25.10.2009 | 01:34
Undir hverjum steini er eitthvað nýtt
Maður er eiginlega hættur að vera hissa á nýjum sögum um misferli hjá blessuðum bönkunum. Hér er enn eitt dæmið um það hvernig menn gátu "keypt" sér lán. Samkvæmt því sem talsmaður Gertner bræðra segir, þá var nóg, eða nauðsynlegt, að gerast stór hluthafi í Kaupþingi til að komast að peningageymslum bankans.
Það er hins vegar athyglisverður punktur í fréttinni, en það er um tengsl helstu leikenda í gegnum FL Group. Ég fékk símtal í þar sem viðmælandi minn benti á þessi tengsl. Hann gekk svo langt að líkja hópi hlutahafa FL Group við nokkurs konar bræðralag (mín orð, ekki hans). Sá sem rauf samheldni hópsins hann var gerður brottrækur úr himnaríki peningamanna á Íslandi. Þ.e. fékk ekki að taka þátt í plottinu, fékk ekki aðgang að lánsfé í bönkunum þremur og var jafnvel reynt að leggja snörur fyrir menn.
Stærsta plottið í kringum FL Group voru framvirkir samningar. Menn gerðu samninga sína á milli og út fyrir hópinn um viðskipti fram í tímann á föstu gengi. Markmiðið var að búa til eftirspurn og halda uppi verði bréfanna. Sá sem var á söluendanum var öruggur með góðan hagnað og kaupandinn bjó svo til nýjan framvirkan samning. Undir lokin snerist þetta síðan yfir í skortsölur, enda var öllum í bræðralaginu ljóst í febrúar 2008, og jafnvel fyrr, að endanlokin yrðu ekki umflúin í október. Ég vil bara benda á athugasemd Kolbrúnar Stefánsdóttur á blogg hjá mér við færsluna Játning Davíðs. Þar segir hún:
Thér er óhaett ad trúa mér. Thad var allt of seint thá. Ég var í Florida í febrúar og tha var thad raett í fullri alvoru ad thetta myndi fara svona í byrjun okt (5) og ad vid aettum ad selja hlutabréfin okkar og taka sparifé út í evrum. Thetta var logmadur hja einum bankanna ad tala um thá sem stadreynd. Thví midur erum vid treg til ad trúa slaemum spádómum en hlaupum hratt á eftir hinum th.e. um gull og graena skóga. Thad er talad um thad hérna úti í Evropu af bankamonnum ad morg lond séu í somu sporum og Island en leyni thví hvad theyr hafi tapad miklu.
Viðmælandinn minn í dag endurtók liggur við orðrétt það sem Kolbrún segir. Þ.e. mönnum var ráðlagt að selja hlutabréf og taka út úr peningasjóðum. Þegar hinir fjársterkari tóku út úr peningasjóðunum, þá þurfti að fjármagna þá upp á nýtt. Og hvað var gert? Jú, þjónustufulltrúum var uppálagt að hringja í alla sem áttu meira en 5 milljóna kr. innistæður og fá þá til að færa peningana sína í hina vonlausu og í raun gjaldþrota peningasjóði. Mörgum þjónustufulltrúm ofbauð þetta, en létu sig hafa það. Aðrir sættu sig ekki við þetta og sögðu upp. Það hlýtur að vera erfitt að lifa við að hafa blekkt fólk á öllum aldri til að setja hluta af ævisparnaði sínum í gjaldþrota sjóði. En sökin er ekki fótgönguliðanna heldur hershöfðingjanna og tryggja verður að þeir fái sinn dóm.
En stúkubræður björguðu sínu fé úr peningasjóðunum og komu þeim fyrir út um allt. Sumt tapaðist síðar. Það var óumflýjanlegt af þeirri einföldu ástæðu að ekki voru til kaupendur. Þeir sem fundust hafa reynst hafa verið leppar í gervifyrirtækjum sem stofnuð voru að því virðist til að halda uppi verði hlutabréfa í fyrirtækjum stúkubræðra.
Ásakanir um peningaþvætti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.11.): 8
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 37
- Frá upphafi: 1679981
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 33
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Veistu það Marinó ég gladdist þegar ég las að Kjartan Gunnarsson hefði tapað u.þ.b 3 milljörðum. Er þetta normalt, eða bara tíðarandinn í dag? Ég held að ég hafi ekki áður glaðst yfir óförum annarra.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 25.10.2009 kl. 01:46
Þetta líkist helst kviksyndi. Það er alltaf að koma nýtt og nýtt í ljós. Nýjar og nýjar leiðie sem farnar voru til að ná sem mestu til sín. Þetta er svo sjúklegt að mér er bara flökurt svona inn í mér. Ef þetta er ekki dansinn í kringum gullkálfinn þá veit ég ekki hvað. Að halda því fram að einhver í söfnuðinum hafi ekki vitað um ástandið þegar hann eða hún seldi hlutabréfin sín, hvílíkur hryllingur.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 25.10.2009 kl. 02:41
Sæll Marinó,
Ég er alveg sammála þessu. Bankarnir og ýmsir aðilar aðrir hafa þráfaldlega bent á alþjóðlegu fjármálakreppuna sem skýringu fyrir bankahruninu, en ég er sannfærður um að þetta hefði allt farið um koll hvernig sem gekk úti í heimi. E.t.v. flýtti lánsfjárkreppan eitthvað fyrir þessu, en varla nema sem nam vikum. Og hvað hefði skeð ef lánsfjárkreppan hefði ekki hjálpað? Bankarnir hefðu starfað í nokkra mánuði í viðbót, hundruðum milljarða í viðbót hefði verið safnað inn á Icesave og íslenska þjóðin hefði staðið frammi fyrir að þurfa að borga þúsund milljarða í viðbót fyrir ævintýrið!
Það er ekki nokkur vafi í mínum huga að þessir aðilar hafi ekki vitað í hvað stefndi. Það á eftir að taka langan tíma að grafa upp allt það sukk og rugl sem virðist hafa verið potturinn og pannan í viðskiptum á Íslandi síðasta áratug eða svo. Madoff, karl tuskan, var lokaður inni í 150 ár fyrir að svíkja út 50 milljarða dollara. Það gerir svona í kringum 50 milljónir dollara fyrir íslenska efnahagskerfið eða skita 6 milljarða ISK eða svo. Um það bil það sama og Björgólfsfeðgar fengu að láni í Búnaðarbankanum til að kaupa Landsbankann og gleymdu svo alveg að borga;) Smáaurar í samanburði við Ísland, hann hefði varla talist hæfur í hópinn;) Mér finnst við hæfi að höfuðpaurar íslenska "fjármálaundursins" fái álíka dóma án hugsanlegs möguleika á náðun!
Maður veit varla hvort maður á að hlæja að þessu eða gráta yfir þessu, en það er búið að vera sorglegt að fylgjast með því sem kemur upp eftir því sem farið er að skoða þessi mál af meiri kostgæfni. En eins og þú segir þá kemur manni fátt orðið á óvart í þessum efnum.
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 25.10.2009 kl. 07:38
Sæll Marinó. Ég vil nú bara af því þú ert að vitna í mig þarna, réttilega, geta þess að þetta var spjall í vinahópi en ekki nein ferð á vegum neinna viðskiptajöfra nema síður væri. Ellismellir að leika sér í golf en talandi um framtíðina og hvað hún bæri í sér. Þá var vitað að verið var að leita að fjármagni til að endurgreiða Jökla- og Krónubréfin og gjalddagi þeirra væri 5. okt minnir mig. Ég er alveg ósammála að þjónustufulltrúar hafi vitað hvað til stóð enda trúðu þeir bankamenn sem ég þekki á stjórnendur bankanna eins og lúserar á biblíuna. En ég ítreka þá skoðun mína að öllum mátti vera ljóst að þetta var dæmi sem gat ekki gengið upp enda gat enginn skýrt hvernig þessi velgengni var tilkomin fyrir útlendingum. Með kveðju Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 25.10.2009 kl. 11:25
Sæll Marinó. Örvæntingin var orðin svo mikil að það þurfti ekki 5 mkr. inneign á bankareikningi til. Hringt var í dóttur mína og henni ráðlagt að færa 500 þús. inneign sem hún átti á innlánsreikningi inn í peningamarkaðssjóð, „því þar eru svo miklu betri vextir." En, upphæðin er í sjálfu sér ekki aðalatriðið hér, heldur það siðferði að starfsmenn bankanna hafi verið að hnýsast í reikninga okkar. Baráttukveðjur, Reynir Jónsson
Reynir Jónsson (IP-tala skráð) 25.10.2009 kl. 11:51
Kolbrún, ég tók því alltaf að þetta hefði verið skemmtiferð, enda held ég að það hafi komið fram annars staðar í athugasemdinni eða annarri athugasemd. Gott að sjá, að þú fylgist með færslunum hjá mér!
Reynir, þeir byrjuðu á stærri reikningunum og svo jókst örvæntingin eftir því sem ástandið versnaði.
Marinó G. Njálsson, 25.10.2009 kl. 11:56
Sæll Marinó. Auðvitað fylgist ég með færslum bloggvina minna og þú ert reyndar með þeim hærra skrifuðu hjá mér enda alltaf málefnalegur í þinum skrifum. Ég veit að þú veist en ég vil að þeir sem lesa þennan pistil viti líka, bara út frá efni pistilsins. Ég var bankamaður í ca 30 ár og er mjög sár yfir ummælum bæðir forseta, viðskiptaráðherra og Steingríms J. þar sem allir bankamenn eru settir undir sama hatt. Ásmundur Stefánsson bað þó sína starfsmenn afsökunar á ummælum um Landsbankastarfmenn þó ég hafi ekki fyrirgefið honum þau ummæli. Hið rétta er að viðskiptajöfrarnir voru ekki bankamenn. Þeir tóku yfir bankana, keyptu þá upp og stjórnuðu sem glæpafélagi. Það voru margir sem hættu í bankanum eins og ég en margir létu sig hafa það að vinna áfram, hlýddu og hlupu hraðar og trúðu að þessir kláru menn hefðu meira vit á þessu en þeir sjálfir. Siðferði bankamanna er alveg í lagi og punktur. Þar vinnur gott fólk og heiðarlegt sem vill allt fyrir sína viðskiptavini gera en verður að fara að reglum. Fáar stéttir búa við jafn stíft innra eftirlit og þeir. Þetta er mín bjargfasta skoðun og henni verður ekki breytt nema af þeim sem til þekkja þ.e bankastarfsmönnum. kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 25.10.2009 kl. 12:28
Ég hef alla vega heyrt sögur af útgerðarmanni sem ákvað að hætta í útgerð og seldi allt sitt fyrir litlar 130 millur. Hann keypti sér hús fyrir litlar fimmtíu millur og ætlaði að staðgreiða.
Þjónustufulltrúinn ráðlagði honum hinsvegar að kaupa frekar húsið á láni og fjárfesta frekar í bankahlutabréfum því tekjurnar af þeim væru miklu hærri en vextir af skuldum. Hann trúði þessari þvælu.
Í dag á hann ekkert nema hús sem er veðsett fyrir tæpum 100 millum og þessi þjónustufulltrúi þurfti að flýja land því hann fór illa með marg með slíkum gylliboðum.
Þetta leit allt voða flott út og allt virtist vera að ganga en þetta var bara þjófnaðu með blekkingum en samt hefur enginn verið handtekinn.
Offari, 25.10.2009 kl. 14:18
Sæll Offari. Þetta hefur verið frekar heimskur útgerðarmaður að láta aðra stjórna sínum ákvörðunum og slæmur þjónustufulltrúi að taka á síg ákvarðanatöku fyrir annað fólk. En illur fengur illa forgengur kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 25.10.2009 kl. 14:43
Ég tel það ekki heimsku að látta ginna sig svona. Enda er það varla heimskur maður sem hefur náð með Dugnaði og hagkvæmni að auka eignir sínar svona. Því hann byrjaði á núlli likt og margir hafa þurft að gera.
Offari, 25.10.2009 kl. 14:56
Ok ginningarfífl þá . Án gríns þá er fullt af fólki sem hefur orðið af aurum apar. Ég er nú bara að árétta þá bjargföstu skoðun mína að hver maður hlýtur að bera ábyrgð á sinni ákvörðun og leggja niður fyrir sig áhættur í fjárfestingum og síðan hvenær hefur verið hagkvæmni að skulda?. Allir bankamenn sem ég kalla svo leggja einmitt áherslu á að viðkomandi verði sjálfur að taka ákvörðun um áhættuna og þarna virðist græðgin hafa ráðið ferð. Kannski hjá útgerðarmanninum, kannski hjá þjónustufulltrúanum sem vildi auka útlán. Kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 25.10.2009 kl. 15:10
Kolbrún,
Ég er sammála þessu, EN: Til þess að taka réttar ákvarðanir þurfa upplýsingarnar sem þær eru byggðar á að vera rétt. Mér sýnist, a.m.k. á síðasta sprettinum, þ.e. síðasta árinu eða svo, þá hafi ráðgjöf bankanna beinst meira og meira til þess að komast yfir fé til þess að halda bönkunum gangandi. Hagsmunir viðskiptavina voru ekki endilega - og jafnvel alls ekki - hafðir að leiðarljósi.
Mjög svipað og skeði hjá Enron árin 2000-2001 þegar það var að komast í þrot og þeir létu loka raforkuverum í Kaliforníu á há-annatímum til þess að keyra verðið upp úr öllu valdi, einfaldlega vegna þess að þeir gátu það og orkumiðlararnir fengu bónusa byggða á því hversu mikið þeir gátu selt. Græðgin réði öllu og "to hell with the customer" eins og þeir sögðu;)
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 25.10.2009 kl. 19:03
Sæll Arnór. Það er eflaust rétt hjá þér að græðgin er alls staðar eins og endar í kúgun og valdníðsla hvers konar. Það væri nú hægt að segja margar sögur af því þegar maður var að vara fólk við fjárfestingum í hlutabréfum og minnti það á hrunið í Ameríku um árið. Þá fékk maður oft augnaráð sem var blandað af vorkunnsemi og fyrirlitningu. Unga fólkið vissi allt svo vel. Það bara heimtaði og heimtaði. Það var sumt í sérstöku verðbréfanámi út í Háskóla og alls staðar voru upplýsingar um gengi sem alltaf virtist fara upp. Allir voru að græða. Það var búið að fá áróðurinn annarstaðar en eins og þú manst þá spruttu sölu- og ráðgjafafyrirtæki upp eins og gorkúlur síðustu árin. Auk þess voru sögusagnir á götunni um ofsagróða alls ráðandi og ekki voru það almennir bankamenn enda voru og eru þeir bundnir trúnaði. Það er því óréttlátt að skrifa þessa vitleysu á þá. Kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 25.10.2009 kl. 21:50
Eru ekki svartir sauðir í öllu fé. Hvort heldur er meðal bankamanna, stjórnmálamanna, lögfræðinga, presta, strætóbílstjóra eða útvegsmanna! Núna þarf að hreinsa þessa svörtu sauði úr hópnum en því miður virðast margir þeirra búnir að sveipa sig öðrum feldi og þykjast ekkert kannast við neitt.
Ingibjörg Hinriksdóttir, 25.10.2009 kl. 22:18
Sæl Ingibjörg. Jú jú kannski er ég bara úlfur í sauðagæru og hef engan rétt til að verja starfstétt sem ég tilheyri ekki lengur. Starfstétt sem ég tilheyrði þó í 25-6 ár og þreifst vel í. Ég hef það þó mér til málsbóta að ég valdi sjálf að yfirgefa hinn stormasama vígvöll 2005 og finna mér nýjan vettvang þar sem ég uni mér þokkalega vel. Ég efast um að nokkrum þyki það miður hvorki hér né þar. Ef að þú veist eitthvert dæmi um að ég hafi hvatt menn til að kaupa hlutabréf eða skuldsetja sig færðu verðlaun frá mér. Eitthvað sætt í dótakassann. kveðja Kolla.
Kolbrún Stefánsdóttir, 26.10.2009 kl. 16:26
Kolbrún,
Það er örugglega rétt hjá þér. Ég slapp við þetta fár, því ég flutti frá Íslandi 1996 svo ég veit ekki hvernig ástandið var að öðru leyti en því sem maður heyrir og les. Ég efast ekki um að margir hafi hrifist með, enda virtust peningar vaxa á trjánum á Íslandi. Ég var þar síðast 2005 og það var sannarlega gullgrafarabragur allstaðar og svo virtist vera sem allir böðuðu sig reglulega í peningum eins og Jóakim von And;) Manni fannst sumt í þjóðfélaginu súrrealískt. En allt virtist verða að gulli hjá útrásarmönnum svo þetta leit bara vel út. Því miður virðist hafa verið um glópagull að ræða:(
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 27.10.2009 kl. 01:06
Sæll Arnór. Já ætli það ekki. Glópagullið kom á markaðinn þegar framsal var leyft á þorskkvótann og menn fóru í framkvæmdir og neyslu með fé sem lánað var úr á óveiddan og ófæddan fisk langt fram í tímann. Þar byrjaði ballið að mínu mati og ég man vel eftir því enda þá í bankageiranum. Síðan spann þetta sig upp í keðjubréfaferli og svikamyllu sem við sitjum nú uppi með. En er allt gott í útlandinu? kveðjur Kolla
Kolbrún Stefánsdóttir, 27.10.2009 kl. 08:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.