Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009
26.11.2009 | 21:32
Bréf til banka og annarra lánastofnanna
Hagsmunasamtök heimilanna hafa birt á heimasíðu sinni drög að tveimur bréfum til lánastofnanna. Langar mig að birta þessi drög hér. Í bréfunum, sem lántökum er ætlað að senda á lánveitanda sinn, fer lántaki fram á að lánveitandinn endurskoði upphæð höfuðstóls lána með hliðsjón af þeim forsendubresti, sem "fjármálastofnanir í landinu og núverandi/fyrrverandi eigendur þeirra báru ábyrgð á." Er síðan látin í ljós sú skoðun að fjármálastofnunin og eftir því við á fyrri eða núverandi eigendur hennar séu völd "að brestinum hvort heldur viljandi með fjárglæfrum og hreinum fjársvikum eða óviljandi með gáleysislegum viðskiptaháttum og vítaverðu vanhæfi".
Hvet ég alla sem telja sig hafa verið beitta(n) órétti í tengslum við óhóflegar hækkanir á höfuðstóli lána sinna, að senda svona bréf til bankans síns. Þar sem "fólkið á gólfinu" hefur mátt þola mjög mikið áreiti af hálfu óánægðra viðskiptavina, þá er mælst til þess að þessu sé beint til millistjórnenda og yfirmanna. Verði bankinn ekki við tilmælum í þessum hófstilltu bréfum, þá verða birt drög að ítrekunarbréfum sem hægt verður að senda. Annars sjáum við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna enga ástæðu til þess að lánastofnunin ætti að virða bréf viðskiptavinarins að vettugi og svar ætti því að berast innan hóflegs tíma.
Útgáfa 1: Bréf til Arion, Íslandsbanka og Landsbanka
Ágæti viðtakandi
Undirrituð/aður óska eftir því við bankann, að hann taki til endurskoðunar upphæð höfuðstóls láns míns/lána minna hjá bankanum með hliðsjón af alvarlegum forsendubresti, sem bankinn, aðrar fjármálastofnanir í landinu og núverandi og/eða fyrrverandi eigendur þeirra báru ábyrgð á. Tel ég að bankinn og fyrri eigendur hans vera valda að brestinum hvort heldur viljandi með fjárglæfrum og hreinum fjársvikum eða óviljandi með gáleysislegum viðskiptaháttum og vítaverðu vanhæfi.
Óska ég eftir því, að bankinn sendi mér sundurliðaða skýringu á því hvers vegna greiðsluáætlun, sem ég undirritaði, hefur ekki staðist og hvers vegna brugðið er út af henni á jafn afgerandi hátt og raun ber vitni við innheimtu lánsins/lánanna. Hafa skal í huga, að við undirritun greiðsluáætlunar/ana hafði ég til hliðsjónar spár greiningadeildar bankans um þróun vísitölu neysluverðs og gengis á þeim tíma. Tel ég forsendur lánasamningsins byggðar á þeim upplýsingum.
Loks óska ég eftir að fá að vita hvort lánið mitt er/lánin mín eru skráð í eigu nýju eða gömlu kennitölu bankans, þannig að ég viti hvorum aðilanum ég eigi að stefna vegna ofangreinds forsendubrests. Ég hef frétt, að nýju bankarnir hafi í einhverjum tilfellum borið fyrir sig að röngum aðila hafi verið stefnt og þannig tafið framgang mála. Vil ég koma í veg fyrir að það gerist í mínu tilfelli.
Svör óskast eins fljótt og auðið er.
Virðingarfyllst
Útgáfa 2: Bréf til annarra fjármálastofnanna lífs (fyrst og fremst sparisjóða og eignaleigufyrirtækja) eða "liðinna" (þ.e. Straums, SPRON, Frjálsa fjárfestingabankans, Glitnis, Kaupþings og Landsbanka Íslands).
Ágæti viðtakandi
Undirrituð/aður óska eftir því við bankann, að hann taki til endurskoðunar upphæð höfuðstóls láns míns/lána minna hjá bankanum með hliðsjón af alvarlegum forsendubresti, sem bankinn, aðrar fjármálastofnanir í landinu og núverandi og/eða fyrrverandi eigendur þeirra báru ábyrgð á. Tel ég að bankinn og fyrri eigendur hans vera valda að brestinum hvort heldur viljandi með fjárglæfrum og hreinum fjársvikum eða óviljandi með gáleysislegum viðskiptaháttum og vítaverðu vanhæfi.
Óska ég eftir því, að bankinn sendi mér sundurliðaða skýringu á því hvers vegna greiðsluáætlun, sem ég undirritaði, hefur ekki staðist og hvers vegna brugðið er út af henni á jafn afgerandi hátt og raun ber vitni við innheimtu lánsins/lánanna. Hafa skal í huga, að við undirritun greiðsluáætlunar/ana hafði ég til hliðsjónar spár Seðlabankans um þróun vísitölu neysluverðs og gengis á þeim tíma. Tel ég forsendur lánasamningsins byggðar á þeim upplýsingum.
Svör óskast eins fljótt og auðið er.Virðingarfyllst
Eins og sjá má á þessum bréfum, eru engar ávirðingar bornar á mögulegan móttakanda, nema hann taki gagnrýnina til sín, og því ekki um fjandsamlega aðgerða á neinn hátt að ræða. Vona ég innilega að lánastofnanir komi með hófstillt og innihaldsrík svör með haldbærum upplýsingum.
Nú er bara að láta upplýsingar um þetta ganga til allra sem geta notað drögin. Ljóst er að fjármálastofnanir eru að gera sitt besta til að láta svo líta út, sem viðskiptavinurinn hafi enga samningsstöðu. Þetta þurfum við að afsanna. Við þurfum að sýna fram á, að samningsstaða heimilanna er ekkert lakari en Haga, Morgunblaðsins, Húsasmiðjunnar eða annarra fyrirtækja sem hafa fengið eða eru í ferli að fá afskrifaðar skuldir upp milljarða á milljarða ofan.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
26.11.2009 | 12:46
Hýrudrögum þá sem ekki mæta
Í annað sinn á nokkrum dögum er boðaður kvöldfundur á Alþingi til að fjalla um uppgjöf ríkisstjórnar Íslands fyrir Bretum og Hollendingum. Síðast sýndu fæstir stjórnarliðar kjósendum og skattgreiðendum í landinu þá virðingu að vera viðstaddir umræðuna sem þeir sjálfir höfðu ákveðið að færi fram. Ætli verði einhver breyting á því núna? Það efast ég stórlega um og mæli með því að þeir sem ekki mæta verði hýrudregnir. Þetta fólk er nefnilega í vinnu hjá þjóðinni og því ber að sýna vinnuveitanda sínum þá virðingu að mæta og vera þátttakandi í umræðu sem skiptir framtíð þjóðarinnar máli.
Fyrir þá sem ekki létu svo lítið að mæta í síðustu viku, þá vil ég benda mönnum að Hlusta eða Horfa á ræðu sem Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, flutti. Ég heyrði hana fyrir tilviljun í útvarpinu á sunnudaginn og ég varð mjög hrifinn. Ásbjörn komst gjörsamlega að kjarna málsins, þar sem hann fór yfir víðan völl. Þó ég leggi það ekki í vanann minn að hrósa Sjálfstæðismönnum, þá get ég ekki annað en bent á þessa ræðu.
Annars heyrði ég í Steingrími í útvarpinu, þar sem hann var að saka stjórnarandstöðuna um að vilja ekki mæta á kvöldfund. Honum hefði verið nær að beina þessum orðum til sinna eigin þingmanna, að ég tali nú ekki um þingmanna Samfylkingarinnar, sem virðast gjörsamlega vera gersneyddir sjálfstæðri hugsun þegar kemur að þessari gríðarlega háu fjárskuldbindingu. Skora ég á þingmenn stjórnarandstöðu til að þegja þunnu hljóði í pontu í kvöld, ef eitthvað vantar á þá 29 þingmenn stjórnarliða, sem samþykktu kvöldfundinn. Sá sem hefur samþykkt slíkan fund er siðferðislega skuldbundin því að mæta.
Kvöldfundur samþykktur á Alþingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.11.2009 | 23:23
InDefence hópurinn skorar á forseta Íslands
Ýmislegt bendir til að ríkisstjórn Íslands ætli að þvinga í gegn um Alþingi í nafni flokkshlýðni breytingum á lögum um Icesave. Ríkisstjórn Íslands hefur tvisvar kosið að fara gegn vilja lýðræðislega kjörinna fulltrúa þjóðarinnar og semja við Breta og Hollendinga um annað en Alþingi hafði veitt henni umboð til. Ekki einu sinni, heldur tvisvar hefur vilji Alþingis verið hunsaður. Ég ætla ekki að geta mér þess til hér hvers vegna ríkisstjórn Íslands hefur kosið að vinna gegn vilja Alþingis, en niðurstaðan hefur í bæði skiptin verið mun meira íþyngjandi samningar um Icesave, en vilji löggjafans hefur staðið til.
Í kvöld ákvað InDefence hópurinn, sem hefur staðið sem klettur í brimsjó, í vörn sinni fyrir íslenska skattborgara næstu 15 ára, að hefja söfnun rafrænna undirskrifta, til að skora á forseta Íslands, herra Ólaf Ragnar Grímsson, að synja væntanlegum lögum um Icesave staðfestingar, þegar þau verða undir hann borin. Eða eins og segir í yfirlýsingu á heimasíðu samtakanna:
Alþingi Íslendinga hefur nú til meðferðar frumvarp til breytinga á lögum nr. 96/2009 um ríkisábyrgð á Icesavesamningum.
Verði það samþykkt er ljóst að fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar er stefnt í hættu. Framtíðarkynslóðir Íslands yrðu skuldsettar um langa framtíð og lífskjör þeirra skerðast.
Við staðfestingu laga nr. 96/2009 ítrekaði forseti Íslands mikilvægi fyrirvara Alþingis með sérstakri áritaðri tilvísun til þeirra, sbr. yfirlýsingu hans dags. 2. september 2009. Þeir fyrirvarar við ríkisábyrgð sem samþykktir voru í ágúst voru sameiginleg niðurstaða fjögurra þingflokka á Alþingi og byggðust á tillögum og hugmyndum fjölda sérfræðinga og áhugafólks á almennum vettvangi. Fyrirvararnir taka mið af sanngjörnum rétti og hagsmunum Íslendinga og alþjóðlegri samábyrgð, eins og segir í yfirlýsingu forseta Íslands.
Fyrirvararnir sem mestu skipta til að takmarka ríkisábyrgðina og verja hagsmuni þjóðarinnar vegna Icesave-samninganna eru í nýja frumvarpinu nánast að engu gerðir. Með samþykki þessa frumvarps verða skuldbindingar íslenska ríkisins á ný ófyrirsjáanlegar bæði hvað varðar fjárhæðir og tímalengd.
Vil ég hvetja alla, sem vilja leggja málinu lið, að fara inn á heimasíðu samtakanna http://indefence.is/ og skrá sig á listann. Efnahagsleg framtíð þjóðarinnar er í húfi. Lífsgæðum okkar sem þjóðar er stefnt í voða. Höfnum nýjum Icesave samningi. Virðum lýðræðið í landinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.11.2009 | 14:52
Auglýst eftir raunverulegum úrræðum í stað sjónhverfinga
Heimilunum í landinu er ætlað að taka á sig óbætt alla hækkun á höfuðstóli lána sinna, þó öllum nema stjórnvöldum, örfáum aðilum innan fjármálafyrirtækjanna og einhverju Samfylkingarfólki sé ljóst, að það sé út í hött. Hinn gallharði stuðningur Árna Páls Árnasonar og hans fólks við fjármálafyrirtækin og afstaða þeirra gegn fólkinu í landinu er stór furðuleg í ljósi þess, að á fundi 16. september kynnti ráðherra fyrir fólki í svo kölluðum Ákallshópi, þ.e. fulltrúum Hagsmunasamtaka heimilanna, Búseta á Norðurlandi, Húseigendafélaginu (hafa síðan dregið sig út úr hópnum), Félagi fasteignasala, talsmanns neytenda og lögmönnum Laugardal, tillögur sem voru mun hagstæðari heimilum landsins. Þær tillögur fólu í sér að flytja öll fasteignalán til Íbúðalánasjóðs og meðhöndla þau þar með niðurfærslu höfuðstóls lánanna í huga. Þetta var greinilega áður en fjármálafyrirtækin fengu að tjá skoðun sína.
Heimilin í landinu vilja sjá úrræði sem duga. Úrræði sem virka strax og lækka greiðslubyrði til langframa. Úrræði sem létta frostinu á fasteignamarkaðnum. Úrræði sem viðurkenna að haft hafi verið rangt við. Úrræði sem taka á forsendubrestinum sem varð vegna fjárglæfra fjármálastofnana og eigenda þeirra. Það var brotist inn til okkar og við viljum að þýfinu sé skilað. Við viljum ekki sjónhverfingar heldur raunveruleg og varanleg úrræði.
Ráðherra telur úræðið gott | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
20.11.2009 | 11:32
Staðarval Landspítala - fortíðarrök fyrir framtíðarskipulag
Í Morgunblaðinu í gær, fimmtudaginn 19. nóvember, er grein eftir Jóhannes Gunnarsson, læknisfræðilegan verkefnisstjóra nýs Landspítala, og Ingólf Þórisson, framkvæmdastjóra eignasviðs Landspítala, um rök fyrir staðarvali nýbygginga Landspítala og um leið gagnrýni á þá sem hafa leyft sér að hafa aðra skoðun. Ég skrifaði grein um staðarval nýs Landspítala og birtist hún í Morgunblaðinu 3. mars 2005 (sjá Nýr Landspítali og heilsuþorp). Þar bendi ég á ýmsa kosti þess að byggja nýjan Landspítala ekki á fyrirhuguðum byggingarstað við Hringbraut. Vandamál mitt árið 2005 var að ég hafði ekki aðgang að rökum staðarvalsnefndar. Nú birta þeir félagar, að því virðist, helstu rökin fyrir valinu. Þau eru:
- Nábýli við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og þekkingarþorp í Vatnsmýrinni, einkum þó áform HÍ um uppbyggingu heilbrigðisvísindadeilda sinna á sömu lóð.
- Gott aðgengi ökutækja og sjúkraflugs, sem og aðrar góðar almenningssamgöngur.
- Of dýrt að byggja á Vífilsstöðum
Mér finnst ekkert þessara atriða halda vatni. Skoðum þau nánar ásamt frekari rökstuðningi þeirra félaga.
Nábýli við háskóla og þekkingarþorp
Rök þeirra félaga fyrir þessu eru:
Nábýlið við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og þekkingarþorp í Vatnsmýri er ein mikilvægasta ástæðan fyrir staðarvali nýs Landspítala, einkum þó áform HÍ um uppbyggingu heilbrigðisvísindadeilda sinna á sömu lóð. Það er jafnframt mikilvægt að hafa í huga að spítalinn er háskólasjúkrahús sem hefur lögum samkvæmt þríþætt hlutverk; þjónustu við sjúka, rannsóknir í heilbrigðisfræðum og kennslu.
Hátt á annað hundrað starfsmanna spítalans eru jafnframt starfsmenn Háskóla Íslands og hafa starfsskyldu á báðum stöðum. Þá eru á ári hverju um 1.100 stúdentar á ýmsum námsstigum við spítalann. Á Hringbrautarlóðinni eru aðstæður fyrir hendi sem gera það kleift að tengja Háskólann og Landspítalann sterkum böndum. Slík samþjöppun þekkingar er mikilvæg, bæði fyrir Háskólann og háskólaspítalann, og forsenda þess að halda staðli á heimsvísu fyrir báða aðila. Umhverfi Háskólans verður því ekki slitið frá spítalanum án stór skaða á faglegu starfi og rekstri beggja stofnananna.
Nábýlið við háskóla og þekkingarþorp er dapur fyrirsláttur, þar sem eftir er að byggja upp mest allt sem felst í þessu nábýli. Sé það ætlun Háskóla Íslands að byggja upp heilbrigðisvísindadeildir sínar á spítalasvæðinu, þá er skiptir engu máli hvar það svæði er. Uppbyggingin er ekki hafin. Það væri annað mál, ef til staðar væru stórar og miklar byggingar sem kostað hefðu offjár. Svo er ekki. Í Kaupmannhöfn þykir ekkert tiltökumál, að hinar ýmsu deildir Kaupmannahafnaháskóla séu dreifðar um höfuðborgarsvæðið. Hver segir að 101 Reykjavík sé slíkur nafli Íslands, að troða þurfi öllu þangað. Ef háskólakennslan er flutt samhliða spítalanum, hvort heldur upp að Keldum eða til Vífilsstaða, þá fást sömu samlegðar áhrif og af uppbyggingu við Hringbraut. Við skulum hafa í huga, að markmiðið er að samþætta háskólakennslu í heilbrigðisvísindum rekstri sjúkrahússins, ekki alla háskólakennslu. Þetta er hægt að gera, sama hver staðsetningin er. Nú þekkingarþorp er líka að rísa í Garðabæ og ég sé ekki að starfsemi í þekkingarþorpi í Vatnsmýrinni sé merkilegra en sams konar starfsemi í Garðabæ.
Gott aðgengi
Skoðum aftur fyrst rök þeirra félaga:
Önnur mikilvæg forsenda fyrir staðarvalinu við Hringbraut var að þar væri hægt að tryggja gott aðgengi ökutækja og sjúkraflugs, sem og góðar almenningssamgöngur.
Fjöldi starfsmanna í fullu starfi hjá Landspítala er um 4.500, fjöldi heimsókna á göngudeildir spítalans er um 2.400 að meðaltali hvern virkan dag og þá er ótalinn fjöldi heimsóknargesta. Fyrir allt þetta fólk er staðsetning spítalans mikilvæg, ekki síst með tilliti til almenningssamgangna.
Endurteknar úttektir umferðarsérfræðinga benda eindregið til þess að uppbygging við Hringbraut sé besti kosturinn. Þéttbýl hverfi borgarinnar liggja að lóð spítalans við
Hringbraut, fjórðungur starfsfólks er búsettur innan 14 mínútna göngufæris við spítalann og helmingur þess innan 14 mínútna hjólafæris. Sjö strætisvagnaleiðir liggja framhjá spítalalóðinni og hún er sá staður innan höfuðborgarsvæðisins sem er langbest tengdur almenningssamgöngum. Þá verður fyrirhuguð samgöngumiðstöð, sem þjóna á innanlandsflugi og fólksflutningabílum, byggð á næsta leiti við spítalann sem þjónar vel hagsmunum fólks utan af landi sem þarfnast þjónustu hans. Tenging spítalans við þéttbýlið við Faxaflóa verður jafnframt enn betri ef hlutverk samgöngumiðstöðvar verður eins og ætlað var í upphafi að þar verði miðstöð strætisvagna auk annars.
Rökin, sem hér eru sett fram, miða við að ekkert breytist. Höfum í huga, að nýr Landspítali á að þjóna landsmönnum um ókomna tíð, ekki bara meðan núverandi aðalskipulag er í gildi. Við höfum þegar séð, að samgöngur hafa breyst mikið frá því að val á staðsetningu var ákveðið, og þetta á eftir að breytast mikið á næstu árum. Umferðaþunginn inn á svæðið vestan Snorrabrautar/Bústaðavegar er þegar orðinn óbærilegur. Hægt er að tala um þjóðflutninga tvisvar á dag, þar sem allt of stórum hluta íbúa á höfuðborgarsvæðinu er beint um þrjár stofnæðar inn á þetta svæði að morgni og frá því að kvöldi. Með því að færa 4.500 störf af svæðinu (líklega verða þau fleiri), 2.500 daglega gesti, fjölmarga heimsóknargesti og 1.100 stúdenta, þá dregur verulega úr umferð og þörf fyrir uppbyggingu umferðamannvirkja. Vissulega snýst þetta að einhverju leiti við, þ.e. fólk færi í austur/suður að morgni og vestur/norður að kvöldi, en ekki í nærri eins miklu mæli.
Að ætla að nota leiðarkerfi almenningssamgangna, sem rök fyrir valinu, er heldur aumt. Fátt er auðveldara í breytingum, en það leiðarkerfi. Kerfinu er breytt á nokkurra ára fresti, ef ekki árlega, til að mæta breyttum þörfum. Auk þess er betra að hafa einn vagn, sem gengur á 10 mínútnafresti inn á sjúkrahússvæðið, en að hafa 7 leiðir sem hver um sig gengur á 30 mínútna fresti framhjá. Slíkur vagn gæti farið frá einni eða tveimur tengistöðvum, t.d. samgöngumiðstöð sem staðsett væri mun austar á Reykjavíkursvæðinu (sjá nánar síðar).
Vissulega býr margt starfsfólk sjúkrahússins í nálægð við hann, en það er ástandið í dag. Hvernig verður það eftir 10 ár, 20 eða 30? Þetta er fortíðarhyggja og ekkert annað. Fortíðarrök eiga ekki að trufla framtíðarskipulag. Vilji menn skoða líklega þróun, þá er rétt að athuga búsetu starfsmanna undir fertugu eða hvar ungt fólk finnur sér helst húsnæði. Kannski er myndin sú sama, en ég einhvern veginn efast um það.
Þá er það samgöngumiðstöðin og nándin við Reykjavíkurflugvöll. Fyrirhuguð staðsetning samgöngumiðstöðvar hefur verið gagnrýnd. Fáránlegt sé að beina allri umferðinni lengst niður í bæ. Betra sé að staðsetja hana nær útjaðri byggðar og hafa síðan góðar almenningssamgöngur til og frá miðstöðinni. Í öllum helstu borgum í nágrenni okkar er þróunin sú að beina umferð sem mest frá hinum hefðbundna miðbæ. Miðborg Reykjavíkur er austur undir Elliðaá. Samgöngumiðstöð ætti að vera þar. Svæðið efst við Ártúnsbrekku (norðan megin) væri tilvalið. Þar er starfsemi, sem eðlilegt er að flytja út að eða út fyrir borgarmörkin. Varðandi sjúkraflugið, þá hefur verið bent á, að fleiri sjúklingar koma utan af landi með sjúkrabílum, en sjúkraflugi. Vegur það ekkert í þessu? Síðan er alveg óljóst með framtíð innanlandsflug, þ.e. staðsetningu flugvallar á SV-horninu. Verið er að skoða ýmsa kosti og vel getur verið að það verði flutt. Nú komi Hlíðarfótur og göng undir Kópavogsháls, þá er beinn og breiður vegur frá núverandi flugvelli til Vífilsstaða. Tenging Arnarnesvegar við Breiðholtsbraut bætir auk þess tengingu inn á það svæði.
Með flutningi Landspítalans út fyrir 101 Reykjavík væri hægt að spara mjög mikið í dýrum umferðarmannvirkjum eða a.m.k. verður þörfin fyrir þau ekki eins brýn. Verði Landspítalinn byggður upp á núverandi stað, þá má ekkert bíða með þessar framkvæmdir, en fari hann annað þá má hugsanlega fresta þeim um áratug eða jafnvel lengur.
Vífilsstaðir
Skoðum fyrst rök Ingólfs og Jóhannesar:
Vífilsstaðir eru um margt ákjósanlegt byggingarland. Meginmarkmið með nýbyggingu er hins vegar að sameina starfsemi spítalans á einn stað. Af því leiddi að byggja þyrfti allan spítalann frá grunni á Vífilsstöðum áður en hann gæti sinnt sínu hlutverki og ekkert væri hægt að nýta af eldra húsnæði. Það yrði miklu dýrara en sú lausn sem nú er unnið eftir. Vegtengingar við Vífilsstaði eru heldur ekki góðar að mati umferðarsérfræðinga og ekki áformaðar miklar breytingar þar á samkvæmt skipulagi. Þá má ætla, samkvæmt búsetukönnun meðal starfsfólks spítalans að ferðalög starfsfólks til og frá vinnustað myndu lengjast verulega, borið saman við Hringbrautarstaðsetninguna.
Að halda því fram, að dýrar sé að byggja á Vífilsstöðum, en annars staðar, er út í hött. Þessu er einmitt öfugt farið. Það er ódýrara að byggja á svæði, þar sem ekki þarf að laga framkvæmdir að aðstæðum á sjúkrahússvæði. Halda menn, að hægt sé að gera bara hvað sem er hvenær sem er, ef byggt verður við Hringbraut? Það er af og frá. Sæta verður lagi með ýmsar framkvæmdir líkt og var við byggingu Barnaspítala Hringsins. Þeir sem þekkja til þeirra framkvæmda vita um allt stappið og þrefið sem þar átti sér stað. Endalausar grenndarkynningar og flókið skipulagsferli vegna nábýlis við þá starfsemi sem er á svæðinu.
Vissulega er rétt, að hægt væri að taka starfsemina smátt og smátt í notkun, ef byggt er við Hringbraut. En það er bara tímabundið ástand. Í nokkur ár yrði starfsemin á tveimur stöðum, þ.e. að Vífilsstöðum og við Hringbraut. Er það einhver breyting. Hún er núna á fjórum stöðum, ef ekki átta. Með því að byggja fyrst yfir starfsemi, sem er utan Hringbrautarsvæðisins, þá væri verið að fækka starfsstöðvum. Síðan væri byggt í skrefum yfir starfsemi, sem núna er verið Hringbraut. Ég vil minna á, að spítalanum er ætlað að þjóna þjóðinni um ókomin ár. Að bera fyrir sig tímabundið óhagræði, sem er minna en það er við lýði, er lélegur fyrirsláttur.
Vegtengingar við Vífilsstaði hafa batnað frá því 2005. Ég mæli með því að Jóhannes og Ingólfur fari í bíltúr þangað. Þar eru nú mislæg gatnamót. Varðandi önnur umferðamannvirki, þá er ég viss um, að taki menn ákvörðun um að byggja upp á Vífilsstöðum, þá verður farið í endurskipulagningu umferðamannvirkja. Nú þeir félagar gleyma greinilega Arnarnesveginum, en lítið mál er að leggja legg frá honum við Salaskóla í Kópavogi sem færi milli Rjúpnahæðar og Hnoðraholts beint niður að Vífilsstöðum.
Ég hef nefnt þetta með búsetu starfsfólks. Búseta breytist og innan 10 ára verður hlutfall þeirra sem býr nálægt Hringbraut orðið mun lægra en það er núna. Auk þess er húsnæði í 101 og 105 Reykjavík mjög dýrt og það gæti verið hagkvæmt fyrir fólk að flytja sig um set án þess að ég ætli að mælast til þess.
Heilsuþorp
Stærsti kosturinn við Vífilsstaðasvæðið er nágrennið við náttúruna. Slíkt bíður upp á tækifæri til að reisa heilsuþorp sem tengist starfsemi spítalans. Þarna er Vífilsstaðavatn og Heiðmörk, þrír golfvellir og mikið útivistarsvæði. Það er fráleitt, að huga ekki að þessu líka.
Ákvörðunum má breyta
Þeir Ingólfur og Jóhannes árétta í lok greinar sinnar, "að ákvörðun um uppbyggingu Landspítala við Hringbraut var vel ígrunduð á sínum tíma og forsendur hennar hafa ekki breyst." Ég vil bara segja, að séu ofangreind þrjú atriði sterkustu rökin fyrir staðarvalinu, þá telst þetta vart "ígrunduð" ákvörðun. Ég held að helstu rökin (og það las ég einhvers staðar), að nýleg uppbygging á Hringbrautarsvæðinu færi í súginn, t.d. Barnaspítali Hringsins. Það þarf alls ekki að gerast. Vissulega myndi nýting húsnæðisins breytast og þannig glatast eitthvað fé, en ég er sannfærður um að meira fé eigi eftir að glatast verði því haldið til streitu að byggja Nýja Landspítala upp við Hringbraut.
Byggingarnar sem losna við Hringbraut má nýta á margan hátt. Ein hugmynd væri að færa Stjórnarráðið þangað. Nú eru flest ráðuneyti í mjög þröngu húsnæði eða dreifð um allan bæ. Annað er að skipuleggja íbúðabyggð á hluta svæðisins. Það mætti örugglega selja það fyrir háar upphæðir. Öldrunarþjónustu mætti líka byggja upp þar, en það er mikil þörf fyrir aukið hjúkrunarrými fyrir aldraða. Það má síðan ekki gleyma því, að margt húsnæðið á Hringbrautarsvæðinu er úr sér gengið og það á hreinlega að jafna við jörðu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.11.2009 | 20:31
Greiðslujöfnun ekki fyrir alla
Áttu að þiggja greiðslujöfnun? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.11.2009 | 14:38
Greiðslujöfnun: Mikil misskilningur í fyrirsögn fréttaskýringar
Önundur Páll Ragnarsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, ritar fréttaskýringu um greiðslujöfnunina. Hún er merkileg að því leita, að leitað er til Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna, sem fjármálafyrirtæki fjármagna, og síðan til fjármálafyrirtækja. Svörin sem blaðamaður birtir eru því eftir því.
Samkvæmt upplýsingum frá Svanhildi Guðmundsdóttur, sviðsstjóra þjónustusviðs ÍLS, mun fólk fá greiðsludreifingu á þeirri upphæð, sem safnast hefur á biðreikningi greiðslujafnaðra lána, kjósi það að hætta í greiðslujöfnuninni. Tekið skal fram að þetta er ekki í samræmi við bókstaf laganna. Þannig að þó ÍLS bjóði þennan möguleika, þá er ekki víst að aðrar lánastofnanir geri það.
Ásta Sigrún Helgadóttir, forstöðumaður Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, segir að ekki sé hægt að kvarta yfir upplýsingagjöf bankanna. "Hún sé yfirleitt góð." Ég vil leiðrétta þetta. Upplýsingagjöf bankanna er mikil, en hún er einhliða. Hún er alls ekki góð. Ég er búinn að fá bréf frá ÍLS, Íslandsbanka, Landsbanka og Kaupþingi. Ekkert bréfa þeirra gefur tölulegar upplýsingar út frá gefnum forsendum um heildargreiðslubyrði, greiðsluþróun, mismun á vaxtagreiðslu leiðanna tveggja, þróun höfuðstóls leiðanna tveggja, hvort lenging sé líkleg og hvort afskrift sé líklega í lok lánstímans. Sett er ein setning í flest bréf, þar sem segir: "Til lengri tíma litið getur greiðslujöfnun þó leitt til aukins kostnaðar í formi vaxta og verðbóta."
Skoðum þessa dæmalausu setningu:
Til lengri tíma litið getur greiðslujöfnun þó leitt til aukins kostnaðar í formi vaxta og verðbóta.
Staðreynd málsins er að greiðslujöfnun leiðir nær alltaf til aukins kostnaðar í formi vaxta og verðbóta. Ekki kannski eða hugsanlega. Það gerist NÆR ALLTAF. Ástæðan er einföld. Greiði lántaki höfuðstól lánsins hægar niður, þá eru vextir hærri (reiknast af hærri upphæð) og verðbætur meiri (leggjast einnig á upphæð sem fer á biðreikning). Undantekning er, ef efnahagsástandið verður afleitt, þannig að það verði ENGIN kaupmáttaraukning og atvinnustig helst lágt allan lánstímann, þá dugir greiðslan ekki fyrir öllum vöxtunum/verðbótum og þeir afskrifast í lokin. Þessi möguleiki er ákaflega ólíklegur og vaxtagreiðslan verður líklegast alltaf hærri.
Ég hef reiknað út nokkur dæmi sem ég vil birta hér:
1. 20 ára verðtryggt lán upphaflega að upphæð 10. m.kr. er greiðslujafnað 5 ár inn í lánstímann, þ.e. 15 ár eru eftir. Gert er ráð fyrir 4% verðbólgu að jafnaði og að greiðslujöfnunarvísitala hækki að jafnaði um 4,5% á ári. Þ.e. hófleg kaupmáttaraukning.
Verðtryggt lán Greiðslujafnað lán Afborgun m/verðbótum 16.3m.kr. 16,5 m.kr. Vextir 8,0 m.kr. 10,2 m.kr. Heildargreiðsla 24,3 m.kr. 26,7 m.kr. Afskrift 1,7 m.kr. Lenging lánstíma 3 ár
Takið eftir að heildargreiðslan er 10% hærri þó það sé afskrift og afborgun höfuðstóls er hærri líka.
2. Allt það sama og í dæmi 1 nema að greiðslujöfnunarvísitalan hækkar um 6% á ári, þ.e. góð kaupmáttaraukning.
Verðtryggt lán Greiðslujafnað lán Afborgun m/verðbótum 16.3m.kr. 17,2 m.kr. Vextir 8,0 m.kr. 9,0 m.kr. Heildargreiðsla 24,3 m.kr. 26,1 m.kr. Afskrift 0 m.kr. Lenging lánstíma 13 mánuðir
Örlítið lægri heildargreiðsla, en samt 7,4% hærri.
3. 40 ára verðtryggt lán upphaflega að upphæð 10. m.kr. er greiðslujafnað 5 ár inn í lánstímann, þ.e. 35 ár eru eftir. Gert er ráð fyrir 4% verðbólgu að jafnaði og að greiðslujöfnunarvísitala hækki að jafnaði um 4,5% á ári. Þ.e. hófleg kaupmáttaraukning.
Verðtryggt lán Greiðslujafnað lán Afborgun m/verðbótum 31,0m.kr. 15,8 m.kr. Vextir 26,4 m.kr. 46,4 m.kr. Heildargreiðsla 57,4 m.kr. 62,5 m.kr. Afskrift 31,2 m.kr. Lenging lánstíma 3 ár
Takið eftir að heildargreiðslan er 8,9% hærri þó afskrift munar þar mest um 20 m.kr. mun á vöxtum.
4. Allt það sama og í dæmi 3 nema að greiðslujöfnunarvísitalan hækkar um 6% á ári, þ.e. góð kaupmáttaraukning.
Verðtryggt lán Greiðslujafnað lán Afborgun m/verðbótum 31,0m.kr. 31,8 m.kr. Vextir 26,4 m.kr. 27,5 m.kr. Heildargreiðsla 57,4 m.kr. 59,3 m.kr. Afskrift 0 m.kr. Lenging lánstíma Engin
Hér er biðreikningurinn greiddur upp á lánstímanum og því svissað aftur yfir í að greiða í samræmi við upphaflegan lánssamning. Heildargreiðsla er um þremur milljónum lægri en í fyrra dæmi, en samt 3,3% hærri. Ath. að lögin um greiðslujöfnun gera ráð fyrir að greiðslujöfnun hætti um leið og biðreikningur hefur verið greiddur upp.
5. 20 ára gengistryggt lán upphaflega að upphæð 10. m.kr., stendur núna í 20,7 m.kr. Er greiðslujafnað 2 ár inn í lánstímann, þ.e. 18 ár eru eftir. Gert er ráð fyrir að gengið standi í stað, þ.e. haldist að jafnaði óbreytt allan lánstímann, og að greiðslujöfnunarvísitala hækki að jafnaði um 4,5% á ári. Þ.e. hófleg kaupmáttaraukning. Þá er gert ráð fyrir að meðalvextir með vaxtaálagi lánveitanda verði 5,7% samanborið við að 2. maí 2008 (sem er viðmiðunardagsetning) voru þeir 4,7%.
Verðtryggt lán Greiðslujafnað lán Afborgun m/verðbótum 20,7 m.kr. 11,2 m.kr. Vextir 10,5 m.kr. 28,4 m.kr. Heildargreiðsla 31,2 m.kr. 39,6 m.kr. Afskrift 21,2 m.kr. Lenging lánstíma 3 ár
Takið eftir að heildargreiðslan er um 27% hærri þó það sé afskrift upp á 21,2 m.kr.
6. Allt það sama og í dæmi 5 nema að gengið veikist um 1,5% á ári.
Verðtryggt lán Greiðslujafnað lán Afborgun m/verðbótum 23,7 m.kr. 3,5 m.kr. Vextir 11,5 m.kr. 36,2 m.kr. Heildargreiðsla 35,3 m.kr. 39,6 m.kr. Afskrift 38,3 m.kr. Lenging lánstíma 3 ár
Hér breytist heildargreiðslan ekkert, afborgunin er mjög lítil hluti greiðslunnar, en vextirnir eru hærri en heildargreiðslan án greiðslujöfnunar.
Öll þess dæmi sýna, að vextirnir hækka verulega, ef lán eru sett í greiðslujöfnun. Það er skiljanlegt. Spurningarnar sem þarf að svara eru:
1) Er einhver munur á því fyrir lántakann að borga bankanum háa vexti og lága afborgun eða að greiða lága vexti og háa afborgun?
2) Skiptir það máli fyrir lánveitanda hvort hann fær í 39 m.kr. greiðslu 2/3 sem vexti og 1/3 sem afborgun eða 1/3 sem vexti og 2/3 sem afborgun?
Svo ég svari spurningu 1) fyrst. Já, það skiptir öllu máli. Sé upphæð afborgunarinnar lág samanborið við heildargreiðsluna, þá gengur hægar á höfuðstól lánsins. Þar með verður eignamyndun hægari og þar með myndast nýtt veðrými hægar. Lántakinn verður bundinn lengur á skuldaklafann og því óvirkari í fjárfestingum og viðskiptum, en sá sem greiðir hraðar niður af láninu sínu. Það er þjóðhagslega hagkvæmt að lántakar geti greitt hraðar niður lánin sín.
Svar við spurningu 2): Þessi spurning er erfiðari. Upphæð vaxta birtist á rekstrarreikningi lánveitenda. Mikil innkoma vaxta eykur því tekjur og líkurnar á góðri afkomu. Staða höfuðstóls birtist aftur á efnahagsreikningi bankans, en hér skýtur skökku við. Þess hærri sem höfuðstóll greiðslujafnaðs láns verður aukast líkurnar á afskrift og því verður að færa varúðarniðurfærslu allan lánstímann. Sú varúðarniðurfærsla kemur fram í rekstrarreikningnum og lækkar því hagnað. Svo má velta fyrir sér hvort þróun fasteignaverðs hafi afgerandi áhrif og þá hver þau áhrif eru.
Niðurstaðan í þessu öll er þó, að mestar líkur eru á því að allir lántakar borgi upp í topp hvort sem þeir greiða upp lánið eða ekki. Bankinn mun fá sitt, það er sko alveg öruggt.
Þúsundir lántakenda vilja borga upp í topp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.11.2009 | 21:01
Andfjölskylduvæn skattlagning
Ég tek það fram, að ég er á engan hátt að leggjast gegn því að stóreignafólk borgi eignaskatt, en vil vekja athygli á því að enn einu sinni ætla stjórnvöld að ráðast að kjarnafjölskyldunni sem einingu. Þetta er ítrekað gert í skattkerfinu og bótakerfinu. Ég hélt að kjarnafjölskyldan væri sú grunneining samfélagsins sem við viljum efla. En svo koma svona hugmyndir. Einstaklingur má eiga 90 m.kr. en hjón 120 m.kr. Hjónin mega sem sagt hvort um sig aðeins eiga sem nemur 66,6% af því sem einstaklingurinn á, án þess að greiða skatt af því.
Upphæðirnar skipta ekki máli hér, heldur prinsippið að hjónum/sambúðarfólki sé mismunað í samanburði við einstaklinginn. Þetta er gert í barnabótakerfinu. Þetta er gert í vaxtabótakerfinu. Þetta er gert í lífeyriskerfinu. Af hverju er verið að refsa fólki fyrir að búa saman?
Ég veit svo sem ekki hver þessi skattur á að vera og því veit ég ekki hver upphæðin er sem hjón borga umfram tvo einstaklinga. Enda skiptir það ekki megin máli. Hjón eiga einfaldlega að vera jafn sett gagnvart lögum og tveir einstaklingar, þegar kemur að tekju- og eignamörkum. Allt annað er óréttlát mismunun. Höfum í huga, að það eru mun meiri líkur á því að hjón séu með börn og hafa því bæði meiri þörf fyrir hærri tekjur og stærra húsnæði.
Skattur á stóreignafólk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
15.11.2009 | 23:57
Aðför í boði Alþingis og félagsmálaráðherra heldur áfram
23. október voru samþykkt frá Alþingi lög nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishruns. Lögin skiptast í snögga eignaupptöku eða hægfara. Það er sama hvor leiðin er farin, markmiðið er að tryggja fjármálafyrirtækjum eins mikla endurgreiðslu og hægt er og oftast fá þau meira, ef fólk fellur fyrir freistingum greiðslujöfnunar eða skuldaaðlögunar.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa reynt að vekja athygli á þessu. Ingólfur Ingólfsson í Spara hefur reynt að vekja athygli á þessu. Íbúðalánasjóður hefur reynt að vekja athygli á þessu. En hvað gerist? Fjármálafyrirtæki hella milljónum á milljónir ofan til að kynna lántökum úrræði sem gera ekkert annað en að tryggja, að lánastofnanirnar fái meira greitt til baka, en ef ekki gengið í gildru þeirra. Svona í anda þess að Þjóðfundurinn taldi að HEIÐARLEIKI væri mikilvægast alls, þá finnst mér að lánastofnanir eigi að kynna fólki allt sem skiptir máli.
Ég hef reiknað út nokkur dæmi í greiðslujöfnuninni, bæði vegna verðtryggðra lána og gengistryggðra lána. Ég hef skoðað ýmsa möguleika í þróun verðlags, launa, gengis og vaxta og allt kemur fyrir ekki. Í hverju einasta dæmi fær lánastofnunin meira greitt frá lántakanum, þegar valin er leið greiðslujöfnunar, en ef haldið er áfram að greiða samkvæmt upprunalega lánssamningnum. Vissulega fær lántakinn í einhverjum tilfellum afskrift í lok lánstímans, en heildargreiðslan verður ALLTAF hærri. Galdurinn felst í vöxtunum. Það sem hugsanlega er gefið eftir í lok lánstímans, næst til baka og gott betur í vaxtagreiðslunni.
Sértæka skuldaaðlögunin er svo annað mál. Hana ber að forðast eins kostur er. Hlaupa eins hratt frá henni og fætur geta frekast borið mann. Ég veit ekki hvort þingmenn átti sig á þeim óskapnaði sem þeir voru að samþykkja. Jæja, kannski voru þeir ekki að samþykkja þann óskapnað sem fellst í samkomulagi fjármálafyrirtækja um verklagsreglur um sértæka skuldaaðlögun, en ég skora á þingmenn að lesa reglurnar. Hagsmunasamtök heimilanna sendu þeim, fjölmiðlum og fjármálafyrirtækjum umsögn samtakanna um samkomulagið fyrir helgi. Ekki einn einasti fjölmiðill tók við sér. Ekki einn. Mig langar að vitna í samantekt um samkomulagið:
Það er álit Hagsmunasamtaka heimilanna, að í samkomulaginu felist ákvæði um stórkostlega upptöku á eignum heimila landsins, en það mun hægja á hraða endurreisnar íslensks efnahagslífs og vinna gegn markmiðum laga nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishruns, sem samkomulagið sækir lagastoð í.
Hagsmunasamtök heimilanna fagna hugmynd um aukið svigrúm fjármálafyrirtækja til að mæta breytingum á högum viðskiptavina sinna, en hafna alfarið því samkomulagi sem fjármálafyrirtæki hafa gert um verklagsreglur vegna sértækrar skuldaaðlögunar. Fyrir utan, að samkomulagið brýtur í nokkrum atriðum gegn lögum nr. 107/2009, sem eru þó lagagrunnur samkomulagsins. Verklagsreglurnar eru greinilega samdar með það að markmiði, að tryggja fjármálafyrirtækjum hámarks endurheimtur óréttlátra krafna. Krafna, sem hvorki eru byggðar á lagalegum né siðferðislegum grunni. Krafna, sem blásnar voru út með markaðsmisnotkun, brellubrögðum og fleiri, að því virðist, óheiðarlegum viðskiptaháttum, sem höfðu það eitt að markmiði, að auka virði krafnanna í bókum fjármálafyrirtækjanna svo uppgjör þeirra litu betur út.
Verklagsreglur samkomulagsins munu dýpka kreppuna og þar með hægja á endurreisninni. Reglurnar munu, að mati Hagsmunasamtaka heimilanna, verka sem hlekkir á samfélagið í stað þess að koma hjólum þeirra aftur af stað. Það er í hæsta máta einkennilegt, að fulltrúar neytenda skuli ekki hafa haft neina aðkomu að gerð samkomulagsins. Samkomulagið er enn eitt dæmið um skjaldborg um fjármálafyrirtækin, en ekki heimilin.
Já, haldi einhver, að fjármálafyrirtækjum detti eitthvað jákvætt í hug fyrir heimilin, viðskiptavini sína, þá er endanlega búið að afsanna það. En ég vil vitna frekar í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna en hana er að finna á heimasíðu samtakanna, sjá Greinargerð um sértæka skuldaaðlögun.
- Samkomulagið brýtur í nokkrum atriðum gegn lögum nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishruns. Grófasta brotið er líklegast það að miða við framfærslutölu Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna við mat á framfærslukostnaði þeirra fjölskyldna sem kjósa/neyðast til að fara í gegn um sértæka skuldaaðlögun. Samkvæmt 2. gr. laganna segir að taka skuli tillit til eðlilegrar framfærslu, en viðmið Ráðgjafastofunnar á ekkert skylt við eðlilega framfærslu. Nær væri að tala um naumhyggju- eða neyðarframfærslu. Ekki einu sinni námsmönnum er ætluð sú smánarlega framfærsla sem Ráðgjafastofan gerir ráð fyrir.
- Verklagsreglurnar munu að mati samtakanna hægja á hraða endurreisnar íslensks efnahagslífs og vinna þær því gegn markmiðum laganna.
- Mjög víða í reglunum vantar skýrleika og hvergi er gerð minnsta tilraun til að leysa úr ágreiningi um réttmæti krafna kröfueigenda. Hlutlægni vantar einnig mjög víða í skjalinu. Er þetta þrennt í andstöðu við 2. gr. laganna töluliði 5 og 6.
- Samtökin gagnrýna, að hvergi í skjalinu er gerð minnsta tilraun til að draga úr áhrifum fjárglæfra tiltekinna fjármálastofnana sem unnu spellvirki á íslensku samfélagi, m.a. undir verndarvæng og með dyggum stuðningi Samtaka fjármálafyrirtækja. Í 4. gr. er talað um óuppgerðar skuldir einstaklinga, eins og það sé sjálfsagður hlutur að fjármálafyrirtæki geti lagt fjárhag fólks í rúst og síðan ætlast til að lántakar gangist við skuldum sem af því hlaust.
- Verði heimilum, sem fara í sértæka skuldaaðlögun, skömmtuð sú framfærsla, sem getið er í 7. gr. samkomulagsins, þá mun það sjálfkrafa valda að minnsta kosti 10% samdrætti í neyslu heimilanna, en líklegast verður sá samdráttur mun meiri. Það mun hafa afdrifarík áhrif á þjóðfélagið í heild.
- Ákvæði 10. gr. um 110% greiðslugetu, þ.e. greiðslugeta skuli miða við 110% af verðmæti eigna, sem lántaki heldur, mun sjálfkrafa koma í veg fyrir að stærstur hluti heimila geti nýtt sér þetta úrræði. Það brýtur gegn öllum viðmiðum um hlutfall greiðslulána af ráðstöfunartekjum. 110% greiðslubyrði af 50 m.kr. eign nemur um 330 þús.kr. á mánuði miðað við að greiða þurfi 6.000 kr. á mánuði af hverri milljón. Verður leitun af þeim sem munu geta staðið undir kröfum samkomulagsins um greiðslugetu.
- Þar sem fólk mun ekki standa undir greiðslubyrðinni, verður það tilneytt að selja eignir sínar og minnka við sig. Það mun valda hruni á verði dýrari eigna og umtalsvert auknum afskriftum lánveitenda. Er það í samræmi við spá Seðlabanka Íslands um mikla raunlækkun húsnæðisverðs. Samtökin sjá það fyrir sér, að verð sérbýlis mun nálgast mjög mikið verð eigna í fjölbýli og endurskapa því það ástand sem var á fasteignamarkaði fyrstu ár þessarar aldar.
- Samkomulagið virðist leggja það í hendur kröfuhafa hvort kröfur þeirra falla undir sértæka skuldaaðlögun eða ekki. Ekki er ljóst hvort kröfur utan skuldaaðlögunarinnar teljist til skulda sem falla niður að aðlögunartíma liðnum. Auðvelt virðist, að mati samtakanna, vera fyrir kröfuhafa, að skuldbreyta lánum og þannig smygla þeim með lágri greiðslubyrði inn í skuldaaðlögunina, þó svo að framtíðargreiðslubyrði verði líklegast langt umfram greiðslubyrði á aðlögunartímanum.
Í samkomulagið vantar að mati Hagsmunasamtaka heimilanna að tekið sé á fjölmörgum atriðum. Vilja samtökin vekja athygli á eftirfarandi:
- Ítrekað eru vafaatriði leyst með hagsmuni kröfuhafa í huga. T.d. er hægt að efast um verðmæti eigna, en ekki er gefinn kostur á að efast um réttmæti krafna.
- Hvergi er í samkomulaginu lýst meðferð lausafjár né að tekið sé á sparnaði á einu formi eða öðru.
- Staða einstaklinga með sjálfstæðan atvinnurekstur í eigin nafni hangir í lausu lofti.
- Sneitt er gjörsamlega framhjá viðurkenningu á hugsanlega betri rétti neytenda.
Loks vil ég nefna, að fulltrúar félagsmálaráðuneytisins hafa ítrekað farið með rangt mál i fjölmiðlum upp á síðkastið, þegar talað er um að ekkert svigrúm sé til höfuðstólslækkana vegna varúðarniðurfærslu sem gera á þegar lánasöfn eru flutt frá gömlu bönkunum til þeirra nýju. Haft hefur verið eftir þeim, að lánasöfnin hafi verið metin lán fyrir lán og eingöngu það fært niður, sem er sannanlega tapað. Þetta er rangt. Í tilfelli verðtryggðra lána, þá voru þau færð niður um 20% á línuna og gengistryggð um 50% á línuna. Síðan var farið í að meta hvað var líklegast tapað eftir að þessi varúðarfærsla hafði verið framkvæmd. 20% niðurfærsla verðtryggðra lána og 50% niðurfærsla gengistryggðra lána nemur nefnilega að jafnaði 25% niðurfærslu, en hvorki 35% né 44%. Ég segi að jafnaði, þar sem samsetning lánanna er misjöfn eftir bönkum. Til þess að niðurfærslan hefði náð 35%, þá þarf hlutfall verðtryggðra lána að vera 50% á móti gengistryggðum lánum. Ekkert bendir til þess að staðan hafi verið sú, en vissulega urðu 40% af húsnæðislánum Kaupþings og Glitnis eftir í gömlu bönkunum, þannig að ekkert er útilokað. Það breytir samt ekki þeirri staðreynd, að bankarnir framkvæmdu flata niðurfærslu á lánin. Þess vegna eiga viðskiptavinir þeirra rétt á sömu flötu niðurfærslunni. Vilji bankarnir halda einhverju öðru fram um yfirfærslu lánanna, þá skora ég á þá að leggja spilin á borðið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.11.2009 | 17:01
Afritun kortaupplýsinga getur átt sér stað hvar sem er og hvenær sem er
Í frétt mbl.is er nefnt að korthafi hafi ekki notað kort sitt í Bandaríkjunum í yfir eitt ár. Hvers vegna verið er að tengja misnotkunina við notkun í Bandaríkjunum er mér hulin ráðgáta og hreinlega hættulegt. Það er nákvæmlega ekkert sem segir, að afritun kortaupplýsinganna hafi ekki átt sér stað hér á landi eða einhverju Evrópulandi. Að misnotkunin eigi sér stað í Bandaríkjunum bendir eingöngu til þess, að sá sem keypti kortaupplýsingarnar til að útbúa nýtt kort, er staðsettur í Bandaríkjunum þegar misnotkunin á sér stað. Hið falsaða kort gæti alveg eins hafa verið búið til í Hong Kong eða Ástralíu og falsarinn síðan ferðast til Bandaríkjanna eða selt einhverjum falsaða kortið og sá notað kortið í Bandaríkjunum.
Það er stórhættulegt að draga þá ályktun að svikin séu bundin við Bandaríkin. Vissulega hafa mörg stór mál komið upp þar nýlega, en kortasvik eiga sér stað um allan heim. Þetta er vaxandi vandamál og jafnvel bestu öryggiskerfi munu ekki koma í veg fyrir slíkt. Besta vörnin er að fólk sé meðvitað um vandann og loki fyrir heimildir sem það er ekki að nota. Svo verður hver og einn að meta hvort það sé umstangsins virði.
Höfundur er upplýsingaöryggisráðgjafi og hefur unnið að ráðgjöf fyrir Valitor (áður Greiðslumiðlun) undanfarin 6 ár.
Bylgja kortasvika | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 37
- Sl. sólarhring: 66
- Sl. viku: 345
- Frá upphafi: 1680483
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 40
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði