Leita í fréttum mbl.is

Stóri dómur - Samræmd próf hjá 9 ára börnum

Í dag er stundin mikla runnin upp.  Mæla á samræmt getu 9 ára barna í stærðfræði og íslensku.  Það eru örugglega einhverjar rannsóknir að baki þeirri ákvörðun að 9 ára börn eigi að ganga í gegnum þá kvöl og pínu sem í þessum samræmdu prófum fylgir.  Ég þekki ekki niðurstöður þeirra rannsókna, en hef verið að fylgjast með barninu mínu smátt og smátt stressast upp, fá magaverki, eiga erfiðara með að sofna og allt hitt sem fylgir með.  Þetta er þrátt fyrir að skólinn sem það sækir, hafi reynt að gera prófin eins og kostur er hluta af venjulegum skóladegi.

Þetta er í þriðja sinn sem eitt af börnum mínum fer í gegnum þessa prófraun, þ.e. samræmd próf í 4. bekk.  Í fyrsta skiptið vissum við ekki alveg við hverju var að búast, en erum sífellt að verða betur undirbúin.  En það er sama hvernig ég lít á þetta, þá sé ég ekki tilganginn.  Hvað er verið að mæla? 

Stöðu barnsins? Barn sem fætt er í lok desember 1998 er nærri því ári yngra en barn sem fætt er í janúar sama ár.  Þarna munar um 10% af aldri eldra barnsins, en ríflega 11% af aldri þess yngra.  Það er út í hött að prófið gefi til kynna stöðu barnsins.  Það er miklu nær að setja þau í þroskapróf.

Getu kennara?  Árgangar eru misjafnir og kennarar líka.  Kennari getur fengið bekk sem einstaklega vel undir það búinn að taka svona próf og því brillera á því og síðan getur sami kennari fengið bekk sem er hreinlega ekki hægt að örva eða í bekknum myndast neikvætt hugarástand.  Fyrir utan það, að mjög miklar líkur eru á því að kennarinn hafi bara verið með börnin í innan við 2 mánuði og hann sé því að mestu að njóta frammistöðu annarra kennara.

Stöðu skólans?  Hvernig getur mat á árangri 9 ára barna í samræmdu prófi sagt til um stöðu skólans?

Stöðu kennslunnar?  Í mörgum grunnskólum er svo mikil velta á kennaraliði árlega, að það liggur við að skipt sé um alla kennara á tveggja ára fresti.  Það er ekki hægt að gera samanburðarrannsóknir á kennslu milli ára vegna þess að til að samanburðurinn sé marktækur, þá þarf kennaraliðið að vera það sama.

Getu skólans til að halda í starfsfólk?  Þetta hlýtur að vera ástæðan, því hinar ganga ekki upp.

Árangur 9 ára barns í samræmdu prófi sem tekið er um miðjan október er ekki nýtilegt í neinar alvöru rannsóknir.  Það er heldur ekki nýtilegt til að ákvarða hvort barnið þurfi stuðning eða hvort skólinn þurfi að bæta sig eða hvort kennari sé að standa sig vel.  Ef þetta próf væri í mars, væri hugsanlega hægt að nota niðurstöðurnar til að meta kennsluna.

Á tímum, þegar skólar eru í ríku mæli að taka upp einstaklingsmiðað nám og jafnvel einstaklingsmiðuð próf, þá eru samræmd próf tímaskekkja.  Fyrir utan að það er hrein mannvonska að láta 9 ára gömul börn (raunar eru sum ennþá 8 ára) ganga í gegnum það ferli sem í prófunum felst.  Það er alveg sama hvað gert er lítið úr mikilvægi prófsins, þá eru þau ekki það vitlaus að skilja ekki mikilvægið. 

Ég skora á menntamálayfirvöld að leggja þessi próf af ekki seinna en í dag og koma þannig í veg fyrir að fleiri svona ung börn þurfi að ganga í gegnum þessa þolraun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er hjartanlega sammála þér.

Ég á tvær dætur sem hafa gengið í gegnum þessi próf. Þau gáfu enga mynd því hvernig þeim gekk í námi. Sonur minn tók íslenskuprófið í morgun í 4. bekk. Hann verður ekki 9 ára fyrr en í lok ársins og set ég stórt spurningarmerki við að senda 8 ára börn í próf. Til hvers? Börn í 4 bekk eru mörg ekki orðin mjög góð í lestri og mikill þroskamunur milli einstaklinga. Það er í raun verið að gjaldfella einstaklingsmiðað nám fyrst allir eiga allt í einu að taka sama prófið og nemendur alls ekki staddir á sama stað. Kennarar vita vel hvar nemendur þeirra standa í námi og foreldrar líka. Það er algjörlega út í hött að þau séu tilbúin í einhverja normalkúrfu próf. Í versta falli ætti að taka þetta próf að vori til.

Andrea Þormar (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 17:56

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég er einmitt í sömu stöðu.  Sonur minn er fæddur 28. desember og þó hann sé mjög duglegur, þá er samt verulegur þroskamunur á honum og þeim sem eru elstir í bekknum.  Ég sá í bréfi frá Námsmatsstofnun að tilgangur er að sjá hvar nemandinn stendur í grundvallaratriðum sem frekara nám byggir á.  Ég hélt að þetta væri hlutverk kennara og skólastjórnenda sem auk þess er auðvelt að ná með öðrum hætti en þessum.  Það er, t.d., alveg hægt að láta nemendur taka próf sem Námsmatsstofnun semur, en skólarnir leggja fyrir og fara yfir.

Marinó G. Njálsson, 18.10.2007 kl. 19:13

3 Smámynd: Kristjana Bjarnadóttir

Ég er ykkur hjartanlega sammála, ég skil ekki tilgang þessara prófa. Þessi próf sem önnur próf í neðri bekkjum grunnskóla brjóta börnin niður, kennarinn hefur aðra möguleika til að átta sig á stöðu barnanna. Eingöngu börnin sem koma vel út úr prófunum hagnast af þessu því sjálfsmynd þeirra styrkist, þessi börn og foreldrar þeirra vissu það fyrir að þau væru vel á vegi stödd. Ég lýsi eftir jákvæðri endurgjöf í skólastarfi og því að unnið sé meira með sterkar hliðar og rökhugsun en að hæfileikinn til að lesa og skrifa ráði öllu um stöðu barnsins. Að öðru leyti vísa ég í nýlega færslu mína.

Kristjana Bjarnadóttir, 18.10.2007 kl. 22:01

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég er þeirrar skoðunar að hver nemandi í grunnskóla eigi eingöngu að fást við námsefni sem gæfi honum á bilinu 6 til 8 í einkunn á prófi.  Þar með er ég ekki að segja að sumir nemendur eigi að dragast langt aftur úr og aðrir að æða á undan (þó það gerist líklegast a.m.k. tímabundið).  En einkunn á þessu bili sýnir að nemandinn er að fást við námsefni sem nægilega þungt/ögrandi til þess að hann þarf að hafa fyrir því og ekki það þungt að hann ráði ekki við það.  Nemandi sem sífellt fær undir 6 er að fást við of þungt efni.  Hann er ekki að ná ýmsum grunnþáttum og lærdómurinn er strögl, kvöð eða jafnvel leiðindi.  Nemandi sem er sífellt að fá yfir 8, er að fást við of létt námsefni og þar með er það ekki nægilega ögrandi.  Hann hefur getu til að fara hraðar yfir og kljást við erfiðari verkefni.  Einstaklingsbundið nám getur tryggt þetta.  Samræmd próf ekki.

Það má svo sem deila um það hvort mörkin eiga að vera milli 6 og 8 eða einhver önnur. 

Marinó G. Njálsson, 18.10.2007 kl. 22:41

5 Smámynd: Pétur Björn Jónsson

Þetta er eitt bullið enn sem við hirðum af Bandaríkjamönnum, er í raun angi af þessari no child left behind pælingu þeirra. Sérstakt að bandaríkjamenn, sem er fremstir í menntarannsóknum fari svo þvert gegn þeim í uppbyggingu námsins. Enn sérkennilegra að við skulum apa þetta eftir. Það er hárrétt hjá þér að sífellt meir áhersla er lögð á einstaklingsmiðað nám og það réttilega. Að sama skapi er stöðugt verið að leggja meiri áherslu á símat og samþættingu náms. Stöðluð próf gera lítið annað en að prófa það hversu góð börnin eru í að taka próf, ég get ekki almennilega séð hvers vegna 9 ára börn þurfa að vera góð í því að taka próf. Reyndar er ég á þeirri skoðun að henda eigi öllum samræmdu prófunum og taka þess í stað upp svipuð próf í lok menntaskóla. Inntökupróf eins og ACT/SAT í bandaríkjunum eru ágæt til síns brúks, tilgangurinn með þeim er að gefa háskólum mynd af því hvers konar nemendur þetta eru miðað við þær kröfur sem gerðar eru í deildum viðkomandi háskóla. Ágæt að rifja upp orð Guðmundar Finnbogasonar frá því fyrir rúmlega 100 árum þar sem hann segir að þetta heiti menntun af því að hún snúist um að gera fólk að betri manneskjum, annars gæti þetta allt eins heitið fálkun

Pétur Björn Jónsson, 18.10.2007 kl. 22:44

6 identicon

Það er mjög mikill munur á börnum sem eru að verða 10 ára í ársbyrjun og svo þeim sem eru að halda uppá 9 ára afmælið sitt í desember. í raun er verið að gefa þessum eldri forskot og hrós þar sem þau hljóta að koma langoftar betur út úr prófunum en þau yngri. Sonur minn var nú í haust að fá skólabækur heim sem sum önnur börn í bekknum voru með í fyrra ( skv. einstaklingsmiðaða náminu) nú er hann allt í einu farinn að taka próf í verkefnum sem hann er að glíma við þessa dagana í skólanum. Honum gengur vel í náminu en ég sé mun á honum og þeim sem eru fædd í byrjun árs.

Ekki veit ég fyrir hvern þessi próf eru en bæði skólastjórnendur og kennarar í skóla barnanna minna eru ekki hlynnt þeim.

Andrea Þormar (IP-tala skráð) 18.10.2007 kl. 23:31

7 Smámynd: Edda Sigurjónsdóttir

Svo maður tali nú ekki um börn sem að eru ofvirk með athyglibrest og misþroska í ofanálag.

Fyrirgefið þið en ég hef bara ekkert álit á Íslensku skólakerfi og á mínu heimili er nú ekki verið að velta sér upp úr því sem barnið mitt hefur enga möguleika á að valda.

Þessi bóknámsdýrkun hér á landi er bara fyndin.

Ég elska dóttur mína eins og hún er og ber hana aldrei saman við bekkjarfélaga hennar, hún hefur ýmsa kosti sem námshestana skortir, t.d. lætur hún alltaf vaða þegar einhversstaðar þarf að syngja einsöng og er valin til þess af kórstjórum, skítt með það þó svo að hún sé ekki best í lestri.

Sjálfsmynd barna hefur ekkert með einkunnir að gera heldur hvernig við ölum þau upp, þ.e.a.s. að við hælum því sem að þau gera vel, styðjum þau í ahugamálum þeirra og leyfum þeim að vera þau sjálf

Edda Sigurjónsdóttir, 19.10.2007 kl. 00:51

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég tek heilshugar undir það að einkunnir afvegaleiða okkur allt of oft.  Einnig virðist það innbyggt í þjóðfélagið að það sé ekki nógu fínt að fara í verknám.

Marinó G. Njálsson, 19.10.2007 kl. 01:47

9 Smámynd: Ólafur Þórðarson

Já og að maður tali ekki um skaðann sem hlýst af að vera að innstilla óhóflega samkeppni í börnin svona ung. Samkeppni er oft lausnarorð ákveðinna öfgaafla, en í raun er samkeppni bara ákveðið fyrirbæri og getur verið slæm eða góð. Samvinna með bekkjarsystkinum hlýtur að eiga að fá stórann forgang yfir samkeppnina við hin sömu.

Ólafur Þórðarson, 19.10.2007 kl. 03:08

10 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Eg er alveg hjartanlega sammála ykkur. Ég verð þó að mótmæla Eddu, þegar hún segir

"Sjálfsmynd barna hefur ekkert með einkunnir að gera heldur hvernig við ölum þau upp, þ.e.a.s. að við hælum því sem að þau gera vel, styðjum þau í ahugamálum þeirra og leyfum þeim að vera þau sjálf"

Ég kom með dóttir mína til Íslands þegar hún var 6 ára. Hún kunni ekki íslensku, svo fyrsta hálfa árið fór í að læra málið. Eftir 6 mánuði í íslenskum skóla, fékk ég umsögn sem aðallega lýsti áhyggjum kennara þar sem dóttir mín las ekki eins vel og hin börnin.  Á þessu hálfa ári hafði kennaranum tekist að breyta stelpunni minni úr glaðri jákvæðri stelpu sem vissi að hún var frábær, í litla stelpu sem gat ekki neitt og spurði mömmu sína hvort hún hafi fæðst heilbrigð eða hvort hún hafi alltaf verið vitlaus. Hún var meðhöndluð af kennaranum eins og hún væri þroskaheft, og krakkarnir í bekknum eru fljótir að finna veikan punkt, sérstaklega þar sem hún talaði bjagað. Nú erum við flutt út aftur og hún er jafn dugleg og hinir krakkarnir, nema hún er á eftir með að skrifa sænskuna, en kennarinn hér lyftir upp henni og er dugleg að láta hina krakkana vita að hún tala 2 tungumál, svo þó hún sé á eftir í einu fagi, þá kann hún fleiri tungumál en flestir krakkar á hennar aldri. Kennarinn hennar veit það sem sumir kennarar í íslenska skólakerfinu eiga eftir að læra, að barn getur ekki lært nema hafa trúa á að geta það.

Einn kennslutíma í viku er bekkurinn með samvinnu og eineltisvinnu.  Þar læra þau að taka tillit til hvors annars og vera góð við hvort annað. Það eru ákveðin markmið sem skólinn setur upp í þessu fagi eins og í öðrum, til dæmis eiga börn í 4. bekk (3. bekk í Svíþjóð, fædd 1998) að geta;

Beðist afsökunar og fyrirgefið,

Hleypt öðrum börnum inn í leikinn

Skiptast á og gefa öðrum með sér

Haft samúð með öðrum sem líður illa.

Þessi heimasíða lýsir markmiðum í efninu, fyrir börn í fyrstu 4 árum skólans.

http://www.oxnered.vanersborg.se/Social_utveckling_-_normer_och_varden_F-3.pdf  

Þarna dugar ekki að kennarinn öskri á eftir krökkunum á leið útí frímínútur að þau eigi að vera góð við hvor annað.

Ásta Kristín Norrman, 19.10.2007 kl. 07:20

11 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ásta Kristín bendir á vandamál sem á það til að láta á sér kræla.  Í athugasemd við bloggi mínu í sumar Vinsælir, en eru þeir bestir?, þá nefndi ég sögu sem Hugó Þórisson segir gjarnan (eða sagði gjarnan?) um stelpu sem flosnaði upp úr námi, þar sem kennari hennar gat ekki hætt að uppnefna hana þó svo að hún stæði sig vel.

Börnin mín hafa öll farið í Ísaksskóla.  Elsta barnið fór svo í Rimaskóla í eitt ár og eftir það í skóla sem almennt er talinn einn af betri grunnskólum borgarinnar.  Þar fékk það sérstakar viðtökur hjá kennara sínum.  Skilaboðin voru: ,,Þú skalt ekki halda að þú fáir einhverja sérmeðferð, þó þú hafir verið í Ísaksskóla!"  Því miður eru svona athugasemdir ekkert eins dæmi og hafa foreldrar bekkjarsystkina barnsins sagt okkur hjónum alls konar sögur af athugasemdum kennara.  Algengast er að kennarinn segi: ,,Hva, átt þú ekki að kunna þetta fyrst þú varst í Ísaksskóla."  Ég eiginlega átta mig ekki alltaf á því hvað fullorðnu fólki gengur til með svona athugasemdum. 

Marinó G. Njálsson, 19.10.2007 kl. 08:30

12 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

Við ákváðum á sínum tíma að eldri dóttir okkar færi ekki í samræmd próf í 7. bekk. Hún er mjög les og reikniblind og á við ýmsa aðra erfiðleika að stríða. Það er hinsvegar ekki til neitt í reglum um samræmd próf 7undu bekkinga sem heitir að sleppa prófi eða fá undanþágu. Það sem við urðum að gera var að hringja hana inn veika þessa tvo prófdaga. Það fannst mér afar slæmt og hún fær aldrei að vita að logið hafi verið til um veikindi hennar.

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 19.10.2007 kl. 08:45

13 identicon

Sem starfandi kennari til margra ára get ég ekki annað en glaðst yfir því að svo margir skuli viðra efasemdir sínar um samræmd próf í grunnskóla.  Þessi samræmdu próf ganga þvert á þá stefnu sem mörkuð er í grunnskólalögum og eru því algjör vinkilbeygja fyrir marga kennara sem ekki eru sáttir við að þurfa að láta nemendur sína ganga í gegnum þetta ferli.  Kennarar hafa næg matstæki til að meta stöðu nemenda.  Mér finnst sem þessi próf séu nokkurskonar grýla - stóri bróðir fylgist með- á kennara sem liggja stöðugt undir beinum og óbeinum dylgjum frá yfirvöldum um að þeir vinni ekki nógu gott verk.  Í framhaldinu bendi ég á að einn stjórnmálaflokkur á Íslandi hefur það á stefnuskrá sinni að leggja niður samræmd próf í grunnskólum.    

Jóna Ben (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 10:06

14 identicon

Ég bætist við gleðihópinn enda sjálfur með blogg um sama efni. Þitt innlegg er auðvitað mun ítarlegra og skilið athygli. Ég og fleiri "fagaðilar" viljum leggja af þessi próf og hef ég góðar vonir um að svo verði innan skamms. Minni líka á ályktanir stéttasamtaka kennara.

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 19.10.2007 kl. 13:40

15 identicon

Hæ,

Ég á níu ára stúlku sem var eitt ár í Ísaksskóla.  Það gekk alveg ágætlega en hún fór fyrst að blómstra þegar hún kom í hverfisskólann, leið einhvern veginn miklu betur þar.  Hún tók nú fyrir nokkru samræmdu prófin og var algjörlega laus við allt stress.  Þar held ég að skólinn hennar og við foreldrarnir eigum stóran þátt í hvernig henni leið.  Kosturinn við hennar skóla er sá að ekki er sett af stað massamaskína til að gera allt til að hækka börn á þessu prófi, heldur eru þau bara mæld nákvæmlega eins og þau standa á þessum tímapunkti.  Einnig leikum við foreldrarnir að sjálfsögðu gríðarlega stóran hlut.  Í okkar tilviki spurðum við hana hvort hún vildi æfa sig eitthvað sérstaklega með því að taka gömul próf en hún taldi svo ekki vera og við leyfðum henni alveg að ráða því.  Hún fór alsæl, glöð, óstressuð og sátt í prófin og ég er þess fullviss um að niðurstaðan verður góð.  Ég held því miður stundum að metnaður foreldra sé oft að kaffæra aumingja börnin og geri þau þannig stressuð og kvíðin fyrir þessi próf og svo bæta sumir skólar ekki gráu ofan á svart með því að þjálfa nemendur sérstaklega fyrir prófin með það að markmiði að skólinn komi sem best út í samanburði við aðra skóla á landinu - skrýtið.

Margrét (IP-tala skráð) 21.10.2007 kl. 09:27

16 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Margrét, ég er alveg viss um að flestir skólar eru ekkert að skipta sér af því úr hvaða skóla nýir nemendur eru að koma.  Þannig var það t.d. með Rimaskóla.  Kennarinn þar var miklu frekar forvitinn um skólastarfið og var bara í alla staði mjög góður.  Barninu leið vel þar og hélt áfram á þeirri jákvæðu braut sem það hafði verið á í Ísaksskóla.  Síðan fluttum vi ðniður í bæ og barnið fór í einn af "fínu" grunnskólum borgarinnar. Þar hófst alveg furðulegt ferli sem varð til þess að í staðinn fyrir að kaupa stærra húsnæði í hverfinu, þá fluttum við í Kópavog og höfum búið þar síðan.  Þessi tvö ár í "fína" skólanum höfðu slík eyðileggjandi áhrif á barnið, að það tók mörg ár að vinna sig út úr því og spurning er hvort það hafi komist yfir það í raun.  Það er alveg stórfurðulegt að sjá hvernig hægt er að brjóta barn niður á stuttum tíma.

Barn númer tvö fór úr Ísaksskóla í Salaskóla og hefur haldið áfram að blómstra þar.

Marinó G. Njálsson, 21.10.2007 kl. 13:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 84
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband