Leita í fréttum mbl.is

Vaxtadómar og Árna Páls-lög - hluti 3 - Átti Hæstiréttur annan möguleika en seðlabankavexti?

Ég tek það fram að þessi færsla var skrifuð fyrir hátt í tveimur mánuðum.  Ég ákvað að bíða með að birta hana þar til lögfræðiálit Hagsmunasamtaka heimilanna um dóm Hæstaréttar 600/2011 lægi fyrir.  Nú er búið að birta álitið og því ekki eftir neinu að bíða.

--

Í síðustu færslu um vaxtadóma Hæstaréttar og Árna Páls-lögin fjallaði ég um hvernig fjármálafyrirtækin fjármögnuðu sig og færði rök fyrir því að Hæstiréttur hefði verið leiddur í gildru.  Í þessari færslu langar mig að skoða hvort Hæstiréttur hafi getað komist að annarri niðurstöðu varðandi vexti áður gengistryggðra lána út frá lagabókstafnum. 

Hafa skal í huga, að Hæstiréttur getur almennt ekki úrskurðað um annað en fyrir hann er lagt.  Þannig hafa lögmenn fjármálafyrirtækjanna hvað eftir annað hreinlega eyðilagt mál með því að draga til baka á mikilvægu augnabliki kröfur eða málsástæður.  Þannig dró Drómi/FF til baka í málum nr. 603/2010 og 604/2010 frá 14. febrúar 20011, í málflutningi fyrir Hæstarétti, kröfur sem hefðu getað leyst úr þeim ágreiningi sem niðurstaða fékkst í miðvikudaginn 15. febrúar 2012.  Þ.e. þeim tókst að draga ágreininginn á landinn um heilt ár með þessu hátterni og það þrátt fyrir að til málanna hafi verið stofnað til þess að eyða sem flestum óvissu atriðum. Mál Sjómannafélags Íslands gegn Arion banka var leyst með samningum utan dómsala eingöngu örfáum dögum áður en málflutningur fyrir Hæstarétti átti að fara fram.  Nokkur mál hafa verið eyðilögð í flutningi með einhverju snú-snú brellum sem urðu til þess að málum var vísað frá.  Með þessu öllu hafa fjármálafyrirtækin getað komið í veg fyrir að úrlausnir fengjust í málum þar sem þau óttast að tapa þeim eða tjón þeirra verði minna með eyðileggingunni en ef dómur gengur.

Í þessari færslu ætla ég að líta framhjá því sem lagt hefur verið fyrir réttinn, en skoða hvað lögin segja.  Hef fyrirvara á því, að ég er ekki löglærður og því geta verið gallar á lagatúlkun minni. Ég hef aftur lagt þessa túlkun mína fyrir nokkra lögmenn og hafa þeir tekið undir hana.  Telja raunar mikilvægt að á þetta verið reynt fyrir dómi.

Vaxtalög nr. 38/2001

Tilvísun Hæstaréttar í dómi nr. 471/2010 í vaxtalögin eru nokkuð skýr og hefur hann síðar verið duglegur að vísa í þessa tilvísun.  Tilvísunin er í 4. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, þar sem segir:

Þegar greiða ber vexti skv. 3. gr., en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr. Í þeim tilvikum sem um verðtryggða kröfu er að ræða skulu vextir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr.

Forsenda þess að komist sé að þessari niðurstöðu er hvað 3. gr. vaxtalaganna segir, en hún hljómar svona:

Almenna vexti skal því aðeins greiða af peningakröfu að það leiði af samningi, venju eða lögum.  Vexti skal greiða frá og með stofndegi peningakröfu og fram að gjalddaga.

En nú verður að skoða 2. gr. laganna:

Ákvæði II. og IV. kafla laga þessara gilda því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum. Einnig verður vikið frá öðrum ákvæðum laganna að því marki sem þar er kveðið á um. Þó er ávallt heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara.

(Leturbreyting er mín.)

4. gr. er í II. kafla, þannig að 4. gr. tilheyrir hinum frávíkjanlega hluta laganna.  Þetta er mjög mikilvægt, eins og Eyvindur G. Gunnarsson hefur oft bent á, þó það hafi verið í hina áttina varðandi 14. gr. laganna varðandi dóma nr. 92/2010 og 153/2010.  Sumir kafla laga eru frávíkjanlegir.  Það þýðir að efni þeirra er ekki eina leiðin sem leysa má úr ágreining eða lagaóvissu sem snýr að efni kaflanna.  Hæstiréttur var því ekki í þvingaðri stöðu til að vísa til lagagreinarinnar.  Hann gerði það þrátt fyrir að hann hefði aðra kosti og án þess að koma með skýringu á því af hverju hann skoðaði ekki aðra kosti.

Vikið frá ófrávíkjanlegu greininni

2. gr. vaxtalaga tilheyrir samkvæmt ákvæðum greinarinnar hinum ófrávíkjanlega hluta vaxtalaganna.  Þetta fæst út frá því að í greininni segir að eingöngu verði "vikið frá öðrum ákvæðum laganna að því marki sem þar er kveðið á um".  Hæstarétti bar því að skoða ákvæði 2. gr. áður en ákvæði 3. og 4. gr. voru skoðuð.

Í 2.gr. segir síðan að ákvæði II. kafla og þar með 4. gr. "gilda því aðeins að ekki leiði annað af samningum, venju eða lögum".   Eru einhverjir samningar, einhverjar venjur eða einhver lög sem hefðu átt að hindra að Hæstiréttur gæti sagt að ákvæði II. kafla ættu að gilda?  Skoðum þetta nánar:

Samningar:   Mér dettur náttúrulega bara fyrst í hug lánssamningarnir sjálfir.  Vissulega ákvað Hæstiréttur að ýta þessu ákvæði þeirra til hliðar, en hann gerði það að mínu mati á fölskum forsendum, þ.e. hann var hreinlega dreginn að þeirri niðurstöðu vegna þeirra dómskrafna sem hafðar voru uppi.

Venjur:  Hér er raunar þegar komið fordæmi í dómi Hæstaréttar nr. 600/2011.  Sá dómur fellur á kröfurétti.  Vissulega er ýmis fullnusta kröfuréttar færð í lög, en margar grundvallarreglur kröfuréttar eru það ekki.  Kröfuréttur einn og sér er nógu sterk ástæða til að segja skýrt að ekki var forsenda fyrir því að vísa til ákvæða 3. og 4. gr. vaxtalaga. Aðrar "venjur" eru dómfordæmi og ekki bara hér á landi heldur líka hjá EFTA-dómstólnum og Evrópudómstólnum.  Bent hefur verið á nokkur dómafordæmi frá Evrópudómstólnum, en ég hef ekki heyrt af neinu frá EFTA-dómstólnum.

Lög: Í fljótu bragði koma tvenn lög upp í hugann og síðan tilskipunin frá 1798.  Fyrri lögin eru ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936 samningalaga og hin síðari eru í ákvæðum 14. gr. laga nr. 121/1994 um neytendalán.  36. gr. tekur að nokkru á kröfurétti ásamt því að taka á neytendarétti, meðan lgöin um neytendalán fjalla í grunninn um neytendarétt, þó vissulega komi kröfuréttur þar líka við sögu.

Sem sagt í a.m.k. tveimur atriðum af þremur, þá koma fram atriði sem ættu að varna því að ákvæði 3. og 4. gr. laga nr. 38/2001 koma bara yfir höfuð til álita við úrlausn þess hvaða vextir eiga að gilda.

Höfum í huga að greinarnar "gilda því aðeins" í stærðfræði segjum við "þá og því aðeins" og eins í rökfræði. Svona væri þetta sett upp í rökfærði  IF AND ONLY IF ((NOT samningar) AND (NOT venjur) AND (NOT lög)) => (II. kafli) = TRUE.  Málið er að þó svo að fengjum TRUE út úr (NOT samningar), þá fáum við FALSE út úr bæði (NOT venjur) og (NOT lög) og því FALSE út úr öllum sviganum sem leiðir af sér að Hæstiréttur mátti ekki nota ákvæði II. kafla til úrlausnar á máli nr. 471/2010.  Hann hafði ekki heimild í lögunum til þess að dæma eftir því ákvæði sem hann dæmdi eftir!

En hvað gat og átti Hæstiréttur að gera? 

Þessu er fljót svarað.  Hann átti að nota undantekningarákvæði 2. gr. laga nr. 38/2001:

Þó er ávallt heimilt að víkja frá ákvæðum laganna til hagsbóta fyrir skuldara.

Hæstiréttur leiddur að niðurstöðu

Vandi Hæstaréttar fólst í því að hann getur almennt ekki komið með aðra niðurstöðu, en felst í þeim dómskröfum sem gerðar eru.   Þess vegna hefði verið mjög mikilvægt að betur hefði verið vandað til þess máls sem fór fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur sem prófmál.  Nauðsynlegt hefði verið, að málið hefði innihaldið mun ýtarlegri dómskröfur og fjölbreyttari.  En því var ekki fyrir að fara.  Lýsing valdi málið, valdi lögfræðingin varnaraðila og færa má rök fyrir því að fyrirtækið hafi líka valið dómarann.  Málið var handvalið með lítt reyndan lögfræðing varnaraðila og dómarinn var bara að tryggja að málið kæmist til Hæstaréttar án þess að rugga bátnum.  Síðan má færa rök fyrir því að dómarinn hefði átt að segja sig frá málinu vegna tengsla annars lögmannsins við eiginmann sinn.

Skoðum eftirfarandi:

  • Hver ákvað að bílalánamál hjá Lýsingu ætti að vera prófmál?  Lýsing, hugsanlega í samráði við Samtök fjármálafyrirtækja. 
  • Hver ákvað að þetta tiltekna mál ætti að vera prófmál?  Lýsing
  • Af hverju fékk þetta mál að verða prófmál?  Vegna þess að Lýsing tók sprettinn og tróðst framfyrir í röðina. 
  • Hver ákvað dómskröfur í málinu?  Lýsing og hugsanlega lögfræðingur varnaraðila sem hafði nánast enga þekkingu á svona málum. 

Haft var eftir lögmanni Lýsingar, Sigurmar K. Albertssyni, að hann vildi ekki sjá þennan Björn Þorra aftur í réttarsalnum!  Nei, Sigurmar K. Albertsson þorði ekki að mæta karlmanni, þannig að hann valdi líttreyndan héraðsdómslögmann. 

Greinargerð varnaraðila fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur er við fyrstu sýn ágæt.  Hún tæpir á öllu mögulegu, en síðan vantar að fylgja málum eftir.  Ekki er gerð alvarleg tilraun til að hrinda kröfu um seðlabankavexti á grunni þess að greinar 3 og 4 í lögum nr. 38/2001 séu frávíkjanlegar og mjög ströng skilyrði eru fyrir því að hægt sé að nota þær.  2. gr. vaxtalaga er nefnd á einum stað í greinargerðinni, en í upptalningu á lagatilvísunum er ekki minnst á hana.  Ég hef ekki séð greinargerðina fyrir Hæstarétti, en þeir sem hlustuðu á munnlegan málflutning þar fengu það á tilfinninguna, að hæstaréttarlögmaðurinn sem flutti málið hafi ekki séð skjalið fyrr en þá um morguninn.  A.m.k. rak hann oft í vörðurnar.  Get ég ekki ímyndað mér að slíkt sé vænlegt til árangurs.

Feluleikur í kringum málið

Við sem höfðum staðið á haus í réttindabaráttunni urðum mjög hissa, þegar okkur var tilkynnt að dómur væri að ganga í vaxtamáli hinn 23. júlí 2010.  Bíddu nú við hvenær var þetta mál undirbúið?  Komu einhverjar stórar kanónur að undirbúningi varnarinnar?  Fór vörnin eftir því sem fyrir hana var lagt?  Stærsta spurningin sem brann á mér var:  Er þetta mál heppilegt sem prófmál?  Svarið við síðustu spurningunni var skýrt NEI.  Þetta mál var vonlaust sem prófmál nema til að vernda hagsmuni fjármálafyrirtækjanna.

Niðurstaðan var að velja skássta kostinn af slæmu kostunum, þ.e. bestu verstu lausn.   Héraðsdómari bar fyrir sig að það væri minnst íþyngjandi niðurstaðan fyrir neytandann.  Hæstiréttur var nú ekkert að velta sér upp úr neytendarétti og dæmdi út frá 4. gr. vaxtalaga.  Svona á þetta að vera, punktur!

Var til eðlileg niðurstaða?

Vissulega verður rétturinn að hafa einhverja leiðsögn, þ.e. ekki er hægt að fara í einhverja tilviljunarkennda vegferð.  Fyrir það fyrsta mátti rétturinn ekki hrófla við vöxtum afturvirkt, það leiðir af bæði lögum nr. 121/1994 um neytendalán og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.  Út frá því sem ég bendi á að ofan bannaði 2. gr. vaxtalaganna  réttinum slíka afturvirka breytingu.  Síðan er það hinn stóri misskilningur Hæstaréttar að ekki hafi verið hægt að skipta út LIBOR viðmiði fyrir annað viðmið.  LIBOR viðmiðið er eingöngu tilvísun í það hvernig fjármálafyrirtækið sagðist fjármagna sig en ekki hvernig lánið var í raun og veru fjármagnað og greitt út.  Það var greitt út í krónum. LIBOR viðmiðið var heldur ekki ráðandi hluti vaxtanna, heldur var það vaxtaálagið, a.m.k. hjá stærstum hluta lántaka.  Hæstaréttur hefði því átt að skipta út LIBOR viðmiðinu fyrir viðmið sem fjármálafyrirtækið, í þessu tilfelli Lýsing, sannanlega notaði. 

Hér steytir aftur á því, að ekki var gerð dómskrafa um neitt á milli niðurstöðu Hæstaréttar og þess að samningsvextir héldust áfram.  Rétturinn gat því ekki einu sinni dæmt að fullnaðarkvittanir giltu, eins og niðurstaðan var 15. febrúar sl., þar sem krafa um slíkt var ekki höfð uppi. Raunar er ekki minnst einu orði á fullnaðarkvittun í greinargerð verjanda í málinu fyrir héraðsdómi.

En gat Hæstiréttur vikið frá dómskröfum? Já, hann ekki bara gat það, honum bar það samkvæmt ítrekuðum niðurstöðum Evrópudómstólsins, þar dómstóllinn hefur sagt að dómstólar eigi alltaf að huga að neytendavernd þó svo að krafa um slíkt sé ekki höfð uppi.

Málið sjálft

Ekki verður vikið frá þessari umræðu án þess að tala um málið sjálft.  Þetta var uppgjörsmál, þar sem viðkomandi lántaki hafði skilað inn bifreið eftir að hann komst í vanskil.  Hann hafði ekki haft upp neinar mótbárur um að lánið væri ólöglegt áður en hann komst í vanskil (að ég best veit) og eindaði á því að skila bifreiðinni.  Út frá þeim grunni var vitað að Lýsing gæti krafið hann um dráttarvexti fyrir allan tímann frá því að bifreið var skilað fram að dómsdegi.  Lánið hafði verið tekið í nóvember 2007 og því hafði viðkomandi ekki átt bifreiðina nema mjög skamman tíma áður en krónan féll í mars 2008.  Allir útreikningar hefðu því komið betur út fyrir lántaka af þeim sem gerð var dómskrafa um.

Héraðsdómur dæmdi í málinu út frá því að dómskröfu lántaka var hafnað (um samningsvexti) og féllst á síðustu þrautavarakröfu Lýsingar vegna þess að hún var minnst íþyngjandi fyrir lántaka.  Þ.e. héraðsdómur féll á neytendarétti en ekki beinni tilvísun í lög nr. 38/2001.

Hæstiréttur stikar alveg framhjá niðurstöðu héraðsdóms, þó svo að útkoman verði sú sama.  Báðir aðila hunsa 2. gr. vaxtalaga.

Málið í dómi nr. 471/2010 var gjörsamlega galið sem fordæmismál hvernig sem á það er litið.  Mikilvægt er að látið verði reyna á niðurstöðu þess í nýju máli fyrir Hæstarétti.  Í dómi nr. 600/2011, þá segir meirihluti réttarins að niðurstaðan í máli nr. 471/2010 hafi hreinlega verið röng.  Rangur lagaskilningur verður bara leiðréttur til framtíðar, er kjarninn í niðurstöðunni 15. febrúar 2012.  Í máli nr. 471/2010 er niðurstaðan að endurreikna vexti frá upphafi, þrátt fyrir greidda gjalddaga.  Þessir dómar eru ekki samhljóma.  Ekki er nóg að segja að aðrar kröfur hafi ekki verið fyrir dómi, því Hæstiréttur getur óskað eftir nýjum útreikningum og honum ber að vernda rétt neytenda, þó svo slíkum vörnum sé ekki haldið uppi af hálfu neytandans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta Lýsingarmál er Hæstarétti til vansa.  Ég held að það sé óhætt að fullyrða að niðurstaðan hafi rýrt traust fólks á réttinum um langa framtíð.

Það er ágætt að rifja það upp að áður en dómurinn féll þá skrifaði fyrrum forseti Hæstaréttar grein á Pressunni þar sem hann lagði í raun fram heildstæða rökleiðslu og lagaforsendur fyrir Hæstarétt sem hægt væri að fara eftir þegar þessi mál kæmu fyrir dóm. Sú rökleiðsla var einföld, lögum samkvæmt og af svipuðum toga og síðuhafi greinir hér frá.  Samningsvextir skyldu standa.

Í framhaldinu kom svo Sigurður Líndal með sitt álit sem gekk út á að Seðlabankavextir skyldu lagðir á þessi lán vegna þess að það væri svo sanngjarnt!  Ég verð að játa að það fór um mig óhugur að hugsa til þess að Sigurður hefur verið talinn leiðandi sérfræðingur á sviði lögfræði árum saman. Lagalegur rökstuðningur hans var svo að segja enginn.

En það er mér hulin ráðgáta af hverju í ósköpunum Hæstiréttur lagði út í þá skógarferð sem dómurinn í máli 471/2010 er.  Krafan um að samningsvextir skyldu standa var inni í vörninni ef ég man rétt. Afleiðingarnar af þessu fúski eru skelfilegar.  Það hefur tekið tvö ár að vinda ofan af þessari vitleysu og sér ekki fyrir endan á því ennþá en margt sem bendir til þess að það verði engu að síður niðurstaðan að samningsvextir gildi.

Helst dettur mér í hug að Hæstiréttur hafi verið að kaupa fjármálakerfinu tíma en eins og þið munið þá skorti ekkert á vanstillingu og flumbrugang af hálfu Gylfa Magnússonar þáverandi ráðherra, þegar hann var að reyna að leiðbeina réttinum um það hvernig mætti bjarga fjármálakerfinu, hvers eiginfé er fjármagnað með mismuninum á bókfærðu virði og kröfuvirði lánasafnanna.

Það hafa margir góðir menn náð að eyðaleggja orðspor sitt við að aðstoða stjórnvöld í þessari tilraun til þess að ræna heimili landsmanna.  

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 17.4.2012 kl. 20:46

2 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Marinó: Er eitthvað mál á leiðinni í gegnum dómskerfið sem getur skýrt þessi mál í eitt skipti fyrir öll, svo þú vitir til?

Erlingur Alfreð Jónsson, 17.4.2012 kl. 23:37

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Erlingur í lok maí og byrjun júní fara tvö mál fyrir Hæstarétt.  Ég vonast til þess að þau skýri þetta eitthvað.

Marinó G. Njálsson, 17.4.2012 kl. 23:59

4 Smámynd: Axel Pétur Axelsson

það er ljóst á dómum héraðsdómstóla og dómarar hans fara ekki eftir lögum landsins . . . þeir dæma 100% eftir hagsmunum sérhagsmuna . . . þetta getur bara þýtt að dómarar héraðsdóms taka við greiðslum, eru undir hótunum eða alvarlega heilabilaðir . . . það er ekki séns að þetta geris á eðlilegan hátt . . . ég er á því að allir héraðsdómarar landsins sem dæmt hafa í fjármunakröfum séu vanhæfir . . . í raun ætti að ákæra þá alla til landsdóms . . . hæstiréttur á erfiðara með að fara framhjá lögum en það er full sannað að þeir reyna eins vel og þeir geta . . . ég tel hins vegar að þeir séu undir sömu sökina seldir og því óhæfir og ættu að setjast á landráðsbekkinn líka . . . eina lausnin á réttarfari landsins er að lögin séu skrifuð á mannamáli (ekki latínu) og formkröfur ekki meiri en þarf til að skila skattaskýrslu . . . það þarf að aðskilja lögfræði og dómarastörf frá námi til praksís . . .

Axel Pétur Axelsson, 18.4.2012 kl. 10:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 81
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband