Leita í fréttum mbl.is

Bankarnir forðast úrskurði í óþægilegum málum - My way or no way!

Á nokkrum vikum hafa þrjú mál, sem voru fyrir Hæstarétti, endað með án endanlegs úrskurðar.  Fyrsta er að nefna mál Arion banka gegn Sjómannafélagi Íslands, en samið var um það mál áður en dómsniðurstaða fékkst.  Hin tvö málin eru bæði mál sem bankarnir unnu í héraði, en sáu fram á að ekki bara tapa í Hæstarétti, heldur hefði reynt í báðum málunum á lögmæti laga nr. 151/2010.

Arion banki gegn Sjómannafélagi Íslands

Dómur í máli E-5215/2010 Arion banka gegn Sjómannafélagi Íslands (SfÍ) var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur 18. febrúar sl.  Málið snerist um kröfu SfÍ um endurgreiðslu á ofgreiðslu vegna áður gengistryggðs fasteignaláns.  SfÍ vildi að Arion banki endurgreiddi alla ofgreiðsluna, en Arion banki bar fyrir sig þá áhugaverðu málsvörn að hann hefði ekki eignast lánið fyrr en 10. janúar 2010 og væri því ekki aðili að þeim hluta kröfu SfÍ sem væri vegna ofgreiðslu fyrir þann tíma!  Nú héraðsdómur féllst á þessi rök bankans og sagði SfÍ að félagið yrði að sækja annað til fyrri kröfueigenda, þ.e. Seðlabanka Íslands og Kaupþings.

Ég fjallaði um þetta mál í færslunni Dæmt að Arion banki eigi ekki aðild að hluta máls - Skaut bankinn sig í fótinn? og lýsti þar þeirri skoðun minni, eins og fyrirsögnin bendir til, að bankinn hafi með málsvörn sinni leikið herfilega af sér og gert öðrum nýjum kröfueigendum mikinn óleik.  Ljóst er að menn innan Arion banka hafa áttað sig á alvarleikanum, þegar nær dró málflutning í Hæstarétti.  Líklegast þykir mér að vinir þeirra í hinum bönkunum hafi hringt í þá og sagt þeim að semja, því Hæstiréttur mætti alls ekki staðfesta niðurstöðu héraðsdóms.  Að minnsta kosti varð niðurstaðan sú að SfÍ og Arion banki sömdu utan dómstóla og málið var dregið til baka.

Ég segi bara: 

Hafi sjómenn samið um eitthvað annað en fulla endurgreiðslu og síðan niðurfellingu eftirstöðva, þá sömdu þeir af sér. 

Varðmæti samningsins fyrir Arion banka var nefnilega upp á margfalt hækki upphæð, en lánið sem var í húfi.  Með því að semja utan dómstóla fékkst ekki mikilvægt dómafordæmi og Arion banki ásamt bestu vinum hans Íslandsbanka og Landsbankanum geta haldið áfram að sækja að landsmönnum í krafti þess að ekki sé kominn fordæmisgefandi dómur.

Ég hef ásamt mörgum öðrum hafnað aðild nýju bankanna að endurútreiknuðum vöxtum vegna þess tíma þegar lánin voru í eigu hrunbankanna.  (Fyrir utan að ég hafna að yfir höfuð megi gera kröfu á mig aftur í tímann.)  Varð ég því ákaflega ánægður með niðurstöður héraðsdóms í máli E-5215/2010, þar sem þar var fallist í öllu á þau rök sem ég hef sett fram.  Sjómannafélag Íslands hafði tækifæri til að koma almenningi til varnar með því að fá efnislega niðurstöðu, en þeir guggnuðu þegar mest á reyndi.  Er þetta því miður dæmigert fyrir samtök launafólks í landinu að Vilhjálmi Birgissyni undanskyldum.

Íslandsbanki gegn Ólafi og Áslaugu/Arion banki gegn Birni Þorra og Karli

Hér eru tvö mál (E-260-2010 og E-450/2009), þar sem bankarnir unnu sigur í héraði.  Báðir héraðsdómarnir eru ákaflega áhugaverð lesning og væri hægt að skrifa langa pistla um ýmislegt sem þar kemur fram.  Niðurstaða beggja var að lánin væru lögleg gengistryggð lán, að ekki hefði orðið forsendubrestur og að lántakar hefðu engan rétt vegna athafna bankanna fyrir hrun.  Sem sagt báðir dómarar virtust telja bankamenn vera svo heilaga að þeir hljóta að ganga á vatni.

Áhugaverðast er þó að báðir dómarar lögðu sig í líma við að segja viðkomandi lán ekki falla undir fordæmi Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010, gengislánadómum Hæstaréttar frá 16/6/2010.  Ég veit ekki hvort það var Björn Þorri sem fór svona í taugarnar á dómurunum eða eitthvað annað, en það hlýtur að hafa verið óþægilegt fyrir þá, að fá ítarlegar greinargerðir Björns Þorra, þar sem örugglega var settur fram djúpur og heilsteyptur rökstuðningur.  Enda skilst mér að Andri Árnason, lögmaður Íslandsbanka, hafi gengið út frá því eftir munnlegan málfluting í Héraðsdómi Suðurlands, að dómsuppkvaðning væri bara formsatriði.  Annað kom þó í ljós.

Báðir bankarnir gerður það viljandi eða ekki, að ónýta málin fyrir Hæstarétti.  Hafi það verið gert viljandi, sem ég tel líklegri skýringuna, þá getur það eingöngu hafa verið gert, þar sem þeir óttuðust niðurstöðuna.  Staðreyndin er nefnilega sú, að meðan ekki fæst endanleg niðurstaða um vexti áður gengistryggðra lána og gildi greiðslukvittana, þá geta þeir haldið áfram að ganga að fólki.  Ekki má líta framhjá því að í tvígang hafa dómstólar hafnað upptöku fullnustugerða sem byggðar voru á ólöglegum gengistryggðum lánum og því er það bönkunum í hag að halda áfram með slíkar fullnustugerðir, því þær eru að mati tveggja héraðsdóma endanlegar.

Hin skýringin að bankarnir hafi klúðrað hlutunum óviljandi er ekki góðs viti fyrir bankana.  Segi ekki meira.

Mikilvægt fyrir alla að fá niðurstöðu

Gríðarlega mikilvægt er fyrir alla að niðurstaða fáist í álitaefni.  Mér finnst eins og mér sé haldið í gíslingu fjármálafyrirtækja sem geta í krafti aðstöðumunar valtað yfir öll andmæli mín.  Þar sem ég andmælti endurútreikningi og hafnaði að skrifa undir skilmálabreytingar, þá var þrengt að mér annars staðar.  Yfirdráttur ekki framlengdur, lánamörk á greiðslukorti lækkuð og fleira svona skemmtilegt.  Í staðinn fyrir að semja um hlutina eða sammælast um að leita til dómstóla, þá er manni svarað með þögninni eða allt dregið eins mikið á langinn eins og kostur er.

Ég get nefnt sem dæmi, að núna eru 850 dagar síðan ég óskaði eftir samningum við eitt fjármálafyrirtæki.  Já, 850 dagar.  Ég hef ítrekað ósk mína örugglega sex sinnum og sent þeim tvö ítarleg skjöl með hugmynd um uppgjör.  Auk þess hef ég óskað eftir að fá að nýta mér úrræði sem fjármálafyrirtækið sjálft skrifaði undir að stæðu lántökum til boða, að fyrirtækið lengdi í lánum í samræmi við samkomulag sem gert var við það fyrir hrun og svona mætti lengi telja.  Öllu þessu hefur verið hafnað!  Í 2 ár og 4 mánuði hefur þetta fyrirtæki forðast það að finna lausn, komast að niðurstöðu.  Ég telst heppinn, ef ég fæ svar og kraftaverk ef eitthvað er að græða á innihaldi svarsins.  Á meðan þessu stendur, þá tikka vextir og kostnaður.

Ég er ekki einn um þessa stöðu.  Nánast allir sem ég tala við, lýsa stöðu sinni á svipaðan hátt.  Fjármálafyrirtækin þvinga fram sína lausn eða svara fólki með þögninni.  Segja má að aðferð fjármálafyrirtækjanna sé mjög skýr:  My way or no way!  Virðist menn hafa gleymt að verðmætasta eign hvers fyrirtækis er viðskiptavinurinn.

Ég held að nýju bankarnir og slitastjórnin/skilanefndir fallinna fjármálafyrirtækja gleymi því að þessir aðilar eru ábyrgir fyrir tjóni sem hin föllnu fyrirtæki voru völd að.  Með framkomu sinni eru fyrirtækin að beina fólki meira og meira inn á braut skaðabótamála.  Er það virkilega það sem þau vilja?  Ef svo er, þá verði þeim að góðu, því eftir því sem meira kemur í ljós við rannsókn sérstaks saksóknara verður meiri efniviður í rökstuðning fyrir skaðabótum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Forusta Sjómannafélagsins skuldar skýringar.  Eru virkilega engir sjómenn í félaginu með gengistryggð lán?

En merkilegast við þetta allt saman er að bankarnir virðast trúa því að þeir geti komist upp með það að forðast dómstóla út í það óendanlega.

HH er komið með heimild til þess að fara fram á lögbann. Ég vona að þar á bæ séu menn að undirbúa að nota þá heimild.

Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 21.12.2011 kl. 19:43

2 identicon

Nú brást stjórn sjómannafélagsins öllum almenningi, með þessi ólöglegu gengisbundnu lán algjörlega, og megi þeir hafa ævarandi skömm fyrir.

En það er greinilega einhverjir, ornir hræddir,og alveg skelfilegt að fólk þurfi að bíða til vorsins, eftir dómsniðurstöðu Hæstaréttar.

Halldór Björn (IP-tala skráð) 21.12.2011 kl. 20:21

3 Smámynd: Dexter Morgan

Afhverju er fólk á íslandi ennþá í viðskiptum við þessa banka ? Getur íslenskur ríkisborgari verið í viðskiptum við erlendan banka ? Væri hægt að fara fram á það að fá útborganir (laun) í beinhörðum peningum um hver mánaðarmót (til að sleppa því að eiga viðskipti við nokkurn banka)? Afhverju eru íslendingar ekki að flykkjast í stórum hópum að litlum sparisjóðum út á landi s.s. Sparisjóðnum á Laugum (Sparisjóður Suður Þing), eða Sparisjóðnum á Grenivík.

En einhver kann svör við þessum spurningum, væri gott að fá svör. Góðar stundir.

Dexter Morgan, 21.12.2011 kl. 21:59

4 identicon

Það væri gaman að fá það á hreint hverjir sitja í stjórn Sjómannafélags Íslands. Ég sé að það eru valinkunnir menn á skrifstofunni en stjórnin er í felum.

Bankarnir vita vel að tjónið þarf að sanna. Það er mikil vinna og getur orðið æði flókið mál. Miklu flóknara heldur en að fá niðurstöðu í málið og gera svo nýja útreikninga í kjölfarið á því.

Séra Jón (IP-tala skráð) 22.12.2011 kl. 15:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband