15.8.2013 | 21:43
Lánasjóður erlendra krónueigenda
Loksins er farið að renna upp fyrir þorra manna að gjaldeyrisstaða þjóðarinnar er grafalvarleg. Ég hef reynt að vekja athygli á þessu nokkrum sinnum, en fyrstur til að benda á þetta var Haraldur Líndal Haraldsson, hagfræðingur. Það var á vormánuðum 2009. Þá lagði nánast enginn við hlustir og Seðlabankinn gaf út sérstaka greinargerð til að sýna hve auðvelt væri fyrir þjóðina að standa undir Icesave skuldbindingur Svavarssamningsins. Þessi greinargerð er hin mesta skemmtilesning í dag.
Ég ætla ekki að fara að telja upp hversu oft ég og annað gott fólk höfum fjallað um þetta mál, en meðan ekkert er gert af viti, þá versnar staðan. Nú sé ég að skipa á "afnámsstjóra" og verður forvitnilegt að sjá hver verður fyrir valinu. Í mínum huga koma bara fimm til greina, þ.e. Gunnar Tómasson, Friðrik Jónsson, Lilja Mósesdóttir, Heiðar Már Guðjónsson og Frosti Sigurjónsson, en líklegast verður einhver annar valinn.
Meðan menn sitja bara og horfa á, þá gerist ekkert jákvætt. Fjall fjármunanna sem vilja úr landi heldur bara áfram að stækka. Þökk sé fáránlega háum stýrivöxtum Seðlabanka Íslands sem með vaxtaákvörðunum sínum mokar bílhlössum af krónum til kröfuhafa sem bíða eftir að komast með peningana sína úr landi. Þetta er svo vanvita stefna að maður veltir fyrir sér hvaða leynisamningur knýr seðlabankastjóra til halda vöxtunum svona háum. (Fyrir þá sem halda að peningastefnunefnd ráði einhverju, þá ættu hinir sömu að lesa fundargerðir hennar. Seðlabankastjóri hefur aldrei (svo ég muni eftir) lent í minnihluta þar, enda ætti hann þá að víkja sem seðlabankastjóri.)
Krónueignir útlendinga
Erlendir kröfuhafar (sem vafalaust eru stundum fyrirtæki í eigu Íslendinga bara skráð erlendis) og aðrir erlendir eigendur króna á Íslandi hljóta að fara að átta sig á því að eign þeirra er að stórum hluta töpuð eða bundin á Íslandi í mjög langan tíma. Því fyrr sem þeir viðurkenna þessa staðreynd því betra er það fyrir alla.
Staðan er mjög einföld: Ekki er til gjaldeyrir í landinu til að hleypa krónueignum úr landi miðað við núverandi gengi.
Lausnirnar eru ekki margar og tvær virðast blasa helst við: 1. Að menn taki á sig gríðarleg afföll, gegn því að fá að fara með restina úr landi á núverandi gengi. 2. Krónan verði látin sýna raungildi sitt og menn fái að fara með fé úr landi á þessu raungengi.
En þetta skilar nánast sömu niðurstöðu! Já, það er nefnilega málið, að í evrum og dollurum, þá verður niðurstaðan líklegast hin sama, þó leið gæti orðið þeim hagstæðari.
Er til þriðja lausnin?
Ef erlendir krónueigendur spyrðu mig um ráðgjöf, þá væri ég fyrir löngu búinn að benda þeim á að setja hér upp lánasjóð og koma peningunum í vinnu til langs tíma. Binda féð til 20-30 ára á lágum en stöðugum vöxtum. Þannig að í staðinn fyrir að Sigmundur og Bjarni fái peningana til afnota, þá stjórni krónueigendurnir því hvernig peningarnir yrðu notaðir. Ekkert inngrip ríkisins, heldur væri einkaframtakið að ákveða að binda peningana hér á landi. Ég veit að það myndi heyrast hljóð úr horni í bankakerfinu, en mér er nokk sama. Þeir sem myndu missa vinnuna þar, gætu fengið starf hjá hinum nýja lánasjóði.
Köllum þetta fyrirbrigði Lánasjóð erlendra krónueigenda (LEK). Eignarhlutur hvers og eins í LEK færi eftir þeirri upphæð sem viðkomandi legði fram. Ef viðkomandi vildi losa sig við eignarhlutinn, þá gæti hann gert það í viðskiptum við aðra eigendur í LEK eða einhverja sem vildu eignast hlut í LEK. Þau viðskipti færu örugglega fram utan Íslands og því í nothæfum gjaldmiðli.
Þar sem krónueigendurnir standa frammi fyrir að tapa eignum sínum með upptöku eða með mjög óhagstæðu gengi, þá myndu þeir sætta sig við að lána þá út í krónum til einstaklinga og fyrirtækja á mjög lágum vöxtum. Lántakar myndu síðan greiða upp skuldir sínar hjá öðrum lánveitendum og þó svo að höfuðstóll lánanna myndi ekki lækka (eins og Sigmundur er búinn að lofa), þá myndi greiðslubyrði lánanna lækka gríðarlega mikið. Vaxtabyrði af 10 m.kr. láni til 20 ára með 2% nafnvöxtum er rétt ríflega 2 m.kr. meðan 20% lægra verðtryggt jafngreiðslulán á 4,5% vöxtum í 2,5% verðbólgu væri með vaxta- og verðbótakostnað upp á ríflega 7,7 m.kr. og þar með 3,7 m.kr. í hærri heildarkostnað. Munurinn væri svo meiri ef verðbólga ykist.
Ávöxtun LEK af 10 m.kr. láni á 2% vöxtum væri neikvæð þar sem verðbótarþáttur slíks láns er augljóslega hærri en vaxtatekjur eða 3,4 m.kr. og ávöxtunin því neikvæð um 1,4 m.kr. eða 14% á þessum 20 árum. Eftir því sem verðbólgan væri meiri, ykist neikvæð ávöxtun og svo öfugt héldist verðbólgan lág.
Eina óvissustærðin hér er gengisþróun. Það er áhætta sem eigendur LEK þyrftu að taka, en jákvæðar niðurstöður olíuleitar myndu örugglega valda styrkingu krónunnar yrði hún ennþá mynt landsins, þegar þar að kæmi. Yrði aftur skipt um mynt innan 10 ára, þá er líklegt að tap vegna gengisbreytinga yrði frekar takmarkað.
Af hverju ættu krónueigendur að vilja þetta?
Hér hafa verið nefndir þrír kostir:
- 50-80% upptaka
- Ný 50-60% gengisfelli
- Langtímaútlán á lágum vöxtum
Síðan má bæta við skiptigengisleiðinni, en hún er í reynd innifalin í leiðum 1 og 2 gagnvart krónueigandanum. Hvaða leið myndi ég velja sem erlendur krónueigandi? Án umhugsunar leið 3. Ástæðan: Fjármunir væru vissulega bundnir til langs tíma, en að baki væru traust veð. Þó svo að byrjað yrði að bjóða lága vexti, þá er ekki þar með sagt að þeir yrðu svona lágir á nýjum lánum til langframa, en yrðu að vera það í upphafi. LEK gæti líka orðið heildsölubanki, þ.e. fjármagnað útlán annarra fjármálafyrirtækja. Stærstu kostirnir væru þó að þetta gæfi nánast örugglega af sér betri ávöxtun en kostir 1 og 2, hægt væri að losa fé með því að selja öðrum eigendum LEK sinn hlut fyrir gjaldgenga peninga og framtíðarmöguleika LEK eru miklir.
Af hverju ættum Íslendingar að vilja þetta?
Kosturinn við þetta væri náttúrulega mikill fyrir lántaka, en myndi hrista nokkuð vel upp í fjármálakerfinu. Hér myndaðist loksins alvöru samkeppni á fákeppnismarkaði. Ég er ekki viss um að allir innlendir lántakar færðu lántökur sínar til LEK, en hugsanlega myndu mörg innlend fjármálafyrirtæki fjármagna sig í gegn um LEK. Létt væri þrýstingnum á krónuna og stöðugleiki næðist í gjaldeyrismál þjóðarinnar, þar sem snjóhengjunum yrði í breytt úr ógn í framtíðarbyggingarefni. Þar sem LEK væri einkarekinn lánasjóður, þá ættu viðskipti með eignarhluti í honum sér stað á markaði eða fyrirtækja á milli (gert ráð fyrir að hann uppfylli allar kröfur til slíkrar starfsemi). Ef LEK er bæði skráð hér á landi og erlendis, þá gætu viðskipti með hlut í sjóðnum bæði átt sér stað í íslenskum krónum og erlendri mynt.
Kosturinn við þetta fyrir fjárfesta er að samkeppni á fjárfestingamarkaði myndi minnka. Nú eiga krónueigendur háar fjárhæðir í ríkisskuldabréfum, íbúðabréfum og mörgum öðrum eignum, sem dregur úr möguleikum innlendra fjárfesta. Til framtíðar, þegar gjaldeyrisstaðan batnar eða skipt hefur verið um mynt, þá geta innlendir fjárfestar komið að LEK og fyrri eigendur fært fé sitt þangað sem þeir vilja.
Í lokin
Ég er alveg viss um að margir sjá þessu allt til foráttu og þar á meðal fólk í fjármálakerfinu. Síðan er örugglega margt í þessu sem er ekki nægilega vel hugsað og þetta þarf betri útfærslu. En við erum að renna út á tíma. Eins og Andri Geir sagði í færslunni sinni á Pressunni/Eyjunni eru ljósin farin að blikka. Lognið sem við höfum búið við síðustu ár mun ekki endast mikið lengur. Óveðursskýin hafa verið að hrannast upp og þau nálgast. Þó hann verði ekki eins rosalegur og þessi í október 2008, þá gætu áhrif hans orðið varanlegra, þar sem fyrirstaðan er veikari.
Meginflokkur: Snjóhengjur | Aukaflokkar: HRUNIÐ, Skuldamál heimilanna, Endurreisn | Breytt 5.12.2013 kl. 23:48 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.9.): 5
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 41
- Frá upphafi: 1679456
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 24
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Sæll Marinó. Þessi pistill er ágætur svo langt sem hann nær. Í upphafi segirðu að nú sé að renna upp fyrir mörgum hversu grafalveg gjaldeyrisstaða þjóðarinnar er.
Nefnir þar til sálfan þig og Harald Líndal Hagfræðing sem hafið einna helst bent á þessa stöðu í byrjun árs 2009.
Hver ástæðan er fyrir þessari túlkun þinni veit ég ekki hver er en kannski ber þig minni til að ríkissjóður/Seðlabanki voru að fá lán hjá AGS, Norðurlandaþjóðum m.a.s Færeyingum.
Það var sótt um aðstoð AGS í tíð ríkisstjórnar Geirs. H. Haarde.
En hvers vegna var það?
Seðlabankinn átti engan gjaldeyri enda búinn að eyða honum í lán/ ástarbréf DO til gömlu bankanna.
Á þessu hamraðirðu lengi vel en nú er komið annað hljóð í strokkinn. Þetta er ekki nýtt vandamál og kemur hreinlega hvorki við skýrslu Seðlabankans né einhverri annari hugsmíð.
Þú hefur einnig margrætt vandamál tengt "hrægammasjóðum" sem þú rétt eins og aðrir hafa kallað kröfuhafa gömlu bankanna.
Þar hefur þú margnefnt að nýju bankarnnir hafi verið að innheimta af hörku fyrir þessa hrægammasjóði.
Þær leiðir sem þú leggur til eru að mínu mati vanhugsaðar.
Leið 1: 50-80% upptaka er framsóknarleiðin sem gengur ekki upp þar sem kröfuhafar hafa verið frekar þolinmóðir fram til þessa og ekki sérstakar um að það breytist.
Leið 2: Ný 50-60% gengisfelling. Auðvitað er ráð að leggja til nýtt hrun.
En hefur þér sýnst að almenningur standi undir þeirri leið? Held ekki.
Leið 3: Nú snýrðu alveg við blaðinu og telur rétt að þeir komi inn á markaðinn hér sem lánveitandi/heildsölubanki LEK rétt eins og var gert með ÍLS og fólk geti tekið lán þar á hagstæðum vöxtum og greitt upp eldri lán.
Í stað þess að halda hrægammasjóðum úti snýst þessi tillaga um að viðurkenna rétt þeirra til að halda áfram innheimtu til fulls í tugi ára.
Svipað og ef Deutche Bank hefði fengið leyfi til að opna banka hér til að innheimta sínar kröfur og hverfa síðan heim aftur.
Mér finnst að menn verði að gera betur en þetta. En vissulega eru þetta hugmyndir og allar hugmyndir eru til alls fyrst. En ég sé engar raunhæfar forsendur fyrir þessum hugmyndum.
Kv, H
Hafþór Baldvinsson (IP-tala skráð) 16.8.2013 kl. 04:54
Takk fyrir einstaklega góðan og skýran pistil Marinó um efni sem skiptir alla Íslendinga máli.
Málið er ekki flókið eins og þú setur það fram:
1. Krónueigendur taki á sig 50-80% afföll: Bitnar á erlendu kröfuhöfunum.
...eða
2. 50-60% gengisfelling á íslensku krónunni: Bitnar mjög illa á Íslendingum og einnig erlendu kröfuhöfunum.
...eða
3. Binda féð á Íslandi í sjóði með lágum stöðugum vöxtum. Gæti orðið hvetjandi fyrir íslenskt atvinnulíf. Einföld og góð lausn. Allir hagnast.
Með þessari framsetningu þinni ætti hvert mannsbarn að geta skilið eðli málsins, nema etv. þeir sem sitja við stjórnvölinn í Seðlabanka Íslands sem heldur uppi háum vöxtum, fyrst og fremst til að gæta hagsmuna erlendu kröfuhafanna.
Ágúst H Bjarnason, 16.8.2013 kl. 07:40
@Hafþór Baldvinsson.
Ég held að þolinmæði kröfuhafa sem þú vísar til helgist fyrst og fremst af því að "AGS plan" norrænu velferðarstjórnarinnar virðist hafa verið það að nota gjaldeyrinn sem SÍ tók að láni í útlöndum til þess að kaupa upp krónueignir erlendra kröfuhafa, m.ö.o. að skuldsetja almenning í landinu til þess að leysa spákaupmenn úr snörunni. Þar fyrir utan þá hafa kröfuhafar getað farið með vaxtatekjur úr land sem minnkar ekki pressuna á þá. Með jafn vingjarnleg stjórnvöld þá liggur þeim ekki lífið á.
Það er löngu kominn tími á að auka pressuna á kröfuhafa með því að hætta að gefa þeim í skyn að það séu íslenkskar gjaldeyriseignir í boði fyrir þessar krónur. Þar undir heyrir að SÍ skili sem mestu af sínum gjaldeyrisvaraforða til lánveitenda (AGS+norðurlönd) og lífeyrissjóðir mega undir engum kringumstæðum gefa erlendum aðilum undir fótinn með að þeir séu tilbúnir að koma heim með erlendar eignir sjóðanna til þess að losa kröfuhafa undan sínum afföllum.
Eins og ég skil þetta þá þarf í grófum dráttum að para saman 1600 milljarða af erlendum eignum kröfuhafa við 1600+400+400 = 2400 milljarða (erlendar eignir + jöklabréf + innlendar eignir) af óskum um gjaldeyriskaup. Það þýðir að gengið á Evrunni þarf að vera ca. 160*2400/1600=240 kr til þess að koma kröfuhöfum úr landi.
Ein leið til þess að framkvæma þetta (a.m.k. á blaði) væri sú að gera upp þrotabúin í krónum og skipta svo gjaldeyrinum (1600 milljarðar á núverandi gengi) á milli kröfuhafa gegn því að fá í hendur innlendu eignirnar.
Benedikt Helgason, 16.8.2013 kl. 11:00
Hafþór, ég nota orðið "þorra", sem þýðir ekki að enginn hafi gert sér grein fyrir þessu, heldur fyrst og fremst takmarkaður hópur. Annað, þá þarftu ekki annað en að lesa greinargerð Seðlabankans vegna Icesave I til að sjá að þó höfðu menn ekki áhyggjur.
Lán AGS var til að sýna styrk en ekki sem viðurkenning á þeim vanda sem snjóhengjan er. Enda leysir það engan vanda við væntanlegt útflæði að taka lán til að bjarga málunum, lán sem greiða þarf til baka innan fárra ára. Nei, það var aldrei ætlunin að nota AGS lánið til að losa krónubréfaeigendur úr snörunni. Það er gjörsamlega ný söguskýring.
Haraldur Líndal var fyrstur til að gera þessu máli góð skil og ég fylgdi eftir með bloggskrifum um erindi hans. (Við vorum álitnir svartsýnir.) Við fórum síðan fyrir fjárlaganefnd vegna Icesave og okkar málflutningur þar ýtti við Seðlabankanum. Hann fullyrti samt að þetta væri viðráðanlegt, þó allar tölur bentu til annars. Lestu svar mitt við svari SÍ og þú sérð að ég tel SÍ vera full bjartsýnan.
Lengi höfðu menn bara áhyggjur af Jöklabréfum og krónueignum tengdum þeim. Síðar fóru menn að hafa áhyggjur af kröfuhöfum bankanna. Núna er farið að tala um fé innlendra aðila sem vill úr landi. Næst fara menn að átta sig á því að erlendar eignir Íslendinga verða ekki notaðar til að hleypa krónum úr landi, eins og SÍ stillir hlutunum alltaf upp. Það er rangt hjá þér að menn hafi alltaf vitað/viðurkennt þetta. Og þeir viðurkenndu þetta alls ekki 2009.
Ég hef notað alls konar orð um kröfuhafa bankanna. "Hrægammasjóðir" er það sem ég hef líklegast notað sjaldnast, en það er aftur alþjóðlega viðurkennt orð yfir vogunarsjóði sem kaupa kröfur ódýrt til að ná inn góðum hagnaði.
Leiðir 1 og 2 eru ekki mínar skoðanir, heldur þær sem hafa verið nefndar. Leið 3 er aftur mín skoðun. Ég hef raunar lengi haldið því fram að þolinmæði erlendra krónueigenda á Íslandi sé mun meiri en aðrir hafa viljað meina. Líklegast fyrst bloggað um það á haustmánuðum 2008. Mér hefur þess vegna fundist það glæpsamlegt hvað stjórnvöld og SÍ hafa boðið þeim góða ávöxtun á eignum sínum. Þetta er eins og að bjóða óæskilegum einstaklingi sem er staddur á eyju í Kyrrahafinu, fallegasta húsið til að búa í með fullri þjónustu!
Ég skil ekki skrif þín að stórum hluta. Þú ferð í hringi og ert með fullyrðingar um mín skrif sem ekki standast. Eignar mér síðan atriði sem ég á ekkert í.
Best finnst mér þó við skrif þín, að allt er ómögulegt. Ef leið 1 er ómöguleg og leið 2 er ómöguleg, þá hljótum við að þurfa að finna leið 3 eða 4 eða 5. Loks lendum við vonandi á leið sem er möguleg.
Marinó G. Njálsson, 16.8.2013 kl. 12:26
Benedikt, þetta hefur verið nefnt og þetta er nánast það sem SDG er að vonast til að geti orðið.
Marinó G. Njálsson, 16.8.2013 kl. 12:28
Leið 3 er arfavitlaus því með henna er verið að koma í umferð innistæðulausum krónum. Afleiðing þess yrði óðaverðbólga.
Í sjálfu sér sama hugsanavillan og framsókn gekk með til kosninga þótt markmiðið um skuldaleiðréttingu heimilanna hafi verið rétt!
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 16.8.2013 kl. 18:03
En, Bjarni Gunnlaugur, allar leiðirnar geta leitt af sér óðaverðbólgu. Taki ríkið 80% af krónueignum útlendinga til sín og noti til að greiða upp eða inn á lán, þá eykst peningamagnið í umferð sem því nemur. Falli krónan, þá leiðir það til óðaverðbólgu. Og svo segir þú að leið 3 leið til óðaverðbólgu. Ég held að það sé rangt og ástæðan er að þessir peningar verða teknir úr umferð annars staðar (einnig samkvæmt leið 1). Það er ekki verið að bæta við peningamagn í umferð, þar sem þetta er hringrás. Og það sem meira er, peningaprentun bankanna mun minnka, þar sem útlán þeirra minnka. Munurinn á lánasjóði og banka er að lánasjóðurinn verður að eiga peningana sem hann lánar út, meðan bankinn býr hann til úr engu.
En auðvitað vil ég líka taka bolmóð Íslands úr sambandi, þ.e. verðtrygginguna.
Marinó G. Njálsson, 16.8.2013 kl. 18:13
Bíðið aðeins við.
Þið megið leiðrétta mig ef þið vitið betur, en það að nota innistæður kröfuhafa til þess að greiða niður skuldir, hvernig eykur það peningamagn í umferð?
Er ekki almenni skilningurinn á peningakerfinu sá að það að nota innistæður til þess að greiða niður skuldir minnki peningamagn í umferð? M.ö.o. ef að t.d. innistæður kröfuhafa inni á tékkareikningum (höfuðbók 26) eru notaðar til þess að greiða niður innistæður á lánabók 77, þá færast báðar bækurnar nær núlli og peningamagn í umferð minnkar?
Benedikt Helgason, 16.8.2013 kl. 22:00
Eins og ég skil þetta Benedikt, þá eru hér innanlands "hlaðarnir" af krónum þ.e. einhverskonar skuldaviðurkenningum í íslenskum krónum, sem erlendir lánadrotnar eiga. Jöklabréf,snjóhengjur eða hvað það nú heitir. Vandinn er sá að þetta eru innistæðulaus verðmæti sem sést best á því að ef ætti að greiða öllum allt þá væru hvergi nærri nógur gjaldeyrir til.
Af þessu leiðir að það eru til a.m.k. 2 gerðir af krónum í landinu.
A. Krónur sem við íslendingar notum í viðskiftum okkar á milli og kaupum t.d. dollarann á á c.a. 125 krónur +- c.a. tíkall.
B. Krónur sem standa fyrir kröfum útlendinga inn í hagkerfið og eru margar hverjar leifar af uppgíruninni og ruglinu fyrir hrun og standa fyrir horfin verðmæti.
Vandinn er sá að þessum tveim gerðum af krónum er ruglað saman og svo sem ekki furða. Best hefði náttúrulega verið að gamla krónan hefði verið lögð niður (leyft að falla til andskotans) og nýkróna tekin upp í staðinn sem væri þá ávísun á verðmæti íslenska hagkerfisins eftir hrun, en ekki ósprungin loftbóla eða Svarti-Pétur sem enginn vill lenda á,eins og nú er.
Sé þessari síðartalinni tegund króna hleypt af stað inn í hagkerfið og ruglað saman við þá fyrri þá má segja að peningamagn í umferð stóraukist. Eins og er hafa þessi gerfiverðmæti að mestu hægt um sig í hagkerfinu en valda þó að vísu miklum skaða með því að halda uppi allt of háum vöxtum, ef rétt er að svo sé gert til að "friða" eigendur þessara króna sem þó komast ekki lönd eða strönd með þær úr hagkerfinu vegna gjaldeyrishafta.
Hugmyndir stjórnarflokkanna um að nota eitthvað af þessum B.krónum til að greiða niður skuldir heimilanna eru t.d. ótækar vegna þess að þá er þessum gerfivermætum veitt út í hagkerfið með tilheyrandi verðbólgu og verðrýrnun A. krónanna.
Auðvitað eiga þeir að blæða sem græða á stökkbreytingu lánanna,hvort sem það heita bankar,íbúðalánasjóður þ.e. ríkið, lífeyrissjóðir eða hverjir sem eru aðrir. Hitt er falsvon að eitthvað sé að hafa úr loftbólusjóðum erlendra lánadrottna.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 17.8.2013 kl. 01:16
Okkur er sjálfsagt nokkur vorkunn Bjarni Gunnlaugur að vera að ræða þetta án þess að hafa tæmandi upplýsingar um stöðuna en alla vega, það kostar ekkert að gera tilraun til þess að vinda ofan af þessu svona á "bakhliðinni á servíettu".
Eins og ég skil þetta þá er um að ræða: A) annars vegar 400 milljarða kr. sem kröfuhafar eiga í gegnum skilanefndir Arion banka og Íslandsbanka og B) hins vegar ca. 400 milljarða kr. af innistæðum á höfuðbók 27 sem er í umsjá SÍ (gömlu jöklabréfin).
A) Ef við byrjum á 400 milljörðum skilanefndanna þá þykist ég muna það úr fréttum fyrir kosningar að þær eignir skiptist í gófum dráttum með eftirfarandi hætti: 100 milljarðar af innistæðum í íslenskum fjármálafyrirtækjum, 200 milljarðar af eiginfé í bönkunum og 100 milljarðar af skuldabréfum og öðru slíku. Þetta er ekki loft heldur alvöru eignir.
Fái ríkið þessar eignir í hendur þá á ég erfitt með að sjá að það auki peningamagn í umferð að þær séu notaðar til þess að færa niður lán. Segjum sem svo að ríkið selji eignirnar (300 milljarðar) innlendum aðilum á nafnvirði (til þess að einfalda dæmið) þá þurfa kaupendurnir í teoríunni að greiða fyrir þessar eignir með því að afhenda ríkinu 300 milljarða af innistæðum í íslenskum fjármálastofnunum. Ríkið eykur þá innistæður sínar um 300 milljarða en kaupendurnir minnka sínar innistæður um 300 milljarða. Breytingin á peningamagni í umferð er því engin.
Í framhaldinu þá gæti ríkið fært niður verðtryggð lán í bönkunum með þvi að nota hluta af sínum innistæðum. Við þetta minnkar peningamagn í umferð um því sem nemur niðurfærslunni eftir því sem ég fæ best séð, því engar nýjar innistæður myndast þegar ríkið lækkar innistæður sína til þess að færa höfuðbækur lána í bönkunum niður.
Að nota hluta af innistæðunum til þess að færa niður lán hjá ÍBLS og lífeyrissjóðum hefur engin áhrif á peningamagn í umferð, því að ríkið færir niður sínar innistæður og innistæður ÍBLS og Lífeyrissjóða hækka um sömu upphæð.
Þegar það er sagt þá er ég ekki að segja að þetta sé skynsamlegasta leiðin. Ég hefði t.d. frekar viljað að það yrði skoðað hvort að ekki mætti gíra lífeyrissjóðina niður með því að ríkið fái HFF bréf sjóðanna sem greiðslu fyrir þann skatt sem ríkið á eftir að innheimta af inngreiðslum í sjóðina. Þannig mætti hugsanlega stofna nýjan íbúðalánabanka (LEK?) og aðrir eigendur HFF bréfa fengju þeim skipt út fyrir hlutafé í þeim banka en þetta er auðvitað bara einhver draumsýn af minni hálfu. En ef þetta væri hægt þá gæti ríkið væntanlega undið ofan af uppgreiðsluvanda ÍBLS. En það er svo annað mál.
B) Ef ég hef skilið þetta jöklabréfavandamál rétt þá hefur SÍ tekið þessar innistæður (400 milljarðar) úr umferð og er væntanlega m.a. að halda uppi vaxtastigi í landinu og leyfa útgreiðslur á vöxtum í gegnum höftin til þess að halda friði við eigendur þessara eigna.
Fái ríkið/SÍ höfuðbók 27 til ráðstöfunnar þá er væntanlega áríðandi að það fé fari ekki út í hagkerfið. Það mætti kannski ímynda sér að þessar innistæður yrðu paraðar á móti skuld SÍ við ríkið en ef ég man rétt þá lagði ríkið SÍ til 270 milljarða af fé eftir hrunið. Það er reyndar svona "pabbi borgar mömmu" bókhald sem ég hef aldrei skilið en það má kannski einu gilda.
Benedikt Helgason, 17.8.2013 kl. 16:35
Er ekki alveg að fylgja þér í þessum pælingum Benedikt hér er ágæt samantekt um vandann af peningamagni í umferð og gerðir snjóhengjanna, http://blog.pressan.is/fridrik/2013/05/27/um-snjohengjur/
Friðrik segir þarna að krónur séu fastar í hagkerfinu og að auki innistæðulausar, það eru þessar krónur sem ég hef áhyggur af að fari á kreik, svona eins og blóðtappi í þjóðarlíkamanum sem valdi heilablóðfalli eða hjartastoppi!
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 17.8.2013 kl. 22:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.