Leita í fréttum mbl.is

Illa fengin krafa getur ekki orsakað vanskil - Leiðréttið stökkbreytingu og þá lagast margt!

Í janúar 2009 voru Hagsmunasamtök heimilanna stofnuð.  Markmið samtakanna er meðal annars að vinna í leiðréttingum á lánamálum heimilanna.  Krafa um slíkt var lögð fram strax í febrúar 2009 og hljóðaði hún upp á að forsendubrestur lána yrði leiðréttur, þannig að verðbætur vegna hækkunar vísitölu neysluverðs umfram 4% yrðu felldar niður af lánum.  Færð hafa verið mörg rök fyrir bæði réttlæti slíkrar aðgerðar og ekki síður skynsemi hennar.  Stjórnvöld og fjármálafyrirtæki hafa slegið skollaeyrum vð þessari kröfu með rökunum "ekki hægt".  Aldrei allan tímann hefur verið sest niður og reynt að finna út hvernig þetta gæti verið hægt.  Starfshópur var stofnaður um málið haustið 2010, svo kallaður sérfræðingahópur, en niðurstaða þeirrar vinnu var öll á forsendum fjármálafyrirtækjanna og fengu fulltrúar lántaka ekki einu sinni aðgang að því borði þegar ákveðið var hvaða brauðmolum ætti að henda í lántaka.

Ég sat í þessum sérfræðingahópi og benti í séráliti mínu á hvað þyrfti að gera.  Skipti ég lántöku í hópa (raunar sambærilega og sérfræðingahópurinn) og reyndi að skilgreina til hvaða nauðsynlegra aðgerða þyrfti að grípa.  Ég tel enn að mín nálgun í þessu máli hefði orðið árangursríkari en sú leið sem fjármálafyrirtækin og stjórnvöld fóru.  Auk þess vil ég benda á að tillögur stjórnvalda og fjármálafyrirtækja gerði ráð fyrir meiri leiðréttingu verðtryggðra lána, en reyndin hefur verið.  Munar þar líklegast ekki undir 50 milljörðum króna.  (Hef þó ekki endurreiknað það nýlega.)

Hagsmunasamtök heimilanna hafa ítrekað varað við því sem myndi gerast, ef ekki yrði gripið til víðtækari ráðstafana.  Samtökin hafa bent á að flest úrræði stjórnvalda hafa byggt á því að færa eignir heimilanna til fjármálafyrirtækjanna, þ.e. heimilin áttu að ganga á sparnað og selja seljanlegar eignir svo þau gætu greitt fjármálafyrirtækjunum, en fjármálafyrirtækin ættu ekki að leiðrétta þau afglöp sem hrunbankarnir urðu uppvísir að.  Vissulega tóku lífeyrissjóðirnir og Íbúðalánasjóður ekki virkan þátt í hrunadansi fjármálafyrirtækjanna, en þessir aðilar þáðu með þökkum brauðhleifana sem til þeirra var kastað af nægtarborði fjárglæfrafyrirtækjanna.  Hrunbankarnir orsökuðu hér mikinn óstöðugleika sem lýsti sér meðal annars í falli krónunnar og hækkun verðbólgu.  Þetta leiddi til mikillar hækkunar verðbóta og þessar verðbætur tóku lífeyrissjóðirnir og Íbúðalánasjóður fengins hendi.  Við sem höfum staðið í réttlætisbaráttunni fyrir heimilin lítum svo á að þessar verðbætur séu þýfi og með því að þiggja verðbæturnar hafi lífeyrissjóðirnir og Íbúðalánasjóður orðið þjófsnautnar.

Í öllum siðuðum samfélögum þykir eðlilegt að þjófar sem gripnir eru, séu látnir skila þýfinu og hafi aðrir notið þýfisins, þá skili þeir því líka.  Ekki er tekin gild sú afsökun að menn hafi ekki vitað að um þýfi væri að ræða.  Kannski er grimmt að tala um þýfi, en a.m.k. er um illa fengið fé að ræða og um það gilda almennt sömu reglur.  Hafi fé vrið haft af manni, þá ber að skila því.  Ljóst er að mikið vantar upp á að Ísland teljist til siðaðra þjóða, a.m.k. hvað þetta varðar.  Fjármálafyrirtæki geta augljóslega framið alls konar lögbrot, brotið gegn viðskiptavinum sínum, sett heilt þjóðfélag nánast á hausinn og síðast en ekki síst nýtt lögbrot annarra til að hagnast án þess að þurfa að svara til saka eða bæta fólki og fyrirtækjum skaðann.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa ítrekað varað við því að úrræði stjórnvalda og fjármálafyrirtækjanna væru ófullnægjandi.  Að um tímabundin úrræði væri að ræða til að vonast til þess að viðhalda greiðsluvilja heimilanna.  Vissulega hafa mörg heimili nýtt sér fjölbreytt úrræð, en því miður hafa mörg þessara úrræða ekki leitt til varanlegrar lausnar.  Vandanum hefur verið ýtt á undan í von um að kraftaverkið gerðist.  Fólk fékk að leysa út séreignarsparnað.  Margir nýttu sér það, en nú er sá sjóður uppurinn.  Aðrir áttu einhvern sparnað inni á bankabók, en það var að mestu bara ríka fólkið.  Heimilin náðu að halda sér á floti í einhvern tíma, en hefur hópur þeirra einfaldlega ekki við að ausa bátinn.  Þessu var varað við.  En stjórnvöld voru ekki að hlusta eða í fásinnu sinni trúðu fjármálafyrirtækjunum, þar sem sitja að stórum hluta sama fólk og setti okkur í þessa stöðu.

Meðan stökkið í verðbótum á höfuðstól verðtryggðra lána hefur ekki verið leiðrétt, þá er hætt við að tiltekinn hópur heimila mun bara sökkva dýpra og dýpra.  Önnur ráða enn við birgðarnar, en jafnvel hjá þeim er róðurinn tekinn að þyngjast.  Hvað þarf að gerast svo stjórnvöld og fjármálafyrirtækin átti sig á þessu?  Hvert er virði lánasafns, þar sem hluti lántaka standa ekki undir afborgunum?  Hver er munurinn á því að koma til móts við núverandi lántaka og að afskrifa lán sem hvíla á eign áður en hún er seld áfram? 

Ég veit ekki hvað þarf til svo stjórnvöld og lánveitendur átti sig, en vakni menn ekki fljótlega, þá mun það einfaldlega bitna á greiðsluhæfi Íbúðalánasjóðs og ég er ekki viss um að stjórnvöld vilji hugsa þá hugsun til enda að Íbúðalánasjóður lendi í verulegum vanda.  Í mínum  er það lánasafn verðmætara þar sem búið er að skilja á milli "góðra" lána og "slæmra", þar sem búið er að stilla kröfuna af þannig að lántakinn getur greitt af þeim og hefur vilja til þess.  Loks, í mínum huga, þá er enginn munur á því að láta núverandi lántaka njóta afskrifta sem nýr lántaki fengi.  Raunar tel ég það siðferðislega rétta aðferð.

(Síðar mun ég rifja upp tillögur mínar í sérálitinu og færa frekari rök fyrir því af hverju ég taldi það rétta aðgerð.)


mbl.is Um 500 ný heimili í vanskilum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fer ekki að verða tímabært að rannsaka hvað það hefur kostað hagkerfið, og þá um leið fjármálakerfið og ríkissjóð að gera ekki neitt?

Það er ævinlega talað um hversu dýrt sé að leiðrétta þetta þjófakerfi, en aldrei virðist koma til greina að reyna að leggja mat á kostnaðinn við að líta undan og gera ekki neitt.

Þetta hefur verið öllum landsmönnum dýrt, að hafa hér allt í frosti og vanskilum árum saman, og láta sér detta í hug að steinninn molni á undan hausnum.

Það sem verra er að þingflokkur sjallanna hefur engar lausnir heldur. Þar virðist 110% bullið vera ljómandi fínt, og verðtryggingin líka.

Þannig að það eru engar breytingar fyrirsjáanlegar á þessu þjófakerfi fyrr en kjósendur vakna til lífsins og fara að líta út fyrir kassann fyrir næstu kosningar.

Fjórflokkurinn er ekki að vinna fyrir fólkið í landinu, það ætti flestum að vera ljóst.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 8.9.2012 kl. 11:27

2 identicon

Það þarf að aðlaga skuldir fólks að greiðslugetu og afskrifa strax þær skuldir sem ekki er hægt að borga svo hægt sé að forðast allan þann kostnað og sársauka sem fylgir nauðungarsölum og útburði.

4 ár frá hruni og við erum ennþá í fáranlegri stöðu með þessi mál. Allt vegna undirgefni stjórnvalda við IMF og fjármálafyrirtækin.

Toni (IP-tala skráð) 8.9.2012 kl. 11:38

3 identicon

Það er ákveðið að dreifa högginu / svæfa almúgann.

Fyrst fóru þeir sem gátu ekki staðið í skilum.
Það var gefið skít í þá, voru hvort sem er búnir að gera sér þetta sjálfir, flatskjár og fellihýsi.

Þeir sem flúðu land höfðu bara gott af því = Árni Páll fanst það í lagi.

Svo var þeim sem áttu sparnað leyft að taka hann út til að ná endum saman.

Þarna græddi ríkið ( við ) fullt enda var skattprósentan hækkuð um leið svo öll ávöxtun fór í vaskinn ( ríkið ). Sá sem byrjaði að safna 2002 í erlendan sjóð fékk nákvæmlega það sama til baka og fór inn. Þótt krónan hafi fallið um 50%.

Núna er búið að hækka vaxtabætur og álögur á bensín = 0

Hvers vegna eru verðbætur réttlætanlegar fyrir þann sem á fé / sparnað. Það er ekkert sem réttlætir að einstaklingur geti verndað aurinn sinn á kostnað annara.

Engin lánar ef það er ekki verðtrygging, fínt þá eru engir bankar til.
Ættum kannski að prufa vera án þeirra.  

Peningar vaxa ekki á trjánum. Það þarf að afla þeirra, bæði fyrir vöxtum og verðbótum.

Eitt tonn af fiski/áli þarf að greiða kostnað við að afla, síðan fer góður hluti af því sem við öflum að borga vexti og verðbætur til þeirra sem eiga sparnað.

Eina leiðin til að fá draslið á hreint er að afnema verðtrygginguna og láta það svíða ef verðbólgan fer upp. Menn fara kannski þá að gera hlutina rétt.

Ef hjólinu þínu er stolið og þú finnur þjófinn, þá fer hnefinn á loft.

Ef þú ert rændur á pappír sem kemur mánaðarlega inn um gluggan þá EKKERT.

Þeir sem réttlæta verðtrygginguna og aðgerðir undanfara ára, eiga hagsmuna að gæta.

mbk.
Benedikt.

Benedikt (IP-tala skráð) 8.9.2012 kl. 15:19

4 Smámynd: Ólafur Guðmundsson

Hættið nefna þetta fögrum nöfnum eins og leiðréttingu.

Þetta er einföld spurning. Hver á að borga skuldaniðurfellingarnar?

Ólafur Guðmundsson, 8.9.2012 kl. 18:58

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Áhugaverð spurning hjá þér, Ólafur.  Málið er að ekki er um skuldaniðurfellingu að ræða heldur er verið að skila því sem er of tekið.  Ef stúlkan á kassanum í Hagkaup lætur þig borga of mikið fyrir vöru og þú uppgötvar það þegar þú ert kominn heim, ferð til baka í Hagkaup og biður um leiðréttingu, á Hagkaup þá að neita að leiðrétta vegna þess að það lækkar tekjur fyrirtækisins?  Greinilegt er að þú lítur þannig á málið, en ég geri það ekki.  Auðvitað endurgreiðir Hagkaup þér umorðalaust vegna þess að stúlkan á kassanum lét þig borga rangt verð.  Vissulega fór hún bara eftir því sem tölvan sagði henni, en þú varst samt krafinn um of mikið.  Mundu það svo næst þegar gjaldkeri eða starfsmaður á kassa lætur þig borga of mikið, að samkvæmt þinni eigin skilgreiningu, þá verður ÞÚ að bera skaðann vegna þess að annars þarf einhver annar að gera það.

Ég verð að viðurkenna, að ég er orðinn ákaflega þreyttur á þeim málflutningi, að ég eigi að greiða of mikið vegna þess að annars tapi einhver annar.  Strangt til  er það ekki mitt mál sem lántaka að segja til um hver á að bera skaðann, en mér finnst eðlilegt að þeir sem of tóku af lántökum skipti leiðréttingunni á milli sín.  Það þýðir m.a. að hrunbankarnir, nýju bankarnir, lífeyrissjóðirnir og þeir sem nutu illa fenginna verðbóta þurfa að skipta þessu á milli sín.

Marinó G. Njálsson, 8.9.2012 kl. 20:20

6 Smámynd: Ólafur Guðmundsson

Þetta er svo mikið bull hjá þér Marinó.

Þetta er einfalt mál. Ef það á að skuldarniðufæra lánin þá þarf einhver að borga. Þú tókst lán samkvæmt fyrirfram ákveðnum skilyrðum og nú heimtar þú að borga minna!

Ólafur Guðmundsson, 8.9.2012 kl. 20:29

7 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ef lög voru brotin, þá er það ekki mitt, Ólafur, greiða fyrir það.  Mér er alveg nákvæmlega sama þó þú kallir þetta bull, en ég er sama sinnis um það sem þú segir.  Þú telur að fyrst að fjármálafyrirtæki svindlaði á okkur þá eigum við bara að borga.  Verði þér að góðu en ég lít ekki svo á.

Marinó G. Njálsson, 8.9.2012 kl. 20:43

8 identicon

Ætli það sé ekki best að bíða bara og sjá hvað dómstólar geri við þetta þjófakerfi sem hefur fengið hið virðulega nafn verðtrygging.

 Fjandinn hafi það að það standist neytendarétt að húsnæðislánið hækki við uppskerubrest í Brasilíu eða olíuslys í Alaska.

Að það fáist staðist að það sé bara eðlilegt að greiðsluáætlunin sé úreld og marklaus áður en blekið þornar á henni því ekki einu sinni fyrsta afborgun á láninu er í samræmi við þessa meintu greiðslu áætlun.

Þegar það er ekki hægt að upplýsa hver afborgun er næstu mánaðarmót, til hvers er þá verið að sóa pappír í að prenta út afborganir ár og áratugi fram í tímann?

Þetta getur bara ekki staðist að þessi þjófnaður sé löglegur.

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 8.9.2012 kl. 21:12

9 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Stóru mistökin voru gerð strax eftir fall bankanna. Þá voru innistæður tryggðar, þó reyndar talið sé að einungis um 2% þeirrar leiðréttingar hafi fallið til almennings og 98% til tiltölulega lítinn hóps fjárfesta. En gott og vel, innistæður voru tryggðar, þ.e. þær sem lágu á bankabókum.

Samhliða þessari gerð átti auðvitað að tryggja hag lántakenda. Tillögur HH voru 4% þak á verðtryggingu. Hvort það var akkúrat hin heilaga tala er hægt að deila og víst að HH nefndi hana sem einhvern umræðugrundvöll.

Hvenær sem er, eftir þetta, var svo hægt að fara þessa leið og er reyndar enn hægt. Hún hjálpar þó alltaf færra fólki, eftir því sem lengra líður frá hruni og ljóst nú, fjórum árum seinna, að margur hefur misst allt sitt vegna þess að ekkert var gert. Aðrir hafa tapað öllu sínu sparifé, hvort heldur það var á bankabók eða í steypu, en býr enn í íbúðunum sem það átti og greiðir af lánum vegna þeirra og önnur lögbundin gjöld, þó bankinn eigi þær í raun að fullu. Í þessum hóp eru þó sífellt fleiri sem ekki sjá lengur tilgang þess að halda áfram að greiða, enda svo komið að það sér ekki að það muni nokkurn tímann eignast íbúðina, ekki einu sinni þann hluta sem það átti fyrir hrun.

Þær leiðir sem farið hefur verið til "hjálpar" eru flestar sama marki brenndar, þær eru hugsaða af fjármálafyrirtækjunum fyrir fjármalafyrirtækin. Lántakandanum hefur algerlega verið haldið utan þeirra ákvarðanna og þær því ekki honum í hag.

Flöt leiðrétting verðtryggigar, strax eftir fall bankanna, hefði strax fækkað mjög þeim sem illa stóðu og því færri mál sem þar þurfti að skoða. Sumir þeirra sem slíka leiðréttingu fengju, voru þegar í það miklum vanda að ekkert var hægt að gera fyrir þá, voru í raun komnir á hausinn löngu fyrir hrun. Aðrir vor illa staddir en hefðu þó getað séð ljósið með smá aukahjálp.

Þess í stað ákváðu stjórnvöld að velta málinu í rúm tvö ár og með því jókst vandi lántakenda mikið. Þegar svo "lausnir" komu, var ljóst að þær hjálpuðu einungis þeim sem verst stóðu, hjálpuðu helst þeim sem í raun var ekki hægt að hjálpa. Þetta var gert til að gefa bönkunum lengri tíma til að arðræna fólkið. Fólki var aftur komið í þá stöðu að geta greitt af lánun sínum örlítið lengur, þó engin framtíð væri sjáanleg. Það versta var þó að í þessum hóp hafði fjölgað mikið, á þeim tveim árum sem tók að fá stjórnvöld til samninga. Nú eru flestir þeirra sem þessar leiðir völdu, annað hvort komnir á hausinn eða stefna hraðbyr þangað.

Sá hópur sem alveg hefur verið látinn afskiptalaus og enga aðstoð fengið, er sá stóri hópur lántakenda sem áttu allt að helming þeirra eigna sem það bjó í. Staða þeirra í dag er í mörgum tilfellum skuggaleg. Eignin orðin að engu, en láni hafa stökkbreyst. Þetta fólk á enga möguleika á neinni aðstoð, a.m.k. ekki meðan það getur greitt af sínum lánum. Í flestum tilfellum er þetta fólk sem fór varlega á árum græðginnar. Tók einungis lán sem það átti að geta staðið undir við nánast öll eðlileg skilyrði. Fólk sem lagði sinn sparnað í steypuna sem það ákvað að nota til að byggja sér heimili. Vegna þeirrar varfærni hefur þetta fólk getað greitt af lánum sínum, flestir með því að herða sultarólina meira en góðu hófi gegnir. Nú á bankinn þeirra hlut að mestu eða allan og einungis lánin standa eftir. Það er því ekki undarlegt þó fjölgi í hópi þeirra sem komast í vanskil og víst að sú fjölgun á eftir að verða mun meiri. Jafnvel duglegasta og heiðarlegasta fólk getur ekki staðið undir óréttlætinu til eilífðarnóns. Það einfaldlega gefst upp!  

Fall bankakerfisins var ekkert venjulegt ástand, eins og neyðarlögin sýndu svo gjörla og trygging innstæðna. Hvernig er þá hægt að halda því fram að stökkbreyting lánanna sé eðlileg?!

Þeir sem helst tala gegn leiðréttingu lána og afnámi verðtryggingar, nefna að þeir sem fá að lán eitthvað eigi að greiða til baka ígildi þess sama. Þessi rök eru vissulega góð og gild, en eiga þó ekki við um verðtryggingu lána. Ástæðan er einföld, með verðtryggingu er verið að greiða meira til baka en að láni var tekið.

Verðtrygging leggst á höfuðstól og verðtryggist þar aftur. Þetta veldur mikilli skekkju. Það er sjálfsagt mál að greiða til baka það sem að láni er tekið, með vöxtum. Að greiða til baka verðgildi þess er að láni var tekið. Til þess hafa allar siðaðar þjóðir vexti, en hér á landi eru bæði vextir og verðtrygging. Það er ekkert sem réttlætir þetta.

Í sjálfu sér er verðtrygging sem slík ekki vandamálið, heldur aðferðafræðin við notkun hennar. Ef vertrygging væri greidd við hver mánaðarmót, i stað þess að leggja hana við höfuðstól, væri í raun kominn sami grunnur og á vaxtalánum. Þó er ein smá skekkja eftir og það er að með þessu væri í raun verið að reikna vexti mánuð fyrir mánuð. Hvergi í heiminum þekkjast slík kjör, nema kannski hjá Mafíunni.

Með vertryggingu lána eru bankar með bæði belti og axlabönd, en lántakinn þarf að halda sínum buxum uppi með höndunum.

Sögu vertryggingar og tilgangur hennar í upphafi er öllum þekkt, sem á annað borð vilja þekkja. Þær forsendur sem lágu fyrir á sínum tíma og urðu til þess að verðtrygging var tekin upp, eru fyrir löngu brostnar. Þegar verðtrygging launa var afnumin, átti auðvitað að afnema verðtryggingu lána. Það er ekkert í okkar hagkerfi sem kallar á verðtryggingu lána. Þar ræður enungis hið gamla lögmál auðsins. Það eru peningaöflin sem þessu stjórna og okkur hefur ekki enn auðnast að fá þingmenn sem hafa kjark og þor til að standa gegn þeim.

Það eru þó hin sömu peningaöfl sem munu hljóta mestann skaða af þessari stefnu, þegar upp verður staðið. Skammsýni og græðgi þeirra mun leiða þá í glötun og sú vegferð er þegar hafin. Það óréttlæti sem þúsundir lántakenda hefur orðið fyrir mun leiða til enn meiri vanskila, ekki vegna minni greiðslugetu, hún getur ekki minnkað hjá flestum, heldur vegna þess að fólki er ofboðið!!

Þú fyrirgefur Marinó, þessi athugasemd varð nokkuð lengri en til stóð. Á stundum erfitt með að hemja fingurna á lyklaborðinu þegar um þessi mál ræðir.

Gunnar Heiðarsson, 8.9.2012 kl. 21:46

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gunnar, ekkert að fyrirgefa.  Ég þakka frekar fyrir gott innlegg.  Þú tekur þarna saman margt af því sem ég og fleiri (m.a. þú) höfum verið að segja.

Sérstaklega sammála þér með þetta síðasta að vanskilin munu aukast vegna þess að fólki er ofboðið!

Marinó G. Njálsson, 8.9.2012 kl. 23:02

11 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Ég keypti íbúð 2007 og tók lán 12,5m verðtryggt. Bankinn minn fékk þetta lán frá hrunbankanum á ca 6m. Ég seldi íbúðina í síðustu viku og tapaði um leið öllu sem ég lagði í hana, útborgun og endurbótum. Lánið var komið upp í 18,3m og ég greiddi það upp. Ekki slæmt fyrir blessaðan bankan að græða 12,3m auk vaxta á þessum 4 árum á 6 m kr fjárfestingu. Þetta eru menn sem kunna að græða peninga.

Sigurjón Jónsson, 9.9.2012 kl. 17:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 1
  • Sl. sólarhring: 82
  • Sl. viku: 276
  • Frá upphafi: 1680564

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 35
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband