Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2016
28.4.2016 | 23:24
Ættu stýrivextir að vera 2,25-3% eða jafnvel lægri?
Í átta ár upp á dag hef ég velt fyrir mér hvers vegna verðbólgumælingar sem Seðlabankinn notar við ákvarðanir um stýrivexti innihalda liðinn "reiknuð húsaleiga". Í færslunni Verðbólga sem hefði geta orðið velti ég fyrir mér hverju það hefði breytt, ef stýrivextir hefðu verið ákvarðaðir á árunum fyrir hrun út frá vísitölu án húsnæðis og var þá að vísa til þess að liðurinn "reiknuð húsaleiga" væri ekki tekin með. Nokkrar færslur hef ég birt í viðbót, en það var ekki fyrr í lok síðasta árs að ég lét verða að því að rannsaka málið betur, þ.e. reikna út áhrif annarra verðbólguútreikninga á stýrivextina (raunar svo kallaða meginvexti). Pælingar mínar og niðurstöður birti ég í færslunni Af peningastefnu Seðlabankans, sem birt var fyrir 4 mánuðum.
Hér fyrir neðan eru frekari vangaveltur, sem ég vona að verði rök fyrir því að hætt verði að nota núverandi vísitölu neysluverðs við ákvörðun stýrivaxta/meginvaxta Seðlabankans og við útreikning á verðbótum lána. Færslan er í lengri kantinn, en ég vona að hún sé lestursins virði.
Vísitala neysluverðs eða samræmd vísitala neysluverðs
Vegna seinni færslunnar lagðist ég í smá rannsóknarvinnu. Hún var svo sem ekki flókin, en ég komst að því að margir seðlabankar nota svo kallaða samræmda vísitölu neysluverðs (SVN), þegar ákvarðanir um stýrivexti eru teknar. Meðal þeirra er seðlabanki evrusvæðisins, þ.e. Seðlabanki Evrópu. Hvers vegna skiptir máli að seðlabankarnir eru að nota SVN? Jú, það er vegna þess, að hún inniheldur ekki liðinn "reiknuð húsaleiga", en sá líður endurspeglar breytingar á íbúðarverði, þ.e. mælir hvernig upphæð fjárfestingar og sparnaðar heimilanna í húsnæði breytist á milli mánaða. Ég ætla svo sem ekki að hafa miklar áhyggjur af því hvernig samræmda vísitalan hefur þróast í öðrum löndum í bili, en á Íslandi þá hefur hún þróast á umtalsvert annan hátt en hefðbundin vísitala neysluverð (VNV). (Skoða þó samanburð við Svíþjóð síðar í færslunni.)
En hvers vegna ætti það að skipta máli hvort verðbólga er mæld með eða án "reiknaðrar húsaleigu"? Jú, það eru tvær ástæður fyrir því. Önnur er útreikningur verðbóta og hin er áhrif verðbólgu og þá aðallega verðbólguspár á stýrivexti/meginvexti Seðlabanka Íslands.
Í tölfunni fyrir neðan má sjá þróun þessara tveggja vísitalana frá 1996. Vissulega hækkaði SVN meira nokkur ár á tímabilinu, en ekki er víst að það hefði orðið, ef hún hefði verið viðmiðun Seðlabankans frá því að verðbólguviðmið voru tekin upp.
Árshækkun VNV | Árshækkun SVN | Mismunur | |
1996 | 2,05% | 1,93% | 0,12% |
1997 | 2,11% | 2,09% | 0,02% |
1998 | 1,18% | 0,48% | 0,70% |
1999 | 5,54% | 4,37% | 1,17% |
2000 | 4,24% | 3,72% | 0,52% |
2001 | 8,63% | 9,14% | -0,51% |
2002 | 1,99% | 1,89% | 0,10% |
2003 | 2,77% | 1,78% | 0,99% |
2004 | 3,88% | 2,93% | 0,95% |
2005 | 4,11% | 1,00% | 3,11% |
2006 | 7,03% | 3,67% | 3,36% |
2007 | 5,83% | 3,46% | 2,37% |
2008 | 18,11% | 21,03% | -2,92% |
2009 | 7,51% | 11,30% | -3,79% |
2010 | 2,48% | 3,48% | -1,00% |
2011 | 5,25% | 5,26% | -0,01% |
2012 | 4,18% | 5,12% | -0,94% |
2013 | 4,16% | 3,67% | 0,49% |
2014 | 0,82% | -0,41% | 1,23% |
2015 | 2,03% | 0,70% | 1,33% |
Munurinn á verðbólgu eftir þessum tveimur vísitölum er ekki alltaf mikill, en hann er nógu mikill til að hafa veruleg áhrif á bæði verðbætur og það sem meira er stýrivexti Seðlabankans.
Þó Seðlabankinn noti alls konar hagstærðir til að ákveða stýrivexti, þá eru þrjár sem skipta mestu máli:
1. Verðbólga og verðbólguspá
2. Framleiðsluspenna
3. Jafnvægisraunvextir
Af þessum þremur, þá vegur verðbólgan þyngst. Í svo kallaðri Taylor-reglu, sem gjarnan er notuð til að sjá hvort stýrivextir séu réttir, vegur verðbólga 50% meira en hinir tveir liðirnir. Það þýðir að sé 1% munur á verðbólgu milli ára, þá ætti það að leiða til 1,5% hækkunar/lækkunar á stýrivöxtum. Til að rifja upp, þá voru stýrivextir á bilinu 9-10,25% frá júní til desember 2005, en hefði SVN verið notuð, þá gefur Taylor-reglan að stýrivextirnir hefðu átt að vera 6-6,5%. Ástæðan er hinn mikli munur sem var á verðbólgu eftir hvorri mælingu.
Þetta hefði getað breytt öllu, vegna þess að háir stýrivextir á þessum mánuðum gerðu það að verkum, að krónan styrktist mikið og inn í landið flæddu fjármunir sem fóru í að kaupa innlend verðbréf. Þetta eru þeir peningar sem í dag eru hluti svo kallaðra aflandskróna og mynda eina af þeim snjóhengjum sem hafa valdið því að enn eru gjaldeyrishöft í landinu. Án þess að vita það með vissu, þá þykir mér ólíklegt að fé hefði flætt inn í landið í eins miklu mæli hefu stýrivextirnir verið 6%.
Ruðningsáhrifin af 3-4% of háum stýrivöxtum seinni hluta árs 2005 hafa mjög líklega orðið umtalsverð. Jafnvel það mikil, að það hefði breytt þróun mála fyrir hrun, ef þau hefðu ekki orðið. Þegar síðan er horft til þess að verðbólga samkvæmt SVN var líka umtalsvert lægri árin 2006 og 2007, þá er líklegt að notkun þeirrar verðbólgu við vaxtaákvarðanir hefði leitt til mun lægri vaxta á þeim árum.
En hvers vegna notar SÍ ekki SVN?
Á fundi Peningastefnunefndar með efnahags- og viðskiptanefnd 26. apríl sl., þá viðurkenndi Már Guðmundsson, að Seðlabanki Íslands væri eini seðlabankinn sem notaði verðbólgumælingu með húsnæðislið við vaxtaákvörðun. Hann skýrði það út með því að menn væru ekki sammála, en sleppti því að skýra út hvers vegna SÍ væri með ósamanburðarhæfa aðferð. Jú, seðlabankastjóri kom með eina skýringu, sem hneykslað hefur marga. Hann sagði "..við neytum húsnæðis.." Nei, Már, við fjárfestum í húsnæði og notum það sem leið til sparnaðar, en við neytum þess ekki!
Það hefur sem sagt ekki komið nein haldbær skýring á því hvers vegna SÍ notar annars konar verðbólgumælingu en aðrir seðlabankar við stýrivaxtaákvörðun sína, en þessi "af þvi bara" skýring seðlabankastjóra.
En þetta er ekki allt
Í færslunni 27.12. sl. þá vék ég að liðnum jafnvægisraunvextir. Hvernig þeir eru ákveðnir er óljóst. Seðlabankastjóri sagði á fyrrnefndum fundi að þeir ættu að vera 2,5-3%, en í svo kölluðu QMM líkani bankans er notast við 3%. Jafnvægisraunvextir voru stilltir á 3% i október 2008 og hafa haldist þannig síðan. Við þetta er það að athuga að fram til maí 2014, þá ákvað Seðlabankinn stýrivextina sem útlánsvexti, en frá maí 2014 hafa svo kallaðir meginvextir SÍ verið innlánsvextir. Á milli þessara tveggja vaxta hefur SÍ ákveðið bil upp á 0,75%. Að jafnvægisraunvextirnir hafi haldist óbreyttir eftir breytinguna þýðir í raun að þeir hafa hækkað um 0,75%. Hafi jafnvægisraunvexitr útlána verið 3% fyrir mái 2014, þá hefði það þýtt að jafnvægisraunvextir innlána voru 2,25%. Núna eru jafnvægisraunvextir innlánanna 3% og það þýðir að jafnvægisraunvextir útlánanna eru 3,75%.
Þessi mismunur upp á 0,75% á jafnvægisraunvöxtunum þýðir að meginvextir SÍ eru 0,75% hærri en þeir ættu að vera miðað við eldri aðferð! Já, þær leynast víða aðferðir SÍ til að viðhalda vaxtaokri á Íslandi.
Síðan má spyrja hvort jafnvægisraunvextir eigi að vera þeir sömu í lítilli verðbólgu og umtalsvert meiri verðbólgu. Er eðlilegt að þeir séu 3% í 18,1% verðbólgu í desember 2008 og í 0,8% verðbólgu í febrúar 2015? (Og þá er ég ekkert að velta fyrir mér hvort húsnæðisliðurinn er inni eða ekki.) Mér þætti eðlilegt að jafnvægisraunvextirnir væru mun lægri en 3% í verðbólgu sem er langt undir 3 prósentum.
Hverjir ættu stýrivextir að vera?
Miðað við núverandi verðbólgu samkvæmt VNV og spá SÍ um framleiðsluspennu, þá ættu meginvextir SÍ að vera 5,0%. Sé leiðrétt fyrir hækkun jafnvægisraunvaxta ættu vextirnir að vera 4,25%. Ef notuð er samræmd vísitala neysluverðs, þá ættu meginvextir SÍ að vera 3,0% án leiðréttingar á jafnvægisraunvöxtum, en 2,25% með leiðréttingunni. (Notast ég við Taylor-regluna til að finna út vextina.) Munurinn milli núverandi vaxta og þeirra sem ég reikna út á bilinu 0,75% og upp í 3,5%.
Samanburður við Svíþjóð
En svo ég svari nú spurningunni í fyrirsögn greinarinnar, þá ætla ég eiginlega að láta Má Guðmundsson um að svara henni. Á fundinum með efnahags- og viðskiptanefnd, þá spurði Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknar, seðlabankastjóra út í samanburð milli Íslands og Svíþjóðar. Már svaraði því til, að þar væri ólíku saman að jafna. Seðlabanki Svíþjóðar væri að missa hagkerfið í verðhjöðnun! Ég veit ekki hvaðan Már hefur þetta, en þetta er ekki í samræmi við opinberar upplýsingar. Á vef Eurostat er m.a. að finna breytingar á samræmdri vísitölu neysluverðs fyrir lönd Evrópu. Taflan hér fyrir neðan sýnir þróun á 12 mánaða verðbreytingum í hverjum mánuði frá apríl 2015 til mars í ár fyrir Ísland og Svíþjóð.
Ísland | Svíþjóð | |
apríl | -0,30% | 0,50% |
maí | 0,30% | 0,90% |
júní | 0,00% | 0,40% |
júlí | 0,50% | 0,80% |
ágúst | 1,10% | 0,60% |
september | 0,90% | 0,90% |
október | 0,40% | 0,90% |
nóvember | 0,50% | 0,80% |
desember | 0,70% | 0,70% |
janúar | 1,10% | 1,30% |
febrúar | 0,90% | 0,80% |
mars | 0,30% | 1,20% |
Já, verðbólga í Svíþjóð hefur undanfarið ár verið hærri en á Íslandi átta mánuði af tólf og tvisvar jafnhá.
En hvað þá með þróun húsnæðisverðs í Svíþjóð borið saman við Ísland? Siðustu ár hefur húsnæðisverð hækkað jafnt og þétt í Svíþjóð eins og á Íslandi, en hækkanirnar hafa verið mun meiri í Svíþjóð. Eurostat safnar líka þessum upplýsingum. Nýjustu tölur Eurostat ná til 4. ársfjórðungs 2015 og þær sýna að árshækkun húsnæðisverðs í Svíþjóð var 14,2%, meðan hún var "aðeins" 8,7% á Íslandi. Þannig að sænski seðlabankinn er bæði að kljást við hærri verðbólgu með húsnæðisliðnum og án húsnæðisliðarins. Hvers vegna eru þá stýrivextir um frostmark í Svíþjóð, en eru 5,75% á Íslandi? Hvers vegna er sænski seðlabankinn ekki að reyna að hemja hækkun húsnæðisverðs með þvi að hækka stýrivexti upp úr öllu, þegar hækkun húsnæðisverðs er mun meiri í Svíþjóð en á Íslandi? Fyrir utan að sænskir stýrivextir hafa beint áhrif á alla húsnæðisvexti en ekki lítinn hluta þeirra, eins og á Íslandi, þannig að líklegast eru lágir stýrivextir að ýta upp húsnæðisverð!
Og svona með hliðsjón af efni fréttarinnar sem færslan er hengd við, þá hefði verði verðhjöðnun á Íslandi talsverðan hluta síðustu tveggja ára, ef húsnæðisliðnum væri sleppt í verðbólgumælingunni. Er einhver til í að benda seðlabankastjóra á þetta, því hann er að missa íslenska hagkerfið í verðhjöðun samkvæmt eigin orðum!
Verðlag staðið í stað í 2 ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
12.4.2016 | 16:51
6 árum síðar - höfum við lært eitthvað?
Í dag, 12. apríl 2016, eru 6 ár frá því að Skýrslan kom út, þ.e. skýrsla rannsóknarnenfdar Alþingis um fall bankanna árið 2008. Afrakstur af vinnu óteljandi starfsmanna og fjölmargra viðtala víð einstaklinga sem á einn eða annan hátt höfðu orsakað hrunið og þó aðallega alvarleika þess með aðgerðum sínum eða aðgerðaleysi.
Margt fór úrskeiðis í undanfara og eftirmálum hrunsins. Raunar svo mikið að ég furða mig á því, að ekki hafi verið haldnar margar ráðstefnur og vinnufundir þeirra, sem þar klúðruðu mestu, til að finna betur úr hverju var klúðrað og hvernig megi koma í veg fyrir að það endurtaki sig. Ekkert slíkt hefur verið gert. Haldin var hálfgerð hallelúja ráðstefna í Hörpunni, þar sem margir klöppuðu á bak hvers annars og hrósuðu sér og öðrum fyrir hve vel meint endurreisn hefði tekist. Vissulega kom Skýrslan út, en þrátt fyrir að hópur þingmann hafi legið yfir henni heilt sumar, þá varð afraksturinn af þeirri vinnu heldur lítill og snerist upp í farsa þegar ákveðið var að ákæra Geir H. Haarde einan fyrir sín afglöp, en sleppa meðreiðarfólki hans. Þingályktunartillaga var samþykkt um að breyta ótrúlega mörgu, en lítið hefur verið gert.
Ég hef sett allt of mikinn tíma í að skoða hvað gekk á. Hef stundum reynt að vekja athygli á því, en þeir sem ættu að hlusta, hafa lítið gert. Hér eru mínar ályktanir samanteknar. Þær eru hvorki réttari eða rangari en skoðanir einhvers annars, en þær eru enn og aftur settar fram í þeirri von að eitthvað breytist.
- Seðlabanki og Fjármálaeftirlit:
- Ég tel að Seðlabankinn hafi farið fram úr sér í viðbrögðum við stöðu Glitnis. Menn áttu að taka sér lengri tíma til að greina stöðuna og taka á henni af meiri yfirvegun. Sleggju var beitt þegar hamar hefði dugað. Hvort það, að menn hefur gefið sér lengri tíma, hefði breytt einhverju veit ég ekki, en niðurstaðan hefði ekki getað orðið verri.
- Ég tel að Seðlabankinn hafi unnið gegn fjármálastöðugleika í landinu allt frá því að gengið var sett á flot í lok mars 2001. Það gerði hann með því að setja gengið á flot í mikilli verðbólgu og þegar stýrivextir höfðu verið háir í langan tíma. Betra hefði verið að bíða þar til verðbólgan gekk niður og stýrivextir voru lágir til að eiga möguleika á að hækka stýrivexti samhliða því að setja krónuna á flot. Færa má, svo sem, rök fyrir því að Seðlabankinn hafi verið í þvingaðri stöðu, en hafi svo verið, þá bar yfirstjórn hans sök á því.
- Ég tel að Seðlabankinn hefði átt að nota vísitölumælingu sem var samanburðarhæf við mælingar í nágrannalöndum okkar, þannig að allar ákvarðanir í peningamálum væru byggðar á samanburðarhæfum grunni. Það þýðir að nota samræmda vísitölu neysluverðs. Staðreyndin er að verðbólga mæld með samræmdri vísitölu var lægri en verðbólga mæld með hefðbundinni vísitölu neysluverðs (VNV) á lykiltímabilum fyrir hruna og því hefðu viðbrögð, m.a. ákvarðanir um stýrivexti, verið hógværari en með því að miða við verðbólgu samkvæmt VNV.
- Ég tel að Seðlabankinn hefði ekki átt að lækka bindiskyldu árið 2003 samhliða innleiðingu Basel II reglnanna.
- Ég tel að innleiðing Basel II reglnanna árið 2003 hefði átt að vera í þrepum, en ekki einu stökki.
- Ég tel að Seðlabankinn hefði átt að nýta hagstjórnartæki sín betur til að tryggja hér stöðugt gengi, þ.e. að kaupa krónur þegar gengið var að styrkjast og þannig vinna gegn of mikilli styrkingu. Þannig hefði hann jafnframt byggt upp gjaldeyrisvarasjóð og varnað því að vaxtamunarsamningar hefðu verið gerðir á kostnað fjárhagslegs stöðugleika.
- Ég tel að Seðlabankinn hefði átt að setja sér skýr og opinber viðmið varðandi eðlilega raunstýrivexti og undir hvaða kringumstæðum mætti eða væri nauðsynlegt að víkja frá slíkum viðmiðum. Hann styðst vissulega við svo kallaða jafnvægisraunvexti, en hvernig þeir eru ákvarðaðir er ekki gagnsætt og er þeim haldið óbreyttum langtímum saman þó aðstæður í hagkerfinu breytist.
- Ég tel að Seðlabankinn hefði átt að vera með sveigjanlegri verðbólguviðmið, en fyrst og fremst að vera með breytileg tímamörk varðandi það hvenær aðgerðir bankans kæmu verðbólgunni í verðbólguviðmið bankans.
- Ég tel að Seðlabankinn hefði átt að veita viðskiptabönkunum meira aðhald með hækkun bindiskyldu þegar ljóst var að útrásin var gerð með skuldsetningu.
- Ég tel að það hafi verið mikil mistök að lækka áhættustuðul við útreikning eiginfjárkröfu samkvæmt Basel II reglunum hinn 2. mars 2007.
- Ég tel að Seðlabankinn hafi strax haustið 2007 átt að bregðast við varðandi þá lausafjárþurrð sem virtist í uppsiglingu.
- Ég tel að Seðlabankinn hefði átt að bregðast við Jöklabréfunum með því að lækka stýrivexti strax og ljóst var að spákaupmenn voru að spila á vaxtamun og gengi krónunnar. Aukning vaxtamunaviðskipta bendir til ójafnvægis og óheilbrigði peningakerfisins og að skráning gjaldmiðilsins er röng.
- Fjármálafyrirtæki:
Fyrst eru það almenn atriði:
- Bankarnir hefðu átt að vera með mun virkari áhættustýringu. Ég efast ekki um að áhættustýring var í gangi, en miðað við vitnisburð manna í dómsmálum, þá var hún oft hrein sýndarmennska og til að uppfylla formsatriði, en ekki til að verja bankana tjóni ef allt færi á versta veg.
- Bankarnir hefðu átt að vera með breytingastjórnunarferli sem gerði kröfu um að allar breytingar í rekstri og viðskiptaháttum þeirra færi í gegnum gagngera skoðun á kostum og göllum, þar með verstu mögulegu niðurstöðu. Tengja varð saman breytingastjórnun og áhættustýringu, þannig að tryggt væri að gert væri heildstætt mat á áhættuþáttum áður en blásið var til útrása, stórra fjárfestinga eða útlána sem gengu nærri eigin fé banka.
- Bankarnir hefðu átt að vera með innleitt og prófað stjórnferli vegna rekstrarsamfellu. Munurinn á því að vera með slíkt ferli og að vera eingöngu með áhættustýringu er að hið fyrra er mun víðtækara. Það greinir umfangsmeiri áföll og gerir kröfu um að öll viðbrögð við slíkum áföllum séu skilgreind og skjalfest. Miðað við þekkingu mína á bönkunum, þá voru slík ferli ekki til.
Svo er það rekstur bankanna, en margt af því sem hér kemur fram má einnig lesa í skýrslu rannsóknanefndar Alþingis:
- Bankarnir áttu að halda aftur af vexti sínu, þegar þeim var ljóst að þeir voru orðnir of stórir fyrir hagkerfið og sérstaklega Seðlabankann. Þeir áttu að leggja í varasjóði upphæðir sem hægt væri að grípa til, ef illa færi, því þeir máttu vita, að Seðlabankinn hafði ekki getu til að vera lánveitandi til þrautavara í erlendri mynt í þeim upphæðum sem bankana gæti vantað. Eftir að bankarnir uxu getu Seðlabankans upp fyrir höfðu, þá voru þeir að leika rússneska rúllettu. Málið er bara, að ein kúla var nóg til að fella þá alla. Þetta er í mínum huga stærsta einstaka atriðið, sem bankastjórar og formenn bankastjórna þessara þriggja banka verða á taka á sig og geta ekki bent á neinn annan sökudólg. Þeir geta ekki bent á Seðlabankann og sagt að hann hefði átt að bregðast við. Bankarnir báru ábyrgð á vexti sínum og þá um leið fjárhagslegu öryggi sínu. Enginn annar átti, mátti eða gat tekið þá ábyrgð af þeim. Rekstur fyrirtækja er á ábyrgð stjórnenda þeirra og eigenda og annað hvort eru þeir hæfir til að axla þá ábyrgð eða eiga að snúa sér að einhverju öðru. Svo einfalt er það. Því miður reyndust þessir aðilar ekki hæfir til verksins.
- Útlánaáhætta bankanna allra var alveg út úr kortinu. Ég efast ekki um að menn töldu flestar fjárfestingar, sem lánað var til, mjög traustar, en grundvallarregla varðandi útlán er að tryggingar fyrir greiðslum séu góðar. m.k. nokkur hundruð milljarðar af útlánum bankanna voru með veð í hlutabréfum sem einu trygginguna, hlutabréfum sem fjárfest var í með láninu sem veitt var. Bankinn hefði allt eins getað keypt umrædd hlutabréf sjálfur. Það hefði a.m.k. tryggt honum arðgreiðslur af fjárfestingunni.
- Veik eiginfjárstaða var falin með þeim blekkingum sem lýst er hér að ofan. Um leið og banki fullfjármagnar kaup á eiginbréfum, þá á hann að draga upphæð lánsins frá eigin fé sínu, þar sem enginn munur er á því og að bankinn eigi bréfin sjálfur. Sama gildir raunar líka, ef banki A lánar aðila 1, fé til að kaupa bréf í banka B, sem lánar aðila 2 til að kaupa bréf í banka C, sem síðan lánar aðila 3 til að kaupa bréf í banka A meðan bréfin eru eina tryggingin fyrir endurgreiðslu lánanna.
- Bankarnir keyrðu upp verð á húsnæðismarkaði langt umfram það sem verð undirliggjandi fasteignir stóð undir. Þeir máttu alveg vita, að verðhækkun fasteigna var bóla. Vissulega hækkar verð fasteigna jafnt og þétt í verðbólgu, en 100% lánveitingar til kaupa á húsnæði sem hækkað hafði um vel á annað hundrað prósent var ávísun á hörmungar. Bankarnir hefðu því strax árið 2005 átt að bakka út úr 100% lánveitingum til fasteignakaupa.
- Bankarnir voru einfaldlega of virkir á fjárfestingamarkaði, ýmist með beinni þátttöku en fyrst og fremst með óbeinni þátttöku, þar sem þeir í raun tóku alla áhættuna, en lántakinn hirti arðinn.
- Vöxtur bankanna var allt of hraður. Hann var mikið til fjármagnaður með skammtímalánum á ótryggum markaði, en peningurinn lánaður til langs tíma. Míní-kreppan árið 2006 var fyrsta vísbendingin um að bankarnir væru að fá þetta í andlitið. Í staðinn fyrir að taka fæturna af bensíngjöfinni og færa yfir á bremsuna, þá var bara bensínið stigið í botn við fögnuð klappliðs í Kauphöllinni, Fjármálaeftirliti og á Alþingi. Drengir, sjáið þið ekki veisluna?[1] var mælt úr ræðustól á Alþingi, þegar einhver vogaði sér að spyrja hvort ekki væri farið of geyst.
- Söfnun innistæðna í erlendri mynt frá erlendum viðskiptavinum var svo sem alveg snilldar hugmynd, ef bara útfærslan væri rétt. Hún bara var það ekki hjá öllum bönkunum. Að halda síðan áfram slíkri söfnun, þegar menn vissu að staða bankans síns var eldfim og miklar líkur væri á að allt færi fjandans til, var síðan glannaskapur. m.k. þóttust Bjarni Ben. og Illugi Gunnarsson vita áður en opnað var fyrir Icesave-innlán í Hollandi, að ýmislegt væri að. Davíð vissi það líka og hafði kynnt ríkisstjórn það. Og loks höfðu bankastjórarnir verið kallaðir á teppið til að skýra sín mál.
- Að breyta bönkunum í einkafjárhirslu eigenda sinna sem gengið var ótæpilega í, varð líklegast banabiti allra bankanna. Þessi háttsemi hófst strax hjá Landsbanka Íslands og var alls konar blekkingum beitt til að bækur bankans sýndu ekki sannleikann. Kaupþing fjármagnaði kaup á bréfum í stærsta eiganda sínum bara með veði í bréfunum. Bankinn fjármagnaði svo fjárfestingar stærstu eigenda sinna út um allar trissur og var lítið að hafa áhyggjur af uppsafnaðri áhættu sem slíkum útlánum fylgdu. Glitnir var í góðum málum þar til nýir aðilar tóku hann yfir og fengu lepp í stól bankastjóra. Þegar svo fór að þrengja að um lánsfjármögnun hjá helstu eigendum bankanna árið 2007, þá breyttust bankarnir endanlega í einkabanka eigendanna. Bankarnir skyldu gera allt sem hægt væri til að bjarga eigendunum, þó svo að bankarnir hefðu ekkert svigrúm til slíks. Það varð svo banabiti þeirra allra.
- Sýndarviðskipti virtust á stundum vera reglan. Búin voru til félög sem skráð voru á Pétur og Pál úti í bæ án þess að viðkomandi hefðu nokkurn skapaðan hlut með félögin að gera. Bankarnir notuðu síðan þessi félög til að hafa áhrif á verð eigin hlutabréfa.
- Milljörðum og milljarða tugum var veitt í gegn um milliliði til að falsa eða hafa áhrif á skuldatryggingar og álag vegna þeirra.
- Beitt var blekkingum um stöðu bankanna með því að bankarnir áttu í viðskiptum sín á milli eða með því að fá einfalda sakleysingja til að fela slóðina.
Ég gæti vafalaust haldið svo áfram lengi, en læt það vera. Ég hugsa hins vegar oft til þess með hryllingi hvernig þetta hefði undið enn frekar upp á sig, hefði ekki allt hrunið haustið 2008. Ég hef oft sagt, að bankarnir hafi ekki komið atburðarrásinni af stað, en fyrirhyggjuleysi þeirra og glæfraskapur tryggði að skellurinn var eins stór og raun bar vitni.
- Ríkisstjórnir og Alþingi
- Ég nefndi áðan klappliðið á Alþingi og vitnaði í ræðu Árna M. Mathiesen, þar sem hann hvatti þingmenn VG til að horfa ekki framhjá veislunni, sem hann taldi vera í þjóðfélaginu. Því miður var þetta nokkuð ríkjandi viðhorf meðal þeirra, sem áttu að standa á verði fyrir okkur hin. Hvorki þingheimur né ráðherrar veittu ástandinu athygli. Menn veltu því ekki fyrir sér hvort uppgangi bankanna fylgdi kerfisáhætta.
- Á kjörtímabilinu 2003-7, þá ýtti ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar, Halldórs Ásgrímssonar og Geirs H. Haarde undir frekari vöxt bankakerfisins. Stofnaður var vinnuhópur/nefnd sem átti að leggja fram tillögur um það hvernig gera mætti Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð! Í þá nefnd voru náttúrulega bara skipaðir já-bræður, enda mátti örugglega ekki heyrast nein niðurrifsrödd.
- Förum lengra aftur í tímann og fjöllum um umræðu á Alþingi, þegar lög um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta voru til umræðu á Alþingi árið 1999, þá spannst umræða um hvað myndi gerast, ef stór innlánsstofnun lenti í greiðsluerfiðleikum. Finnur Ingólfsson, þáverandi viðskiptaráðherra, hann afgreiddi spurninguna nánast með orðunum Og vonandi lendum við ekki í allsherjar stóru gjaldþroti.[2] Ekki var lagt meira í að undirbúa Ísland fyrir áfalli stórs banka, en að vona að slíkt gerðist ekki. Með þessar varnir eða skort á vörnum opnuðu bankarnir þrír hindrunarlaust fyrir viðtöku innlána upp á hátt í 2.000 milljarða frá grandlausu fólki í útlöndum og þetta leyfðu íslensk stjórnvöld og hið ótrúlega meðvirka Fjármálaeftirlit án athugasemda. Við gátum ekki bannað það minnir mig að þáverandi forstjóri FME hafi sagt í skýrslutöku fyrir rannsóknanefnd Alþingis. Og sama sögðu stjórnmálamennirnir. Málið er, að hafi þeim þótt þetta hættulegt, sem það var, þá áttu viðkomandi að grípa til nauðsynlegra aðgerða. Ég held bara, að mönnum hafi þótt þetta svo svakalega smart og spennandi, að litla Ísland væri að safna erlendum innstæðu í útlöndum, að þeir pissuðu í buxurnar af aðdáun og fengu stjörnublik í augun í staðinn fyrir að standa vaktina. Ráðherrum bar að spyrja: Hvað er það versta sem gæti gerst? Er aðferðin við opnun reikninganna rétt? Skapar þetta kerfislæga áhættu fyrir Ísland?, svo nokkrar spurningar séu tilteknar. Seðlabankinn og FME áttu ekki síður að spyrja þessara spurninga og margra annarra, en samt gerðist þetta.
- Ein stærstu mistök ráðherra á þessum árum var skipun Davíðs Oddssonar í embætti bankastjóra Seðlabankans. Ég efast ekki um að Davíð er hæfur til alls konar verka, en þetta var ekki eitt af þeim.
- Ekkert ríki getur leyft einu eða nokkrum fyrirtækjum að verða svo stór, að staða ríkisins velti á afkomu viðkomandi fyrirtækis/fyrirtækja. Að kerfisáhættan samhliða fyrirtækjunum væri svo mikil, að afkoma þjóðfélagsins væri undir. Hvernig stendur þá á því, að þetta voru blautustu draumar allra ríkisstjórna frá 1995 til þeirrar sem tók við árið 2007? Að hér yrði svo sterkt fjármálakerfi að það yxi öllu öðru upp fyrir höfuð án þess að nánast nokkuð væri gert til að draga úr kerfisáhættunni.
- Þegar ljóst var að bankakerfið var orðið of stórt fyrir Seðlabankann að styðja það, þá áttu viðkomandi ráðherrar að grípa til aðgerða og þrýsta á Seðlabankann um að hann gripi til aðgerða. Þessar aðgerðir þurftu að taka á vexti bankanna, hvort nauðsynlegt væri að koma böndum á vöxtinn eða styrkja stöðu Seðlabankans að hann réði við hlutverk sitt. Það var ekki gert.
- Eftir að krónan byrjaði að veikjast hratt í mars 2008, þá var ljóst að formenn stjórnarflokkanna og ráðherrar fjármála og bankamála voru ákaflega bláeygir gagnvart stöðunni. Í staðinn fyrir að horfa yfirvegað á staðreyndir, þ.e. að fall Bear Sterns, bæri vott um að mikil hætta væri á ferð, þá var höfðinu stungið í sandinn. Menn vildu ekki láta líta út sem eitthvað óðagot væri í gangi og fóru því í áróðursherferð í staðinn fyrir að taka ábendingar alvarlega.
Ekki er rétt að einskorða skýringarnar við þann hóp sem ég nefni að ofan. Allir brugðust, þ.e. Seðlabankinn, ríkisstjórnir, Fjármálaeftirlit, Alþingi, bankarnir, fjárfestar, lífeyrissjóðirnir og almenningur. Við létum dáleiðast af góðærinu og héldum að allt sem við snertum myndi breytast í gull. Við létum glepjast af gylliboðum og misstum dómgreind okkar. Við héldum að áhætta væri eitthvað sem við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af. Það kæmi ekkert fyrir okkur. Við værum svo pottþétt. Við dönsuðum öll í kringum gullkálfinn og dýrkuðum hann. Við hlustuðum ekki á raddir efasemdarmanna og kölluðum þá öfundarmenn, heimska, skilningssljóa, o.s.frv. Verst af öllu er að ákveðinn hópur manna lét stjórnast af ólýsanlegri græðgi, þar sem ekkert skipti máli nema næsta grædda króna.
Loks megum við ekki gleyma því, að við lentum í hamfarastormi. Þessi stormur var ekki af okkar völdum og við höfðum fá úrræði til að komast í skjól undan honum. Stærstu bankar heims féllu í þessum stormi og mörg þjóðríki horfðu ofan í hyldýpið, þó aðeins Ísland og Grikkland hafi hrapað þangað. Spánn, Portúgal, Írland og Ungverjaland vógu salt á brúninni. Ríkustu lönd heims brugðu á það ráð að ausa ómældum fjármunum inn í bankakerfi sín til að koma í veg fyrir fall þeirra. Evrópski seðlabankinn hefur frá 2007 staðið í nær samfelldum björgunaraðgerðum. Það algjörlega óvíst að við hefðum staðið þennan storm af okkur í útópísku hagkerfi bara út af smæð hagkerfisins. Að fallið hafi verið jafn harkalegt og raun bar vitni er aftur alfarið sök bankanna, Seðlabanka, ríkisstjórnar, Alþingis og Fjármálaeftirlits. Þetta eru þeir aðilar sem voru ábyrgir (e. responsible) og báru ábyrgðarskyldu (e. accountable). Því miður hefur farið lítið fyrir því að menn hafi viðurkennt það.
[1] Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, ræða á Alþingi 17. mars 2007 http://www.althingi.is/altext/133/03/r17183448.sgml
[2] Finnur Ingólfsson, viðskiptaráðherra, umræða á Alþingi 7.10.1999: http://www.althingi.is/altext/125/10/r07125909.sgml
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.4.2016 | 16:02
Þegar íslenskir bankamenn gengu af vitinu
Uppljóstrun Panamaskjalanna er einn áfangi á langri göngu, sem hófst árið 1998 með annars vegar stofnun Kaupthing Luxembourg S.A. og hins vegar Landsbanki PCC (Guernsey) Limited. Ég er svo sem enginn sérfræðingur í þeirri starfsemi sem fór fram í þessum fyrirtækjum (sem betur fer), en ljóst er að þarna hófst sú atburðarrás, sem hefur verið að rekjast upp fyrir augunum á okkur síðustu klukkutíma, daga og vikur.
Hinir tveir bankarnir, Íslandsbanki og Búnaðarbanki Íslands, gátu ekki verið eftirbátar og keypti sá fyrri Raphael & Sons Plc. í Bretlandi árið 1999, meðan sá síðari setti á fót Bunadarbankinn International S.A. Luxembourg árið 2000. Sama ár keypti Landsbanki Íslands Heritables Bank í London, en hann var m.a. með starfsemi á Jersey. Eins og sést á þessu, þá átti þetta allt sér stað fyrir "einkavinavæðingu" LÍ og BÍ. Við sameiningu BÍ og Kaupþings, þá keypti LÍ síðan starfsemi BÍ í Luxemborg.
Hvers vegna voru íslenskir bankar að setja upp starfsemi í Luxemborg, á Guernsey og Jersey. Ja, bankamaðurinn sem aldrei var ákærður, Halldór J. Kristjánsson, lýsir því ágætlega í grobbviðtali við Viðskiptablað Morgunblaðsins 6. janúar árið 2000. Hann bjó vissulega að því á þessum tíma, að enginn áttaði sig á steypunni, en hann sagði m.a.:
[Stórfyrirtækin] nýta sér þetta til að ná betri stýringu, m.a. á skattskyldum sínum í alþjóðlegu umhverfi. Það er jú eitt af því sem svona lögsaga getur auðveldað, þ.e. stjórnun í fjölbreyttu og flóknu umhverfi, til dæmis hjá stórfyrirtækjum sem reka starfsemi í nánast hverju einasta Evrópuríki, með ólíkum skattareglum og ólíkum frádráttarmöguleikum o.h.þ. Erfitt getur verið fyrir fjölþjóðlegt fyrirtæki að stýra slíku og þar af leiðandi hentugt fyrir það að nýta sér umhverfi eins og á Guernsey. Það þýðir ekki að fyrirtækið sé að skjóta undan skatti, heldur reynir það að stýra eignasafninu m.a. út frá skattaskuldbindingum og væntanlega með það að markmiði að hámarka arðsemi og þá að sjálfsögðu að lágmarka gjöld sem leggjast á starfsemina.
Þarna lýsir bankastjóri ríkisbankans, Landsbanka Íslands, að ríkisbankinn ætlaði að aðstoða viðskiptavini sína við skattsvik.
A.m.k. er eitt alveg á hreinu, að þessi "viðskiptaráðgjöf" bankanna var hafin fyrir einkavæðingu þeirra árið 2003. Ríkisbankarnir tveir, Landsbanki Íslands og Búnaðarbanki Íslands, fóru þar fremstir meðal jafningja.
En hvers vegna varð þetta svona vinsælt meðal Íslendinga? Þegar stórt er spurt eru svörin ótrúlega oft ákaflega einföld:
1. Hjarðhegðun: Eftir að einn banki fór að bjóða upp á þetta, þá gerðu allir það. Málið er nefnilega að vöruframboð íslensku bankanna er ákaflega einsleitt og enginn þorir að bjóða ekki það sama og hinir.
2. EES samningurinn: Fjöldi Íslendinga átti háar upphæðir í útlöndum og hafði treyst á bankaleynd, sem núna var að rakna upp. Því var tilvalið að færa eignarhaldið og auðinn, þar sem minni líkur voru á að allt fyndist.
3. Þetta var smart: Ég efast ekki um að þetta hafi þótt sniðugt og smart.
4. Enginn var auðmaður með auðmönnum nema eiga svona félag: Ég held að það hafi gengið smitsótt meðal auðmanna um að þetta væri nauðsynlegt.
5. Auðmenn sáu ofsjónum yfir sköttum sem þeir greiddu til samfélagsins: Líklegast helsta ástæðan.
Afleiðingarnar að koma í ljós
Á Íslandi hrundi bankakerfið á nokkrum góðum dögum í október 2008. Eftir á að hyggja, þá hefur gæfa Íslands líklegast aldrei verið meiri, en að þessir þrír bankar hafi fallið harkalega á nefið. Auðvitað var enginn sammála því þá, en pælum bara í soranum sem búið væri að byggja upp til viðbótar, ef þeir hefðu haldið áfram að starfa.
Áður en bankarnir þrír féllu, höfðu þeir hjálpað ótrúlega mörgum Íslendingum, auðmönnum og öðrum sem vildu láta sem þeir væru auðmenn, að setja upp pappírsfélög í skattaskjólum út um allan heim. Mér fannst nánast kjánalegt að sjá að Hrólfur Ölvisson og Sveinbjörg Kristjánsdóttir hafi verið skráð fyrir slíkum félögum. Er ekki örvænting bankanna eftir að fá fleiri viðskiptavini orðin mikil, að fólk sem í raun átti ekkert var nógu ríkt til að eignast skattaskjólsfélag? Eða var löngunin eftir að spila á leikvelli þeirra stóru svo mikil að menn urðu bara að vera með?
Í mínum huga bera tveir menn mesta ábyrgð á þessu skattaskjólsmálum: Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóri Landsbanka Íslands, og Sigurður Einarsson, þáverandi æðsti stjórnandi Kaupþings, lítils verðbréfafyrirtækis með aðsetur á annarri hæð húss við Hafnarstræti. Að öllum líkindum má bæta á þennan lista Sigurjóni Þ. Árnasyni, þáverandi yfirmanni hjá Búnaðarbanka Íslands.
Já, við erum enn að bíta úr nálinni varðandi ósiðsama viðskiptahætti bankakerfis landsins síðustu 20 ár eða svo. Ég hef þegar nefnt Íslandsbanka, Landsbanka Íslands, Búnaðarbanka Íslands og Kaupþing, en gleymum ekki Byr, SPRON, Straumi, SpKef og hvað þessar fjármálastofnanir hétu sem tóku þátt í þessu. Viðurkennum þá staðreynd, að íslenskt fjármálakerfi var rotnara, en okkur hefur nokkru sinni dottið í hug. Ég vorkenni þeim starfsmönnum þessara fjármálafyrirtækja, sem voru dregnir á asnaeyrunum af yfirmönnum sínum. Ég vorkenni þeim starfsmönnum, sem telja þetta til afreka á ferilskrám að hafa leitt eða tekið þátt í þessum þætti viðkomandi fjármálafyrirtækja.
Siðferðishrun íslenska fjármálakerfisins hófst árið 1998. Við erum enn að súpa seyðið af því siðferðishruni. Við erum að líða fyrir að íslenskir bankamenn gengu af vitinu. Ef ekki væri fyrir afglöp þeirra og "snilli", þá væri Ísland kannski bara "best í heimi", eins og við viljum svo gjarnan vera.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 34
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 30
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði