Leita í fréttum mbl.is

Bjóða atvinnulausum að frysta lánin

Ég var að hlusta á ákaflega einkennilegt viðtal við Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, félagsmálaráðherra, sem tekið var við hana á Bylgjunni í morgun.  Ég verð að viðurkenna að stundum varð ég alveg gáttaður á blessaðri konunni.  Hún reyndi hvað eftir annað að snúa sér undan mjög ágengum spurningum Heimis og Kollu og gerði það ákaflega illa.  Í staðinn fyrir að svara spurningum, þá vísaði hún í svör Jóhönnu frá því í gær eða í hina svo kölluðu velferðarbrú, þ.e. kosningaloforð Samfylkingarinnar.  Hún talaði um 18 aðgerðir sem hefðu verið framkvæmdar, sem gott og blessað, en ekki eitt einasta af þeim atriðum sem eru komin í framkvæmd gerir eitthvað annað en að lengja í hengingarólinni.  Ég held, sem betur fer, að henni hafi ekki liðið allt of vel undir spurningunum og hafi stundum verið hreinlega að tala gegn sannfæringu sinni.

Einu hjó ég eftir í máli hennar. Það er nokkurn veginn ekkert búið að gera fyrir atvinnulausa.  Atvinnulausir, og þá sérstaklega þeir sem nýbúnir eru að missa vinnuna, eru líklegast í verstri stöðu ásamt þeim sem eru með tvær íbúðir, þ.e. eru búnir að kaupa/byggja en geta ekki selt.  Það er búið að koma með sértækar lausnir fyrir seinni hópinn, en ég vil stinga upp á því að atvinnulausir fái frystingu lána sinna á svipaðan hátt og þeir sem eiga tvær íbúðir.  Þá á ég við, að lán á núverandi húsnæði hins atvinnulaus sé hægt að frysta í hámark þrjú ár, eitt ár í senn.  Fái viðkomandi atvinnu á meðan frystingu stendur, þá komi frystingin til endurskoðunar með tilliti til launa í nýju starfi.  Hafi ástandið í þjóðfélaginu ekki batnað nægilega að þremur árum liðnum, þá þarf að skoða stöðuna upp á nýtt.

Að sjálfsögðu má slík aðgerð á engan hátt skerða möguleika viðkomandi til annarra almennra úrræða, sem t.d. kæmu út úr gerðardómi, sbr. tillögu talsmanns neytenda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Elfur Logadóttir

Marinó, þessi valkostur hefur lengi verið til staðar fyrir atvinnulausa, þess vegna þarf ekki að setja hann á núna sérstaklega. Eitt af skilyrðum Íbúðalánasjóðs fyrir frystingu lána í allt að þrjú ár (þarf ekki að frysta eitt ár í senn, hægt að taka ákvörðun um að frysta strax í þrjú ár) er breyting á högum, t.d. vegna tekjufalls.

Þegar ég var nemandi og hart var í ári hjá mér vegna verulegs skorts á tekjuflæði þá fékk ég heimild til þess að nýta mér þennan möguleika og gat ég þannig komist hjá vanskilum á mínum íbúðalánum.

Með tilkomu skuldbindinga hinna nýju íslensku ríkisbanka til þess að bjóða sömu úrræði og Íbúðalánasjóður, er þetta úrræði komið til annarra en einungis ÍLS.

Elfur Logadóttir, 4.5.2009 kl. 15:11

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þá hefur hann ekki verið til staðar hjá öðrum lánastofnunum, þar sem til okkar Hagsmunasamtökum heimilanna hafa komið margir sem misstu vinnuna í haust og eru núna atvinnuleysisbótum.  Saga þeirra allra er sú sama.  Þeir hafa ekki getað fengið lánum breytt eða þau fryst og eru komnir í mikil vanskil.

Marinó G. Njálsson, 4.5.2009 kl. 15:14

3 Smámynd: Elfur Logadóttir

Ég hvet ykkur í Hagsmunasamtökunum þá til þess að senda áskorun til bankanna og minna þá á að hluti af þeirra skuldbindingum varðandi það að bjóða sömu greiðsluerfiðleikaúrræði og Íbúðalánasjóður, sé að bjóða allt að 3ja ára frystingu á verðtryggðum lánum verði tekjufall hjá einstaklingi.

Hins vegar komum við enn að þessum þröskuldi að fyrst þarf að skuldbreyta vanskilunum, því frysting býðst einungis þeim sem eru með allt sitt í skilum. Skuldbreyting á vanskilum er annað greiðsluerfiðleikaúrræði sem Íbúðalánasjóður hefur alltaf boðið og bankarnir eiga þar af leiðandi að bjóða.

Haldið endilega þrýstingnum uppi, það komu tilmæli frá ríkisstjórninni til bankanna um að þeir eigi að bjóða þessi greiðsluerfiðleikaúrræði og að sjálfsögðu eigum við að halda bönkunum við efnið til þess að þeir geri það.

Elfur Logadóttir, 4.5.2009 kl. 15:34

4 identicon

Elfur Logadóttir. Skortur á tekjuflæði ??????

JK (IP-tala skráð) 4.5.2009 kl. 21:31

5 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Að frysta, þetta er svona svipað og fyrir mann sem á 10 skref eftir í hengingarólina, við skulum lengja líf hans með því að leyfa honum að ganga 15 skref??

Ægir Óskar Hallgrímsson, 4.5.2009 kl. 21:41

6 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ægir, ég skil alveg hvað þú átt við, en hvað er hægt að gera fyrir þann sem er búinn að missa stóran hluta tekna sinna?  Ekki setjum við hann í greiðsluaðlögun, hann græðir lítið á lækkun höfuðstóls og varla fellum við niður skuldirnar.  Frysting meðan atvinnuleysi stendur yfir er besta lausnin.  Ég myndi líka telja nauðsynlegt að lækka vexti á lánum viðkomandi.

Marinó G. Njálsson, 4.5.2009 kl. 21:50

7 Smámynd: Dexter Morgan

Já, hún var vægast sagt ræfilsleg í þessu viðtali. Vissi ekkert hverju hún átti að svara og þuldi bara upp blek á pappír, sem er einskinsvirði fyrir þá sem eru í vandræðum. Það versta er; að maður fékk það á tilfinninguna að félagsmálaráðherra væri ekki með á nótunum, vissi sannarlega ekkert um vandamál fólksins í landinu.

Dexter Morgan, 4.5.2009 kl. 21:54

8 Smámynd: Elfur Logadóttir

JK. Ég vann með skóla, og svo vann ég ekki með skóla, þannig að ég tapaði því tekjuflæði sem ég hafði gert áætlanir um og þurfti til þess að standa við skuldbindingar mínar í tiltekinn tíma. Frysting afborgana björguðu mér og fyrir vikið er ég í mjög viðunandi stöðu í dag, enn með mína íbúð (á ósköp lítið í henni, en það er önnur saga) held öllum lánum í skilum og er ein af þessum heppnu, svona miðað við ástandið á þjóðfélaginu.

Ef þú ert bara að gagnrýna orðalagið, þá er það líka í lagi - ég kenni lagadeild Háskóla Íslands um það :)

Ægir,

ég er ekki sammála þér. Að frysta lán getur algjörlega skilið á milli feigs og ófeigs hjá einni fjölskyldu. Ég er gangandi dæmi um nákvæmlega það. Ég hefði misst íbúðina mína ef ég hefði ekki fengið frystingu á mínum lánum - það eða ég hefði þurft að hætta í skóla, því á þessum tíma var nóg um vinnu. Ég valdi greiðslufrystingu í þrjú ár til þess að geta lokið námi og sé ekki eftir því í eina einustu mínútu.

Elfur Logadóttir, 4.5.2009 kl. 22:08

9 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Dæmið er bara þannig Marinó, til hvers komum við með tillögur, það er ekkert hlustað á þessar tillögur, ef stjórnin kemur ekki með tillöguna, þá er sú tillaga sú heimskasta sem komið hefur fram, þetta pakk á þinginu skilur ekki raddir fólksins.

Ægir Óskar Hallgrímsson, 4.5.2009 kl. 22:13

10 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Elfur, hvernig gastu fengið frystingu í 3 ár, er ekki bara verið að bjóða upp á 4 eða 3 mánuði, og hvernig virkar þá þessi frysting, bætast ekki vextir ofan á höfuðstólinn??

Ægir Óskar Hallgrímsson, 4.5.2009 kl. 22:15

11 identicon

Marinó, í svari þínu við ´commenti´ Ægis: Ertu að miða við að engin
niðurfærsla vísitölu verði? Og þeir gera það líkl. ekki, ekki miðað við
Gylfa Magnússon í viðtali hans við Björn Þorra Viktorsson í kvöld. Er þá
ekki kæra fólksins næsta skref?

EE elle

. (IP-tala skráð) 4.5.2009 kl. 22:20

12 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ægir, það vill svo til að þessar ríkisstjórnir hafa viljandi eða óviljandi hrint í framkvæmd talsverðum fjölda þeirra hugmynda sem ég hef sett fram í gegnum tíðina.  Þær hafa ekki verið útfærðar eins og ég hefði viljað, en ég virði viljann fyrir verkið.

Þú getur skoðað tillögulistann minn hér og hver staða mála var 9.4.09: Ekki ráð nema í tíma sé tekið

Frá þeim tíma hafa nokkur atriði bæst við á Done hliðinni.

Marinó G. Njálsson, 4.5.2009 kl. 22:23

13 Smámynd: Elfur Logadóttir

Ægir, ég tók mín lán hjá Íbúðalánasjóði þegar ég keypti íbúðina og þeirra greiðsluerfiðleikaúrræði gera ráð fyrir frystingu verðtryggðra lána í allt að 3 ár. Síðan er m.a.s. hægt að bæta við einu aukaári eftir það, ef rök standa til þess.

Þetta eru greiðsluerfiðleikaúrræði sem eiga að standa öllum til boða sem uppfylla skilyrðin. 3ja eða 4ra mánaða frystingar hef ég ekki heyrt um nema hjá erlendum íbúðalánum eða bílalánum.

Elfur Logadóttir, 4.5.2009 kl. 22:46

14 Smámynd: Elfur Logadóttir

Já og varðandi vextina. Það er þannig að áfallinn vaxtakostnaður á frystingartímabili leggst við höfuðstól skuldarinnar. Þetta leiddi til þess að afborganir mínar af láninu fóru úr ca 40 þús í ca 45 þús á mánuði eftir 3ja ára frystingu.

Elfur Logadóttir, 4.5.2009 kl. 22:49

15 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Marínó búinn að fara yfir þetta, gaman að sjá að mörg af þeim úræðum sem þú komst með hafi gengið eftir, spurning með hvað standi næst á prjónunum hjá stjórninni.

Ægir Óskar Hallgrímsson, 4.5.2009 kl. 22:52

16 identicon

Sæll

Það er ekki laust við að maður sé hugsi eftir að bæði Gylfi svarði Birni og Þórði í Kastljósi í kvöld og svo svör Steingríms um að það sé hreinlega ekki svigrúm til að leiðrétta mistök bankakerfisins. Mér fannst Björn mjög góður og gott að hafa hann sem bandamann í þeirri baráttu sem framundan er. Þessi punktur um að 'ferskt' fé hafi verið sett með pólitískri ákvörðun til að verja markaðsjóðina var mjög góður. Bæði er þetta þá okkar skattfé sem var notað í þessa eignatilfærslu með pólitískri ákvörðun, fé sem við sem skuldum megum síst við að sjá á eftir í svona almenna aðgerð til að bjarga eignum t.d. margra sem þurfa hugsanlega ekkert á því að halda!

Hitt er svo sorglegt að framundan sé hreint stríð sem ég held að fáir geri sér grein fyrir hvernig endi. Ég er þó farinn að sjá glitta í elda, því miður.

VJ

VJ (IP-tala skráð) 4.5.2009 kl. 22:53

17 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Takk fyrir upplýsingarnar Elfur.

Ægir Óskar Hallgrímsson, 4.5.2009 kl. 22:53

18 Smámynd: Marinó G. Njálsson

VJ, já, það stefnir í átök um aurinn.  Ég held að þessi sterku viðbrögð ráðherranna við greiðsluverkfallshugmyndinni, sem var sett fram sem möguleg framtíðarsýn, er að þau óttast að missa völdin til fólksins.  Samtakamáttur almennings reyndist í vetur vera mun sterkara vopn en nokkurn hafði grunað.  Nú vitum við (þ.e. almenningur) hvers við erum megnug og það er ekkert sem segir að við getum ekki endurtekið uppreisnina.  Ég spurði í færslu 10. nóvember: Þurfum við stjórnarbyltingu? Nú hún varð.  Það getur enginn útilokað aðra byltingu verði ekki hlustað á almenning.  Ég held líka að ráðamenn hefðu gott af því að lesa þýðingu mína á gamalli kínverskri dæmisögu sem heitir Hljóð skógarins Hún er öllum leiðtogaefnum holl lesning.

Marinó G. Njálsson, 4.5.2009 kl. 23:15

19 Smámynd: Elfur Logadóttir

Marinó, þarna held ég að þú hafir rangt fyrir þér, þvert á móti held ég að það sé raunveruleg góðmennska og ábending um skynsama nýtingu fjármuna sem knýja fram þessi viðbrögð.

Elfur Logadóttir, 4.5.2009 kl. 23:35

20 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég held, Elfur, að við verðum að vera sammála um að vera ósammála varðandi þetta atriði.  Ég sé enga góðmennsku í því að mismuna sparnaðarformum á þann hátt sem gert hefur verið.  Mér finnst það vera grimmd.  Mér finnst það vera grimmd að ætlast til þess að fólk taki töpuðum eiginfjárhlut í húsnæði sem hverjum öðrum kinnhest sem fólk hristir af sér. 

Það fæst ekki niðurstaða í málið fyrr en allir koma að borðinu.  Mér lýst vel á hugmyndir Gísla Tryggvasonar um gerðardóm. Nú er bara spurning hvort stjórnvöld þori að taka slaginn.  Mér var sagt að ekki sé þorandi að ræða við erlenda kröfuhafa, en ég vil endilega gera það.

Marinó G. Njálsson, 4.5.2009 kl. 23:55

21 identicon

Frystingin gerir ekkert við heildardæmið fyrir fólk.  Hjálpar fólki að tóra á meðan ránslánin hækka um milljónir.  Persónulega vil ég ekki sætta mig við það.  Og held að málsókn fjöldans sé þörf.

EE elle

. (IP-tala skráð) 4.5.2009 kl. 23:57

22 Smámynd: Marinó G. Njálsson

EE elle, auðvitað þarf að fá leiðréttingu mála.  Annað kemur ekki til greina sama hvað núverandi ráðherrar segja.  Við erum búin að tapa of miklum tíma og ástandið gerir ekkert annað en að versna.  Þangað til lausnin er fengin verður að koma í veg fyrir að fólk komist í vanskil vegna skertrar greiðslugetu eða stórhækkaðrar greiðslubyrði lána.

Marinó G. Njálsson, 5.5.2009 kl. 00:04

23 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Þið standið ykkur vel Marinó hjá Hagsmunasamtökum heimilanna enda hrósaði ég ykkur í nýjasta bloggi mínu enda ekki annað hægt eftir að hafa hlustað á Kastljósþáttinn í kvöld.

Gangi ykkur sem best í baráttu ykkar fyrir fjölskyldurnar í landinu.  

Jón Baldur Lorange, 5.5.2009 kl. 00:16

24 Smámynd: Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir

Leyfi mér að benda á bloggið hennar Láru Hönnu. Hún verður með spurt og svarað við mikinn mann í kvöld. Hún hefur einnig tengil á þýðingu á grein hans í FT.

Adda Þorbjörg Sigurjónsdóttir, 5.5.2009 kl. 07:27

25 identicon

"Marinó, þarna held ég að þú hafir rangt fyrir þér - - - góðmennska og ábending um skynsama nýtingu fjármuna- - "

Nei, Marinó hefur ekki rangt fyrir sér.  Yfirvöld eru fyrst að hugsa um ríkiskassann, ekki fólkið.  Þó sveik ríkið/yfirvöld fólkið illilega þegar glæpabankar fengu tækifæri til að ryksuga milljörðum upp í friði.  Og nú skal fólkið borga til dauðadags, ellegar það verður elt.  

EE elle

. (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 09:22

26 Smámynd: Elfur Logadóttir

Marinó, þú snerir þínu svari uppí allt annað en það sem ég var að bregðast við. Þú sagðir:

"Ég held að þessi sterku viðbrögð ráðherranna við greiðsluverkfallshugmyndinni, sem var sett fram sem möguleg framtíðarsýn, er að þau óttast að missa völdin til fólksins."

og ég brást við því: 

"Marinó, þarna held ég að þú hafir rangt fyrir þér, þvert á móti held ég að það sé raunveruleg góðmennska og ábending um skynsama nýtingu fjármuna sem knýja fram þessi viðbrögð."

Hér var ég að sjálfsögðu að vísa til þess að ráðherrarnir væru að ráðleggja fólki að fara ekki í "greiðsluverkfall" vegna þess að það væri afspyrnu óskynsamlegt fyrir fólkið, byggt á góðmennsku ráðherranna og ábendingu um skynsama nýtingu fjármuna. Ég var að bregðast við athugasemd um að viðbrögð ráðamanna á sunnudag voru talin sett fram af ótta. Ég minntist ekkert á mismunun sparnaðarforma eða hvernig fólk ætti að taka töpuðum eignarhlut enda myndi ég aldrei spyrna þá hluti við góðmennsku eða skynsama nýtingu fjármuna. Þú verður að gæta sanngirni í því hvernig þú snýrð út úr orðum mínum ;)

Elfur Logadóttir, 5.5.2009 kl. 10:03

27 identicon

Ætla nú bara að segja að ég skildi orðin líka þannig.  Fólk misskilur ekki viljandi.

EE elle

. (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 10:13

28 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Æi, Elfur, þessa góðmennsku þurfa heimilin líklegast ekki.  Þau þurfa góðmennsku í formi raunhæfra aðgerða þar sem fólk sér leið út úr vandanum án þess að missa húsnæðið sitt eða lenda í átthagafjötrum um aldur og ævi.  Ég er til í að fara leið gerðardómsins sem Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, hefur lagt til.  Ég hvet ríkisstjórnina til að samþykkja þá leið.  Með því mun hún, a.m.k. tímabundið, slá á óánægjuraddir í þjóðfélaginu.

Marinó G. Njálsson, 5.5.2009 kl. 10:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 276
  • Frá upphafi: 1680564

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband