Leita í fréttum mbl.is

Sagan endurtekur sig

Það er svo merkilegt að í hvert skipti sem gefnar eru út stefnumarkandi yfirlýsingar um frið milli Ísraela og Palestínumanna, þá fylgja hernaðaraðgerðir af hálfu Ísraelhers.  Ég beið eftir þessu eftir að Bush kom með "allt of lítið, allt of seint" yfirlýsinguna sína í síðustu viku.  Það er eins og menn geti ekki nýtt sér meðbyrinn til að gera eitthvað gott, heldur noti hann sem skjól til að gera illt verra.  Og svo ef Palestínumenn dirfast að svara fyrir sig, sem þeir gera örugglega, þá mun heimsbyggðin ekki vera sein á sér að gagnrýna þá fyrir að vilja ekki frið. Það eru nefnilega hryðjuverk, þegar Palestínumenn skjóta litlu heimabúnu rakettunum sínum, en réttlætanlegur hernaður þegar Ísraelar nota flugher og þungavopn á Palestínumenn.  Ég flokka hvorutveggja sem hryðjuverk.  Þó man ég ekki til þess að Palestínumenn hafi ennþá náð að sprengja fjögurra hæða hús í loft upp með "flugskeytunum" sínum.

Það er aldrei talað um það opinberlega að Ísraelar vilji ekki frið, en fyrir þann sem horfir á þennan hildarleik úr fjarlægð, þá er ekki hægt að draga aðra ályktun en að Ísrael vilji viðhalda ófriðnum.  Þannig halda þeir aftur af efnahagslegum framförum í Palestínu.  Ég trúi alveg að Ísraelar vilji frið, en þeir vilja hann á eigin einhliða forsendum og þær forsendur geta ekki túlkast á annan hátt en sem ofurkostir.  Hvar í heimunum er friði náð með því að sprengja í loft upp ráðneytisbyggingar sjálfráða þjóðar?  Hvar í heiminum er friði náð með því að sprengja í loft upp raforkuver og veitustofnanir?  Hvar í heiminum er friði náð með því að svelta fólk heilu hungri, meina því að heimsækja ættingja sína, varna því menntunar o.s.frv.?  Svarið er: Hvergi, vegna þess að friður næst ekki með slíkum aðgerðum.  Þessi háttsemi viðheldur stríðsástandi og eykur spennuna.  Spennu og stríðsástand sem hefur kynnt undir hryðjuverk um allan heim og alið á tortryggni á milli þjóðernishópa. 

Það er löngu fyrirséð að deilan verður ekki leyst nema með því að Palestínumönnum, sem flúðu/voru hraktir frá heimkynnum sínum 1948 og síðan aftur 1967, verði leyft að snúa aftur til heimkynna sinna eða þeim greiddar það ríflegar bætur að þeir geti hafið nýtt líf í sjálfstæðu ríki Palestínumanna.  Þetta er það sem staðið hefur helst í Ísraelum og er í sjálfu sér skiljanlegt.  Ef Palestínumönnum fjölgar of mikið í Ísrael, þá gætu gyðingar lent í því að verða minnihlutahópur í landinu.  Vissulega ekki góð tilhugsun fyrir þá og gæti bráðinn orðið að veiðimanninum.  Annað sem skiptir máli, er að nýju ríki Palestínumanna verði tryggður aðgangur að vatni, en svo vill til að vatn er mjög af skornum skammti á þeim svæðum sem Palestínumenn ráða yfir.  Þriðja atriðið er að tryggja öllum borgurum Palestínu ferðafrelsi, en það er nokkuð sem bara sumir njóta.  Fjórða atriðið er að byggja upp innviði samfélagsins og tryggja að Ísraelsher brjóti (sprengi) þá ekki niður jafnóðum í misviturlegum aðgerðum.  Fimmta atriðið er að tryggja efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar.  Sjötta atriðið er að tryggja Palestínumönnum sjálfsákvörðunarrétt í innanríkismálum sínum.  Það þýðir að lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóðarinnar geti gegnt skyldum sínum, en þurfi ekki að óttast handtökur og fangelsisvist án dóms og laga af hálfu Ísraelsmanna.  Mér finnst eins og Ísraelsmenn hafi gleymt því að margir af fyrri ráðamönnum þjóðarinnar frömdu á sínum tíma voðaverk sem í dag myndu flokkast undir hryðjuverk og hryðjuverkastarfsemi.

Vegna getuleysis, eða eigum við frekar að segja vegna áhugaleysis, Bandaríkjamanna og Evrópusambandsins að leysa deilu Ísraela og Palestínumanna, hefur verið meira óöryggi í heiminum undanfarin 10 ár en næstu rúm 50 ár þar á undan.  Og það sér ekki fyrir endann á þessu.  Svo heldur "allt of lítið, allt of seint" Bush að hann geti slegið sig til riddara á síðustu embættismánuðum sínum.  Þetta eru orðin fyrirséð viðbrögð frá forsetum Bandaríkjanna, þegar forsetatíð þeirra er að renna út.  Ég vona að næsti forseti Bandaríkjanna átti sig á því, að það þarf að verða eitt af hans/hennar fyrstu verkum að leysa deilu Ísraela og Palestínumanna.  Það má ekki draga það þar til korteri fyrir kosningar. 

 


mbl.is Ráðuneyti jafnað við jörðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Árnason

Þetta finnst mér nú vera frekar einhæf ályktun á málinu. Palestínumenn voru ekki hraktir af landi sínu árið 1948, heldur var þeim sagt að fara af Arabalöndunum 7, Svo arabarnir gætu lokið verki sínu(útrýma gyðingunum) án þess fólk væri fyrir

. Svo ef Palestínumönnum myndu fjölga of mikið,þá gætu þeir samt ekkert, þar sem þeirra tækni og vopn eiga ekkert í það sem Ísraelsmenn eiga. Það verður fyrst að breyta viðhorfum Palestínumanna gagnvart gyðingum, til þess að það eigi friður að nást. En það er ábyggilega erfiðasti parturinn, Þar sem þeir fá viðhorfin úr trúarritunum sínum, sem þeir taka ansi alvarlega og það er ekkert að fara að breytast.

Sahih bukhari

Volume 4, Book 52, Number 176:

Narrated 'Abdullah bin 'Umar:

Allah's Apostle said, "You (i.e. Muslims) will fight with the Jews till some of them will hide behind stones. The stones will (betray them) saying, 'O 'Abdullah (i.e. slave of Allah)! There is a Jew hiding behind me; so kill him.' "

Volume 4, Book 52, Number 177:

Narrated Abu Huraira:

Allah's Apostle said, "The Hour will not be established until you fight with the Jews, and the stone behind which a Jew will be hiding will say. "O Muslim! There is a Jew hiding behind me, so kill him."

Quran 

O you who believe! do not take the Jews and the Christians for friends; they are friends of each other; and whoever amongst you takes them for a friend, then surely he is one of them; surely Allah does not guide the unjust people. 005:051

Sigurður Árnason, 18.1.2008 kl. 17:53

2 Smámynd: Ólafur Als

Sæll Marinó,

hér hallar þú verulega máli. Hvers vegna þú velur að gera lítið úr hundruðum eldflaugaárása frá Gaza með tilvísun í heimagerðar sprengjur er sérkennileg tilraun til þess að gera lítið úr þeim drápstólum. Helstu eldflaugarnar kallast Qassam og ná allt að 10 km inn í Ísrael en upp á síðkastið hefur borið á nýrri gerð, Katyusha, sem fljúga allt að 22 km. Suma mánuði er skotið á annað hundruð eldflauga (sem einhverjir vilja líkja við e.k. flugelda) inn á landsvæði Ísraels og gætir áhrifa þessa hernaðar langt út fyrir hæfileika eldflauganna til þess að drepa og særa. Þær halda uppi ótta meðfram landamærum svæðanna og svo er það vitanlega það markmið að særa fram viðbrögð af hálfu Ísraelsmanna. Ísrael hafði um skeið látið það vera að svara fyrir árásir áður en kom að blóðugri eigin árás á Gaza. Á sama tíma skaut t.d. leyniskytta frá Gaza til bana hjálparstarfsmann í Ísrael.

Upphaf og eðli átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs er hægt að grandskoða en sú hugsun að telja Bandaríkjamenn og jafnvel Evrópusambandið ábyrgt fyrir því að ekki sé kominn á friður er heldur þunnt. Á sama tíma og Bandaríkin hafa látið deiluaðila að nokkru í friði hafa Palestínumenn t.d. fengið yfirráð yfir Gaza og fjölmargt annað yfir á sínar hendur í heimastjórninni. Bush er fyrsti forseti Bandaríkjanna sem hefur gefið það út að Palestínumenn hafi rétt á að stofna eigið ríki, Clinton á sínum tíma gekk t.d. ekki svo langt. Bush hefur sagt við Ísraelsmenn að þeir eigi að skila landi sem þeir unnu í sex daga stríðinu og svo mætti telja áfram. Hann sagði og að einungis deiluaðilar gætu landað samningi um frið en vitanlega hefur Abbas við erfiðleika að stríða heima fyrir. Ólíkt Arafat talar Abbas ekki tungum tveim, sem gefur vissa von um árangur viðræðnanna nú. Hins vegar ræður hann ekki við herskáa Hamas-menn eða aðra sem vilja ekki frið við Ísrael, enda er í huga all margra eina takmarkið að þurrka út ríki Ísraels og svona í leiðinni drepa helvítis Gyðingana.

Á meðan einungis önnur hlið mála er sögð hafa skrif af þessu tagi lítinn tilgang annan en að sverta og ýta undir fordóma.

Ólafur Als, 18.1.2008 kl. 18:20

3 Smámynd: Sigurður Árnason

Anna

þeir hafa heimaland, Gaza og vesturbakkinn er þeirra heimaland. EF þú ert að segja að ísraelar eiga að skila Ísrael, eiga þá ekki jórdanar að skila jórdan aftur, þar sem það er líka fyrrum palestína. þú lokar augunum fyrir þessu sýnist mér og öllum eldflaugaárásunum Palestínumanna. þú hefur kannski ekki kynnt þér palestínu áflogin 1920 og Jaffa áflogin 1921. mæli með að þú kynnir þér þau.

Sigurður Árnason, 18.1.2008 kl. 19:05

4 Smámynd: Ólafur Als

Anna:

Gyðingar hafa reyndar ávallt búið í Palestínu (í litlum mæli þó um árhundruð), en þeir tóku að flykkjast þangað fyrir um hundrað árum. Sigurður bendir réttilega á að hin gamla Palestína nær yfir mun stærra landsvæði en Ísrael nútímans og Vesturbakka + Gaza. Segja má að Bretar hafi gert stór mistök þegar þeir lögðu blessun sína yfir landamæri Jórdan (Trans-Jórdan hét það nú þá), sem jafnvel stóð til að ná alla leið til sjávar. Ef sneið af núverandi Jórdan hefði verið inni í myndinni þegar S.Þ. lögðu upp drögin að ríkjum Gyðinga og Palestínumanna árið 1947 (1948) hefdi e.t.v. farid betur, sérstaklega við núverandi aðstæður.

Síðan fæ ég ekki skilið Anna, að það að halla réttu máli feli í sér ferska vinda sannleikans. Hefur ekki einmitt núverandi stjórn vestur í Washington lagt áherslu á rétt Palestínumanna til þess að stofna eigið ríki (hefur ekki enn verið gert)? E.t.v. ættu Bandaríkjamenn að ráðast inn í Ísrael og þvinga þá til þess að taka því sem sjálfsögðum hlut að á þeirra ríki sé ráðist á, ef ekki daglega, þá vikulega allt frá stofnun þess? Eru menn algerlega búnir að tapa glórunni, eða hvað?

Ólafur Als, 18.1.2008 kl. 19:32

5 Smámynd: Björn Heiðdal

Þetta er alveg rétt athugun hjá Marinó að í hvert skipti sem eitthvað virðist þokast í friðarátt þá kemur ísraelska ríkisstjórnin með útspil sem gengur þvert á það sem hún segist vilja.  Eitt ágætt dæmi er þegar Arafat var settur í stofufangelsi, og nokkrir ísraelskir ráðherrar sögðu að vel kæmi til greina að myrða hann, þá fóru að berast fréttir um að eitthvað væri að þokast í "friðarátt".  Í sömu viku kom smyglbátur með risapakka merktum Arafat.  Sharon stoppaði smyglarann og opnaði þennan vel innpakaða pakka.  Viti menn í honum leyndist ein stærsta vopnasending fyrr og síðar.

Það var haldinn fréttamannafundur og öllum helstu fjölmiðlum boðið.  Ísraelski fjölmiðlafulltrúinn hélt langa og afar leiðinlega ræðu á bjagaðri ensku sem fór eitthvað illa í þessa fréttamenn því þeir sýndu fréttinni lítinn áhuga.  Eða svo fannst a.m.k. ísraelsku ríkisstjórninni sem kvartaði mikið yfir þessu áhugaleysi.  Eftir smá tíma fóru að birtast fréttaskýringar í ísraelskum blöðum þar sem greint var frá því að ráðamenn landsins helga litu á blaðamannafundinn sem algjörlega misheppnaðan.  Það hefði vantað fólk sem talaði ensku án hreims og tímasetningin hefði líka verið röng o.s.fr.  

Skilaboðin um hversu hættulegur og óforskammaður Arafat væri með þessum vopnainnflutningi drukknuðu alveg í látunum frá ísraelsku jarðýtunum sem voru á fullu allan sólahringinn fyrir utan gluggan á skrifstofu Arafats.  Heimspressan klikkaði alveg og nú voru góð ráð dýr eða hvað.  Með þessari vopnasendingu gat Sharan sýnt fram á að Arafat hefði ekki nokkurn áhuga á að semja um eitt eða neitt.  Hann vildi sko láta vopnin tala.  Evrópa hætti að þrýsta á lausn málsins og gerði ekki kröfu um að Sharon sleppti Arafat úr þessu fína stofufangelsi enda hvar hefði Arafat það betra en akkúrat á skrifstofunni hjá sér, svangur og hræddur. 

Svona var sagan eins og hún birtist mér á sínum tíma en nokkru seinna var gerð heimildarmynd um þessa atburði.  Í myndinni viðurkenndi einn ísraelinn að báturinn og vopnin hefðu verið algjör tilbúningur af þeirra hálfu og eingöngu til þess að sverta ímynd Arafats í augum ráðamanna Vesturlanda.  Allt hefði þetta svínvirkað nema kannski þessi fréttamannafundur.

Björn Heiðdal, 18.1.2008 kl. 19:56

6 Smámynd: Ólafur Als

Björn;

Arafat viðurkenndi um síðir fyrir Clinton tilvist vopnasendingarinnar. Hér geta menn endalaust rifist um réttmæti aðgerða Ísraelsmanna en eftir stendur að tilverurétti þeirra hefur verið ógnað allt frá stofnun ríkisins. Ef menn telja Arafat sérstakt fórnarlamb er næsta skref að telja árásir á Ísrael réttmætar.

Hvað rétt manna til þess að lifa innan "landamæra" Ísreals áhrærir verður það ekki afgreitt með neinum auðveldum hætti. Fólksflutningar hafa ósjaldan verið hluti þess að koma á friði milli stríðandi aðila og ljóst að hér verður að taka tillit til slíks. Hinir svo kölluðu flóttamenn Palestínumanna munu all margir ekki eiga sér afturkvæmt til fyrri heimkynna sinna og ég þykist þess fullviss að heimsbyggðin er tilbúin til þess að rétta þeim og verðandi ríki Palestínumanna hjálparhönd ... sem reyndar hefur staðið yfir um langt árabil.

En ég er sammála Sigurði að eyða verður landlægu hatri á milli kynþáttanna á svæðinu, sem ég eigna að mestu öfga- og ófriðaröflum hjá Palestínumönnum en vissulega eru til öfl innan Ísrael sem ekki telja sér hag í að semja frið. Draumurinn um stór-Ísrael hvílir m.a. í hugum þeirra.

Ólafur Als, 18.1.2008 kl. 20:21

7 Smámynd: Björn Heiðdal

Ólafur, er það virkilega.

Annað ágætt dæmi um svona lygastríð í fjölmiðlum er um gömlu konuna sem var sprengd í tætlur alveg óvart.  Ísarelski herinn neitaði allri ábyrgð og vildi meina að sennilega hefði einhverjir ósýnilegir palenstínumenn drepið hana.  Svo kom á daginn að ísraelskur skriðdreki hafði óvart skotið á hana.  

Síðan var það fjölskyldan sem fór á ströndina og fékk sprengju í hausinn.  Allt varð brjálað eins og venjulega og það slitnaði upp úr einhverjum voða merkilegum "friðarviðræðum" í kjölfarið.  Ísraelski herinn kannaðist ekkert við þessa sendingu og alls ekki heimilisfangið.  Þeir vildu meina að sennilega hefðu Palenstínumenn sjálfir drepið fjölskylduna til að láta Ísrael líta illa út.  Önnur skýringin var síðan að fólkið hefði óvart fundið sprengjugeymslu hryðjuverkamanna og hundurinn hefði bitið í eina bombuna.

Margir virðast halda að þessi deilumál séu partur af einhverjum fótboltaleik, það séu bara tvö lið á vellinum og sjálfur Guð almáttugur dómarinn.  Í verðlaun fyrir sigurliðið og stuðningsmenn sé síðan eilíf sæluvist á himni en tapliðið fari til helvítis.  Þetta kann að vera skýringin á skoðunum Ólafs Als. 

Björn Heiðdal, 18.1.2008 kl. 21:02

8 Smámynd: Ólafur Als

Björn;

sem sæmilega skrifandi manni er ekki úr vegi að þú lesir betur yfir skrif annarra. Samlíkingin við fótboltaleikinn dettur um sjálfan sig ef maður lítur yfir innihald skrifa þinna. Getur verið að þig varði ekkert um upptök þessara átaka, innihald þess haturs sem fær fólk yfirleitt til þess að fremja þau voðaverk sem einkenna átökin á milli Ísraelsmanna og Palestínumanna og reyndar fleiri Araba í gegnum árin? Hefur Ísrael tilverurétt og ef svo er hve langt mega þeir teygja sig í landvörnum sínum? Eiga þeir að láta það óátalið að nær daglega í sextíu ár hafa þeir þurft að búa við ógn og blóðugar árásir á landsvæði sitt? Hverju skal svarað gagnvart öfgum sem kenna foreldrum að senda afkvæmi sín í sjálfsmorðárásir? Ég hef ekki einhlít svör við þessu og ég kann ekki að gera grein fyrir öllum þeim hörmulega afleiðingum sem eru og hafa verið fylgifiskur þessara stríðsátaka. Eitt er víst; voðaverkunum mun ekki linna, hvort heldur er af hálfu Ísraelsmanna eða Palestínumanna, fyrr en helsti broddurinn er úr öfgaöflunum.

Ólafur Als, 18.1.2008 kl. 21:51

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður

Palestínumenn voru ekki hraktir af landi sínu árið 1948, heldur var þeim sagt að fara af Arabalöndunum 7

Ég segi orðrétt:

Palestínumönnum, sem flúðu/voru hraktir frá heimkynnum sínum 1948 og síðan aftur 1967

Það skiptir ekki máli af hverju fólkið hrakktist frá heimilum sínum, það býr þar ekki og hefur ekki búið í 60 ár.  Ég er ekki að halla neinum sannleika.

Það er hafsjór á milli eyðileggingarmáttar flugskeyta Palestínumanna og þungavopna Ísraelhers.  Ég er ekki að draga neitt úr því að flugskeytaárásirnar væru hryðjuverk, en árásir Ísraela eru það líka og þær hafa drepið mun fleiri Palestínumenn en flugskeyti Palestínumanna hafa drepið af Ísraelum.

Óli, eru Palestínumenn þá að særa fram sams konar viðbrögð og glæpsamlegar árásir Ísraelsmanna á Líbanon fyrir 2 árum?  Vandamálið við Ísraelsmenn er að þeir kunna sér aldrei hófs í viðbrögðum sínum.  Þeir eru alltaf að negla fína naglann með sleggju til að að valda eins miklum skaða og hægt er.

Ég hef alveg fullan skilning á því að Ísraelar vilji verja land sitt, en þeir kalla bara yfir sig ennþá meiri árásir með aðferðum sínum.  Meðan flóttamannavandamálin eru ekki leyst, eru flóttamannabúðirnar útungunarvél fyrir stríðsmenn og fyrir hverja árás á Gazasvæðið drepa þeir kannski nokkra en fyrir hvern einn sem þeir drepa ganga 10 til liðs við Hamas.  Meðferð þeirra á Palestínumönnum á Gazaströndinni er verri en svín fá í svínabúum á Íslandi eða kindur í fjárhúsum.  Fólk er svipt öllu vegna þess að einhver henti steinvölu í hermann.  Ísraelsmönnum er mun meiri hagur af friði en stríði, en það eru þeir viðhalda stríðinu.  Sharon hleypti öllu í bál og brand vegna þess að hann vildi fella ríkisstjórn Baraks.  Þetta er líklega fíflalegasti hlutur sem nokkur hefur gert og setti ekki bara friðarferlið milli Ísraela og Palestínumanna í uppnám, heldur raskaði jafnvæginu í öllum heimshlutanum.  Allir aðrir á þessari jarðkringlu þurfa svo að líða fyrir pólitíska valdabaráttu í pínulitlu landi sem heldur að það sé merkilegra en stærð þess gefur til kynna.

Marinó G. Njálsson, 18.1.2008 kl. 22:06

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Óli, þú nefni ítrekað þessa vopnasendingu.  Af hverju mega Palestínumenn ekki endurnýja vopn sín á sama tíma og Ísraelar fengu vopnasendingu frá Bandaríkjamönnum upp á milljarða dollara.  Var það bara annar aðilinn sem mátti vopnbúast?  Þetta er svo vitlaust að það er með ólíkindum.  Það sama á við um kjarnorkuvopnaeign Ísraela.  Þeir komu sér upp kjarnorkuvopnum í óþökk alþjóðasamfélagsins og enginn sagði neitt.  Það skal enginn segja mér að Bandaríkjamenn hafi ekki vitað þetta allan tímann og þeir hafa verið duglegir að hóta og beita viðskiptabanni og innrásum, ef þeim hefur svo mikið sem dottið í hug að "óæskilegt" ríki hafi komið sér upp kjarnorkuvopnum.  Svo setjast Ísraelar á háan hest yfir því að öðrum ríkjum dettur í hug að gera það sama.  Þessi tvískinnungur alþjóðasamfélagsins er það sem Ísraelar þrífast á og gerir þeim kleift að komast upp með allt sem þeim dettur í hug. 

Hvar í heiminum er ráðist inn á heimili lýðræðislegra kjörinna ráðamanna annars ríkis og það látið átölulaust?  Ekki einu sinni í Sovétríkjunum fyrrverandi er það gert.  Hvar annars staðar í heiminum eru þingmenn þjóðþings annars ríkis handteknir og settir í fangelsi án dóms og laga?  Hvergi.  Þetta gerðist ekki einu sinni í Suður-Afríku á tímum aðskilnaðarstefnunnar.  Þessi framkoma er móðgun við lýðræði í heiminum, lýðræði sem er hornsteinn utanríkisstefnu Bandaríkjanna (nema þegar vitlausir aðilar eru kosnir til valda). 

Marinó G. Njálsson, 18.1.2008 kl. 22:39

11 Smámynd: Ólafur Als

Marínó, enn ertu á sömu buxunum. Síðan hvenær kunna menn sér hófs í stríðsátökum? Hvaða aðili myndi ekki beita sér af þunga við landvarnir, sama hvernig menn annars skilgreina slíkt? Með röksemdafærslu þinni má alveg eins segja að Ísraelsmenn ættu að leggjast flatir svo Hamasliðum fækkaði.

Og svo þetta með steinvöluna. Gott og vel - látum Ísraela kasta steinvölum í sömu mynt og vonum að þeir hitti ekki betur en andstæðingurinn. Alls ekki að þeir kast betur. Og þegar eldflaugar af Gaza svæðinu drepa einn Ísraela eða særa, skulu þeir passa sig á að drepa bara einn Palestínumann eða særa. Pössum okkur á að Ísraelsmenn beiti ekki þeim styrk sem þeir þó hafa. Hér eru menn komnir á fullt í fótboltaleikinn sem Björn minntist á.

Marínó, þú hlítur að átta þig á að annars vegar er vel smurð stríðsmaskína og hins vegar veigaminni en áhrifarík vopn öfgahópa, sem veigra sér ekki við að beita ungviðinu fyrir sér í sjálfsmorðsárásum. Hvernig verjast menn slíku? Sérhver tilraun Ísraels til varna er í eðli sínu og samanburði stórtæk og að reyna að halda því fram að til sé einhver betur ígrunduð aðferð sem stöðva muni árásir öfgahópa er óskhyggja í besta falli. ENGINN myndi láta yfir sig ganga blóðugar árásir á land sitt ítrekað í 60 ár án þess að bregðast við með fullum styrk.

Í síðustu setningu þinni kristallast barómeter afstöðu þinnar. Þér er í nöp við Ísrael. Ég tel mig vera vin og bandamann Ísraels og þorra þess fólks sem byggir það land en mér er í nöp við hatrið sem fóstrað er af trúaröfgum, hvoru megin sem er, en þó sérstaklega það viðhorf að Ísrael á ekki tilverurétt og að Gyðingum skuli komið fyrir kattarnef. Hafa menn einhverjar hófsamar aðferðir til að takast á við slíkt? Til viðbótar óska ég Palestínumanna þess að þeir geti með tíð og tíma stofnað eigið ríki, sem geti átt friðsamleg samskipti við Ísrael. Beggja vegna standa öfl sem telja hag sínum best borgið undir ófriðarfána en styrkur öfga- og ófriðarafla er mun meiri Palestínumegin. Báðir aðilar þurfa að gefa eftir, eins og Bush benti réttilega á og hver veit nema skref í átt til friðar verði stigin í núverandi ferli?

Ólafur Als, 18.1.2008 kl. 22:57

12 Smámynd: Ólafur Als

Hvað innslag frá 22:39 varðar:

óvildin í garð BNA og Ísraels er leiðigjörn og óspennandi og tilvitnanir þínar í söguna eru sumar arfavitlausar, sbr. samlíkingar við Sovétríkin sálugu, S-Afríku o.fl. Enn og aftur heggurðu í sama knérunn og finnur Ísraelsmönnum allt til foráttu og bætir reyndar Bandaríkjunum við. Vopnasendingin var ekki nefnd ítrekuð af minni hálfu; ég sagði ekkert um réttmæti hennar heldur hitt að hún hefði átt sér stað.

Vita máttu að stærstur hluti Ísraelsmanna ber þá von í brjósti að friður náist við nágrannana og meirihlutinn óskar þess að Palestínumenn fái sitt eigið ríki. Mér þykir það bera vott um friðarvilja af hálfu þjóðarinnar, þó á köflum valdamenn hennar hafi ekki verið svo sinnandi. Hins vegar hafa verið stigin mikilvæg skref í átt til þess að Palestínumenn geti stofnað eigið ríki - sem nóta bene er enn ekki til - og lagt rækt við innri uppbyggingu sem á endanum gæti stuðlað að mannlífi sem byggði á einhverju öðru en vopnuðum átökum. Palestínumenn hafa sumt afar vel menntað fólk, sem starfar margt hvert í Ísrael. Í framtíðinni mun það vonandi fá tækifæri til þess að taka þátt í uppbyggingu eigin lands og þjóðar.

Ólafur Als, 18.1.2008 kl. 23:12

13 Smámynd: Ólafur Als

PS.

ég held ég láti þetta gott heita í bili - góða helgi Marinó

Ólafur Als, 18.1.2008 kl. 23:15

14 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Óli, mér er ekki í nöp við Ísrael.  Mér geðjast ekki að meðferð þeirra á Palestínumönnum, mér geðjast ekki að tvískinnungi Bandaríkjamanna í málefni Mið-Austurlanda.  Það sem ég sé og flestir sem eru ekki of litaðir er lítið land sem heldur að það geti hagað sér eins og skólahrekkjusvínið vegna þess að skólastjórinn er frændi þess.  Það er nákvæmlega það sem ég sé.  Ég er alveg viss um að flestir Ísraelsmenn (bæði gyðingar og af arabískum ættum) eru fyrirmyndarfólk og margt gott hefur komið frá landinu, en það er einn ljóður á því og það er stefna þess og framferði í málefnum Palestínumanna.  Get ég ekki alveg eins túlkað orð þín að þú berir óvild í garð Palestínumanna.  Það er tilgangslaust að rugla saman skoðun á tilteknu máli og óskyldum hlutum.  En ég get alveg viðurkennt það, að mér finnst utanríkis- og hernaðarstefna Bandaríkjanna vera arfavitlaus og skaðleg heiminum.  Það þýðir ekki að ég beri óvild í brjósti gagnvart Bandaríkjunum.  Það þýðir að ég er gagnrýninn á þessa stefnu og ætti frekar að þýða að ég hafi áhyggjur af landinu og vilji hag þess fyrir bestu.  Ég vil að Ísraelar geti verið óhultir í heimalandi sínu og alls staðar í heiminum.  Á sama hátt vil ég að Palestínumenn, Bandaríkjamenn, Englendingar, Frakkar, Rússar, Kínverjar, Írakar og guð má vita hverjir séu óhultir alls staðar í heiminum.  Hvernig getur þá verið að beri óvild í brjósti?  Það sem ógnar mest friði í heiminum er yfirgangur og hernaðarbrölt.  Þar hafa bæði Ísraelsmenn og Bandaríkjamenn lagt sín lóð með þunga á vogarskálarnar.  En ég viðurkenni alveg að fleiri hafa gert það og þar á meðal litla Ísland í stuðningi sínum á óréttlætanlegri innrás í Írak.

Marinó G. Njálsson, 18.1.2008 kl. 23:47

15 Smámynd: Björn Heiðdal

Af öllum þeim sem verja gjörðir Ísraels og vitna í Biblíuna hefur engin nennt að segja mér hvað á að gerast næst.  Var þetta gjöf eða bara lán í smá tíma?  Ég sá svolítið skondið þegar ég skoðaði zion.is.  En þar ræður ríkjum einn harðasti mannréttindavinur vestan Vatnajökuls.  Þessi vinur gagnrýnir Svein Rúnar Lækni og uppnefnir félagið hans því skemmtilega nafni Hamasvinafélagið en það heitir með réttu Ísland-Palenstína.  Svona til að stríða þessum vini mínum ætla ég að kalla félagið hans Svínavinafélagið og hann sjálfan svínabónda.  Æ, nei, kannski gæti hann móðgast og sent mér annað SOS bréf heim til mín.  

En þetta var smá útúrdúr, það skondna var að vinur minn notar áras Hamasliða á skrifstofur Fatah og skemmdarverkastarfsemi á eignum sem gott dæmi um hvað þeir eru slæmir.  Ég hélt í mínum barnaskap að Ísraelski herinn væri miklu stórtækari í jarðýtustarfsemi hverskonar og rústað heilu palenstínsku blokkunum.  Ef þetta er einhver mælikvarði á illsku þá er Ísrael mjög illt.

Vinur minn er einn af þessum körlum og kerlingum sem eru í fótgönguliði drottins.  Þetta lið telur sig verða að verja alla delluna sem stjórnvöld í Ísrael gera á hlut nágranna sinna.  En afhverju að verja þessa óhæfu, jú til að komist inn fyrir gullna hliðið og fá gott sæti.  Þetta stendur víst allt í bókinni góðu og maður bara gerir það sem þar stendur.  En er þetta ekki sjálfselska í sinni hreinustu mynd og hún leiðir ekki til góðrar sambúðar við nágranna eða hvað.     

Björn Heiðdal, 19.1.2008 kl. 00:27

16 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Takk fyrir góða grein og þarfa.

Georg P Sveinbjörnsson, 20.1.2008 kl. 02:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 1678166

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband