Leita í fréttum mbl.is

Sjálfbærni er lykillinn að öllu

Á Eyjunni eru tvær færslu sem notið hafa mikillar athygli síðustu daga.  Önnur er eftir Eygló Harðardóttur Framtíð á Íslandi? og hin eftir Vilhjálm Þorsteinsson Leiðir úr höftum.  Báðar lýsa nokkurn veginn sama vandamálinu eða eigum við að segja viðfangsefninu, þ.e. hvernig eigum við að gera þetta land lífvænlegt og sjálfbært.

Núna rúmlega 43 mánuðum eftir hrun hagkerfisins og 49 mánuðum eftir hrun krónunnar, þá erum við ekki ennþá búin að moka okkur í gegn um skaflinn og það sem meira er, við vitum ekki hve langt er eftir.  Staðreyndin er nefnilega sú, að við höfum ekki yfirsýn yfir viðfangsefnið.  Ég vil raunar ganga lengra og segja að við höfum ekki einu sinni skilgreint viðfangsefnið.  AGS hefur látið okkur hafa sína skilgreiningu og fjármálakerfið sína, lífeyrissjóðirnir eru duglegir að halda sinni á lofti og Samtök atvinnulífsins sinni, en engin af þessum skilgreiningum hefur hagsmuni almennings í huga.  Þær eru allar sértækar til að bjarga takmörkuðum hópi fyrirtækja eða lífeyrissjóða upp úr kviksyndinu sem þessir aðilar álpuðust út í, en ekki almenningi sem þessir hópar drógu með sér ofan í kviksyndið.

Sjálfbærni heimila og fyrirtækja

Í lok september 2008 gerði ég þá djörfu tilraun að koma með tillögu að lausn á skuldamálum heimilanna.  Lýsa má lausninni með einu orði:  Sjálfbærni.  Ég stakk upp á því þá og hef ítrekað þá tillögu óteljandi sinnu eftir það, að færi yrði skuldastöðu sem flestra þannig niður að hún yrði sjálfbær.  Ljóst væri að það tækist ekki fyrir allan, en þá yrði að útfæra skjótvirkar leiðir fyrir fólk og fyrirtæki í gegn um hið óhjákvæmilega, þ.e. eignasölu, sértæka skuldameðferð eða gjaldþrot.  Siðari hluti af þessari hugmynd hefur verið hrint í framkvæmd með lögum og samningum við fjármálafyrirtæki, en fyrri hlutinn að mestu með íhlutun dómstóla.  Samt er stórhluti heimila og fyrirtækja ekki sjálfbær, raunar sýnist mér þau einu sem eru sjálfbær vera sjávarútvegsfyrirtækin, fjármálafyrirtækin, álverin og svo þau sem hafa fengið mestu niðurfellingarnar hjá bönkunum.

Stjórnvöld og fjármálafyrirtækin verða að átta sig á því, að sjálfbærni, þ.e. að tekjur dugi fyrir útgjöldum og fjárfestingum, er lykillinn að vexti.  Meðan stór hluti þjóðarinnar er í ósjálfbærri stöðu, þá mun vera fimbulkuldi á fjárfestingamarkaði, hvort heldur fasteignamarkaði eða vinnuvélamarkaði.  Hagvöxtur mun því ekki byggjast á því sem býr til varanlegan vöxt heldur því að fólk getur ekki frestað neyslu lengur og lætur því eitthvað annað sitja á hakanum í staðinn.

Meðan að þessu heldur áfram, þá efast ég stórlega um að það sé björt framtíð hér á landi næstu árin og enn síður sé ég fram á að við finnum leið út úr höftunum.

Sjálfbærni þjóðfélagsins

Vandi heimila og fyrirtækja er mikill, en hann er bara sem dropi í hafi saman borið við vanda okkar sem þjóðar.  Sá vandi felst í hinni gríðarlegu skuldsetningu okkar erlendis ýmist í formi erlendra lána eða í formi eigna erlendra aðila sem fastar eru hér á landi, en hann felst einnig í þeim vanda sem lýst er í þessari mynd frá Seðlabanka Íslands.

Helstu þættir viðskiptajafnaðar  Eins og sést á myndinni, þá er viðskiptajöfnuður stöðugt neikvæður, ef frá eru taldir þriðji ársfjórðungur 2007, 2010 og 2011.  Jákvæður vöruskipta- og þjónustujöfnuður síðustu þriggja ára hefur sama og ekkert upp í neikvæðar þáttatekjur og framlög.  Á síðustu 10 árum, þ.e. frá ársbyrjun 2002 til ársloka 2011 var viðskiptajöfnuður neiðkvæður um 1.546 ma.kr. eða að meðaltali 154,6 ma.kr. á ári og erum við þá að tala um á gengi hvers árs.  Þetta jafngildir 29,1% af útflutningi hvers árs!  Með öðrum orðum, heimilisbókhald þjóðfélagsins Íslands gengur út á að fá lánað á hverju ári sem nemur hátt í 30% af útgjöldum heimilisins.  Fyrir þá sem segja að þetta sé allt gömlu bönkunum að kenna, þá er það mikill misskilningur.  Þeir voru bara milliliður fyrir peningana sem fóru í vinnu hjá einhverjum öðrum.

Gefum okkur þó að drjúgur hluti af erlendum skuldum þjóðarinnar sé hjá hrunbönkunum, þá er ekki hægt að líta framhjá því að ákveðinn hluti eigna þeirra er hér á landi.  Einnig er það staðreynd að eftir standa drjúgar skuldir, þó þær verði bara brot af því sem er hjá hrunbönkunum.  Samkvæmt upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands eru erlendar skuldir án hrunbankanna um 855 ma.kr. 

Samkvæmt greinargerð með frumvarpi til breytingar á lögum um gjaldeyrismál, þ.e. þegar gjaldeyrishöftin voru hert, þá voru innlendar eignir þrotabúa hrunbankanna um 1.166 ma.kr., þar af teljast 872 ma.kr. vera kröfur, en mismunurinn eignir í hlutabréfum sem ekki þarf gjaldeyri fyrir nema innlendir kaupendur verði að bréfunum. Á móti koma erlendar eignir innlendra aðila og sé reiknað með því að við greiðslu renni sá gjaldeyrir allur inn í landið, þá er nettó útstreymi 528 ma.kr.

Loks eru það aðrar eignir erlendra aðila hér á landi, m.a. hinna svo kölluðu jöklabréfaeigenda.  Samkvæmt frétt Fréttablaðsins í dag eru þar langleiðina 500 ma.kr. til viðbótar.

Fyrir tæpu ári fjallaði ég svo um villuna sem felst í því að menn noti vergaskuldatölu en ekki brúttó (sjá Stórhættuleg hugsanaskekkja varðandi erlendar skuldir - Ekki er hægt að treysta á erlendar eignir til að greiða erlendar skuldir).  Ég held að þau rök semég setti fram í þeirri færslu eigi ennþá við.

Ég vil fullyrða að ekkert gagn verður af gjaldmiðilsskiptingu, ef henni fylgja ekki mjög markvissar aðgerðir í efnahagsmálum sem miða að því að gera þjóðfélagið sjálfbært til langframa.  Í athugasemd á Eyjunni segi ég að grípa verði til þrenns konar aðgerða.  Ein er tímabundin, en hinar tvæ verða að vera til langframa.  Þær eru:

A.  Auka innlenda framleiðslu sem kemur þá að einhverju leiti í staðinn fyrir innflutning og eykur útflutning.  Þetta er aðgerð sem verður að vera til langframa.

B.  Draga verður út útstreymi gjaldeyris með t.d. höftum á innflutningi, erlendri fjárfestingu og eyðslu í útlöndum.  Þetta ætti vonandi bara að vera til skamms tíma.

C.  Lækka erlendan fjármagnskostnað með því að draga úr lántöku og/eða semja um hagstæðari vaxtakjör og lækka þá ávöxtun sem erlendum aðilum (og þar með innlendum) býðst hér á fjármagnsmarkaði, þ.e. vextir ríkisskuldabréfa verða að lækka verulega.

Menn verða að skilja, að meðan við ýtum undir neikvæðan viðskiptajöfnuð, þá mun ástandið bara versna.  Ef við bætum árlega 150 ma.kr. á neikvæðu hliðina, þá er ekki langt í næstu kollsteypu.  Heldur hefur dregið út neikvæðum jöfnuðinum síðustu tvö ár, en betur má ef duga skal áður en viðskiptajöfnuður verður jákvæður.  Og þá eigum við eftir að vinna á skuldastabbanum.

Eitt er það sem við verðum að fara að hugsa upp á nýtt.  Það er hvenær vara, þjónusta eða framleiða er í raun ódýrari fyrir þjóðarbúið í gjaldeyrisútlátum annars vegar og hins vegar útvegar þjóðarbúinu meiri gjaldeyristekjur.  Þurfum við að breyta skattkerfinu þannig að það umbuni þeim sem stuðla að betri viðskiptajöfnuði og refsi þeim sem vinna gegn jákvæðum viðskiptajöfnuði?  Er slíkt yfir höfuð framkvæmanlegt?

Sjálfbærni er lykilorðið

Hvernig sem við skoðum framtíðina, þá er sjálfbærni lykilorðið.  Sjálfbærar fiskveiðar, sjálfbær nýting orkuauðlinda og sjálfbærni  hagkerfisins með tilliti til viðskiptajafnaðar.  Við þekkjum þetta tvennt fyrra, en hið síðasta er hugsun sem við þurfum að venjast. 

Í bili getur þetta þýtt að við þurfum að neita okkur um hluti sem okkur þóttu sjálfsagðir á árunum 1995 - 2008, þ.e. meiri lúxus en almenningur var vanur.  Já, hugsanlega er toppinum í neysluhyggjunni náð í bili og við verðum að sætta okkur við lægri lifistaðal.  Hátæknisjúkrahúsið sem við ætluðum að byggja þarf líklega að vera eitthvað minna en við ætluðum okkur.  Ekki verða byggðar knatthallir í öllum sveitafélögum eða eins flottar sundlaugar og stungið hefur verið niður á víð og dreif.  Huga þarf betur að arðsemi framkvæmda og gera ríkari kröfur til hennar. 

Forstjóri Landsvirkjunar hefur nefnt þetta í sínu máli og ég held að svo verði að eiga sér stað víðar.  Eins og það væri frábært að geta borað akgöng í gegn um mörg fjöll og undir firði, þá verða slíkar framkvæmdir að taka betur mið af aðstæðum í þjóðfélaginu.  A.m.k. þurfa þjóðhagslegir útreikningar líka að taka tillit til þess hver áhrif framkvæmdanna eru á viðskiptajöfnuðinn.

Gjaldmiðillinn endurspeglar hagstjórnina

Í öllu þessu skiptir nánast engu máli hvaða gjaldmiðil við verðum með í landinu.  Viðskiptajöfnuður snýst ekki um hver gjaldmiðillinn er eða hvort hann er alþjóðlega viðurkenndur.  Þetta sést vel, ef litið er til PIIGS eða GIPSI landanna (Grikkland, Ítalía, Spánn, Portúgal og Írland).  Þau eru öll með evru sem sinn gjaldmiðil og eru í tómu tjóni, þar sem viðskiptajöfnuður þeirra hefur verið neikvæður í talsverðan tíma.  Japan er með einn sterkasta gjaldmiðil í heimi, en fjármálakreppan þar er samt búin að vara í yfir 20 ár.  Svisslendingar eru líka með sterkan gjaldmiðil, en þeir átta sig á því að of sterkur gjaldmiðill er hættulegur útflutningi.

Gjaldmiðillinn er ekki málið, heldur jarðvegur hagkerfisins.  Hér á landi höfum við gengið illa um svörðinn og ekki sinnt uppbyggingunni.  Mörg innlend framleiðslufyrirtæki hafa hætt rekstri, þar sem þau urðu undir í samkeppni við innflutning.  Sá innflutningur var ekki endilega ódýrari eða betri.  Nei, hann var meira töff eða gaf innflytjandanum tækifæri til ferðalaga.  Oft var ástæðan ekki flóknari.

Fyrir nokkrum áratugum var hér blómlegur fataiðnaður með umfangsmiklum útflutningi.  Sjálfur var ég alinn upp í einu slíku fyrirtæki.  Þessi fyrirtæki fóru yfir móðuna miklu eitt af öðru fyrst og fremst vegna þess að innflutningurinn heillaði meira en innlend framleiðsla.  Upphefðin kom að utan, eins og einn kexframleiðandi auglýsti kexið með danska nafninu.

Þróunin hefur að hluta verið snúið við, en þó þannig að hugvitið er íslenskt en framleiðslan kínversk.  Með því næst framleiðslukostnaðurinn niður og hugsanlega fæst meiri hagnaður.  En við eigum að vera stolt af því að framleiðslan sé íslensk.  Hér þarf að fjölga störfum í framleiðslu og mér kæmi ekkert á óvart þó arðsemin myndi aukast.  Erlendir kaupendur eru ekki að sækjast eftir íslenskri hönnun framleiddri í Kína.

Stjórnvöld verða að huga betur að undirstöðum atvinnulífsins og gera skilyrði þeirra sem hagkvæmust.  Atvinnulífið verður síðan að skila arðinum til þjóðarinnar.  Sjávarútvegur, ferðaþjónusta, áliðnaður, framleiðslugreinar, allar verða þessar atvinnugreinar að átta sig á því, að við erum öll saman á þjóðarskútunni og lítið gagn er í því að vera með nokkrar flottar kátetur, ef dallurinn kemst ekkert áfram.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Rafn Ingvason

Þú ert barasta á móti hagvexti...

Haraldur Rafn Ingvason, 18.4.2012 kl. 12:48

2 identicon

Jóhanna Sigurðardóttir sagði í útvarpi nýlega að Seðlabankinn teldi færri heimili vera í skuldavanda nú enn fyrir hrun, einnig sagði hún hagfræðistofnun háskólans (minnir mig) telja að jöfnuður hefði aldrei verið meiri en nú á Íslandi.

Er Jóhanna úti að aka, eða eru hennar tilvitnanir réttar og þar með hagfræðistofnun (eða var það hagstofan?) og Seðlabankinn, þá líka úti að aka?

Aukinn innflutningur á lúxusjeppum bendir ekki til aukins jöfnuðar. Ef skuldastaða heimilanna er betri en fyrir hrun þá hef ég greinilega misst af einhverju,og óska hér með eftir uppfærslu á minn harða disk.  

Raunar bendir flest til þess að Seðlabankinn sé úti að aka. Ræður ekki við verðbólguna og hefur alltof háa vexti í miðri kreppu.

Verðbóglan bendir til þess að einhver sé að "prenta" peninga. Áhugaverð er fullyrðing Ólafs Margerissonar að það séu bankarnir og valdi þar með verðbólgu.  Vandinn við þessa meintu peningaútgáfu bankanna er sá að með útlánum sínum búa þeir til gerfi verðmæti sem "sjúga" raunverulegu verðmætin úr hagkerfinu. Búa ekki til verðmæti heldur ræna þeim úr vasa almennings í gegnum verðbólguna (og svo náttúrulega allt of háa vexti). Óverðskuldaðir vaða þannig í skyndigróða sem þeir nota m.a. til að kaupa lúxusjeppa eða annan innflutning sem veldur svo aftur verðbólgu og "gerfi"-þenslu sem þessir blessaðir Don Kíkótar í Seðlabankanum reyna  að drepa niður með sínum æðisgengnu vaxtaaðgerðum. 

Sammála þér Marínó að nú ríði á því að spara gjaldeyri, kanski þarf fleira að koma til en gjaldeyrishöft, t.d. að setja almennilegan hemil á útlán bankanna og hugarfarsbreytingu hjá almenningi t.d. gagnvart innlendri framleiðslu svo sem landbúnaði.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 18.4.2012 kl. 12:58

3 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Ég tek undir það að sjálfbærni til lengri tíma litið er forsenda fyrir raunverulegri velferð til lengri tíma litið og frambúðar.

Ég hef einmitt tekið dæmi (hið liðna iðnaðarsamfélag á Akureyri um og upp úr miðri 20. öld) um þetta stóra samhengi innanlandsframleiðslu og alþjóðaviðskipta í pistlum mínum á bloggsíðu minni (sbr. t.d. "Samstaða um íslenska almannahagsmuni í hnattvæddum heimi" 10.2.2012, (http://krisjons.blog.is/blog/krisjons/category/2292/), "Nýr og heftur kapítalismi" 31.1.2012, og "Markviss merkantilismi?" 2.12.2011 (http://krisjons.blog.is/blog/krisjons/entry/1220477/)).

Segja má að við séum núna að borga fyrir "ódýran" innflutningsvarning undanfarin ár og áratugi með verri viðskiptakjörum út á við nú og útgreiðslu atvinnuleysisbóta til atvinnulauss fólks; Fólks sem ella hefði getað unnið við gjaldeyrissparandi framleiðslu vara; Framleiðslu sem var rústað við innrás m.a. ódýrs Asíu-innflutnings. Það sem verra er er að viðkomandi verkþekking og þróun hennar glataðist í leiðinni.

Hin almennu hagfræðilegu rök fyrir al-frjálsum alþjóðlegum viðskiptum eru að við það hagnist allir aðilar gegnum ávexti sérhæfingar. Hins vegar hvílir sú kenning m.a. á þeirri forsendu að það vinnuafl og fjármagn sem losnar við það innanlands hafi úr að moða öðrum raunhæfari og hagkvæmari valkostum til lengri tíma litið. Þær forsendur hafa verið að bresta undanfarin ár hérlendis. Sumir standa að vísu með pálmann í höndunum en þorri almennings ekki.

Kristinn Snævar Jónsson, 18.4.2012 kl. 15:47

4 Smámynd: Kristinn Snævar Jónsson

Smá-viðbót um hið síðast nefnda: Ef til vill má skrifa hluta skýringarinnar á forsendubrestum kenningarinnar um alþjóðaviðskipti (Lögmál Ríkardós) á reikning mistaka og óskilvirkni í hagstjórn landsins í þjóðhagslegu tilliti, sem hefur gert það að verkum að "aðrir valkostir" fyrir vinnuafl landsins hafa ekki reynst á setjandi, gufað upp eða verið tálsýn ein.

Kristinn Snævar Jónsson, 18.4.2012 kl. 15:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 35
  • Frá upphafi: 1680016

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 31
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband