Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Arfleifð Evrópubúa

Hún er ótrúleg frásögnin í þessari frétt um "nakta hershöfðingjans" og sýnir að sinn er siður í landi hverju og ekki allir geðslegir.  En það sem vakti mesta athygli mína í fréttinni, er að Blahyi sagðist hafa orðið aðeins 11 ára gamall að verja fyrrverandi forseta Líberíu. þar sem þeir voru af sömu þjóð. 

Af mörgum mistökum hvítra Evrópubúa út um allan heim, þá verður uppskipting Afríku líklegast að teljast þau alvarlegustu.  Með reglustiku og pennastaf að vopni var heimsálfan skorin upp, eða kannski frekar tætt í sundur, svo Evrópuríki fengju sinn skerf.  Lítið var velt fyrir sér hvaða þjóðir bjuggu á svæðunum eða hvort þær gætu lifað saman. 

Þessi ófyrirleitni Evrópubúa hefur verið helsta ástæða hins mikla óstöðugleika sem er í álfunni.  Í sama landi búa fjöldmargar þjóðir/ættflokkar, sem höfðu fyrir tíma Evrópubúa í Afríku ekki átt friðsamleg samskipti eða a.m.k. takmörkuð.  Ættbálkerjur eru grunnurinn af nær öllum innanlandsátökum í álfunni.  Öll grimmustu stríð hafa verið vegna þess að einn ættbálkur hefur kúgað annan og einhverjum tímapunkti brestur þolinmæði hinna kúguðu.  Bíafrastríðið í Nígeriu, átökin í Ethópíu og líberíu, þjóðarmorðin í Rúanda og hernaðurinn í Dafurhéraði svo eitthvað sé er allt tilkomið vegna reglustikulandafræði fáfróðra og gáðugra Evrópubúa.


mbl.is „Nakti hershöfðinginn“ játar að hafa borðað barnshjörtu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinur er sá sem til vamms segir

Það var alveg rétt hjá Birni Inga, að Guðjón Ólafur er ekki boðlegur frambjóðandi í eitt af efstu sætum lista til Alþingiskosningar.  Að hann hafi verið þar, er ein af ástæðum þess að færri kusu flokkinn síðast en þar áður.  Bæði viðtalið hjá Agli og "jólakortið" hans sýna líka skýrt og greinilega, að hann svífst einskis.

Það er eitt stærsta vandamál Framsóknarflokksins að hann vantar frambærilega frambjóðendur.  Einstaklinga sem geta komið fyrir sig orði og er einhver reisn yfir.  En vegna mannfæðar í flokknum þá hafa einstaklingar eins og Guðjón Ólafur og Ómar Stefánsson komist í áhrifastöður sem þeir hafa ekki burði í.  Og í staðinn fyrir að þekkja sín takmörk, þá halda þeir áfram uns þeir eru komnir í stöður sem þeir ráða ekki við.  Mér finnst alveg sorglegt að sjá Siv Friðleifsdóttur sækja sitt bakland í þennan félagsskap, þar sem það hefur ekki orðið henni til framdráttar.  En mér finnst það líka sorglegt að flokkurinn skuli ekki standa við bakið á því fólki sem ber hann á herðum sér.

Það er merkilegt að sjá alla þá sundrungu og baktjaldamakk sem á sér stað innan ekki stærri flokks.  Þó einu tengsl mín við flokkinn séu að faðir minn og bróðir hafa verið bæjarfulltrúar fyrir flokkinn, þá fæ ég, óflokksbundni maðurinn, öðru hvoru boð um að taka þátt í uppreisn innan hans.  Eina stundina átti að knésetja Siv, öðru sinni átti að ýta Hansínu út, einu sinni var það Finnur Ingólfs og loks átti að koma höggi á Guðna Ágústsson.  Allt átti þetta sér stað í formannstíð Halldórs Ásgrímssonar og alltaf var ég fullvissaður um að þetta væri gert í þökk flokksforystunnar.  Ég afþakkið þetta alltaf.  Atlögurnar gagnvart Siv og Hansínu fundust mér arfavitlausar og meira vit hefði verið í því að styðja þær til þeirra starfa sem þær gegndu en að grafa undan þeim.  Hansína var að gera góða hluti, þó hugsanlega hefði hún ekki það bein í nefinu sem fylgdi því að vera forystumaður flokksins í Kópavogi og Siv hef ég þekkt frá því í barnaskóla svo þar var rætt við rangan aðila.  Nú auk þess sá ég ekki hvað ég óflokksbundni kjósandinn hefði átt að vera að taka þátt í bræðravígi innan stjórnmálaflokks.

Ég veit ekki hve miklir vinir Björn Ingi og Guðjón Ólafur voru, en hafi Björn Ingi sagt Guðjón ekki nógu kosningavænan, þá virðist mér hann hafa haft rétt fyrir sér.  Maður sem sendir það sem hann sjálfur kallar gróusögur eigin samherja til 2.500 manns í "jólakorti", hann á ekkert erindi í pólitík.  Björn Ingi var því sannur vinur, þegar hann taldi best að víkja Guðjóni til hliðar, því það er vinur sem til vamms segir.


mbl.is Með mörg hnífasett í bakinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagan endurtekur sig

Það er svo merkilegt að í hvert skipti sem gefnar eru út stefnumarkandi yfirlýsingar um frið milli Ísraela og Palestínumanna, þá fylgja hernaðaraðgerðir af hálfu Ísraelhers.  Ég beið eftir þessu eftir að Bush kom með "allt of lítið, allt of seint" yfirlýsinguna sína í síðustu viku.  Það er eins og menn geti ekki nýtt sér meðbyrinn til að gera eitthvað gott, heldur noti hann sem skjól til að gera illt verra.  Og svo ef Palestínumenn dirfast að svara fyrir sig, sem þeir gera örugglega, þá mun heimsbyggðin ekki vera sein á sér að gagnrýna þá fyrir að vilja ekki frið. Það eru nefnilega hryðjuverk, þegar Palestínumenn skjóta litlu heimabúnu rakettunum sínum, en réttlætanlegur hernaður þegar Ísraelar nota flugher og þungavopn á Palestínumenn.  Ég flokka hvorutveggja sem hryðjuverk.  Þó man ég ekki til þess að Palestínumenn hafi ennþá náð að sprengja fjögurra hæða hús í loft upp með "flugskeytunum" sínum.

Það er aldrei talað um það opinberlega að Ísraelar vilji ekki frið, en fyrir þann sem horfir á þennan hildarleik úr fjarlægð, þá er ekki hægt að draga aðra ályktun en að Ísrael vilji viðhalda ófriðnum.  Þannig halda þeir aftur af efnahagslegum framförum í Palestínu.  Ég trúi alveg að Ísraelar vilji frið, en þeir vilja hann á eigin einhliða forsendum og þær forsendur geta ekki túlkast á annan hátt en sem ofurkostir.  Hvar í heimunum er friði náð með því að sprengja í loft upp ráðneytisbyggingar sjálfráða þjóðar?  Hvar í heiminum er friði náð með því að sprengja í loft upp raforkuver og veitustofnanir?  Hvar í heiminum er friði náð með því að svelta fólk heilu hungri, meina því að heimsækja ættingja sína, varna því menntunar o.s.frv.?  Svarið er: Hvergi, vegna þess að friður næst ekki með slíkum aðgerðum.  Þessi háttsemi viðheldur stríðsástandi og eykur spennuna.  Spennu og stríðsástand sem hefur kynnt undir hryðjuverk um allan heim og alið á tortryggni á milli þjóðernishópa. 

Það er löngu fyrirséð að deilan verður ekki leyst nema með því að Palestínumönnum, sem flúðu/voru hraktir frá heimkynnum sínum 1948 og síðan aftur 1967, verði leyft að snúa aftur til heimkynna sinna eða þeim greiddar það ríflegar bætur að þeir geti hafið nýtt líf í sjálfstæðu ríki Palestínumanna.  Þetta er það sem staðið hefur helst í Ísraelum og er í sjálfu sér skiljanlegt.  Ef Palestínumönnum fjölgar of mikið í Ísrael, þá gætu gyðingar lent í því að verða minnihlutahópur í landinu.  Vissulega ekki góð tilhugsun fyrir þá og gæti bráðinn orðið að veiðimanninum.  Annað sem skiptir máli, er að nýju ríki Palestínumanna verði tryggður aðgangur að vatni, en svo vill til að vatn er mjög af skornum skammti á þeim svæðum sem Palestínumenn ráða yfir.  Þriðja atriðið er að tryggja öllum borgurum Palestínu ferðafrelsi, en það er nokkuð sem bara sumir njóta.  Fjórða atriðið er að byggja upp innviði samfélagsins og tryggja að Ísraelsher brjóti (sprengi) þá ekki niður jafnóðum í misviturlegum aðgerðum.  Fimmta atriðið er að tryggja efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar.  Sjötta atriðið er að tryggja Palestínumönnum sjálfsákvörðunarrétt í innanríkismálum sínum.  Það þýðir að lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar geti gegnt skyldum sínum, en þurfi ekki að óttast handtökur og fangelsisvist án dóms og laga af hálfu Ísraelsmanna.  Mér finnst eins og Ísraelsmenn hafi gleymt því að margir af fyrri ráðamönnum þjóðarinnar frömdu á sínum tíma voðaverk sem í dag myndu flokkast undir hryðjuverk og hryðjuverkastarfsemi.

Vegna getuleysis, eða eigum við frekar að segja vegna áhugaleysis, Bandaríkjamanna og Evrópusambandsins að leysa deilu Ísraela og Palestínumanna, hefur verið meira óöryggi í heiminum undanfarin 10 ár en næstu rúm 50 ár þar á undan.  Og það sér ekki fyrir endann á þessu.  Svo heldur "allt of lítið, allt of seint" Bush að hann geti slegið sig til riddara á síðustu embættismánuðum sínum.  Þetta eru orðin fyrirséð viðbrögð frá forsetum Bandaríkjanna, þegar forsetatíð þeirra er að renna út.  Ég vona að næsti forseti Bandaríkjanna átti sig á því, að það þarf að verða eitt af hans/hennar fyrstu verkum að leysa deilu Ísraela og Palestínumanna.  Það má ekki draga það þar til korteri fyrir kosningar. 

 


mbl.is Ráðuneyti jafnað við jörðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjófagengi að tæma hús í Kópavogi!

Innbrotafaraldur virðist vera í gangi í Kópavogi.  Gengið er skipulega á hús í vissum hverfum og þau tæmd af auðseljanlegum verðmætum.  Lögreglan telur sig vita að litháísk glæpagengi séu að verki, en er ráðþrota.  Ferðir heimilisfólks eru kortlagðar og lagt til atlögu þegar vitað er að enginn er heima.  Þau hús sem óhætt er að fara inn í eru aðgreind frá hinum sem eru með öryggiskerfum.  Það kemur þó ekki í veg fyrir að brotist sé inn í hús með öryggiskerfum, heldur geta þjófarnir verið nákvæmari í leit sinni þar sem ekki eru öryggiskerfi.  Þýfið er síðan flutt úr landi í gámum.

Lögreglan er, eins og áður sagði, ráðþrota vegna þessara innbrota.  Undirmönnun er helsta vandamálið.  Einhverjir segja að jafnmargir lögregluþjónar séu við störf á höfuðborgarsvæðinu núna og fyrir meira en 30 árum.  Sel það ekki dýrara en ég keypti það.

Það er slæmt að þurfa að vakta húsið sitt allan daginn til að verjast þessari ógn.  Mjög margir eru með öryggiskerfi í húsunum sínum, en þau virðast ekki duga. Lögreglan telur að nágrannavakt sé besta vörnin við þessu og hvetur fólk til að bregðast við, ef það heyrir þjófavarnarkerfi fara í gang.  Ekki sé nóg að bíða eftir að lögregla eða öryggisverðir mæti á staðinn, þar sem það geta liði a.m.k. 5 - 10 mínútur áður en það gerist og á þeim tíma er hægt að gera ýmislegt.

Það mætti samt ætla að í ekki stærra þjóðfélagi væri hægt að einangra þessa aðila sem stunda þessi innbrot.  Það væri hægt að útbúa kort af þeim svæðum, þar helst er brotist inn og auka vakt á þeim.  Það er t.d. ekki eins og Hjallarnir í Kópavogi séu það flóknir.  Þetta er það svæði sem er einna auðveldast að loka af fyrir bílaumferð með í megin atriðum einni langri götu og þremur hliðar götum út úr hverfinu.  Ekki fara menn fótgangandi með þýfið.  Einhvers staðar þurfa þessir menn að meðhöndla góssið, fá gáma til sína, fá annan varning til sín til að fela góssið.

Það sem vekur líka furðu mína í þessu máli, er að vitað er að þýfið fer út í gámum.  Af hverju er ekki hægt að stoppa gámana?  Er ábyrgð flutningafyrirtækjanna enginn? Ef gámarnir eru stoppaðir, hverfur ávinningurinn.  Er það virkilega ódýrara fyrir tryggingarfélögin að greiða skaðann, en fyrir þjóðfélagið að stoppa þessa aumingja.  Ef ég ætti að stjórna aðgerðum í þessu máli, myndi ég setja fókusinn á að finna hvar góssið er sett í gámana og skoða alla gáma sem ekki koma frá traustum útflytjendum.  Það þýðir að virkja þarf tollinn og auka ábyrgð flutningafyrirtækjanna.  Ég er alveg viss um að starfsfólk þess veit hvaða útflytjendur eru grunsamlegir.  Sérstaklega þarf að skoða gáma sem eiga að fara til móttakenda á svæðum sem þekkt eru fyrir verslun með góss.

Hugsanlega eru menn að gera allt til að uppræta þetta, en það virðist ekki vera nóg.  Þessi innbrotaalda nálgast heimili mitt hægt og rólega og þætti mér gott að búið væri að stoppa hana áður en við verðum fórnarlömb hennar. 


7 mánuðir fyrir grófa líkamsárás!

Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvað maðurinn hefði fengið langan dóm, ef hann hefði ekki brotið skilorð.  Héraðsdómur dæmir hann í 15 mánuði, þar af eru 11 mánuðir vegna brota á skilorði.  Hæstiréttur lengir dóminn í 18 mánuði.  Það má því í reynd segja að aðeins 4 mánuðir hjá héraðsdómi og 7 mánuðir hjá Hæstarétti séu vegna hinnar grófur og hrottafengnu árásar.  Þetta er minna en menn fá fyrir smávægileg auðgunarbrot.

Það getur vel verið að blessaður maðurinn hafi tekið sig á og hann á skilið hrós fyrir það, en það var tilviljun ein sem réð því að hann varð fórnarlambinu ekki að bana.  Ef það hefði gerst hefði maðurinn fengið mun lengri dóm.  Er verið að koma þeim skilaboðum út í samfélagið, m.a. til handrukkara, að það sé allt í lagi að ganga gróflega í skrokk á fólki meðan að fórnarlambið heldur lífi.  Þetta er allt of stuttur dómur sama hvernig á það er litið.


mbl.is Dómur vegna líkamsárásar þyngdur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland - Svíðþjóð - Ótrúlega lélegt

Leikur Íslands gegn Svíum var einfaldlega það lélegasta sem ég hef séð til liðsins.  Sóknarleikur liðsins var gjörsamlega í molum og það var engin ógnun af hinum svo kölluðu skyttum liðsins.  Svíarnir stilltu upp flatri 6-0 vörn og biðu bara.  Menn hoppuðu eins og kengúrur fyrir utan en snéru sér aldrei að markinu.  Þegar skotið loksins kom, þá var það á besta stað fyrir markmann sem tók nær allt sem hann fékk á sig niðri.  Ég taldi áðan 5 skot í röð sem fór rétt við fæturnar á honum þannig að það eina sem hann þurfti að gera var að láta hendurnar fylgja með.  Það er eins og íslensku skytturnar drífi ekki upp í efri hluta marksins.  Loksins þegar menn settu boltann upp þá kom mark, nema þegar sláinn varð fyrir.  Hvað var Ólafur Stefánsson að gera inni á vellinum?  Fyrsta markið hans kom úr víti seint í fyrri hálfleik.  Hann er búinn að eiga sendingafeila á við heila leiktíð.

Annað sem ég verð að lýsa furðu minni yfir.  Hvaða snillingi datt í hug að setja danska dómara á þennan leik?  Þó svo að Íslendingar hafi gjörsamlega verið einfærir um að tapa leiknum, þá hafa Danirnir lagt sín lóð á vogarskálarnar.  Þarna hefðu átt að vera Rússar, Króatar eða Spánverjar, en alls ekki par frá næstu nágrönnum annars liðsins. 


Skiljanleg andstaða, en er leikurinn ekki tapaður?

Andstaða Seðlabankans við að fjármálafyrirtæki færi bókhald sitt í erlendri mynt er mjög skiljanleg, þó ekki væri nema út frá því sjónarmiði, að ef það gerist missir Seðlabankinn mikilvægt stjórntæki úr höndunum og frá honum fara mikilvæg verkefni.  Seðlabanki Íslands hefur ekkert vald yfir evrunni, en hann ábyrgur gagnvart krónunni.  En er ekki leikurinn tapaður?  Er það ekki um seinan fyrir Seðlabanka Íslands að koma í veg fyrir að íslensk útrásarfyrirtæki breyti um uppgjörsmynt?  Er það ekki um seinan að koma í veg fyrir fyrirtæki sem skráð eru í fjölþjóðlegri kauphöll færi hlutabréf sín yfir í fjölþjóðlega mynt?  Fái þau það ekki hér á landi flytja þau einfaldlega úr landi.  Og ekki er Seðlabankinn betur settur með það.

Til skamms tíma sá ég ýmsa kosti við að halda krónunni og hugsanlega verður það hægt í einhvern tíma í viðbót.  En því miður er styrkur krónunnar það lítill og vægi Seðlabanka Íslands svo óverulegt í alþjóðlegu fjármálaumhverfi, að krónan stendur ekki ein og sér.  Sveiflur í gengi krónunnar eru of miklar til það hægt sé að líta á íslensk fjármálafyrirtæki sem vænlegan fjárfestingarkost.  Það er ekki bara að gengi, t.d., Kaupþings hafi lækkað stórlega í íslenskum krónum á síðustu mánuðum, heldur hafa sveiflur á gengi krónunnar ýkt þessa lækkun enn frekar.  Meðan fjárfestir á Íslandi hefur tapað, segjum, 40% á lækkun gengis hlutabréfa, þá hefur hinn erlendi tapað 10% til viðbótar vegna lækkunar krónunnar.  Og þegar kemur að árs- og árshlutauppgjörum, þá ýkja gengissveiflur þau líka og gera allan samanburð óskiljanlega.  Eignir upp á 10 milljarðar evra mynda hagnað eitt uppgjörstímabilið og tap hitt.  Eign upp á 9 milljarða evra sýna hærri eignastöðu á einu uppgjörstímabili en eignir upp á 11 milljarða evra á öðru.  Er hægt að búa við þetta?

Ég sé bara fyrir mér tvær lausnir á þessu.  Fyrri er að halda krónunni, en tengja hana við evru, sterlingspund eða svissneskan franka og bara eina af þessum myntum.  Með því fengist meiri stöðugleiki.  Þetta er sambærilegt við það sem Danir og Svíar gera, en þessar þjóðir halda sínum myntum en fasttengja þær evrunni.  Með þessu fæst meiri stöðugleiki í gengið og það ætti að hafa kælandi áhrif á hagkerfið.  Hinn kosturinn er að taka upp evruna.  Vandamálið er að ekki er víst að það fáist.  Ísland getur ekki bara svona upp á sitt eindæmi tekið upp evruna.  Vissulega hafa einhverjar þjóðir gert það, en það eru þjóðir sem standa utan Evrópska efnahagssvæðisins. 

Danska leiðin virðist því liggja í augum uppi, þ.e. að tengja krónuna við gengi evrunnar og undirbúa jarðveginn fyrir það að kasta krónunni innan 10 ára eða svo.  Vandamálið er að velja tímapunktinn og það verður ekki auðvelt.  Ég legg til 1. júlí 2009, en einnig mætti gera það um næstu áramót.  Ég viðurkenni fúslega að ég hef ekki nægilegt vit á hagfræði eða peningamálum til að skilja nákvæmlega hvað það hefur í för með sér að skipta yfir í evru eða fasttengja krónuna við evruna.  Ég á móti átta mig alveg á afleiðingum þess að halda krónunni í þeim ólgusjó sem alþjóðlegt fjármálakerfi er að ganga í gegnum og ég átta mig á hættunni á að óprúttnir spákaupmenn fari að leika sér með fjöregg þjóðarinnar.

Það má segja að Seðlabanki Íslands sé í svipuðum sporum og íslenska ríkið þegar Davíð keypti bjórinn í Fríhöfninni um árið.  Hann á bara þvingaða leiki og getur valið um það að gefa skákina strax eða vera hægt og rólega mátaður. Niðurstaðan verður alltaf sú að fjármálafyrirtækin breyta um starfrækslumynt.  Spurningin er bara hvort þau gera það sem íslensk fyrirtæki eða erlend.


mbl.is Seðlabanki andvígur evrubókhaldi fjármálafyrirtækja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært hjá Jóhönnu

Þessi ákvörðun Jóhönnu Sigurðardóttur sýnir að hún ætlar sér að hrista upp í almannatryggingakerfinu.  Það vita líkalega fáir hér á landi eða nokkur meira um málefni almannatrygginga en Stefán Ólafsson.  Hann hefur undanfarin ár og áratugi grandskoðað kerfið og áhrif þess og gert margar athugasemdir við gagnleysi þess og vankanta.  Nú fær hann tækifæri til að gera tillögur að breytingum á þeim þáttum sem hann hefur gagnrýnt sem mest.  Ég hlakka til að heyra og sjá tillögur hans og vona að þær verði til að bæta kjör bóta- og lífeyrisþega, því þörfin fyrir umbætur er brýn.  Ég vona að með þessu þagni ekki rödd Stefáns og hann verði trúr sínum skoðunum. 


mbl.is Stefán Ólafsson prófessor formaður TR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Golden State í góðum gír

Það er búið að vera gaman að fylgjast með Golden State Warriors í vetur.  Tímabilið byrjaði ekki vel og hélt maður að þá að enn eitt hörmungartímabilið væri í uppsiglingu.  Fyrstu sex leikirnir töpuðust allir, en á því var einföld skýring.  Besti maður liðsins, Stephen Jackson, var að taka út sex leikja bann sem hann fékk fyrir uppákomu í leik gegn Utah Jazz sl. vor.  Svo mætti Jackson til leiks og liðið hrökk í gírinn.  Af næstu 10 leikjum unnust 9, þar á meðal 6 af 7 á útivelli (eina tapið var gegn Boston í Boston). 

Liðið þykir eitt það skemmtilegasta í deildinni.  Það spilar hraðan leik, sem byggir á frjálsu flæði og fátt er um uppstillingar (að því virðist).  Enginn einn leikmaður ber uppi leik liðsins, heldur er eins og menn skiptist á að vera bestir.  Eftir leiki nóvember höfðu t.d. 6 leikmenn náð því marki að hafa skorað 30 stig eða meira í einum leik, mest allra liða í NBA.  Það er einmitt þessi breidd sem einkennir liðið.  Vissulega eru Jackson og Baron Davis mikilvægir fyrir liðið, en Monta Ellis, Al Harrington, Andris Biedrins og Kelenna Azubuike hafa einnig leikið feikna vel.

Golden State vakti athygli sl. vor, þegar liðið sló, að margra mati, óvænt út lið Denver í 8 liða úrslitum Vesturdeildarinnar.  Sá árangur þurfti ekkert að koma svo á óvart (eins og ég benti þá á) þar sem GSW höfðu unnið alla leiki liðanna á keppnistímabilinu.  Það var eins og Don Nelson vissi hvernig ætti að vinna Denver.   Þó svo að Denver hafi tekist að setja fyrir lekann í leik liðanna í Oakland í desember, þá féll allt í sama farið tveimur dögum síðar í Denver.

Á yfirstandandi tímabili eru fylgismenn GSW að upplifa marga hluti í fyrsta sinn í meira en áratug.  T.d. að vinna tvær útivallaleikjahrinur í röð, en það gerðist síðast fyrir 15 árum.  Að leggja LA Lakers í LA, en það hefur ekki tekist í svo lengi sem elstu menn muna og þetta var aðeins í annað sinn í 16 leikjum, heima og að heiman, sem GSW náði að leggja LAL.  Og síðan í gærkvöldi tókst liðinu að tryggja sér sigur í seríu ársins gegn San Antonio Spurs, en það gerðist síðast tímabilið 1996-97.  Síðan má ekki gleyma að GSW hefur ekki verið með fleiri sigra í 35 leikjum frá því einhvern tímann fyrir upphaf okkar tímatalsGrin.

Það verður gaman að fylgjast með liðinu í vetur.  Margt bendir til þess að það ætti að komast inn í úrslitakeppnina, en þó verður að hafa í huga að Vesturdeildin er firna sterk í vetur.  Vinningshlutfall GSW, 20-15, gefur t.d. ekki nema 8. sæti meðan liðið í 4. sæti í Austurdeildarinnar er með hlutfallið 17-15.  En það er langt til vors og margt getur breyst.  Það er þó ljóst, að Don Nelson hefur verið að gera góða hluti með liðið eftir að hann tók við því af Mike Montgomery sl. vetur.  Árangursleysi Montgomery með liðið voru mikil vonbrigði, þar sem hann hafði náð frábærum árangri með lið Stanford háskóla í nærri 20 ár áður en hann tók við GSW.

(Smá leiðrétting við frétt mbl.is:  Það var SAS sem vann upp 6 stiga forskot GSW á síðustu 47 sekúndum venjulegs leiktíma og jafnaði Tony Parker metin með þriggja stiga körfu 6,7 sekúndum fyrir lok 4. leikhluta.) 


mbl.is Golden State lagði meistaraliðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slúður: Íslendingar að kaupa Southampton

Samkvæmt slúðri í Englandi eru íslenskir fjárfestar að velta fyrir sér yfirtöku á Southampton.  Verðmiðinn er GBP 50 milljónir.  Ég legg nú ekki mikinn trúað í þessa frétt, bæði vegna þess að Southampton er ekki 50 milljón punda virði og svo er félagið alveg sérlega óáhugavert í augnablikinu.

Southampton are the £50m targets of an Icelandic consortium. (Mirror)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 81
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband