Leita í fréttum mbl.is

Viðskipti snúast um að hámarka ávinning beggja aðila, ekki annars!

Einn nýju bankanna stærir sig af því í fréttatilkynningu að 2.000 viðskiptavinir gamla bankans hafi óskað eftir höfuðstólslækkun vegna verðtryggðra og gengistryggðra bílalána.  (Þeir kalla að vísu gengistryggð bílalán "bílalán í erlendri mynt", þó svo að gjaldeyrir hafi aldrei skipt um hendur í þessum viðskiptum.)  "Kostaboð" bankans felst í því að lækka höfuðstólinn en hækka vextina. 

Bara til að sýna hversu gott þetta tilboð er, þá langar mig að taka dæmið sem bankinn nefnir í tilkynningu sinni:

Bílakaupandi fékk lán upp á kr. 2,5 milljónir í nóvember 2007.  Var lánið gengistryggt og til 84 mánaða eða 7 ára.  Eftir að hafa borgað af láninu í 2 ár, þá stendur það í 4,6 m.kr.  Bankinn býður lækkun höfuðstóls í 3,5 m.kr.  Vextirnir breytast frá því að vera innan við 4% í það að vera breytilegir óverðtryggðir vextir sem núna eru 9,0% hjá bankanum.  Vaxtamunur er því 5%, ef ekki meira.  Það er núna einfalt reikningsdæmi að finna út hvort þessi vaxtamunur vinni upp lækkun höfuðstólsins.  Að vísu eru lánin ekki sambærileg.  Gengistryggða lánið er með jöfnun afborgunum, þ.e. höfuðstóllinn er alltaf greiddur niður um sömu upphæð og vöxtum bætt við.  Með þessari aðferð fer greiðslan lækkandi mánuð fyrir mánuð uns síðasta greiðslan er mjög lág.  Óverðtryggða lánið er jafngreiðslulán, þ.e. alltaf er greidd sama upphæð, en í upphafi vega vextir þyngra en afborgun höfuðstólsins.  Síðar á lánstímanum snýst þetta við.  Með þessu getur bankinn sagt með góðri samvisku að hann sé að innheimta vexti af ógreiddum höfuðstóli, þegar hann nær nokkurn veginn sömu upphæð tilbaka og áður en hann lækkaði höfuðstól lánsins og hækkaði vextina.

Skuldi maður 1 m.kr. og borgar 4% vexti af láni til 7 ára, hvað þurfa vextirnir að vera til að greiðsla af 770 þús.kr. láni verður sú sama?  Ég reikna með að allir bankarnir hafi velt þessari spurningu upp áður en þeir komu með tilboðin sín.  Þetta má auðveldlega reikna út.  Svarið er 12,1%.  Ekki er hægt að bjóða það, þannig að þá er fundin önnur leið.  Lengt er í láninu.  Sé lánið lengt um 3 ár, þá dugar að hækka vextina í 8,5% til að fá sömu upphæð til baka.  Sé lengingin 2 ár, þá þurfa vextir að vera um 9,5%.  Málið er að viðkomandi banki býður 3 ára lengingu á breytilegum markaðsvöxtum, sem eru núna 9,0% eftir að hafa lækkað fyrir helgi úr 9,5%.  Bankinn kemur því út í plús meðan markaðsvextir haldast á þessu róli.

[Leiðrétting við síðustu málsgrein:  Nú hefur bankinn auglýst þau kjör sem eru í boði.  Vextirnir eru 13,1% með 2,5% afslætti fyrsta árið.  Það er sem sagt ekki verið að lækka heildargreiðsluna neitt.  Nei, það er verið að hækka hana ríflega.]

Önnur áhætta fyrir bæði lántakann og bankann felst í gengisþróun.  Samkvæmt spá Seðlabankans frá því fyrir helgi bendir fátt til þess að krónan hressist í bráð.  Þessi banki er bjartsýnni, en á fundi í haust kynnti hann fyrir Hagsmunasamtökum heimilanna útreikninga, sem sýndu að bankinn gerði ráð fyrir 5% styrkingu krónunnar á ári næstu þrjú árin. Það þýðir 14,3% lækkun (þriðjaveldið af 0,95 er 0,857) höfuðstóls gengistryggða lánsins umfram lækkun vegna afborgana.  Geri ég ekki ráð fyrir að lánþeginn, sem verður búinn að breyta láninu sínu yfir í óverðtryggt lán njóti þeirra styrkingar krónunnar.

Annars eru þetta kjarakjör að að borga 3,5 m.kr. af láni sem í upphafi var 2,5 m.kr.  Gleymum því ekki, að við flutning uppreiknaðra lána heimilanna frá gamla bankanum til þess nýja, þá gaf gamli bankinn 44% afslátt.  Það þýðir að 4,5 m.kr. lán var að meðaltali tekið yfir á  kr. 2,52 m.kr.  Vá, það munar tæplega milljón á "kostakjörum" bankans og þeim kjörum sem hann fékk.  Hvað er í gangi?  Af hverju á bankinn að taka til sín helminginn af afslættinum strax og reyna að ná hinum helmingnum til sín með hærri vöxtum?  Hvert er siðgæði bankastjórnenda?

Mark Flanagan sagði í kvöldfréttum sjónvarps, að boð bankanna myndu skila lækkun greiðslna.  Ég held hann sé að misskilja eitthvað.  Eins og ég bendi á í síðust færslu, þá ætla bankarnir (allir nema einn) að ná til baka öllu sem þeir veita í afslátt, þó það taki 25 ár.  Ekkert verður gefið eftir!  Það kannski barnaskapur að vonast eftir auðmýkt, lítillæti og iðrun, þegar horft er til siðgæðis bankamanna.  Það er jú þeirra hlutverk að græða og helst sem mest.  Er það annars ekki?  Nei, það er nefnilega ekki þannig.  Það er hlutverk hvers einasta stjórnanda fyrirtækis að hámarka sameiginlegan ávinning fyrirtækisins og viðskiptavinarins af viðskiptasambandinu.  Þannig tryggir fyrirtækið, að viðskiptavinurinn vilji halda áfram að eiga viðskipti.  Blóðmjólki fyrirtækið einn hóp viðskiptavina, þá fara þeir (líklegast) annað og fyrirtækið þarf að finna ný fórnarlömb.  Sé ávinningurinn augljóslega beggja, þá heldur viðskiptavinurinn áfram að treysta fyrirtækinu.  Og þá er ég ekki að tala um skammtímaávinning heldur langtímaávinning.  Það er nefnilega þannig, að góðir hlutir gerast hægt.

Nú þurfa bankarnir að snúa sér aftur að teikniborðinu og koma með nýjar hugmyndir að aðgerðum.  Það væri vit í því að spyrja viðskiptavinina álits eða kalla þá til samráðs.  Mín reynsla er, að hugmynd sem unnin er í samvinnu fyrirtækis og viðskiptavinar, er líklegri til að njóta hylli, en sú sem sett er einhliða fram.

Þolinmæði margra viðskiptavina bankanna er á þrotum.  Peningar þeirra eru uppurnir.  Mönnum finnst furðulegt að mæta í útibúið sitt og tala við gamla þjónustufulltrúann sinn og það er eins og viðkomandi hafi misst minnið.  Muni ekki ráðgjöfina sem veitt var.  Muni ekki símtölin sem fóru fram, þar sem þrýst var á að færa lánin yfir í gengistryggð lán eða að færa innstæðurnar yfir í peningamarkaðssjóðina.  Og þeir sem muna, þora ekki að minna yfirmanninn á gildrurnar sem lagðar voru, því viðkomandi gæti misst vinnuna.  Höfum það alveg á hreinu, að fjölmargir starfsmenn bankanna kóuðu með yfirmönnum sínum í gömlu bönkunum og þeir eru enn að kóa með þeim í nýju bönkunum.  Af hverju lætur hinn almenni bankastarfsmaður bjóða sér að vera með ónýt verkfæri til að aðstoða viðskiptavini sína?  Af hverju heimtar hinn almenni bankastarfsmaður ekki almennileg úrræði fyrir kúnnann sinn?  Er það vegna þess, að það er auðveldara að þegja?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

Kannski stóra spurningin sem þarf að spyrja um bankana í dag sé: hver fer með völd bankanna?

  1. Er það ríkið sem á bankana?
  2. Eru það bankastjórnendur?
  3. Eru það kröfuhafarnir? 

Ég hef heyrt að hendur 1 og 2 séu bundnar af 3.

Getur það verið rétt?

Hrannar Baldursson, 15.12.2009 kl. 08:31

2 Smámynd: Höskuldur Pétur Jónsson

Athyglisverðir útreikningar og ekki við öðru að búast af hendi bankana.

En þurfum við nokkuð að spá í þessa útreikninga hjá bönkunum það eru jú þeir sem eru sekir um glæp,af hverju eigum við að taka þátt í glæpnum með þeim til að bjarga þeim frá gjaldþroti.

Er ekki komin tími til að fólk átti sig á því að það á bara að borga af sínum lánum eins og það samdi um í upphafi ,ekki feldum við gengið með handafli til að redda bönkunum út úr vandræðum sem þeir voru komnir í

Hver er munurinn á því að banki fari á hausin eða ég og þú?engin

Ef mitt fyrirtæki fer á hausinn þá er það bara gert upp og sama á að gilda um bankana þeir voru jú einkareknir.

Við eigum ekki að taka þátt í þessu bulli og standa saman og taka völdin í okkar hendur .

Þó við lendum í því að verða óvinsæl í einhvern tíma í útlöndum 

Við verðu fljót að vinna okkur út úr þessu með samtakamætti staðin fyrir að hokra hér í mörg ár til að borga óreiðuskuldir ótíndra glæpamanna.

MBK DON PETRO

Höskuldur Pétur Jónsson, 15.12.2009 kl. 15:34

3 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

"Við eigum ekki að taka þátt í þessu bulli og standa saman og taka völdin í okkar hendur" .

Algjörlega sammála Höskuldi Pétri !!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Power to the people!

Vilborg Eggertsdóttir, 15.12.2009 kl. 17:37

4 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Þetta óréttlæti sem verið er að troða upp á okkur endar ekki öðruvísi en með byltingu.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 16.12.2009 kl. 16:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband