Leita í fréttum mbl.is

Hér um bil ekkert gerst á fasteignamarkaði í tvö ár

Fasteignamarkaðurinn er nokkurn veginn botnfrosinn.  Hann er búinn að vera það í um tvö ár.  Veltan á þessum hefur verið ýmist hræðileg eða ömurleg, a.m.k. fyrir þá sem eru með eignir til sölu.  Ástæðurnar eru nokkrar, en óvissan á lánamarkaði vegur þyngst ásamt stökkbreytingu höfuðstóls lána.  Erfitt er að selja eign, sem er með lán sem hefur hækkað um 30, 40, að maður tali ekki um 50% á tveimur og hálfu ári.  Það er bara því miður saga margra.

Ég þekki þetta vel á eigin skinni, þar sem við hjónin erum búin að vera með raðhúsið okkar á sölu frá því í febrúar 2008.  Ég held ég ýki ekki þó ég segi að innan við sex mögulegir kaupendur hafi komið að skoða.  Þó höfum við lækkað verðið mikið og um tíma, þá settum við ekki ákveðið verð á eignina.  Þetta væri svo sem í lagi, ef við stæðum ekki í byggingarframkvæmdum, þar sem treyst var á að peningur af sölu hússins kæmi inn á síðari stigum framkvæmda.  Nú þurfum við í staðinn að brúa bilið með meira af sjálfsaflafé, sem er svo sem allt í lagi, en þýðir bara að framkvæmdir ganga hægar.

Ég býst við að nokkuð margir séu í þessum sporum.  Jafnvel full margir.  Þessi hópur hefur vissulega boðist fleiri úrræði en hinum almenna lántaka, en það getur verið þungt að vera með vaxtaberandi skuldir á fleiri en einni eign.  Svo dæmi sé tekið, 5% vertryggðir vextir í 10% verðbólgu gerir 150 þús. kr. á hverja milljón.  Margfaldi maður það með 40, þá eru það 6 m.kr. Nú fyrir utan allan þann tíma sem fer í hlaup á milli fjármálastofnana.  Ég tel það í vikum vinnuna, sem hefur farið í að halda sjó, án þess að það sjáist eitthvað frekar til lands núna en fyrir einu og hálfu ári.

Ekki hef ég hugmynd um það hve margir eru í þessari stöðu, en tala þeirra er vafalaust einhver þúsund.  4 - 5 þúsund er ekki ólíklegur fjöldi.  Hafi hver sett 4 vikur í að halda sér á floti síðustu 14 mánuði, þá gerir það 16 - 20 þúsund vikur eða 350-440 mannár sem jafngilda 1 - 1,3 milljörðum króna í töpuðum vinnustundum miðað við meðallaun upp á 250 þús.kr. á mánuði.

Það er svo sem hægt að reikna sig út í hið óendanlega, en eitt er víst, að mikið yrði ég feginn, ef mér tækist að selja.  Þannig að ef einhver er þarna úti og viðkomandi vantar rúmlega 200 fm raðhús á besta stað í Kópavogi, þá er ég með eitt Smile


mbl.is Veltan á fasteignamarkaði 4,6 milljarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Egill Guðnason

Þetta er vissulega slæm staða sem þú og þín fjölskylda eruð í. Því miður er saga þín einmitt lýsandi dæmi um það, hve illa fór fyrir allt of mörgum. Endalaust áreiti lánastofnana, sem buðu ómældar fúlgur fjár, til kaupa á hinu og þessu. Bílum, fellihýsum, sumarbústöðum, öðru húsi....og bara "you name it". Það sem hins vegar vantar í umræðuna er ábyrgð ÞÍN í öllu þessum ólgusjó. Ef bara helmingur þeirra sem tóku lán á "kjörum sem voru svo hagstæð, að það var barasta engan veginn hægt að láta þau fram hjá sér fara" hefði rifið sig upp á rassgatinu og hugsað örlítið út fyrir rammann, væri skaðinn sennilega ekki alveg eins mikill. Það er ekki hægt að varpa allri ábyrgð á lánastofnanir og "útrásarsíkinga". Þeir nærðust, þegar upp er staðið á því, að fólk hugsaði aldrei dæmi sitt til enda, heldur lét glepjast af gylliboðum og skammtímasjónarmiðum. Þeir sem ekki höguðu sér svona, þurfa síðan að borga brúsann!!!! 

Halldór Egill Guðnason, 19.12.2009 kl. 01:34

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Halldór, ekki er ég að varpa ábyrgð á einn eða neinn í þessari færslu og allra síst að víkja mér undan henni.  Ég er bara að lýsa stöðu sem er á fasteignamarkaðnum og hvaða afleiðingar hún hefur.

Það kom fram hjá finnskum blaðamanni, sem tók viðtal við mig í febrúar, að hópurinn með tvær eiginir hafi verið sá sem verst út úr kreppunni þar á sínum tíma.  Botnfrosinn fasteignamarkaður hafi sett marga á hausinn.

Marinó G. Njálsson, 19.12.2009 kl. 08:58

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Til viðbótar:  Ég hugsaði dæmið til enda, en gerði árið 2005 að vísu ekki ráð fyrir gengishruni 2008.

Marinó G. Njálsson, 19.12.2009 kl. 09:00

4 Smámynd: Atli Hermannsson.

Alltaf athyglisvert þegar menn fara í flatskjágírinn eins og Halldór gerir. Því vil ég taka það fram að ég eignaðist fyrst túpu-sjónvarp með fjarstýringu fyrir fimm árum. Þá fékk ég lánaðan tjaldvagn eina helgi í sumar og fannst það bara ágætt. Ég hef aldrei keypt neitt á afborgunum og á engin “leikföng” fyrir fullorðna. Glæpur minn fellst í því að ég tók erlent lán í árslok 2004 fyrir hönd sprotafyrirtækis sem þá var að koma sér á lappirnar. Þá hafði ég til hliðsjónar að 10 árin þar á undan hafði gengi krónunnar lækkað að meðaltali um 6% gagnvart myntkörfunni sem ég tók lánið í. Síðan hefur lánið hækkað um 120%

... Mætum á Austurvöll klukkan þrjú í dag.      

Atli Hermannsson., 19.12.2009 kl. 12:59

5 identicon

Afleiðingarnar fyrir almenning Halldór eru í engu samræmi við meinta óráðssíu.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 19.12.2009 kl. 13:48

6 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Já það er erfitt að spá og sérstaklega um framtíðina. Ég veit að það eru margir í þessari stöðu og það er ekki í fyrsta skipti sem sú staða kemur upp á liðnum árum. Ég var alltaf hrædd við það þegar fólk var að kaupa án þess að hafa selt. Öðruvísi finnst mér þegar menn eru að byggja sjálfir. Atli ég er líka svona sérvitur í sambandi við að kaupa hluti. Er með gamalt túbusjónvarp sem er að bila. Stundum er myndin blá stundum bleik og stundum í lagi. Bíð bara eftir að lampinn fari alveg og fer þá líklega í flatskjáinn :). Þú hefur semsagt haft sömu upplýsingar og bankafólk þegar þú tókst lánið. Varla glæpur að taka lán þegar menn eru að stofna fyrirtæki. Halldór ég reyni alltaf að hugsa mín mál til enda og ekki hrifin af því að bera ábyrgð á þeim sem ekki gera það en þeir eru nokkrir eins og við vitum öll en sumt er bara ekki hægt að sjá fyrir. Kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 20.12.2009 kl. 20:34

7 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

og Marinó, besta stað ??? Þú býrð þá hérna við hliðina á okkur Atla ? :) Gott að búa í Kópavogi. kv.ks.

Kolbrún Stefánsdóttir, 20.12.2009 kl. 20:45

8 Smámynd: Billi bilaði

Setti á sölu í jan. 2008. Tveir hafa komið að skoða, engar aðrar fyrirspurnir. Ásett verð hefur lækkað tvisvar um 5 millur í hvort sinn.

Mig vantar enga andskotans aðstoð. Ég þarf bara að geta selt til að fólk eins og Halldór geti sofið rólegt á sinni peningadýnu.

Billi bilaði, 20.12.2009 kl. 22:38

9 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Eins og ég hef ítrekað tekið fram í gegn um tíðina, þá er glæpur minn sá að fjölskyldan stækkað árið 2002.  Við biðum í 3 ár með að hefja undirbúning að því að stækka við okkur, fengum úthlutað lóð haustið 2005 og gátum byrjað að byggja 2006, sem við gerðum.  Okkar mistök voru að flýta okkur hægt og síðan var bara bið eftir öllu á þessum tíma.  Það tók tíma að fá leyfi, fá teikingar samþykktar, finna byggingarstjóra, svo var veturinn 2006-7 mjög óhagstæður fyrir jarðvegsvinnu, verkliður sem átti að taka tvær vikur tók 6 og upp í 12 vikur, einingarnar sem okkur var lofað um miðjan júní komu um miðjan september.  Ég gæti haldið svona endalaust áfram, en allt þetta varð til þess að húsið sem átti að vera tilbúið haustið 2007 er ekki ennþá tilbúið.  Svona ganga hlutirnir fyrir sig og ósköp lítið við því að gera.  Þetta varð bara til þess, að það dróst að setja núverandi eign á sölu og nú sitjum við uppi með hana og það hamlar framkvæmdum enn frekar.  Það bítur hvað í rófuna á öðru. 

Það er hægt að vera með endalaus ef, en það leysir ekki vandann.  Það er líka hægt að vera vitur eftir á, en það leysir ekki vandann.  Besserwisserar eru út um allt, en þeir leysa heldur ekki vandann.  Þeir er meira að segja oft hluti af vandanum, þar sem vandinn fæst ekki ræddur vegna endalausrar visku þeirra um hvað hinir voru vitlausir.  Það eina sem leysir vandann, er að tekið sé á honum og þar hafa stjórnvöld gjörsamlega brugðist.  Bankarnir eru aðeins að ranka við sér, en enn sem komið er, er það full lítið.

Marinó G. Njálsson, 20.12.2009 kl. 23:22

10 Smámynd: Offari

Mér finnst erfitt að kaupa. Ekki það að ég eigi ekki pening heldur kæri ég mig ekkert um að borga eitthvað umfram matsverð fyrir eignir. Frostið heldur áfram þar til annaðhvort skuldir verða afskrifaðar eða fasteignirnar fara á nauðungarsölu.

Ég hef gert mörg tilboð en samt fer ég aldrei upp fyrir brunabótamat en reyni samt helst að miða við fasteignamat. Þess ber þó að gæta að ég veit í það minnsta hafa þrjár eignir farið á lægri pening en ég bauð í þær svo varla er hægt að saka mig um nísku þegar eignirnar seljast á minni pening eftir að bankinn hefur selt á sínum frábæru kjörum.

Það er eins og að bankarnir vilji ekki taka staðgreiðslutilboðum því þeir fá meira fyrir eignirnar með því að selja þær á lánum en að taka hærri staðgreiðslutilboðum.

Offari, 21.12.2009 kl. 11:22

11 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Marinó ég þekki svona dæmi þar sem ungt og velgefið fólk lentu í fasteignaklemmu. Þau áttu parhús en ákváðu að þau vildu heldur vera í Garðabæ en Hafnarfirði. Þau vildu ekki skulda og fóru að byggja sjálf. Tekið skref fyrir skref með verktökum og góðum vinum og fjölskyldu. Þurftu loks að taka lán út á gamla húsið þar til hitt varð fokhelt og veðhæft. Síðan var tekið út á það og var meiningin að láta hitt lánið fylgja með þegar yrði selt. Allt í einu hrundi allt yfir þau og þau verða að leigja húsið sitt fyrir skuldunum en hitt er ekki íbúðarhæft né söluhæft því skuldin er hærri en núverandi markaðsverð og bankinn neitar. Þurftu að flytja heim til mömmu. Skuldirnar tvöfaldast og barist er við að halda viðkomandi frá gjaldþroti til að missa ekki starfið sitt og réttindi. Það voru ekki allir óráðsíumenn þó þeir séu í klemmu í augnablikinu. Offari ég held að þetta sé ákvörðunarfælni. Bankarnir vilja ekki samþykkja yfirtökur lána ef lánin eru hærri en kaupverð fyrr en þeir eru búnir að leysa eignina til sín. Þeir vilja líka frekar hafa lánin á þeim heldur en ekki. Það er áskrift að laununum okkar í jafnmörg ár og lánið tikkar. Kveðja Kolla. 

Kolbrún Stefánsdóttir, 21.12.2009 kl. 20:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.9.): 6
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 1679457

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband