Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Litlir karlar í stórum störfum

Mér sýnist sem bæði Alistair Darling og Gordon Brown séu litlir karlar í allt of stórum störfum sem þeir ráða ekki við.  Að AD sé ennþá að fara með sama bullið og í síðustu viku gagnvart breskum fjölmiðlum, þrátt fyrir að hann segi allt annað við íslenska ráðamenn er náttúrulega út í hött.

Það er síðan kaldhæðni örlaganna að RBS skuli þurfa að afskrifa 500 milljónir evra vegna frumhlaups þessara litlu karla sem telja sig þess umborna að veita öðrum lexíu, þegar þeir sitja sjálfir í brennandi húsi.  Kemur þar vel á vondan.

Mér finnst líka ótrúlegur undirlægjuháttur breskra fjölmiðla að trúa endalaust bullinu sem frá þeim kemur gagnrýnilaust.  Menn sannreyna ekki upplýsingar eða hlusta bara á sína eigin blaðamenn sem staddir eru á Íslandi.  Nei, það skal fórna efnahag Íslands svo hægt sé að draga athyglina frá þeirra eigin vangetu.


mbl.is Heitir sparifjáreigendum aðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað segja matsfyrirtækin við þessu?

Nú verður fróðlegt hvort matsfyrirtækin meðhöndla RBS, HBOS og TSB Lloyd's á sama hátt og Glitni, þ.e. fella lánshæfismat þeirra um marga flokka.  Ástæðan fyrir því að breska ríkisstjórnin er að fara inn í bankana (miðað við fréttir undanfarna daga) er framundan eru stórir gjalddagar lána og miklar afskriftir og bönkunum tókst ekki að tryggja sér fjármagn eftir öðrum leiðum.  Eða verður þetta eins og alltaf að það er ekki sama Jón og séra Jón, Ísland og Bretland.
mbl.is Breska ríkið leggur bönkum til hlutafé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugaverð hugmynd í Belgíu

Samkvæmt frétt á vb.is, þá eru uppi hugmyndir í Belgíu að láta hluthafa Fortis banka fá hlutdeild af söluhagnaði bankans til BNP Paribas.  Þannig eigi að bæta minni hluthöfum að hluta tap sitt.  Kannski má gera þetta sambærilega hluti hér.  Bara hugmynd.

Aðstæður á fjármálamarkaði felldu bankana

Mér finnst mjög sérkennilegt að sjá hvernig allir hella sig yfir stjórnendur og þá sérstaklega eigendur bankanna, eins og þeir séu landráðamenn.  Það er eins og fólk haldi að þeir hafi gert það að gamni sínu að fella bankana og láta íslensku þjóðina sitja uppi með alla reikningana.  Ég held að fólk ætti aðeins að draga andann og slaka á, áður en eitthvað gerist sem það sér eftir.

Vissulega má rekja fall bankanna til alls konar ákvarðana sem stjórnendur þeirra og eigendur tóku, en það sem varð þeim þó endanlega að falli var ekki rekstur þeirra heldur greiðsluhæfi.  Skilanefnd hefur t.d. úrskurðað að Glitnir sé tækur í Kauphöllina!  Það þýðir að hann stenst kröfur um eiginfjárhlutfall og að eigna- og skuldastaða uppfylli alþjóðlegar viðmiðanir.  Bankinn er EKKI gjaldþrota. Mér kæmi ekkert á óvart þó niðurstaða hinna skilanefndanna verði eins, þ.e. að hvorki Landsbankinn né Kaupþing séu gjaldþrota. 

Ólíkt venjulegum fyrirtækjum, þá ber bönkum að kalla inn fjármálaeftirlit strax og í ljós kemur að þeir eru komnir í greiðsluþrot.  Það er enginn umþóttunartími eða samningar við lánadrottna.  Ef þeir hefðu haft slíkt tækifæri, þá væru þeir í slíku ferli, þar sem þeir gætu verið að selja eignir og gefa eigendum kost á að auka við eigið fé.  Hugsanlega var það röng ákvörðun hjá Seðlabanka Íslands að veita Glitni ekki lán.  Ef hann hefði samhliða því nýtt sér lánalínur til seðlabanka á Norðurlöndum, þá hefði lánið til Glitnis ekki skert getu hans til frekari lánveitinga.  Það hefði sýnt styrk Seðlabankans, en við vitum svo sem ekkert hvernig matsfyrirtækin hefðu metið hlutina.  Staðreyndin er nefnilega sú, að matsfyrirtækin eru í reynd mestu örlagavaldarnir í þessu máli (sjá Geta þeir ekki hætt þessari vitleysu?).

Þegar Lehman Brothers var settur í gjaldþrot fyrir 3 vikum, þá hófst atburðarás sem varð til þess að Glitnir missti lánasamning.  Það var ekki Glitni að kenna, hvorki eigendum né stjórnendum.  Það var heldur ekki ríkisstjórn Íslands að kenna né Seðlabankanum.  Þetta voru óheppilegar ytri aðstæður.  Það sem gerðist hér á landi var líklegast vegna rangra ákvarðana hjá þessum aðilum.  Hvort það var vegna þess að Glitnir áttaði sig ekki á því að Seðlabankinn myndi grípa til jafn harkalegra aðgerða og raun ber vitni eða að Seðlabankinn áttaði sig ekki á því hvaða áhrif aðgerðir hans hefðu skiptir ekki máli lengur.  Þetta er búið og gert.

En ég vil benda fólki á og búa sig undir, að verði ekki gripið til verulega umfangsmikilla aðgerða á alþjóðavísu á næstu dögum til að styrkja fjármálakerfi heimsins og taka úr umferð eiturpillur frá Bandaríkjunum, þá mun flóðbylgja skella á fjármálakerfi heimsins.  Þessi flóðbylgja er af völdum afleiða frá Lehman Brothers.   Samkvæmt frétt á vef The Guardian er byrjað að vefjast ofan af afleiðum að virði $200 - $440 milljarða.  Það eru fjölmargir bankar flæktir í þennan afleiðuvef, þar á meðal tveir af stærstu bönkum Bretlands, Royal Bank of Scotland og Barclays.

Málið snýst að mikluleiti um hve mikið fjármálafyrirtæki munu geta endurheimt af þeim skuldum sem þau eiga inni hjá þrotabúi Lehman Brothers og hve mikið þau þurfa að innheimta hjá tryggingarfélögum sem seldu þeim skuldatryggingarálag.  Þurfi þau að treysta á skuldatryggingarnar, þá er þeim aðeins tryggt 91,4% af skuldinni.  Það þýðir í fyrsta lagi gríðarlegar afskriftir hjá fjármálafyrirtækjunum og ógnvænleg útgjöld tryggingafélaganna.  Það er ekkert grín að þurfa að greiða út $400 milljarða í tryggingabætur (þó líklegast verði upphæðin ekki nærri því svo há).  Vissulega hafa fyrirtækin líka tryggt sig eftir öðrum leiðum, en spurning er hversu öruggar þær aðgerðir eru. 

Vandamálið er að þetta er bara ein bylgja!  Eins og máltækið segir er sjaldan ein báran stök og sagt er að þetta sé þegar sú sjöunda.  Fyrir hvern stóran banka (og smáan) sem fellur í valinn kemur ný bylgja.  Og við skulum hafa það í huga, að það var einmitt ein svona bylgja sem hreif með sér íslensku bankana. 

Hvort að íslensku bankarnir hefðu lifað af, ef þeir hefðu verið minni, betur undirbúnir eða vegna annarra viðbragða Seðlabankans fáum við aldrei að vita.  Ég sting aftur upp á því að við stofnum nokkurs konar sannleiksnefnd í anda Suður-Afrísku sannleiksnefndarinnar (þó þar hafi náttúrulega verið um mun alvarlegri atburði að ræða), þar sem öllum sem að þessu máli komu verði boðið að koma og leysa frá skjóðunni af sinni hálfu án eftirmála að hálfu lögreglu, ákæruvalds, samkeppnisyfirvalda eða fjármálaeftirlits.  Þeir, sem ekki nýta tækifærið, gætu aftur átt yfir höfði sér ákærur komi í ljós að aðgerðir þeirra hafi brotið í bága við lög.  Niðurstöðurnar úr framburðum þessara aðila verði síðan notaðar til að koma í veg fyrir að þetta geti nokkru sinni komið fyrir aftur.  Legg ég til að Hæstiréttur skipi hlutlausa aðila til að stjórna þessu ferli og að það verði opið öllum.

 

Viðbót 12.10. kl. 13:20

Bara svo fólk misskilji mig ekki, þá tel ég alveg ljóst að sá skellur sem við erum að fá er mun stærri en hann hefði þurft að vera og þar er við eigendur og stjórnendur bankanna að sakast, en einnig ríkisstjórn, Seðlabanka og Fjármálaeftirlit.  Auðvitað áttu bankarnir ekki að fá að vaxa jafnmikið og raun ber vitni á lánsfé en ekki eigin fé.  Málshátturinn segir að sígandi lukka sé best og það eru orð með sönnu.  Taka þarf lítil skref í einu og ná jafnvægi í hverju skrefi.  Það sem bankarnir gerðu var eins og maður að labba upp stiga, þar sem hann færir bara hægri fótinn ofar og ofar, en heldur vinstra fæti alltaf á sama stað.  Auðvitað raskast jafnvægi slíks einstaklngs og það þarf minna til að fella hann.

 

Viðbót 12.10 kl. 21:20

Var að lesa Independent á netinu.  Þar er áhugaverð grein um afleiðumarkaðinn.  Hann er metinn á $516.000 milljarða (eða $516.000.000.000.000) eða tíföld ársheimsframleiðsla.  Menn á þessum markaði eru farnir að skjálfa og óttast hrun hans.  Ástandið er orðið svo slæmt að laun yfirmanna hafa verið lækkuð í 100.000 pund FrownGrin  Aumingja þeir.  Hér er linkur á greinina A £516 trillion derivatives 'time-bomb'


Geta þeir ekki hætt þessari vitleysu?

Enn halda matsfyrirtækin að níðast á íslenskum fyrirtækjum.  Og hver er tilgangurinn?  Það eru sjálfuppfyllandi spádómar þessara matsfyrirtækja sem í raun hafa valdið mestum skaða hér á landi.  Það er enginn vandi fyrir matsfyrirtækin að spá versnandi horfum, þegar þau eru sjálf búin að skerða lánamöguleika með mati sínu.  Þetta er svo mikið bull, að stundum held ég að það sé sömu samráð við útgáfu lánshæfieinkunna fyrir Ísland og íslensk fyrirtæki og var á milli matsfyrirtækjanna og mats þeirra á verðlausum pappírum fjárfestingabanka í Bandaríkjunum.  Þá á ég við undirmálslánavafningana.

Það er eins og þau kunni ekki að skammast sín fyrir þann skaða sem þau hafa valdið fjármálakerfi heimsins.  Nei, það skal gengið lengra og engu er vært.  Bara svo ég rifji hér aðeins upp:

Í júní fór bandaríska fjármálaeftirlit, SEC, í heimsókn í nokkur matsfyrirtæki.  Frumniðurstaða þeirrar heimsóknar var að fyrirtækin hefðu orðið uppvís að alvarlegum hagsmunaárekstrum, þegar þau voru m.a. að meta verðbréf sem tryggð voru með undirmálslánum og öðrum eignum.  Dæmi voru um að sami starfsmaður sá um samninga við fjármálafyrirtæki um mat og framkvæmdi matið.  Matsfyrirtækin brutu ítrekað verklagsreglur sínar um framkvæmd mats.  Og þau voru sökuð um að beita ótrúverðugum aðferðum við að meta pappírana.  Það sem meira er, SEC fann dæmi um að matsfyrirtækin hafi komið með ráðgjöf um það hvernig fjármálafyrirtæki gætu breytt vafningum sínum til að hækka matið!  Ég spyr bara:  Eru þessi fyrirtæki trúverðug?

En skandalnum er ekki lokið.  Í skýrslu SEC með frumniðurstöðum þá er að finna ólýsanlega fáránlega hluti. Hér eru tvö dæmi:

Tölvupóstur sendur 15. des. 2006 milli tveggja greinenda í sama fyrirtæki að lýsa CDO (collateralized debt obligations):

 Let's hope we are all wealthy and retired by the time this house of cards falters.''

Pælingar starfsmanns í tölvupósti frá 2004 um hvort viðskiptavinur fari annað ef greiningin sé óhagstæð:

 I am trying to ascertain whether we can determine at this point if we will suffer any loss of business because of our decision and if so how much.''

Ég fæ ekki betur séð en þetta þætti glæpsamlegt athæfi, ef þetta ætti sér stað innan verðbréfafyrirtækis.

Skýrslu SEC er að finna í heild á vefsíðu SEC og má nálgast hana með því að smella hér.  Ég get bara sagt að málin versna eftir því sem meira er lesið.  (Ég bloggaði um þetta í júlí og má lesa þá færslu hér.)

Í myndbandi hjá Láru Hönnu Einarsdóttur er að finna ákaflega góða mynd sem lýsir vanhæfi matsfyrirtækjanna ennþá frekar.  (Ég man ekki í hvaða hluta fjallað er um þetta, en myndin er þess virði að horfa á hvort eð er.)

Það sem er furðulegast við þessa lækkun lánshæfismats OR nú er að í síðustu viku fékk fyrirtækið stórt lán með 9,8 punktaálagi.  Eignir fyrirtækisins eru gríðarlegar og tekjur tryggar.  Jæja, þeir hafa sínar reglur.

En eyðileggingarmáttur matsfyrirtækjanna er gífurlegur.  Það hefur hrun íslenska bankakerfisins sannað.  Það sem meira er, að óvægni þeirra er svo mikil, að í mars þegar allir íslensku bankarnir voru fjármagnaðir meira en ár fram í tímann, þá töldu matsfyrirtækin samt ástæðu til að lækka lánshæfismat sitt á þeim!  Gjörsamlega óskiljanlegt.  Það var svo á endanum lánshæfismatið sem feldi bankakerfið, vegna ákvæða í lánasamningum.  Ef þau hefðu dregið andann djúpt, þá hefðu Landsbankinn og Kaupþing komist í gegnum áfallið sem varð við þjóðnýtingu Glitnis.  Nei, matsfyrirtækin unnu hratt og fumlaust.  Á einum degi, án þess að heimsækja Ísland, svo ég viti, var fallöxinni beitt.  Og við hvin hennar var skorið á lífsnauðsynlegar lánalínur Landsbankans.  Þannig varð spádómur matsfyrirtækjanna um greiðsluhæfi bankanna sjálfuppfyllandi.

Raunar var barátta íslensku bankanna orðin vonlaus strax í vor.  Mánuðina á undan höfðu matsfyrirtækin lækkað lánshæfismat fyrst eins banka og hinir voru settir á athugunarlista.  Vegna þess að bankarnir voru á athugunarlista fór ríkissjóður líka á athugunarlista.  Þar sem ríkissjóður fór á athugunarlista endaði á því að bankarnir voru lækkaðir.  Eftir lækkun bankanna, lækkaði ríkið.  Af þessum ástæðum hækkaði skuldatryggingarálagið.  Þar sem skuldatryggingarálagið hækkaði, lækkaði lánshæfismatið fyrst hjá bönkunum og svo ríkinu.  Komin var í gang spíral, þar sem með hverri lækkun lánshæfismats hækkaði skuldatryggingarálag sem í staðinn lækkaði lánshæfismat.  Ég get ekki að því gert, en stundum finnst mér sem þriðji aðili hafi verið að braska með hinum tveimur.  Ég er ekki að segja að svo hafi verið, en miðað við hve ófaglega matsfyrirtækin stóð að mati á undirmálsvafningunum, þá finnst mér það eina skýringin.

Eina leiðin til að rjúfa þennan vítahring, er að Alþjóða greiðslubankinn (Bank of International Settlements) geri óvirkar um stundasakir þessar kröfur um lánshæfismat fyrir fyrirtæki og ríkissjóði frá viðurkenndum matsfyrirtækjum og setji það undir sjálfstæða ákvörðun hverrar lánastofnunar um sig að meta áhættu af útlánum til slíkra aðila.  Matsfyrirtækin geta haldið áfram að meta verðbréf, en þar endar starfssvið þeirra.  Auk þess eru það mun faglegri vinnubrögð, að lánstaki gefi lánsveitanda fullnægjandi upplýsingar um stöðu sína.  Það bætir áhættustýringu þar sem hún verður byggð á upplýsingum frá fyrstu hendi.  Og varðandi verðbréfin, þá verði þeim óheimilt að meta verðbréf hærra en undirliggjandi tryggingar segja til um.  Þannig hefðu BBB undirmálslán (þar sem þrettánda hvert lán fór í vanskil í Cleveland á árunum 1996 - 2001) aldrei getað endað sem AAA pappírar, en AAA matseinkunn þýðir að ekki geti orðið greiðslufall.

Í lokin vil ég benda á, að fyrir ekki löngu gaf Glitnir út skuldabréf sem fengu feiknagóða einkunn frá viðurkenndu matsfyrirtæki, þrátt fyrir að lánshæfismat bankans væri mun lægra.  Þetta á ekki að vera hægt.  Það á ekki að vera mögulegt verðbréf fyrirtækis fái umtalsvert hærra mat en fyrirtækið sjálft.  Vissulega eru tryggingar að baki öllum slíkum pappírum, en skerist á lánalínur, eins og gerðist í tilfelli íslensku bankanna, þá breytast allar forsendur svo gríðarlega og pappírarnir verða verðlitlir.


mbl.is Lánshæfiseinkunn OR lækkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkomulagi náð við Breta?

Samkvæmt frétt á Sky vefnum hefur náðst samkomulag milli ríkisstjórna Íslands og Bretlands um Icesave reikningana eða eins og segir:

Officials have agreed in principle on an accelerated payout to retail depositors of failed Landsbanki's Icesave bank.

"The delegations agreed to work closely on the other remaining issues over the coming days," the countries said in a joint statement.

Talks between the two countries have focused on the fate of an estimated £1bn of British deposits trapped in Iceland's collapsed banks.

 Nú virðist þessi frétt ná lengra en frétt mbl.is og þarf því að skýra ósamræmið.


Blue chip er málið

Er það ekki löngu ljóst að fyrirtækin, sem eru í framleiðslugeiranum, eru þau sem hagvöxtur byggir á.  Vandamálið undanfarin ár hér á landi, er að menn hafa verið að hæpa þessi félög upp án þess að raunverulega verðmætaaukning hafi átt sér stað inni félögunum, heldur hefur verðmæti þeirra meira falist í því að hægt hafi verið að nota þau til veðsetningar.  Sorglegt en satt.  Nú mun þetta vonandi breytast í ljósi þess að of mikil skuldsetning í hlutfalli við eigið fé og veltufé er það sem hefur lagt banka landsins að velli.


mbl.is Rekstrarfélögin eru vænn fjárfestingarkostur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Menn voru að reyna bjarga málum

Ég rakst á athugasemd á bloggi hjá breskum fréttamanni, þar sem Breti nokkur segir af vini sínum.  Ég er nú ekki með tilvísunina á takteinunum, en innihaldið var nokkurn veginn svona (hugsanlega eitthvað höfundarleyfi í þessu):

Ég þekki ungan mann, sem vinnur hjá Kaupþingi Singer og Friedlander.  Þar er starfsfólkið búðið að vinna langt fram á nótt undanfarna daga við að tryggja hag sparifjáreigenda og taldi sig vera komið með fast land undir fótum seinni hluta þriðjudags.  Þá alveg gjörsamlega að tilefnislausu ræðst FSA inn í KSF og eyðileggur allt þeirra starf.  Þessi ungi maður (Englendingur) hann skilur ekki hvers vegna þetta var gert.  Hann er líklegast búinn að missa vinnuna og er alveg eyðilagður maður á eftir.

Síðan var önnur athugasemd, en frá Íslendingi inn á annað blogg (líka eftir minni):

Ef íslensku bankarnir eru hryðjuverkasamtök, þá hljóta bresk stjórnvöld að þurfa að kæra alla þá sem lagt hafa peninga inn á reikninga í þessum bönkum, þar sem með því voru viðkomandi að fjármagna hryðjuverkasamtök.


mbl.is Brown öfundsjúkur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég hélt sem snöggvast..

..að tilvísunin "ljóti hálfvitinn" væri í ónefndan Breta.  Það voru liggur við vonbrigði, þegar ég uppgötvaði að svo var ekki.
mbl.is Ljótur hálfviti er tákngerfingur kreppunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er víst að peningarnir hafi tapast?

Mér finnst þessi fréttaflutningur af innlánum á reikningum IceSave og KaupthingEdge vera dálítið litaður.  Það er alltaf talað um að peningar hafi tapast.  Miðað við þær upplýsingar sem fást hér á landi, þá eru þessir peningar ekki tapaðir.  Vissulega hafa menn ekki aðgang að þeim í augnablikinu og ekki er ljóst hve mikið fæst út, en þar til að dæmið er gert upp, þá eru þetta ekki tapaðir peningar.  Vissulega eru líkur á því að einhvað tapist, en það gerist þá því aðeins að eignir bankanna standi ekki undir innlánunum.

Mér þætti því nákvæmara hjá fjölmiðlum að tala um að peningarnir gætu tapast eða eru fastir, samanber það sem segir í fréttinni sjálfri:

Bresk líknarsamtök gætu verið að tapa allt að 120 milljónum punda (um 22,5 milljörðum kr.) á þroti íslensku bankanna

Það er alveg nóg að Bretar séu að missa sig yfir þessu, þó við hellum ekki olíu á eldinn með ónákvæmu orðavali.


mbl.is Bresk líknarsamtök að tapa meira en 22 milljörðum á íslensku bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 40
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 39
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband