Leita í fréttum mbl.is

Fyrirtæki í vanda leita til hlutahafa, en fjármálafyrirtæki í vanda til skattgreiðenda!

Efnahagsvandinn sem gengið hefur yfir hinn vestræna heim hefur afhjúpað það staðreynd að önnur lögmál gilda um fjármálafyrirtæki en önnur fyrirtæki.  Hin almenna regla er að lendi fyrirtæki í vanda vegna rangra ákvarðana stjórnenda þess, þá lendir skellurinn á hluthöfum þess, sem jafnan eru þá beðnir um að auka hlutafé sitt í fyrirtækinu.  Er það gert með útboði á nýju hlutafé samhliða því að eldra hlutafé er fært niður til samræmis við stöðu fyrirtækisins.  Oft á niðurfærslan sér stað á markaði, en slíkt kemur fyrirtækinu sjálfu í sjálfu sér ekki við.  Lendi aftur á móti fjármálafyrirtæki í vanda, þá er eins og það komi hluthöfunum þá og því aðeins við, að allt fari í kalda kol.  Fjármálafyrirtæki virðast einhverra hluta vegna vera sér á báti og geta leitað til skattborgara, þegar áhættustýringin klikkar.

Ég hef skrifað um þetta áður og á örugglega eftir að gera það aftur.  Mitt mat er að orsök fjármálakreppunnar sem gengið hefur yfir heiminn frá miðju ári 2007 megi fyrst og fremst rekja til þess að stjórnendur fjármálafyrirtækja tók eigin hag fram yfir hag fjármálafyrirtækjanna.  Eða eins og haft er Geraint nokkrum Anderson, fyrrverandi ráðgjafa hjá Dresdner Kleinwort, í myndinni Meltdown.

The whole game is increading your bonuses. You don't go into the City to do the world some good.  You go there to make money as quickly as possible.  If that means lying, cheating and stealing, that is what you do.

Já, svo mörg voru þau orð.  Innan fjármálageirans náði varkárni bara til þess að viðkomandi starfsmaður tapaði engu, en hvorki afkoma fyrirtækisins né viðskiptavinarins var höfð í öndvegi.  Þetta heitir að sniðganga áhættustýringu.

Afleiðingin af þessari óvarkárni (einhver segði græðgi) starfsmanna og stjórnenda fjármálafyrirtækjanna hefur heldur betur komið í ljós á undanförnum árum.  Ferlar og eftirlitskerfi sem áttu að koma í veg fyrir áhættuna máttu síns lítls gegn grægðinni.  Hér á landi voru t.d. starfsmenn Fjármálaeftirlitsins keyptir yfir í stóru bankana í stórum stíl og sérstaklega ef þeir urðu of hnýsnir um viðkvæm mál (ef marka má skýrslu RNA og viðtal við Elínu Jónsdóttur, fyrrum forstjóra Bankasýslunnar í Morgunblaðinu i janúar 2009).

Nú er þessi grægði að koma í andlitið á fjármálafyrirtækjunum.  Starfsmennirnir sem gerðu lánasamningana við Grikki (og fengu verulega bónusa) eru líklegast löngu horfnir á braut með kaupauka sem duga þeim sem eftir er ævinnar.  Eftir situr fjármálafyrirtækið með sárt ennið og kallar til mömmu (ríkissjóðs) að kyssa á bágtið.  Aumkunarvert, svo ekki sé meira sagt.

Höfum í huga að þessi fjármálafyrirtæki sniðgengu reglur sem áttu að koma í veg fyrir það sem þau gerðu eða a.m.k. hagræddu hlutunum þannig að svo virtist sem allt væri eftir orðanna hljóðann.  Því verður ekki neitað að reglurnar, í þessu tilfelli Basel II, gerðu ráð fyrir heiðarleika og ráðvendi, en þeir fuglar eru sjaldséðir í skógum fjármálaheimsins, þar sem ránfuglar og skrautfuglar eru algengastir.

En af hverju leggja eigendur fjármálafyrirtækja þeim ekki til meira eigið fé?  Vegna þess að það er ekki í eðli þeirra!  Stórir fjárfestar verða ekki stórir nema vegna þess að þeir kunna flest trixin í bókinni.  Eitt mikilvægasta er að einkavæða hagnað og ríkisvæða tap.  Þá skiptir engu máli, þó þeir tapi einhverjum hluta hlutabréfa sinna.  Hagnaður hafði verið greiddur jafnóðum út sem arður og eftir sátu skuldsett hlutabréf í sjóði/eignarhaldsfélagi með takmarkaða ábyrgð eigandans.  Ef settar væru reglur um að hægt væri að krefjast endurgreiðslu arðs í allt að 10 ár aftur í tímann, þá er ég viss um að eigendur hlutabréfanna væru ekki svona fúsir til að leita til ríkisins.

Mér finnst með ólíkindum að ríkisstjórnir í vestrænum lýðræðisríkjum skuli falla fyrir þessari vitleysu.  Eins og bankamenn hafi ekki vitað að kerfið í Grikklandi var gerspillt.  Kæmi mér ekki á óvart að þeir hafi þurft að greiða undirskriftarþóknunar fjölmargra opinberra starfsmanna, þegar lántakann fór fram.  Sú þóknun var tekin örugglega tekin af útborgun lánsins, þannig að menn vissu alveg að hverju þeir gengu og tóku þátt í leiknum vitandi vits.  Svo þegar það kemur í ljós sem þeir vissu, þá axla þeir ekki ábyrgð heldur vísa henni á ríkissjóð.

Því stærri og alþjóðlegri sem fyrirtæki verða, virðast þau treysta meira á völd sín gagnvart ríkisvaldinu.  Á sama hátt, þá virðast ráðherrar í ríkisstjórnum bera sífellt óttablandnari virðingu fyrir fyrirtækjum eftir því sem þau stækka, að maður tali nú ekki um verða alþjóðlegri.  Samt er það þannig, eins og t.d. Enron málið sannar, að alþjóðleg fyrirtæki varða ósvífnari í undanskotum sínum eftir því sem þau eru stærri.  Það er nefnilega ekki bara á Íslandi sem viðskiptasiðferði er horfið til feðra sinna.

Ég skrifaði einu sinni færslu undir fyrirsögninni Vogunarsjóðirnir 1 - Evrópa 0.  Núna held ég að staðan sé hið minnsta 5 - 0 og stefnir í ennþá stærra tap.  Þetta ástand breytist ekki meðan Evrópusambandið leikur jafn lélegan varnarleik og raun ber vitni.  Eina vörn ESB í þessu máli er að segja: 

Okkur er alveg sama hve mikið högg fjármálakerfið fær vegna Grikkja, Íra, Portúgala, Ítala, Spánverja og allra hinna.  Fjármálafyrirtækin sem lánuðu þessum löndum verða að finna lausn á greiðslu- og skuldavanda þjóðanna.  Slík lausn getur falið í sér lækkun vaxta, lengingu lánstíma og/eða niðurfellingu skulda. Fjármálafyrirtækin fóru óvarlega í útlánum sínum og verða að taka afleiðingum þess sjálf.

Ef ESB sendir þessi skilaboð út, þá er ég viss um að fjármálafyrirtækin verða fljót til að leysa málið.  Vandinn er að fjármálafyrirtækin eru með lobbíista um allt í Brussel og eiga líklega marga af þeim stjórnmálamönnum sem máli skipta og því verður þetta aldrei sagt.  Ég spái því að leikurinn endi 20 - 0, þar sem varnarþjálfari ESB er gjörsamlega úti á þekju.


mbl.is Ætti að þola skuldalækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Íslendingar eru búnir að snúa vörn í sókn tvisvar.

Nú er að sjá hvað Evrópubúar gera.

Guðmundur Ásgeirsson, 26.9.2011 kl. 15:45

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Sko, það er strax einn þýskur skattgreiðandi/lögfræðingur byrjaður:

Seðlabankastjóri ESB kærður - mbl.is 

Kærandinn vill fá úr því skorið hvort ECB hafi verið heimilt að kaupa lélegar skuldir fyrir almannafé. Þetta er auðvitað frábært framtak.

Guðmundur Ásgeirsson, 26.9.2011 kl. 15:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband