Leita í fréttum mbl.is

Áhugaverð lesning þessi dómur - Dæmi um klassíska íslenska spillingu

Skoðaði þennan dóm á vef Hæstaréttar og maður getur ekki annað en sett stórt spurningamerki við það hvernig þessi bankaviðskipti fóru fram.  Viðkomandi aðili á að hafa greitt úr 76 m.kr. án heimildar eða eins og segir í dómnum "greiðslu skuldar vegna innistæðulausra færslna".  Hvernig getur viðskiptavinur safnað upp 76 m.kr. í fjölmörgum innistæðulausum færslum?  Er ekkert kerfi sem kemur í veg fyrir slíkar færslur?

Maðurinn er dæmdur (réttilega eða ekki) fyrir þessar færslur á grunni þess að hann hafi ekki gert athugasemdir við færslurnar á yfirliti.  Og vegna þess að hann gerði ekki athugasemdina innan 20 daga, þá taldist hann hafa samþykkt það sem á yfirlitinu stóð!  Bíddu nú við, er ekki eitthvað stórlega athugavert við þetta?  Hafa skal í huga að nær allar færslurnar voru framkvæmdar af bankanum sjálfum í tengslum við verðbréfaviðskipti.  Það var því ekki maðurinn sem framkvæmdi færslurnar og þó svo að samkomulag hafi verið milli Landsbanka Íslands hf. og viðkomandi einstaklings um að bankinn skuldfærði hlaupareikning viðkomandi fyrir greiðslum, þá er samt spurning hvort bankinn hafi haft heimild til að skuldfæra reikninginn fyrir meiru en yfirdráttarheimild hljóðaði upp á.  Ef ég reyni að fara út fyrir mína heimild, þá fæ ég skilaboð um að innstæða sé ekki fyrir hendi.  Hefði það ekki átt að vera líka í þessu tilfelli.  Það getur ekki staðist að bankinn hafi getað skuldfært reikning án innstæðu án þess að hann væri að brjóta reglur sínar.  Ef hann var ekki að brjóta reglurnar, þá var ekki nema um það að ræða að þegar færslurnar fóru fram, hafi verið innstæða fyrir hverri færslu fyrir sig.  Síðan gæti það hafa gerst að heimild hafi verið afturkölluð, en það er allt annað mál.

Þetta mál er dæmigerður angi af íslensku spillingunni.  Viðkomandi reikningshafi er þekktur og umsvifamikill í viðskiptum.  Greinilegt er að hann hafði "opinn" reikning hjá útibúinu sínu, þar sem menn voru ekki að hafa fyrir því að tilgreina hver takmörkin voru, og inn og út af reikningnum flæddu peningarnir eins og mönnum datt í hug.  Hvað eru 76 m.kr. þegar maður er í jarðakaupum upp á hundruð milljóna út um allt land? Nei, þetta var bara klink og Landsbanki Íslands hvorki vildi né þorði að benda á þennan formgalla sem var á notkun reikningsins.  Lög og reglur eru og hafa alltaf verið fyrir litlu fiskana, en þeir stóru rífa netin.

Hvað ætli þeir hafi verið margir stóru fiskarnir sem fengu að svamla um í litlum tjörnum út um allt land?  Svo kallaðir auðmenn, sem byggðu veldi sitt á lánsfé eða annarra manna peningum, eins og mér skilst að viðkomandi einstaklingur hafi gert (ef eitthvað er að marka DV).  Hvað ætli það séu margir útibússtjórar sem virkuðu eins og einkasjóðsstjórar fyrir svona "auðmenn"?  76 m.kr. eru há tala fyrir flesta hér á landi, þannig að úttektir umfram heimild upp á 76 m.kr. ætti að teljast talsverð upphæð fyrir lítið útibú á Suðurlandi.

Þessi dómur gengur einhvern veginn samt ekki upp í mínum huga.  Hafi Landsbanki Íslands hf. sjálfur framkvæmt færslurnar vitandi að ekki var innstæða fyrir þeim, þá er ekki hægt að kenna reikningseigandanum um, þó hann hafi ekki haft rænu á að skoða hvert einasta yfirlit í hörgul.  Enda segist hann fyrir héraðsdómi "hvorki beðið um né heimilað stærstan hluta umræddra færslna".  Er Hæstiréttur þar með að segja, að fari ég í ferðalag í tvo mánuði, þá geti bankinn minn bara notað tækifærið til að millifæra af reikningnum mínum upphæðir langt umfram þá úttektarheimild sem ég hef? Nei, auðvitað getur hann það ekki, þrátt fyrir að reikningurinn minn sé gefinn upp sem skuldfærslureikningur vegna alls konar lána og VISA-kortsins o.s.frv.  Eftir að heimild þrýtur, þá er ekki til innstæða fyrir færslunni og fjárskuldbindingin sem átti að greiðast fer í vanskil.  Þannig átti það að vera í þessu tilfelli þ.e. færslurnar sem ekki var innstæða fyrir áttu að fara í innheimtu í samræmi við þá skilmála sem voru á þeim viðskiptum.

Dómurinn er ótrúleg skilaboð til fjármálafyrirtækja.  Þið megið vaða inn á reikninga viðskiptavina ykkar og taka út það sem ykkur listir, ef bara reikningurinn er gefinn upp sem skuldfærslureikningur.  Síðan getið þið stefnt viðskiptavinunum á grunni þess að ekki hafi verið innstæða fyrir úttektinni sem fjármálafyrirtækið framkvæmdi.  Ef þetta er ekki bananalýðveldi, þá veit ég ekki hvað.

Nú er aftur spurning hvort ekki þurfi að snúa dómi Héraðsdóms Vesturlands í máli Arion banka gegn Birni Þorra Viktorssyni og Karli Georg Sigurbjörnssyni frá 23. nóvember 2010.  Í því máli skuldfærði Sparisjóður Mýrasýslu einmitt reikning Björns Þorra fyrir greiðslu á gengistryggðu láni og sendi honum kvittun þar að lútandi þrátt fyrir ekki hafi verið innstæða fyrir skuldfærslunni.  Kannski er ekki sama Guðmundur og Björn.

Tekið skal fram að ég byggi allt sem ég segi á dómi Hæstaréttar í máli nr. 150/2011 Guðmundur A. Birgisson gegn Landsbankanum hf. og dómi Héraðsdóms Suðurlands frá 15/12/2010 sem samritaður er undir dómi Hæstaréttar.


mbl.is Gert að greiða bankanum 76 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 81
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband