Leita í fréttum mbl.is

25% af ráðstöfunartekjum þrátt fyrir frystingu lána!

Morgunkorn Greiningar Íslandsbanka birtir hér áhugaverðar tölur.  Á tveimur árum óx hluti afborgana og vaxta um þriðjung af ráðstöfunartekjum, þrátt fyrir launahækkanir í þjóðfélaginu.  Þessar launahækkanir voru ríflega 8% á milli ára frá 2006 til 2008 eða hátt í 17%.  Miðað við þetta, þá hafa afborganir og vextir lána hækkað um nærri 50% á þessum tíma og þetta gerist þrátt fyrir að allir sem mögulega gátu frystu lán sín síðustu 2-3 mánuði ársins, ef ekki lengur.

Mér finnst þessi niðurstaða vera uggvænleg, þó hún geri ekkert annað en að staðfesta skoðun mína og aðvaranir frá því í fyrra vor á alvarlegri stöðu heimilanna.  Það sem meira er, að meðan bankarnir soga til sína sífellt hærri hluta af ráðstöfunartekjunum, þá fer minna í einkaneyslu.  Minni einkaneysla bitnar á tekjuöflun fyrirtækja, sem dregur úr getu þeirra til að greiða laun.  Allt virkar þetta síðan á tekjur ríkissjóðs, dregur úr samneyslunni og þar með þjónustustigi velferðarkerfisins.

Stjórnvöld og stjórnendur fjármálafyrirtækja verða að fara að vakna til meðvitundar um að þetta gengur ekki.  Það gengur heldur ekki að lengja í lánum nema þess sé gætt að heildargreiðslubyrðin aukist ekki.  Já, ætli menn að lengja í lánum, þá verður að gera það á lægri vöxtum!  Best er að fara niðurfærsluleið, þ.e. færa niður höfuðstóla lána. 

Ég reiknaði það út um daginn, að líklegast væru 700 milljarðar af 2.000 milljarða skuldum heimilanna vegna verð- og gengistryggingar frá árinu 2000.  Þ.e. upphæð sem lagst hefur ofan á höfuðstól lánanna vegna verðbólgu og falls krónunnar.  Ég bar þessa tölu í gær undir Ingólf H. Ingólfsson hjá Spara.is og hann taldi þetta vera nokkuð nærri lagi.  Þessir 700 milljarðar eru axlabönd og belti lánveitenda sem lántakendur verða að borga.  Ef þessir 700 milljarðar væru ekki á lánunum okkar, þá væri staða heimilanna bara mjög góð.  Þá væri greiðslubyrði sem hluti af ráðstöfunartekjum vel undir 18%, sem verður að teljast mjög viðunandi.

Ég er ekki að búast við því að allir þessir 700 milljarðar hverfi af lánum heimilanna.  Ég tel hins vegar að hægt verði, ljósi fyrirhugaðra afskrifta nýju bankanna, að skera vel ofan af þessari tölu.  Bara Nýja Kaupþing og NBI (Nýi Landsbankinn) virðast ætla að afskrifa rúmlega 2.050 milljarða af útlánum gömlu bankanna hér innanlands.  Mér sýnist sem borð sé fyrir báru hjá bönkunum koma til móts við viðskiptavini sína.  Við megum ekki gleyma því að greiningardeildir þessara sömu banka lögðu áherslu á það í hagspám sínum ár eftir ár, að búast mætti vð hæfilegri verðbólgu hér og að þó krónan væri hátt skráð um tíma, þá væri mætti ekki búast við að gengisvísitalan færi ofar en 127 -130.  Svartsýnasta spá sem ég sá framan af ári 2008 var að jafnvægisgengi væri í gengisvísitölu upp á 135. 

Ég gerði ráð fyrir því, þegar ég tók mín lán, þegar gengisvísitalan stóð í 112 til 120, að hún gæti farið upp í 132-135.  Með því fannst mér ég vera nokkuð raunsær eða eigum við að segja skrambi svartsýnn.  Þetta voru mínar væntingar og það sem meira er, þetta voru væntingar lánveitandans.  Ég hafði engin tök á því að stjórna framhaldinu, en það gátu lánveitendur mínir (a.m.k. sumir).  Ég var því í ósanngjarnri stöðu gagnvart þeim og spurningin er hvort slíkt gefi tilefni til afturvirkrar riftunar á verð- og/eða gengistryggingaskilmálum samninganna.  Þetta hafa lögfræðingar bent mér á og telja góðan grundvöll fyrir riftunarmáli á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936.  Mér þætti betra, ef fjármálafyrirtæki byðust til að semja um þessa hluti, einfaldlega vegna þess, að þeim er meiri akkur í því að fólk greiði reglulega af 60% lánanna, en að það greiði ekkert af 100% þeirra.  Kalla ég eftir umræðum um lausn þessara mála, þar sem allir aðilar komi að borðinu og öll spil verði lögð á borðið.


mbl.is Fjórðungur tekna í afborganir og vexti af lánum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jakobína Ingunn Ólafsdóttir

Marino þakka þér fyrir pistilinn og allan fróðleikinn sem þú reiðir fram.

Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 23.2.2009 kl. 15:25

2 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Afskaplega er gott að geta lesið færslur sem hægt er að treysta nokkuð vel að séu heiðarlega unnar. Þá er ég að meina að ekki er verið að gera myndina svartari til að vekja á sér athygli, eða fegra hana til að "bjarga" pólitísku skinni.

Eru Hagmunasamtök heimilanna farin að veita einstaklingum eða fyrirtækum sértæka ráðgjöf, þá er ég að meina fyrir eitt heimili eða eitt fyrirtæki.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 23.2.2009 kl. 20:36

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Hólmfríður, okkar leið er að nálgast hlutina út frá almennum lausnum.  Okkur finnst það betra, svo ekki verði á nokkurn hátt hægt að segja að við séum með tillögum okkar að hygla einum hópi umfram annan.  Vissulega erum við með markhóp, þ.e. heimili með verðtryggð húsnæðislán og heimili með gengistryggð húsnæðislán, en við viljum ekki afmarka okkur neitt nánar.

Varðandi fyrirtæki, þá óskaði einn bankanna, þ.e. Glitnir, eftir fundi með okkur, sem við að sjálfsögðu urðum við.   Teljum við að útkoman úr þeim fundi endurspeglist aðeins í hinum mýkri áherslum Íslandsbanka sem kynntar voru á föstudaginn.  Einnig höfum við átt fundi með aðilum, sem eru í sambærilegri hagsmunabaráttu.  Aftur viljum við gjarnan að niðurstaðan og lausnirnar séu sem mesta almennar, þannig að sem flestir njóti.  Við gerum okkur alveg grein fyrir að sumum verður ekki bjargað með slíkum aðgerðum, en vonum að það takist að bjarga sem flestum.  Í okkar huga er hvert tapað heimili, ef svo má að orði komast, töpuð orrusta.  Þess vegna höfum við lagt áherslu á að stöðva nauðungarsölur, svo svigrúm gefist til að finna almennar og sértækar lausnir.

Marinó G. Njálsson, 23.2.2009 kl. 20:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband