Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Það er verr fyrir okkur komið en ég hélt

Var að horfa á viðtalið sem "elsku drengurinn" hann Sigmar tók við Davíð Oddsson.  Ég er eiginlega orðlaus.  Hann Davíð er í svo ótrúlegri afneitun að það er hættulegt fyrir þjóðina.  Fyrir utan kjaftaganginn í honum.  Hann er verri en versta slúðurkerling.  Það eru nokkrir punktar sem vöktu sérstaklega hjá mér spurningar:

1.  Af hverju varpar hann sökinni á "slöku" eftirliti á Fjármálaeftirlitið?  Ég hélt að FME ynni eftir reglum sem Seðlabankinn ekki bara samþykkir heldur er hann aðili að þeim samtökum sem hreinlega semur þær.  Þá er ég að tala um Bank of International Settlements.

2.  Ég hélt að lánshæfismat Landsbanka og Kaupþings hefði lækkað vegna þess að matsfyrirtækin efuðust um getu ríkisins og Seðlabanka til að koma þeim til bjargar.  Ég hélt að lánshæfismat ríkisins hefði lækkað vegna þess að það hafði samþykkt að þjóðnýta Glitni með öllum þeim skuldbindingum sem því fylgdi.  Og ég hélt að lánshæfismat Glitnis hefði lækkað vegna þess að Seðlabankinn hafði úrskurðað veðin sem bankinn vildi leggja fram handónýt og bankinn ætti því litla möguleika á fjármögnun.

3.  Ég vissi ekki að það væri neitt hættulegt við það, að bankar sem eiga eignir upp á hátt í 10.000 milljarða þyrftu að endurfjármagna sig á 3 - 4 árum upp á góðan hluta af þeirri tölu.  Það er það sem bankar gera.  Þeir taka lán til skammstíma og lána til langstíma. 

4.  Mér finnst nokkuð glannaleg sú afstaða Seðlabankastjóra að líkja því að bjóða lánadrottnum íslensku bankanna 5 - 15% af kröfum sínum við það sem Seðlabanki Bandaríkjanna gerði gagnvart Washington Mutual.  Kröfurnar sem þurfti að afskrifa vegna Washington Mutual eru sáralítill hluti af þjóðarframleiðslu Bandaríkjanna og Seðlabanki Bandaríkjanna hafi þegar ausið ómældum fjármunum inn í fjármálakerfið vestan hafs.  Seðlabanki Íslands hafði varla lagt fram krónu til að liðka fyrir íslensku bönkunum og stóð gjörsamlega máttvana gagnvart lækkun krónunnar.  Ef Seðlabankinn hefði verið búinn að sýna getu sína áður með stórum aðgerðum, þá hefði kannski verið hægt að réttlæta þetta viðhorf, en að koma fram í sjónvarpi og skella þessu svona fram er í besta falli ósvífni.

5.  Mér fannst líka ótrúleg lýsing Davíðs á skilyrðum þess að veita lán til þrautavara.  Ég hefði talið að til að hægt sé uppfylla þessi skilyrði, þá væru menn í svo góðum málum að þeir væru vaðandi í lánsloforðum.

Maður fyllist bara vonleysi, þegar maður horfir á manninn þarna sjálfumglaðan eins og það sem er á undan gengið hafi bara verið eðlilegasti hlutur.


mbl.is Ríkið borgi ekki skuldir óreiðumanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætli þeir hafi lækkað víðar?

Maður getur ekki annað en velt því fyrir sér hvort S&P hafi verið eins fljótir að lækka lánshæfismat Fortis, Dexia, Northern Rock og fleiri erlendra fjármálastofnana og þeir hafa verið að lækka það gagnvart Íslandi.  Ég hef raunar velt því fyrir mér hverra hagsmuna þeir ganga, þar sem þessar snöggu lækkanir þeirra í síðustu viku settu í raun af stað það ferli sem innifelur setningu neyðarlaganna í gær og við höfum ekki séð fyrir endann á.

Síðan finnst mér merkilegt að álit matsfyrirtækjanna sé ennþá talið marktækt og þau yfirhöfðu ennþá starfandi miðað við þann skaða sem þau hafa valdið fjármálakerfi heimsins með AAA mati sínu á undirmálslánunum.  Miðað við þau lán, þá er lánshæfismat Íslands AAAA+++.


mbl.is Lánshæfismat Íbúðalánasjóðs lækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má aldrei gera neitt fyrr en í óefni er komið?

Það er gott að sjá, að Seðlabankinn ætlar loksins að grípa til aðgerða til að styrkja gengið.  Virði ég það við bankann hvað hann ætlar að vera ákveðinn í aðgerðum sínum.  Það eina sem ég velti fyrir mér er:  Af hverju er Seðlabankinn ekki fyrir löngu búinn að grípa til slíkra aðgerða?  Af hverju þarf neyðarástand að skapast áður en gripið er inn í?

Það er verið að skipta út stjórn Landsbankans.  Það er búið að taka yfir Glitni.  Nú er kominn tími til að hreinsa út úr stjórn og bankastjórn Seðlabankans.  Þar er fullt af fólki sem lét það líðast að fjármálakerfi þjóðarinnar hrundi á þeirra vakt.  Nú er tími til kominn að einstaklingar með bein í nefinu og djúpstæðaþekkingu á fjármálakerfi landsins og umheimsins taki við.

Annars lýst mér vel á þá hugmynd að Íbúðalánasjóður fái "takmarkalausa heimild til að kaupa upp öll veðlán sem tengd eru húsnæðiskaupum,2 eins og haft er eftir Björgvin G. Sigurðssyni viðskiptaráðherra í DV í dag.  Mér lýst ennþá betur á, ef slík lán munu lækka til samræmis við það gengi sem var þegar lánið var tekið.  Ef það gengur eftir mun ég alveg örugglega kjósa Samfylkinguna í næstu kosningum og Jóhanna Sigurðardóttir verður þaðan í frá Heilög Jóhanna Grin 


mbl.is Gengi krónu fest tímabundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miklar heimildir en ekkert sagt um fjármagn

Þetta eru stórtíðindi og er alveg óskiljanlegt hvernig svona hlutir geta gerst.  Frumvarp forsætisráðherra fjallar bara um valdheimildir, en ekkert er sagt um hvernig eigi að fjármagna pakkann. Að því leiti er um innantóman pakka að ræða.  Nú kemur enn einn tími óvissu.
mbl.is Víðtækar heimildir til inngripa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Basel-nefndin gefur út reglur um lausafjáráhættu

Basel-nefndin innan Bank of International Settlements hefur gefið út reglur um stjórnun og eftirlit með greiðsluhæfisáhættu (Principles for Sound Liquidity Risk Management and Supervision).  Með þessu er nefndin að bregðast við þeirri lausafjárkreppu sem bankaheimurinn er að ganga í gegnum og fylla upp í holur í fyrra regluverki sínu.  Reglurnar má lesa í heild með því að smella hér.

Í inngangi skjalsins segir:

Greiðsluhæfi er geta banka til að fjármagna aukningu eigna og greiða gjaldfallnar skuldbindingar án þess að verða fyrir óásættanlegu tapi.  Það grundvallarhlutverk banka að breyt skammtíma innlánum í langtíma lán geri eykur eðlilega greiðsluhæfisáhættu banka, bæði innan bankakerfisins og fyrir markaði í heild.  Liggur við allar fjárhagsfærslur og fjárskuldbindingar hafa áhrif á greiðsluhæfi banka.  Skilvirk stjórnun á greiðsluhæfisáhættu hjálpar banka að tryggja getu sína til að mæta lausafjárskuldingum...Stjórnun greiðsluhæfisáhættu er gríðarlega mikilvæg þar sem greiðslufall hjá einni stofnun getur haft víðtæk áhrif.

Í skjalinu er lögð áhersla á nokkur meginatriði:

  • mikilvægi þess að byggja upp þol fyrir greiðsluhæfisáhættu
  • viðhalda viðundandi stigi greiðsluhæfis
  • nauðsyn þess að tengja kostnað, hag og áhættu vegna greiðsluhæfi við alla meginstarfsþætti
  • bera kennsl á og mæla alls konar atriði sem hafa áhrif á greiðsluhæfiáhættu, þar á meðal samfelda greiðsluhæfisáhættu
  • hanna og nota mismunandi álagspróf
  • þörf fyrri trausta og starfhæfa áætlun um samfelda fjármögnun
  • stjórnun daglegri áhættu vegna greiðsluhæfis og veða
  • birta niðurstöður opinberlega

Settar eru fram 17 grundvallarreglur.  Fyrsta er það sem er megingrunnregla (fundamental principle).  Þá koma ellefu reglur sem snúa að stjórnun greiðsluhæfisáhættu og virðist mér við fyrsta yfirlestur að flestar séu common sense atriði, sem eigi að vera hluti af áhættustjórnun sérhverrar fjármálastofnunar.  Regla 13 eru um birtingu upplýsinga.  Loks eru fjórar sem fjalla um hlutverk eftirlitsstofnana, hér á landi Fjármálaeftirlit.

Mig langar að benda sérstaklega á reglu 11, en hún fjallar um þörf fyrir formlega áætlun um samfelda fjármögnun (Contingency Funding Plan, CFP) sem á m.a. að lýsa aðgerðum í neyðartilfelli. Í leiðbeiningum með reglunni segir að CFP eigi að gera bönkum kleift að ráða við mismunandi aðstæður er leiða til greiðsluhæfisálags.

Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar veitir nánari upplýsingar um þetta efni. Áhugasömum er bent á að hafa samband með því að senda tölvupóst á oryggi@internet.is.


Smá damage control

Þeim er ekki alls varnað.  Hér er kominn mjög mikilvæg tilkynning og vonandi fylgja fleiri á eftir.  Þessi yfirlýsing er upp á nokkra tugi milljarða í ábyrgðum og þýðir að fólk þarf ekki að æða í bankann til að skipta innistæðu á milli reikninga.  Spurningin er bara, hvort þetta vegi upp skaðann af "ekki þörf á neinum pakka" yfirlýsingunni.
mbl.is Árétting frá ríkisstjórninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning

Jæja, það á ekkert að gera fyrir krónuna.  Látum vera að bankarnir eigi að bjarga sér sjálfir, en það er nokkuð ljóst að koma þarf til móts við almenning.   Þá sem eru með gríðarlega greiðslubyrði eftir hamfarir síðustu 7 mánaða.  Það er mín skoðun að best sé að gera það í gegnum vaxtabótakerfið.  Mig langar að leggja hér fram nokkrar tillögur: 

Í fyrsta lagi að hækka hámarksvaxtabætur umtalsvert.  Þess vegna í 1.000.000 kr. fyrir einstakling og 2.000.000 kr. fyrir hjón.  Fyrir mjög marga mun það ekki einu sinni duga til að vega upp verðbætur og gengisbreytingu. 

Í öðru lagi að afnema eignamörk vegna vaxtabóta, þar sem mjög margir sitja uppi með tvær eignir, þ.e. nýkeypt húsnæði eða húsnæði í byggingu og síðan gamla húsnæðið sitt. 

Í þriðja lagi, að leyfa fólki að setja bílalán inn í vaxtabótaútreikninga. 

Í fjórða lagi, að leyfa fólki að taka gengisbreytingu umfarm eitthvað tiltekið gengi sem kemur fram í afborgunarhluta lánsins inn í vaxtabótaútreikninginn.  Viðmiðið gæti t.d. verið að hækkun gjaldmiðla umfram verðbólgu + 10%.  Hægt væri að fá bankana til að hjálpa fólki við þessa útreikninga. 

Í fimmta lagi, að hækka bætur almannatrygginga sem nemur verðbólgu ársins um áramót til að leiðrétta kjör þeirra sem þær þiggja. 

Í sjötta lagi, þarf að afnema skerðingu vegna fjármagnstekna gagnvart lífeyrisbótum eða að minnsta kosti leyfa fólki að draga vaxtagjöld frá áður en til skerðingarinnar kemur. 

Ég átta mig á því að svona aðgerðir kosta háar fjárhæðir, en það mun kosta ennþá meira ef hér verða fjöldagjaldþrot heimilanna. 

Einnig væri hægt að fara út í mikla niðurfærslu höfuðstóla húsnæðis- og bílalána, en það bætir ekki upp útgjöld þessa árs.  Niðurfærsluna mætti framkvæma þannig, að hluti lánsins væri tekinn til hliðar, þ.e. geymdur, og lántakandi þyrfti eingöngu að hafa áhyggjur af því sem eftir stæði.  Ef svo kæmi í ljós að ytri aðstæður breyttust svo mikið til hins betra, þá þyrfti lántakandinn að greiða af hlutfallslega stærri hluta. Þessi leið gæti verið innlegg fjármálafyrirtækjanna í að rétta efnahag landsins við.  Það kemur hvort eð er nokkuð út á eitt hvort bankarnir hirða húsnæðið af fólki og selji það öðrum á lægra verði eða að þeir lækki höfuðstól lána núverandi eigenda.


Hvaða spennu var létt?

Hún er alveg með ólíkindum niðurstaða ríkisstjórnarinnar og þarfnast skýringar við.  Ég trúi varla því sem ég les, að áfram eigi að láta hlutina leika á reiðanum eins og ekkert sé.  Gengi krónunnar féll um 16% á einni viku (eða hvað það nú var), skuldatryggingarálag bankanna er komið upp í allt að 5.500 stig, það er gjaldeyrisþurrð í landinu og niðurstaðan er núll og nix.  Ég spyr bara hvort rétt sé haft eftir forsætisráðherra.  Er fyrsti apríl?

Fréttastofa sjónvarpsins hefur hins vegar heimildir fyrir því að búið sé að virkja lánalínur til að styrkja gjaldeyrisvarasjóðinn, bankarnir hafi samþykkt að selja eignir í útlöndum og lífeyrissjóðirnir ætli að koma með eignir heim.

Ég hefði gjarnan vilja sá tillögur sem væru eitthvað í þessa átt:

  1. Falla frá þjóðnýtingu Glitnis.
  2. Veita Glitni lánið sem bankinn bað um gegn þeim veðum sem bankinn bauð fram
  3. Krefjast þess að eigendur Glitnis leggi fram jafnháa fjárhæð eða fái nýtt hlutfé inn í bankann. Gefa þeim takmarkaðan tíma til verksins. Takist það ekki verði Glitni gert að selja frá sér hluta starfseminnar
  4. Efla gjaldeyrisvarasjóðinn um 8-1000 milljarða hvort heldur með beinu innstreymi eða lánalínum framlagið komi m.a. frá bönkunum, lífeyrissjóðum og ríkissjóði.
  5. Krefjast þess að bankarnir efli lausafjárstöðu sína og vindi ofan af eigna- og skuldatengslum sínum. Lokað verði fyrir krossábyrgðir, þar sem einn bankinn tekur ábyrgðir í hlutabréfum annars, sem tekur ábyrgðir í hlutabréfum hins.
  6. Skipt verði um alla bankastjóra í Seðlabankanum. Ráðinn verði einn yfirbankastjóri. Skilyrðið er að hann hafi mikla reynslu af bankamálum og þekki til hlítar verklag sem tíðkast hjá seðlabönkum. (Mér detta í hug menn eins og Jón Sigurðsson fyrrum ráðherra Alþýðuflokksins, Jón Sigurðsson fyrrum formaður Framsóknarflokksins og Tryggvi Pálsson fyrrum bankastjóri Verzlunarbankans og núverandi starfsmaður Seðlabankans.)
  7. Herta verði reglur um áhættuútreikninga bankanna sem meðal annars gera lán til hluthafa annarra banka áhættusamari en í núgildandi reglum.
  8. Bönkunum verði gert að tryggja sér varalánalínur, þannig að missir 2 - 3 meginlánveitenda geti ekki sett þá í greiðsluþrot.
  9. Lausafjárálagsprófanir verði framkvæmdar reglulega samhliða öðrum álagsprófunum.
  10. Síðan þarf gríðarstóran pakka til að aðstoða almenning sem lent hefur í hremmingum með lán sín. Bönkunum verði gert að leggja 200 milljarða á 5 árum í slíkan pakka. Lántakendum verði gert kleift að sækja um niðurfærslu höfuðstóls lána sinna í þennan sjóð.
  11.  Allt regluverk fjármálakerfisins verði endurskoðað með íslenska hagkerfið í huga. 

Ekki það að ég hafi neitt sérstakt vit á þessu, en eina leiðin til að auka trúverðugleika Íslands er að koma með aðgerðir sem styrkja gjaldmiðil þjóðarinnar, lækkar skuldatryggingarálag bankanna og ríkissjóðs og hækkar lánshæfismat bankanna og þjóðarinnar.  Það er eins og menn átti sig ekki á því að lausnin "að gera ekki neitt" mun að öllum líkindum verða til þess að íslensku bankarnir gætu lent í fjöldaúttektum af erlendum innlánsreikningum, skuldatryggingarálag mun hækka og gjaldeyrisskorturinn aukast.

Geir segir að dregið hafi úr spennunni.  Mikið væri gott, ef hann gæti skýrt það út fyrir okkur landsmönnum og umheiminum hvernig hefur dregið úr spennunni.  Markaðir eru búnir að vera lokaðir, þannig að ekki sést það á þeim.  Hvernig geta samræður í timburhúsi við Tjarnargötu dregið úr spennu á markaði?

Nú býð ég spenntur eftir skýringunni og ég býð dauðhræddur eftir viðbrögðum markaðarins.  Ég þarf að greiða 1.000 EUR í vikunni og fannst nógu slæmt að greiða rúmlega 150.000 kr. fyrir þær, en núna bendir flest til að ég þurfi að greiða 200.000 kr.


mbl.is Ekki þörf á aðgerðapakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgð Seðlabanka Íslands

Egil Helgason er með færslu hjá sér undir fyrirsögninni Wade búinn að vinna rökræðuna.  Ég ætlaði að setja athugasemd inn á þá færslu, en hún hefði drukknað í umræðu um allt annað.  Því ákvað ég að setja hana hér enda fjallar Peston að hluta um sömu atriði:

Ég ætla ekki að taka hanaslaginn um ábyrgð bankanna sem er mikil heldur benda á atriði í grein Wade sem mönnum virðist yfirsjást og einnig er bent á í bloggi Robert Peston, viðskiptaritstjóra BBC.

Wade segir:

The central bank tied its own hands so as to leave only the interest rate as its control instrument. It gave up reserve requirements on grounds that the banks did not want them; and it also failed to exercise moral suasion. Its efforts to restrain inflation by raising short-term rates (to 15 per cent by 2008) had the effect of sucking in more “carry trade” capital, undermining the intended curbing of demand and leading the krona to appreciate despite the huge external deficit.


Og Peston segir (í þýðingu vb.is ekki mbl.is):

Rót gríðarlegs vaxtar fjármálakerfisins á Íslandi eru vaxtamunarviðskipti, en á síðustu árum hefur reynst vinsælt að fá lánað í lágvaxtamyntum á borð við jen og ávaxta síðan í krónum. Um árabil reyndist þetta áhættulítil leið til gróða, en um leið og lánsfjárþurrðin skall á alþjóðlegum fjármálamörkuðum kárnaði gamanið.


Báðir þessir aðilar benda á stýrivaxtastefnu Seðlabankans sem veigamikinn þátt í þeirri kreppu sem við erum að kljást við.  Mig langar að bæta við (nú hljóma ég eins og biluð plata) ákvarðanir Seðlabankans árið 2003 um lækkun bindiskyldu samhliða lækkun á áhættustuðlum vegna útreiknings á eiginfjárhlutfalli og ákvörðun Seðlabankans í mars 2007 um frekari lækkun áhættustuðla.  Þessar þrjár aðgerðir juku útlánagetu bankakerfisins um ríflega 200%.  Bara lækkun áhættustuðlanna gerði það að verkum að bankar sem áður gátu lánað 100 milljarða krónur fyrir hverjar 8 milljarða kr. í eigið fé gátu núna lánað 282 milljarða kr.  Lækkun bindiskyldunnar bæti síðan háum fjárhæðum við þessa tölu. 

Ég get ekki betur séð en að Seðlabanki Íslands hafi lagt talsvert mikinn eldsmat í þennan bálköst sem núna logar og síðan aðstoðaði hann bankana verulega við að safna því sem þeir bættu á.  Það sem Seðlabankinn gerði voru nokkuð staðlaðar aðgerðir út um allan heim í nafni BASEL II, en það er ekki annað hægt en að gagnrýna tímasetningar aðgerða Seðlabanka Íslands (sem voru að hluta framkvæmdar með reglum frá FME) og að þeim hafi ekki fylgt aðhaldsaðgerðir.

Tökum fyrst 2003:  Bindiskylda er lækkuð um 50% úr 4% í 2%.  Nokkrum mánuðum síðar er útlánageta þeirra aukin með lækkun áhættustuðla.  Þetta eru tvær þensluhvetjandi aðgerðir án þess að þeim fylgi nokkur aðhaldsaðgerð.  Stýrivextir voru 5,3% og þeir héldust 5,3%.  Bankarnir juku útlán sín til útrásarverkefna í kjölfarið og ári seinna fóru þeir inn á húsnæðislánamarkaðinn.  Fyrst hafði það gerst að verðbólga byrjaði að aukast og stýrivextir að hækka.  Á haustmánuðum fer allt af stað, verðbólga hækkar, stýrivextir hækka og gengið sem hafði verið á bilinu 119 - 126 fór að styrkjast.  Með styrkingu gengisins, þá jókst útlánageta bankanna aftur, en nú í erlendri mynt og veðhæfi innlendra eigna jókst líka í þeim samanburði.  Það furðulega við þetta allt, var að Seðlabankinn hækkaði raunstýrivexti mikið á þessum tíma.  Eftir því sem raunstýrivextir hækkuðu styrktist krónan, sem jók enn og aftur útlánagetu bankanna í erlendri mynt.  Stýrivextir sem höfðu verið 5,3% í febrúar 2004 meðan verðbólga var 2,3% voru komnir í 10,75% í febrúar 2006 með 4,1% verðbólgu og gengisvísitölu upp á 107,4.  Þarna eru raunstýrivextir skyndilega orðnir 6,6%, en áður höfðu nafnstýrivextir verið 5,3%.  Á sama tíma flýtur ódýrt lánsfé út um allan heim.  Menn gátu tekið lán í jenum á 0,3% vöxtum og það blasti náttúrulega við að ávaxta það á 10,75% vöxtum á Íslandi.  Útlendingunum var alveg sama um íslenska verðbólgu.  Aukið erlent fjármagn flaut inn og það ásamt háum stýrivöxtum hélt gengi krónunnar háu og mikilli útlánagetu hjá bönkunum.

Þá kemur 2007.  Ríkisstjórnin hafði tilkynnt með góðum fyrirvara að matarskattar yrðu lækkaðir 1. mars 2007, en í skugga þeirrar aðgerðar í 7,4% verðbólgu og 14,25% stýrivöxtum, þá lækkar áhættustuðull veðtryggðrar útlána úr 0,5 í 0,35.  Það voru eldar um allt í hagkerfinu og Seðlabankinn ákvað að bæta nokkur þúsund tonnum af olíu á eldinn.  Þessi aðgerð sneri kólnun á húsnæðismarkaðnum við, þar sem útlánageta bankanna í þann málaflokk jókst skyndilega um 42%.  Aðgerðir ríkisstjórnarinnar lækkuðu verðbólguna niður í 5,9% í mars sem hefði átt að gefa Seðlabankanum færi á að lækka stýrivexti og byrja að vinda ofan af Jöklabréfunum.  Nei, hann hélt ekki bara stýrivöxtunum óbreyttum, hann hækkaði þá.  Það var að vísu reynt að láta svo líta út að stýrivextirnir hefðu lækkað með því að breyta aðferðafræðinni, en 13.30% stýrivextirnir í júní 2007 voru í raun hækkun um 0,25%.  Svo skall lausafjárkreppa á að fullu (þó svo að merki hennar hafi mátt sjá mun fyrr) og hvað gerði Seðlabankinn þá.  Bæta enn í vána með því að hækka stýrivexti.

Það er ofsalega margt furðulegt sem kemur í ljós þegar maður skoðar samspil stýrivaxtaákvarðana, verðbólgu og gengis.  Það er eitt sem æpir á mig:  Hækkun stýrivaxta virðist auka óróa!  Það er eins og verðbólgan elti stýrivextina!  Frá því að Seðlabankinn hækkaði stýrivexti úr 5,5% í 5,75% í júní 2004, þá hefur verðbólgan aldrei farið undir verðbólgumarkmið Seðlabankans.  Raunar hefur hún bara tvisvar verið undir 3% og 12 sinnum verið 3 - 4%.

Ef við bætum svo við þessa upptalningu að krónan var sett á flot með stýrivexti í hæstu hæðum og verðbólgu langt utan verðbólgumarkmiða Seðlabankans, þá er eiginlega með ólíkindum að allt hafi ekki farið fjandans til fyrir löngu.

Vissulega teygðu bankarnir sig langt í útlána- og útþenslustefnu sinni.  En þegar horft er til þess hve litlar afskriftir hafa verið bönkunum undanfarin ár, þá er ekkert sem bendir til þess að þeir hafi seilst of langt.  Fyrir 14 mánuðum var skuldatryggingarálag þeirra vel innan við 50 punktar.  Núna er það allt að 5.500.  Þetta er í mínum huga tilraun til að setja þessi fyrirtæki á hausinn og hefur ekkert, nákvæmlega ekkert með rekstrarlega stöðu þeirra að gera.  Á sama tíma og bankarnir sæta þessum ofurkjörum, þá fær einn viðskiptavina þeirra, Orkuveita Reykjavíkur, lán með 9,8 punkta álagi.  Kannski Glitnir ætti að fá OR til að taka lán fyrir sig!  Mér sýnist sem hræætur markaðarins séu búnir að færa sig alfarið frá olíunni yfir í skuldatryggingarálagið.


mbl.is Ísland flautað úr leik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengistryggð lán eða verðtryggð lán, það er spurningin

Ástandið á gjaldeyrismarkaði er skuggalegt.  Nokkuð sem varla hefur farið framhjá nokkrum manni hér á landi.  Gengisvísitala krónunnar hefur á 14 mánuðum farið frá því að vera 110,7 24.júlí 2007 í 120,5 um áramót í það að vera 156,3 28. mars og núna er hún 206,0.  Breytingin frá því 24/7/07 er 86%, sem þýðir 53,7% lækkun íslensku krónunnar.  Gengisvísitala lýsir vegnu meðaltali ákveðinna mynta og því geta einstakar myntir hafa breyst meira en aðrar.  Tvær myntir skera sig úr, þ.e. svissneski frankinn með um 100% hækkun og japanska jenið með um 114% hækkun.

Sem afleiðing af þessu blæðir mörgum sem eru með lán í erlendri myntkörfu.  En málið með myntkörfulán er að höfuðstóll þeirra sveiflast upp og niður með genginu.  Af þeirri ástæðu eru miklar líkur á að höfuðstóll lánanna eigi eftir að lækka talsvert á næstu mánuðum.  (Ég læt mig dreyma um að ástandið skáni nú eitthvað.)

En hvernig standa þessi lán samanborið við verðtryggð lán?  Málið er að til lengri tíma, þá standa þau sig bara vel.  Ég er með alls konar lán sem húsnæðislán, þ.e. nokkur verðtryggð lán frá Íbúðarlánasjóði og nokkur myntkröfu lán.  Eitt erlendu lánanna er 100% í svissneskum frönkum, annað er blönduð karfa jen, frankar, dollarar og evrur og þriðja lánið er jen og frankar.  Þegar ég ber saman stöðu þessara lána og breytingu á höfuðstól þeirra, þá kemur ýmislegt í ljós. 

Verðtryggðu lánin eru til 40 ára og er ég búinn að greiða af þeim í tæp 9 ár.  Meðalgreiðsla af þeim er um kr. 7.500 á hverja milljón á mánuði.  Þrátt fyrir að hafa borgað af þeim allan þennan tíma hefur höfuðstóll þeirra hækkað um 48,8%.  Inn í þetta eiga svo eftir að koma verðbætur vegna verðbólgu frá 15. ágúst.

Svissnesku frankarnir eru til 30 ára og er ég búinn að borga af þeim í rúm 4 ár, en auk þess var fyrsta árið bara vaxtagjalddagar.  Meðalgreiðsla af þeim hefur verið um 6.000 kr. á mánuði á hverja milljón.  Þrátt fyrir 100% hækkun frankans á 14 mánuðum, þá hefur höfuðstóll þessa láns aðeins hækkað um 51,8% og þar af um 16% á rétt um viku.

Blandaða karfan með jenum, dollurum, frönkum og evrum, er 10 ára lán.  Meðalgreiðsla af því láni hefur verið innan við 13.000 kr. á hverja milljón á mánuði og hefur höfuðstóll lánsins lækkað um 7,9% á þeim 5 árum sem ég hef greitt af því.  Verðtryggt lán með sömu lengd hefur lækkað um 12% á sama tíma, en þar eiga nýjustu verðbætur eftir að koma ofan á.

Miðað við þessar tölur, þá standa gjaldeyrislánin sig síst verr en verðtryggðu lánin, þrátt fyrir hrun krónunnar!  Vissulega koma lán sem tekin hafa verið á síðustu tveimur árum illa út varðandi hækkun höfuðstóls, en þar sem ég ætla að greiða af þeim næstu 20 - 30 árin, þá finnst mér það ekki vera marktækt.   Stærsti munurinn á þessum tveimur tegundum lána, eins og ég benti á áðan, er að höfuðstóll gjaldeyrislánanna á eftir að lækka um leið og krónan styrkist (sem getur ekki annað en gerst) og síðan með hverri afborgun, meðan höfuðstóll verðtryggðu lánanna heldur áfram að hækka í hvert sinn sem verðbætur eru meiri en nemur afborgun af verðbættum höfuðstóli.  Ef krónan styrkist ekkert að ráði næstu mánuði, þá verður greiðslubyrðin af erlendu lánunum frekar þung, en greiðslubyrði verðtryggðu lánanna mun einnig aukast.  Við síðustu mælingu á verðbólgu var hún 14%.  Síðustu 30 daga hefur krónan veikst um rúm 22% og eiga áhrifin af því eftir að koma inn í verðbólgumælingar.  Við getum því reiknað með að verðbólgan fari upp í 20 - 25% áður en hún fer að lækka.  Styrkist gengið hratt á næstu mánuðum, þá gæti það vissulega gerst að í stuttan tíma verði verðhjöðnun, en hún verður aldrei nóg til að vega upp þær miklu verðbætur sem hafa og munu bætast á verðtryggð lán í tengslum við þær efnahagshremmingar sem núna eru í gangi.

Milljón dollara spurningin er: Hver verður þróun gengis annars vegar og vísitölu neysluverðs hins vegar næstu mánuði og ár?  Ef eitthvað er að marka fortíðina, þá megum við búast við að verðbólga verði 4-5% á ári að meðaltali og að krónan (eftir að hún hefur náð nýju jafnvægi) veikist um 1 - 2% á ári. Miðað við slíkar forsendur, þá verður uppsöfnuð 10 ára verðbólga á milli 48 og 63% meðan uppsöfnuð 10 ára veiking krónunnar milli 11 og 22%.  Við skulum hafa í huga, að það mun taka krónuna skemmri tíma að finna jafnvægið sitt, en það tekur verðbólguna.  Ástæðan er einföld:  20 - 25% verðbólga mun hafa mikil ruðningsáhrif í þjóðfélaginu svo sem mikilli hækkun launa, sem skilar sér út í verðlagið og veldur meiri verðbólgu.  Þó svo að Seðlabankinn miði alltaf við að ná verðbólgumarkmiðum sínum á 2 árum, þá er það óraunhæft við núverandi aðstæður af framangreindum ástæðum.  Nær er að búast við því að verðbólgumarkmið náist á 3 - 4 árum með stöku víxlspori upp og niður á tímabilinu.

Verði þróun gengis og verðbólgu í dúr við það sem ég er að spá, þá liggur í augum uppi að gjaldeyrislánin verða hagstæðari til lengri tíma litið.  (Það veltur þó á vöxtunum.)  Þau taka í núna, en það er betra að láta þau bíta mann fast og vita af því, en að vera með verðbætt lán sem éta mann án þess að maður verði þess var.  Loks má ekki útiloka að við verðum komin með einhvern allt annan gjaldmiðil innan nokkurra ára og þá getum við bara skipt öllum lánum yfir í óverðtryggð, lágvaxta lán sem ofgera ekki greiðslugetu okkar með jöfnu millibili.  (Það er allt í lagi að láta sig dreyma.)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 44
  • Frá upphafi: 1678220

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 43
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband