Leita í fréttum mbl.is

Hver er ábyrgð lánveitanda?

Hæstiréttur staðfest í dag synjun Héraðsdóms Reykjavíkur um tímabundna greiðsluaðlögun öryrkja , þar sem hann var talinn hafa hagað fjármálum sínum á ámælisverðan hátt.  Í frétt á visir.is er birtur eftirfarandi texti úr dómi héraðsdóms:

..af því að skuldari hafi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt, hann tók fjárhagslega áhættu sem var í engu samræmi við greiðslugetu hans á þeim tíma sem til fjárskuldbindinganna var stofnað og hann hafi á þeim tíma verið með öllu ófær um að standa við þær.

Síðan er greint ná um fjárhagsstöðu lántaka á tíma lántöku:

Fasteignina keypti maðurinn á 39 milljónir árið 2006 en sama ár keypti hann bíl fyrir rétt rúmar fjórar milljónir króna. Hann tók lán fyrir báðum kaupunum og voru þau að stórum hluta í erlendri mynt. Það ár var maðurinn með samtals um 2,5 milljónir króna í örorkubætur og laun.

Nú spyr ég bara:  Hvor sýndi af sér ámælisverða háttsemi lánveitandinn eða lántakinn?  Í mínum huga er það alveg á tæru, að maður með 2,5 m.kr. í árstekjur og með 3 börn á framfæri getur ómögulega haft greiðslugetu fyrir 39 m.kr. fasteign.  Þessi einstaklingur hafi því aldrei átt að standast greiðslumat.  Sá starfsmaður bankans, sem samþykkti greiðslumatið og síðan að veita lán fyrir 39 m.kr. eign var sá sem sýndi af sér ámælisverða háttsemi.  Samkvæmt almennum reiknireglum, þá nemur mánaðarleg greiðsla um kr. 5.500 af hverri milljón sem er skuldað.  Þó lánið hafi bara verið 30 m.kr., þá hefði greiðslubyrðin átt að vera 165.000 kr. á mánuði eða kr. 1.980 þús.kr. á ári.  Drögum þá upphæð frá 2,5 m.kr. og blessaður maðurinn hefði verið með 520 þús.kr. til framfærslu og annarra útgjalda allt árið eða 43 þús.kr. á mánuði. 

Þetta er náttúrulega sagt, að því gefnu, að lántaki hafi veitt bankanum réttar upplýsingar um hag sinn.  

Annars held ég að þetta sé bara gott dæmi um þá vitleysu sem var í gangi á þessum árum.  Þetta sýnir líka þann augljósa galla sem er á fyrirkomulagi neytendalána.  Einstaklingur fær lán upp á háar upphæðir til að kaupa bifreið.  Hann þarf líklega ekki að leggja fram neinar upplýsingar um greiðslugetu sína eða aðrar skuldbindingar.  Andlitið eitt nægir.  Ég held að það sé kominn tími til að breyta um vinnulag.  Lánveitandi má ekki vera svo blindur í ákefð sinni að lána, að honum sjáist ekki fyrir.  Auðvitað er ábyrgð lántaka líka mikil, en munurinn er þó, að lántakinn er ekki að láta af hendi verðmæti til notkunar.  Hann er ekki að taka áhættu af því að glata verðmætum eigenda fyrirtækisins.

Að þessu leiti er ég hissa á niðurstöðu Hæstaréttar, en hún um leið sýnir ágalla laganna.  Lánveitendur eru alltaf stikkfrí.  Þeir mega sýna af sér ábyrgðalausa hegðun og í versta falli fá þeir föðurlega ráðleggingu.  Ábyrgð lánveitenda er engin.  Neytendavernd er engin.  Miðað við þessa niðurstöðu, þá mega lántakar ekki búast við mikilli vernd frá dómstólum.  Þetta er greinilega, að mati dómstóla, allt almenningi að kenna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í Danmörk var svipað mál þar sem bankinn gaf ungu pari ráðgjöf  um að þau gætu keypt hús sem var umfram þeirra greiðslugetu.  Þessi ráðgjöf var kærð.  Málið fór svo þannig að unga parið fékk meðbyr og fékk dæmdar bætur og leiðrétting á þessari ráðgjöf sem þau fengu.

Mér líst ekkert á hvert þetta land er að stefna...... og virðist landflótti verða óumflýjanlegur.

Jónas (IP-tala skráð) 18.12.2009 kl. 07:56

2 identicon

http://www.forbrugerraadet.dk/nyheder-alle/bank-doemt-for-daarlig-kunderaadgivning/?ref=2826

Ég fann ekki hlekkinn með þessu máli sem ég lýsti hér á undan, en hérna er svipað dæmi um fjölskyldu sem fer í framkvæmdir.

Jónas (IP-tala skráð) 18.12.2009 kl. 09:32

3 identicon

Það er greinilegt að ólíkt hafast löndin að Danmörk og Ísland......

Lilja (IP-tala skráð) 18.12.2009 kl. 13:39

4 Smámynd: Halldór Bjarki Christensen

Þetta er vandasamt mál að henda reiður á. Ég er sammála þér um bankinn ætti að tapa peningum á því að lána manninum. Það er ótækt að áhættan af því að sjást ekki fyrir sé öll lögð á neytandann, en að nánast engu leyti á atvinnumanninn sem hann semur við. Eins ætti bankinn að hafa ráðgjafarskyldu, þeas skyldu til þess að segja viðskiptavininum að hann hafi ekki efni á því að kaupa hús ef greiðslubyrðin er hærri en heildartekjurnar. Sá sem gerði þetta greiðslumat hefur augljóslega ekki verið vakandi í vinnunni þann dag.

Grunnurinn að vanda þessa tiltekna manns virðist þó samkvæmt lýsingu hæstaréttar fyrst og fremst vera sá að örorkubæturnar duga engan veginn til þess að framfleyta honum og þremur börnum, sama hvort hann býr í leiguhúsnæði eða eigin íbúð. Árið sem hann keypti íbúðina var greiðslubyrðin af íbúðinni hærri en tekjur hans. Egill Helgason birti nýlega frásögn tekjulágrar konu sem gat ekki fengið lánað til þess að kaupa sér íbúð þó greiðslubyrðin myndi verða lægri en húsaleigan. Það er hin hliðin á þessarri stöðu - ekki að það afsaki bankann í þessu tiltekna máli.

Á móti ráðgjafarskyldu bankans kemur, eins og þú segir, að lántakandinn ber sjálfur ábyrgð á því að ráðast ekki í fjárfestingar sem hann hefur ekki efni á.

Það sem ég er að reyna að nálgast er, að það eru tvær hliðar á þessu máli. Í fyrsta lagi þá hefur löggjöf, sérstaklega neytendalöggjöf, varðandi fjármálamarkað og varðandi greiðsluerfiðleika og greiðsluþrot verið í ólestri á Íslandi svo lengi sem elstu menn muna. Það er ótækt að ein mistök geti hneppt fólk í ævilanga fátækt, hundelt af 'kröfuvakt' og öðru slíku. Greiðslujöfnunarlögin eru tilraun til þess að bæta þessa stöðu. Að því leyti til getur viðmiðið ekki átt að vera hvort viðkomandi hafi hagað sér á "ámælisverðan hátt", heldur hvort hann muni fyrirsjáanlega geta borgað skuldina.

Í öðru lagi verður löggjöf um greiðsluaðlögun að vera þannig að menn hafi ekki hvata til þess að kaupa sér dýra hluti og taka mikla áhættu í von um að skuldirnar gufi síðar upp, eða að taka ný lán eftir að þeim er ljóst að það stefni í greiðsluaðlögun. Ég er ekki að segja að þetta hafi verið tilfellið hjá þessum manni, heldur að almennt séð verði að skipta áhættunni þannig að bankinn hafi hvata til þess að gera vandað greiðslumat og veita sæmilega ráðgjöf, og að lántakandinn hafi ekki hvata til þess að reisa sér hurðarás um öxl. Það er væntanlega þetta sem menn hafa átt við þegar þeir settu skilyrðið um "ámælisverðan hátt" inn í lögin, enda stendur það við hliðina á skilyrði um að menn megi ekki taka lán með "ráðnum hug" um að leita greiðsluaðlögunar.

Lögin um greiðsluaðlögun (24/2009) stefna augljóslega að því að ná þessum markmiðum, en án þess að þekkja þetta tiltekna dæmi í meiri smáatriðum er erfitt að átta sig á því hvort undantekningarákvæðin sem beitt er í þessu tilfelli séu of breitt orðuð. Það virkar óneitanlega sem svo að það hefði verið sanngjarnt að fella niður hluta af skuldum þessa manns. En spurningin hlýtur að vera hvernig væri hægt að laga lögin, þannig að jafnvægið yrði betra?

Halldór Bjarki Christensen, 18.12.2009 kl. 14:40

5 Smámynd: Billi bilaði

Ástralar hrista höfuðið yfir þessum ólögum okkar.

Þar eru húsnæðislán eingöngu með veð í húsinu, og fari fyrirtæki á hausinn vegna óstjórnar bera stjórnendur ábyrgð á því gagnvart lögum, segja þeir mér. Alveg þveröfugt við okkur hér.

Billi bilaði, 20.12.2009 kl. 22:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 1678164

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 41
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband