24.9.2011 | 13:18
Hvar sjást 206 ma.kr. afskriftir í bókum Landsbankans? - Staðreyndir um afskriftirnar
Ég skoraði um daginn á Landsbankann hf. (áður NBI hf.) að sýna fram á hvar í bókum fyrirtækisins afskriftir upp á 206 ma.kr. kæmu fram. Nú kemur Haukur Ómarsson, forstöðumaður sjávarútvegs í "fyrirtækjabanka" Landsbankans, og heldur því fram á opinberum fundi að bankinn hafi afskrifað 206 ma.kr., en þar af "aðeins" 11 ma.kr. hjá sjávarútvegsfyrirtækjum.
Af hverju eru þessar tölur ekki sýnilegar í reikningum Landsbankans? Af hverju hafa eignir Landsbankans hf. ekki minnkað sem nemur þessum 206 ma.kr. afskriftum? Hvernig stendur á því að eignir sem teknar voru yfir á 661 ma.kr. standa ekki í dag í 460 ma.kr. eða þar um bil, þrátt fyrir að bankinn hafi verið svona duglegur að afskrifa? Ég verð að viðurkenna að bókhaldsreglur hafa eitthvað breyst frá háskólaárum mínum og stundakennararnir sem kenndu mér bókfærslu og reikningshald I, II og III, hafa verið algjörlega út á þekju í kennslunni, ef ekki er þörf á að sýna 206 ma.kr. afskriftir í ársreikningum eða árshlutareikningum fyrirtækis. Ég geri mér grein fyrir að ýmislegt hefur breyst frá því að ég sat í þessum kúrsum, en ég þori að veðja aleigunni upp á að þetta hefur ekki breyst.
Lygavefur spunninn af miklu hraða
Nú hafa á tveimur dögum birst fréttir um meintar afskriftir nýju bankanna. Í gær var það skýrsla Maríu-nefndarinnar og í dag er það þessi frétt um afrek Landsbankans hf. Kannski finnst mönnum bara allt í lagi að eigna nýju bönkunum eitthvað sem þeir eiga ekki snefil í. Málið er nefnilega að það var Deloitte LLP í London sem kom upp með afskriftartölurnar og nýju bankarnir töldu þær of varfærnislegar. Þeir vildu meira, ef marka má skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankakerfisins. Og núna þremur árum eftir hrun, þá vilja þeir hagnast á afskriftunum sem gömlu bankarnir veittu með því að skila þeim ekki til viðskiptavinanna í samræmi við mat Deloitte LLP og samkomulag sem gert var við flutning eigna frá gömlu bönkunum til þeirra nýju.
Staðreyndir um afskriftirnar
Ég er farinn að hljóma eins og biluð plata. Sífellt að endurtaka mig. En ég vil enn einu sinni skýra út hvað gerðist með lánasöfn gömlu bankanna:
I. Við hrun Glitnis, Kaupþings og Landsbanka Íslands, þá voru útlán fjármálafyrirtækja til innlendra aðila tæplega 4.800 ma.kr. Þetta má sjá í upplýsingum frá Seðlabanka Íslands sem birtar eru undir hagtölum á vefsvæði bankans. Ekki er fyllilega ljóst hve stór hluti þessarar upphæðar var hjá bönkunum þremur, en líklegast ekki undir 3.562 ma.kr., þ.e. að lágmarki 1.247 ma.kr. hjá LÍ, 905 ma.kr. hjá Glitni og 1.410 ma.kr. hjá Kaupþingi. Upphæðin var hærri og er þetta algjört lágmark.
II. Hluti þessara lána var færður yfir í nýju bankana við stofnun þeirra og svo í janúar 2010. Áður en lánasöfnin voru færð yfir, þá var ráðgjafa- og endurskoðunarfyrirtækið Deloitte LLP í London fengið til að fara yfir söfnin og meta raunvirði þeirra og þar með hve mikið nýju bankarnir ættu að greiða fyrir söfnin. Deloitte treysti sér ekki til að koma með eitt mat, heldur gaf fyrirtækið út efri og neðri mörk á virði lánanna. Nýju bankarnir gerðu síðan sitt eigið mat á lánasöfnunum og að fenginni niðurstöðu þess, þá töldu þeir að virði lánasafnanna væri við neðri mörk Deloitte meðan slitastjórnir og kröfuhafar gömlu bankanna (og þá sérstaklega kröfuhafarnir) vildu miða við a.m.k. efri mörkin. Samkomulag var um að miða við neðri mörkin með möguleika á hækkun upp að eftir mörkunum.
III. Nýju bankarnir keyptu lánasöfnin af gömlu bönkunum á lægra virðinu og bókfærðu þau þannig inn í reikninga sína. Upplýsingar um þetta hafa birst í ársreikningum bankanna, skýrslum minnst tveggja ráðherra til þingsins, gögnum Seðlabanka Íslands og víðar.
IV. Gömlu bankarnir færðu eignir sínar niður sem nam bókfærðu virði lánasafnanna sem fóru til nýju bankanna. Þ.e. þeir lækkuðu lánasöfnin um kaupverðið, en líka það sem var umfram kaupverðið. Þó var hluti upphæðarinnar, þ.e. munurinn á efra og neðra mati Deloitte, settur á einhvers konar uppgjörsreikning þar sem hugsanlega fengist sú upphæð greidd til viðbótar við upphaflegt kaupverð Sem sagt: Gömlu bankarnir afskrifuðu hjá sér mismuninn bókfærðu virði lánasafnanna og efra matsvirði lánasafnanna samkvæmt mati Deloitte.
V. Nýju bankarnir litu einhverra hluta vegna á hina nýkeyptu eigna sína, sem einhvers konar happdrættisvinning. Lánasöfn sem fyrri eigandi, hafði afskrifað um hátt í 2.000 ma.kr. (nákvæm tala er ekki ljós, þar sem Arion banki hefur ekki gefið upp hlutföllin hjá sér) átti núna að innheimta eins og engar afskriftir hafi átt sér stað. Þrátt fyrir það höfðu bankarnir sjálfir gert mat hjá sér, þar sem niðurstaðan var að raunvirði lánasafnanna væri að hámarki sú upphæð sem þeir greiddu fyrir lánin.
VI. Eftir ákaflega tímafreka baráttu áhugafólks um skuldastöðu heimilanna hafa bankarnir notað 24 ma.kr. af þessum hátt í 2.000 mö.kr. til að lækka skuldir heimilanna. Hluti upphæðarinnar er eftirgjöf vaxta á kröfu (eða kannski réttar að segja hluta kröfu) sem var afskrifuð hjá hrunbönkunum. Virkilega höfðinglegt. Hluti upphæðarinnar er sá hluti sem var afskrifaður hjá hrunbankanum. Einnig ákaflega höfðinglegt. En fátt bendir til þess að bankarnir hafi afskrifað verulegar upphæðir af þeim hluta krafna sem í raun og veru var greitt fyrir. Þannig að bankarnir hafa verið uppteknir við að gefa eftir það sem þeir fengu ókeypis. Þetta hefur fengið Samtök fjármálafyrirtækja til að upphefja bankana fyrir gjafmildi og miskunnsemi. Á meðan bankarnir hafa verið að gefa heimilunum eftir 24 ma.kr. sem þeir fengu ókeypis, þá hafa þeir hagnast um minnst 150 ma.kr. m.a. á vöxtum af kröfum sem þeir greiddu ekkert fyrir. Menn keppast við að úthúða erlendum kröfuhöfum og að þeir hafi fengið skotleyfi á heimilin, en gleyma alveg sjálftöku nýju bankanna þegar að þessu kemur.
Nýju bankarnir sitja á 156 - 206 mö.kr. af afskriftum heimilanna
Mig langar til að vita hvort nýju bankarnir geti talist eigendur þess hluta kröfu sem gömlu bankarnir afskrifuðu. Er hægt að líta svo á, að nýju bankarnir hafi bara eignast kröfur upp að því virði sem þeir greiddu fyrir þær? Eða er nýju bönkunum alveg í sjálfsvald sett að ákveða hvernig þeir skipta afslættinum á milli viðskiptavina sinna?
AGS var tíðrætt um að ekki væri hægt að koma til móts við hugmyndir Hagsmunasamtaka heimilanna, þar sem ekki mætti nota peninga sem eyrnamerktir höfðu verið til ákveðinna afskrifta í eitthvað annað. Stofnunin leit nefnilega svo á, að mat Deloitte væri bindandi, þ.e. að hið dæmigerða heimili ætti að fá niðurfærslu skulda í samræmi við forsendur mats Deloitte, en ekki sem einhverja hlutfallstölu sem fengist við að setja þak á árlegar verðbætur annars vegar og breyta þá gengistryggðum lánum í samræmi við kröfur HH. Bankarnir gripu þetta á lofti og höfnuðu hugmyndum HH, en þeir eru að ganga lengra. Þeir eru að eigna sér til hækkunar á innheimtuvirði lánasafna heimilanna afskriftir sem lagðar voru til af Deloitte (þó svo að miðað sé við efri mörk mats).
Hvað eru þetta háar tölur sem hér um ræðir? Samkvæmt gögnum Seðlabanka Íslands stóðu útlán innlánsstofnana til heimilanna í 1.032 mö.kr. hinn 30. september 2008 en lækkuðu í 585 ma.kr. 31. október sama ár. Lækkun upp á 447 ma.kr. Þar sem engar aðrar innlánsstofnanir höfðu ástæðu til að endurmeta útlán sín um þetta leiti, þá kemur þessi lækkun öll fram hjá bönkunum þremur. Fyrri talan er úr bókum gömlu bankanna, en sú síðari úr bókum nýju bankanna. Hafa verður þó í huga að Seðlabanki Íslands tók yfir hluta húsnæðislána Kaupþings. Skýrir það hluta lækkunarinnar. Eftir standa þó í kringum 350 ma.kr.
Skoðum þessa 350 ma.kr. betur. Samkvæmt skýrslu fjármálaráðherra, þá ætti hún að endurspegla afskriftir miðað við neðra mat Deloitte. Sé miðað við efra matið, þá gæti verið að hún lækki um u.þ.b. 50 ma.kr. Bankarnir hafa skilað um 144 ma.kr. lækkun á höfuðstól lána heimilanna, sem þýðir að minnst 156 ma.kr. og mest 206 ma.kr. hefur ekki verið skilað til þeirra lántaka sem mat Deloitte gekk út frá að þyrfti að afskrifa hjá. Segja má að nýju bankarnir sitji á 156 - 206 mö.kr. af afskriftum sem gömlu bankarnir veittu heimilum landsins. Einhvers staðar þætti það lélegt viðskiptasiðgæði.
Afskrifaði hlutfallslega minnst hjá sjávarútvegi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.1.): 2
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 18
- Frá upphafi: 1681233
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 16
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Góð grein Marinó, þetta kemur, dropin holar steinin.
Fer niður í Landsbanka á mánudagin að sækja á um minn part í þessum afskriftum.
Þetta er kannski ekki svo mikið svartnætti eftir allt, ég á bara eftir að vita hve mikið verður fellt niður.
Jónas Jónsson (IP-tala skráð) 24.9.2011 kl. 14:44
ég þori að veðja aleigunni upp á að þetta hefur ekki breyst
Er það ekki einmitt málið, að aleiga allra er er undir því komin að fá heilbrigt fjármálakerfi í staðinn fyrir reykfylltan speglasal? Annars gætum við alveg eins bara búið í spilavíti þar sem það er einfaldlega yfirlýst og viðurkennt að húsið vinnur alltaf.
Mannkynið skiptist í tvær fylkingar um þessar mundir. Þeir sem hafa gert sér grein fyrir því að þetta svokallaða fjármálakerfi er óskiljanlegt, og hinir sem þykjast skilja það á grundvelli prófskírteina í bullvísindum.
Guðmundur Ásgeirsson, 24.9.2011 kl. 19:59
Sæll Marinó,
Gæti verið ástæðan fyrir því að afskriftirnar sjáist ekki á reikningi bankanna sé sú að þessar upphæðir í svokallaðri 110% eru á biðreikningi til 3 ára. Þannig að fyrstu afskriftirnar ættu að sjást á reikningi bankanna í fyrsta lagi eftir 2 ár??
Mikilvæg klása í samkomulaginu um 110% leiðina er þessi biðreikningur sem "afskriftarupphæðin" fer á. Þessi klása virðist einnig vera í þessum leiðum sem bankarni ákváðu að fara í aður en til samkomulagsins kom.
Þá er kanski frekar spurningin hvar á reikningunum sjást þessir biðreikingar, eru þeir ekki bara inni í niðurfærslutölunni (inná varúðarreikningi) enn sem komið er?
DD (IP-tala skráð) 25.9.2011 kl. 00:17
DD: Þú hefur misst af mikilvægu atriði í umræðunni. Nýju bankarnir geta ekki afskrifað það sem þeir aldrei áttu. Á þetta hefur Marinó bent ítrekað á.
Samningsgerð vegna 110% leiðarinnar er fjársvik og innheimtan fjárdráttur. Til útskýringar þá er Íslandsbanki (og hinir bankarnir) að nota 110% leiðina til að uppfæra virði lánasafna sinna með því að fara fram á að skuldari samþykki allskonar forsendur vegna meintrar "niðurfærslu", t.a.m. að lánið hans hafi staðið í ákveðinni tölu þ. 01.01.2011. Sú tala er síðan "færð niður" að sögn bankans. Sú niðurfærsla fer hins vegar einungis fram í Reiknistofu bankanna því á sama tíma hækkar virði lánasafnanna hjá bankanum enda hefur skuldari verið narraður til að viðurkenna að virði skuldar hans við bankann sé hærra en bankinn greiddi fyrir og er með bókfært. Íhugaðu hvers vegna skuldari þarf að samþykkja að lánið hans er fært niður? Það er algjörlega óþarft enda er það kröfuhafans að ákveða slíkt og þarf ekki samþykki skuldarans til. Skuldarinn þarf hins vegar að samþykkja ef virði skuldarinnar er bókfært hærra en sagt er. 110% leiðin gengur út á það að narra almenning til að gefa bönkunum peninga (með heimild til að endurmeta lánasöfn sín) og binda lántaka í skuldafjötra, og auka hagnað þeirra.
Þetta eru hegningarlagabrot undir verndarvæng ÁPÁ og SJS!
Erlingur Alfreð Jónsson, 25.9.2011 kl. 02:23
DD, ef færðir væru 206 ma.kr. á varúðarreikning, sem er margföld ársvelta bankans, þá fylgdi því alveg örugglega þykk og djúsí skýring í reikningunum, en svo er ekki. Ástæðan er einföld: Nýi Landsbankinn færði stærsta hluta af þessum 206 mö.kr. aldrei til eignar og því afskrifaði hann aldrei töluna hjá sér.
Ég vil taka fram að viðskiptavinirnir eru að fá upphæðina afskrifaða, leiðrétta eða niðurfærða hjá sér, en sú aðgerð fór fram í gamla Landsbanka Íslands þó svo að nýi Landsbankinn sé að eigna sér aðgerðina út á við. Til viðbótar þessum 206 mö.kr. þá á nýi Landsbankinn eftir að tilkynna viðskiptavinum sínum um allt að 380 ma.kr. afskriftir sem fóru fram í gamla Landsbanka Íslands, en nýi bankinn situr á gullinu. Vissulega fellur hluti þeirrar upphæðar á ofan við neðra mat og neðan við efra mat eða eitthvað um 80 ma.kr., en allt annað hefur þegar verið samþykkt af slitastjórn Landsbanka Íslands og kröfuhöfum hans að skuli afskrifað. Nú er bara spurningin hve lengi nýi Landsbankinn endist á gullinu, en það hefur oft orðið banabiti sérstaklega trölla að gæta gullsins síns hvað sem tautar og raular.
Marinó G. Njálsson, 25.9.2011 kl. 12:42
Já sé ljósið núna og þá hvað þú ert að segja :) Ég hugsaði þetta ávalt út frá því að sjálfsögðu að afskriftin væri í nyju bönkunum en auðvitað er hún ekki þar.
DD (IP-tala skráð) 25.9.2011 kl. 19:52
Marinó, nokkuð til í þessu með biluðu plötuna en hvað um það. Þú ert sífellt að velta fyrir þér hvort nýju bankarnir eigi tilkall til afsláttar sem veittur var eða hvort hann á að renna til lántakendanna. Svaraðu mér þá hvernig þú hefði stofnað nýjan banka í eftirfarandi dæmi:
Köllum bankana í dæminu "Gamli" og "Nýi". Getur verið hver bankanna sem er. "Gamli" fer á hausinn og skv. glænýjum lögum eiga öll innlend innlán bankans að fara í "Nýja". M.ö.o. "Gamli" er með innlán sem þarf að "staðgreiða" og það eina sem hann hefur til að greiða innlánin með eru útlán viðskiptavina. Hann segir því: "Hérna eru 100ma af innlánum. Hérna eru 100ma af útlánum á móti og við erum sáttir".
"Nýi" bankinn segir á móti: "Ertu eitthvað ruglaður? Við þurfum alltaf að borga innlánin í topp en þessi útlán eru ekki að fara að innheimtast 100%. Auk þess eru vextir á þessum lánum fáránlegir. Það eru þarna íbúðalán með 4,15% föstum vöxtum en vextir á verðtryggðum innlánsreikningum sem þú ert að láta okkur fá eru 5-6% (m.v. vaxtastig 2009). Við viljum ekkert fá þessi íbúðalán. Við myndum stofna nýja banka með neikvæðan vaxtamun ef við tökum þau yfir án afsláttar".
"Gamli" segir þá: "Ok, þið fáið afslátt af íbúðalánunum vegna lágra vaxta. Þið fáið afslátt af sumum lánum vegna þess að kúnninn mun líklega ekki borga allt. Þið ábyrgist fyrir okkur þessi innlán og á móti getið þið dundað ykkur næstu 40 árin að innheimta þessi íbúðalán".
"Nýi" segir þá: "Já vá, frábært. Heyrðu við viljum líka verða rosalega vinsælir á Íslandi þannig að við viljum auka 20% afslátt af öllum lánum þannig að við getum lækkað lánin hjá öllum og gert alla rosa ánægða".
"Gamli" segir þá: "Éttu skít".
"Nýi" segir þá: "Djö...mátti reyna"
"Gamli" er því að selja eigur sínar (útlánin) til þess að geta borgað skuldir sínar (innlánin). Það að "Gamli" er að selja eigur sínar á hrakvirði til að borga skuldir hefur ekkert með þig sem lántaka að gera.
Marinó, ég veit að þú skilur algerlega um hvað málið snýst. En...ef þú heldur að gömlu bankarnir hafi bara gefið útlánin sín með rosa afslætti án rökstuðnings ertu á miklum villigötum. Ef þú heldur að rökstuðningurinn sem nýju bankarnir notuðu væri sá að þeir þyrftu að kaupa sér vinsældir og lækka lánin þá ertu einfaldlega spinnegal.
Ég sé að menn eru farnir að tala um framboð í athugasemdum hjá þér. Er það málið? Eru þetta bara framboðsræður hjá þér?
Maelstrom, 26.9.2011 kl. 12:52
Maelstrom, þetta er skemmtileg saga hjá þér og skaffaði þér örugglega atkvæði hjá einhverjum. Málið er, og þú veist það jafnvel og ég, að svona fór þetta ekki fram.
1. Fjármálaeftirlitið fékk hlutlausan aðila til að meta virði lánasafna í gömlu bönkunum sem nýju bankarnir "keyptu" af þeim (skv. vef Seðlabankans) gegn því að taka yfir skuldbindingar vegna innstæðna.
2. Nýju bankarnir gerðu sitt sjálfstæða mat.
3. Þegar báðir aðilar voru tilbúnir með sitt mat, þá var sest niður og fundin niðurstaða sem fólst í sér að fallist var á vikmörk hins hlutlausa aðila á virði lánasafnanna.
4. Gömlu bankarnir skrifuðu lánasöfnin út úr sínum bókum, en þar sem greiðslan var a.m.k. 1.880 mö.kr. lægri en bókfært virði, þá færðu þeir mismuninn til afskriftar hjá sér.
5. Nýju bankarnir skráðu þau til bókar hjá sér á keyptu virði, en sáu nú tækifæri til að ná sér í hagnað með því að láta ekki lántakann vita að gamli bankinn hafði að ráði hins hlutlausa aðila afskrifað umtalsverðan hluta skuldarinnar.
Þannig gerðist þetta og þannig er staðan.
Varðandi framboð, þá skaltu ekki hafa áhyggjur. Ég mun ekki bjóða mig á móti þér í komandi kosningum til þings. Þú getur ekki annað en verið þingmaður Samfylkingarinnar eins og þú verð alltaf ósómann í ákvörðunum ríkisstjórnar og fjármálafyrirtækja.
Marinó G. Njálsson, 26.9.2011 kl. 13:34
Þú skautaðir skemmtilega í kringum allt sem ég sagði. Ég var einmitt að segja að ástæðan fyrir því lánasafnið var selt með afslætti væri ekki sú að kúnninn ætti að fá afslátt. Það var "éttu skít" parturinn af sögunni.
Það var aldrei partur af samkomulaginu að það ætti að gefa lántakandanum part af lánasafninu. Gömlu bankarnir sögðu einfaldlega "éttu skít" við svoleiðis röksemdafærslu.
Þú skautaðir líka í kringum allt sem ég sagði þar sem þú segir "ná sér í hagnað með því að láta ekki lántakann vita". Allt sem ég sagði var til að útskýra fyrir þér að það var aldrei samið um afslátt af lánasafninu til þess að nýju bankarnir gætu gefið eftir kröfurnar til lántakenda. Enn og aftur, það var einmitt "éttu skít" parturinn af sögunni. (og nú er ég búinn að endurtaka þetta þrisvar sinnum í röð).
Munurinn á verðmati Nýju, Gömlu og Óháðu matsaðilanna var á allt öðrum sviðum. Nýi bankinn sagði kannski að ávöxtunarkrafa á 40 ára verðtryggt íbúðalán sé 7%. Gamli bankinn sagði að 5% sé ávöxtunarkrafa á svoleiðis lán. Óháðir aðilar sögðu að 5-7% ávöxtunarkrafa sé eðlileg. Þegar keypt er yfir lán með föstum 4,15% vöxtum til 40 ára og ávöxtunarkrafan er 7%, þá þarf að veita afslátt. Það er ekki afsláttur sem lántakinn á að njóta heldur er það afsláttur sem veittur er vegna mismunandi líftíma á innlánum og útlánum. Lántakinn nýtur þess í því að hann fær að halda 4,15% vöxtum í 40 ár. Sá sem keypti lánið hans fékk afslátt vegna þess að þeir vextir voru svo "lágir" (hér tala ég um lága vexti í abstract mynd. Það er auðvitað ekki hægt að segja að vextir í íslenskri mynt séu lágir, hvernig sem þú snýrð dæminu).
Lestu aftur yfir það sem ég skrifaði áðan og hugsaðu út í það sem ég er að reyna að segja þegar gamli bankinn svarar: "éttu skít". Ég var að reyna að segja eitthvað með þeim orðum. Ekki bara berja hausnum við stein og endurtaka sífellt sömu möntruna.
Maelstrom, 26.9.2011 kl. 14:44
Maelstrom, svona hafa menn mismunandi upplýsingar. Jú, það var mergur málsins, að þar sem lánin hefðu hækkað svo mikið og/eða greiðslugeta fólks/fyrirtækja skerst, þá hefðu lántakar ekki burði til að standa undir lánunum eins og staða þeirra var. Þetta er það sem kröfuhöfum gömlu bankanna var selt og þetta er það sem þeir féllust á. Þú getur alveg farið í talnaleikfimi mín vegna, ég ætla ekki að taka þátt í henni.
Jú, það var partur af samkomulaginu, eins og ég skil það, að færa átti niður hluta af kröfum í samræmi við mat Deloitte. Afslátturinn átti vissulega að einhverju leiti að mynda hagnað en bara upp að efra mati Deloitte á eignunum. Annað átti að fara í afskriftir og eins og Mark Flannagan hjá AGS orðaði það svo pent:
Þ.e. nýju bankarnir áttu samkvæmt samkomulaginu við AGS ekki að sitja á afskriftum gömlu bankarnir gáfu af lánasöfnunum. AGS ítrekaði þetta í öllum skýrslum sínum og öllum blaðamannafundum. "Ekki hefur verið nógu langt gengið í afléttingu skulda á fyrirtæki og heimili."
Hafi ég skautað framhjá einhverju var það eingöngu vegna þess að ég leit á dæmisöguna sem einmitt það, en ekki eitthvað sem átti nákvæmlega að svara lið fyrir lið.
Ég er kannski svo vitlaus, en ég held að nýju bankarnir séu í miklu stærri "éttu skít" fíling en gömlu bankarnir gagnvart lántökum. En á móti, þá veit ég af samkomulaginu um hlut gömlu bankanna í hagnaði nýju bankanna umfram almennar arðgreiðslur.
Marinó G. Njálsson, 26.9.2011 kl. 15:05
Fréttamaður Rúv var mjög hlutdrægur í kvöld gagnvart HH í kastljósi. Mér fanst bankamaðurinn fá meiri skilning og vorkun hjá fréttamanni. Svo var bara hent þeirri spurningu fram, hvenær ætla þeir sem komu sér í þessar skuldir að hætta þessu væli. Ekki vel gert af fréttamanni rúv,,, mér fanst það allvega ekki.
mbk.
Benedikt (IP-tala skráð) 27.9.2011 kl. 20:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.