24.2.2013 | 17:37
Tjón lífeyrisþega af hruninu leyst með tillögu Gylfa A fyrir lántaka
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, ritar grein sem birt er á Pressunni. Hún heitir Í þágu hverra heimila? og fjallar um kröfu lántaka um leiðréttingu lána heimilanna. Margt í þessari grein er mjög þarft innlegg í umræðuna, en því miður heggur hann enn í saman knérum þegar hann segir að ekki hafi allir þörf á leiðréttingunni.
Mig langar því að færa þessa umræðu yfir í annað umræðuefni, eins og fyrirsögn pistils míns gefur til kynna. Lífeyrisþegar og aðrir eigendur réttinda í lífeyrissjóðum hafa orðið fyrir miklu tjóni vegna hrunsins. Svo vill til að önnur aðsend grein er á Pressunni í dag, sem fjallar um þetta tjón lífeyrissjóðanna, Ávöxtun lífeyrissjóðanna og tap þeirra af útrásinni 2003-2011 og er hún eftir Þorberg Stein Leifsson, verkfræðing. Í grein Þorbergs kemur í ljós, að flestir lífeyrissjóðir standa höllum fæti miðað við stöðu þeirra í ársbyrjun 2003. Á þessu eru nokkrar undantekningar sem betur fer. Nú hefur Gylfi verið talsmaður þess að staða lífeyrissjóðanna verði leiðrétt og alls ekki megi skerða eignir þeirra og þar með réttindi sjóðfélaga.
Í anda málflutnings Gylfa um að ekki eigi að bæta öllum tjón sem óvandaðir bankamenn ollu lántökum, þá er rétt að skoða ef sama gilti vegna réttinda í lífeyrissjóðum. Eingöngu ætti að verja réttindi sumra sjóðfélaga vegna þess tjóns sem þessir sömu bankamenn ollu lífeyrissjóðunum.
Gylfi vill að aðeins heimili með slæma fjárhagsstöðu fái aðstoð. Hvernig myndi þetta horfa við, ef aðeins lífeyrisþegar í slæmri fjárhagsstöðu fengju réttindi sín varin, en kallar eins og Gylfi, sem eiga gríðarlega há lífeyrisréttindi lendi í fullri skerðingu og taki auk þess á sig þá skerðingu sem þeir í slæmri fjárhagsstöðu hefðu annars lent í. Rökin eru sömu og Gylfa: Lífeyrisþegi þarf ekki nema, segjum, 350 þús.kr. á mánuði í lífeyri (fyrir skatta), þegar hann kemst á eftirlaun. Allt umfram það færi bara í óþarfa neyslu, sem hann getur alveg komist af án. Við verjum því réttindi allra upp að þessum 350.000 kr. (tekið fram að þessi tala er bara tekin sem dæmi og gæti verið mun lægri eða hærri), en þeir sem eru með réttindi umfram þessa upphæð skerðast sem nemur tjóninu sem viðkomandi lífeyrissjóður varð fyrir. Rök Gylfa eru nefnilega, að þeir hafi efni á því að bera tjón sitt sjálfir og þurfi því ekki að fá það leiðrétt.
Tekið skal fram, að ég er ekki sammála tillögu Gylfa. Er bara að setja hana í samhengi, sem hann gæti líklega aldrei tekið undir.
Forsendur útreikninga sem Gylfi vitnar í eru rangar
Gylfi vitnar í grein sinni í rannsóknarritgerð Þorvarðar Tjörva Ólafssonar og Karenar Á. Vignisdóttur máli sínu til stuðnings. Á sínum tíma sendi ég Tjörva fjölmargar ábendingar og spurningar vegna fyrri kynningar hans á þessum gögnum. Því miður taldi hann sig ekki þurfa að svara mér. Ég taldi nefnilega þá og tel enn að framfærsluviðmið Tjörva og Karenar séu kolvitlaus. Sjálfur sat ég í nefnd sem fjallaði um þessi gögn haustið 2010 og sannfærðist enn frekar að framfærsluviðmið voru kolvitlaus. Ásta Sigrún Helgadóttir benti honum einnig á þessa villu, þegar fyrri niðurstöður voru kynnta og bætti við, að framfærslu viðmið, þá, Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna væri aðeins ætluð til framfærslu í stuttan tíma, en ekki nokkur ár, eins og Tjörvi og Karen gera ráð fyrir. En þarna eru hin vitlausu viðmið enn og má sjá þau á bls. 14 í glærum þeirra.
Tjörvi og Karen leggja 60% ofan á naumhyggju framfærsluviðmið Umboðsmanns skuldara. En það er engan veginn nóg. Utan viðmiðanna eru nefnilega mikilvægir útgjaldaliðir og þegar þeir eru teknir með, þá er lítið eða ekkert eftir af þessum 60%. Þetta leiðir til þess að heimilin hafa mun minna til greiðslu afborgana lána (eða til framfærslunnar, ef lánin eru látin ganga fyrir). Sem sagt Gylfi horfir á ranga tölu yfir heimili í vanda. Þau eru mun fleiri, eins og sérfræðingahópur um skuldavanda heimilanna komst að í nóvember 2010.
Ég þarf svo sem ekki að segja meira um forsendur forseta ASÍ. Þær dæma sig sjálfar. Hans áhugi liggur ekki í að verja kjör umbjóðenda sinna og alls ekki að leiðrétta það óréttlæti sem þeir hafa þurft að láta yfir sig ganga. Gott og blessað, en fyrst að hann metur þetta vera réttlætið gagnvart lántökum, er þá ekki rétt að láta sama réttlæti ganga yfir innstæðueigendur og þá sem eiga réttindi í lífeyrissjóðum. Menn tapi öllu sem ekki er nauðsynlegt að þeir haldi! Svo held ég að tryggingafélög ættu að hugleiða að breyta reglum sínum, þannig að þeir efnaminni þurfi ekki að greiða sjálfsábyrgð og þeir efnameiri, sem eru hvort eð er svo ríkir, þeir verði sjálfir að bera tjón sem þeir verða fyrir og þeir ráða við. Það eru a.m.k. skilaboðin sem koma frá forseta ASÍ.
Skuldamál heimilanna | Breytt 6.12.2013 kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.2.2013 | 09:05
Dauði verðtryggðra neytendalána
Í meira og minna rúm fjögur ár hefur hópur fólks haldið upp baráttu fyrir því að stökkbreytt lán heimilanna verði leiðrétt. Stjórnvöld slógu skollaeyrum við óskum okkar og áeggjan, enda virtust orð forsvarsmanna fjármálafyrirtækjanna vega þyngra í þessari umræðu, en baráttufólks fyrir sanngirni og réttlæti. Fyrir fjórum árum, nánast upp á dag, birti ég hér bloggfærslu sem hét því góða nafni Er hægt að ógilda verðtryggða og gengistryggða lánasamninga? 16 mánuðum síðar fékkst svar frá Hæstarétti um að gengistrygging væri ólöglegt form verðtryggingar og því var hún dæmd ólögmæt. Er búið að taka marga snúninga á þennan þátt síðan.
Margir hafa orðið til að agnúast út í þá sem þannig "græddu" á því að hafa tekið áhættu og nú sætu þeir sem litla áhættu eftir með stökkbreytinguna sína. Ekki er víst að svo verði.
Ég er einn af þeim sem hef lengið haldið því fram að verðtryggingin væri líklegast ekki ólöglegt form lánveitingar, en hugsanlega væri framkvæmd hennar það. Þessu hef ég oftar en einu sinni haldið fram í pistlum hér. Ítarlegasta umfjöllunin var samt í kvörtun okkar til ESA og fleiri aðila vorið 2011. Rökstuðningur okkar fyrir ólögmæti framkvæmdar verðtryggingarinnar byggði á tilvitnun í tvær neytendaverndartilskipanir ESB sem báðar hafa verið innleiddar hér á landi og síðan í þá þriðju sem er verið að reyna að innleiða hér landi á yfirstandandi þingi.
Kjarninn í málflutningi okkar er það sem heitir árleg hlutfallstala kostnaðar. Í tilskipun 87/102/EBE og leidd voru í lög hér á landi með lögum 121/1994 um neytendalán. Í þessari tilskipun er tilgreint að við lántöku skal veita neytanda/lántaka upplýsingar um árlega hlutfallstölu kostnaðar, þ.e. hvað þarf lántaki að greiða árlega til viðbótar við það sem greitt er af höfuðstóli lánsins. Í tilskipuninni er greint frá því, t.d. um breytilega vexti, að upphaflega greiðsluáætlunin skuli tilgreina þágildandi vexti út lánstímann. Um verðtryggingu segir ekkert, en túlkanir hafa gengið út á að verðbætur séu bara eitt form breytilegra vaxta. Við innleiðingu tilskipunarinnar í íslensk lög fengu fjármálafyrirtækin það greinilega í gegn, að ekki þyrfti að tilgreina neina verðbólgu í greiðsluáætlun frekar en menn vildu eða eins og segir í 12. gr. laganna:
..skal reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld verði óbreytt til loka lánstímans..
Sem sagt, ekki skal segja lántakanum frá því hvaða áhrif verðbætur hafa á framtíðargreiðslur.
Við, sem staðið höfum í þessari baráttu, höfum þess vegna haldið því fram að greiðsluáætlanir ættu að bera með sér heildarfjárhæð endurgreiðslu miðað við stöðu vaxta og verðbólgu hverju sinni (á lántökudegi). Við höfum líka haldið því fram, að óheimilt sé að krefjast hærri greiðslu en kemur fram í greiðsluáætluninni nema vissum skilyrðum sé uppfyllt. Er það í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar. Þannig megi taka tillit til breytinga á verðbótum hafi verið gert ráð fyrir verðbólgu á lántökudegi í upprunalegri greiðsluáætlun og lántakanum hafi verið kynnt á skiljanlegan hátt hvernig verðbólga og þar með verðbætur hafa áhrif á stöðu lánsins, þar með talið hvernig verðbætur eru nákvæmlega reiknaðar út. Jafnframt þurfi að gefa út nýja greiðsluáætlun með reglulegu millibili og alltaf þegar verulegar breytingar verið á verðbólgustigi, hvort heldur til hækkunar eða lækkunar.
Í Þýskalandi er það hreinlega refsivert að rukka neytanda um annað en það sem kemur fram í greiðsluáætlun. Þar eru mjög strangar reglur um hvernig breyta má breytilegum vöxtum.
Ljóst er að greiðsluáætlanir íslensku bankanna hafa ekki haft mikið fyrir að eltast við verðbólgu né heldur hefur neytendum verið sendar nýjar greiðsluáætlanir, þegar verulegar forsendubreytingar verða á endurgreiðslunni. Sé útfærsla Þjóðverja höf til hliðsjónar, þá er til dæmis veruleg brotalöm á hver framkvæmd lán með breytilega vexti er.
Dómaframkvæmd
Ekki er nóg bara að líta til efni tilskipunarinnar, heldur verið líka að skoða dómaframkvæmd. Þar eru tvö nýleg mál Evrópudómstólsins sem skipta miklu máli. Annað er C-453/10 og hitt C-76/10. Annað er úrskurður dómstólsins, en hitt álit lögsögumanns dómstólsins. Bæði hafa keimlíka niðurstöðu, sem gengur út á að kostnaður sem ekki er tilgreindur í greiðsluáætlun sé ekki réttmæt krafa og því eigi neytandinn ekki að greiða það sem umfram er. Skylda lántaka til endurgreiðslu takmarkast við þá fjárhæð sem viðkomandi fékk að láni og síðan kostnað vegna lántökunnar sem tilgreindur er í greiðsluáætlun og tekur viðurkenndum breytingum samkvæmt auðskiljanlegum, fyrirfram tilgreindum reglum um slíkar breytingar sem kynntar voru lántaka áður en til lántöku kom, en þó í tengslum við lántökuna. Ekki er nægilegt að auglýsa slíkar breytingar, heldur ber að senda lántaka tilkynningu um hana. Ekki má heldur breyta forsendum/reglum sem farið er eftir við breytingu t.d. breytilegra vaxta nema það sé kynnt lántaka með góðum fyrirvara og honum gefinn kostur á að greiða upp lánið telji hann breytingu neikvæða fyrir sig.
Ekki er gengið svo langt í þessum málum, eins og ég skil niðurstöður þeirra, að fella niður allan kostnað af láninu, þó reynt hafi verið að rukka meira en tilgreint er í greiðsluáætlun. Það þýðir, að hafi, segjum, 2,5% verðbólga verið tilgreind í greiðsluáætlun, þá er það eingöngu verðbætur vegna verðbólgu umfram 2,5% sem ekki mátti innheimta (vextir vegna þeirra verðbóta). Ólíkt breytilegum vöxtum, þá þurfa íslenskar útlánastofnanir ekki að lýsa hvernig verðbólgan breytist. Ástæðan er að stuðst er við opinber viðmið. Hins vegar þurfa þær að skýra út hvernig verðbólgan býr til verðbætur og hvernig þær virka á lánið. Deila má um hvort lánveitur hafi uppfyllt þá skyldu sína, en ég leyfi mér að efast um það.
Niðurstaðan er sem sagt sú, að hafi einhver upphafsverðbólga verið tilgreind í greiðsluáætluninni og hún látin halda sér út lánstímann, þá eru ákveðnar líkur á því að lántaki þurfi að standa skil á verðbótum vegna verðbólgu upp að því marki. Hafi verðbólga á lántökudegi verið notuð sem viðmiðunarverðbólga, þá gæti greiðandi mögulega þurft að standa skil á öllum verðbótum og vextum til framtíðar. Stóra málið er hins vegar, að lánveitendur hafa almennt ekki telið verðbólgu inn í greiðsluáætlanir, þar sem það lítur svo illa út. Í þeim tilfellum er það brot á líklega tveimur tilskipunum, ef eitthvað annað en það sem getið er um í greiðsluáætluninni er innheimt. Lánin eru því í reynd óverðtryggð með föstum vöxtum allan lánstímann.
Kálið er ekki sopið..
Þó þessi niðurstaða sé fengin, þá tekur fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar fram í bréfi sínu, að ESB hafi ekki lögsögu í þessu máli, heldur sé það EFTA dómstóllinn. Ég efast um að lánveitendur og ríkið viðurkenni þessa niðurstöðu án þess að taka til varnar. Lái ég þeim það ekki. Því mætti búast við langri baráttu í dómsölum.
Næst er að velta fyrir sér hver áhrifin gætu orðið og afleiðingar fyrir lánveitendur. Höfum í huga að tilskipanirnar vernda bara neytendur. Aðrar reglur munu því gilda um fyrirtæki, þar sem fjármögnun Íbúðalánasjóðs með útgáfu verðtryggðra skuldabréfa sem nú eru að mestu í eigu lífeyrissjóðanna. Skattgreiðendur myndu því líklegast þurfa að bera þann skaða, svo lífeyrissjóðirnir fengju nú sitt.
En hvað er til ráða fyrir stjórnvöld og fjármálafyrirtæki? Best væri ef þessir aðilar viðurkenndu einfaldlega þann vanda sem með þessu væri kominn upp og tækju á honum af ábyrgð. Setning neyðarlaga sem dragi úr högginu, væri einn möguleiki, annar að drífa strax í gegn um Alþingi þingályktunartillögu Hreyfingarinnar, en ég setti þessa tillögu fyrst fram í séráliti mínu við skýrslu sérfræðingahópsins svo kallaða. Ef menn ætla að reyna að komast hjá því að láta lántaka njóta einhvers ávinnings af því sem mér virðist bréf framkvæmdastjórnar ESB bera með sér, þá verð einfaldlega allt brjálað. Því er skynsamlegt að fara leið Hreyfingarinnar.
Eftir að búið er að koma til móts við lántaka, þá verður að setja einhvers konar neyðarlög til að loka málinu. Slík neyðarlög yrðu að fela í sér afnám verðtryggingar á neytendalánum. Margir hafa hræðst að lán með breytilegum vöxtum sé alls ekki skárri kostur, en höfum núna í huga að mjög skýrar og auðskiljanlegar reglur þurfa að vera um hvernig vextir breytast og tilkynna slíkt lántökum með góðum fyrirvara. Því þyrftu breytilegir vextir hvorki að vera hræðilegir né háir.
Til allra stjórnmálamanna í landinu vil ég segja þetta:
Hlustið á skilaboðin sem bárust frá þeim sem eru færir til að túlka Evrópusamþykktir. Við erum bara sendiboðarnir. Brettið upp ermarnar og gangið í að leiðrétta lán heimilanna, þannig að allir geti vel við unað og hættið að moka auðnum til fjármálafyrirtækja og fjármagnseigenda.
Lánin álitin ólögleg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Neytendavernd | Breytt 6.12.2013 kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
1.2.2013 | 18:34
Landsbanki Íslands átti alla sök á Icesave og falli sínu
Stóri dómur féll á mánudag og niðurstaðan var jákvæð fyrir efnahag Íslands. Ekki verður gerð krafa á ríkissjóð að hann standi í ábyrgð fyrir skuldum Landsbanka Íslands við breska og hollenska innstæðueigendur vegna innstæðna á Icesave reikningunum. Ekki verður heldur gerð krafa á ríkið vegna mismununar milli innstæðueigenda eftir því hvort þeir væru með viðskipti sín á bankareikningum hér á landi eða á Icesave reikningum.
Enn einu sinni náði almenningur á Íslandi fram réttlæti fyrir atbeina dómstóla.
Icesave málið
Hin mikla snilld sem Icesave reikningarnir áttu að vera fyrir Landsbanka Íslands reyndist á endanum vera hinn þyngsti myllusteinn fyrir land og þjóð. Þó hann hafi sl. mánudag verið tekin af okkur með úrskurði EFTA dómstólsins, þá er langt frá því að við höfum farið tjónlaust frá því máli. Fyrst voru allar eigur íslenskra fyrirtækja frystar í Englandi, þó því hafi verið aflétt fljótlega. Næst má nefna þær þvinganir sem þjóðin varð fyrir á alþjóðavettvangi og álitshnekkir. Við vorum kölluð þjófar í heimspressunni og opinberri umræðu. Ekki fór mikið fyrir fyrrum forráðamönnum Landsbanka Íslands meðan þessu fór fram, þó þeir væru fljótir að berja sér á brjósti eftir að niðurstaðan var kunn sl. mánudag. Fyrst BTB var svona viss um niðurstöðuna, af hverju tók hann þá ekki af skarið haustið 2008 og gerði eitthvað í málinu? Nei, það er víst siður flestra auðmanna að einkavæða hagnaðinn og halda sér fjarri þegar allt stefnir í óefni. Hvort það var viðhorfið hjá BTB læt ég aðra um að meta. (Tekið skal fram að ég hef lúslesið það sem ég hef komist yfir um aðgerðir í október 2008 og fer mjög lítið fyrir Landsbankamönnum í því efni.)
Aðgerðir Breta
Hvað leiddi til hinna hörðu aðgerða breskra stjórnvalda gegn Íslendingum og þá sérstaklega Landsbanka Íslands, er erfitt að segja. Sigrún Davíðsdóttir hefur ítrekað reynt að svipta hulunni af því. Ef marka má það sem hún hefur sagt, þá má kenna nokkrum atriðum um. Fyrsta er að búið var að reyna að koma Icesave yfir í breska lögsögu í nokkurn tíma og fannst breskum stjórnvöldum sem þar fylgdi ekki hugur máli og að menn vildu gera það með full litlum tilkostnaði. Annað er að þegar Lehman Brothers féll um miðjan september, þá fóru háar upphæðir óbættar frá skrifstofu bankans í Lundúnum til höfuðstöðvanna handan Atlantsála og breski ríkissjóðurinn stóð eftir með heilmikið tjón. Þriðja var að vikuna fyrir hrun, þá virtust hafa átt sér stað tilfærslur fjár frá Lundúnum til Reykjavíkur þrátt fyrir boð um að slíkt yrði ekki gert frá FSA, Bank of England eða breskum stjórnvöldum. Fjórða ástæðan var, að bresk stjórnvöld höfðu fundið andstæðing sem þau töldu sig geta haft í fullu tré við. Fimmta ástæðan og sú líklegasta er að Bretar voru einfaldlega búnir að fá upp í kok á hrokanum í íslenskum fjármálamönnum og hafi reynsla þeirra af nokkrum þeim atriðum sem að undan eru talin haft þar áhrif.
Meðan þessu fór fram, var fátt um yfirlýsingar frá Landsbankamönnum. Þær komu ekki fyrr en löngu síðar.
Dagarnir á undan
Þegar farið er yfir fréttir frá þessum tíma og þær skoðaðar út frá því sem síðar kom fram, þá vakna upp spurningar um hversu sterk staða Landsbanka Íslands var í raun og veru. BTB birtir á síðu sinni t.d. tillögu LÍ um lausn vanda Glitnis. Hún var ákaflega skrautleg, svo ekki sé meira sagt. Fyrir það fyrsta átti ríkið að leggja fram 200 milljarða í nýju hlutafé í Glitni (tekið skal fram að talan er 100 milljarðar í skýrslunni Aðdragandi falls Landsbanka Íslands hf. og síðan 200 milljónir sem er líklegast aum innsláttarvilla), næst átti Seðlabanki að veita LÍ 300-450 milljarða lánafyrirgreiðslu til að leysa "lausafjárvanda Glitnis" (!) og loks átti ríkið að kaupa eignir af hinum sameinaða banka. Þessu var hafnað.
Alveg var vitað að lausafjárvandi Glitnis væri mikill, en hann var ekki 500 - 650 milljarðar auk eigna sem átti að selja. Samkvæmt fréttum á þessum tíma var hann raunar innan við 100 milljarðar, þó yfir vofði innan nokkurra mánaða frekari vandi. Ég get því ekki lesið neitt annað út úr þessari tillögu LÍ manna, en að bankinn væri sjálfur í miklum aðsteðjandi vanda. Eftir að þessu tilboði var hafnað reyndu LÍ menn annað útspil, sem fólst í því að Straumur tók yfir nánast öll erlend dótturfyrirtæki LÍ. Erfitt er annað en að álykta, að þarna væri róinn lífróður í tvennum skilningi. Annar fólst í því að reyna að halda LÍ á floti og hinn að koma erlendum dótturfyrirtækjum í örugga höfn. Þetta var bara ekki nóg og hvorugt tókst.
Staða Landabanka Íslands var afleit
Ég var einn af þeim sem hafði trú á því að eignir LÍ myndu duga fyrir Icesave skuldbindingum bankans (sjá Er víst að peningarnir hafi tapast? frá 11. okt. 2008). Það var bara ekki málið. LÍ átti ekki lausafé á þessum tíma til að styðja við reikningana. Raunar var staða LÍ svo aum á vikunum og mánuðunum á undan, að hann vildi fá fyrirgreiðslu frá Seðlabankanum til að flytja Icesave í breska lögsögu. Dæmigert fyrir viðskipti á Íslandi á þessum tíma. Eiga engan pening sjálfir og fá allt að láni.
BTB fullyrti í viðtalsbroti 26.10.2008 að bankann hafi vantað 200 milljónir punda til að ljúka málinu. 200 milljónir punda um mitt sumar 2008 voru um 30 milljarðar króna. Banki með efnahag upp á örugglega um 5.000 milljarða króna þurfti að leita til Seðlabankans um þennan pening. Höfum í huga að stuttu áður hafi BTB sjálfur hagnast um 50-65 milljarða á sölu símafyrirtækis í Búlgaríu og allt í evrum! Honum hefði því sem öðrum af stærstu eigendum bankans, verið í lófalagið að aðstoða bankann um þetta "lítilræði" sem hann vantaði.
Ég hef enga trú á því að Landsbanki Íslands hefði lifað þó svo að uppákoman kringum Glitni hefði ekki komið til. Hef ég áður greint frá því, að ég telji LÍ hafa verið tæknilega kominn í þrot minnst 10 mánuðum áður eða undir lok nóvember 2007. Af hverju hollensk stjórnvöld hafa ekki enn stefnt forsvarsmönnum LÍ fyrir blekkingar og fjársvik, er mér eiginlega hulin ráðgáta. Bresk stjórnvöld eru ekki í jafngóðri stöðu til þess, þar sem söfnun á Icesave reikningana í Englandi hófst tveimur árum fyrr.
Því miður bendir allt til þess, að Landsbankamönnum hafi alveg verið ljóst í mars 2008, að bankanum yrði ólíklega bjargað. Í skýrslunni um aðdragandann að hruni bankans er á nokkrum stöðum vitnað í orð Davíðs Oddssonar, þáverandi seðlabankastjóra um að staða allra bankanna væri þess eðlis að þeir ættu allir eftir að hrynja. Á bloggsvæðinu mínu er að finna athugasemd frá fyrrverandi varaþingmanni um að henni hafi verið sagt af lögfræðingi eins ráðuneytisins í febrúar 2008, að bankakerfið ætti eftir að hrynja í byrjun október. En í staðinn fyrir að kasta inn handklæðinu í nóvember 2007 eða þess vegna fyrr, þá áttu bankarnir eitt tromp upp í erminni, að þeir héldu. Það snerist um að fella íslensku krónuna. Málið er, að hefðu bankarnir fallið ári fyrr, þá hefði margt litið út á annan veg (sjá færsluna Ef bankakerfið hefði fallið fyrr..).
Óráðsía og óréttlætanleg áhættusækni felldi bankana
Menn hafa kappkostað við að bera fyrir sér að allt sé Lehman Brother að kenna. Það er bara ekki rétt. Ef menn hefðu tekið mark á því sem varð þess valdandi að Bear Sterns, þá hefðu menn hugsanlega getað komið í veg fyrir að fall annars stórs banka hefði þau áhrif sem urðu. Bear Sterns var fyrsta stóra fórnarlamb lausafjárkreppunnar. Hann féll vegna þess að aðgangur hans að fjármagni var fyrst skertur verulega og síðan lokaðist fyrir hann.
Áður en íslensku bankarnir féllu, hafði lausafjárkreppan varað í nærri 15 mánuði. Samt er í því sem komið hefur fram um fall þeirra, ekkert sem bendir til þess, að þeir hafi reynt að búa í haginn fyrir sér, ef undan er skilin söfnun Landsbanka Íslands á innlánum á Icesave. Það var aftur gerningur byggður á misskilningi, þar sem innlán eru einmitt kvikustu skuldir fjármálafyrirtækja og þar með þær ótraustustu. Nei, eina lausnin fyrir bankana var að hemja útlán og þá sérstaklega til þeirra sem voru stórtækastir.
Kaupþing sett á nánast fyrirvaralaust útlánabann í nóvember 2007 til almennings og minni aðila, en jók, að því virtist, útlán til þeirra sem nutu sérkjara hjá bankanum. Glitnir varð árið 2007, að því virðist, að einhvers konar tékkareikningi fyrir nýja eigendur bankans, sem fóru í alls konar fléttur til að bjarga (tímabundið) FL Group, nota leppa (Stím) til að halda uppi verði hlutabréfa í bankanum í staðinn fyrir að rifa seglin og beita fyrirhyggju. Ég veit fyrir víst, að Íslandsbankamenn byrjuðu að hafa áhyggjur af gjalddögunum haustsins 2008 og fram á ár 2009 strax um mitt sumar 2007. Þeim var ráðlagt síðsumars 2007 að selja eignir eins og enginn væri morgundagurinn. Merkilegra er þó, að í eftiráskýringum, þá segjast Landsbankamenn hafa verið farið að líða illa yfir að Icesave reikningarnir væru í íslenskri lögsögu strax síðla árs 2007. Ég veit ekki til þess að þurft hafi 10 tryllta hesta til að draga þá inn á hollenska markaðinn.
Staðreyndin er að stjórnendur bankanna og eigendur virtust ekki bera þá hugsun í brjósti, að hægja þyrfti á vextinum, eftir að lausafjárkreppan skall á um mitt sumar 2007. Og kannski ekki nema von, þar sem helstu lántakar bankanna voru eigendur þeirra og þeir þurftu sjaldnast að leggja fram veð, hvað þá trygg, gegn nokkrum af þessum lánum. Síðasta árið sem bankarnir þrír störfuðu, virðist því fyrst og fremst hafa farið í að moka meira af lánum inn í fyrirtæki og félög eigenda bankanna og viðskiptafélaga þeirra. Var öllum brögðum beitt og líklega þau merkilegustu, þegar feðgar voru taldir ótengdir þrátt fyrir vera sameiginlega stærstu eigendur bankans sem lánaði þeim!
Menn tóku óréttlætanlega áhættu, þar sem þeir töldu sig svo svakalega sniðuga, og því fór sem fór fyrir bönkunum. Hitt er svo stórmerkilegt, að margir einstaklingar úr eigendahópi bankanna þriggja vaða í peningum, eins og hrunið hafi ekki haft nein áhrif á þá. Raunar held ég að Björgólfur Guðmundsson hafi einn fallið fram á sverðið af þeim sem áttu ráðandi hlut í einum af bönkunum þremur, meðan aðrir tóku vissulega á sig þungt högg.
Icesave | Breytt 6.12.2013 kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.11.): 12
- Sl. sólarhring: 19
- Sl. viku: 93
- Frá upphafi: 1679720
Annað
- Innlit í dag: 12
- Innlit sl. viku: 85
- Gestir í dag: 12
- IP-tölur í dag: 12
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði