Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008
30.6.2008 | 16:07
Hver veldur slysi, "lestarstjórinn" eða sá sem fer fram úr? - Hugleiðing um orsök og afleiðingu
Ástæðan fyrir því að ég spyr þessarar spurningar er ályktun sem höfundar greinargerðar Samtaka atvinnulífsins um þróun húsnæðismarkaðar 2003 - 2008 komast að. Telja höfundar greinargerðarinnar að stefnumörkun stjórnvalda sumarið 2003 og upptaka 90% lána Íbúðalánasjóðs (ÍLS) sumarið 2004 hafi hrundið af stað atburðarrás sem leiddi til þess vanda sem nú er við að glíma. Það má alveg taka undir að ákveðin atburðarráð fór í gang, en ég get ekki séð að ábyrgðin á þeirri atburðarrás liggi í ákvörðun um hækkun lánshlutfalla ÍLS. Hallur Magnússon hefur ítrekað bent á það, að með breytingunni hjá ÍLS, þá hafi þeim í reynd fækkað sem fengu 90% lán, en ekki fjölgað. Breytingin hjá ÍLS leiddi því líklegast ekki til hærra íbúðaverðs svo neinu nemur. Málið er að við getum hvorki sannreynt þetta né hrakið, þar sem bankarnir komu með sitt útspil um mánaðarmótin ágúst/september. Útspil bankanna er vel þekkt. Allir komu þeir fram með nokkurra daga millibili og buðu fyrst 90% lán og síðan 100% lán.
Líkja má þessu ástandi sem skapaðist við umferð bíla á einbreiðum þjóðvegi. Allir eru þeir að stefna á sama stað og aka á jöfnum 70 km hraða. Sá fremsti ekur nægilega greitt til þess að hinir telja sig geta bara fylgt á eftir. Allt í einu eykur sá fremst hraðann upp í 90. Þeir sem á eftir koma ákveða þá að auka hraðann líka, en finnst ekki nóg að draga þann fremsta uppi heldur ákveða að taka fram úr, þar sem þeir vilja keyra á 100 km/klst. Hraði þeirra veldur usla í umferðinni og endar með slysi. Nú spyr ég, hver olli slysinu sá sem jók hraðann í 90 eða hinir sem tóku fram úr og óku á 100? Frá mínum bæjardyrum séð, þá eru það þeir sem óku á meiri hraða en þeir réðu við sem eru valdir af slysinu. Það getur vel verið, að ef hinir hefðu haldið sig við 90, þá hefði ekkert slys orðið. Það getur líka vel verið að það hefði orðið slys. Málið er að við vitum það ekki, þar sem aldrei náði að reyna á það. Síðan má spyrja sig hvort einhver annar beri ábyrgð á slysinu, t.d. yfirvöld sem hafa samþykkt að 100 km hraði sé í lagi, þó hámarkshraði sé 90.
Samtök atvinnulífsins vilja kenna ÍLS um hækkandi fasteignaverð og síðan það ástand sem er í dag. Það er náttúrulega fráleitt að kenna ÍLS um þetta, þar sem í fyrsta lagi eru allar stefnumótandi ákvarðanir varðandi ÍLS teknar af félagsmálaráðherra, en ekki stjórn ÍLS. ÍLS er því stjórntæki yfirvalda en ekki sjálfstæður hagstjórnaraðili. Í annan stað, þá er ómögulegt að greina á milli áhrifa af völdu ákvörðunar ÍLS og þeirra ákvörðunar bankanna að vinna sér stærri hlut á húsnæðislánamarkaði. Auk þess eru bankarnir sjálfstæðir í sinni ákvörðunartöku. Það neyddi þá enginn til að breyta lánskjörum sínum. Satt best að segja finnst mér sem Samtök atvinnulífsins séu að gera lítið úr því fólki sem kemur að stefnumótun innan bankanna með því að segja að ÍLS taki ákvarðanir fyrir það. ÍLS hvorki þvingaði bankanna eða neyddi þá til aðgerða og ekki var neytt sem benti til þess að hlutdeild þeirra í húsnæðismarkaðinum væri að skerðast að það kallaði á 80, 90 eða 100% lán. Viðbrögð þeirra voru því fyrst og fremst til að halda stöðu sinni hver gagnvart öðrum og til að vinna sér fastan sess sem fyrsti kostur á húsnæðislánamarkaði.
Ég tek það skýrt fram, að ég er ekki að gagnrýna ákvörðun bankanna að fara í samkeppni við ÍLS. Hún var ákaflega velkomin á sínum tíma, enda húsnæðismarkaðurinn í talsverðu fjársvelti um þær mundir. Stórar eignir hreyfðust varla á markaðnum og verðmunur á minni eignum og stærri eignum var orðinn fáránlega lítill. Það eina sem ég er að segja, að ÍLS er ekki einn ábyrgur fyrir atburðarrásinni og það er eingöngu hægt að geta sér til um hvernig húsnæðismarkaðurinn hefði þróast, ef bankarnir hefðu bara haldið sínu striki. Í raun má segja að atburðarrásin hafi ekki farið fyrir alvöru af stað fyrr en KB banki auglýsti íbúðarlánin sín og hinir bankarnir fylgdu svo á eftir.
---
Viðbót 1. júlí kl. 02:24
Bloggar | Breytt 1.7.2008 kl. 03:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.6.2008 | 20:45
Miniputt
Ég var alveg búinn að gleyma þessum leik, þar til ég rakst á hann fyrir tilviljun í kvöld. Fyrir þá sem hafa gaman af minigolfi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2008 | 15:50
Adebayor ætlar ekki að fara, en er samt ekki viss um að vera
Þær eru nú nokkuð misvísandi fréttirnar um það hvort Adebayor hafi tekið af allan vafa um það hvort hann yrði um kyrrt eða ekki. Samkvæmt frétt Sky Sport, þá mun það ekki koma í ljós fyrr en í næstu viku eða svo hvort hann verður áfram. Þar er haft eftir honum (á ensku):
"I am footballer, I have a three-year contract at Arsenal but as you know, a lot of clubs are interested in me," he told Sky Sports News.
"At the moment we are just going to sit down and talk and decide what to do.
"Nothing has been decided yet. We will decide next week."
Þetta hljómar í mín eyru að hann sé að reyna að fá betra tillboð frá AC Milan eða Barcelona, en ekki eitthvað "loyality" yfirlýsing. Annað hvort er hann búinn að ákveða sig eða ekki. Ef hann er ekki búinn að ákveða sig, en kemur samt með svona fréttamannafundarsirkus, þá er bara best að hann finni sér nýtt félag. Heldur hann virkilega að aðdáendur Arsenal vilji hafa hann áfram eftir svona vitleysu. Þegar menn eru farnir að haga sér svona, þá er bara best fyrir þá að pakka saman. Enginn einn leikmaður er stærri en liðið.
Adebayor ætlar ekki að yfirgefa Arsenal | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.6.2008 | 16:13
Svona fer þegar stjórnun rekstrarsamfellu er ekki sinnt
Ég hef oft fjallað hér um stjórnun rekstrarsamfellu, en hún snýst um að sjá fyrir það "ófyrirséða" og grípa til ráðstafana til að koma í veg fyrir að það gerist. Eins og þessu máli er lýst, þá klikkaði tvennt:
1. Bráðnauðsynlegur útsendingarbúnaður var ekki tengdur við rafbakhjarl sem sér kerfinu fyrir rafmagn komi til bilunar í dreifikerfi.
2. Ekki var skipt sjálfvirkt yfir á varaaflgjafa og keyrt á honum þegar straumrof varð.
Svona vandamál eru alþekkt hér á landi og hef ég leiðbeint fjölda viðskiptavina um úrræði vegna þeirra. Það er náttúrulega skandall að stjórnendur Euro 2008 hafi ekki hugsað fyrir þeim möguleika að straumleysi gæti rofið útsendingu og ekki síður er það ótrúlegt fyrirhyggjuleysi að keyra ekki viðkvæman útsendingarbúnað á rafmagni frá rafbakhjarli, þar sem eitt af hlutverk rafbakhjarls er að jafna út spennu. Spennusveiflurvalda oft meiri skaða á tækjabúnaði en straumrof.
Hafi einhver frekari áhuga á þessu efni eða vantar ráðgjöf, þá er bara að hafa samband. Best er að senda tölvupóst á oryggi@internet.is eða security@internet.is.
Óveður olli sambandsleysi í leik Tyrkja og Þjóðverja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.6.2008 | 11:48
Bankarnir orðnir langþreyttir á úrræðaleysi Seðlabankans?
Mér sýnist sem Kaupþing sé að bresta þolinmæðin á úrræðaleysi Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar. Fyrst er það hátt í 40 milljarða lán á hagstæðum kjör og nú að bjóða út sérvarin skuldabréf vegna íbúðalána. Kannski er bankinn með þessu að sýna ríkinu og Seðlabanka að það er lítill vandi að fá góð kjör á markaði. Ég legg til að Davíð hringi í Hreiðar Má og fái ráðgjöf um það hvernig á að fá stórt lán á hagstæðum kjörum.
Það er alveg sama hvert litið er efnahagsstjórnun ríkisstjórnarinnar og peningamálastefna Seðlabankans undanfarin ár er að nauðga allri þjóðinni þessa daganna. Það er náttúrulega út í hött að Seðlabankinn, sem standa á vörð um gjaldmiðil landsins, er gjörsamlega úrræðalaus. Hvar í hinum vestræna heimi liðist það að gengi gjaldmiðils lækkaði um 40% á innan við 6 mánuðum án þess að seðlabanki viðkomandi lands væri búinn að grípa inn í með aðgerðum. Það getur vel verið að krónan hafi verið of hátt skráð og það getur vel verið að lausafjárkreppa sé í gangi á alþjóðlegum fjármálamarkaði, en að sitja hjá með hendur í skauti er grafalvarlegur hlutur. Það er sagt að með illu skal illt út reka, en þegar lækningin er farin að valda meiri skaða en sjúkdómurinn, þá er kominn tími til að skipta um lækni og fá einhvern sem kann til verka.
Kaupþing með útboð á skuldabréfum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
24.6.2008 | 18:34
Sýnir hvers konar rugl er í gangi
Loksins hafa bankarnir gert það sem þeir áttu að gera fyrir löngu, þ.e. sanna það fyrir heiminum að skuldatryggingaálagið er ekki í neinu samræmi við raunveruleg kjör á markaði. Nú er bara að sjá hvort Seðlabankinn og hinir viðskiptabankarnir fylgi ekki í kjölfarið. (Og svo er aldrei að vita nema krónan braggist.)
Til hamingjum með þetta, Kaupþing.
Kaupþing fær milljarða að láni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.6.2008 | 10:17
19. júní dagur kvenna á Íslandi
Í tilefni dagsins, 19. júní, og vil ég óska öllum konum til hamingju með daginn sem markað hefur afgerandi spor í kvenréttindabaráttuna á Íslandi. Það er forgöngukonum þessarar baráttu að þakka að íslenskar konur fóru að taka virkari þátt í stjórnun þessa þjóðfélags og fóru út í eigin atvinnurekstur. Til hamingju með daginn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2008 | 16:37
Trúin á aðgerðum engin
Gengi krónunnar aldrei lægra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.6.2008 | 13:21
Gagnaleki
Undanfarna mánuði hafa ítrekað birst í fjölmiðlum fréttir um að persónuupplýsingum hafi verið stolið, þær glatast á furðulega hátt eða komist í rangar hendur. Þessi atvik hafa í litlu mæli komið niður á Íslendingum, en í byrjun júní mátti þó sjá frétt þess efnis að Borgun (MasterCard) hafi þurft að afturkalla og endurútgefa greiðslukort eftir að óprúttnir aðilar komust yfir upplýsingar um þau.
Stærstu atvikin sem komið hafa upp síðustu ár eru annars vegar þjófnaður korthafaupplýsinga um 46 milljóna korthafa frá TJX verslanakeðjunni kanadísku og þegar HMRC (Her Majestys Revenue and Customs) í Bretlandi glataði geisladiskum með upplýsingum um yfir 25 milljón þiggjenda barnabóta í Bretlandi. Í tilviki HMRC er ekki nákvæmlega vitað hvað gerðist og er jafnvel óvíst að nokkur hafi komist í gögnin, en þar var samt um alvarlegt brot á persónuverndarlögum að ræða. Í tilfelli TJX, var brotið mun ígrundaðra og talið er að það hafi staðið að minnsta kosti í 3 ár frá 2003 til 2006, þegar það var uppgötvað. Í hvorugu tilfelli er hægt að kenna um handvömm starfsmanns heldur er orsakarinnar að leita til þess að ekki hefur verið staðið rétt að stjórnun upplýsingaöryggis hjá þessu aðilum.
Ekki er til nein ein einhlít skilgreining á því hvað felst í gagnaöryggisatviki eða gagnaleka, eins og notað verður í þessu skjali. Hvert land hefur sína löggjöf og þó svo að löggjöf innan Evrópska efnahagssvæðisins sé keimlík, þá gegnir ekki sama máli um túlkunina. Þó má segja að flestir geti fellt sig við eftirfarandi skilgreiningu: Gagnaleki er óheimil birting lögaðila á persónugreinanlegum upplýsingum, þar sem birtingin stefnir öryggi, trúnaði og heilleika upplýsinganna í voða.
Framhaldið af þessari umfjöllun má lesa á vefsíðu minni www.betriakvordun.is eða með því að smella hér. Þar er m.a. fjallað um ástæður fyrir fjölgun tilfella, helstu aðferðir, kostnað af öryggisbrestum, hverjir eru helstu skaðvaldarnir og hvað er til ráða.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.6.2008 | 00:50
Hlustar forsætisráðherrann á sjálfan sig?
Forsætisráðherra flutti föðurlega ræðu á Austurvelli á 17. júní. Þegar maður les yfir ræðuna (á vef forsætisráðuneytisins), þá veltir maður því fyrir sér í hvaða fílabeinsturni hann dvelur dagana langa. Mig langar hér að fjalla um nokkur atriði, sem mér finnst vera á skjön við veruleikann eða ekki byggða á því innsæi, sem maður væntir frá forsætisráðherra þjóðarinnar.
1. Hann áminnir okkur landsmenn um að draga saman seglin vegna hækkunar eldsneytis, minnka akstur og aka sparsamari bílum. Einnig ræddi hann um að breyta gjaldtöku á ökutækjum og eldsneyti til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Um þetta atriði er það að segja, að verulega hefur dregið úr akstri síðustu mánuði. Þetta hefur mátt merkja á Hafnarfjarðarvegi frá því í febrúar og er það hending að umferðarteppa myndist þar á morgnana. Ekki er auðvelt að skipta yfir í sparneytnari bíla í einum grænum, því til þess að það sé hægt þarf að vera hægt að selja þann gamla. Ekki er hlaupið að því frekar en nokkru öðru sem krefst lánsfé í þessu þjóðfélagi í dag. Og varðandi breytta gjaldtöku á ökutækjum og eldsneyti, þá er það alfarið í höndum fjármálaráðherra, sem ekki hefur mátt heyra á það minnst að lækka álögur á eldsneyti en frekar viljað auka þær. Nýlega skilaði enn ein nefndin af sér tillögu, að þessu sinni um að setja 5 - 7 króna koltvísýringsskatt á hvern seldan lítra af jarðefniseldsneyti. Halda menn virkilega að 5 - 7 krónur muni breyta einhverju, þegar 70 - 100 kr. hækkun hefur breytt litlu. Breyttar gjaldtökur á ökutækjum skila sér á löngum tíma og breyta því nákvæmlega engu fyrir ástandið í dag. Það var svo sem ekki við því að búast að þessi ríkisstjórn gerði eitthvað til að létta undir með almenningi, enda gekk forsætisráðherra í læri hjá meistara iðnarinnar ,,athugum hvort þetta líði ekki hjá þó við gerum ekkert".
2. ,,Það er mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar um þessar mundir að tryggja nýtt jafnvægi í efnahagslífinu og treysta jafnframt grundvöll atvinnustarfseminnar svo ekki komi til alvarlegs atvinnuleysis."
Í fyrsta sinn viðurkennir forsætisráðherra að til alvarlegs atvinnuleysis gæti komið. Það er mikill viðsnúningur frá fyrri ummælum hans og fjármálaráðherra, sem vísað hafa þeim möguleika alfarið á bug. Þegar litið er síðan til þess að ríkisstjórnin hefur nánast ekki gert neitt á síðustu mánuðum, fyrir utan að fá heimild til lántöku, þá spyr maður sig, hve langan tíma ætlar ríkisstjórnin að taka sér í að ,,tryggja nýtt jafnvægi í efnahagslífinu og treysta jafnframt grundvöll atvinnustarfseminnar svo ekki komi til alvarlegs atvinnuleysis". Hvað ætlar ríkisstjórnin að misnota mörg færi til að ,,tryggja nýtt jafnvægi í efnahagslífinu og treysta jafnframt grundvöll atvinnustarfseminnar svo ekki komi til alvarlegs atvinnuleysis" áður en hún loksins grípur til aðgerða? Þetta er farið að minna óþyrmilega á landsleik Íslands og Makedóníu. Hverju tækifærinu til að gera eitthvað marktækt klúðrað vegna þess að menn telja sig ekki þurfa að reka smiðshöggið á verkið. Það er staðreynd að ríkisstjórnin hefur ekki endalausan tíma til að grípa til aðgerða eigi að sporna gegn alvarlegu atvinnuleysi og haldi fram sem horfir, þá mun tíminn renna út á ríkisstjórnina eins og á handboltalandsliðið sl. sunnudag.
3. ,,Við Íslendingar vorum vel undir bakslag búnir, betur en flestar aðrar þjóðir"
Nei, við vorum illa undir þetta bakslag búin. Meðalársnotkun Íslendinga á jarðeldsneyti er með því hæsta í heimi. Bílaeign er því mesta í heimi á íbúa. Vegakerfið er ekki sérstaklega hentugt fyrir ,,góðakstur". Og svona mætti lengi telja.
4. ,,Þegar litið er til þess hvernig staðan er á alþjóðlegum fjármálamörkuðum sýnir sig að fátt er verðmætara en traust og trúverðugleiki. Slíkir eiginleikar eru ekki aðeins verðmætir í fari einstaklinga, heldur eiga þeir einnig við um þjóðir og fyrirtæki. Íslenska þjóðin nýtur trausts og það er mikilvægt að fyrirtækin okkar geri það einnig, ekki síst fjármálafyrirtækin."
Það er einmitt þetta traust sem virðist vanta. Ekki á íslensku þjóðinni heldur á íslenska hagkerfinu og hagstjórninni. Ástæðan er fyrst og fremst aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar sem hefur ítrekað sýnt að hún hefur ekki hugmynd um hvað er til bragðs að taka. Fyrir örfáum vikum var gengisvísitalan í 145 og skuldatryggingarálag ríkissjóðs var vel undir 200. Þeir tímar eru liðnir og tækifærin runnin ríkisstjórninni úr greipum í bili að minnsta kosti. Hvort að Geir og félögum tekst að ávinna sér traust aftur á næstum vikum á eftir að koma í ljós, en það verður ekki gert með því aðgerðarleysi sem við höfum mátt horfa upp á undanfarnar vikur.
5. ,,Gleymum því þó ekki hve þessi þróun leikur margar aðrar þjóðir miklu verr en okkur"
Ég veit ekki alveg hvar forsætisráðherra hefur alið manninn síðustu mánuði. Það hefur engin þjóð meðal þeirra sem við viljum bera okkur saman við farið jafn illa út úr þeim ,,alheimsvanda, sem nú er verið að fást við". Það hefur enginn gjaldmiðill á Vesturlöndum lækkað eins hressilega og íslenska krónan, það hefur ekkert land þurft að búa við eins okurkennt skuldatryggingarálag og Ísland. Við hvaða þjóðir er forsætisráðherra að bera okkur saman við? Simbabve, Haíti eða Írak? Ég man í svipan ekki eftir öðrum löndum sem eru í sambærilegum vanda. Ég verð að viðurkenna að ég hélt að það væri meiri metnaður í ráðherranum en þetta.
6. ,,Alþingi hefur veitt ríkisstjórninni heimild til sérstakrar lántöku innan lands eða utan á árinu 2008... Sama tilgangi þjónar nýr samningur milli Seðlabanka Norðurlandanna, sem sýnir jafnframt norrænt vinarþel í verki. Þessar aðgerðir treysta varnir og viðbúnað landsins út á við sem er nauðsynlegt þegar vindar blása á móti."
Samningurinn við seðlabanka Norðurlanda dró tímabundið úr falli krónunnar, en þar sem of langur tími hefur liðið og ríkisstjórnin bara beðið á hnjánum, þá er allt fallið í sama farið aftur. Lántökuheimildin ein og sér hefur engin áhrif meðan hún er ekki nýtt og það gæti raunar virkað í öfuga átt að bíða með að nýta hana. Varnir landsins eru ekki bara veikar, þær hafa brostið víða. Ef þetta væru flóðvarnargarðar, þá væru stór landsvæði undir vatni og það sem meira væri ríkisstjórnin hefði ekki minnsta grun um hvernig bregðast ætti við. Aðgerðirnar drógu vissulega tímabundið úr fallinu, en síðan áttuðu spákaupmenn sig á því að orðum fylgdu ekki verk. Þessar aðgerðir hafa ekkert gert til að hleypa lífi í húsnæðismarkaðinn eða lánamarkaðinn. Það er allt steindautt. Seðlabankinn hefur enga burði til að létta undir með markaðsaðilum fyrr en búið er að nýta lánsheimildina.
Mér finnst forsætisráðherra hafa í ræðu sinni talað gegn betri vitund eða að hann er í slæmri afneitun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 37
- Sl. sólarhring: 66
- Sl. viku: 345
- Frá upphafi: 1680483
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 40
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði