Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012

Margar aðrar hliðar á tapi lífeyrissjóðanna

Margt hefur verið rætt um tap lífeyrissjóðanna af hruni fjármálakerfisins í framhaldi af birtingu skýrslu rannsóknarnefndar lífeyrissjóðanna.  Sitt sýnist hverju um hve mikið tapið hafi orðið, en eitt er víst að það er meira en sjóðirnir hafa viljað viðurkenna hingað til.

Fram að þessu hafa talsmenn sjóðanna ekki viðurkennt hærra tap en 150-200 ma.kr.  Skýrslan segir 480 ma.kr., í yfirlýsingu Landsamtaka lífeyrissjóða er nefnd tala 380 ma.kr. og mér sýnist hreinlega í morgun að Gyfli Arnbjörnsson hafi fullyrt í morgun að tala væri bara 8 ma.kr., en hann vill að hagnaður upp á 472 ma.kr. sé dreginn frá tapinu.  Ég ætla hér að nota töluna 480 ma.kr. sem ég held að sé of lág, þar sem ekki séu öll kurl komin til grafar.

Í þessum pistli ætla ég fyrst og fremst að horfa á tapið frá sjónarhorni ríkisins, sveitafélaga og skattgreiðenda, en í lokin vil ég leiðrétta villur sem ég tel menn halda fram.

Tapaðar skatttekjur og hærri útgjöld ríkisins

Lífeyrissjóðirnir geyma framtíðartekjulind fyrir ríkissjóð í tvennum skilningi.  Annars vegar er um að ræða skatttekjur og hins vegar greiðslu á þjónustu sem eldri borgarar njóta á sambýlum, þjónustukjörnum, dvalarheimilum og hjúkrunarheimilum.  Þannig má gera ráð fyrir að framtíðarskattgreiðendur þurfi að taka á sig stærsta hluta tapsins í hærri útgjöldum ríkis og sveitafélaga til almannatrygginga og þjónustu við lífeyrisþega (örorku- og ellilífeyrisþega). 

Svo fáránlegt sem það er, þá munar það mjög oft engu fyrir lífeyrisþega hvort þeir eigi stæðileg réttindi í lífeyrissjóði eða engin.  Jöfnunaráhrif tekjutenginga í almannatryggingakerfisins eru slík að mismunandi réttindi svo nema hundruðum þúsunda á mánuði breyta sorglega oft engu eða litlu varðandi hvað fólk fær í hendur.  Skerðing réttinda (verði farin sú leið) vegna taps lífeyrissjóðanna mun því í allt of mörgum tilfellum lenda á ríkissjóði.

Miðað við að 25% af greiðslum úr lífeyrissjóði fari í skattgreiðslu, þ.e. tekjuskatt, þá er beint tap ríkissjóðs vegna 480 ma.kr. taps 120 ma.kr.  Gefum okkur svo að 2/3 af því eftir er hefði greitt fyrir útgjöld sem annars hefðu lent á ríkinu, þá eru það 360 ma.kr. sem beint lenda á okkur skattgreiðendum.  Eftir standa hugsanlega 120 ma.kr. sem samkvæmt núverandi kerfi lífeyrisþegar fá ennþá í sínar hendur, en framtíðin á alveg eftir að skera úr um hvort svo verði þegar þar að kemur.

Lágmarkstap skattgreiðenda er því 360 ma.kr. og hámarkið mögulega 480 ma.kr.

Gott að ríkið skuldaði LSR

Samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt, þá mun vanta um 350 ma.kr. inn í LSR og LH (Lífeyfissjóð hjúkrunarfræðinga).  Í bókum LSR/LH er þetta fært sem skuld ríkisins við sjóðina.  Svo fáránlegt sem það nú er, þá sparaði þessi skuld skattgreiðendur um 100 ma.kr., ef ekki meira!

Eign LSR/LH er um 370 ma.kr. þrátt fyrir 101 ma.kr. taps.  Hefði ríkið nú staðið árlega við inngreiðslur í sjóðinn, eins og samningar gera ráð fyrir, þá hefðu eignir sjóðanna staðið í tvöfaldri tölu.  Tvöföld tala hefði líklega valdið tvöföldu tjóni.  Þannig að trassaskapur ríkissjóðs sparaði honum a.m.k. 100 ma.kr. og líklegast mun meira, þar sem líkur eru á að hærri eignir hefðu orðið til þess að hærra hlutfall hefði farið í meiri áhættufjárfestingar.

Niðurstaðan er því að það hafi verið lán ríkissjóðs og skattgreiðenda að ekki var farið eftir samningum.

Annars er merkilegt hvað lítið hefur breyst í tímans rás, því árið 1996 skrifaði ég grein um vanda LSR og má lesa hana hér.

Skiptir máli að ríkið geri upp við LSR/LH?

Næst er að velta fyrir sér hvort það skipti í raun máli að ríkið geri upp við LSR/LH.  Ég held hreinlega að svarið sé nei. 

Gefum ríkið greiði 8 ma.kr. á ári til LSR/LH til að leiðrétta stöðu sjóðanna og þessir 8 ma.kr. renni beint út til sjóðfélaga.  25% fer í tekjuskatt, þ.e. 2 ma.kr., 2/3 af því sem eftir er verður fórnarlamb jöfnunaraðgerða og tekjutenginga, þá eru bara 2 ma.kr. eftir.  LSR/LH eru þá orðnir hreinir gegnum streymissjóðir hvað þennan hluta lífeyrisgreiðslna varðar.  Einfaldast er því fyrir ríkið að greiða þessa 2 ma.kr. beint til lífeyrisþeganna, þegar þar að kemur í staðinn fyrir að treysta LSR/LH fyrir ávöxtun peninganna.  Reynslan sýnir nefnilega að miklar líkur eru á að þá þurfi ríkið, og þar með skattgreiðendur, bara að greiða þessa 2 ma.kr. tvisvar!

Auðvitað er þetta síðasta kaldhæðni.

Lífeyrissjóðir sveitafélaga

Mörg sveitafélög eru með sjóði fyrir sína starfsmenn.  Staða þeirra er ekki ólík stöðu LSR/LH, þ.e. halli er á eignum gagnvart réttindum/skuldbindingum.  Nú er misjafnt hve margir eru í hverjum sjóði og hver raunstaða þeirra er, en gróft litið, þá er hægt að færa rök fyrir því, sérstaklega eftir að málaflokkur lífeyrisþegar er að mestu kominn til sveitafélaganna, að ekki skipti megin máli hvort búið sé að greiða inn í sjóðina fulla upphæð eða nettótalan verði greidd út þegar þar að kemur.

Gróf mynd ekki vísindaleg nákvæmni

Ég vara fólk við að taka því sem hér er sagt alveg bókstaflega, því um gríðarlega einföldun er að ræða.   Hér hef ég dregið upp grófa mynd af stöðunni og er hún að tap lífeyrissjóðanna lendir að miklu leiti á skattgreiðendum framtíðarinnar, trassaskapur ríkisins gagnvart LSR/LH sparaði skattgreiðendum a.m.k. 100 ma.kr. og ekki víst að það sé skynsamlegt fyrir ríkið að gera upp við LSR, þar sem með því er tekin út úr málinu áhættan sem felst í fjárstýringu sjóðsins.

Ekki víst að gamla fólkið tapi

Ingólgur Ingólfsson fullyrðir í DV að "gamla fólkið" verði verst úti.  Ég vil nú leyfa mér að efast um þessa staðhæfingu.  Allir verða jafn illa út.  480 ma.kr. dreifast á alla sjóðfélaga jafnt.  Sá sem er núna að taka lífeyri er hvort eð er í tekjujöfnunarvítahring sem gerir það að verkum, að sé viðkomandi tekjulágur, þá leiðréttir almannatryggingakerfið kúrsinn.  Hinir sem eru tekjuhærri og taka ekki þátt í rekstri stofnunar, þjónustukjarna o.s.frv. þeir verða fyrir sama tapi og þeir sem yngri eru.  Þannig má færa rök fyrir því, að fjölmargt gamalt fólk verði ekki fyrir neinu tjóni nema í gegn um skattana sína.

Gylfa ekki sjálfrátt

Ég verð að viðurkenna, að Gylfa Arnbjörnssyni er ekki sjálfrátt í villu sinni.  Ég spyr bara:  Hvað fékk maðurinn í stærðfræði í barnaskóla?

Hann heldur því fram samkvæmt frétt á visir.is, að sjóðirnir hafi í reynd ekki tapað nema 8 ma.kr.  Vegna þess að aðrar fjárfestingar, sem hann segir ekkert hverjar voru, gáfu 472 ma.kr. í tekjur, þá sé bara allt í lagi að 480 ma.kr. á öðrum!  Þessir 472 ma.kr. koma að mestu frá erlendum eignum lífeyrissjóðanna sem nánast tvöfölduðust í virði við fall krónunnar.

Ég segi nú bara að eins gott er að Gylfi skuli ekki miða við evrur, en þekkt er hvað hann er hrifinn af þeim gjaldmiðli.  Nefnilega samanborið við gengi evrunnar, þá er tap íslensku lífeyrissjóðanna nálægt því 8 ma.EUR þegar búið er að taka tillit til greiddra iðgjölda eftir hrun.

Í árslok 2007 námu eignir lífeyrissjóðanna 1.697 ma.kr. á gengi 31.12.2007 jafngilti þetta 18,5 ma.EUR.  Um síðustu áramót námi eignirnar 1.909 ma.kr. tökum frá þessu inngreidd iðgjöld árin 2009, 2010 og 2011 upp á um 70 ma.kr. árlega, þá standa eftir 1.699 ma.kr. eða 10,8 ma.EUR, þ.e. mismunur upp á 7,7 ma.EUR eða 41,6%. 

Nei, Gylfi, sjóðirnir töpuðu gríðarlegum upphæðum á hruninu, hvernig sem á það er litið.


mbl.is Telja tapið vera 380 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt verk óunnið - Stokka þarf upp í þeim sjóðum sem ekki eru að standa sig

Ég er algjörlega sammála Arnari Sigurmundssyni að menn þurfa að læra af reynslunni.  Því miður segir reynslan okkur, að menn eiga erfitt með að læra af reynslunni.  Best sé að nýir menn læri af reynslu þeirra sem brugðust.  Því skora ég á Arnar Sigurmundsson og aðra stjórnarmenn Landsamtaka lífeyrissjóða að segja af sér auðveldara sé að byggja upp traust á lífeyrissjóðunum.  Einnig er sjálfsagt að allir stjórnarmenn sem sátu í sjóðum fyrir hrun víki sæti og hleypi nýju fólki að.  Fólki er hugsar meira um að verja réttindi sjóðfélaga, en setan sé bitlingur sem ekki þarf að hafa fyrir.  Jafnframt skora ég á þessa sömu aðila að afsala sér rétt til lífeyris meðan tryggingafræðileg staða sjóðanna er lakari en fyrir hrun.  Þið hafið ekki unnið ykkur inn fyrir réttindunum meðan aðrir sjóðfélagar líða fyrir afglöp ykkar

Höfum í huga að tapið 479,7 ma.kr. sem er örugglega ekki endanleg tala, nemur 27% af eignum þeirra í lok september 2008.  Fyrir einstakling sem lagt hefur í lífeyrissjóð í 20 ár, þá jafngildir það að 5,4 ár af iðgjaldagreiðslum og réttindaávinningi hafi þurrkast út (miðað við að tapið dreifist jafnt yfir sjóðina).  Þar sem LSR er með rúmlega fimmtung af tjóninu, þá lendir sá hluti á skattborgurum.

Ég verð að viðurkenna að ég sé ekki margt í stöðunni.  Okkar margrómaða lífeyriskerfi er í vondum málum.  Gatið milli hreinna eigna og skuldbindinga er orðið mjög stórt.  Opinberu sjóðirnir eru komnir í ógöngur sem ekki verður ratað úr.  Sama hvað verður gert á tekjuhliðinni.  Eina leiðin er að skerða réttindi verulega.  Því miður.  Ekki lagaði 100 ma.kr. tap LSR stöðuna.  Við það fór gatið úr 250 ma.kr. í 350 ma.kr.

Lífeyrissjóðirnir fórnalömb eigin vaxtar

Óhætt er að segja að lífeyrissjóðirnir urðu fórnarlömb eigin vaxtar.  Raunar þeirrar meinloku í kerfinu að hægt væri að safna meira en heilli þjóðarframleiðslu í kerfi sem á að skila meiri ávöxtun en hagkerfið stendur undir.  Til þess að ná ávöxtuninni, þá þurfti sífellt að fara í áhættusamari fjármagnanir/fjárfestingar, fyrir utan að áhættulitlir fjárfestingakostir voru hreinlega ekki nógu margir.  Að þessu leiti var og er sjóðunum nokkur vorkunn, en það réttlætti ekki margar af þeim glórulausu ákvörðunum sem teknar voru.  Það réttlætti ekki að menn klúðruðu algjörlega áhættustjórnun sjóðanna.  Og síðast en ekki síst, réttlætti það ekki að fjárstýringum sjóðanna væri úthýst til aðila sem hugsuðu fyrst um hag síns fyrirtækis og síðan viðskiptavinarins, eins og helst má ráða af skýrslu Hrafnsnefndarinnar.

Ekki var við öðru að búast, en lífeyrissjóðirnir hefðu tapað einhverju, þegar heilt hagkerfi fór á hliðina.  Ég held að ekki séu öll kurl komin til grafar og upphæðin eigi eftir að hækka.  Síðan á eftir að taka á skuldavanda heimilanna og hann verður ekki leystur án aðkomu lífeyrissjóðanna.  Annars gerist það óhjákvæmilega:  Lífeyrissjóðirnir fá Íbúðalánasjóð í fangið.

Áhættustjórnun klikkaði

Já, auðvitað hlutu sjóðirnir að verða fyrir höggi, en það hefði mátt dempa með því að sýna aðgát.  Ég hef aldrei geta skilið þessar gjaldeyrisvarnir sjóðanna.  Þegar ég vann að ráðgjöf fyrir sjóðina um miðjan síðasta áratug, þá einmitt spurði ég fjárfestingastjóra stærstu sjóðanna sem ég vann fyrir út í þetta.  Hvað gerist ef gengið sveiflast um leið og gengi hlutabréfa sveiflast?  Svarið var einfalt:  Þetta jafnar sig út yfir lengri tíma.  Sem sagt ekki var þörf fyrir ráðstafanir til að bregðast við þessu.  Ástæðan fyrir því að ég spurði, var áhættumat sem ég var að vinna fyrir sjóðina.  Ég vildi meta viðkvæmni sjóðanna fyrir forföllum og jafnvel skyndilegu brotthvarfi lykilmanna.  (Ég var ekki að taka á aðferðafræði við fjárstýringar, þannig að áhætta í þeim var ekki mitt viðfangsefni.)  Niðurstaðan þá var að þetta væri ekkert til að hafa áhyggjur af, þar sem markaðir sveifluðust en sveiflurnar ættu það til að jafnast út.  Og það sem mestu skipti, lífeyrissjóðirnir væru þolinmótt fjármagn sem hefði tíma (sérstaklega miðað við hina miklu sjóðssöfnun sem var í gangi) til að bíða af sér jafnvel nokkurra ára dýfur.  Hvað breyttist í millitíðinni, veit ég ekki, en menn augljóslega viku frá hinu fyrra áhættumati.

Það sem mér finnst standa upp úr í skýrslunni af því sem miður fór er þetta með gjaldeyrisvarnirnar, víkjandi skuldabréf og stórar stöður hjá tengdum aðilum.  Mér dettur ekki í hug að kenna Exista eða Baugi um það.  Áhættustjórnun lífeyrissjóðanna var ekki í höndum stjórnenda þessara fyrirtækja.  Hún var hjá sjóðunum sjálfum.  Mistökin þar voru líklegast að setja of mörg egg í sömu körfuna.  Kannski var það ekki ætlunin eða menn héldu að þeir hefðu dreift þeim, en á endanum voru þau öll meira og minna í sömu körfunni.

Misjöfn áhrif á sjóðina

Ekki eru allir sjóðir undir sömu sök seldir.   Sé miðað við stöðu sjóðanna í dag, sem er náttúrulega ekki rétt viðmið, en gefur samt hugmynd, þá eru 10 mestu skussarnir sem hér segir (tap sem hlutfall af núverandi stöðu):

  • Eftirlaunasjóður starfsmanna Hafnarfjarðarkaupstaðar - 48,3% 
  • Lífeyrissjóður verkfræðinga - 47,6%
  • Lífeyrissjóður Vestfirðinga - 39,2%
  • Stafir lífeyrissjóður - 35,2%
  • Gildi lífeyrissjóður - 31,3%
  • Festa lífeyrissjóður - 31,2%
  • Almenni lífeyrissjóðurinn 30,1%
  • Kjölur lífeyrissjóður - 30,0%
  • Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins & Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga - 27,3%
  • Íslenski lífeyrissjóðurinn - 26,8%

Og þeir 10 sem sleppa best:

  • Lífeyrissjóður Neskaupstaðar - 1,6%
  • Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar - 4,2%
  • Lífeyrissjóður starfsmanna Búnaðarbanka Íslands hf. - 7,5%
  • Eftirlaunasjóður Reykjanesbæjar - 8,1%
  • Lífeyrissjóður bankamanna - 8,9%
  • Lífeyrissjóður starfsmanna Akureyrarbæjar - 9,1%
  • Lífeyrissjóður starfsmanna Húsavíkurbæjar - 12,0%
  • Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda - 12,9%
  • Lífeyrissjóður Vestmannaeyja - 13,7%
  • Frjálsi lífeyrissjóðurinn - 13,7%

Samanlagt eignarsafn skussanna er  959,6 ma.kr. en þeirra sem stóðu sig best 325.3 ma.kr.  Miðhópurinn, sem einnig telur 10 sjóði er með eignir upp á 624,5 ma.kr.  Þannig að viss fylgni er milli stærðar og taps, því þrír stórir sjóðir, þ.e. Lífeyrissjóður verzlunarmanna (25,9%), Stapi lífeyrissjóður  (25,4%) og Sameinaði lífeyrissjóðurinn (24,1%), rétt sleppa við að lenda í hópi skussanna.  Ekki vegna þess að þeir hafi staðið sig svo vel, heldur vegna þess hve margir koma mjög illa út.  Á hin bóginn eru bara tveir af tíu stærstu sjóðunum, þ.e. Frjálsi lífeyrissjóðurinn (7) og Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda (9), sem lenda í hópi þeirra sem standa sig best.  Þó vissulega sé fylgni, þá held ég að meiru skipti reynsla og þekking, því í stjórn Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda sátu margar helstu kanónurnar og hjá Frjálsa er einvala lið fólks sem hefur vit á fjármálum, með Ásgeir Thoroddsen, formann, í fararbroddi.  Efast ég um að hann leyfi neitt annað en fagmennsku af hæsta stigi.

Krafan í kjölfar skýrslunnar er eins og Arnar Sigurmundsson segir.  Menn þurfa að læra af reynslunni.  Þar er fyrsta skrefið að skoða hvað Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda og Frjálsi lífeyrissjóðurinn eru að gera rétt.  Næsta er að herma sem mest eftir því hjá örðum sjóðum, sem felst í því að skipta um mannskap og einstaklinga með þekkingu, getu og reynslu inn í sjóðina.  Mér þykir það leitt, en sá tími er liðinn að seta í stjórn lífeyrissjóðs sé bitlingur eða fyrir þann næsta í goggunarröðinni.  Út með alla farþega og fáum hæfileika fólk inn.  Þeir sem koma inn geta verið fulltrúar þeirra sem hingað til hafa skipað stjórnarmenn, en við þurfum að færa stjórnarstörf lífeyrissjóðanna upp um nokkrar deildir.  Þetta er ekki lengur vel launað hobbí, heldur dauðans alvara.

(Tekið skal fram að ég er ekki að ásaka einn eða neinn um að hafa ekki lagt sig fram.  Það sem var gert, var augljóslega ekki nóg í tilfelli allt of margra sjóða.  Úr því þarf að bæta og hér er ekkert pláss fyrir tilfinningasemi eða meðvirkni.)


mbl.is Verðum að læra af reynslunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vita lífeyrissjóðirnir eitthvað sem aðrir vita ekki - Vextir af ríkisskuldabréfum og sjálfbært vaxtastig

Hún virðist ekki rökrétt sú ákvörðun lífeyrissjóðanna að ætla að breyta erlendum eignum í íslenskar krónur á þessum tímapunkti.  Hvort heldur ákvörðunin er skoðuð út frá sjónarhorni lífeyrissjóðanna eða ríkisins.

Líkt og Morgunblaðið bendir á, þá mun leið lífeyrissjóðanna með nýtt fé á erlendan markað vera erfið við núverandi gjaldeyrishöft.  Því geta liðið mörg ár, þar til það verður hægt.   Ég hef nokkrum sinnum rætt þetta við frammámenn innan lífeyrissjóðanna og hefur það alltaf komið skýrt fram hjá þeim, að aðganginn að erlendum mörkuðum verði að meta sem verðmæta eign.  Helgast það að því að gjaldeyrishöftin koma í veg fyrir að nýjar fjárfestingar í útlöndum og hve þrengir um fjárfestingar hér á landi.  Er því eðlilegt að spurt sé hvort lífeyrissjóðirnir viti eitthvað sem við vitum ekki, t.d. um að styttra sé í myntskipti, þeir muni fá að kaupa sig inn í Landsvirkjun, að nýtt stórt fjárfestingaverkefni sé í pípunum o.s.frv.

Lífeyrissjóðirnir vita ekki aura sinna tal

Höfum í huga, að lífeyrissjóðirnir eiga gnótt fjár á innstæðureikningum.  Frétt Morgunblaðstins segir 160 ma.kr.  Við þetta bætast um 5-6 ma.kr. á mánuði, ef ekki meira, að teknu tilliti til úrgreiðslna lífeyris.  160 ma.kr. verða því að 220 ma.kr. fyrir árslok opnist sjóðunum ekki leið til að fjárfesta með öðrum hætti.  200 milljónir evra er ekki merkileg summa í þessu samhengi eða ríflega 32,2 ma.kr. miðað við skráð gengi.  Gefum okkur að sjóðirnir fái 20% álag, þá gefur þetta vissulega góða ávöxtun, en lækki krónan á næstu mánuðum og árum, eins og útlit er fyrir, þá gætu sjóðirnir verið að skjóta sig í fótinn, jafnvel með slíkt aukaálag.  Ekki er heldur gild sú skýring að þeir séu að færa peningana í góða ávöxtun hér á landi, þar sem þeir eiga fimmfalda þessa upphæð sitjandi á bankareikningum sem líklegast bera ekkert rífandi háa vexti.

Gagnvart ríkissjóði, þá er spurningin hvers vegna ríkissjóður er svona áfjáður að bæta á skuldabyrði sína.  Og af hverju þarf ríkissjóður að kaupa lífeyrissjóðina til samstarfs um endurreisn heimila landsins?  Ég hélt í einfeldni minni, að lífeyrissjóðirnir væru sameiginlegir sjóðir, a.m.k. stórs hluta, landsmanna.  Þeir gegna því samfélagslegu hlutverki, en ekki sem fjárfestingasjóður.  En fyrst ríkissjóður þarf á annað borð að gefa út ríkisskuldabréf, þá er líklegast þjóðhagslega hagkvæmara að vextir þeirra fari til lífeyrissjóðanna, en erlendra vogunarsjóða.  Hin hliðin á peningnum er, að séu fleiri að keppa um að fjárfesta í ríkisskuldabréfum, þá ætti að vera hægt að þrýsta vöxtum þeirra lengra niður.

Er verið að halda uppi vöxtum?

Hér er kannski komin ástæðan fyrir því að lífeyrissjóðirnir vilja fara út í þennan gjörning.  Þeir eru að draga úr samkeppni á markaðnum og þannig verja ávöxtunarkröfu markaðarins.  Einn stærsti glæpur eftirhrunsáranna hefur einmitt verið ávöxtunarkrafa á markaði eða eigum við frekar að segja gjafmildi ríkissjóðs við útgáfu ríkisskuldabréfa.  Ég skrifaði færslu um þetta á vormánuðum 2009, þar sem ég taldi ávöxtun sem ríkissjóður bauð upp á á langtímabréfum vera hreinlega glæp gegn þjóðinni.  Í frétt um málið kemur fram að ríkið hafi tekið tilboðum í ríkisskuldabréf á gjalddaga 2010, 2017 og 2026 með ávöxtunarkröfu upp á 8,82-9,98%.  Látum vera að stystu bréfin hafi verið með slíka ávöxtunarkröfu, en að bjóða 17 ára bréf með slíkri ávöxtun lýsir ekki trú á þróun efnahagsmála og það hjá ríkisstjórn sem ætlaði að vera komin í faðm ESB og inn í skjól evrunnar löngu áður en bréifn væru á gjalddaga.

Vextir þurfa að lækka

Ríkissjóður á að fara fram með góðu fordæmi og lækka vaxtastigið í landinu.  Bæði heimili og fyrirtæki eru að kikna undan vaxtabyrðinni og eru búin að gera það áratugum saman.  Þess vegna flúðu þessir aðilar yfir í gengistryggð lán á árum áður.  Þar var boðið upp á viðráðanlega vexti, a.m.k. þar til að bankarnir sáu hagnað í því að fella gengið. 

Í mínum huga á ríkissjóður ekki að bjóða hærri vexti en hann kemst upp með.  Verðbólgumarkmið Seðlabankans má nota til að ákveða þetta vaxtastig.  Nú eru þau 2,5% og vilji ríkissjóður styðja við þau, þá á hann ekki fara með sína vexti meira en 0,5-1,0% upp fyrir það.  Ég heyri alveg fyrir mér sérfræðinga á markaði mótmæla þessu.  Höfum þá í huga, að þeir vinna nær allir fyrir fjárfesta sem vilja háa ávöxtun. 

Ekki ríkissjóðs að keppa um vexti

Það er ekki ríkissjóða að bjóða háa ávöxtun.  Raunar eiga ríkissjóðir að forðast eins og heitan eldinn að ýta vaxtastigi upp.  Þeir eiga ekki að keppa við aðra með hærra vaxtastigi.  Ríkissjóðir eiga eingöngu að taka lán á lægstu mögulegum vöxtum og fái þeir ekki lán á þeim vöxtum, þá verða þeir einfaldlega að sleppa lántökunni eða að bréf þeirra liggja óseld inni í fjárhirslum þeirra.  Verum alveg viss um, að þegar fjárfestar hafa ekki aðra kosti, þá munu þeir sætta sig við lægri vexti.  Hér á landi hefur sú staða einfaldlega aldrei áður verið uppi.

Ég vil að sett verði lög um hámark á vexti ríkisskuldabréfa.  Eygló Harðardóttir lagði, að mig minnir, fram frumvarp þess efnis 2010, en það fékk ekki hljómgrunn.  Ég tel þetta samt þurfa að gerast, þar sem atvinnulífið þarf almennt að greiða 2-3% hærri vexti en ríkissjóður og heimilin 1-2% hærra en atvinnulífið.  Sé ríkissjóður að bjóða 9-10% óverðtryggða vexti, þá liggur í augum uppi, að búið er að festa "markaðsvexti" í 12-14%. 

Markaðsvextir í sýndarheimi

Ég set markaðsvexti innan gæsalappa, þar sem ég tel þetta vera vexti sem verða til í sýndarheimi en ekki raunheimi. Þó ríkissjóður bjóðir ríkisskuldabréf upp á 15 ma.kr. með háum vöxtum, þá er ljóst að eingöngu útvaldir geta keypt.  Þeir sem ekki geta, liggja því með peningana sína í lægri ávöxtun.  Samt eru markaðsvextir stilltir inn á vexti af þessum örlitla hluta.  Í dag er t.d. stór hluti ávöxtunar á lágvaxta innstæðureikningum, nema náttúrulega þeir sem eru nógu stórir til að fá stýrivexti Seðlabankans á peninga sem hvergi komast í vinnu (annar glæpur gegn þjóðinni).

Þjóðfélagið verður að standa undir vöxtunum

Raunveruleiki vaxtastigsins er sú tala sem þjóðfélagið stendur undir.  Með neikvæðan hagvöxt, eins og var 2008, 2009 og 2010, þá var ljóst að þjóðfélagið stóð ekki undir jákvæðum raunvöxtum.  Slíkir vextir gerðu ekkert annað en að taka peninga úr þeirri vinnu sem þeir áttu að vera í, þ.e. uppbyggingu.  Fjármagnseigendur eru ekki í uppbyggingu.  Þeir eru bara að leigja út peningana sína, svo þeir fái meiri pening.  Fjármagnseigendur eru ekki í verðmætasköpun fyrir þjóðfélagið, fjölga atvinnutækifærum, auka útflutning eða neitt það annað sem eykur hagvöxt.  Nei, er eitthvað er, þá virðast þeir halda að þeir eigi að blóðmjólka þá sem standa í þessu.

Fyrir mér er þetta einfalt reikningsdæmi.  Ef gjaldið fyrir peningana, þ.e. vextirnir, er hærra en verðmætaaukningin sem lánsféð leiddi til hjá mér framkvæmdaraðila, þá var verr af stað farið en heima setið.  (Eigið fé er hér tekið sem jafngilt lánsfé, þar sem ég vil líka fá ávöxtun af því.)  Vaxtastigið er ekki sjálfbært. Eins og stað er hér á landi í dag, þá efast ég um að vextir yfir 3% séu sjálfbærir.  Á öðrum tímum eða í einstökum framkvæmdum gætu vextir upp á 10% verið sjálfbærir.

Aftur að ríkissjóði.  Stjórnvöld verða að fara á undan og sýna gott fordæmi.  Þau verða að spyrna við fótum og hætta frekar við framkvæmd, en að fara í lántöku á of háum vöxtum.  Ekki má nota réttlætingu, eins og að þau nái fyrir kostnaðinum með skattlagningu eða þetta sé svo þjóðhagslega hagkvæmt.  Við sjáum bara hvers þjóðhagslega hagkvæmar framkvæmdirnar við Kárahnjúka enduðu á að vera.  Færa má rök fyrir því að þær hafi leitt til taps sem nemur fimmfaldri vergri þjóðarframleiðslu eða var það slökun á peningastefnu Seðlabankans sem olli því eða ákvarðanir FME eða "snilld" íslenskra bankamanna.  Hvernig sem litið er á það, þá er ég ekki enn búin að sjá hver þjóðhagslega hagkvæmni Kárahnjúkaframkvæmdanna var í raun og veru, en afleiðingarnar (beinar eða óbeinar) finn ég á eigin skinni í dag ásamt langflestum landsmönnum.


mbl.is Gengur í berhögg við lærdóm hrunsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurskipulagning fjármála einstaklinga, heimila og fyrirtækja þarf að miðað við ársbyrjun 2008

Hlustaði aðeins á óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi áðan.  Forsætisráðherra er enn að berja hausinn upp við steininn.  Hún segir að mikið sé búið að gera, en gleymir því, að allt er meira og minna gert á forsendum fjármálafyrirtækjanna.

Ég veit ekki hve margir átta sig á, að verðbólga frá janúar byrjun 2008 til dagsins í dag er 37,4%, en frá hruni til dagsins í dag 22,7%.  Munar þarna 14,7%, sem er verðbólga frá byrjun janúar til hruns með uppsöfnunaráhrifum af síðari verðbólgu.  Ríflega 1/3 af tjóninu varð fyrir hrun. 

Myndin er ennþá verri, ef skoðuð er sveiflan á krónunni. Í töflunni hér fyrir neðan er gengi nokkurra gjaldmiðla í ársbyrjun 2008, 6. október 2008 og í dag.

DagsetningEURUSDCHFJPYGVT
1.1.200891,6562,3256,460,5687120,5
6.10.2008172,355127,455111,281,2585230,025
2.2.2012161,795123,19134,1951,6178221,15
Breyting frá 1.1.0876,5%97,7%137,7%184,5%83,5%
Breyting frá 6.10.08-6,1%-3,3%20,6%28,5%-3,9%

Taflan sýnir að hækkunin á gengi varð að langmestu leiti frá áramótum fram að hruni.  Eftir hrun eru það bara jen og frankar sem eru að halda áfram að kvelja menn og hækkun frankans nær ekki einu sinni breytingum á vísitölu neysluverðs.

Meðan ekki er búið að lagfæra afleiðingarnar á efnahagshruninu, sem átti sér stað frá áramótum 2008 fram að því þegar neyðarlögin voru sett, þá er ekki búið að koma hlutunum í samt lag.  Að fjármálafyrirtæki (þó þau séu ný) fái að stinga í vasann bara einhverri af þeirri hækkun skulda sem varð á þessu tímabili er staðfesting á því, að fjármálafyrirtæki eru hafin yfir lög.  Þau mega setja heilt hagkerfi á hausinn og stinga afrakstrinum í eigin vasa!  Þau mega stunda vafasöm viðskipti, sem líklegast stangast á við lög, en samt stinga hagnaðinum í vasann.  Þau mega fella krónuna og skapa verðbólgu til að hækka kröfur sínar á saklausa lántaka og þannig stefna öllu í voða, en samt stinga hagnaðinum í vasann.  Þau mega hunsa alla varúð, sýna gróft vanhæfi, svíkja, svindla, beita blekkingum og bjóða ólöglega þjónustu, en samt stinga hagnaðinum í vasann.

Meðan stjórnvöld líta svo á, að fjármálafyrirtækin séu löglegir eigendur þess fjár sem haft var af viðskiptavinum með þeim aðferðum sem lýst er að ofan, þá verður ekki friður í þjóðfélaginu.  Traustið er farið og það mun taka mörg ár að byggja það upp aftur.  Eitt skref í þá átt, er að unnið verði út frá skuldastöðu í upphafi árs 2008 og fundin út aðferð til að leiðrétta skuldir einstaklinga, heimila og fyrirtækja í samræmi við það.  Hvort að lagt er 2,5% eða 4,0% árlega ofan á skuldastöðuna þá eða einhver önnur aðferð notuð, skiptir kannski ekki megin máli.  Hins vegar er út í hött að fara í leiðréttingar sem miða við að tjónið frá áramótum fram að hruni verið ekki bætt.  Það er út í hött að fjármálafyrirtæki sem voru þátttakendur í ruglinu (hvort heldur beint eða bara þáðu tekjurnar) eða voru stofnuð á rústum þeirra sem voru stærstu gerendurnir, fái að ráða hvernig leiðréttingin fari fram, hafi úrskurðarvald um líf og dauða fyrirtækja eða hvort fólk tapi eigum sínum, að ég tali nú ekki um, fái að hagnast um geðveikislegar háar upphæðir. 

Í mínum huga er þetta ekki ólíkt því að þjófagengi hafi brotist inn á heimili landsmanna og stolið þaðan öllu steini léttara.  Það sem þau hirtu ekki tóku minni gengi.  Nú þegar lögreglan nappaði gengin, stór og smá, þá fá þau að velja hverju er skilað og hverju þau eða þýfiskaupendur þeirra fá að halda eftir.  Síðan þurfa heimilin að greiða fyrir allar viðgerðir að auki.


« Fyrri síða

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband