Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012

Hin endurreista bankastarfsemi á Íslandi

Undanfarin ár hefur ýmislegt gengið á í endurreistum íslenskum bankarekstri.  Lengi leit út fyrir að menn hefðu ekkert lært af hruninu, svo sljákkaði aðeins á ofsanum, eins og menn ætluðu að gera einhverja yfirbót, en nú er eins og tímavélin hafi tekið völdin.  Oft í viku koma fréttir innan úr bankakerfinu eða mér er sagt af gömlum "snillingum" sem hafa verið endurreistir til fyrri stöðu eða nýir búnir að grandskoða hvað gömlu "snillingarnir" gerðu og hafa það eitt markmið að toppa þá.

Vilji til samninga er horfinn

Endurreistu bankarnir hafa sumir hverjir alveg ótrúlega verkferla, sem eiga ekkert skylt við heiðarlega eða góða viðskiptahætti.  Þannig eru þeir allir að stilla fólki og fyrirtækjum upp við veggi í uppgjörsmálum, eins og þeir (eða starfsfólk þeirra) hafi engin tengsl eða siðferðislegar skyldur gagnvart viðskiptavinum vegna þess sem gerðist hér fram að hruni.  Grófasti gjörningurinn er mikill skortur á siðferði.  Kannski er það ekki hluti af bankarekstri að hafa viðskiptasiðferði, a.m.k. ekki á Íslandi, en víða um heim þykir það líklegt til árangurs að hafa þó ekki væri nema hálfa skeið af mannúð, 2 dl af hógværð og 5 g af skilningi í hverju 1 kíló af líkamsþyngd bankastarfsmanns.  Nei, ekki í hinum endurreistu íslensku bönkum.  Þar var mannúð skipt út fyrir hroka, hógværð fyrir fyrirlitningu og skilningi fyrir græðgi.  Niðurstaðan er svo almennt eftir því.

Tæknin sem hefur verið notuð í samningaviðræðum við viðskiptavinina er einföld.  Hún er svona:

  1. Drögum úr hófi fram að finna niðurstöðu.  Svörum ekki póstum, tilboðum og símtölum nema a.m.k. einhverjar vikur, helst mánuðir fái að líða.
  2. Höfnum öllum tillögum viðskiptavinarins, því hann getur örugglega borgað meira en hann leggur til.
  3. Ásökum viðskiptavininn um allt og ekkert, við hljótum að hitta í mark þó ekki nema einu sinni af hverjum 10.000 skiptum.
  4. Leggjum sjálfir fram tillögur að lausn
    1. Ef viðskiptavinurinn samþykkir, þá hljótum við að hafa boðið of vel og látum lánanefndina hafna.
    2. Ef viðskiptavinurinn hafnar, þá lýsum við frati í hann og sendum málið til dómstóla.
  5. Ef eign viðskiptavinarins er álitleg, þá semjum við ekki, þar sem við græðum meira á því að taka eignina af viðskiptavininum og selja hana sjálfir, en að semja.  Skítt með það þó fólk verði gjaldþrota, við fáum feitan bónus.

Undanfarin tvö ár hafa leitað til mín á þriðja tug einstaklinga og fyrirtækja, sem hafa gengið í gegn um þetta ferli hjá endurreistu bönkunum.  Allir hafa nánast sömu sögu að segja, þ.e. bankinn hefur haldið fólki (og fyrirtækjum) í óljósu samningsferli, þar sem lopinn er teygður út í hið óendanlega, meðan skuldir gera ekkert annað en að safna vöxtum.  Sjáið sko til.  Bankinn gefur ekki vextina eftir þó hann sé valdur af töfinni.  Nei, hann tefur málin eins og hægt er til þess að geta einmitt hlaðið á lánin vöxtum, dráttarvöxtum, innheimtugjöldum, lögfræðiskostnaði og málflutningskostnaði.  Ég hef séð skjöl frá öllum endurreistu bönkunum til sönnunar á þessu, þrátt fyrir að viðskiptavinurinn sé búinn að vera að gera sitt besta til að semja.  Hvernig er hægt að semja við fólk sem fær bónusa fyrir að hafa helst allt af viðskiptavininum?  Það er ekki hægt.

Fasteignafélögin síhungruðu

Kostulegasta nýjunginn eru svo kölluð eignafélög endurreistu bankanna.  Þau eru hálfgerður brandari og skil ég ekki hvernig þau virka.  Eitt þeirra var að skila hátt í 1 milljarðs króna hagnaði í vikunni.  Hvernig ætli þessi hagnaður sé til kominn?  Jú, eign hefur verið hirt af fyrirtæki eða einstaklingi á verulega niðursettu verðmati til þess að eins lítið af skuldum gerist upp á móti.  Síðan er kemur nýtt fasteignamat eða bara nýtt verðmat og þá er allt í einu komin betri tíð og blóm í haga.  Matið hækkar um 15 - 20% og, bingó, fasteignafélagið hefur allt í einu hagnast gríðarlega.  Þó svo að bankinn eigi félagið, þá er hann ekkert að láta hinn óheppna fyrri eiganda fasteignarinnar njóta "lottóvinningsins" heldur er líklegast kominn með hann inn í dómsal vegna eftirstöðvanna.  Það er nefnilega ekki nóg að langleiðina stela eignum af fólki og fyrirtækjum, heldur á að troða fólki (og fyrirtækjum) alveg ofan í svaðið.  Og hirða svo bónusinn fyrir árangursríkt verk!

Bestum árangri ná bankarnir, þegar nýju (eða gömlu) "snillingarnir" sitja á sem flestum hliðum borðsins, þ.e. eru að semja við viðskiptavininn, hafa ótakmarkaðan aðgang að lánanefnd bankans og sinna störfum fyrir fasteignafélagið.  Þá geta þeir þóst vera góðu gæjarnir, en um leið stjórnað aftökunni og að sjálfsögðu hagnast á öllu í gegn um bónusana sem þeir fá frá fasteignafélaginu.

Tekið skal fram að ég er hér að lýsa þeim hluta endurreistu bankanna, sem hefur verið endurreistur hvað best til fyrra horfs frá því fyrir hrun, þ.e. þeim sem snýr að því að svína á viðskiptavinunum.  Hrunbankarnir voru orðnir algjörir snillingar (engar gæsalappir) á þessu sviði, eins og kemur nokkuð ítarlega fram í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.  Ég er sem sagt ekki að tala um gjaldkerana eða þjónustufulltrúana, sem sitja í básum sínum í útibúunum.  Það fólk er alveg jafn misnotað af "snillingunum" og viðskiptavinirnir, vegna þess að þetta starfsfólk er notað til að segja fólki og fyrirtækjum alls konar tröllasögur um hve frábær bankinn sé og hvað hann ætli að vera góður við viðkomandi, þó allt annað standi til.

Ég held að hollast sé fyrir bankana að muna, að ánægður viðskiptavinur er líklegri til að vera áfram í viðskiptum en sá sem er óánægður.  Uppgjörsmál vegna hrunsins verða því að innifela í sér gagnkvæman ávinning en ekki að annar sé keyrður í þrot og hinn taki til sín allan hagnaðinn.  Og bankarnir eru að raka til sín hagnaði eins og afkomutölur þeirra leiða í ljós.

Englasöngur bankanna

Allir reyna endurreistu bankarnir að sýnast vera englar.  Íslandsbanki birti t.d. í afkomutölum sínum um daginn hvað hann hefði nú verið góður við viðskiptavini sína.  Bankinn hélt því fram, að afskriftir til viðskiptavina hefðu numið um 394 milljörðum kr. frá hruni.  Þetta er náttúrulega ein sú svakalegasta tröllasaga sem ég hef heyrt, þar sem Íslandsbanki átti aldrei nema mjög lítinn hluta þessara 394 milljarða og því hefur bankinn ekki framkvæmt þessar afskriftir.  Þær fóru fram hjá Glitni.  Talan verður ennþá skrítnari, þegar hún er borin saman við nærri 800 milljarða eignir bankans í lok fyrsta ársfjórðungs 2012.  Eigum við að trúa því, að Íslandsbanki sé ennþá gjaldfær eftir að hafa afskrifað 33% af eignarsafni sínu?  Hey, við erum ekki alveg svona heimsk, þó við trúum á álfa, huldufólk og tröll.  Þessi saga er ótrúlegri en allar slíkar sögur.  Staðreyndin er að megnið af þessum 394 milljörðum hefur ekki verið að finna í reikningum Íslandsbanka frá hruni.  (Hef að vísu ekki gefið mér tíma til að skoða nýjustu skáldsögu bankans.)  Ekki á eignarhliðinni, ekki í varúðarfærslum og ekki í afskriftum.  Þar má kannski finna þriðjung af henni, en líklegast innan við fjórðung.

Brandarinn um afskriftir Íslandsbanka verður enn betri, þegar afkomutölur bankans eru skoðaðar.  Nánast á hverju ársfjórðungi hefur bankinn skilað vænum hagnaði.  Stundum upp á tugi milljarða.  Til þess að bankinn hefði haft efni á því að afskrifa 394 milljarða og vera ennþá með jákvætt eigið fé upp á 135 ma.kr., þá hefði hann þurft að skila 394 milljörðum aukalega í hagnað fyrir afskriftir.  Slíka tölu er hvergi að finna í reikningum bankans, en er ítrekað flaggað í fréttatilkynningum, þegar árshlutauppgjör og ársuppgjör eru kynnt.  (Þess vegna kallaði ég þessi uppgjör skáldsögu hér að ofan.)

Ég er alveg sæmilega læs á ársreikninga og veit því hvað tölurnar þýða sem þar birtast.  Fyrir hrun var logið að okkur og núna eigum við að trúa því að Íslandsbanki sé gjaldfær eftir að hafa afskrifað þriðjung af eignum sínum.  Ætli sé ennþá verið að ljúga að okkur?

(Tekið skal fram að tölur hinn tveggja eru heldur ekki að ganga upp.)


Af útúrsnúningi um afnám verðtryggingar

Einu sinni sem oftar gengur Guðmundur Gunnarsson, fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambandsins, fram á ritvöllinn og talar um afnám verðtryggingar (sjá Afnemum verðtrygginguna).  Einu sinni enn snýr hann út úr umræðunni eins og hann sé haldinn slæmum hrörnunarsjúkdómi sem leiðir af af sér alvarlegt minnisleysi.

Guðmundur talar nánast alltaf um afnám verðtryggingu sem alsherjar afnám hennar.  Við sem höfum rætt hvað mest um afnám verðtryggingar höfum hins vegar einskorðað umræðuna við afnám verðtryggingu af neytendalánum.  Hvergi hefur verið lagt til að banna verðtryggingu alfarið og hvergi verið lagt til að hún verði ekki notuð til að tryggja verðgildi lífeyris.  Guðmundur er almennt ekki að láta slík smáatriði trufla sig og túlkar hlutina á sinn veg.  Er það ákaflega hvimleitt svo ekki sé meira sagt, þar sem með því er hann að blekkja auðtrúa lesendur skrifa sinna.  Kaldhæðnin í þessu er að yfirskrift Guðmundar á síðunni hans á Eyjan.is er "enginn er eins blindur og sá sem vill ekki sjá".

Til að hafa staðreyndir á hreinu, þá höfum ég, Hagsmunasamtök heimilanna, þingmenn Hreyfingarinnar, Lilja Mósesdóttir og Eygló Harðardóttir, svo nokkrir séu nefndir, talað fyrir því að leggja af notkun verðtryggingar í neytendalánasamningum.  Já, hér er um mjög skýra afmörkun að ræða, NEYTENDALÁNASAMNINGAR.  Ekki er verið að tala um að banna fyrirtækjum að taka verðtryggð lán, gefa út verðtryggð skuldabréf eða tengja greiðslur sem þau inna af hendi við vísitölu neysluverðs.  Ekki er heldur verið að leggja til bann við sams konar háttarlagi ríkissjóðs, opinberra stofnana, sveitarfélaga eða annarra aðila sem stærðar sinnar vegna hafa bolmagn til að ráða við nánast viðstöðulausa hækkun höfuðstóls skuldar framan af lánstímanum af völdum hækkunar á vísitölu neysluverðs.  Vissulega væri lítið vit í því hjá Íbúðalánasjóði að gefa út verðtryggð skuldabréf til að fjármagna sjóðinn, ef stærsti hluti lántaka væri að fá óverðtryggð lán, þannig að útgáfa verðtryggðra skuldabréfa myndi því dragast stórlega saman, ef til þessa kæmi.

Ég veit ekki af hverju menn eru sífellt að tengja saman verðtryggingu lífeyris og verðtryggingu íbúðalána.  Engin tengsl eru á milli þessa tveggja.  Takið eftir:  ENGIN TENGSL ERU Á MILLI VERÐTRYGGINGAR LÍFEYRIS OG AÐ ÍBÚÐALÁN EINSTAKLINGA ÞURFI AÐ VERA VERÐTRYGGÐ.  Að halda því fram byggir annað hvort á gífurlegri vanþekkingu eða verið er að beita vísvitandi blekkingum.  Vísitölutryggðar eignir lífeyrissjóðanna eru vissulega að mestu í verðtryggðum skuldabréfum Íbúðalánasjóðs og fyrirrennara hans, en staðan í dag þarf ekki að segja neitt til um stöðuna til framtíðar, frekar en að fortíðin segir til um stöðuna í dag.

Ég fullyrði að ekkert mál er að halda lífeyri verðtryggðum, þó stærsti hluti eigna lífeyrissjóðanna verði óverðtryggður.  Á fyrstu árum þessarar aldar voru einmitt réttindi sjóðsfélaga í nokkrum lífeyrissjóðum hækkuð vegna góðrar ávöxtunar á óverðtryggðum eignum viðkomandi sjóða.  Þessi sömu réttindi voru svo skert vegna taps á þessum sömu óverðtryggðu eignum og öðrum eignum, sem m.a. voru verðtryggðar.  Afkoma lífeyrissjóðanna ræðst ekki af því hvort eignir þeirra eru verðtryggðar eða ekki.  Hún ræðst af því hve naskir fjárfestingastjórar sjóðanna eru að fjárfesta í eignum sem gefa af sér góða ávöxtun.  Vissulega auðveldar það fjárfestingastjórunum lífið að vera með verðtryggð skuldabréf Íbúðalánasjóðs eða sjóðfélaga, en það gerir menn líka værukæra og gefur ekki alltaf bestu ávöxtun.  Staðreyndin er að þeir sem eru stöðugt í leit að betri ávöxtun, þeir enda uppi með betri ávöxtun, en hinir sem láta hlutina bara malla, þeir missa af tækifærunum sem bíða þarna úti.

Óskandi væri, að í framtíðinni haldi menn sig við staðreyndir, þegar talað er um afnám verðtryggingar.  Eingöngu er verið að tala um afnám verðtryggingar á neytendalánasamningum, þar með talið lánum til húsnæðiskaupa.  Alls ekki er verið að tala um afnám verðtryggingar á lífeyri og ekki er verið að banna öðrum en neytendum að taka slík lán eða gefa út verðtryggð skuldabréf.


Ferðasumarið mikla með erlenda bílstjóra og enga leiðsögumenn - Vernda þarf vörumerkið Ísland

Tilefni skrifa minna er ekki atvikið á Tjörnesi heldur eitt og annað sem ég hef heyrt af eða orðið vitni að í sumar í tengslum við skipulegðar hópferðir með ferðamenn um landið.  Óteljandi hópar ferðamanna eru á ferð um landið í hópferðabílum.  Þetta fólk er margt að fara sína fyrstu og einu ferð um Ísland á ævinni.  Mun aldrei aftur til landsins koma og því er mikilvægt að bjóða þeim upp á faglega leiðsögn um landið.  En er það alltaf reyndin?  Nei, og raunar langt frá því.

Fjöldi hópa er á ferð um landið án leiðsögumanna með þekkingu á landinu, hvað þá fagþekkingu.  Notast er við svo kallaða hópstjóra, sem margir hverjir eru að koma í fyrsta sinn til landsins um leið og hópurinn sem þeir eru í fylgd með.  Þegar þeir eru heppnir, þá fá þeir reynda íslenska bílstjóra, en ósjaldan kemur bílstjórinn með hópnum og hefur því ennþá minni reynslu og þekkingu á því að ferðast um landið.  Vissulega á þetta reynsluleysi líka við ófaglærða íslenska leiðsögumenn, en þau tilfelli eru mun færri sem betur fer.

Hvers vegna viljum við hafa menntaða leiðsögumenn og bílstjóra sem þekkja vegina með hópum sem ferðast um landið?  Ástæðurnar eru margar.  Ein sú mikilvægasta er að veita gestum okkar rétta þjónustu.  Hún flest í því að upplýsa gesti okkar um það sem þá þyrstir að vita en ekki síður að segja þeim frá öllu hinum sem þeim datt ekki í hug að spyrja um.  Hópstjóri sem hefur aldrei til landsins komið, þekkir ekki sögur héraðsins, tilurð fjallanna og hvað er mikilvægt að skoða. Hann þekkir ekki til atvinnuhátta, efnahagsmála og stjórnmála.  Lýsingar í flestum handbókum, sem þeir dæmigert lesa beint upp úr, eru takmarkaðar og vekja oft fleiri spurningar en þær svara. 

Hvort sem hópstjórinn er pólskur, japanskur eða ísraelskur, þá á hann ekki að vera einn á ferð með hóp nema viðkomandi hafi sýnt fram á lágmarksþekkingu á landinu.  Tala nú ekki um að hann geti gert sig skiljanlegan við þjónustuaðila sem hann þarf að vera í samskiptum við. 

Því miður eru allt of mörg dæmi um að hópum sem hleypt út á vegi landsins, sem nánast eru ófærir um að bjarga sér sjálfir.  Þá er það lagt á herðar bílstjóranna (sé hópurinn svo heppinn að vera með innlendan bílstjóra) að ganga í verk leiðsögumannsins, þ.e. benda á áhugaverða hluti, sjá um samskipti við þjónustuaðila og koma í veg fyrir að hópstjórinn leiði hópinn í einhverja vitleysu.  Þannig eru bílstjórarnir nánast komnir í hlutverk driver-guide, nokkuð sem þeir hafa hvorki menntun né réttindi til.  Þess fyrir utan að þeim er ekki borgað fyrir að sjá um þetta.

Ísland er verðmætt vörumerki sem við eigum að vernda.  Með því að hleypa reynslulausum hópstjórum sem tóku jafnvel bílstjórana með sér að heiman, þá erum við að skemma þetta vörumerki á tvennan hátt.  Í fyrsta lagi erum við að bjóða upp á lélegar eftirlíkingar og í öðru lagi þá erum við ekki að passa upp á að vörumerkið verði fyrir skemmdum.  Gucci setur ekki merki sitt á neina vöru nema hún standist gæðaprófum.  Við eigum að gera það líka.  Gucci er síðan í stöðugri báráttu gegn lélegum eftirlíkingum.  Við eigum að gera það líka.

Þegar ég fer með hóp ferðamanna, hvort heldur í norðurljósaferð haust, vetur eða vor eða dagsferð út frá Reykjavík allan ársins hring, þá er ég stöðugt að selja Ísland.  Á vetrunum er ég að selja fólki þá hugmynd að koma hingað að sumri til eða fara í fjölbreyttari vetrarferðir.  Á sumrin, þá lýsi ég fegurð Þingvalla á haustin eða vetrum, upplifun af öðrum árstímum.  Allt árið er ég að segja þeim frá öðrum ferðum sem hægt er að fara.  Ég er að gera það áhugavert að koma hingað aftur.  Fyrir þá sem ekki eiga möguleika á að koma aftur, þá er ég að tryggja að ferðin verði þeim eftirminnileg á þann hátt að segja þeim (vonandi) skemmtilegar sögur, sýna þeim það óvenjulega, uppfylla eins og hægt er óskir þeirra.  Með þessu er ég vonandi að auka eftirspurn eftir vörumerkinu Íslandi.  Ég veit raunar að ég er að gera það, því í nánast hverri einustu ferð sem ég hef farið með ferðamenn, þá hefur einhver komið til mín og sagt að hann þurfi að koma aftur og skoða landið betur.

Ferðamaður sem er ánægður sem heimsókn sína til Íslands er besta auglýsing sem landið fær.  Þó hann fái ekki færi á að koma hingað aftur, þá mun hann smita út frá sér þegar hann lýsir sinni upplifun og þeir sem hlustuðu á lýsingar hans setja Ísland á blað yfir áhugaverða staði að heimsækja.  Sé hann óánægður, þá snýst þetta við og hann ber út óánægjuna eins og vírus.  Þess vegna verðum við að vanda til verka og gera kröfur til þeirra sem ferðast með hópa um landið, að þeir hafi fullnægjandi þekkingu á því sem þeir eru að lýsa fyrir ferðamönnunum.  Fólki sem oft er búið að safna í mörg ár fyrir þessari draumaferð.  Þegar við förum í okkar draumaferð, þá viljum við ekki að fúskarar skemmi ferðina fyrir okkur.  Sama á við þá, sem koma til okkar í sína draumaferð.

(Ég tek það fram, að ég rek vefinn Iceland Guide (www.icelandguide.is), sem gefur ferðamönnum kost á að komast í samband við faglærða leiðsögumenn.  Innleggið er þó algjörlega ótengt þeirri þjónustu.)


mbl.is Þétt setin rúta vó salt á vegbrún
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls

Á fjörur mínar rak nýlega bók sem mig langar aðeins að fjalla um.  Þessi bók vakti áhuga minn fyrir nokkrar sakir, en þó sérstaklega þar sem ég er leiðsögumaður ásamt öllu öðru sem ég geri.  Hér um ræðir endurútgáfa Sigurðar Sigurðarsonar á bókinni Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls.

Ég hef aldrei gengið Fimmvörðuhálsinn, en eftir lestur bókarinnar, þá er ég ákveðinn í að gera það fyrr en síðar.  Hana prýða m.a. myndir af óteljandi fossum sem eru á leiðinni (og þeir eru í orðsins fyllstu merkingu óteljandi).  Margir þeirra bera áhugaverð nöfn meðan aðrir eru nafnleysingjar.  Myndir af útsýni frá ólíkum stöðum er einnig að finna og flott kort af leiðinni.

kapa_fimmvhals Lýsingu á gönguleiðinni yfir hálsinn er skipt í fjóra áfanga, þ.e. 1. áfangi er frá Skógum og upp að göngubrú yfir Fossá (Fossleið), 2. áfangi er frá brú og að skála, 3. áfangi er frá skála að Heljarkambi (um umbrotasvæðið frá 2010) og sá fjórði frá kambinum niður í Bása.  Að sjálfsögðu er hægt að fara leiðina í öfugri röð og síðan ganga fram og til baka hafi menn tíma og orku í það.

Auk lýsingar á gönguleiðinni yfir hálsinn er lítillega fjallað um gönguleiðir á jöklana sem afmarka hálsinn, þ.e. Mýrdalsjökul og Eyjafjallajökul.  Þá er fróðleikur um Fimmvörðuskálann og að sjálfsögðu um eldsumbrotin vorið 2010.

Samkvæmt Sigurði tekur um 9,5 klst. að ganga norður yfir hálsinn, þ.e. frá Skógum í Bása, en ívið lengur eða 10 klst. ef farið er suður yfir hálsinn.  Reikna ég með að inni í göngutímanum sé tekið tillit til þess tíma sem fer í að skoða og njóta útsýnisins og náttúrunnar, þannig að röskir göngumenn, sem ætla bara að þræða stíginn komist þetta að mun skemmri tíma.

Ekki er hægt að fjalla um gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls án þess að koma með aðvörðun til þeirra sem þar ætla að fara yfir:

Veður í byggð segir ekkert til um veðrið uppi á hálsinum.  Það hefur oft sannast og kostað mannslíf.  Óreyndir göngumenn eiga ALDREI að fara einir í fyrstu göngu sinni yfir hálsinn.  Menn eiga ALDREI að ganga blindandi eftir GPS-punktum.  Bregðist skyggni í ferðinni, þá er betra að setjast niður á skjólsælum stað og bíða eftir að annað hvort rofi til eða reyndir göngumenn komi sem hægt er að biðja um aðstoð, en að halda göngunni áfram, a.m.k. um Heljarkamb og niður í Bása.  Að sunnanverðu er leiðin almennt mun greiðfærari og hættu minni.

Veðurfar á hálsinum getur verið stórvarasamt og breyst á skömmum tíma.  Oft liggja vindstrengir yfir hálsinn sem loka leiðinni dögum saman.  Úrkomusamt er þar og snjóalög geta bæði verið mikil og varað lengi.

En aftur að bókinni.

Mér sýnist bókin geta nýst flestum sem vilja ganga yfir Fimmvörðuháls.  Ég ætla ekki að lýsa henni of ítarlega, en skilst að hægt sé að finna hana hjá Útivist, Hagkaup og Útilífi.  Sigurður á hrós skilið fyrir að koma þessu efni á prent og hvet hann til að láta snara henni yfir á ensku og jafnvel fleiri tungumál.  Nýlega fékk ég t.d. fyrirspurn til Iceland Guide um gönguferð yfir hálsinn frá bandarískum hjónum og því er ljóst að Fimmvörðuháls á sér aðdáendur víða um heim.


Launaþróun lánþega LÍN neikvæð um 1,77% árið 2011, en launavísitala hækkaði um 9,1%

Á visir.is er frétt um afskriftarþörf Lánasjóðs íslenskra námsmanna.  Hún hefur aukist gríðarlega að því virðist af þremur ástæðum.  Fyrsta er nýtt reiknilíkan, önnur er neikvæð launaþróun árið 2011 og þriðja er breytt samsetning og hegðun lántaka.  Mig langar að fjalla um þátt tvö.

Í frétt visir.is er rætt við/vitnað í Harald Guðna Eiðsson þar sem hann segir:

Í fyrsta lagi breyttum við forsendum reiknimódels sjóðsins. Þær eru endurskoðaðar reglulega. Þetta er einskiptisaðgerð sem útskýrir tæplega fjóra milljarða króna af þessari hækkun á framlagi. Í öðru lagi eru áhrif af því að launaþróun lánþeganna, eða greiðenda námslána, var neikvæð á árinu um 1,77 prósent. Vegna verðbólgu og verðbóta hækkuðu hins vegar námslánin. Þetta er líka svolítið stór þáttur í þessu.

Þriðja atriðið er breytt samsetning og hegðun lántaka. Fólk er almennt lengur í námi. Margir fóru til dæmis aftur í nám eftir hrunið en voru kannski með námslán fyrir. Þá hækkaði fall krónunnar lán þeirra sem stunda háskólanám erlendis í krónum talið. Það er því sístækkandi hópur sem er komin með svolítið há lán og líkurnar á því að þau endurgreiðist að fullu verða minni. 

Lántakar hjá LÍN eru um 50.000 samkvæmt upplýsingum í ársskýrslu 2010-2011, um 20.000 virkir lántakar og um 30.000 greiðendur.  Haraldur Guðni segir að launaþróun þessara um 30.000 hafi verið neikvæð um 1,77% árið 2011!

Skoðun þá hvað Hagstofan segir um launaþróun:

Í janúar 2012 var 12 mánaðahækkun launavísitölu 9,1%

Lántakar LÍN eru að stórum hluta langskólagengið fólk, sem ætti að mynda sérfræðingastétt þjóðarinnar og þar með millistétt og efri millistétt þjóðarinnar.  Samkvæmt Haraldi, þá er það reynsla LÍN að laun þeirra hafi lækkað um 1,77% milli 2010 og 2011 meðan Hagstofan segir að launavísitalan hafi hækkað um 9,1% frá janúar 2011 til janúar 2012.  Hér munar svo miklu að nauðsynlegt er að fá skýringu á þessum mun.  Ekki er hægt að segja að þessi hópur hafi bara ekki hækkað eins mikið og aðrir, því það þýðir einnig að aðrir hópar hafa hækkað verulega umfram 9,1%.

Mig langar að fá að vita hvernig standi á þessum gríðarlega mun á tölum LÍN um launaþróun greiðenda sinna og útreikningum Hagstofunnar á hækkun launavísitölu.  Í mínum huga geta ekki báðar tölurnar verið réttar.  Svo einfalt er það.


Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband