Leita í fréttum mbl.is

Hverjir hagnast mest á niðurfærslu skulda heimilanna?

Margir hafa vaðið á súðum og óskapast yfir því að þeir sem hagnist mest á almennri niðurfærslu skulda séu þeir sem skulda mest.  Örugglega má finna einhver rök fyrir slíku, en ég er langt frá því að vera sannfærður um að svo sé.

Í síðustu færslu minni gerði ég tilraun til að greina vanda heimilanna.  Samkvæmt henni þá má skipta heimilum í 9 hópa sem hér segir:

  1. Heimili í framfærsluvanda
  2. Heimili í greiðsluvanda
  3. Heimili í skuldavanda
  4. Heimili á leið í greiðsluvanda
  5. Heimili sem halda sjó
  6. Vel sett heimili
  7. Heimili með tvær eignir og hafa greiðslugetu til að standa undir annarri
  8. Heimili með engar húsnæðisskuldir og býr í eigin húsnæði
  9. Heimili með nánast engar skuldir

Tekið skal fram að fólk í leiguhúsnæði getur verið í hvaða flokki sem er nema síst flokkum 7 og 8.

Lánin sem lagt er til að séu færð niður

Markmið aðgerða, sem Hagsmunasamtök heimilanna, Hreyfingin/Dögun, Framsóknarflokkurinn, Hægri grænir og hugsanlega fleiri hafa talað fyrir, er að lækka skuldir vegna öflunar húsnæðis fyrir lögheimili (og viðhalds, endurbóta, framkvæmda o.s.frv.).  Upphæð þessara lána í dag er metin á bilinu 1.200 - 1.300 milljarðar kr.  Önnur lán  heimilanna eru líklegast hátt í 6-700 milljarðar.  Af þessum 1.200 - 1.300 milljörðum eru einhver þeirra gengistryggð, önnur eru óverðtryggð en flest eru verðtryggð.  Af gengistryggðu lánunum, þá hafa flest þeirra, ekki öll, þegar verið leiðrétt eða munu verða leiðrétt í samræmi við dóma Hæstaréttar í málum 600/2011 og 464/2012.  Einhver hluti fær ekki leiðréttingu samkvæmt þeim dómum og myndi því falla undir almenna leiðréttingu.  Af öðrum lánum, þá er þegar búið að lækka þau um nálægt 50 milljörðum, en óljóst er þó hvernig þessir 50 milljarðar skiptast milli lána vegna öflunar húsnæðis og annarra lána.  Loks er talsverður hluti lána, sem hvílir á húsnæði landsmanna, sem er ekki kominn til vegna öflunar húsnæðis.  Þau geta valdið því að viðkomandi heimili eru í vanda.

Spurningin er alltaf hve langt á að ganga í leiðréttingu annarra skulda en lána vegna öflunar húsnæðis.  Á árunum 2004 til 2007 nýttu margir sér aukna möguleika til lántöku í að leyfa sér meira.  Á hverjum einasta fundi sem ég hef átt með Pétri Blöndal hefur hann spurt um jeppafólkið, snjósleðana og sumarbústaðina.  Þetta fólk varð líka fyrir forsendubresti, en Hagsmunasamtök heimilanna tóku meðvitaða ákvörðun um að einblína á lán til öflunar húsnæðis.  Því er það nánast kjánalegt, að það hafi verið bílalán sem urðu til þess að gengistryggingin var dæmd ólögleg.

Mergur míns máls er, að ekki eru öll lán sem hvíla á heimilum landsmanna vegna öflunar húsnæðis, viðhalds þess, endurbóta, framkvæmda við húsnæðið eða nánast umhverfi þess.  Ákveðinn hluti er neyslulán, lán vegna tómstunda gamans, kaupa á sumarbústað eða alls konar fjárfestingum.  Enginn hefur farið í þá vinnu að greina til hvers lánin voru tekin, en auðvelt er að sjá, að hafi 5 milljón kr. lán verið endurfjármagnað með 8 milljón kr. láni, þá fór mismunurinn í eitthvað annað og ekki endilega húsnæðistengda hluti.  Spurningin er hve langt viljum við ganga í að greina þetta.  Eigum við ekki bara að treysta því að öll lán sem Skatturinn hefur viðurkennt að hverra vextir mynda stofn til vaxtabóta, teljist til þeirra lána sem a.m.k. falli undir þessa niðurfærslu skulda.  Út frá því myndi ég halda að spurningin sé ekki endilega hverjir hafa skuldsett sig mest, heldur hvernig er skuldsetning fólk vegna húsnæðis.

Hverjum nýtast aðgerðirnar best?

Lítið fer á milli mála, að sá sem skuldar meira mun fá hærri niðurfærslu í krónum en sá sem minna skuldar.  Á sama hátt hefur sá fyrri líka fengið meiri hækkun á lánið sitt.  En er það þessi krónutala sem skiptir mestu máli varðandi ávinning fólks?  Í mínum huga segir hún bara hluta sögunnar.  Skoðum hópana að ofan:

Hópur 1: Heimili í framfærsluvanda hagnast af allri niðurfærslulána, sama hve há hún er, en það breytir því líklegast ekki að það verður áfram í framfærsluvanda.  Niðurfærsla lána hefur því engin áhrif á framfærsluvanda heimilanna og þau verða því áfram í hópi 1.

Hópur 2:  Heimili í greiðsluvanda eru þau heimili sem ekki hafa getað greitt af lánum sínum eða þurft að velja á milli þess og ýmissa neysluútgjalda.  Þessi heimili eru dæmigert i vanskilum.  20-25% lækkun húsnæðislána þeirra og þar með afborgana gæti leitt til þess að þau gætu færst frá því að vera í greiðsluvanda og yfir í aðra hópa , þá helst hópa 4 og 5.  Þessi heimili hagnast því gríðarlega á niðurfærslunni, þó svo að hún þurfi ekki að vera eins há í krónum talið og hjá þeim sem mesta niðurfærslu fá.

Hópur 3:  Heimili í skuldavanda eru skilgreind þau heimili sem erum með neikvætt eigið fé í fasteign.  Alveg er ljóst að fyrir þennan hóp getur svona niðurfærsla skipt sköpum.  Allt í einu er heimilið ekki bundið af húsnæðinu, þ.e. hægt er að skipta um húsnæði.  Hagnaður þessa hóps heimila er því mældur í mörgu öðru en krónum og aurum.  Höfum þó í huga að margir í þessum hópi hafa mögulega farið í gegn um 110% leiðina og fólk fær ekki sama afsláttinn tvisvar.  Ekki er víst að þeir efnuðustu, sem skulda mest, fari endilega í jákvætt eigið fé í fasteign við þessa aðgerð, þar sem stærsti hluti lána þeirra, er líklegast vegna annars en húsnæðis.

Hópur 4:  Heimili á leið í greiðsluvanda hafa líklega skorið mikið niður í neysluútgjöldum til að eiga fyrir afborgunum lána, tekið út séreignasparnað og gengið á annan sparnað.  Svona niðurfærsla yrði því himnasending fyrir þennan hóp, þar sem hann færðist lengra frá því að lenda í greiðsluvanda.  Höfum í huga að þessi hópur er líklegast allur meðal þeirra ríflega 50% heimila sem eiga erfitt með að ná endum saman eða þeim 38% sem eiga ekki fyrir óvæntum útgjöldum.

Hópur 5: Heimili sem halda sjó.  Líkt og með hóp 4, þá halda þessi heimili sjó vegna þess að þau hafa hagrætt í heimilisrekstrinum og gengið á sparnað.  Niðurfærsla myndi létta af þeim pressunni, en er augljóslega ekki lífsbjörg, þar sem þau þurftu ekki á henni að halda.

Hópur 6:  Niðurfærsla húsnæðisskulda skipta vel stæð heimili nánast engu máli, en þau eru líka fá og því ekki stór hluti af heildinni.  Vissulega myndu þau líklegast fá til sín hlutfallslega hærri tölu af niðurfærslunum en fjöldi þeirra segir til um.  Lítill vandi er að setja skurði á slíkt, eins og ég kem að á eftir.

Hópur 7:  Heimili með tvær eignir munu við svona aðgerð komast í betri stöðu.  Hvort það dygði, fer einfaldlega eftir því hve alvarleg staða þeirra er.

Hópar 8 og 9: Lækkun húsnæðislána skipta þessi heimili ekki máli að öðru leiti en því að það mun liðkast um húsnæðismarkaðinn.

Af þessari yfirferð, þá er það alveg rétt að heimili með há húsnæðislán munu fá mesta niðurfærslu. Líklegt er að slíkt nýtist tekju- og eignamiklum heimili vel þegar upphæðir eru skoðaðar, en hef trú á að slík aðgerð hafi mun meiri ávinning í för með sér fyrir heimili í hópum 2, 3, 4 og 5.  Fyrir þessi heimili felst mesti ávinningurinn í því að létta á stöðunni.  Krónur og aurar skipta þessi heimili máli, en hitt skiptir þó meira máli, þ.e. að geta um frjálst höfuð strokið eða a.m.k. færast nær því að komast í slíka stöðu.

Væri hægt að setja skurð á niðurfærslu lánanna

Ég skapaði mér ekki vinsældir innan stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna, þegar ég setti inn í sérálit mitt hugmynd að skurði á niðurfærsluna sem samtökin höfðu lagt fram.  Alveg eins og margir sem tjáð sig hafa um þessi mál, þá fannst mér blóðugt að fólk sem hafði fasteignalán nánast upp á punt fengi leiðréttingu.  Ástæðan var ekki síður sú, að mér fannst greinilegt að tiltekinn hópur væri með þessi lán eingöngu vegna þess, að hann gæti fengið betri ávöxtun peninga sinna með því að greiða lánin ekki niður, en hafa féð í annarri ávöxtun.

Í séráliti mínu við skýrslu sérfræðingahópsins svo kallaða er því undirkafli sem ber heitið Skerðingar vegna tekna.  Vil ég birta hann hér nánast óbreyttan.  Hafa skal í huga að í honum tala ég um ráðstöfunartekjur, þ.e. tekjur eftir skatta.  Tölurnar eru miðaðar við október 2010, þannig að líklegast þarf að hækka þær um 6% eða þar um bil.  Einnig skal hafa í huga, að miðað er við 4% þak á verðbætur og það er reiknað frá 1.1.2008 til 1.10.2010.  Í núverandi tillögum Framsóknar og Dögunar er miðað við 2,5% bætur og árin eru orðin fimm.

"5.4      Skerðingar vegna tekna

Fulltrúi Hagsmunasamtaka heimilanna hefur ítrekað lagt til, að tillögur samtakanna varðandi verðtryggð lán verði skoðaðar út frá því að settar séu takmarkanir við ráðstöfunartekjur eða hreina eign.  Eðlilegast sé að miða við ráðstöfunartekjur, þar sem þær segja til um greiðslugetu.  Sala eigna getur að sjálfsögðu aukið ráðstöfunartekjur.  Til þess að geta ákveðið áhrif svona skurðpunkta vantar nauðsynlegar upplýsingar um fjölskyldustærð, enda telja samtökin að ekki megi setja eina skurðlínu fyrir alla. 

Dæmi um skerðingu:  Skerðingar fari að gæta við ráðstöfunartekjur upp á 3,5 m.kr. fyrir einstaklinga og hækki um 660.000 kr. með hverju barni.  Áhrif 15,5% leiðréttingarinnar minnki hlutfallslega með auknum ráðstöfunartekjum þar til þær ná 5,0 m.kr. hjá einstaklingi (að viðbættum áhrifum vegna barna).   Hjá hjónum hefjist skerðing við ráðstöfunartekjur upp á 6,0 m.kr. og hækki um 660.000 kr. með hverju barni.  Leiðréttingin lækki hlutfallslega uns ráðstöfunartekjur eru komnar í 8,0 m.kr. hjá hjónum (að viðbættum áhrifum vegna barna).  Þetta má sjá nánar í eftirfarandi töflu, sem sýnir bil ráðstöfunartekna sem skerðing nær yfir í þessu dæmi.  Þó hér sé eingöngu sýnt fyrir allt að fjögur börn, þá heldur upphæðin áfram að hækka með fjölda barna.  Tölur eru í milljónum króna:

 

 

Barnlaus

1 barn

2 börn

3 börn

4 börn

Einstaklingur

Skerðing hefst

3,5

4,16

4,82

5,48

6,14

 

Afsl. fellur niður

5,0

5,66

6,32

6,98

7,64

Hjón

Skerðing hefst

6,0

6,66

7,32

7,98

8,64

 

Afsl. fellur niður

8,0

8,66

9,32

9,98

10,64

Ástæðan fyrir því að lagt er til að fjöldi barna hafi áhrif, er að því fleiri sem börnin eru, er líklegt að húsnæðið sé stærra og þar af leiðandi dýrara [einnig hækkar framfærslukostnaður með hverju barni]."

--

Fyrir þá sem sjá ofsjónum yfir því að ekki sé farið eftir efnahagi fólks, þegar ákveðið er að bæta því tjón sem flestir álíta að lögbrot fjármálafyrirtækja, stjórnenda þeirra, stjórnarmanna og vildarviðskiptavina hafi valdið, þá er þetta leið sem menn geta skoðað. Þessi leið er flóknari í framkvæmd, þar sem allar fjármálastofnanir þyrftu að fá upplýsingar um ráðstöfunartekjur hvers og eins heimilis sem ætti í hlut.

Annar ávinningur af niðurfærslu

Mér hefur fundist alveg vanta alvarlega umræðu um hvaða annan ávinning þjóðfélagið mun hafa af svona niðurfærslu húsnæðislána.  Sjálfur hef ég margoft farið í gegn um það hér á þessari síðu.  Langar mig að gera það einu sinni enn.

Velta á fasteignamarkaði:  Við núverandi skilyrði er fasteignamarkaðurinn hálf lamaður.  Stórir hópar húsnæðiseigenda eru fastir í húsnæði sínu vegna skuldsetningar.  Stækkandi fjölskyldur geta ekki stækkað við sig og minnkandi geta ekki minnkað við sig.  Fólk sem gæti undir eðlilegum kringumstæðum selt eignir til að losa fjármuni, getur það ekki, þar sem kaupendur er ekki að finna.

Eignir streyma til lánveitenda:  Með sífellt hækkandi skuldastöðu, m.a. vegna áhrifa verðtryggingarinnar, þá færast fleiri heimili yfir í neikvæða eiginfjárstöðu.  Vissulega endurspeglar fasteignamat ekki alls staðar á landinu markaðsverð, en því er ætlað að gera það.  Úrræði margra verður að gefast upp og láta lánveitandann hirða kofann.  Með um 50% heimila í þeirri stöðu í dag, að eiga erfitt með að ná endum saman, þá erum við í þeirri sérkennilegu stöðu að stór hluti þessara heimila gæti lent í því að missa húsnæðið sitt.  Þegar eru um 4.500 íbúðir í eigu fjármálafyrirtækja, en reikna má með að andvirði þeirra sé ekki undir 110 milljörðum miðað við fasteignamat íbúða er rétt tæplega 25 m.kr.  (Heildarfasteignarmat íbúðarhúsnæðis er 3.105 milljarðar og eignirnar alls 125.000 miðað við upplýsingar á vef Þjóðskrár.)  Ef 12% af um 73.000 heimilum er þegar í vanskilum og það fer allt á versta veg, þá hækkum við þessa tölu upp í á að giska 330 milljarða kr.  Af þessu er ljóst að komist 15-20% íbúðarhúsnæðis í eigu fjármálafyrirtækja, þá mun það ríða þeim að fullu.  20% niðurfærsla fasteignalána mun örugglega snúa þessari þróun við. Hún mun líka gera það að verkum að brennimerkt fólk, þ.e. það sem missti húsnæði sitt til fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða vegna stöðu sinnar, verður hreinsað af slíkum brennimerkjum og getur því farið aftur út á fasteignamarkaðinn.

Velta á neytendamarkaði:  Ég veit ekki hvaða tilfinningu fólk hefur almennt, en fyrir mig sem dvel bara á Íslandi 1-2 vikur í hverjum mánuði og jafnvel minna, þá finn ég vel fyrir breytingu í hvert sinn sem ég kem heim.  Einhvern veginn virðist alls staðar vera minna að gera.  Tómum verslunarrýmum fjölgar, fólk kvartar undan samdrætti í viðskiptum og minna vöruvali.  Það, sem er til, hefur hækkað í verði, þannig að minna fæst fyrir peninginn.  Fólk hefur sagt  upp áskrift að öllum "óþarfa", svo sem viðbótarsjónvarpsstöðvum, dagblöðum, tímaritum og bókaklúbbum.  Þetta hefur síðan áhrif á atvinnumarkaðinn og fjárfestingar fyrirtækja, að maður tali nú ekki um skatttekjur ríkisins.  Menn geta mælt einhverjar jákvæðar breytingar á þessum þáttum, en fyrr mætti nú vera í yfir 50% verðbólgu á 5 árum.  20% lækkun lána mun ekki þýða 20% aukning neyslufjár.  Hlutfallið verður eitthvað minna.  Margir munu þó nýta það aukna fé sem þeir hafa umleikis til að versla það sem  hefur beðið betri tíma.  Aðrir munu vonandi safna í sjóð.  Gefum okkur að velta á neytendavörumarkaði aukist um 10% við þessa aðgerð.  Það þýðir 10% hækkun virðisaukaskatts til ríkisins, mun leiða til fjölgunar starfa og vonandi meiri fjárfestinga í atvinnulífinu.  Vissulega kallar það á aukinn innflutning, en vonandi mun aukin fjárfesting í atvinnulífinu leiða til aukins útflutnings. 

Ég ætla ekki að fullyrða að svona aðgerð borgi sig sjálf, þ.e. að hún skili til baka til þess sem leggur út peninginn, öllu til baka. Til langframa er ég hins vegar full viss að hún gerir mun meira fyrir þjóðfélagið en sá kostnaður sem af henni er.  Hitt er annað mál, að svona aðgerð verða að fylgja alls konar hliðaraðgerðir eða samverkandi aðgerðir, til að fyrirbyggja að núverandi ástand skapist aftur.  Af nám verðtryggingar á neytendalánum er þar efst á blaði.  Menn hafa furðað sig á því, að fólk sem hafði ekki tekjur í erlendri mynt væri að taka lán í erlendri mynt.  Verðtryggð króna er erlend mynt samanborið við óverðtryggðu launakrónuna.  Fólk sem ekki hefur verðtryggðar tekjur á ekkert frekar að taka verðtryggð lán, en þeir sem hafa tekjur í krónum eiga ekki að taka lán í jenum eða frönkum.  Samhliða brotthvarfi verðtryggðra neytendalána, þá þarf að gjörbreyta húsnæðislánamarkaðinum.  Ýmsar hugmyndir hafa komið upp og þær þarf að skoða. 

Þá þarf að breyta fjölmörgu í kringum kröfurétt, en það er efni í sjálfstæða færslu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll

Það er ein smá pæling varðandi skerðingar og fjöldi barna.

Ég á þrjú 'börn'. það er orðið mjög algengt að börn búi mun lengur hjá foreldrum en eldri staðlar segja til um. Mín börn eru 11, 18 og 27. Öll heima. Sjálfsagt samkvæmt þessari skilgreiningu á ég bara eitt barn.
Viljum við að 'börnin' flytji að heiman 18 ára? og sé þess vegna ekki eðilegur partur af húsnæðisþörf viðkomandi fjölskyldu?

kv,

VJ (IP-tala skráð) 18.4.2013 kl. 14:26

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

VJ, ég segi ekkert til um aldur barnanna og lítið mál að horft sé til þess fjölda sem er á heimilinu.  Spurningin bara hvort tölvukerfi Þjóðskrár ráði við það

Marinó G. Njálsson, 18.4.2013 kl. 14:42

3 Smámynd: Friðrik Már

Þetta er snilldar vel sett upp hjá þér Marinó og eitthvað sem menn ættu að nota til hliðsjónar en ef horfir fram sem horfir að Sjálfstæðisflokkurinn endi í ríkistjórn er hætt við því að Framsókn yrði að gefa eftir í stjórnamyndun og þá gæti verðtryggingin legið undir en ég hef haft þá tilfinningu að þetta þurfi að haldast í hendur því annars fer allt í sama farið aftur.

Friðrik Már , 23.4.2013 kl. 00:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 81
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband