5.5.2009 | 10:21
Hvað hafa stjórnvöld gert fyrir heimilin?
Það er gleðilegt að sjá að þingflokkur Borgarahreyfingarinnar lýsir yfir stuðningi við meginkröfur Hagsmunasamtaka heimilanna. Þetta kemur svo sem ekki á óvart, þar sem báðir hópar, þ.e. samtökin og Borgarahreyfingin, spretta upp úr hópi almennings sem hefur ofboðið aðgerðarleysi tveggja ríkisstjórna gagnvart vanda heimilanna.
Jóhanna Sigurðardóttir hefur stært sig af því að þessi ríkisstjórn og hin síðasta hafi gert margt fyrir heimilin. Mig langar að fara aðeins yfir þessar "aðgerðir", því í mínu huga eru þær heldur rýrar í roðinu. Á því eru þó heiðarlegar undantekningar.
- Greiðslujöfnunarvísitala: Hún var sett á og hefur vissulega tímabundin áhrif til að létta mánaðarlegri greiðslubyrði af heimilunum. Vandinn við þetta er að það tekur lengri tíma að greiða lánin og því mun heildargreiðslubyrði lánanna þyngjast. Þegar upp er staðið mun fólk greiða hærri upphæð vegna lánanna sinna, en samkvæmt gamla kerfinu. Niðurstaða: Engu er létt af heimilunum og heildargreiðslan eykst.
- Fjölgun úrræða Íbúðarlánasjóðs (ÍLS): Þetta er hið besta mál, en aftur er verið að líta til þess að lengja í lánum sem að lokum gerir það að verkum að fólk borgar meira. Niðurstaða: Engu er létt af heimilunum og heildargreiðslan eykst.
- Leigumarkaður ÍLS: ÍLS má leigja fólki húsnæði sem það missir. Vá. Fólk á ekki bara að missa húsnæðið sitt vegna þess að ríkisstjórnin missti tökin á efnahagsmálunum, það á að fá að leigja aftur húsið sitt. Væri ekki miklu nær að afskrifa strax nægilega mikið af skuldunum, til þess að fólk hafi efni á að greiða af afganginum? ÍLS hlýtur að vera með eitthvað viðmið varðandi leigugreiðslu. Ef viðkomandi hefur efni á að greiða þá upphæð í leigu og það er nóg fyrir ÍLS að fá þá upphæð upp í kostnað sinn, er þá ekki einfaldast að stilla höfuðstól lánanna þannig að árleg leigugreiðsla jafngildi árlegri afborgun og vöxtum lána og öðrum föstum kostnaði vegna húsnæðisins, sem annars mun falla á ÍLS. Slíkur kostnaður er t.d. fasteignagjöld, húseigendatrygging og brunatrygging. Niðurstaða: Rangur kostur valinn.
- Fellt úr gildi að skuldajafna megi barnabótum: Bara hið besta mál. Niðurstaða: Gott framtak, en vegur ekki þungt, þar sem skuldirnar verða ennþá til innheimtu.
- Fellt úr gildi að skuldajafna megi vaxtabótum: Skiptir máli fyrir þá sem fá vaxtabætur greiddar fyrirfram, sem ég veit ekki hvað það er stór hluti þjóðarinnar. Fyrir hina eru þetta fyrirheit sem nýtast fólki í ágúst og það er fullkomlega óvíst hvort þessi fyrirheit verða enn við lýði þá. Niðurstaða: Varla merkileg ráðstöfun og skuldirnar verða ennþá til innheimtu.
- Sveigjanleiki í opinberri innheimtu: Hvað þýðir þetta? Verður slegið af kröfunum eða verða þær geymdar og halda þær þá áfram að safna kostnaði? Þessi aðgerð kemur ekki fólki til hjálpar nema að það þýði niðurfellingu krafna. Niðurstaða: Enn eitt dæmið um að ríkissjóður skal fá sitt.
- Tímabundin heimild til niðurfellingar dráttarvaxta, kostnaðar og gjalda: Líklegast sú aðgerð sem gæti nýst fólki sem komið er í alvarleg vanskil hvað best af þeim aðgerðum sem hér er rætt um. Spurningin er: Hve lengi er "tímabundið"? Niðurstaða: Hið besta mál.
- Milda innheimtuaðgerðir allra ráðuneyta og stofnana ríkisins: Þetta hefur greinilega reynst innantómt loforð, þar sem Tryggingastofnun ríkisins og Lánasjóður íslenskra námsmanna höfðu ekki heyrt af þessu í janúar og hef ég raunar spurnir af því að LÍN hafi enn ekki heyrt af þessu. Báðir þessir aðilar hafa verið að senda fólki innheimtukröfur vegna ofgreiðslna. Fyrir utan að, ef lögin hennar Jóhönnu um greiðslujöfnun hefðu nú farið í gegnum þingið á sama hraða og hækkun áfengisgjalds og vörugjalda á eldsneyti, þá væri þessi aðgerð óþörf. Niðurstaða: Innantómt loforð, þar sem sumir hunsa tilmælin.
- Dráttarvextir lækkaðir: Gott mál, en þeir eru ennþá við okurmörk og það eru yfirdráttarvextir líka. Hvers vegna í ósköpunum eru dráttarvextir 24% á sama tíma og verðbólga er 0,5%? Niðurstaða: Jákvætt skref, en með þessu áframhaldi komast þeir í viðundandi horf um aldamót.
- Reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar: Reglugerðin kom til framkvæmda um áramót um leið og ný innheimtulög tóku gildi. Ég vil spyrja að leikslokum varðandi þetta. Eða eins og segir: Dag skal að kvöldi lofa og mey að morgni. Niðurstaða: Hugmyndin er góð, en hver verður framkvæmdin?
- Endurgreiðsla vörugjalda og VSK af bifreiðum: Þetta er nú varla aðgerð sem kemur heimilunum vel. Hún hefði betur verið í flokknum með aðgerðum fyrir fyrirtækin. Niðurstaða: Hefur óveruleg áhrif fyrir heimilin.
- Frysting og í framhaldi greiðslujöfnun gengisbundinna lána: Þetta kom til framkvæmda 5 mínútum fyrir kosningar. Íslandsbanki var byrjaður eitthvað fyrr og uppskar mikla gagnrýni fyrir að flýta sér of mikið. Ólíkt öðrum aðgerðum, þá getur þetta leitt af sér lægri heildargreiðslubyrði, þar sem styrking krónunnar skilar sér á seinni gjalddögum. Niðurstaða: Hið besta mál.
- Hækkun vaxtabóta: Vaxtabætur voru hækkaðar um allt að 30% hjá tekjulágum og um allt að 500% hjá fólki í næsta tekjuhópi fyrir ofan. Peningurinn sem notaður er í þetta er fenginn af skatttekjum af útgreiddum séreignasparnaði (sjá næsta lið). Niðurstaða: Hið besta mál, en nær hefði verið að fjórfalda vaxtabæturnar. Sjá einnig næsta lið.
- Útgreiðsla séreignasparnaðar: Þetta var vissulega gert, en tæp 40% fóru í skatta sem notaðir voru til að hækka vaxtabætur. Mun betri lausn hefði verið að leyfa fólki að taka út séreignasparnaðinn skattfrjálst og sleppa hækkun vaxtabótanna. Þá hefðu mun fleiri nýtt sér þennan möguleika. Ríkið hefði vissulega tapað einhverjum skatttekjum, en sparað sér á móti hækkun vaxtabótanna. Niðurstaða: Röng útfærsla notuð.
- Bankar og sparisjóðir bjóða sömu greiðsluvandaúrræði og Íbúðalánasjóður: Þetta kom til framkvæmda daginn fyrir kosningar. Ég hvatti til þess í ágúst að þetta yrði gert. Í ágúst og jafnvel október hefði þetta nýst mjög stórum hópi sem hafa tapað stórum upphæðum vegna þessara tafa. Niðurstaða: Engu er létt af heimilunum og heildargreiðslan eykst.
- Skuldbreytingalán og lánalengingar um 30 ár í stað 15 áður: Vá, ég má vera skuldaþræll í tvöfaldan upphaflegan tímann. Þetta þyngir heildargreiðslubyrði um 40% ef ekki meira. Niðurstaða: Engu er létt af heimilunum og heildargreiðslan eykst.
- Greiðsluaðlögun samningskrafna: - Gildir bara fyrir suma og fólk má ekki vera komið í vanskil. Niðurstaða: Engu er létt af heimilunum og heildargreiðslan eykst.
- Frestun nauðungaruppboða fram til loka október: Var ein af fyrstu kröfum Hagsmunasamtaka heimilanna sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur féllst á. Ganga hefði mátt lengra og fresta öllum aðfaramálum líka. Niðurstaða: Hið besta mál. Vissulega er engu létt af heimilunum og það á eftir að koma í ljós hvort ríkisstjórnin nýti tímann til að koma með varanlega lausn.
- Lenging aðfarafresta úr 15 dögum í 40: Eins og ég nefni að ofan, þá hefði verið nær að lengja þennan tíma enn frekar. Niðurstaða: Besta mál, en breytir litlu í reynd.
- Aukin stuðningur aðstoðarmanns og leiðbeiningaskylda vegna gjaldþrota: Á eftir að sjá þetta í framkvæmd. Þætti einnig gott að sjá ítarlegri leiðbeiningar í tengslum við nauðungarsölur og meiri réttarvernd fyrir þá sem missa eignir sínar í slíka sölu. T.d. virðast fulltrúar sýslumann hunsa algjörlega ákvæði laga um að ógilda nauðungarsölur, þegar óraunhæf boð berast í eignir. Þá er ég að nefna 1 milljón kr. tilboð í einbýlishús. Niðurstaða: Jákvætt framtak, en hverju á þetta eftir að skila?
Hér er kominn langur listi yfir "sértækar aðgerðir fyrir heimilin". Það kæmi mér á óvart, ef hagur heimilanna af þessum aðgerðum nái 100 milljónum. (Þá dreg ég skattgreiðslur vegna séreignasparnaðar frá útgreiddum vaxtabótum.) Það er fátt bitastætt í þessum aðgerðum. Ekkert sem skiptir verulegu máli. Það er ekkert í þessum aðgerðum sem verndar innkomu heimilanna. Það er óljóst hvert þessar aðgerðir munu auðvelda fólki að halda eignum sínum. Aftur og aftur er verið að auka heildargreiðslur eða auka kostnað. Aðeins í tveimur tilfellum er hægt að segja, að ríkissjóður sjái af tekjum eða verði fyrir útgjöldum sem heimilin bæta honum ekki upp annars staðar.
Á sama tíma hefur fjármagnseigendum verið hjálpað með framlögum í peningasjóði bankanna og tryggingu á innistæðum. Nú er ég ekki að segja, að ekki eigi að aðstoða fjármagnseigendur, en það verður að gæta jafnræðis. Aðgerðir bankanna þriggja, hvort sem um þær var samráð eða ekki, stuðluðu að gríðarlegri hækkun höfuðstóls lána og í framhaldinu af því mikillar rýrnunar á eigin fé heimilanna í fasteignum sínum. Samspil þessara tveggja þátta nemur vart undir 400 milljörðum. Hjón sem áttu eigið fé í húseign sinni upp á 30 - 40 milljónir í september 2007 eru hugsanlega komin í mínus upp á 20 milljónir. Einstaklingur sem átti eigið fé í íbúð sinni upp á 5 - 10 milljónir á sama tíma er líklegast kominn í sömu upphæð í mínus. Mismunurinn á að renna inn í afsprengi bankanna sem stóðu fyrir svindlinu.
Mín skilaboð til ríkisstjórnarinnar eru þessi:
- Vaknið af dvalanum og farið að gera eitthvað sem skiptir máli fyrir heimilin í landinu.
- Samþykkið án tafar tillögu talsmanns neytenda um gerðardóm.
- Breytið lögum þannig, að hægt sé að fara í hópmálssókn.
- Stuðlið að því að hægt sé að leita á skjótvirkan hátt úrlausnar á ágreiningsmálum um lögmæti gengisbundinna lána og forsendubrests verðtryggðra lána.
- Skapið atvinnulífinu eðlilegt rekstrarumhverfi svo hægt sé að fjölga störfum í landinu.
- Skapið heimilunum í landinu eðlileg skilyrði svo þeim hætti að blæða.
![]() |
Aðgerðir ríkisstjórnar ganga of skammt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (30.5.): 3
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 40
- Frá upphafi: 1673804
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 36
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- IT Governance Ltd. Einn staður fyrir allt vegna stjórnunar upplýsingatækni
- ISO 27001
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
- Fjármálaeftirlit
- Póst- og fjarskiptastofnun
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
13. Hækkun vaxtabóta: Vaxtabætur voru hækkaðar um allt að 30% hjá tekjulágum og um allt að 500% hjá fólki í næsta tekjuhópi fyrir ofan.
Útskýrðu þetta nánar, ég hef misst af því að hækkunin nemi 500% í næsta tekjuhópi
Stefanía (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 10:38
Það er einfalt. Vaxtabætur hjóna með yfir 12 milljónir í árstekjur fóru úr 30.000 í 180.000 eða sexfölduðust. Það gerir 500% hækkun. Krónutöluhækkunin upp á 150.000 er að auki umtalsvert meiri en hjá þeim tekjulægstu. Þú getur séð nánari útlistun á þessu í Breyting á vaxtabótum - Allt að 500% hækkun hjá tekjuháum, en 30% hjá tekjulágum!!! og í nefndarálitinum sem ég vísa til í færslunni.
Marinó G. Njálsson, 5.5.2009 kl. 10:48
Enn & aftur HJARTANLEGA sammála þínum skoðunum, enda hugsum við á sömu nótum. Þú mætir íhuga að senda nýja Samfylkingarráðherranum Ólavíu þinn pistil, þvi hún er svo "veruleikafirt" að það hálfa væri nóg. Hún seti inn færslu þar sem hún kvartar undan því að fjölmiðlar upplýsa ekki AÐGERÐIR ríkisstjórnar..! Vandamálið er í raun AÐGERÐALEYSI - flest allar þeirra hugmyndir tengjast því að FRESTA að taka á málum, lengja í hengingarólinni. Hún & SAMSPILLINGIN skilur ekki & hefur hugsanlega aldrei skilið ÞJÓÐ sýna. Manni verður yfirleitt flögurt að hlusta á fábjánanna sem stýra núverandi ríkisstjórn.
kv. Heilbrigð skynsemi
Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 12:02
Hvað viðbótalífeyrissparnaðinn áhrærir þá hefðu ríkissjóður og sveitafélögin alltaf fengið skattgreiðsluna á endanum þannig að aðeins er um að ræða að þær komi fyrr inn en akki að um hreina tekjkuaukningu sé að ræða. Það er því villandi framsetning að draga þá innkomu frá hækkun vaxtabóta. Hækkun vaxtabóta kostar ríkissjóð tvo milljarða.
Ég vil benda á einn alvarlegan galla í vaxtabótakefinu, sem er að mínu mati mjög slæmur akkúrat núna. Vaxtabótakerfið var hannað áður en myntkörfulán komu til sögunnar og hefur því ekki verið gert ráð fyrir þeim við hönnun þess kerfis. Þetta kerfi mismunar því þeim, sem eru með verðtryggð lán og þeim, sem eru með myntkörfulán lántökum myntkörfulána í óhag. Þar, sem reikna má meða að vandamálin séu mest hjá þeim, sem eru með myntkörfulán þá er þetta bagalegt. Ég get sýnt þér útreikninga fyrir því ef þú villt en þeir eru of langir og kosta og miklar útskýringar til að setja það inn í athugasemd hér.
Hvað varðar allar þær aðgerðir, sem þú kalla "að lengja í hengingarólinni" þá er það einfaöld staðreynd að þeim mun hægar, sem maður greiðir niður lán þeim mun hærri verða heildarvextirnir og það er ekkert óeðlilegt við það. Hafa ber í huga að ef fólk ræður ekki við greiðslubyrðina þá er betra að legngja í húsnæðislánunum heldur en af fjármagna greiðslurnar með dýrari skammtímalánum. Þetta eru því lausnir, sem minnka heildargreiðslur þegar upp er staðið hjá fólki, sem ekki ræður við greiðslubyrðina og þarf því að fjámagna sig með yfirdráttarlánum eða öðrum skammtímalánum til að standa í skilum. Það er alltaf hægt að stytta greiðslutíman aftur ef greiðslugetan eykst.
Ég hef áhyggjur af því að margir, sem gæti þannig bætt sinn hag með því að óska eftir greiðslujöfnunarvísitölu geri það ekki vegna þess hvernig þú og margir aðrir meðal annars Hagsmunasamtök heimilanna og Borgarahreyfingin hafið talað þessa lausn niður. Þeirra hagur er því verri en ella vegna þessara orða ykkar.
Hvað varðar niðurfærslur lána þá hverfa skuldir ekki við slíka niðurfærslu heldur er það aðeins einhver annar, sem er látin borga þær. Það munu aðallega vera skattgreiðendur og greiðsluþegar líferyrissjóða. Það er ekki hægt að réttlæta það að skattgreiðendur framtíðarinnar þurfi að greiða hærri skatta til að fjármagna mörg hundruð milljarða króna kostnað fyrir ríkissjóð við það að færa byrðar lántaka af lánum, sem þeir tóku yfir á aðra, sem ekki voru að taka þessi lán.
Ég tel þó réttlætanlegat að aðstoða þá með þessum hætti, sem keyptu sína fyrstu íbúð, stækkuðu verulega við sig eða keyptu en náðu ekki að selja á íbúðaverðbóluárunum 2005 til 2008. Þetta er það fólk, sem varð fyrir verulegu "tjóni" vegna þessarar verðbólu á íbúðahúsnæði. Þeir, sem kepytu sína íbúð fyrir þessa verðbólu geta ekki talist hafa orðið fyrir slíku "tjóni" þó eitthvert "pappírsverðmæti" frá árinu 2008 hafi tapast. Það er munurinn á kaupverði og núverandi verðmæti, sem skiptir máli.
Ég tel því að þær aðgerðir, sem stjórnvöld eru að framkvæma og þú telur þarna upp séu einu raunhæfu aðgerðirnar þó vissulega megi gera betur fyrir þá, sem hafa misst miklar tekjur. Flatur niðurskurður er hins vegar ekki réttlætanlegur að mínu mati og þá hvorki beinn niðurskurður né það að fara aftur í tímann hvað vístölu varðar. Það er fokdýr aðgerð, sem er mjög óskilvirk við að leysa vanda þeirra, sem standa höllum fæti og getur engan vegin talist sanngjörn leið að mínu mati enda "tjón" manna mjög mismunandi eftir því hvenær þeir keyptu sína íbúð. Enda er það svo að sú leið, sem Talsmaður neytendia er að leggja til gerir einmitt ráð fyrir mismunadi niðurfellingu lána eftir því hvenær þau voru tekin.
Ég geri fastlega ráð fyrir að slíkur gerðardómur varðandi húsnæðislán muni horfa á í samhengi hækkun lána og hækkun húsnæðisverðs frá því húsnæði var keypt. Hann mun því væntanlega ekki dæma neina lækkun lána til þeirra, sem eru í þeirri stöðu að síðan þeir keypti hafi húsnæðisverð hækkað meira en vísitölur lánanna. Enda get ég ekki séð að um neinn "forsendubrest" sé að ræða í þeim tilfellum. Þessi gerðardómur mun hins vegar hugsanlega dæma meira en 20% niðurfellingu hjá þeim, sem keyptu sína íbúð á toppi íbúðaverðbólunnar. Ég tel að slík nálgun á málinu sé mun réttlátari en flöt niðurfelling auk þess að kosta aðeins brot af því, sem hún kostar. Einnig mun sú leið koma í veg fyrir mun fleiri tilfelli þar, sem menn sitja eftir í yfirveðsettum íbúðum heldur en flata niðurfellingaleiðin.
Sigurður M Grétarsson, 5.5.2009 kl. 12:22
4. liður: Rangt, barnabótum er skuldajafnað allavega hjá mér í tvígang.
15. liður: Viðskiptaráðherra sagði í Kastljósinu í gær að hægt væri að fá "frystingu" á lánum. Þetta er lygi úr honum. Margir eru með íbúðarlán hjá lífeyrissjóðunum. Það besta sem þeir bjóða er frestun á "afborgunum" sem er oftast 10% af "afborgunum.
21. Það er allt lygi sem kemur frá stjórnvöldum. Rétt.
22. "Fólk mun að lokum eignast húsnæði sitt". Rétt. Sá sem er 50 ára mun vera 120 ára þegar hún/hann er búinn að borga og á langa framtíð í skuldlausu búi.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 5.5.2009 kl. 12:25
Samantekt á viðbrögðum stjórnvalda:
http://thorsteinnhelgi.blog.is/blog/thorsteinnhelgi/entry/870617/
Þorsteinn Helgi Steinarsson, 5.5.2009 kl. 12:30
Það var sérkennilegt að hlýða á helsta hagspeking vinstri manna Guðmund Ólafsson í silfrinu á sunnudag. Hans innlegg til alþýðunnar var að hún mætti í raun þakka fyrir að hafa ekki verið drepinn í þessari byltingu. Ef þetta eru ráðleggingar sem að Jóhanna hlustar á þá held ég að það sé kominn tíma á að aðrir taki við stýrinu.
Anna María Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 12:40
Samantektin er afar góð og nú verður maður bara að trúa talnavinnslu þinni. Það hefur svosem verið hægt hingað til.
Eitt langar mig að leggja í púkkið. Þú segir í lokaorðum "Skapið atvinnulífinu eðlilegt rekstrarumhverfi svo hægt sé að fjölga störfum í landinu." Þetta er vitanlega nauðsynlegt í ljósi þess atvinnuleysis sem nú er. Það sem er kannski enn brýnna er að grípa tafarlaust til ráðstafana sem skapa atvinnulífinu rekstrarumhverfi til að halda þeim störfum sem nú þegar eru til. Eins og þú veist er það mikið dýrara að skapa ný störf heldur en að halda uppi atvinnu sem í gangi er. Gerið allt sem hugsanlegt er til að halda fyrirtækjunum, að lágmarki, í þeirri mynd sem þau eru í dag. Ef það tekst gætu þau séð sjálf um að fjölga störfum. Fyrirtæki sem rekið er í gjaldþrot skapar engin störf þegar betur árar.
Ólafur Tryggvason Þorsteinsson, 5.5.2009 kl. 13:32
Frábær samantekt.
Þyngjum pressuna á almennar aðgerðir með leiðréttingu á vísitöluyfirskotinu . . . . . bæði fyruir fjölskyldur og fyrirtækin. Svo er það nú með lagagrunninn fyrir gengistryggingunni?
Benedikt Sigurðarson, 5.5.2009 kl. 14:31
Sigurður, þú segir:
Þetta er bara ekki rétt nema menn vilji að þetta sé rétt. Ég er búinn að benda á í færslum hér hvernig hægt er að haga þessu. Auk þess er í mínum huga og Hagsmunasamtaka heimilanna ekki um niðurfærslu að ræða heldur leiðrétting á ólöglegri hækkun.
Vegna orða þinna:
Ég bið þig um að benda mér á hvar ég eða Hagsmunasamtök heimilanna höfum "talað þessa lausn niður". Við erum í fullum rétti til að gagnrýna það sem okkur finnst vera ófullnægjandi úrræði, en ég fullyrði að hvorki ég né HH höfum "talað þessa lausn niður".
Þorsteinn, mér finnst myndin mjög góð.
Marinó G. Njálsson, 5.5.2009 kl. 16:37
Sigurður, eitt í viðbót. Mér hefði bara fundist mjög eðlilegt að bankarnir hefðu gefið eitthvað eftir um leið og lengt er í lánum, þó ekki væri annað en að lækka vexti. Nú varðandi greiðslujöfnunarvísitöluna, þá hefur hún ekki verið í boði nema hjá Íbúðalánasjóði.
Annars var ég í bankanum mínum áðan að spyrjast fyrir um úrræðin sem bankarnir skrifuðu upp á 8. apríl að þeir ætluðu að fara að bjóða. Á morgun eru 4 vikur frá undirskrift og þjónustufulltrúinn hafði ekki hugmynd um hvernig þetta yrði gert. Af hverju kom þetta mér ekki á óvart? Flestar svo kallaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa reynst innantóm orð, þar sem framkvæmdin eru undir hverjum og einum komin. Ríkisbankarnir eru t.d. á fullu í innheimtuaðgerðum og eru farnir að senda vanskil fyrr í löginnheimtu en áður. Ég hélt að það hafi átt að slaka á innheimtuaðgerðum og fara mýkri höndum um skuldara. Nei, það er sko alls ekki. Síðan svara þeir ekki fyrirspurnum viðskiptavina um lögmæti gengisbundinna lána. Ástæðan er einföld. Þeir vita upp á sig skömmina. Þeir brutu lög með því að bjóða þessi lán og fengu til þess stuðning FME og Seðlabankans. Ég held að ríkisstjórninni væri nær að kanna þetta, en að vera að skattyrðast út í almenning sem er á fullu að verja heimilin sín.
Ólafur, ég reyni að vanda útreikninga mína, en ég er oftast með safntölur, þannig að skekkjan getur verið einhver.
Marinó G. Njálsson, 5.5.2009 kl. 16:49
Hafðu bestu þakkir Marinó fyrir þettta greinargóða yfirlit yfir aðgerðir ríkisstjórnarinnar til hjálpar heimilunum. Við skulum vona að góðhjartaðir stjórnarliðar lesa pistilinn þinn með opnum huga. Svona blogg á það skilið að vera tekið alvarlega.
Jón Baldur Lorange, 5.5.2009 kl. 17:52
Takk fyrir það, Jón.
Mér yfirsást eitt atriði hjá Sigurði að ofan. Það varðar skatttekjur af séreignalífeyrissparnaði. Mér finnst ekki mikið mál, að ríkissjóður komi til móts við heimilin með því að slaka á sköttum vegna þessarar aðgerðar. Eins og Sigurður bendir á, er um framtíðarskattstofn að ræða. Spurningin er hvort það verði ekki sterkara fyrir framtíðarskattstofna ríkisins að gefa þessa eftir og aðstoða heimilin þannig í þeim vanda sem þau eru í.
Marinó G. Njálsson, 5.5.2009 kl. 18:24
Marinó: " Vá, ég má vera skuldaþræll í tvöfaldan upphaflegan tímann".
Og: "Vá. Fólk á ekki bara að missa húsnæðið sitt vegna þess að ríkisstjórnin missti tökin á efnahagsmálunum, það á að fá að leigja aftur húsið sitt".
Ótrúlega niðurlægjandi og veiklulegar ´lausnir´fyrir fólk. Já, já, það á að sparka í liggjandi menn.
EE elle
. (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 18:31
Hvað varðar fullyrðingar þínar um ólöglega hækkun þá á eftir að koma í ljós í þeim lögsóknum, sem Hagsmunasamtök heimilana standa fyrir hvort um ólöglega hækkun er að ræða eða ekki. Dómur um ólöglega hækkun gæti varla byggst á öðru en svokölluðum "forsendubresti". Það er nauðsynlset að fá úrskurðað um það annað hvort með dómsmáli eða gerðardómi hvort svo sé því með öðrum kosti er ekki hægt að velta þeim afsláttum yfir á erlendu kröfuhafana hvað baknana varðar.
Pólitísk ákvörðun um niðurfærslu án niðurstöðu dómstóla eða gerðardóms um að um forsendubrest sé að ræða gerir það að verkum að kostnaðurinn lendir á nýju bönkunum en ekki þeim gömlu og þar með á eigendum nýju bankanna, sem eru skattgreiðendur. Einnig mun slík lækkun gagnvart sparisjóðum lenda á stofnfjáreigendum sparisjóðanna en einnig mun það leiða til þess að eigið fé þeirra fer niður fyrir ásættanleg mörk í felstum ef ekki öllum tilfellum. Því þurfa sparisjóðirnir að fá inn aukið eigið fé og það verður varla öðrum til að dreifa en ríkissjóði og hugsanlega sveitafélögum á starfssvæði sparisjóðanna, sem væru tilbúnir til að leggja til það aukna eigið fé.
Það er því ljóst að niðurfærsla skulda, sem ekki hefur verið úrskurðað um af þar til bærum aðilum að sé nauðsynleg annað hvort út frá lagalegum forsendum eða vegna þess að lántaki sé ekki borgunarmaður fyrir skuldum sínum er beinn kostnaður, sem skattgreiðendur þurfa að taka á sig sé ákvörðunin tekin af stjórnvöldum. Allar fullyrðingar um annað standast enga skoðun.
Það er hins vegar rétt hjá þér að eitthvað virðist hafa klikkað með það að þær aðgerðir til hjálpar heimilum, sem boðaðar hafa verið gildi um aðra en lántaka hjá Íbúðalánasjóði. Því er mikil þörf fyrir að koma því svo fyrir að svo verði og þurfa stjórnvöld að taka sig saman í andlitinu hvað það varðar auk þess að taka með rótækari hætti á vanda þeirra, sem hafa misst miklar tekjur.
Ég tel það að það vera alltaf að hrópa það þegar greiðslujöfnunarvísitalan eða aðrar frestunarleiðir bera á góma að það sé ekkert annað en "lenging í hengingarólinni" sé að tala þessa leið niður. Ef ekki er beðið um þá lausn þá hækka bara aðrar skuldir og er það ekki síður "lenging í hengingarólinni". Einnig tel ég það vera út í hött að tala um greiðslufrestanir þegar um tímabundna erfiðleika er að ræða við að greiða af lánum ekki geta á nokkurn hátt flokkast undri það að "lengja í hengingarólinni".
Annað atriði varðandi upphafsinnlegg þitt. Ég var á fundi með Árna Páli Árnasyni alþingismanni í gær þar, sem málefni peningarmarkaðssjóðanna bar á góma. Hann sagði að það væri einfaldlega rangt að ríkissjóður hafi sett peninga inn í peningamarkaðssjóðinna, sem framlag til eigenda peningarmarkaðsbréfa. Hann sagði að þetta væri flökkusaga, sem væri einfaldlega röng. Hann sagði að bankarnir hefði keypt vissar eignir út úr sjóðunumn samkvæmt verðmati. Þeir ættu því nú þessar eignir og ef það verðmat, sem kaupverð þeirra var byggt á var ekki ofmat á verðmæti þeirra þá bæru bankarnir og þar með eigendur þeirra ekki kostnað af þeim aðgerðum.
Sigurður M Grétarsson, 5.5.2009 kl. 19:10
Sigurður, það er betra að svara þér í stuttum skömmtum
Öllu gríni sleppt, þá greinir okkur sérstaklega á um eitt atriði. Bæði ég og Hagsmunasamtök heimilanna tölum um leiðréttingu höfuðstóls lánanna, ekki niðurfærslu. Við viðurkennum nefnilega ekki að um löglega aðgerð hafi verið að ræða, þegar lánin hækkuðu. Hækkunin hafi orðið vegna glæpsamlegs athæfis fjármálafyrirtækja sem hafði það eitt að markmiði að komast yfir fasteignir landsmanna og skuldsetja atvinnulífið. Ég hef skýrt þetta út í færslu hér og vil endurtaka það hér. Þetta snýst um jöklabréfin.
Á sýnum tíma tóku íslensk fjármálafyrirtæki lán í evrum og öðrum myntum til að fá fé til útlána utanlands og innan. Á sama tíma gáfu fjölmargir erlendir aðilar út skuldabréf í íslenskum krónum, svo kölluð jöklabréf. Þar sem erlendu aðilarnir vildu frekar skulda í sinni mynt og innlendu aðilarnir í krónum, þá gerðu þessir aðilar samninga sína á milli, vaxtaskiptasamninga, sem felast í því að erlendu aðilarnir fengu erlendu lán innlendu fjármálafyrirtækjanna útborguð, en íslensku fyrirtækin fengu krónurnar af jöklabréfunum. Auk taka erlendu aðilarnir að sér að greiða erlendar skuldbindingar íslensku fjármálafyrirtækjanna og þau tóku að sér að greiða jöklabréfin í staðinn. Íslensku fjármálafyrirtækin lánuðu krónurnar síðan út sem myntkörfulán, þ.e. íslenskar fjárskuldbindingar tengdar dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Til þess að hagnast á þessum skiptum urðu íslensku fjármálafyrirtækin að láta gengi krónunnar veikjast. Vextir gengisbundnu útlánanna á Íslandi voru jú mun lægri en vextir jöklabréfanna, sem fyrirtækin höfðu skuldbundið sig að greiða. Annað sem fékkst með veikingu krónunnar var að jöklabréfaeigendurnir myndu fá færri evrur fyrir krónurnar, en þeir greiddu. Hér er því borðleggjandi atlaga að krónunni, eiginfjárstöðu heimilanna og fyrirtækja og síðan hagkerfinu. Ef þetta hefði verið einhver annar varningur en króna, t.d. matvara, þá hefði Samkeppniseftirlitið fyrir löngu verið búið að grípa til aðgerða. Hér hafa markaðsráðandi aðilar (þrír stærstu aðilarnir sem versla með krónur á gjaldeyrismarkaði) tekið sig til að laga markaðinn að sínu höfði. Þetta hefur ekkert haft með markaðslögmál að gera. Gengi krónunnar var handstýrt af þessum þremur aðilum til að gefa þeim sem mestan hagnað.
Varðandi peningamarkaðssjóðina, þá keyptu bankarnir, sem ríkið var búið að taka yfir, eitruð bréf valinna fyrirtækja út úr sjóðunum. Þú ræður hvernig þú túlkar það. Ef það kostar ríkið pening að bankarnir leiðrétti húsnæðislánin, þá hlýtur það að hafa kostað ríkið pening að kaupa eitruð bréf út úr peningasjóðunum. Ég verð að viðurkenna, að ég hef ekki mikið álit á Árna Páli. Maðurinn kallaði samframbjóðendur sína fífl. Margur heldur mig sig.
Marinó G. Njálsson, 5.5.2009 kl. 19:55
Okkur grunaði líka fyrir nokkru að Árni Páll yrði ekki hjálplegur við skuldara, kæmist hann að völdum. Og fólk hér í bloggsíðunni sagðist óttast það. En er Sígurður örugglega ekki að koma fram fyrir banka/lánafyrirtæki/ríkissjóð?
EE elle
. (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 20:55
EE elle, nei, mig grunaði það einhverju sinni, en hann bar það af sér. Hann kemur nær alltaf með svona ítarleg svör og er bara trúr sannfæringu sinni á sama hátt og ég er trúr minni.
Marinó G. Njálsson, 5.5.2009 kl. 21:05
Ok
EE elle
. (IP-tala skráð) 5.5.2009 kl. 21:10
Það er hægt að taka heilshugar undir alla þessa punkta sem þú dregur saman í lokin.
Nr. 8. sérlega athyglisvert. "Mildari innheimtuaðgerðir". VIð sjáum hvað það hefur skilað sér til t.d LÍN eins og þú nefnir réttilega.
Guðmundur St Ragnarsson, 5.5.2009 kl. 21:13
Hér að ofan (19:55) átti að sjálfsögðu að standa "Á sínum tíma". Hálf aumingjaleg stafsetningavilla.
Marinó G. Njálsson, 5.5.2009 kl. 21:20
Kaupin á eignum frá peningamarkaðssjóðunum og inn í bankana voru gerð í gömlu bönkunum, ekki nýju. Svo lengi sem stjórnir bankanna teljst hafa tekið þessar ákvarðanir í góðri trú með hagsmuni bankanna að leiðarljósi, þá eru þær endanlegar og óriftanlegar af hálfu kröfuhafa.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 5.5.2009 kl. 23:20
Enn frábær pistill. Takk fyrir hann.
Sigurður segir í sinni fyrstu athugasemd (nr. 4): "Hvað viðbótalífeyrissparnaðinn áhrærir þá hefðu ríkissjóður og sveitafélögin alltaf fengið skattgreiðsluna á endanum þannig að aðeins er um að ræða að þær komi fyrr inn en akki að um hreina tekjkuaukningu sé að ræða. Það er því villandi framsetning að draga þá innkomu frá hækkun vaxtabóta. Hækkun vaxtabóta kostar ríkissjóð tvo milljarða."
Þetta get ég ekki séð að standist ítrustu skoðun. Þetta gildir eingöngu ef aðrar greiðslur en Séreignarsparnaður ná upp í frítekjumark þannig að fullur skattur lendi á þessum tekjum. Það er verið að neyða okkur (já, ég fullyrði: NEYÐA) til að taka út séreignarsparnað til að halda okkur á floti í botnfrosnum fasteignamarkaði. Þetta kemur ofan á þær tekjur sem eru í gangi og duga hjá svo til öllum (vegna stéttaskiptingarætlunar stjórnvalda) til að dekka fríttekjumark.
Vilhjálmur segir (hér rétt að ofan): "Kaupin á eignum frá peningamarkaðssjóðunum og inn í bankana voru gerð í gömlu bönkunum, ekki nýju. Svo lengi sem stjórnir bankanna teljst hafa tekið þessar ákvarðanir í góðri trú með hagsmuni bankanna að leiðarljósi, þá eru þær endanlegar og óriftanlegar af hálfu kröfuhafa."
Hver, Vilhjálmur þarf að telja það? Það er greinilega ekki tekið mark á okkur almenningi, þannig að ég reikna með að við óþekktarangarnir teljist með í þessum talningi. Verður kannski eftir 3-7 ár sagt: "Úps, kannski var ekki þessi aðili í góðri trú - en hann plataði nógu marga til að þeir væru í góðri trú, til að þetta er samt allt í lagi."
Er það rangt munað hjá mér að þetta hafi mikið til verið bréf í Stoðum sem var talað um að hefði verið bjargað út úr sjóði 9? Eru Stoðir ekki gjaldþrota í dag? Ef þetta er rétt munað hjá mér, er þá líklegt að eitthvað fáist upp í þessi bréf, og að ekki þurfi að afskrifa a.m.k. 20%? Fellur ekkert á góðu trúna ef þetta er rétt munað hjá mér?
(Að lokum, varðandi gamla banka vs. nýja. Er málflutningur sem gerir greinarmun þarna á milli ekki að styðja kennitöluflakk?)
Bestu kveðjur,
Billi bilaði, 6.5.2009 kl. 05:30
ES: Kannski er ég að skilja þig núna, þegar ég hugsa þetta betur, Vilhjálmur, að ef kröfuhafar gömlu bankanna gera ekki athugasemdir við þessa gjörninga, að þá telji þeir sig ekki vera að tapa neinu sem ekki var þegar tapað, og þar með sé þetta í lagi, því ef þeir eru sáttir, þá ættum við að vera það líka? En þá verðum við almennir skuldarar að treysta því að þeir heimti ekki (án þess að við vitum) að verð á fasteignalánum milli gömlu og nýju bankanna verði þess mun hærra en þeir hafi þá tapað á hinu. (Ég fyrir mitt leitir treysti þeim ekki til að hugsa þannig um hag minn, sé ég að hugsa þetta á réttum nótum.)
Billi bilaði, 6.5.2009 kl. 06:34
Sæll Marinó,
Ég skautaði létt yfir athugasemdirnar þannig að þú afsakar ef svarið hefur komið fram en ég spyr samt:
Ertu að ýja að því að þeir sem eigi þessi s.k. jöklabréf séu jafnvel aðilar sem stóðu á bak við gömlu bankana, s.s. fyrrum eigendur þeirra?
Er einhversstaðar hægt að komast að því hverjir eiga þessi bréf og þá í framhaldinu, hvort þeir aðilar eiga þau eða kannski bara jafnvel... við?
kv. Gandri
Guðmundur Andri Skúlason, 6.5.2009 kl. 07:40
Guðmundur, afsakaðu hvað hefur dregist að svara. Nei, ég er ekki að gefa neitt slíkt í skyn. Það sem ég er að segja, er að gömlu bankarnir skiptu við útgefendur jöklabréfanna, þannig að gömlu bankarnir tóku á sig að greiða afborganir og vextir af jöklabréfunum og útgefendur þeirra greiða afborganir og vexti af lánum sem gömlu bankarnir tóku erlendis. Þess vegna kemur enginn gjaldeyrir inn í landið, þegar greitt er af jöklabréfunum, eins og hefði gerst ef erlendu útgefendurnir væru ábyrgir fyrir greiðslunum.
Marinó G. Njálsson, 6.5.2009 kl. 16:47
Marinó,
enn kemurðu með bloggfærslu sem er barmafull af rangtúlkunum og útúrsnúningum.
Ég ætla að byrja á einni leiðréttingu, getur vel verið að ég komi með fleiri á morgun.
Þú segir: "Ég verð að viðurkenna, að ég hef ekki mikið álit á Árna Páli. Maðurinn kallaði samframbjóðendur sína fífl. Margur heldur mig sig."
Þetta er staðreyndavilla hjá þér. Við spurningu um eistnesku löndin svaraði Árni Páll að ESB tæki ekki af okkur valdið til að fólk kysi yfir sig fífl. Það er í heimsálfufjarlægð frá því að hann hafi fullyrt samframbjóðendur sína fífl. Sjá nánar frétt Vísis um málið.
Elfur Logadóttir, 7.5.2009 kl. 00:39
Ok, bætum annarri við. Þú minnist ekkert á greiðsluaðlögunarúrræði vegna fasteignaveðkrafna - bara hreinlega sleppir þeim.
og enn ein: Þrátt fyrir ábendingar mínar í gær sem ég veit að þú sást, heldurðu áfram að fullyrða ranglega að greiðsluaðlögun fáist einungis fyrir þá sem eru í skilum. Þetta stenst ekki skoðun, sbr. 3. tl. 2. mgr. 63. gr. c í lögum um gjaldþrotaskipti (breytt með lögum 24/2009 sem fjalla um greiðsluaðlögun samningskrafna). Í 3. tl. segir: "sundurliðuð fjárhæð skulda sem þegar eru gjaldfallnar." Hvaða hluti af gjaldföllnum kröfum er ekki í vanskilum? Sambærilegt orðalag er í lögunum um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna eins og ég benti þér á í athugasemd við aðra færslu.
Til hvers að gjaldfella raunveruleg úrræði fyrir skuldara með rangfærslum? Það getur ekki hjálpað þínum málflutningi.
Elfur Logadóttir, 7.5.2009 kl. 00:46
Elfur, starfsmaður Ráðgjafastofu heimilanna kom fram í sjónvarpi og fullyrti að til þess að fá greiðslujöfnun samningskrafna þá mætti ekki vera í vanskilum. Hið sama gerði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra. Þetta eru heimildir mínar.
Greiðslujöfnun veðkrafna er ekki komin til framkvæmda, þannig að það færist ekki í dálkinn hvað ríkisstjórnin hefur gert fyrr það er komið til framkvæmda.
Marinó G. Njálsson, 7.5.2009 kl. 07:47
Marinó,
Það er ósköp hjákátlegt að sleppa hluta af því sem ríkisstjórnin hefur gert á þeim forsendum að það hafi ekki komið til framkvæmda. En samt fjallarðu um vaxtabótabreytinguna sem kemur ekki til framkvæmda fyrr en í ágúst.
Greiðslujöfnun og greiðsluaðlögun er ekki það sama. Ef þú ert að tala um greiðsluaðlögun samningskrafna, þá stangast það hreinlega á við lögin, og þá er betra að bera fyrir sig lagabókstafinn en frásögn ólöglærðrar konu (starfsmann Ráðgjafarstofu). Það er okkar hlutverk að leiðrétta hana undir slíkum kringumstæðum og tryggja að framkvæmd laganna sé rétt.
Jóhanna Sigurðardóttir hefur ekki fullyrt að þú þurfir að vera í skilum til þess að fá greiðsluaðlögun, amk. ekki í þeim fjölmiðlum sem ég hef heyrt. Ef þú ert að vísa til þess sem hún sagði ca. síðustu helgi, að þeir sem færu í greiðsluverkfall þrátt fyrir að þeir gætu staðið í skilum myndu ekki geta notið greiðsluaðlögunar, þá er það ekki vegna vanskilanna sem slíkra heldur vegna annarra ákvæða í lögunum.
Sem dæmi eru eftirtaldar ástæður nægilegar til þess að dómari geti hafnað beiðni um greiðsluaðlögun samningskrafna:
Elfur Logadóttir, 7.5.2009 kl. 09:56
Elfur
"fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað"
Þetta ákvæði á bara við þegar lánið er veitt
"að skuldari hafi svo að máli skipti látið"
Að borga ekki í 3-8 mánuði af 40 ára (480 mán)láni skitir ekki máli. Það er ca. 1% af lánstíma.
Þessi hótun Jóhönnu dæmir sig sjálf.
Axel Pétur Axelsson, 7.5.2009 kl. 23:36
elfur
Má ég spyrja þig kurteinslega hvort þú sért í Samfylkingunni ?
Axel Pétur Axelsson, 7.5.2009 kl. 23:52
Þú mátt spyrja að því sem þig langar til, hverjar mínar pólitísku skoðanir eru skipta hins vegar litlu máli. Ég er ekki hér til þess að verja þær, ég er hér til þess að verja sannfæringu mína og reyna að halda sannleikanum á borðinu.
Ef einstaklingarnir sem boða greiðsluverkfall eru einungis að hugsa um að hætta að greíða í 3-8 mánuði og taka síðan upp greiðslur aftur, þá er ákvörðunin ennþá óskynsamlegri en ég hafði áður bent á.
Elfur Logadóttir, 8.5.2009 kl. 00:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.