivöxtum háum standast ekki. Hér á landi er núna það ástand, sem á máli hagfræðinga kallast "stagflation", þ.e. óðaverðbólga samfara stöðnun eða samdrætti í hagkerfinu. Hagfræðingar hafa bent á, að í slíku ástandi virka ekki hefðbundin hagfræðilögmál við peningamálastjórnun. Auk þess mælir verðbólgan fortíðina og því eru stýrivextir Seðlabankans að endurspegla að hluta ástandið eins og það var í mars og apríl í fyrra. Vissulega stendur 3 mánaða verðbólga hátt núna, en strax í næstu tveimur mælingum verður mikil breyting á þessu. Munurinn á 3 mánaða verðbólgu og 12 mánaðaverðbólgu verður í febrúar orðinn á bilinu 4 - 5% og fer hratt vaxandi uns þessi munur nær allt að 10%, ef ekki meira, á vormánuðum.
Annars vil ég benda á síðustu færslu mína og nokkrar aðrar sem ég hef ritað um þetta efni á þessu ári:
Hafa stýrivextir eitthvað með gengi krónunnar að gera í þessu árferði?
Bull rök fyrir háum stýrivöxtum
Hvað þurfa raunstýrivextir að vera háir? (sjá líka athugasemdir við þessa færslu)
Viðsnúningurinn hafinn? (sjá líka athugasemdir við þessa færslu)
Nú verandi vaxtastig er að ganga að hagkerfinu dauðu. Það er sá sjúkt og ef við skoðum lífkerfi þess, þ.e. fyrirtækin, heimilin og peningaflæðið, þá sjáum við að öll þessi kerfi eiga í miklum vanda. Eru með verulega skerta virkni. Ef þetta væri sjúklingur, þá færum við fljótlega að skoða hvað það væri sem stuðlaði að þessari skertu virkni. Mín niðurstaða er háir vextir og mikil afborgunarbyrði af lánum. Þetta ástand er ekkert nýtt, það hefur bara versnað. Stýrivextir eru búnir að vera hærri en 10% samfellt frá því í október 2005, þ.e. 3 ár og 3 mánuði. Á þessu tímabili hafa raunstýrivextir, þ.e. stýrivextir umfram verðbólgu, verði meira en 6% stóran hluta þessa tíma. Hvaða bull er það að vera með allt að 9,85% raunstýrivexti í innan við 4% verðbólgu, eins og gerðist í ágúst 2007. Það er sem sagt búið að vera murka lífið úr sjúklingnum hægt og bítandi og nú er svo komið að öll lífkerfin eru að stöðvast. Með þessu áframhaldi endar þetta bara á einn veg. Restin af þjóðfélaginu tekur kollsteypu í hyldýpi vaxtaorkurs.
Taflan sýnir 12 mánaða verðbólgu, stýrivextir og raunstýrivextir
Vísitala | Verðbólga | Stýrivextir | Raunstýriv. | ||
2005 | október | 248,4 | 4,63% | 10,25% | 5,62% |
nóvember | 248 | 4,25% | 10,25% | 6,00% | |
desember | 248,9 | 4,14% | 10,50% | 6,36% | |
2006 | jan.06 | 249,7 | 4,39% | 10,50% | 6,11% |
febrúar | 249,5 | 4,09% | 10,75% | 6,66% | |
mars | 252,3 | 4,47% | 10,75% | 6,28% | |
apríl | 255,2 | 5,45% | 11,50% | 6,05% | |
maí.06 | 258,9 | 7,56% | 12,25% | 4,69% | |
júní | 261,9 | 8,04% | 12,25% | 4,21% | |
júlí | 263,1 | 8,41% | 13,00% | 4,59% | |
ágúst | 264 | 8,55% | 13,50% | 4,95% | |
september | 265,6 | 7,57% | 14,00% | 6,43% | |
október | 266,2 | 7,17% | 14,00% | 6,83% | |
nóvember | 266,1 | 7,30% | 14,00% | 6,70% | |
desember | 266,2 | 6,95% | 14,25% | 7,30% | |
2007 | jan.07 | 266,9 | 6,89% | 14,25% | 7,36% |
febrúar | 268 | 7,41% | 14,25% | 6,84% | |
mars | 267,1 | 5,87% | 14,25% | 8,38% | |
apríl | 268,7 | 5,29% | 14,25% | 8,96% | |
maí.07 | 271 | 4,67% | 14,25% | 9,58% | |
júní | 272,4 | 4,01% | 13,30% | 9,29% | |
júlí | 273 | 3,76% | 13,30% | 9,54% | |
ágúst | 273,1 | 3,45% | 13,30% | 9,85% | |
september | 276,7 | 4,18% | 13,30% | 9,12% | |
október | 278,1 | 4,47% | 13,30% | 8,83% | |
nóvember | 279,9 | 5,19% | 13,75% | 8,56% | |
desember | 281,8 | 5,86% | 13,75% | 7,89% | |
2008 | jan.08 | 282,3 | 5,77% | 13,75% | 7,98% |
febrúar | 286,2 | 6,79% | 13,75% | 6,96% | |
mars | 290,4 | 8,72% | 15,00% | 6,28% | |
apríl | 300,3 | 11,76% | 15,50% | 3,74% | |
maí.08 | 304,4 | 12,32% | 15,50% | 3,18% | |
júní | 307,1 | 12,74% | 15,50% | 2,76% | |
júlí | 310,0 | 13,55% | 15,50% | 1,95% | |
ágúst | 312,8 | 14,53% | 15,50% | 0,97% | |
september | 315,5 | 14,01% | 15,00% | 0,99% | |
október | 322,3 | 15,89% | 18,00% | 2,11% | |
nóvember | 327,9 | 17,14% | 18,00% | 0,86% | |
desember | 332,9 | 18,12% | 18,00% | -0,12% |
Háir vextir og höft | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
Ég hef skrifað um þessi mál áður og fullyrt að rökin fyrir háum stýrivöxtum standist ekki. Nú er enn einu sinni verið að telja okkur trú um að við verðum að hafa stýrivexti háa til að styrkja gengi krónunnar. Mér finnst þetta ekki standast. Mikilvægasta ástæðan fyrir veikri stöðu krónunnar er nær ekkert framboð af gjaldeyri. Seðlabankinn viðurkenndi það um daginn að hafa varla sett nokkurn gjaldeyri í umferð frá því í byrjun desember. Ef ekkert er framboðið umfram það sem kemur frá útflytjendum og næg er eftirspurnin, þá helst krónan veik. Eina leiðin til að styrkja krónuna er að dæla gjaldeyri á markaðinn og skapa þannig offramboð á erlendum gjaldeyri. (Vissulega er gott að hafa krónuna veika fyrir þá sem vilja flytja fjármagn til Íslands og ég hef mælt með því að erlendu fjármagni verði hleypt óheftu úr landi í stuttan tíma meðan krónan er veik. En það kemur stýrivöxtum ekkert við. Það er herfræði sem byggir á því að slík tilfærsla kosti okkur sem minnstan gjaldeyri.)
Háir stýrivextir veikja hagkerfið. Eftir því sem hagkerfið er veikara verður gjaldmiðill hagkerfisins veikari. Þetta getur hver heilvita maður sagt sér. Háir stýrivextir hækka líka greiðslur til erlendra aðila sem eru með fé bundið á Íslandi. Þar með auka háir stýrivextir eftirspurn eftir gjaldeyri og veikja þar með krónuna. Þeir auka líka útgjöld ríkissjóðs og þar með hallann á ríkissjóði. Háir stýrivextir mælast til hækkunar á vísitölu neysluverðs og auka því verðbólgu, sem grefur undan gjaldmiðli þjóðarinnar. Allt bendir til þess að lækka eigi stýrivexti, þar sem það sé skjótvirkasta leiðin til að styrkja hagkerfið.
Í dag er staðan í íslenska hagkerfinu það sem heitir "stagflation", sem er hugtak yfir stöðnun eða samdrátt samhliða verðbólgu. Hagfræðingar hafa bent á að í því ástandi sé það versta sem gert er að halda stýrivöxtum háum, þar sem það eykur áhrif stöðnunarinnar eða samdráttarins og getur orðið til þess að hagkerfið sogast ofan í hringiðu niðursveiflu með fjöldagjaldþrotum, fjöldaatvinnuleysi og hruns gjaldmiðils. (Lesa má um þetta með því að googla um "stagnation".)
Háir stýrivextir eru alls ekki til að verja íslenska hagsmuni. Þeir eru hættulegir hagkerfinu og þeir eru hættulegir gjaldmiðlinum. Þeir verða til þess að stór hluti verðmætasköpunar í þjóðfélaginu sogast út úr atvinnulífinu og frá heimilunum og verða til þess að auka samdráttinn. Eins og ástandið er núna, er nauðsynlegt að fyrirtæki haldi veltufé og heimilin ráðstöfunartekjum. Af öðrum kosti hægist á veltunni í þjóðfélaginu. Meðan fjármálafyrirtæki soga til sín 25-50%% af öllu fjármagni, ef ekki meira, þá fer þessi sami peningur ekki í að viðhalda veltunni. Það næsta sem gerist er að fyrirtækin og heimilin hafa ekki lengur efni á brýnustu nauðsynjum. Þá gerist það sem gerðist í Bandaríkjunum. Þessi aðilar hætta að greiða af lánum. Þeim verður alveg sama, þar sem þeir sjá ekki tilganginn í því að greiða fjármálafyrirtækjum himinháa vexti á sama tíma og allt annað situr á hakanum. Skítt með húsnæðislánin, skítt með bílalánin. Og hvað gerist? Undirstöður fjármálafyrirtækjanna brest og krónan fellur ennþá meira.
Það er sama hvernig ég lít á þetta. Háir stýrivextir og hátt vaxtastig er dragbítur á allt. Þetta er hengingarólin sem er hægt og sígandi að loka fyrir súrefnisflæði til fyrirtækja og heimilanna. Þetta er akkeriskeðjan sem er að sökkva krónunni, en ekki björgunarhringurinn sem átti að halda henni á floti.
Einn gallinn við peningamálastefnu Seðlabankans, er að hún er sífellt að bregðast við verðbólgunni að baki. Það er satt að verðbólga síðustu 12 mánuði var 18,1% og þegar tölur fyrir janúar birtast, þá getum við búist við að breyting á vísitölu neysluverðs sýni hátt í eða rúmlega 20% hækkun á einu ári. En 12 mánaða verðbólga sem er framundan er vonandi ekki nema 4%. Það er lífsnauðsynlegt fyrir hagkerfið að peningamálastefna Seðlabankans endurspegli þá sýn. Menn verða að ákveða að það liðna sé liðið og horfa fram á veginn. Ætli Seðlabankinn að miða peningamálastefnu sína við fortíðina næstu 12 mánuði, þá mun það leiða til fjöldagjaldþrota og fjöldaatvinnuleysis.
Næstu 12 mánuði eða jafnvel lengur mun 12 mánaða verðbólga vera mörgum prósentum hærri en 3 mánaða verðbólga. (Undantekningin er mælingin núna í janúar.) Strax í febrúar munum við sjá fram á að þessi munur verði kominn a.m.k. í 4%, 7% í mars og 8% í apríl. (Þetta fer að sjálfsögðu eftir verðbólguþróun.) Dragi hraðar úr hækkun vísitölu neysluverðs milli mánaða, en ég geri ráð fyrir, þá verður þessi munur meiri. (Ég geri ráð fyrir á bilinu 0,5-0,6% hækkun vísitölu neysluverðs milli mánaða í febrúar, mars og apríl, sem er mögulega of mikil.) Þessi mikli munur á 3 mánaða verðbólgu og 12 mánaða verðbólgu mun haldast um og yfir 6% fram á haust. Afleiðingin af þessu, er að allt þetta ár verðum við að greiða fyrir það í vöxtunum okkar að verðbólga ársins 2008 var hátt í 20%. Allt þetta ár munum við líða fyrir verðbólgu fortíðarinnar, þar sem peningamálastefna Seðlabankans hefur hingað til verið háð þeim takmörkunum að stýrivextir séu hærri en 12 mánaða verðbólga sýnir á hverjum tíma. Af þeirri ástæðu einni munum við þurfa að greiða 6-8% hærri vexti nær allt þetta ár en verðbólgumæling á hverjum tíma segir til um. Og vegna skuldsetningar fyrirtækja og heimilanna mun bankakerfið soga til sín allt of stóran hluta af ráðstöfunartekjum fyrirtækja og heimila. Jafnvel hóflega skuldsett fyrirtæki og heimili munu eiga í erfiðleikum með að lifa þetta af. Þeir sem eru meira skuldsettir munu þurfa að horfa upp á gjaldþrot.
Leiðin út úr þessu er að lækka stýrivexti strax og það hratt. Jafnframt þarf að setja vaxtaþak sem er miðað við einhver prósent umfram 3 mánaða verðbólgu. Þessu til viðbótar þá þarf að auka peningaflæði í umferð. Við þurfum að koma blóðstreymi hagkerfisins af stað. Þetta er bara eins og fyrsta hjálp. Lífkerfin þrjú verða að virka. Fyrir hagkerfið er það fyrirtækin, heimilin og peningaflæðið. Ef lokast á eitthvað af þessu, þá er hagkerfið dautt - game over.
Veik staða krónu meginástæða hárra stýrivaxta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
7.1.2009 | 22:47
Sigmundur pissar í skóinn sinn.
Svona út frá fyrirsögn fréttarinnar: Er ófjandsamleg yfirtaka á stjórnmálaflokki til? Ég er að velta fyrir mér hvernig ófjandsamleg yfirtaka fer fram. "Heyrið þið mig gott fólk, er ykkur ekki sama þó þið takið yfir flokkinn?" Það heitir ekki yfirtaka, þegar forystuskipti verða í stjórnmálaflokka á vinsamlegum nótum. Það heita valdaskipti. Raunar var það sem gerðist í gærkvöldi ekki yfirtaka, þar sem ekki var verið að kjósa stjórn í Reykjavíkurfélaginu, heldur að velja fólk til að fara á flokksþing. Hugsanlega var verið að undirbúa valdaskipti sem ekki er öllum aðilum þóknanleg. En að tala um fjandsamlega yfirtöku lýsir í besta falli sjálfsmikilvægi þeirra sem héldu að þeir gætu ráðið hverjir ættu að fara á flokksþingið.
Annars er til einföld lausn á svona málum. Til þess að geta tekið þátt í atkvæðagreiðslu, þá þarf viðkomandi að hafa verið félagi í minnst viku. Þá vita báðir aðilar (ef svo má segja) að eitthvað stendur til og geta búið sig undir átökin.
Hitt er, að það er sorglegt, að Sigmundur skuli kjósa að fara þessa leið. Með þessu veldur hann miklum skemmdum á uppbyggingarstarfi flokksins og staðfestir að Framsókn er flokkur bræðravíga, líkt og hann hefur verið um áraraðir. Ég held að Sigmundur hafi pissað í skóinn sinn og þetta verði til þess að stuðningsmenn Páls þjappa sér saman um Höskuld Þórhallsson, sjái þeir fram á að Páll verði undir í baráttunni við Sigmund. Mér finnst þetta líka klaufalegt hjá Sigmundi að því leiti, að hann er að senda út þau skilaboð, að hann geti ekki unnið þetta kjör á eigin verðleikum. Að hann sé ekki nógu sterkur einstaklingur til að ná kjöri út á það sem hann stendur fyrir, heldur komist hann eingöngu í formannsstólinn með því að beita bolabrögðum. Eins og ég sagði áður. Sorgleg niðurstaða.
Fjandsamleg yfirtaka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.1.2009 | 16:41
Best að vera stærðfræðingur!
Viðskiptablaðið birtir oft litlar sætar fréttir á vb.is. Ein slík frétt ber yfirskriftina "Best að vera stærðfræðingur". Annars hljóðar fréttin svona:
Stærðfræðingar landa bestu störfunum í Bandaríkjunum samkvæmt rannsókn sem CareerCast.com stendur fyrir, en dagblaðið Wall Street Journal greinir frá þessu.
Í rannsókninni voru 200 störf í Bandaríkjunum metin út frá fimm þáttum: umhverfi, tekjum, atvinnuhorfum, líkamlegri áreynslu og stressi. Stærðfræðingar komu best út úr rannsókninni og skógarhöggsmenn verst, en á meðfylgjandi töflu má sjá fimm bestu og verstu störfin.
Miðgildi tekna stærðfræðinga nemur 94 þúsund dollurum á ári, sem samsvarar um 11 milljónum íslenskra króna á ári á núverandi gengi.
Önnur ákjósanleg störf samkvæmt rannsókninni eru sagnfræðingur, hagfræðingur og heimspekingur. Meðal starfa sem komu illa út úr rannsókninni eru slökkviliðsmaður, málari og hjúkrunarfræðingur.
Þetta er mjög áhugaverð niðurstaða, þar sem það hefur jafnan þótt heldur púkó að vera stærðfræðingur, hvað þá greinandi áhættu og óvissu eða tölfræðingur, en allt þetta hefur þótt heldur nördalegt. Líffræðingar og tölvunarfræðingar hafa þótt meira spennandi. Ég ætti samkvæmt þessu að vera í góðum málum, þar sem að ég er tölvunarfræðingur, fæst við að greina áhættu og óvissu og er með tvær gráður í aðgerðarannsóknum, sem er sambland af stærðfræði, tölfræði og hagfræði/rekstrarfræði. Samkvæmt þessu, þá skora ég hátt í 4 af 5 þeirra faga sem þykir hvað best að stunda í henni Ameríku. (Síðan vann í 3 ár hjá deCODE.)
Ég ætti kannski að fara að skrá mig hjá CareerCast.com
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eftir hinar miklu hamfarir í haust er löngu orðið tímabært að huga að uppbyggingunni. Spurningin er hvernig uppbyggingu viljum við, hvert er það samfélag sem viljum hafa í stað þess sem brást okkur svo hrapalega? Mig langar að opna hér fyrir umræðu og hvet alla sem hafa einhverjar tillögur að setja þær hér inn.
Svo ég byrji, þá vil ég í stórum dráttum að við endurvekjum gamaldags félagshyggju, þar sem samtryggingarhugsunin verði mikilvægust.
Ég vil sjá uppstokkun í hinu pólitíska flokkakerfi og aðskilnað framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Ég vil sjá takmörkun á þeim tíma sem einstaklingar geta gengt embætti ráðherra og setu á Alþingi. Ég vil sjá virkara lýðræði og möguleika fólks til að kjósa hvort heldur lista eða einstaklinga. Ég vil sjá menn taka pólitíska ábyrgð með því að víkja úr embættum sínum verði þeim eða þeim sem undir þá heyra á í messunni.
Ég vil sjá faglega stjórnun hvort heldur í Seðlabanka, ráðuneytum eða öðrum opinberum embættum.
Ég vil sjá allsherjar endurskoðun á regluverki tengt fjármálamarkaði, kauphöll, verðbréfaskráningu, fyrirtækjalöggjöf, ábyrgð eigenda og stjórnenda, o.s.frv.
Ég vil sjá að hagsmunir heimilanna verði varðir af ekki minna afli en hagsmunir fyrirtækjanna.
Ég vil sjá að hagsmunir öryrkja og aldraða verði varðir.
Ég vil sjá verðtrygginguna afnumda af húsnæðislánum og vaxtaþak við 10% sett á þá vexti hægt er að krefjast af öllum lánum.
Það er margt annað sem ég vil sjá gerast á nýju ári, en nú væri gaman að sjá hvað aðrir segja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.1.): 3
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 20
- Frá upphafi: 1681250
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 19
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði