Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2013
30.8.2013 | 21:12
Hvert stefnir Ísland? Eru fjármálafyrirtækin að éta útsæðið?
Ég er í þeim sporum að horfa á þróunina á Íslandi utan frá. Er ekki í hringiðunni og upplifi því ekki það þunglyndi og neikvæðni sem Íslendingar sem ég hitti hér í Danmörku tala um. Eiginlega er ég feginn að hitta ekki fleiri en raun ber vitni.
Allir þeir Íslendingar sem ég tala við, segja mér sömu söguna. Ástandið fer versnandi hjá a.m.k. verulegum hluta þjóðarinnar. Skiptir ekki máli hvort talað er um sæmilega efnað fólk eða sauðsvartan almenning. Ástandið er ekki gott. Nema náttúrulega hjá fjármálafyrirtækjunum sem tókst að safna sér upp vel yfir 30 milljörðum í hagnað á fyrstu 6 mánuðum ársins. Þegar afkomutölur þeirra eru skoðaðar, þá er eins og haustið 2008 hafi bara verið afbrigðileg dýfa á afkomulínuritinu. A.m.k. þá er það með ólíkindum, að hrunið sé að skapa afsprengjum hrunbankanna meiri hagnaði en hrunbönkunum tókst að búa til á árunum 2003-2007. Kannski að einhverjir heimspekingar eða siðfræðingar sjái þetta sem efni í rannsóknarverkefni.
Hvert mun þetta leiða? Ég hef svo sem spurt þeirrar spurningar fyrr og svarað henni áður. Þetta er að leið til þess, að hluti þjóðarinnar er að komast á vergang, ef hann er ekki þegar kominn í þá stöðu. Ég heyri of mörg dæmi af fólki sem hefur reynt allt sem það getur til að semja við fjármálafyrirtækin og náð samningum, bara til þess að komast að því, að starfsfólkið sem það samdi við hafði ekki umboð til að semja. Ég hef heyrt allt of mörg dæmi af fólki sem hefur misst húsnæðið ofan af sér (of vegna óverulegra skulda) en situr samt uppi með drjúgan hluta skuldanna, vegna þess að fjármálafyrirtækin buðu lágmarksupphæð á nauðungarsölu svo fólk losnaði ekki af króknum. Síðan hef ég heyrt allt of margar sögur af fólki sem er á flækingi á milli húsnæðis eða býr jafnvel í hjólhýsi vegna þess að leigubraskarar eru að mata krókinn. Oft eru þessir leigubraskarar handbendi þessara sömu fjármálafyrirtækja sem tóku húsnæðið af fólki.
Söfnun húsnæðis kostar pening
Hvað munu fjármálafyrirtækin geta tekið yfir mikið af íbúðarhúsnæði áður en það fer að kosta þau of mikið? Höfum í huga að af 30 m.kr. húsnæði þarf að greiða 25-30 þús.kr. í fasteignagjöld á mánuði 10 mánuði ársins. Greiða þarf hitunarkostnað og halda húsnæðinu við. Eða ætla fjármálafyrirtækin að selja fólki húsnæði síðar sem er orðið ónýtt, vegna þess að það var ekki kynnt eða því haldið við. Þá þarf starfsmenn í eftirlit með húsnæðinu. Húsnæði sem ekki er búið í verður frekar fyrir skemmdum, vegna þess að enginn er til að hlusta á þakplötuna losna eða rúðuna brotna.
Hver verður svo ávinningur fjármálafyrirtækjanna af þessu? Hann verður ekki mikill nema þeim takist að skapa fasteignabólu. Hækki ekki verð á húsnæði verulega og ég er að tala um 25-30% áður en eignin er seld, þá eru fjármálafyrirtækin ekki að hafa nóg út úr þessu. Svo einfalt er það. Er það kannski þess vegna sem greiningardeildirnar eru alltaf að tala um væntanlega hækkun húsnæðisverðs?
Færri geta keypt
Sú hlið sem er betur og betur að koma í ljós, er að færri og færri eru að komast í gegn um greiðslumat. Kannski eins gott, svo sama vitleysa byrji ekki aftur. Lausnin á því er bara ein. Að verð húsnæðisins lækki og það verulega. Verð á húsnæði og greiðslubyrði lána verður að vera í samræmi við greiðslugetu kaupenda. Alls staðar í heiminum hefði fasteignaverð lækkað við slíkar aðstæður, en ekki í fjármálaparadísinni Íslandi. Eða ætti ég að segja, paradís fjármálafyrirtækjanna.
Ég skil vel að fjármálafyrirtækin verða að hagnast til að geta haldið áfram að starfa, en ef stór hluti viðskiptavina fjármálafyrirtækjanna er á vonarvöl, hvert ætla fjármálafyrirtækin þá að sækja tekjur sínar?
Meðan ég var í stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna, þá sótti ég heim fjóra bankastjóra, þ.e. Steinþór Pálsson hjá Landsbankanum, Birnu Einarsdóttur hjá Íslandsbanka og síðan hitti ég bæði Finn Sveinbjörnsson og Höskuld Ólafsson hjá Arion banka. Á öllum þessum fundum lögðum við hjá HH áherslu á að markmið samtakanna væri að treysta viðskiptasamband viðskiptavinanna við viðskiptabankann sinn. Þetta var 2009 og 2010. Við hvöttum bankanna til að gera allt sem þeir gátu til að koma til móts við viðskiptavini sína, þannig að viðskiptasambandið gæti haldist. Ég er ekki viss um að allir hafi verið að hlusta.
Hvert stefnir Ísland?
En að fyrirsögninni: Hvert stefnir Ísland?
Ja, eins og þetta lítur út frá mínu sjónarhorni, þá er þjóðin að skiptast í tvo mjög ólíka hópa. Annan sem hefur það gott, m.a. vegna þess að hann var/er með rétt sambönd innan fjármálakerfisins og síðan hinir sem virðist vera hægt að koma fram við eins og það lægsta sem til er. Fróðlegt viðtalið við þingmann Framsóknar sem sýnt var í Ísland í dag á Stöð 2 fyrir rúmri viku. Hefði útvalinn einstaklingur, sem hefði farið í gegn um 110% leið sértækrar skuldaaðlögunar, lent í því að fá 5,8 m.kr. bakreikning vegna þess að 2 mánuðir fóru í vanskil? Nei, ég efast stórlega um það. En það fær almúginn sem má missa sig. Þó þessi almúgi hafi verið þingmaður. En þetta er því miður ekkert einsdæmi, eins og þingmaðurinn greindi frá.
Færri standa undir vextinum
Jæja, áfram með hvert stefnir. Hópurinn sem á nóg, hann heldur bara áfram með líf sitt, en hinn hópurinn hann mun festast í kviksyndi. Þegar hefur talsverður hluti fjölskyldna misst heimilið sitt. Aðrar eru inni í íbúðum sínum upp á náð og miskunn, en greiða húsaleigu sem er hærri en mánaðarlegar greiðslur lánanna sem þær réðu ekki við voru áður. Það sem verra er, að hátt í 50 þúsund fjölskyldur eru í vandræðum með eða geta ekki staðið undir mánaðarlegum útgjöldum. Vanskil eru mikil, þó reynt sé að telja okkur trú um að þau séu að minnka, þá held ég að það sé ekki rétt. Fjárnámum fjölgar og fjármálafyrirtækin virðast vera himinn lifandi, er þau eru árangurslaus. Þannig er nefnilega hægt að halda kröfunni lifandi í mun lengri tíma, en ef farið er í gjaldþrot.
Það er einmitt þessi þróun sem er mest ógnvekjandi fyrir framtíðina. Sá sem er með árangurslaust fjárnám á bakinu, hann fær ekki lán (nema gera upp fjárnámskörfuna sem hann myndi gera ef hann hefði efni á). Sá sem ekki fær lán er óvirkur á fjárfestingamarkaði. Kaupir sér hvorki bíl né húsnæði. Getur heldur ekki gengist í ábyrgð fyrir fyrirtæki eða verði hluti af atvinnusköpun. Það er þetta sem er að drepa Ísland í dag. Fólkið sem á að vera drifkrafturinn í nýjabrumi atvinnusköpunar, það er búið að gelda það fjárhagslega. Á hvorki peninga til að leggja í nýsköpun og atvinnuuppbyggingu né er lánshæft.
Hvernig ætla stjórnvöld og fjármálafyrirtækin að bregðast við þessu? Stjórnvöld þurfa að stuðla að atvinnusköpun, en ef stór hluti þeirra sem ættu að standa að þessari atvinnusköpun geta það ekki, vegna þess að þeir eru enn í rústabjörgun heimilis, þá er úr vöndu að ráða. Og gagnvart fjármálafyrirtækjunum, þá verða þau að viðhalda tekjustreyminu og hagnaðinum. En hvaðan eiga tekjurnar að koma? Bara aukin verðmætasköpun í þjóðfélaginu gerir það.
Ég vona að einn daginn átti fjármálafyrirtækin sig á því, að leitin eftir skammtímahagnaði mun bitna á vaxtarmöguleika þeirra til framtíðar. Þetta á ekki bara við þau íslensku, heldur virðist þessi fíkn fjármálaaflanna í skammtímahagnað vera algeng um allan heim. Raunar er hún plága. Allt er gert til að ná í eitt cent í viðbót, þó að það þýði að menn éti útsæðið. Það er sýn mín á stöðuna á Íslandi í dag.
Marklaus samningstilboð og fleiri trix
Margt fleira er fjármálafyrirtækjunum ekki til framdráttar. Fyrir utan hve langan tíma þau hafa tekið sér í að leysa mál viðskiptavina sinna, þá nota þau alls konar trix til að hreinlega eyðileggja möguleika á samningum. Vinsælasta trixið er að láta umboðslaust starfsfólk semja við viðskiptavininn. Þekki ég dæmi um að fólk og fyrirtæki hafi fengið fjölmörg "tilboð" frá fjármálafyrirtæki um lausn mála, bara til þess eins að lánanefnd fjármálafyrirtækisins hafi dregið tilboðið til baka. Hvers slags viðskiptasiðferði er það, að leggja fram samning án þess að hafa umboð til að leggja samninginn fram? Til hvers eru fyrirtækin að senda umboðslaust starfsfólk til að semja við viðskiptavinina? Slíkt er bara hrein sadismi. Önnur útgáfa er að láta marga fást við málefni sama viðskiptavinar og passa sig á því að engin samskipti séu (að því virðist) milli starfsmannanna. Þannig getur einn starfsmaður boðið viðskiptavininum áhugaverðan samning, en síðan setur hinn starfsmaðurinn þessum sama viðskiptavini óaðgengileg skilyrði sem þá um leið fella fyrri samninginn. Nú málefni þingmannsins, sem ég nefni að ofan, er síðan enn ein útfærslan. Enginn sveigjanleiki. Reitt er höggs af fullum þunga.
Ég hvatti einu sinni til mannúðar. Hún er eitt af þessum grunngildum sem gufaði upp í hruninu. Núna nánast 5 árum síðar, þá virðist hún enn týnd.
Svo merkilegt er að fyrir einu ári skrifaði ég færslu nánast sama efnis, Hin endurreista bankastarfsemi á Íslandi. Þar fjallaði ég líka um þessa sérkennilegu aðferðarfræði bankanna. Því miður virðist lítil breyting hafa orðið. En skilaboð mín til fjármálafyrirtækjanna eru þau sömu og þá:
Ég held að hollast sé fyrir bankana að muna, að ánægður viðskiptavinur er líklegri til að vera áfram í viðskiptum en sá sem er óánægður. Uppgjörsmál vegna hrunsins verða því að innifela í sér gagnkvæman ávinning en ekki að annar sé keyrður í þrot og hinn taki til sín allan hagnaðinn.
Endurreisn | Breytt 5.12.2013 kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.8.2013 | 17:32
Íslenskt lán, myntkörfulán, gengistryggt lán eða erlent lán - hver er munurinn? Endurbirt færsla um ólíkar tegundir lána
Nú styttist í að 5 ár séu frá hruni. En er stór hluti íslenskra heimila í spennutreyju fjármálafyrirtækja og endurvakninga þeirra. Í fyrra vor var farið í mikla vinna til að finna prófmál svo hægt væri að útkljá óleystan ágreining varðandi gengistryggð lán. Ekki tókst nú betur til en svo, að fjármálafyrirtækin fengu að ráða hvaða málum væri stefnt og síðan hafa þau líka fengið að ráða hvaða mál voru felld niður.
Ég hef verið þeirrar skoðunar lengi, að þessi mál séu bæði mun flóknari og mun einfaldari en niðurstöður dómstóla hafa leitt til hingað til. Flóknari að því leiti, að neytendaréttur er gjörsamlega hunsaður í flestum, ef ekki öllum, dómum Hæstaréttar og að rétturinn neiti að leita til EFTA-dómstólsins lýsir hroka réttarins og ekkert annað. Málin eru síðan einfaldari á þann hátt, að líta á til lánsumsóknarinnar, en ekki lánsformsins, þegar dæmt er í málunum. Ég veit, t.d. ekki um neinn sem sótti um lán að fjárhæð JPY 19.434.629,- (svo vísað sé í skjal sem Sigurvin Ólafsson birtir á Pressunni) og efast um að slík lánsumsókn finnist í bankakerfinu. Aftur á móti finnst alveg örugglega umsókn upp á 11 m.kr. Að Hæstiréttur hafi ákveðið að valta gjörsamlega yfir neytendur með því að dæma slíkt lán á grunni eyðublaðsins, sem viðkomandi banki dró út úr staflanum hjá sér, en ekki forsendum þeirra samskipta sem áttu sér stað milli neytandans og fjármálafyrirtækisins, er mér óskiljanlegt. Nú getur Hæstiréttur ekki skýlt sér bakvið að málatilbúnaður hafi ekki byggt á þessu atriði, því þegar kemur að neytendarétti, þá má rétturinn taka upp atriði sem eru neytandanum til hagsbóta.
Annað sem ég hef ekki heldur getað skilið í öllu þessu, er þetta með það hve nær lán er íslenskt lán, myntkörfulán, gengistryggt lán eða erlent lán í huga Hæstaréttar. Ég skrifaði um þetta bloggfærslu fyrir þremur og hálfu ári og langar að endurbirta hana hér. Þar sem Eyjan veitir ekki lengur aðgang að Lúgunni, þá hef ég lagfært tengil á hana í þessari endurbirtingu.
Íslenskt lán, myntkörfulán, gengistryggt lán eða erlent lán - hver er munurinn?
Það er nú kannski að æra óstöðugan að koma með enn eina færsluna um þessa deilu um gengistryggðu lánin, en ég má til. Í umræðu undanfarna daga, þá hefur mörgum reynst hált á svellinu þegar kemur að því að ákveða hvað þessir fjármálagjörningar kallast. Hagmunasamtökum heimilanna tóku þá afstöðu snemma á síðasta ári að nota alltaf hugtakið "gengistryggt lán" og sérstaklega eftir að farið var að vekja athygli á vafanum um lögmæti lánanna. Ástæðan fyrir þessari ákvörðun er (og var), að um er að ræða lán milli tveggja innlendra aðila sem sótt er um í íslenskum krónum, greitt út í íslenskum krónum, tekur höfuðstólsbreytingum í íslenskum krónum og greitt er af í íslenskum krónum. Það er bara verðtryggingarákvæðið sem er með tengingu við gengi og í mjög mörgum lánasamningum er hreint og beint tiltekið að lánið sé gengistryggt. Með þessu er jafnframt verið að tengja hugtakanotkun okkar við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.
Í umræðu síðustu mánaða hafa komið fram alls konar rök fyrir því hvers vegna svo kölluð myntkörfulán geta ekki verið neitt annað en venjuleg íslensk lán með mismunandi verðtryggingu. Langar mig að rifja það upp, eins og ég man það.
- Myntkörfur eru breytilegar og gat hver lántaki valið um þá kröfu sem hann vildi. Myntkörfur gátu þannig innihaldið krónuna, bæði verðtryggða og óverðtryggða, í bland við erlendar myntir.
- Hægt var að breyta hlutföllum mynta innan körfunnar eftir fyrirfram ákveðnum reglum á lánstímanum.
- Gefið var út eitt skuldabréf með mörgum ólíkum myntum, þar með talið krónum, og þetta skuldabréf var í krónum. Oft var meira að segja talað um jafnvirði íslenskra króna.
- Dæmi voru um að myntkörfur væru gefnar út í sjóðseiningum, sbr. SP-5 sjóðurinn hjá SP fjármögnun, sem ekki er hægt að skilja á neinn hátt annan en afleiðu fremur en mynt.
- Myntkörfulánum var þinglýst í íslenskum krónum.
- Á lánsumsókn var óskað eftir upphæði í íslenskum krónum, útborgun var í íslenskum krónum, afborgun var í íslenskum krónum.
Þetta er vafalaust ekki tæmandi listi, en sýnir að það var eingöngu í orði en ekki á borði að einhverjar erlendar myntir væru með í þessu spili. Þessi lán voru mjög einfaldlega íslensk fjárskuldbinding tengd við dagsgengi mismunandi gjaldmiðla og stundum bara að hluta.
Þá er spurningin hvort hér sé um að ræða "erlent lán". Getur neytendalán á Íslandi talist "erlent lán"? Þessu svarar löggjafinn í lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál. Í 1. gr. laganna er skilgreining á því hvað telst innlendur aðili. Þar segir í 2. tölulið:
sérhvern lögaðila sem skráður er til heimilis hér á landi á lögmæltan hátt, telur heimili sitt hér á landi samkvæmt samþykktum sínum eða ef raunveruleg framkvæmdastjórn hans er hér á landi; hérlend útibú lögaðila, sem heimili eiga erlendis, teljast til innlendra aðila.
Aðrir teljast "erlendir aðilar".
Einnig er skilgreint í lögunum hvað eru innlend verðbréf og erlend verðbréf. Skoðum hverjar þessar skilgreiningar eru:
Innlend verðbréf merkja hvers konar framseljanleg kröfuréttindi sem innlendur aðili gefur út, svo sem hlutabréf, arðmiða, skuldabréf, vaxtamiða, hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóði, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðrum eignum en fasteignum eða einstökum lausafjármunum.
Erlend verðbréf merkja hvers konar framseljanleg kröfuréttindi sem erlendur aðili gefur út, svo sem hlutabréf, arðmiða, skuldabréf, vaxtamiða, hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóði, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðrum eignum en fasteignum eða einstökum lausafjármunum.
Það stendur því skýrum stöfum í lögunum, að verðbréf sé innlent ef útgefandinn er innlendur. Erlent lán getur því aldrei verið gefið út af innlendum aðila. Á þessu er raunar klykkt í athugasemd með frumvarpinu að lögunum, en þar segir (eins og ítrekað hefur komið fram) um 1. gr.:
Rétt er að vekja athygli á því að það fer eftir búsetu útgefanda hvort verðbréf eru flokkuð sem innlend eða erlend en ekki myntinni sem verðbréfið er gefið út í. Þannig er verðbréf ávallt innlent ef aðili búsettur hér á landi gefur það út og gildir þá einu hvort það er gefið út hér á landi, erlendis, í íslenskum krónum eða erlendri mynt. Þessar skilgreiningar eru í samræmi við skilgreiningar OECD. Bent skal á að í daglegu tali hér á landi eru verðbréf hins vegar iðulega flokkuð eftir myntinni eða útgáfustaðnum.
Svipað gildir um erlend lán. Í samræmi við notkun hugtaka í þessu frumvarpi er um að ræða erlent lán þegar innlendur aðili fær lán hjá erlendum aðila. Mynt lánsins ræður hér engu um. Í þeim tilvikum, þegar innlendur aðili tekur lán hjá erlendum aðila og endurlánar lánsféð öðrum innlendum aðila, telst fyrra lánið erlent lán en hið síðara innlent.
Íslensk fjármálafyrirtæki geta því ekki gefið út erlend lán. Þau geta gefið út lán í erlendri mynt, en lánið er íslenskt. Á þetta bendir Gunnlaugur Kristinsson, löggiltur endurskoðandi, í grein á Eyjunni fyrir áramót (þ.e. í desember 2009) og vil ég enn og einu sinni vitna í þá grein hér, þar sem hann ályktar um eðli lánanna út frá sínum lagaskilningi:
Nánast undantekningalaust hefur veiting lána í erlendri mynt eða lána með gengistryggingu, til almennings og fyrirtækja á Íslandi, verið veitt til viðskipta þar sem undirliggjandi verðmæti eru í íslenskum krónum og greiðsla til lántaka verið í íslenskum krónum þrátt fyrir hin gengistryggðu ákvæði eða hreinlega erlend lánsfjárhæð tilgreind í texta skuldabréfsins... Skuldbinding milli tveggja innlendra aðila er því alltaf í íslenskum krónum, ef útgreiðsla lánsins var í íslenskum krónum og lánveitandinn er innlendur aðili, hvernig sem á málið er litið enda er íslenska krónan eini lögmæti gjaldmiðill landsins.
Niðurstaða mín er svipuð og Gunnlaugs: Lán sem íslensk fjármálafyrirtæki hafa veitt frá gildistöku laga nr. 87/1992 eru íslensk óháð því í hvaða mynt lánin eru veitt. Næsta spurning er því hvort heimilt sé að veita lán í erlendri mynt hér á landi, sé það heimilt hvaða reglur gilda um slíka lánveitingu og hvort rétt sé að takmarka lánveitingarnar við tiltekinn hóp viðskiptamanna og þá fyrst og fremst fyrirtæki. Loks bera að velta fyrir sér hvenær er skuldbinding í lánasamningi í íslenskum krónum, þó erlendur gjaldmiðill sé tiltekinn í lánasamningnum, og hvenær er hann það ekki. Það er nefnilega kjarninn í 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 að með lögunum var heimildin "til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla" felldar niður. Eða eins og segir:
Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi.
Ég tek það fram, að ég hef ekki svar við þessum spurningum, þ.e.:
- Er heimilt að veita lán í erlendri mynt hér á landi?
- Sé það heimilt hvaða reglur gilda um slíka lánveitingu?
- Er rétt að takmarka slíkar lánveitingarnar við tiltekinn hóp viðskiptamanna og þá fyrst og fremst fyrirtæki?
- Hvenær er skuldbinding í lánasamningi í íslenskum krónum, þó erlendur gjaldmiðill sé tiltekinn í lánasamningnum, og hvenær er hann það ekki?
en brýnt er að svör við þeim fáist. Ég tók nefnilega eftir því, þegar lögmaður var beðinn um það af Speglinum á RÚV um daginn að gefa hlutlausa lýsingu á afleiðingum bíladómsins, þá átti hann í mestu vandræðum með að vera hlutlaus og kom upp með alls konar varnir fyrir fjármálafyrirtækin. Það væri því vel þegið, ef einhver nægilega kunnugur lögum gæti komið með innlegg í þessa umræðu.
Þegar Hæstiréttur tekur fyrir áfrýjanirnar tvær í bílalánamálunum, þá verður það helsta viðfangsefni dómaranna að ákveða hvort viðkomandi lánasamningar hafi verið skuldbinding í íslenskum krónum eða ekki og hver er munurinn á skuldbindingu í íslenskum krónum og erlendum gjaldmiðli. T.d. lántaki sem sækir um upphæð í íslenskum krónum, eins og ég býst við að flestir gera. Hefur það áhrif á skilgreininguna að sótt var um í íslenskum krónum eða skiptir það engu máli. Höfum í huga, að viðkomandi hefur engin áhrif á orðalag skuldabréfsins og í flestum tilfellum sér viðkomandi aldrei neitt annað en íslenskar krónur. Lánveitandinn sér líklegast heldur ekkert annað en íslenskar krónur, þó einhver bókhaldsfærsla sýni debet og kredit færslu í erlendri mynt. Það gæti meira að segja skipt sköpum fyrir lántaka hvort mynt tengingin er í einni mynt eða tveimur eða hvort að hluta til sé tengt við íslenskar krónur. í augum lántakans er um sama gjörning að ræða, sem aftur lögin geta verið að túlka á marga mismunandi vegu. Er þá hægt að ætlast til þess, að lántaki, sem er leikmaður þegar kemur að lögunum, eigi að hafa fullan skilning á mismuninum. Auk þess má reikna með því, að lánveitandinn hafi notað sama skuldabréfaformið hvort heldur um var að ræða eina mynt, erlenda myntkörfu eða lán að hluta í íslenskum krónum.
En svo ég svari spurningunni í fyrirsögn greinarinnar, þ.e. hver er munurinn á íslensku láni, myntkörfuláni, gengistryggðu láni og erlendu láni, þá held ég að taka megi það saman í eftirfarandi:
- Íslenskt lán er lán þar sem útgefandi lánsins er með heimilisfestu á Íslandi óháð í hvaða mynt lánið er
- Erlent lán er lán þar sem útgefandinn lánsins er ekki með heimilisfestu á Íslandi óháð mynt lánsins
- Myntkörfulán er lán sem er bundið var myntum í tilbúinni körfu af myntum og breytist höfuðstóll þess með dagsgengi þeirra gjaldmiðla sem eru í körfunni. Þetta lán telst samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms vera gengistryggt lán (sjá nánar næsta lið).
- Gengistryggt lán er skuldbinding í íslenskum krónum sem tengt er dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Héraðsdómur úrskurðaði að gengistrygging væri eitt form verðtryggingar og væri þetta form í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 og felldi hana því úr gildi.
Nú ef erlent lán hefur ekkert með það að gera hvort lán sé í erlendri mynt og hvort það er greitt út í erlendri mynt, hvað kallast þá þau lán sem tekin voru í erlendri mynt, greidd út í erlendri mynt og endurgreidd í erlendri mynt? Og annað: Hafa öll fjármálafyrirtæki leyfi til að veita slík lán eða er heimildin takmörkuð við einhver tiltekin fjármálafyrirtæki og þá hver? Þetta síðasta skiptir máli, þar sem fjármögnunarfyrirtæki/fjármögnunarleigur eru ekki með full réttindi á við viðskiptabankana og það er því mikilvægt að vita hvar mörkin liggja varðandi gjaldeyrisviðskipti. Fróðlegt væri að fá svar við þessu frá aðila sem þekkir nógu vel til laga um fjármálafyrirtæki til að vita eða hafa einhverja hugmynd um hvert svarið er.
---
Þessi færsla er skrifuð áður en fyrstu gengisdómar gengu í Hæstarétti. Þrátt fyrir einhverja 15 dóma (ef ekki fleiri), þá er ansi mörgum spurningum, sem ég velti upp í þessum pistli, enn ósvarað. Bara þetta síðasta, þ.e. hvort viðkomandi fjármálafyrirtæki hafi yfir höfuð haft leyfi til þeirrar lánastarfsemi, sem um ræðir, hefur ekki verið svarað af Fjármálaeftirlitinu þrátt fyrir að stofnunin hafi oft verið spurð um það. Mátti Lýsing/FF/SP/Avant lána gengistryggt? Mátti Lýsing/FF/SP/Avant lána í erlendri mynt?
Er ekki merkilegt, að á þremur og hálfu ári, þá hafa málin ekki færst lengra en svo, að tugir þúsunda bíða enn í réttaróvissu. Það sem verra er, að í einhverjum tilfellum eru mál að fyrnast.
Skuldamál heimilanna | Breytt 5.12.2013 kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.8.2013 | 21:43
Lánasjóður erlendra krónueigenda
Loksins er farið að renna upp fyrir þorra manna að gjaldeyrisstaða þjóðarinnar er grafalvarleg. Ég hef reynt að vekja athygli á þessu nokkrum sinnum, en fyrstur til að benda á þetta var Haraldur Líndal Haraldsson, hagfræðingur. Það var á vormánuðum 2009. Þá lagði nánast enginn við hlustir og Seðlabankinn gaf út sérstaka greinargerð til að sýna hve auðvelt væri fyrir þjóðina að standa undir Icesave skuldbindingur Svavarssamningsins. Þessi greinargerð er hin mesta skemmtilesning í dag.
Ég ætla ekki að fara að telja upp hversu oft ég og annað gott fólk höfum fjallað um þetta mál, en meðan ekkert er gert af viti, þá versnar staðan. Nú sé ég að skipa á "afnámsstjóra" og verður forvitnilegt að sjá hver verður fyrir valinu. Í mínum huga koma bara fimm til greina, þ.e. Gunnar Tómasson, Friðrik Jónsson, Lilja Mósesdóttir, Heiðar Már Guðjónsson og Frosti Sigurjónsson, en líklegast verður einhver annar valinn.
Meðan menn sitja bara og horfa á, þá gerist ekkert jákvætt. Fjall fjármunanna sem vilja úr landi heldur bara áfram að stækka. Þökk sé fáránlega háum stýrivöxtum Seðlabanka Íslands sem með vaxtaákvörðunum sínum mokar bílhlössum af krónum til kröfuhafa sem bíða eftir að komast með peningana sína úr landi. Þetta er svo vanvita stefna að maður veltir fyrir sér hvaða leynisamningur knýr seðlabankastjóra til halda vöxtunum svona háum. (Fyrir þá sem halda að peningastefnunefnd ráði einhverju, þá ættu hinir sömu að lesa fundargerðir hennar. Seðlabankastjóri hefur aldrei (svo ég muni eftir) lent í minnihluta þar, enda ætti hann þá að víkja sem seðlabankastjóri.)
Krónueignir útlendinga
Erlendir kröfuhafar (sem vafalaust eru stundum fyrirtæki í eigu Íslendinga bara skráð erlendis) og aðrir erlendir eigendur króna á Íslandi hljóta að fara að átta sig á því að eign þeirra er að stórum hluta töpuð eða bundin á Íslandi í mjög langan tíma. Því fyrr sem þeir viðurkenna þessa staðreynd því betra er það fyrir alla.
Staðan er mjög einföld: Ekki er til gjaldeyrir í landinu til að hleypa krónueignum úr landi miðað við núverandi gengi.
Lausnirnar eru ekki margar og tvær virðast blasa helst við: 1. Að menn taki á sig gríðarleg afföll, gegn því að fá að fara með restina úr landi á núverandi gengi. 2. Krónan verði látin sýna raungildi sitt og menn fái að fara með fé úr landi á þessu raungengi.
En þetta skilar nánast sömu niðurstöðu! Já, það er nefnilega málið, að í evrum og dollurum, þá verður niðurstaðan líklegast hin sama, þó leið gæti orðið þeim hagstæðari.
Er til þriðja lausnin?
Ef erlendir krónueigendur spyrðu mig um ráðgjöf, þá væri ég fyrir löngu búinn að benda þeim á að setja hér upp lánasjóð og koma peningunum í vinnu til langs tíma. Binda féð til 20-30 ára á lágum en stöðugum vöxtum. Þannig að í staðinn fyrir að Sigmundur og Bjarni fái peningana til afnota, þá stjórni krónueigendurnir því hvernig peningarnir yrðu notaðir. Ekkert inngrip ríkisins, heldur væri einkaframtakið að ákveða að binda peningana hér á landi. Ég veit að það myndi heyrast hljóð úr horni í bankakerfinu, en mér er nokk sama. Þeir sem myndu missa vinnuna þar, gætu fengið starf hjá hinum nýja lánasjóði.
Köllum þetta fyrirbrigði Lánasjóð erlendra krónueigenda (LEK). Eignarhlutur hvers og eins í LEK færi eftir þeirri upphæð sem viðkomandi legði fram. Ef viðkomandi vildi losa sig við eignarhlutinn, þá gæti hann gert það í viðskiptum við aðra eigendur í LEK eða einhverja sem vildu eignast hlut í LEK. Þau viðskipti færu örugglega fram utan Íslands og því í nothæfum gjaldmiðli.
Þar sem krónueigendurnir standa frammi fyrir að tapa eignum sínum með upptöku eða með mjög óhagstæðu gengi, þá myndu þeir sætta sig við að lána þá út í krónum til einstaklinga og fyrirtækja á mjög lágum vöxtum. Lántakar myndu síðan greiða upp skuldir sínar hjá öðrum lánveitendum og þó svo að höfuðstóll lánanna myndi ekki lækka (eins og Sigmundur er búinn að lofa), þá myndi greiðslubyrði lánanna lækka gríðarlega mikið. Vaxtabyrði af 10 m.kr. láni til 20 ára með 2% nafnvöxtum er rétt ríflega 2 m.kr. meðan 20% lægra verðtryggt jafngreiðslulán á 4,5% vöxtum í 2,5% verðbólgu væri með vaxta- og verðbótakostnað upp á ríflega 7,7 m.kr. og þar með 3,7 m.kr. í hærri heildarkostnað. Munurinn væri svo meiri ef verðbólga ykist.
Ávöxtun LEK af 10 m.kr. láni á 2% vöxtum væri neikvæð þar sem verðbótarþáttur slíks láns er augljóslega hærri en vaxtatekjur eða 3,4 m.kr. og ávöxtunin því neikvæð um 1,4 m.kr. eða 14% á þessum 20 árum. Eftir því sem verðbólgan væri meiri, ykist neikvæð ávöxtun og svo öfugt héldist verðbólgan lág.
Eina óvissustærðin hér er gengisþróun. Það er áhætta sem eigendur LEK þyrftu að taka, en jákvæðar niðurstöður olíuleitar myndu örugglega valda styrkingu krónunnar yrði hún ennþá mynt landsins, þegar þar að kæmi. Yrði aftur skipt um mynt innan 10 ára, þá er líklegt að tap vegna gengisbreytinga yrði frekar takmarkað.
Af hverju ættu krónueigendur að vilja þetta?
Hér hafa verið nefndir þrír kostir:
- 50-80% upptaka
- Ný 50-60% gengisfelli
- Langtímaútlán á lágum vöxtum
Síðan má bæta við skiptigengisleiðinni, en hún er í reynd innifalin í leiðum 1 og 2 gagnvart krónueigandanum. Hvaða leið myndi ég velja sem erlendur krónueigandi? Án umhugsunar leið 3. Ástæðan: Fjármunir væru vissulega bundnir til langs tíma, en að baki væru traust veð. Þó svo að byrjað yrði að bjóða lága vexti, þá er ekki þar með sagt að þeir yrðu svona lágir á nýjum lánum til langframa, en yrðu að vera það í upphafi. LEK gæti líka orðið heildsölubanki, þ.e. fjármagnað útlán annarra fjármálafyrirtækja. Stærstu kostirnir væru þó að þetta gæfi nánast örugglega af sér betri ávöxtun en kostir 1 og 2, hægt væri að losa fé með því að selja öðrum eigendum LEK sinn hlut fyrir gjaldgenga peninga og framtíðarmöguleika LEK eru miklir.
Af hverju ættum Íslendingar að vilja þetta?
Kosturinn við þetta væri náttúrulega mikill fyrir lántaka, en myndi hrista nokkuð vel upp í fjármálakerfinu. Hér myndaðist loksins alvöru samkeppni á fákeppnismarkaði. Ég er ekki viss um að allir innlendir lántakar færðu lántökur sínar til LEK, en hugsanlega myndu mörg innlend fjármálafyrirtæki fjármagna sig í gegn um LEK. Létt væri þrýstingnum á krónuna og stöðugleiki næðist í gjaldeyrismál þjóðarinnar, þar sem snjóhengjunum yrði í breytt úr ógn í framtíðarbyggingarefni. Þar sem LEK væri einkarekinn lánasjóður, þá ættu viðskipti með eignarhluti í honum sér stað á markaði eða fyrirtækja á milli (gert ráð fyrir að hann uppfylli allar kröfur til slíkrar starfsemi). Ef LEK er bæði skráð hér á landi og erlendis, þá gætu viðskipti með hlut í sjóðnum bæði átt sér stað í íslenskum krónum og erlendri mynt.
Kosturinn við þetta fyrir fjárfesta er að samkeppni á fjárfestingamarkaði myndi minnka. Nú eiga krónueigendur háar fjárhæðir í ríkisskuldabréfum, íbúðabréfum og mörgum öðrum eignum, sem dregur úr möguleikum innlendra fjárfesta. Til framtíðar, þegar gjaldeyrisstaðan batnar eða skipt hefur verið um mynt, þá geta innlendir fjárfestar komið að LEK og fyrri eigendur fært fé sitt þangað sem þeir vilja.
Í lokin
Ég er alveg viss um að margir sjá þessu allt til foráttu og þar á meðal fólk í fjármálakerfinu. Síðan er örugglega margt í þessu sem er ekki nægilega vel hugsað og þetta þarf betri útfærslu. En við erum að renna út á tíma. Eins og Andri Geir sagði í færslunni sinni á Pressunni/Eyjunni eru ljósin farin að blikka. Lognið sem við höfum búið við síðustu ár mun ekki endast mikið lengur. Óveðursskýin hafa verið að hrannast upp og þau nálgast. Þó hann verði ekki eins rosalegur og þessi í október 2008, þá gætu áhrif hans orðið varanlegra, þar sem fyrirstaðan er veikari.
Snjóhengjur | Breytt 5.12.2013 kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 37
- Sl. sólarhring: 66
- Sl. viku: 345
- Frá upphafi: 1680483
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 40
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði