Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Dæmisaga 2: Eldur og vatn

Þetta er önnur af fimm austurlenskum dæmissögum sem lýsa því sem góður stjórnandi þarf að búa yfir.  Líkt og hin fyrsta er sagan upprunin frá klaustri í Kyund Nam héraði í í Kóreu og birtist í Harvard Business Review í júlí-ágúst tölublaði 1992.

Eldur og vatn - Fire and Water

Á fjórðu öld eftir Krist var, falið innan Lu ríkisins, hérað sem Chuang hertogi réð yfir.  Þrátt fyrir að vera ekki stórt hafði héraðinu vegnað vel og vegur þess vaxið undir stjórn forvera Chuang.  En eftir að Chuang tók yfir sem hertogi, var hægt að sjá marktæka hnignun.  Hið breytta ástand fékk á Chuang, þannig að hann ákvað að fara til Hanfjalls til að sækja visku til hins mikla meistara, Mu-sun.

Þegar hertoginn kom að fjallinu, fann hann meistarann sitja fullan friðsemd á litlum steini þar sem hann horfði yfir aðliggjandi dal.  Eftir að hertoginn hafði skýrt stöðu sína fyrir Mu-sun, beið hann í ofvæni eftir því að meistarinn mikli tæki til máls.  Þvert á það sem Chuang átti von á, sagði meistarinn ekki orð.  Í staðinn, þá brosti hann mildilega og benti hertoganum á að fylgja sér.

Hljóðir gengu þeir uns þeir komu að Tan Fu á, sem var svo stór að ekki sá fyrir endann á henni, bæði var hún löng og breið.  Eftir að hafa hugleitt á ánna um stund, hóf Mu-sun að safna viði í eld.  Þegar eldurinn logaði glatt, bað meistarinn Chuang að setjast hjá sér.  Þeir sátu í drjúga stund meðan eldurinn brann af krafti í næturhúminu.

Um sólarupprás, þegar logar eldsins höfðu liðið út af, benti Mu-sun að ánni.  Og í fyrsta sinn frá því að hertoginn kom, tók hinn mikli meistari til máls,  ,,Skilur þú nú af hverju þér tekst ekki að ná sama árangri og forverar þínir - að viðhalda mikilfeng héraðsins þíns?"

Chuang virtist ruglaður í ríminu; hann var engu nær að skilja það.  Skömm færðist smátt og smátt yfir hertogann.  ,,Mikli meistari," sagði hann, ,,fyrirgefðu mér fáfræðina, en mér er ómögulegt að skilja hina miklu visku sem þú miðlar."  Mu-sun talaði þá í annað sinn.  ,,Veltu fyrir þér, Chuang, eðli eldsins sem logaði glatt fyrir augum okkar í nótt.  Hann var kraftmikill og öflugur.  Logar hans teygðu sig til himins meðan þeir dönsuðu og öskruðu í hrokafullu stærilæti.  Ekkert tré eða villidýr hefði verði nógu öflugt til að standast krafta eldsins.  Hann hefði auðveldlega lagt allt að velli á leið sinni.

Á móti, Chuang, líttur á ána.  Hún byrjar sem lítill lækur í fjarlægum fjöllum.  Stundum rennur hún rólega, stundum með ofsa, en hún rennur alltaf niður á við, með stefnuna setta á láglendið.  Hún fyllir viljandi hverja glufu í jörðinni og viljandi faðmar hún hverja sprungu í landinu, því auðmýkt er í eðli hennar.  Þegar við hlustum eftir vatninu, heyrum við varla í því.  Þegar við snertum það, finnum við varla fyrir því, svo milt er eðli þess.

En að lokum, hvað var eftir af hinum kraftmikla eldi? Aðeins handfylli af ösku.  Því hinn öflugi eldur, Chuang, sem ekki bara eyðileggur allt sem verður vegi hans heldur verður einnig sjálfum sér að fjörtjóni.  Þannig fer ekki með hina rólegu og hljóðu á.  Því eins og hún var, þannig er hún og þannig verður hún um eilífð: rennur ævinlega, dýpkar, breikkar, verður sífellt voldugri á ferð sinni niður til hins botnlausa sjávar, fóstrandi lífi og veitir viðurværi til alls."

Eftir andartaks þögn, sneri Mu-sun sér að hertoganum.  ,,Líkt og með náttúruna, Chuang, er með leiðtoga.  Það er ekki eldurinn heldur vatnið sem sveipar allt og er uppspretta lífs, þannig að það eru ekki hinir kröftugu og valdmannslegu leiðtogar heldur hinir sem sýna auðmýkt og sækja innri styrk djúpt inn á við sem fanga hjörtu fólksins og eru uppspretta velmegunar fyrir þjóð sína.  Íhugaðu, Chuang," hélt meistarinn áfram, ,,hvers konar leiðtogi ert þú.  Kannski liggur svarið sem þú leitar að í því."

Eins og leiftrandi ljós, laust sannleikanum niður í hjarta hertogans.  Stoltið vék fyrir smán og óvissu í upplýstum augum hans.  Chuang sá nú ekkert nema sólina rísa yfir vatnsfletinum.


Dæmisaga 1: Hljóð skógarins

Þetta er fyrsta af fimm austurlenskum dæmissögum sem lýsa því sem góður stjórnandi þarf að búa yfir.  Sagan er upprunin frá klaustri í Kyund Nam héraði í í Kóreu og birtist í Harvard Business Review í júlí-ágúst tölublaði 1992.

Hljóð skógarins - The sound of the Forest 

Aftur á þriðju öld eftir Krist, sendi Ts'ao konungur son sinn, T'ai prins, í klaustur til að nema undir leiðsögn hins mikla meistara Pan Ku.  Þar sem T'ai prins átti að taka við af föður sínum, átti Pan Ku að kenna honum grunnatriði þess að vera góður leiðtogi.  Strax og hann kom í klaustrið, sendi meistarinn prinsinn einan út í Ming-Li skóg.  Þar átti prinsinn að dvelja í eitt ár og koma svo aftur í klaustrið til að lýsa hljóðum skógarins.

Þegar T'ai prins sneri aftur, bað Pan Ku drenginn um að lýsa því sem hann hafði heyrt.  ,,Meistari," svaraði prinsinn, ,,ég heyrði gaukinn syngja, laufin skrjáfa, hunangsfuglana suða, krybbuna kvaka, grasið bærast, býið niða og vindinn hvísla og hrópa."  Þegar prinsinn hafði lokið máli sínu, sagði meistarinn honum að snúa aftur út í skóginn og leggjast betur við hlustir.  Prinsinn varð furðu lostinn yfir beiðni meistarans.  Var hann ekki búinn að greina öll hljóðin þegar?

Dag og nótt, sat ungi prinsinn aleinn í skóginum hlustandi.  En hann heyrði engin önnur hljóð en hann hafði þegar heyrt.  Það var síðan einn morgun, er prinsinn sat hljóður undir trjánum, að hann byrjaði að greina máttfara hljóð ólík þeim sem hann hafði heyrt áður.  Því betur sem hann lagði við hlustir, því skýrari urðu hljóðin.  Hugljómunartilfinning fór um drenginn.  ,,Þetta hljóta vera hljóðin sem meistarinn vildi að ég greindi," hugsaði hann með sér.

Þegar T'ai prins sneri aftur til klaustursins, spurði meistarinn hvað meira hann hefði heyrt. ,,Meistari," svaraði prinsinn fullur auðmýktar, ,,þegar ég lagði betur við hlustir, gat ég heyrt það sem eyrað nemur ekki - hljóðin í blómunum opnast, hljóðið í sólinni að verma jörðina og hljóðið í grasinu að drekka morgundöggina."  Meistarinn kinkaði samþykkjandi kolli.  ,,Að heyra það sem eyrað nemur ekki," bætti Pan Ku við, ,,er nauðsynlegur eiginleiki til að vera góður leiðtogi.  Því þá fyrst þegar leiðtoginn hefur lært að hlusta af nærgætni á hjörtu fólksins, heyrandi tilfinningar sem ekki eru tjáðar, sársauka sem haldið er aftur af og kvartanir sem ekki eru nefndar, getur hann vonast til að blása fólki sínu trausti í brjóst, skilja að eitthvað sé að og uppfylla raunverulegar þarfir þegna sinna.  Hnignun ríkja verður þegar leiðtogar þeirra hlusta aðeins á yfirborðsleg orð og fara ekki djúpt inn í sálir fólksins til að heyra raunverulegar skoðanir, tilfinningar og langanir þeirra."


Hvað gerir stjórnanda góðan?

Ég hef verið að velta því fyrir mér frá því að kosningarúrslitin voru kunn, af hverju Framsóknarflokknum var refsað í kosningunum en Sjálfstæðisflokknum umbunað fyrir nokkurn vegin sömu störf.  Ég fann að sjálfsögðu ekkert einhlítt svar við þessu og því reikaði hugurinn til greinar sem birtist í Harvard Business Review fyrir nokkuð löngu, nánar tiltekið í 4. tölublaði 70. árgangs (júlí-ágúst, 1992).  Ég held að fáar greinar hafi greipst eins vel í minni mitt og þessi (þó svo að ég hafi nú flett henni upp til að skrifa þessa færslu).  Í henni er verið að skoða dæmisögur um stjórnunarhæfileika (Parables of Leadership) og komist að þeirri niðurstöðu að eftirfarandi atriði skipti mestu máli þegar lýsa á góðum og árangursríkum stjórnanda (og kannski líka einstaklingi sem nær árangri í lífi sínu):

  • sá hæfileiki að heyra það sem ekki er sagt
  • auðmýkt
  • skuldbinding
  • sá hæfileiki að geta skoðað mál frá mörgum sjónarhornum, og
  • sá hæfileiki að skapa skipulag sem dregur fram sérstaka styrkleika hvers einstaklings.

 Nú getur hver og einn dæmt um það hvorum flokknum tókst betur að sýna þessa eiginleika og svo má spyrja hvort það hafi skipt máli.  Einnig má spyrja hvort breyttir tímar geri aðrar kröfur til stjórnenda.

Harvard Business Review fylgir ályktunum sínum eftir með 5 austurlenskum dæmisögum til að sýna betur hvers vegna blaðið taldi þessi atriði skipta svona miklu máli.  Vonandi gef ég mér tíma síðar til að þýða þær og birta hér á blogginu.


Talnalæsi/ólæsi

Í viðskiptablaði Morgunblaðsins er áhugaverð fréttaskýring Grétars Júníusar Guðmundssonar undir nafninu ,,Egg stóru bankanna eru í mörgum körfum í útlöndum".  Með fréttaskýringunni er rammagrein um aukin umsvif í nágrannalöndunum þar sem m.a. er tafla sem sýnir heildarútlán samstæðna viðskiptabankanna til erlendra aðila í árslok 2005 og 2006.

Utlan

 

 

 

 

 

 

Það sorglega við þess töflu að höfð eru endaskipti á tölum þegar breytingu milli ára eru reiknaðar. Í staðinn fyrir að reikna hve mikið tölur hækkuðu á milli ára, þá notað hlutfall útlána 2005 af útlánum 2006.  Það er náttúrulega svo arfavitlaust að ég bara skil ekki hvernig þetta slapp í gegnum prófarkalestur Morgunblaðsins.  Réttar upplýsingar um breytingar milli ára er að finna í töflunni hér fyrir neðan:

 

 

Árslok 2005 milljarðar kr.

Árslok 2006 milljarðar kr.

Breyting milli ára

Norðurlönd

1.410

2.326

65,0%

Bretlandseyjar

540

1.098

103,3%

Benelúxlöndin

296

969

227,4%

Þýskaland

44

121

175,0%

Norður-Ameríka

70

112

60,0%

Önnur Evrópulönd

20

108

440,0%

Önnur lönd

124

234

88,7%

Samtals

2.504

4.968

98,4%

 

Hér sjáum við að útlán hafa nær tvöfaldast á milli ára í stað 50%, útlánaauknin til annarra Evrópulanda er 440% í stað 19%.  Ég verð að viðurkenna, að mér finnst alveg lágmark að blaðamenn/starfsmenn viðskiptablaðs kunni að framkvæma tölulegan samanburð.  Sérstaklega þar sem þessi blöð rata um allan heim og inn á fjölmiðla og til greiningaraðila, sem skilja kannski ekki þann texta sem fylgir með. 


Hvernig á að bregðast við tölvuglæp?

Þessi spurning kom upp á ráðstefnu um upplýsingaöryggismál sem ég sótti sl. vetur.  Einn fyrirlesarinn lýsti því þegar hringt var í fyrirtæki hans eftir að klámvefur m.a. með barnaklámi uppgötvaðist á vef alþjóðlegs banka í ónefndu landi.  Einn starfsmaður bankans hafði sett upp klámvef á vefþjóni bankans og var hann opinn öllum.  Það voru að vísu engir tenglar á milli vefsvæðis bankans og klámvefsins og á vefnum kom hvergi fram hvar hann var hýstur.  IP-tölur voru það eina sem gátu tengt þetta tvennt saman.  Klámvefurinn hafði verið opinn í nokkurn tíma, jafnvel í 6 til 12 mánuði.  Hér var í veði orðspor bankans, sem gat orðið af milljarða viðskiptum ef þetta kæmist í hámæli, fyrir utan lögsóknir.  En hvað átti bankinn að gera?  Hvaða ráðgjöf átti ráðgjafinn að veita?  

Fyrir algjöra tilviljun var óvenjuhátt hlutfall ráðstefnugesta frá lögreglu hinna ýmsu landa og því spannst mjög fjörug umræða um málið.  Ráðgjafinn sagðist hafa mælst til þess að vefnum væri lokað umsvifalaust og svo haft samband við lögreglu.  Salurinn skiptist í tvær fylkingar við að heyra þetta.  Önnur fylkingin saman stóð af öryggisstjórum og eigendum fyrirtækja sem voru sammála, enda í húfi orðspor fyrirtækisins og ekkert annað skipti máli.  Í hinni voru lögregla og nokkrir ráðgjafar, sem sögðu að ekkert mætti gera fyrr en lögreglan kæmi á staðinn.  Og það er einmitt málið.  Það er með tölvuglæpi eins og aðra glæpi, að ekki má eiga við vettvang glæpsins.  Um leið og það er gert geta sönnunargögn tapast.  Það má varna því að hinn grunaði geti spillt vettvangi glæpsins eða hulið slóð sína, en það má ekki gera með því að loka aðgangi hins grunaða að tölvukerfinu.  Eina leiðin er að útiloka að hann komist í samband við tölvukerfið með því að fá hann í burtu frá öllum tölvum, t.d. setja hann í einangrun, kalla hann á fund eða láta hann erindast eitthvað, þar til lögreglan kemur á staðinn og getur hafið rannsókn á hinum meinta glæp.  Ef lokað hefði verið á aðgang utanaðkomandi aðila að klámvefnum, hefði hinn grunaði vel geta haldið því fram að þessi aðgangur hafi aldrei verið opinn.  Ef klámvefurinn hefði verið tekinn niður, hefði hinn grunaði átt auðvelt með að rökstyðja að vefurinn hafi aldrei verið virkur.  Ef aðgangi hins grunaða hefði verið lokað, þá hefði hann geta rökstutt að hann hefði aldrei haft aðgang að vefnum og því væri vefurinn honum óviðkomandi.  Jafnvel það að taka heildarafrit (ghosta) af þeim diskum, sem geyma vefinn með öllum stillingum og aðgangsstýringum, kemur ekki í staðinn fyrir þær sannanir sem lögreglan þarf til að hefja rannsókn málsins.

Um leið og lögreglan kemur á staðinn, er það hennar að ákveða viðbrögð.  Eftir að hún er búinn að safna þeim sönnunargögnum, sem hún telur nauðsynleg við rannsókn málsins, er fyrst hægt að loka vefnum eða aftengja tölvur.

Nei, bíddu við, segja vafalaust ýmsir.  Á að vera opinn aðgangur að barnaklámi í kannski marga klukkutíma meðan beðið er eftir því að lögreglan komi og rannsaki málið.  Já, þannig er það.  Það er enginn munur á tölvuglæp og öðrum glæpum að ekki má spilla sönnunargögnum.  Hvað hefði gerst, ef forstjóri fyrirtækisins hefði nú myrt einhvern á skrifstofunni sinni?  Hefði þá verið hringt í ráðgjafafyrirtæki úti í bæ til að bregðast við glæpnum?  Hefði líkið verið flutt úr stað, t.d. yfir á skrifstofu undirmanns, svo álitshnekkir fyrirtækisins hefði ekki verið eins mikill?  Að sjálfsögðu ekki (nema ætlunin hafi verið að hylma yfir með hinum seka).  Það er eins með tölvuglæpi.  Það fyrsta sem gera á, þegar eitthvað slíkt atvik uppgötvast sem rökstuddur grunur er um að teljist brot á lögum, er að tilkynna/kæra það til viðeigandi yfirvalda.  Grun um brot á hegningarlögum skal tilkynna/kæra til lögreglu.  Það eina sem starfsmenn fyrirtækisins, sem lendir í slíku atviki, mega gera er að fullvissa sig um að glæpur hafi verið framinn með uppflettingum eða fyrirspurnum í gagnasöfn, en þeir mega ekki breyta frumgögnum sem sýna að glæpurinn hafi átt sér stað.

(Tekið skal fram að þetta blogg er ekki skrifað með skírskotun í nýlegt dómsmál þar sem nokkrir einstaklingar nýttu sér forritunarmistök hjá Glitni.)


Hive er ekki eitt um þetta

Það er gott fyrir alla símasöluaðila og raunar líka þá sem nota tölvupóst, að kynna sér ákvæði fjarskiptalaga og eldri úrskurði Póst- og fjarskiptastofnunar um þessi mál.  Skoðum fyrst hvað fjarskiptalög segja:

46. gr. Óumbeðin fjarskipti.
  Notkun sjálfvirkra uppkallskerfa, símbréfa eða tölvupósts fyrir beina markaðssetningu er einungis heimil þegar áskrifandi hefur veitt samþykki sitt fyrir fram.
  Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að nota tölvupóstfang við sölu á vörum eða þjónustu fyrir beina markaðssetningu á eigin vörum eða þjónustu ef viðskiptavinum er gefinn kostur á að andmæla slíkri notkun tölvupóstfanga þeim að kostnaðarlausu þegar skráning á sér stað og sömuleiðis í hvert sinn sem skilaboð eru send hafi viðskiptavinurinn ekki þegar í upphafi hafnað slíkri notkun.
  Að öðru leyti en mælt er fyrir í 1. og 2. mgr. eru óumbeðin fjarskipti í formi beinnar markaðssetningar óheimil til þeirra áskrifenda sem óska ekki eftir að taka á móti þeim.
  Óheimilt er að senda tölvupóst sem þátt í beinni markaðssetningu þar sem nafn og heimilisfang þess sem stendur að markaðssetningu kemur ekki skýrt fram.
  Notendur sem nota almenna talsímaþjónustu sem lið í markaðssetningu skulu virða merkingu í símaskrá sem gefur til kynna að viðkomandi áskrifandi vilji ekki slíkar hringingar í símanúmer sitt.

 

Þetta þýðir að ekki má senda tölvupóst nema viðtakanda sé gefinn kostur á að hafna frekari sendingum og þó svo að hann hafi ekki gert það í fyrsta sinn, þá getur hann hafnað frekari sendingum á síðari stigum.  Í öðru lagi, þá gilda ekki bara bannmerkingar Þjóðskrár heldur einnig bannmerkingar símaskrár.  Sá sem hringir út verður því að kanna hvort númer sé bannmerkt áður en hringt er í það.  Það þýðir ekki að bera fyrir sig að viðkomandi hafi úthringilista sem hann fari eftir.  Bera þarf hvert einasta númer á úthringilistanum saman við skráningu númersins í nýjustu símaskrá eða með því að fletta því upp á ja.is.

Næsta er að velta fyrir sér hvað telst samþykki.  Fyrir þessu liggur einnig úrskurður Póst- og fjarskiptastofnunar í máli þar sem fjármálafyrirtæki var að kynna nýja þjónustu.  Málavextir voru eftirfarandi:

Viðskiptavinur sem hringt var í, var félagi í vildarþjónustu fjármálafyrirtækisins.  Fyrirtækið var að kynna þjónustu sína um viðbótarlífeyrissparnað, sem viðskiptavinurinn var ekki áskrifandi að.  Viðskiptavinurinn taldi að þar sem þessi þjónusta væri utan þeirra viðskipta sem hann átti við fjármálafyrirtækið, þá taldi hann sig varinn fyrir svona símtölum með bannmerkingu í símaskránni.  Póst- og fjarskiptastofnun tók undir kvörtun viðskiptavinarins og kom með eftirfarandi ákvörðunarorð:

,,B var óheimilt að hringja í bannmerkt símanúmer A, sbr. 5. mgr. 46. gr. laga um fjarskipti nr. 81/2003, í þeim tilgangi að ræða við hana um viðskiptakjör og aðra þjónustuþætti sem henni stæðu til boða sem viðskiptavinur bankans."

Hvað þýðir þessi úrskurður?  Tökum dæmi.  Ég er viðskiptavinur hjá Vodafone og kaupi þaðan Internetþjónustu.  Þar sem ég er með x-merkt símanúmer, þá er Vodafone og öllum undirfyrirtækjum þess óheimilt að hringja í mig til að bjóða mér aðra þjónustu fyrirtækisins, svo sem Og1, Fjölvarp eða þjónustu Mamma.is.  Á móti er Símanum bannað að hringja í mig og bjóða Internetþjónustu.

Ég, eins og aðrir landsmenn, verð fyrir talsverðu ónæði af hálfu símasölumanna.  Algengt er að slík símtöl hefjist á orðunum: ,,Hefður þú kynnt þér..." og hef ég tekið upp á þeim leiðindum að grípa frammí fyrir viðkomandi með orðunum ,,hefur þú kynnt þér bannmerkingar í símaskrá".

Þeir sem verða fyrir ónæði símasölumanna eiga rétt samkvæmt persónuverndarlögum að fá að vita hver er ábyrgur fyrir úthringingunni og fá samband við viðkomandi.  Ég hef nokkrum sinnum reynt þetta, en alltaf fengið þau svör að viðkomandi sé ekki við eða að ég geti ekki fengið samband við viðkomandi þar sem hann taki ekki símann!!

Eins og fyrirsögnin segir, þá er Hive langt frá því að vera eitt um að brjóta gegn fjarskiptalögum.  Ætli ég fái ekki svona 5 til 10 símtöl á mánuði frá aðilum sem telja sig yfir það hafna að fara að lögum. 


mbl.is Hive braut gegn fjarskiptalögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rýnt í tölur

Það er fróðlegt að skoða úrslit kosninganna og sjá hvað stutt var á milli feigs og ófeigs þ.e. hvað í raun örfá atkvæði hefðu geta haft veruleg áhrif á það hverjir hlutu kosningu og hverjir ekki.

  1. Það munaði aðeins 11 atkvæðum á 2. jöfnunarmanni/8. þingmanni Framsóknar og 1. jöfnunarmanni/25. manni Sjálfstæðisflokks.  Ef Framsókn hefði fengið 11 atkvæðum meira á landsvísu hefði Samúel Örn Erlingsson orðið þingmaður í stað Ragnheiðar Ríkharðsdóttur.
  2. Það munaði aðeins 0,06% að Mörður Árnason yrði 1. jöfnunarmaður Samfylkingarinnar í stað Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur.  Þessi 0,06% jafngilda 86 atkvæðum sem Samfylkingin hefði þurft að fá til viðbótar í Reykjavík norður eða 85 atkvæði sem Samfylkingin hefði fengið færri í Reykjavík suður.  Ef Mörður hefði komist inn, þá hefði farið í gang hringekja þar sem Guðfríður Lilja hefði komið í stað Álfheiðar Ingadóttur, Steinunn Valdís og Árni Páll hefðu fylgt Merði og Sigríður Andersen hefði komið í stað Ragnheiðar Ríkharðsdóttur.  Í þessu tilfelli hefði Jón Sigurðsson komið inn ef atkvæðin 11 hefðu dúkkað upp hjá Framsókn.
  3. Það munaði aðeins 57 atkvæðum að Róbert Marshall hefði verið kjördæmakjörinn á kostnað Bjarkar Guðjónsdóttur af D-lista.  Það hefði þýtt að Sjálfstæðisflokkurinn hefði fengið 2 jöfnunarmenn eins og Samfylkingin.  Nú hefði Álfheiður Ingadóttir farið inn, ásamt Steinunni Valdísi, Sigríði Andersen, Árna Páli og Ragnheiði Ríkharðsdóttir.  Í þessu tilfelli hefði ekkert getað bjargað Merði, en Samúel hefði ekki þurft nema 11 atkvæði á landsvísu til að fella Ragnheiði.
  4. Þá saumuðu Árni Páll og Ragnheiður stíft að Siv Friðleifsdóttur og vantaði Árna Pál 155 atkvæði og Ragnheiði 193 til að fella hana.  Það hefði að vísu bara haldið henni úti sem kjördæmakjörinni, en hún hefði komið inn sem jöfnunarmaður.
  5. Nú Framsókn vantaði aðeins 104 atkvæði til að fá tvo kjördæmakjörna í Norðvesturkjördæmi, sem hefði þá fellt út Einar Odd.  Þessi 104 atkvæði hefðu að auki tryggt annan jöfnunarmann, sem líklegast hefði orðið Jón Sigurðsson.
  6. Síðast má nefna að stjórnarandstöðuna vantaði aðeins 117 atkvæði til að fella ríkisstjórnina, þ.e. ef þau hefðu fallið Frjálslyndum í skaut.  Þar með hefðu Frjálslyndir ná 4. jöfnunarmanni sínum inn á kostnað Ragnheiðar Ríkharðsdóttur og Kaffibandalagið hefði náð markmiði sínu að fella stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.
Þetta er að sjálfsögðu allt til gamans gert, en ef haft er í huga hvað munaði mjóu á mörgum stöðum, þá er það alveg sjálfsögð krafa að það fari fram endurtalning.  11 atkvæði Framsóknar á landsvísu er ótrúlega lítið eða 117 atkvæði Frjálslyndra.  Auðvitað gæti endurtalning leitt ýmislegt annað í ljós.

Um hvað snýst framhaldið?

Mér finnst þessi umræða almennt vera á villugötum.  Það er staðreynd að stjórnin hélt velli.  Það er staðreynd að stjórnarsamstarfið hefur gengið mjög vel þessi 12 ár.  Það er staðreynd að stjórnarflokkarnir eru ánægðir með þann árangur sem hefur náðst, þó alltaf megi gera betur.  Það er staðreynd að þeir sjá ýmis tækifæri til að gera betur.  Það er staðreynd að þjóðarbúið stendur vel.  Það er staðreynd að atvinnulíf stendur hér í blóma, raunar svo miklum blóma að það vantar fólk til að vinna hin svo kölluðu láglaunastörf.  Hafi núverandi stjórnarflokkar trú á að þeir séu á réttri leið, þá er sjálfsagt og eðlilegt að þeir haldi áfram.  Þetta snýst ekki um hagsmuni einstakra manna.  Þetta snýst um hagsmuni þjóðfélagsins og að við töpum ekki öllu því sem áunnist hefur á undanförnum árum.  Þetta mál má aldrei snúast um stólana, heldur verður það að snúast um sannfæringu Framsóknar og Sjálfstæðisflokks að það sé þjóðinni fyrir bestu að samstarfinu sé haldið áfram.

ÉG held að það sé misskilningur að Framsókn sé of veik til að vera áfram í ríkisstjórn.  Raunar held ég að hinn litli þingstyrkur hennar verði til þess að menn vandi sig betur í málefnavinnu og hlusti betur á rödd þjóðarsálarinnar, því það er einmitt það sem hefur vantað undanfarin ár.  Ég held líka að það sé misskilningur, að vera utan stjórnar ætti að gefa Framsókn tækifæri til að styrkja sig og byggja upp.  Það reyndist Samfylkingunni ekki vel og ekki heldur Frjálslyndum.  Mætti þá ekki beita sömu rökum og segja að Vinstri græn ættu að vera áfram utan stjórnar, þar sem það væri pólitískt sjálfsmorð að fara í stjórn.  Þetta eru einfaldlega ekki rök sem halda.

Annað sem ég skil ekki eru gengdarlausar árásir Steingríms J. Sigfússonar á Framsókn.  Það fer meiri tími hjá honum að tala um Framsókn, en ágæti síns eigin flokks.  Er eitthvað í VG sem hann þorir ekki að ræða.  Svo til að kóróna allt, þá vill hann að flokkurinn sem hann hatast út í verji stjórn Samfylkingar og VG falli.  Þetta er svo hjákátlegt að hann dæmir sig sjálfan úr leik með þessu.

Ég vil viðurkenna hér og nú, að mín pólitíska hugsun er félagshyggjujafnaðarstefna, sem í augnablikinu á sér stað vinstra megin við miðju í Framsókn eða í hægri væng Samfylkingarinnar.  Ég er óflokksbundinn.  Ég hef einu sinni mætt á stjórnmálafund og það var fyrir ansi mörgum árum nokkrum dögum eftir að Valgerður fékk stólinn sinn.  Fundurinn var hjá Framsókn í Kópavogi.  Um þær mundir mældist Framsókn með 8% fylgi í skoðanakönnun sem var það lægsta sem flokkurinn hafði mælst þar til fyrir nýafstaðnar kosningar.  Á þeim fundi stóð Valgerður upp og sagðist vera ánægð með stöðuna, sem var náttúrulega með ólíkindum fyrir ráðherra flokks með fylgi um 15% undir síðasta kjörfylgi.  Ég stóð upp á þessum fundi og lýsti furðu minni á þessari ánægju Valgerðar og taldi nauðsynlegt að flokkurinn færi í naflaskoðun, ef hann ætlaði ekki að enda sína lífsdaga.  Ég hvatti flokkinn til að hlusta betur á þjóðarsálina, því það væri hún á endanum sem hefði framtíð flokksins í hendi sér.   Það eina sem gerðist í framhaldi af þessum fundi var að einn af frammámönnum flokksins í Kópavogi hringdi í mig og vildi steypa Siv úr stóli.  Þetta snerist ekki um að byggja upp flokkinn, heldur að rífa hann niður.  Ég ákvað með snarhasti að blanda mér ekki framar í innri mál Framsóknar.   Spá mín er aftur að einhverju leiti að rætast.  Þjóðarsálin hefur afgreitt Framsókn sem skoðunarlausan flokk, undirlægju Sjálfstæðisflokksins, sem þykir vænna um stólana sína en nokkuð annað.  Vilji flokkurinn afsanna þessa kenningu, þá getur hann gert tvennt:  Hrökklist úr stjórn undan þessum þrýstingi eða staðið keikur í stjórn með sín málefni á hreinu og hrint þeim í framkvæmd.  Ég kýs það síðara vegna þess sem ég nefndi að ofan.  Ég vil áfram árangur og ekkert stopp.


mbl.is Þingflokkur Framsóknarflokks á fundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drög að öryggisreglum fyrir fjarskiptanet

Póst- og fjarskiptastofnun hefur birt á vef sínum drög að tvennum reglum (reglugerðum) í tengslum við þær breytingar sem gerðar voru á fjarskiptalögum á síðasta starfsdegi Alþingis í vor.  Þó svo að reglunum sé fyrst og fremst beint að fjarskiptafyrirtækjum, þá er forvitnilegt fyrir þá sem er umhugað um net- og upplýsingaöryggi að kynna sér reglurnar.  Reglurnar má nálgast með því að smella á tenglana hér fyrir neðan:

1.  Reglur um virkni almennra fjarskiptaneta - Drög

2.  Reglur um vernd upplýsinga í almennum fjarskiptanetum - Drög

Fyrri reglurnar eru sértækari fyrir fjarskiptafyrirtækin, en þær síðari lýsa ýmsum atriðum sem er ætlað að tryggja vernd m.a. talsímaþjónustu, internetsamskipta og tölvupósts, þ.e. notkunar almennings og fyrirtækja á fjarskiptaþjónustu.  Tekið skal fram að þessar reglur ná ekki til internetþjónustuaðila, en reglur fyrir þá eru samkvæmt mínum upplýsingum í vinnslu og verða ekki gefnar út fyrr en á haustmánuðum.


Nú er ekki tími til að sleikja sárin.

Framsóknarflokkurinn varð fyrir miklu áfalli í kosningunum í gær og nú vilja sumir ráðamenn innan flokksins draga sig út úr ríkisstjórninni þar sem þeir vilja sleikja sár sín í næði úti í horni.  Mér finnst ekki vera mikil skynsemi í þessu, nema að þessir sömu aðilar hafi ekki verið sannfærðir um að ríkisstjórnin hafi verið að vinna að réttum málum.  Ef það er aftur sannfæring þessara aðila að ríkisstjórnin hafi verið að vinna að góðum málum og nú gefist tækifæri til að hnýta ýmsa lausa enda, þá verður flokkurinn að sætta sig við kinnhestinn, hysja upp um sig buxurnar og koma sér að verki.  Þetta snýst nefnilega ekki um Framsóknarflokkinn, eins og svo ítrekað var bent á í gærkvöldi, heldur velferð okkar hinna.  Árangur áfram - ekkert stopp, hljómaði í tíma og ótíma í kosningarbaráttunni.  Það er það sem nær helmingur landsmanna kaus í kosningunum, því að sjálfsögðu eru bæði stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sama sinnis.

Framsóknarflokkurinn hefur tvo kosti:  Annar er að víkja til hliðar og horfa á Sjálfstæðisflokkinn og líklega Samfylkinguna skera upp það sem flokkurinn hefur sáð til undanfarin 12 ár.  Og af hliðarlínunni getur flokkurinn horft á Sjálfstæðisflokkinn enn einu sinni berja sér á brjósti og eigna sér heiðurinn.  Hinn kosturinn er að halda áfram, finna sér viðspyrnu, eins og Jón Sigurðsson sagði í nótt sem leið, og byggja á því inn í framtíðina.  Hvað sem hver segir, þá hefur árangurinn verið mjög góður.  Raunhækkun útgjalda til heilbrigðis- og tryggingamála er slík að þau hafa nær tvöfaldast á undanförnum tólf árum.  Sama gildir um útgjöld til félagsmála.  Það getur verið að það hafi ekki verið nóg, en þá er bara að gera betur.  Staða Íslands í samfélagi þjóðanna hefur aldrei verið betri.  Íslenska útrásin, sem er einstök sama hvert er litið, átti sér stað með ráðherra Framsóknar í ráðuneytum viðskipta- og bankamála og í utanríkisráðuneytinu, en áherslur þess hafa breyst frá því að vera pólitískþjónusta yfir í að vera utanríkisviðskiptaþjónusta.  Þessum árangri verður stefnt í voða, ef annar hvor vinstri flokkanna á að koma í staðinn fyrir Framsókn í ríkisstjórn.


mbl.is Verið að skoða ýmis mál varðandi hugsanlegt samstarf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband