Leita í fréttum mbl.is

Kristilegt siðgæði

Kristilegt siðgæði er nú allt í einu orðið að bitbeini vegna þess að í frumvarpi að nýjum/breytingum á grunnskólalögum er gert ráð fyrir að þessi tvö orð falli út.  Það er gert á þeirri forsendu að taka eigi tillit til breytinga í þjóðfélaginu.  Í staðinn eiga að koma nokkur orð sem bæta eiga upp inntak þess siðgæðis sem við köllum kristilegt.

Ég verð að viðurkenna að ég hef lítið lesið af því sem ritað hefur verið um þetta efni á öðrum bloggþráðum og því getur verið að einhver hafi sagt áður það sem ég ætla að segja.

1.  Kristilegt siðgæði hefur í sjálfu sér ekkert með trú að gera.  Það er safn skynsamlegra atriða sem svo vill til að haft er eftir Kristi í Nýja testamentinu.  Þessi atriði eru vissulega hluti kristinnar trúar, en eru ekki trúin sjálf, þar sem hún gengur út á tilganginn með fæðingu, lífi og dauða Krists.  Undir kristilega siðgæði fellur t.d. bara sumt af því sem Kristur sagði, en mjög margt af því sem hann gerði.

2.  Öll þau atriða, sem teljast til kristilegs siðgæðis, koma fram í öðrum siðferðisboðskap, svo sem Bókinni um veginn, Hávamálum, grískri heimspeki, kenningum Búdda, kenningum spámannsins (Íslam), Bhagavad Gita, Vedabókunum, kenningum Tíbetans og svona mætti lengi telja.  Vissulega koma þau ekki í heilu lagi fyrir í neinu ofangreiddra rita, en í þeim koma líka ýmis atriði sem gætu hæglega talist til kristilegs siðgæði án þess að falla undir texta guðspjallanna.

3.  Kristilegt siðgæði er það siðgæði sem við byggjum lög þessa lands á og raunar þjóðfélagið í heild.  Við viljum halda í þetta siðgæði, þó svo að menn kalli sig húmanista, siðleysingja, ásatrúar, búddista, íslamista, kristna eða hvað það nú er, vegna þess að grunnur kristins siðgæðis er virðing.  Gullna reglna, eins og hún er nefnd, (það sem þér viljið að mennirnir gjöri yður, skulið þér og þeim gjöra) er grunnur kristilegs siðgæðis, en ekki bara kristilegs siðgæðis heldur siðgæðis flestra trúarbragða og menningarheima vegna þess að hún er nokkurn veginn allt sem segja þarf.  Í henni kemur fram krafa um virðingu, umburðarlyndi, tillitssemi, frið og næði, tækifæri til vaxtar, menntunar, mannsæmandi lífs, frelsi til athafna og tjáningar svo fremi sem það meiði ekki, líf án ofbeldis, þvingana og yfirgangs, mannréttindi o.s.frv.

4.  Kristilegt siðgæði er miklu meira en það sem á að koma í staðinn í grunnskólalögin.

5.  Kristilegt siðgæði er engin ógn við "annað" siðgæði, en með orðanotkuninni fáum við tilvísun í hvað er átt við.  Kristilegt siðgæði útilokar ekki aðrar siðareglur, þó þær séu andstæðar inntaki kristilegs siðgæðis, þar sem einn af hornsteinum kristilegs siðgæðis er umburðarlyndi.

6.  Kristilegt siðgæði er ekki ógn við önnur trúarbrögð en kristni eða trúleysi, vegna þess að það mismunar ekki fólki.  Því er öfugt farið með kristna trú, vegna þess að hún stundar trúboð sem byggir á því að ein trú sé annarri betri.

Það er sorglegt að tilraun til pólitískra rétthugsunar sé farin að breyta grunngildum samfélagsins.  Samfélags sem byggst hefur á þessum grunngildum, þó vissulega hafi ekki alltaf verið eftir þeim farið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Ein ástæða fyrir því að það er gott að breyta orðalaginu (enda telur ráðherran t.d. að þetta sé bara orðalagsbreyting) er sú að ýmsir kristniboðar hafa réttlætt trúboð í opinberum skólum með tilvísun í "kristið siðgæði" í lögunum.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 30.11.2007 kl. 13:30

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hjalti, ég er algjörlega á móti trúboði í skólum, en fylgjandi því að skólar leyfi prestum (frá hvaða söfnuði sem er) að koma í þá til að halda hugvekju.  Í morgun var ég t.d. í Ísaksskóla þar sem prestur kom til að fræða börnin um aðventuna.  það hlýtur að vera hægt að halda grunngildum þjóðfélagsins í markmiðum grunnskólalaganna, en halda trúboðinu utan skólanna.

Marinó G. Njálsson, 30.11.2007 kl. 13:42

3 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Marinó, ég efast reyndar um að prestur getur sagt börnunum eitthvað um jólin sem kennarar geta ekki frætt þau um.

Varðandi grunngildi samfélagsins, þá held ég að orðalag nýju laganna nái betur utan um þau. Það eru til dæmis engir tveir kristnir menn sammála því hvað kristilegt siðferði er. Í nýju lögunum er til dæmis minnst á jafnrétti, svolítið sem Jesús minnist ekkert á í guðspjöllunum.

Værirðu sáttari við orðalagið: "almennt siðferði"?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 30.11.2007 kl. 13:53

4 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Sammála þér Marinó.

Gestur Guðjónsson, 30.11.2007 kl. 15:10

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hjalti, ég vona að "almennt siðferði" sé "kristilegt siðferði".  Gallinn við "almennt siðferði" er að við höfum ekkert grundvallarrit eða kennisetningu, þar sem er almennt viðurkennd skilgreining á hvað "almennt siðferði" er.  Við höfum alls konar sálfræðirit og heimspekirit sem fjalla um almennt siðferði, en ekkert þeirra er hið eina sanna grundvallarrit.  Þó ég sé ekki vanur að nota Biblíuna sem eitthvað leiðarljós og vitna sjaldan í hana, þá er siðferðisspeki Krists samt skjalfest þar og við ákváðum fyrir rúmum 1000 árum að hún (þ.e. siðferðisspekin) yrði okkar lög.  Meðan við afnemum ekki þessi lög, þá er eðlilegt og sjálfsagt að halda okkur við það.  Ég reikna með því að Saudi-arabar byggi á Íslömsku siðferði og meirihluti Indverja á siðferði hindúa.  Ég ætlast ekki til þess að Saudi-arabar taki upp kristilegt siðferði og á sama hátt reikna ég ekki með að þeir geri kröfu um að við tökum upp Íslamsk siðferði.

Marinó G. Njálsson, 30.11.2007 kl. 15:28

6 Smámynd: Þórgnýr Thoroddsen

„Við höfum alls konar sálfræðirit og heimspekirit sem fjalla um almennt siðferði, en ekkert þeirra er hið eina sanna grundvallarrit.“

Því síður er Biblían hið eina sanna grundvallarrit. Hún er sett saman úr hinum ýmsu ritum. Það sama hefði mátt gera við fleiri fleiri heimspekileg rit sem skrifuð voru á undan biblíutextunum.

kv.

Þórgnýr Thoroddsen, 30.11.2007 kl. 16:07

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þórgnýr, ég verð að viðurkenna að mér finnast athugsemdir þínar einkennilegar í ljósi þess sem sagt hefur verið, fyrir utan að mér þykir hluti þeirra dónaleg og bera vott um siðferðisbresti (sama hvort miðað er við "almennt" eða "kristilegt" siðferði) svo ekki sé meira sagt.  Af þessum sökum mun ég eyða út fyrri athugsemdinni þinni.  En hafir þú ekkert nema upp á dónaskap að bjóða, þá bið ég þig um að beina athugasemdum þínum eitthvað annað.  Ef þú vilt málefnalega rökræður, þá er ég alveg til í að eiga þær við þig. 

Guðspjöll Nýja testamentisins eru grundvöllur þess sem við köllum kristilegt siðferði og eru því grundvallarrit um kristilegt siðferði.

Marinó G. Njálsson, 30.11.2007 kl. 16:41

8 Smámynd: Þórgnýr Thoroddsen

Þá það, við horfum þá framhjá fyrri athugasemdinni (ekki eins og ég hafi neitt um það að segja, en ég samþykki skoðun þína).

Þú segir: Guðspjöll Nýja testamentisins eru grundvöllur þess sem við köllum kristilegt siðferði og eru því grundvallarrit um kristilegt siðferði.

Einmitt, og það er það sem menntamálaráðherra hefur ákveðið að reyna að losna við. Það er engum til ama að taka upp almennt siðferði því þar innan er m.a. boðskapur kristilegs siðferðis.

kv.

Þórgnýr Thoroddsen, 30.11.2007 kl. 16:48

9 Smámynd: Hrannar Baldursson

Ég hef ekki kynnt mér þetta mál nógu vel, en áhugavert er það. Málið er að siðferði á Íslandi virðist hafa þversnúist síðustu árin. Áður fylgdi þjóðfélagið því sem hægt er að kalla kristið siðferði, betur þekkt erlendis sem "trancendentalism" þar sem hver einstaklingur er óendanlega verðmætur og að hamingja hvers og eins skiptir máli fyrir allt þjóðfélagið.

Við höfum hins vegar verið að snúast til nytjahyggju (utilitarianism), sem mér finnst reyndar afar vafasöm siðfræðikenning, þar sem allt er í lagi að fórna fáum fyrir heildina. Þar eru það markmiðin og lokatölurnar sem skipta öllu máli. Þetta siðferði einkenndi nasisma og fasisma; og ég rétt vona að þetta verði ekki ofan á hér heima á Íslandi.

Ég myndi fyrir mitt litla líf ekki vilja skipta út okkar gamla góða íslenska siðferði fyrir "almennt siðferði", eins og Bandaríkjamenn búa við.

Ég er sammála greiningu Marínós, að kristið siðferði sé ekki það sama og að vera sannkristinn eða guðrækinn eða eitthvað slíkt. En ljóst er að siðferði á Íslandi á undir högg að sækja. 

Hrannar Baldursson, 30.11.2007 kl. 17:42

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Miðað við það sem ráðherra sagði í dag í 24 stundum, þá var það alls ekki ætlun hennar að úthýsa kristilegu siðferði, þó svo að það væri tekið úr lögunum.  Mitt blogg er heldur ekki til að amast út í ráðherra, heldur frekar að opna umræðu og viðra mína skoðun um stöðu kristilegs siðgæðis í okkar þjóðfélagi.  Manngildisstefna húmanista (eins og ég skil hana) fjallar um gildi sem eru að mörgu leiti sambærileg gildum kristilegs siðferðis.  Það er ekki eðlismunur þar á, kannski stigsmunur.  Sama á við siðferðisgildi flestra trúarbragða.  Það er helst að einhverjar hreyfingar stjórnleysingja hafi önnur gildi. Undantekningarnar snúast helst um hvort birta megi myndir af helgum persónum eða ekki og hver fjöldi þeirra er.

Marinó G. Njálsson, 30.11.2007 kl. 17:43

11 identicon

Ég átta mig ekki á því hvað það er sem menn eiga við með kristnu siðgæði. Eins og þú bendir á Marínó eru ákveðin gildi sem eru í fleiri trúarbrögðum og sem ég myndi jafnvel kalla sam-mannleg. Við eru td. öll sammála um að maður á ekki að drepa, ljúga, stela og gullna reglan er alls ekki bundin við kristni eingöngu. Mér sýnist því þú falla í þá gildru að þar sem við köllum okkur kristin og þar sem við höfum siðferði þá hljótum við að vera með kristið siðgæði. Þetta er svolítið eins og að kalla alla bíla Volvo.

Þá er það ekki rétt hjá þér að lögin okkar séu  grundvölluð á kristni. Það má til dæmis greina germönsk áhrif sem ná langt aftur fyrir kristni og Bonus pater, sem er lykilhugtak í skaðabótarétti, kemur úr rómarrétti.

Og svo ef mér leyfist smá útúrdúr: fólk hefur verið að hneykslast á því að Siðmennt vilji banna litlu jól og trúarbragðafræðslu. Þá eru menn hinsvegar að gera félaginu upp skoðanir sem það hefur ekki. Það hefur td. ekki amast við trúarbragðafræðslu, en hefur gert athugasemdir við að fræðslan sé einskorðuð við lúterska kristni og eins hefur ekki verið talið við hæfi að börnum sé gert að fara með bænir (sem er ekki óalgengt í íslenskum skólum) en það er hreinlega brot á stjórnarskránni.

Jon Petur (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 18:26

12 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Hjalti, ég vona að "almennt siðferði" sé "kristilegt siðferði".

Það fer eftir því hvað "kristilegt siðferði" er. 

Gallinn við "almennt siðferði" er að við höfum ekkert grundvallarrit eða kennisetningu, þar sem er almennt viðurkennd skilgreining á hvað "almennt siðferði" er.

Nú skil ég ekki hvað þú átt við með því að það sé galli að það sé ekki til neitt "grundvallarrit eða kennisetning" sem skilgreinir "almennt siðferði". Ælti upptalningin í nýju lögunum sé ekki bara fín skilgreining?

 Þó ég sé ekki vanur að nota Biblíuna sem eitthvað leiðarljós og vitna sjaldan í hana, þá er siðferðisspeki Krists samt skjalfest þar og við ákváðum fyrir rúmum 1000 árum að hún (þ.e. siðferðisspekin) yrði okkar lög. Meðan við afnemum ekki þessi lög, þá er eðlilegt og sjálfsagt að halda okkur við það. 

Nú bara veit ég ekki hvers vegna þú heldur að lögin okkar byggist á "siðferðisspeki Krists". Hvaða lög þyrfti að afnema til þess að lögin okkar væru ekki lengur byggð á siðferðisspeki Krists?

Gott dæmi um að þetta sé ekki raunin eru hjúskaparlög. Í grundvallarriti kristins siðgæðis segir siðferðisspekingurinn Kristur að það sé rangt að giftast fráskilinni konu.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 30.11.2007 kl. 19:51

13 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég skýrði það út í blogginu að það sem (a.m.k.) ég tel vera kristilegt siðgæði í því samhengi sem hér er verið að ræða, er fjölmargt af því sem skráð er í guðspjöllum Nýja testamentisins að Kristur hafi sagt og gert.  Ég tók sérstaklega Gullnu regluna sem dæmi um þetta.  Þessi atriði eru þau atriði sem ekki teljast til trúarboðskaps heldur eru tengd mannlegri hegðun.  Ég benti líka á að þessi gildi eru sameiginleg mörgum öðrum trúarbrögðum/reglum þar á meðal húmanistum og, að því ég best veit, Siðmennt.

Hjalti, ég notaði orðið lög á sama hátt og Þorgeir ljósvetningagoði notaði orðið, þegar hann talaði um að hafa ein lög í landinu. 

Marinó G. Njálsson, 30.11.2007 kl. 21:31

14 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég var á hraðferð, þegar ég setti inn athugsemd fyrr í kvöld.

Það virðist gæta einhvers misskilnings að ég sé að eitthvað sérstaklega að ræða um kristilegt siðgæði innan grunnskólanna.  Ég er ekki að því.  Ég er að tala um kristilegt siðgæði sem grundavallar siðgæði þjóðarinnar sem byggir þetta land.  Okkar túlkun/útfærslu á því kristilega siðgæði sem kemur fram í guðspjöllunum og við tókum í lög árið 1000.  Ekki landslög í þeim skilningi og þau lög sem sett eru á Alþingi nú á dögum.  Nei, þar á ég við siðareglur þjóðarinnar á sama hátt og Þorgeir Ljósvetningagoði meinti.

Ég get alveg viðurkennt að þetta siðgæði hefur þróast og víkkað í túlkun okkar og með þekkingu á siðgæðisgildum annarra menningarheima en við höfum samt bara tekið inn þau gildi sem við teljum passa inn í okkar samfélag.  Þannig höfnum við stéttskiptingakerfi hindúa, bókstafstrú margra kristinna trúflokka og öfgahyggju frá öðrum trúarbrögðum.  Við erum farin að viðurkenna réttarstöðu fólks sem var útskúfað frá samfélaginu eða varð að vera í felum með tilfinningar sínar og trúarskoðanir.  Jafnrétti kynjanna var ekki mikilsmetið á tímum Krists og hafði ekki breyst mikið árið 1000.  Síðustu 100 ár hefur sem betur fer orðið mikil breyting þar á og það er farið að endurspeglast í túlkun okkar á kristilegum siðgæðisgildum.  Okkur þykir sjálfsagt að karlar og konur séu jafningjar þó svo að því marki sé ekki að fullu náð.

Marinó G. Njálsson, 1.12.2007 kl. 00:31

15 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Eitthvað er þetta nú gloppótt hjá þér Marinó, ef þú heldur að kristnir hafi fundið upp siðferði. Heiðnir menn sem hér stofnuðu til Alþingis árið 930 höfðu að kjörorði að "með lögum skyldi land byggja" , sem þýðir að menn gátu ekki sótt rétt sinn nema fyrir atbeina dómsúrskurðar.   Þeir grundvölluðu sið sinn á drenglyndi, umburðalyndi og virðingu fyrir náttúrunni. Þá er talið að framfærsluskylda skyldmenna og hreppar eigi ser rætur í fyrstu tíma þjóðveldis. 

Á Biblíubeltinu í USA er nánast 100% stuðningur við aftökur samanborið við um helming annarsstaðar. Ég treysti því að það sé ekki þess konar siðfræði sem þú óskar að innleiða enda segistu hafa sama skilning á siðferði og Þorgeir Ljósvetningagoði, sem var heiðinn maður. 

Sigurður Þórðarson, 1.12.2007 kl. 10:07

16 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Sigurður, ég hef aldrei haldið því fram að kristnir hafi fundið upp siðferði og bendi ég á í blogginu að:

2.  Öll þau atriða, sem teljast til kristilegs siðgæðis, koma fram í öðrum siðferðisboðskap, svo sem Bókinni um veginn, Hávamálum, grískri heimspeki, kenningum Búdda, kenningum spámannsins (Íslam), Bhagavad Gita, Vedabókunum, kenningum Tíbetans og svona mætti lengi telja.

Mörg af þessum ritum eru mun eldri en 2000 ára og því gæti Kristur alveg eins hafa sótt hugmyndir sínar þangað, eins og að hafa fengið þær eftir öðrum leiðum. 

Ég hef líka sagt að við Íslendingar höfum okkar útfærslu af kristilegu siðgæði og tek ég undir með Hrannari að ekki vildi ég búa við bandarísku útgáfuna af því.  Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, er ekki kristilegt siðgæði, því Kristur bauð mönnum að bjóða hina kinnina og fyrirgefa þeim sem gerðu á hlut þeirra. 

Marinó G. Njálsson, 1.12.2007 kl. 11:13

17 identicon

Sælt veri fólkið.

Nýlega voru börn spurð af hverju við myndum halda jól. Þau vissu það ekki.

Hjalti skrifar: Marinó, ég efast reyndar um að prestur getur sagt börnunum eitthvað um jólin sem kennarar geta ekki frætt þau um. Eitthvað er nú ábátavant.

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir (IP-tala skráð) 1.12.2007 kl. 16:54

18 Smámynd: Ingólfur

Sæll Marinó,

Ég er samála því að gott sé að halda í siðferði þjóðarinnar, en ég er ekki samála því að hægt sé að kalla það kristilegt siðferði.

Það eru nefnilega mörg samfélög, mun kristnari en kristnir íslendingar, sem fara eftir kristnu siðferði sem við myndum aldrei skrifa upp á. Eins er margt mikilvægt í siðferði þjóðarinnar sem hvergi er að finna í orðum Krists. Þessvegna segir kristilegt siðferði (eða siðgæði) ekki neitt um hvernig það er annað en að það tengist kristinni trú, enda hefur þetta ákvæði verið notað til þess að verja trúboð í skólunum.

Ég gæti alveg sæst á að kalla þetta íslenskt siðferði en það svo sem þarfnast líka frekari skilgreiningar.

kveðja
fyrv. nemandi IR
Ingólfur Harri

Ingólfur, 1.12.2007 kl. 18:06

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ingólfur, ég sagði í athugsemd nr. 17 að við værum með okkar útfærslu, en hún fellur samt undir kristilegt siðgæði.  Ég er alveg sammála þér að fullt af hópum (og hugsanlega þjóðum) eru með kristilegt siðferði sem a.m.k. ég mundi aldrei skrifa upp á.

Það er eitt sem ég hef aldrei geta skilið í umræðunni á þessu þræði, en það er þetta tal um trúboð í skólum.  Hvað er átt við með því?  Eru það heimsóknir presta á aðventunni?  Er átt við að verið sé að skreyta skólana fyrir jólin?  Er átt við kristnifræðikennslu í skólum? Getur einhver skýrt þetta út fyrir mér? 

Nú er ég ekki trúrækinn maður og stend utan þjóðkirkjunnar.  En það angrar mig ekki neitt að prestur komi einu sinni til tvisvar á ári í skóla barnanna minna til að minna þau á af hverju við höldum jól.  Það er út af atburði sem gerðist fyrir um 2000 árum, en ekki vegna þess að það þarf að halda uppi verslun í landinu.  Það er til að vekja athygli barnanna á því fyrir hvað maðurinn stóð sem fæddist í Betlehem á því ári sem markar upphaf okkar tímatals.  Hann stóð ekki fyrir einhver trúarbrögð, þau komu síðar og hafa að mínu mati ekkert staðið sig alltof vel í að vera trú þeirri hugsjón sem hann stóð fyrir, þ.e. umburðarlyndi, kærleika og virðingu.  Ef ég væri Íslendingur af öðrum trúarbrögðum og vissi ekkert alltof mikið um upphaf kristninnar trúar, þá væri ég forvitinn um það af hverju við höldum þessi blessuðu jól.  Í mínum huga er þetta ekki trúboð.

Marinó G. Njálsson, 1.12.2007 kl. 21:06

20 Smámynd: Ingólfur

Trúboðið fellst í mörgu, en aðallega í "kristinfræðslunni". Hún er nefnilega kennd í flestum tilfellum sem staðreynd en ekki sem saga eða siðir kristinna. Börnin eru látin fara með bænir og svo fara allir nemendur í kirkjuna einu sinni á ári þar sem presturinn messar yfir þeim.

Reyndar geta foreldrar krafist þess að þeirra barn sleppi frá þessu en þá eru þau yfirleitt send á bókasafnið þar sem þau húka ein að vinna eitthver verkefni. Flestir foreldrar sleppa því að biðja um það, þó þeir séu á móti svona trúboði, vegna þess að börnin eru hrædd við að vera stimpluð öðruvísi.

Seinna fá börnin aðeins að kynnast öðrum trúarbrögðum en þó ekki af alvöru fyrr en þau hava hafið fermingarfræðslu. Sú kennsla er hins vegar allt öðru vísi en kristinfræðslan og snýst meira um að kenna hvað fólk trúir á í öðrum löndum (eins og íslendingar geti ekki trúað því)

Annars skaltu bara kíkja í námsbækurnar. Í sumum eru t.d. dæmisögur sem eigi að kynna börnunum hvernig krakkar hafa það í öðrum löndum. Ein var á þá leið að krakki í Afríku varð svakalega veikur. Mamman vildi fara með hann í kristniboðstöðina þar sem þeir voru með vestræn lyf, á meðan pabbinn vildi treysta á töfralækninn. Sagan endaði á því að mamman fór með krakkann til góðu kristnu læknanna, í óþökk pabbans, og þá læknaðist hann.

Það eru einnig aðrir þættir í skólanum sem flokkast undir trúboð eða allavega brot á trúfrelsi, en ég læt þetta næja því þetta er það alvarlegasta.

Ég sé ekkert að því að hengja upp músarstiga í skólastofunum, eða jafvel teikna jesú í jötunni. Mér finnst líka alveg sjálfsagt að tala um uppruna jólanna, en tel að þá ætti líka fylgja með að flest samfélög á norðurhveli jarðar hafa í þúsundir ára fagnað hækkandi sól á þessum tíma.

Ingólfur, 1.12.2007 kl. 22:05

21 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ingólfur,  ég veit ekki hvort þú átt barn í skóla, en ég á fjögur sem ýmist eru í grunnskóla eða hafa lokið honum.  Ég verð bara að viðurkenna að ég kannast ekki við neitt af þessu sem þú ert að tala um í samhengi við trúboð.  Ég hef farið með þeim í krikju fyrir jól og þar hefur aldrei verið predikað.  Þetta hefur verið hátíðarstund.  Prestar hafa komið til þeirra í skólann og ég hef aldrei heyrt þá predika.  Þetta hefur verið stutt hugvekja/helgistund.  Ég hef farið með þeim í gegnum námsefni í kristinfræði og það hefur vissulega verið fullt af dæmisögum, en þær hafa nær allar verið úr Gamla testamentinu sem mér finnst lítið eiga skylt við kristni, þar sem saga Krists er sögð í guðspjöllum Nýja testamentisins.  Mér hefur raunar fundist það furðulegt hvað við leggjum mikla áherslu á trúarsögu gyðinga (án þess að ég hafi nokkra fordóma gagnvart gyðingum) úr Gamla testamentinu, þegar sú trúarsaga er í fæstu lík kenningum Krists úr Nýja testamentinu.

En talandi um trúfrelsi.  Ég hef tekið eftir því í umræðunni upp á síðkastið, að talsmaanni Siðmenntar finnst í lagi að halda sumum hefðum sem tengjast trúnni, þ.e. litlu jólin, jólafrí og páskafrí, og hann hefur ekki andmælt fríi á Uppstingingardag eða Hvítasunnu.  Ég er líka alveg viss um að margir sem ekki eru kristnir halda jólin hátíðleg (þá ekki í merkingu heilög) og taka þátt í flestu því sem jólunum viðkoma.  Leiðréttu mig, ef ég fer með rangt mál.  Er jólatal þá bara bannað ef það kemur frá kristnum presti?  Það er í lagi að syngja um Jesúbarnið á litlu-jólum eða Heims um ból.  Eða á kannski að syngja bara samþykkta söngva?  Eða munu börn þeirra sem ekki eru kristnir ekki mæta á litlu-jólin?  Ég veit af fólki í kristnu trúfélagi hér á landi sem leigir sér orlofsbústaði um hver jól til að fara burt frá glysjólunum okkar.  Þetta fólk fagnar ekki jólum á þann hátt sem við gerum.  Það heldur ekki upp á afmæli og börn þeirra fara ekki í afmæli bekkjarfélaga sinna.  Ég ber virðingu fyrir slíkri staðfestu, en þetta fólk kvartar ekki yfir því opinberlega að brotin séu mannréttindi á því þó skólarnir hampi jólunum og öðrum kristnum trúarhátíðum, þrátt fyrir að það sé í andstöðu trúarkenningar þess.  Það virðir það að yfir 90% af landsmönnum hefur þessa siði og áttar sig á því að það verður að laga sig að fjöldanum, en ekki fjöldinn að þeim.  Foreldrar hafa val um að börn þeirra sæki ekki kennslu í kristinfræði í grunnskóla.  Skólarnir hafa sumir komið með það úrræði að leyfa þessum börnum að setjast inn á bókasafnið.  Ekki kenna skólunum um að þessum börnum líði sem þau séu öðruvísi, það voru foreldrarnir sem tóku ákvörðunina.  Skólarnir hafa ekki mörg úrræði, þegar mæta þarf sérþörfum, hverjar sem þær eru.  

Ég mundi gjarnan vilja að sleppt væri að kenna sköpunarsöguna í skólum, þar sem ég hef nákvæmlega enga trú á að heimurinn hafi verið skapaður á 6 dögum.  Ég held raunar að kenningin um Stóra-hvell gefi ekki heldur svar um uppruna alheimsins, en ef við sleppum þessum svo kölluðu "fyrstu þremur sekúndum", þá er það mun raunhæfari kenning en sköpunarsagan. Það er bara þannig, að maður getur ekki ætlast til þess að skólarnir elti alla duttlunga foreldra og það er ekki hægt að skýla sér bakið mannréttindi, þar sem það eru jafngild mannréttindi að fá aðgang að upplýsingum til að vinna úr.  Eru, t.d., trúleysingjar að brjóta mannréttindi á börnum sínum með því að leyfa þeim ekki að kynnast trúarbrögðum bekkjarfélaga sinna?  Hafa þau ekki sama rétt til að láta ferma sig í kirkju (og hafna þar með skoðun foreldra sinna) og börn sem skírð hafa verið til kristni að hafna staðfestingu skírnarinnar og fermast ekki, hugsanlega í andstöðu við vilja foreldra sinna.  Virkar þetta kannski bara í aðra áttina?  Hvernig eiga börn trúleysingja að geta tekið ákvörðun um að hafna afstöðu foreldra sinna, ef þau hafa ekki aðgang að upplýsingunum?

Ég tek það fram, að þegar ég tala um trúleysingja, þá er ég að tala um þá sem hafna allri trú, þ.e. telja sig ekki tilheyra neinni trúarhreyfingu, trúfélagi eða trúarbrögðum.  

Marinó G. Njálsson, 2.12.2007 kl. 03:02

22 Smámynd: Ingólfur

Ég á reyndar ekki börn í grunnskólanum en þekki þó vel til gunnskólans og hef kynnt mér aðeins námsefnið í kristinfræsðunni.

Ég er alls ekki að leggja það til að litlu jólin verði bönnuð eða ákveðnir jólasöngvar. Ég er heldur alls ekki á móti því að börnin séu frædd um trúarbrögð og finnst meira að segja sjálfsagt að þau læri meira um kristni (og heiðni) en önnur trúarbrögð.

Ég tel það hins vegar óásættanlegt að börnum sé kennd að kristni sé sönn og sé það sem við trúum á, á meðan önnur trúarbrögð eru nánast kynnt sem eitthvað sem fólk í öðrum löndum trúir á.

Jafnvel þó 90% foreldra væru kristnir, sem kannanir hafa sýnt að stenst ekki, að þá er það ekki skólanna að veita trúarlegt innræti. Þetta er því alveg ósambærilegt við eitthverjar séróskir um hvaða menntun börnin fá, en meira sambærilegt við að stefna eins stjórnmálaflokks væri kennd í skólunum.

Ég held að flestir "trúleysingjar" leggi áherslu á það að börn þeirra kynni sér sjálf hin ýmsu trúarbrögð og taki eigin ákvörðun.

Ingólfur, 2.12.2007 kl. 13:31

23 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ingólfur, í hverju felst þetta "trúarlega innræti"?  Það er svo gaman að sjá hvernig orðum og hugtökum er slengt fram án þess að skýrt sé út hvað felst í þessu.

Yfir 90% Íslendinga tilheyra kristnum söfnuðum (82% í Þjóðkrikjunni og 9% í öðrum kristnum söfnuðum samkvæmt því sem biskup sagði í viðtali á fimmtudaginn).  Það er ekkert óeðlilegt að álykta að þeir sem tilheyri kristnum söfnuði séu kristnir.  Þeir þurfa aftur hvorki að vera sanntrúaðir né trúræknir.

Ég heyrði í Silfri Egils áðan að einhver leikskóli hafi boðið presti í vikulega/mánaðarlega (man ekki hvort var sagt) heimsókn til að fræða börnin um Jesú.  Ég get tekið undir að þar sé of langt gengið, enda á slík fræðsla heima í sunnudagaskólum fyrir þá sem vilja.  Ég skilið að slíku sé mótmælt, en þetta eru undantekningar (eftir því sem ég best veit) og það má ekki stimpla allt skólakerfið út frá slíkum undantekningum.

Marinó G. Njálsson, 2.12.2007 kl. 14:08

24 Smámynd: Ingólfur

Trúarlegt innræti kalla ég það þegar kristnin er kennd sem eitthver sannleikur. Það á að fræða þau um trúna en það þarf alltaf að vera ljóst að manni sé frjálst að trúa henni eða hafna henni.

Varðandi leikskólatrúboðið sem minnst var á í Silfrinu að þá sýnir það best hvernig það er brotið á rétti þeirra sem ekki kjósa svona trúboð (þetta var víst yfirlýst trúboð prestins) því þessi yfirlýsti trúleysingi lét börnin sín að lokum taka þátt í trúboðinu vegna þess að annars voru þau skilin frá öllum hinum börnunum. Foreldrar barnanna eru sem sagt að samþykkja þetta til þess að barnið verði ekki útundan í leikskólahópnum.

Og ég er ekki viss um að það sé undantekning að prestar komi mánaðarlega því ég veit það að það er kirkjustarf í hverri viku á mörgum frístundaheimilum (gæslu eftir skóla).

Og svo er mjög vafasamt að telja alla sem skráðir eru í kristna söfnuði krista, þar sem fæstir þeirra hafa nokkurntíman skráð sig.

Samkvæmt trúarrannsóknum eru kristnir aðeins rúmlega helmingur þjóðarinnar.

Ingólfur, 2.12.2007 kl. 20:40

25 identicon

Hjalti Rúnar seigir: 

"Í nýju lögunum er til dæmis minnst á jafnrétti, svolítið sem Jesús minnist ekkert á í guðspjöllunum."

Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við sjálfan þig - er þetta ekki boðun á jafnrétti

Þórður (IP-tala skráð) 3.12.2007 kl. 00:50

26 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ingólfur, ég er alveg til í að eiga þess um ræðu við þig áfram, en bloggið mitt er ekki um þetta efni.  Ræddu við mig um efni þess en ekki einhverja óskylda hluti.  Upphaflega bloggið mitt snýst um kristilegt siðgæði, þ.e. hvað felst í því.  Það snýst ekki um hvað skal vera leyft og ekki leyft í skólum, það snýst ekki um það hvað felst í því að vera í kristnu trúfélagi og hausatalningu á þeim sem þar eru, það snýst ekki um rétt annarra trúarhópa (eða trúleysingja) til að þurfa ekki að læra um kristni og Krist eða taka þátt í kristnum trúarathöfnum.  Ég hef látið til leiðast að svara slíku, en nú verð ég að biðja þig (og aðra) um að halda þig við upprunalega efnið.  Þeim, sem vilja halda hinni umræðunni áfram, vil ég benda á þann kost að rita sitt eigið blogg um málið eða taka þátt á síðum þar sem til slikrar umræðu hefur verið stofnað.

Marinó G. Njálsson, 3.12.2007 kl. 11:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 45
  • Frá upphafi: 1678172

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 44
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband