Undanfarin ár hef ég mikið rætt og ritað um "afslættina" sem nýju bankarnir fengu af þeim eignum sem þeir tóku yfir frá gömlu bönkunum og tilraunir nýju bankanna til að nota þennan "afslátt" til að búa sér til hagnað í nútíð og framtíð. Því meira sem ég hugsa um þetta, þá verður þetta fáránlegra.
Staðreynd málsins er sú, að kröfuhafar gömlu bankanna voru þvingaðir til að sætta sig við mikla niðurfærslu eigna við flutning þeirra til nýju bankanna. Þessu er lýst ítarlega í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn bankakerfisins. Þar er greint frá því að eignir voru metnar af báðum aðilum og talsvert bar á milli eða um 320 ma.kr. Ákveðið var að bókfæra eignirnar í nýju bönkunum á lægra matinu, sem var um 1.880 ma.kr. Í staðinn var kröfuhöfunum lofað að kæmi í ljós að virði eignanna reyndist meira en neðra matið, þá fengju þeir greitt meira, en þó aldrei meira en efra matið, sem var um 2.204 ma.kr., og síðan hlutdeild í hagnaði bankanna. Lágmarkslækkun á eignasöfnunum sem færa átti yfir, samkvæmt þessu mati, var því 1.796 ma.kr. og hámarkshækkun 2.120 ma.kr.
Í ágúst 2009 spurðist það út til kröfuhafa, að nýju bankarnir ætluðu ekki að láta afsláttinn ganga til viðskiptavina sinna nema að undangenginni ítarlegri skoðun á því hvað væri í raun hægt að innheimta og átti greinilega að freista þess að kreista hverja einustu krónu út úr lántökum. Það átti sem sagt að nota eina aðferð við að meta söfnin hjá gömlu bönkunum og aðra hjá nýju bönkunum. Mínar heimildir segja mér að mjög hafi fokið í erlenda kröfuhafa sem hafi viljað ganga frá þeim samningaviðræðum sem þá voru í gangi, enda hafi þeim verið talin trú um að lántakar stæðu ekki undir greiðslu- og skuldabyrðinni og þyrftu að fá verulega niðurfærslu á höfuðstólum lána sinna.
Matsaðferðin
Þegar lánasöfn gömlu bankanna voru metin, þá var það gert þannig að viðskiptavinum var skipt í þrjá hópa og aðrar eignir settar í þann fjórða. Eða eins og segir á bls. 18 í skýrslu ráðherra:
Langveigamesti hluti þeirra eigna sem yfirfærðar voru til nýju bankanna voru útlán til innlendra viðskiptamanna. Þessum útlánum var í matinu skipt í þrjá meginflokka: (i) Lán til stórra fyrirtækja, en stór fyrirtæki voru skilgreind sem aðilar með 2,5 ma.kr. eða hærri heildarlántökur, (ii) lán til smárra og meðalstórra fyrirtækja (iii) lán til einstaklinga og (iv) aðrar eignir og skuldir. Stærri fyrirtæki voru metin hvert fyrir sig en minni fyrirtæki og einstaklingar mynduðu einsleita hópa þar sem matið byggðist á úrtaki og ákveðnum forsendum um lánaflokkana.
Meginaðferðin við matið er núvirðing á væntu framtíðargreiðsluflæði eignanna. Þessu fylgir að setja þarf fram forsendur um fjölmarga þætti varðandi hina ýmsu eignaflokka. Í tilfelli útlána þurfti að meta getu skuldarans til að greiða skuld sína og taka þá meðal annars tillit til líka á greiðslufalli og tapi við greiðslufall, vexti í mismunandi myntum og vaxtaálag bankans, EBITDA margfaldara, verðmæti veða svo sem fasteigna og fiskveiðikvóta svo eitthvað sé nefnt.
Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte LLP í London var fengið til verksins og alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið Oliver Wyman var fengið til að meta aðferðir Deloitte. En nýju bankarnir gerðu líka sitt mat eða eins og segir í skýrslunni á bls. 20:
Ennfremur höfðu nýju bankarnir gert sitt eigið mat sem hluta af áætlunum þeirra um enduruppbyggingu og sem innlegg í samningaviðræður. Endanlegt mat bankanna varð á endanum í neðra bili verðbils Deloitte, en mat kröfuhafa í efri mörkum. Mat hins óháða matsmanns var því í raun samþykkt af báðum samningsaðilum sem viðmið í þeim samningaviðræðum sem í hönd fóru.
Niðurstaðan var matsbil fyrir eignir þar sem neðri mörkin voru 1.880 ma.kr. og efri mörkin 2.204 ma.kr. fyrir bankana í heild. Fyrir hvern banka fyrir sig hljóp þetta bil á 95 til 131 ma.kr. samkvæmt skýrslu ráðherra.
Nýju bönkunum fannst þessi niðurstaða hafa í för með sér mikla óvissu eða eins og segir í skýrslunni á bls. 21:
Telja yrði að virði millifærðra eigna væri mjög óvisst og erfitt að meta í ljósi eðlis eignanna og ríkjandi efnahagsástands.
Lágmarksendurheimtur voru taldar á bilinu 35-55% af nafnverði eftir bönkum. Nýju bankarnir stæðu því frammi fyrir verulegum áskorunum við fjárhagslega endurskipulagningu lánasafnanna og tilheyrandi rekstraróvissu í því sambandi.
Ef forsendan um sanngjarnt markaðsvirði eða svokallað through the cycle view sem FME ákvað að notuð yrði myndi bregðast, væri verulega kerfislæg hætta fólgin í lánasöfnunum. Sú nálgun við matið var þó talin eðlilegri en einhverskonar sjónarmið neyðarsölu (fire sale).
Niðurstaða fengin með samningum
Eins og gefur að skilja voru uppi skiptar skoðanir um niðurstöðuna. Eftir að Deloitte skilaði af sér hófust því samningaviðræður, þar sem fulltrúar nýju bankanna og stjórnvalda voru öðru megin borðsins en skilanefndir og fulltrúar kröfuhafa hinum megin. Mesti ágreiningurinn var um nettóverðmæti yfirfærðra eigna, þ.e. hve mikið gömlu bankarnir þyrftu að niðurfæra eignirnar í sínum bókum áður en þær væru fluttar yfir í nýju bankana. Um þetta segir í skýrslu fjármálaráðherra á bls. 29:
Ljóst var talið í upphafi að erfitt myndi reynast að ná samningum um eitt ákveðið nettóverðmæti. Óháða matið með sínu verðbili í verðmati hvers banka styrkti þetta sjónarmið. Því var talið álitlegast að breyta uppgjörinu sem fyrirhugað var með einföldu skuldabréfi í fjölþættari fjármálagerning þar sem hin endanlega greiðsla fyrir yfirfærðar eignir færi eftir því hversu mikið kæmi út úr þeim eignum að lokum. Hugmyndin var að kröfuhafar fengju til sín hið endanlega verðmæti yfirfærðu eignanna með skilyrtu viðbótarskuldabréfi sem gefið yrði út síðar.
Síðan segir á bls. 30:
Við samninga um endurgjald fyrir útlánin var farið niður í neðstu mörk Deloitte-matsins og þannig reynt að girða fyrir að áhættur sem tengdust lánasöfnunum myndu reynast nýju bönkunum ofviða. Ef betur gengi myndi hins vegar vera greitt í formi aukins verðmætis hlutabréfa eða útgáfu viðbótarskuldabréfa eins og áður er rakið.
Gengistryggð lán afskrifuð um meira en helming
Einn óvissuþátturinn var varðandi gengistryggð lán. Menn virtust átta sig á því við samningaborðið að hið mikla fall krónunnar leiddi af sér þörf á að færa verðmæti þessara lána niður. Niðurstaðan var að færa þessi lán niður um meira en helming eða eins og segir í skýrslu ráðherra:
..Um það leyti sem endanlega var gengið frá samningum við gömlu bankana heyrðust raddir um að gengistrygging lána kynni að vera ólögmæt. Það atriði var á þeim tíma umdeilt meðal lögfræðinga og algjörlega óraunhæft að meðhöndla öll slík lán sem ólögmæt í samningunum. Bent var á að öll gengistryggð lán hefðu verið afskrifuð um meira en helming við yfirfærslu þeirra til nýju bankanna..
Já, gengistryggð lán voru afskrifuð um meira en helming miðað við stöðu þeirra í október 2008. Ef skoðað er meðalgengi valinna gjaldmiðla í október 2008 þá kemur eftirfarandi í ljós um yfirtökugengi lánanna:
USD 46,7 kr.
GBP 82,0 k.r
EUR 65,5 kr.
CHF 41,1 kr.
JPY 0,428 kr.
Reikni nú hver og einn á hvaða gengi lánin þeirra voru tekin yfir og hvað bankinn er að krefjast í dag. Tekið skal fram að þetta á eingöngu við lán í Íslandsbanka, Arion banka og Landsbankanum. Lántakar í öðrum fjármálafyrirtækjum verða því miður að sætta sig við venjulegt gengi.
Sé þetta gengi notað, þá kemur í ljós að nær undantekningarlaust er það umtalsvert undir lántökugengi, þannig að þó svo að lánin hafi með dómum Hæstaréttar verið færð yfir í íslenskar krónur frá lántökudegi, þá er nýju bankarnir að koma út í plús! Hinir afturvirku Seðlabankavextir eru því hrein gjöf til bankanna þriggja.
Miðað við þetta er með ólíkindum að nýju bankarnir skuli vera að innheimta lánin miðað við uppreiknaðan höfuðstól með gengi dagsins, þegar gömlu bankarnir afskrifuðu lánin um meira en 50% hjá sér. En meira um þetta síðar.
Lán í stofnaefnahagsreikningi
Með ofangreinda niðurstöðu í huga voru lán viðskiptavina færð yfir í stofnefnahagsreikninga nýju bankanna á alls 1.463 ma.kr. Hafa skal í huga að stofnefnahagsreikningur bankanna reyndist um 800 ma.kr. lægri en þær tölur sem verið var að vinna með í matinu sem fjallað er um að ofan. Það hefur augljóslega í för með sér að tölur eru ekki fullkomlega samanburðarhæfar, en þar kemur svar fjármálaráðherra til Guðlaugs Þórs Þórðarsonar núna í september til hjálpar. Samkvæmt svarinu voru lán sem bókfærð voru á 1.247 ma.kr. við hrun Landsbanka Íslands færð niður í 661 ma.kr. við yfirfærslu í Landsbankann/NBI hf., þar af voru lán einstaklinga afskrifuð um tæplega 79 ma.kr. úr 237,4 ma.kr. í 158,4 ma.kr. eða 33,3% og lán fyrirtækja voru afskrifuð um 506,7 ma.kr. úr tæpum 1.004 ma.kr. í 497,4 ma.kr. eða 50,5%. Lánin eru í einni tölu hjá Glitni/Íslandsbanka, þ.e. í Glitni stóðu lán til viðskiptavina í 905 ma.kr., en með niðurfærslu upp á 419,6 ma.kr. þá enda þau í 482,6 ma.kr. í stofnefnahagsreikningi Íslandsbanka eða 46,3% lækkun. Uppgjörið milli Arion banka og Kaupþings er eitthvað á huldu samkvæmt svari fjármálaráðherra, en þá er gott að hafa gögn annars staðar frá. Arion banki gefur upp að lán viðskiptavina hafi 324,7 ma.kr. 22. október 2008. Við þessa tölu þarf síðan að bæta um 80 ma.kr. sem eru lán flutt til bankans í janúar 2010, þannig að yfirfærsluvirði lánasafnanna er um 405 ma.kr., en samkvæmt Creditors' Report slitastjórnar bankans frá því í febrúar 2009, þá voru lán sem bókfærð voru hjá Kaupþingi á 1.410 ma.kr. færð yfir til Nýja Kaupþings með 954 ma.kr. niðurfærslu eða 67,7% afskriftum. Mismunurinn er 456 ma.kr. sem er umtalsvert hærra en þeir 324,7 ma. sem Arion gefur upp. Þessi munur skýrist annars vegar af eignum sem færðar voru til baka til Kaupþings áður en endanlega var gengið frá stofnefnahagsreikningi nýja bankans. Alls var bókfært virði þessara eigna 190 ma.kr., en raunvirði eitthvað minna. Hins vegar má örugglega rekja þetta til lána sem Eignasafn Seðlabanka Íslands tók yfir og voru ekki færðar til bankans fyrr en í janúar 2010, eins og áður segir.
Niðurfærslan fór fram hjá gömlu bönkunum
Ljóst er af ársreikningum nýju bankanna þriggja, að þeir tóku við niðurfærðum eignasöfnum, hvort heldur um var að ræða útlán til viðskiptavina eða aðrar eignir. Það er stórmerkileg fjármálastarfsemi að taka við láni sem fært hefur verið niður af öðrum lögaðila um 50% og hækka það síðan strax aftur um 100%, eins og gert var við gengistryggðu lánin. Ef mitt lán (svo dæmi sé tekið) var afskrifað um 50% af Landsbanka Íslands hf., þá þýðir það að skuld mín við bankann hefur lækkað sem því nemur. Hvernig getur þá NBI hf., núna Landsbankinn hf., þá sagt að skuld mín sé óbreytt miðað við stöðu lánsins áður en Landsbanki Íslands hf. (eða skilanefnd hans) ákvað að færa það niður um 50%? Á hvaða lagastoð hvílir sú ákvörðun Landsbankans hf. að láta sem afskrift annars lögaðila á kröfu á mig hafi ekki farið fram? Er það yfir höfuð löglegt? Vissulega fékk ég aldrei tilkynningu um að lánið hafi verið afskrifað sem þessu nemur, en þær upplýsingar hafa verið notaðar í samningum opinberra aðila (fjármálaráðuneytisins) við slitastjórn bankans og kröfuhafa hans. Afskriftin er því staðreynd en ekki fræðilegur tilbúningur.
Sama gildir að sjálfsögðu um öll önnur lán Landsbankans og síðan lán hinna bankanna. Hvernig getur nýi bankinn litið framhjá afskriftum sem annar lögaðili framkvæmdi í bókhaldi sínu og rukkað lánin eins og sú afskrift hafi ekki átt sér stað? Tekið skal fram að ég er ekki að tala um afskriftir sem sannanlega fóru fram í nýja bankanum, heldur eingöngu þær sem fóru fram í þeim gamla. Og til að vera algjörlega sanngjarn, þá er ég til í að fara 15% upp fyrir efri mörk á mati Deloitte á lánasöfnunum, en kröfuhafar bankanna féllust á þau sem neðri mörk væntanlegs taps síns. Kröfuhafarnir fengju því sitt og bankinn héldi 15% eftir til að jafna út, þar sem sumar skuldir innheimtast ekki eins vel og gert var ráð fyrir í matinu.
Eignarréttur kröfuhafa
Stjórnarliðum hefur verið tíðrætt um eignarrétt kröfuhafa gömlu bankanna. Höfum í huga að samkomulag náðist milli kröfuhafa og nýju bankanna um efri og neðri mörk virði eigna sem fluttust yfir í nýju bankanna. Erlendir kröfuhafar samþykktu þar með að endurheimtur þeirra takmörkuðust við þessi mörk að frádregnum innstæðum sem einnig færðust yfir. Þeir eiga því enga kröfu á nýju bankana um fram efri mörk á verðmati eignanna. Þ.e. allt sem er umfram efri mörkin hefur verið endanlega afskrifað í bókum gömlu bankanna, hverjar sem heimtur nýju bankanna verða. Að láta afskriftir samkvæmt efra verðmati Deloittes renna til lántaka, er því nokkurn veginn án áhættu fyrir nýju bankana. Drögum 15% frá þeirri upphæð og áhættan er hverfandi.
Ég efast um að nokkur dómstóll muni fallast á málshöfðun kröfuhafa gömlu bankanna, ef nýju bankarnir myndu láta 85% af afskriftum miðað við lægri afskriftatöluna renna til lántaka. Enda má spyrja hverjum ætti kröfuhafinn að stefna? Fulltrúar kröfuhafa undirrituðu samkomulag um uppgjör milli nýju og gömlu bankanna, gömlu bankarnir eignuðust hlutdeild í tveimur bönkum af þremur og nýju bankarnir gerðu upp við gömlu bankana í samræmi við samkomulagið. Hvorki gömlu bankarnir né kröfuhafar eiga kröfu á lántakann, þannig að þeir væru því ekki aðilar að máli sem höfðað væri gegn lántakanum. Ég spyr þvi aftur: Hverjum ættu kröfuhafar að stefna til verja eignarétt sinn?
Annað hvort leiðrétta lánin eða skattleggja endurmat sem leiðir til hækkunar
Ég sé ekki nema tvær leiðir út úr þessari furðulegu stöðu. Önnur er að nýju bankarnir skili viðskiptavinum sínum þeim afskriftum sem gömlu bankarnir í reynd veittu þeim. Hin er að skattleggja endurmat lána sem leiðir til hækkunar á virði þeirra í bókum nýju bankanna umfram hærra mat Deloitte á viðkomandi láni. Ég er búinn að fara yfir réttleysi bankanna til þess að innheimta það sem annar aðili hefur þegar afskrifað, en ætli þeir ekki að virða ákvörðun fyrri eiganda lánsins, þá er ekkert annað en að setja 100% skatt á þá hækkun sem nýju bankarnir ætla að sækja til lántaka. Hækkun sem er eingöngu ætlað að skila bankanum hagnaði.
Gengistryggði hryllingurinn
Grófast í þessu öllu finnst mér náttúrulega, að gömlu bankarnir hafi afskrifað gengistryggð lán um 50% miðað við stöðu þeirra í október 2008, en nýju bankarnir láti sem þessi afskrift hafi ekki átt sér stað. Til að kóróna þá vitleysu, var þingið platað til að setja lög sem bætti stöðu bankanna enn frekar. Í staðinn fyrir að fá samningsvexti af 50% upphæðarinnar (miðað við stöðuna í október 2008), þá fá þeir Seðlabankavexti á hærri tölu allan lánstímann. Ég vona að þingmenn fái slæmar martraðir, þegar þeir átta sig á því hve illa þeir voru plataðir. Og bullið í FME og SÍ í fyrra sumar, að gengisdómar Hæstaréttar myndu ógna fjármálastöðugleika í landinu. Hvernig gat það ógnað stöðugleikanum, þegar lánin hækkuðu í bókum bankanna við dóminn og þar með jukust vaxtatekjur þeirra? Stundum held ég að annað hvort sé fólk, sem heldur fram svona bulli, ekki með fullu viti eða að það veit nákvæmlega hvað það er að gera og tekur vísvitandi þátt í blekkingunni. Sé hluti af spillingunni.
Svona í lokin
Ég verð að viðurkenna, að ég er orðinn ákaflega þreyttur á því, að stjórnvöld telja það vera hlutverk sitt að standa í blekkingum. Skiptir það þá ekki máli hvort um er að ræða efnahags- og viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra eða forsætisráðherra, þingmenn Samfylkingarinnar eða VG, Seðlabanka Íslands eða Fjármálaeftirlitið. Þessir aðilar vita allt það sem ég hef skrifað í þessari færslu (kannksi ekki allir þingmennirnir, en hinir gera það). Mér finnst það ósiðlegt af þessum aðilum að standa í þeim blekkingu og beinu lygum sem þeir hafa tekið þátt í. Meira að segja AGS sagði að lengra mætti ganga í leiðréttingu lána einstaklinga og fyrirtækja.
Þá er ég líka orðinn þreyttur á því andvaraleysi sem er meðal fjölmiðlanna vegna þessa máls. Við sem barist höfum fyrir réttlætinu erum álitin kvabbarar og óánægjuseggir, þegar það eina sem við erum að fara fram á, er endurreisn siðferðis, að lántakar njóti afskrifta sem sannanlega fóru fram hjá gömlu bönkunum, að nýju bankarnir komi fram við viðskiptavini sína sem einmitt það en ekki peningakýr.
Í þessum pistli er ekkert sem er rangt. Einstaka tölur geta verið örlítið ónákvæmar, en þær eru þó allar leiddar af opinberum gögnum. Blekkingarnar eru þær sem ég lýsi. Aðferðir bankanna eru þær sem ég lýsi. Svikin eru þau sem ég lýsi. Kannski er þjóðin bara orðin svo leið á umræðunni, að hún nennir ekki lengur að hlusta eða búin að heyra lygina svo oft, að hún er farin að trúa henni sem sannleika, en lygi er lygi sama hversu oft hún er endurtekin.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 2
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 45
- Frá upphafi: 1680033
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 39
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Takk fyrir þessa skýru færslu.
Þegar þetta er svona skýrt þá veltir maður fyrir sér hvort t.d. Magnús Orri (sem ég taldi gæðapilt) viti ekki betur eða tali gegn betri vitund? og hvort er nú verra? Ég held að t.d. Viðskiptanefnd sé fullkunnugt um að gengislánalögin séu algjört rugl en samt vill meirihluti nefndarinnar ekki taka þau til baka.
Stjórnvöld hafa varið óréttlætið af svo miklu kappi að mann grunar að eitthvað misjafnt sé í pokahorninu.
Svo er það líka rétt að fjölmiðlar nenna ekki að fjalla um þetta. RUV er auðvitað bannað að tala. Fjölmiðlar hafa að mestu áhuga á hégóma og kæra sig ekkert um sannleika eða óréttlæti.
Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 19.9.2011 kl. 18:59
Takk fyrir þetta Marinó.
Það er nokkuð ljóst að alþingismenn brutu á stjórnarskrárvörðum eignarrétti mínum þegar þeir tóku af mér réttin til að greiða samningsvexti af endurreiknaða gengisláninu mínu og settu lög um að ég skildi greiða Seðlabankavexti.
Lánið var 32,0 m feb 2008, það var búið að greiða af því alla vexti skilvíslega þegar það var endurreiknað feb 2011 og var þá sagt standa í kr 38,6 m kr (ekkert var greitt af höfuðstól)
Þarna voru hafðar af mér þó nokkrar milljónir (6,5m. kr)
Þessar milljónir þarf ég að sækja til ríkissins sem ber ábyrgð á handvöm alþingis. Eignarréttur á peningum er jú stjórnarskrárvarin.
Ps. notalegt væri að hitta valda þingmenn og ræða málið að sjómanna sið.
Jónas Jónsson (IP-tala skráð) 19.9.2011 kl. 19:53
Það er að komast mynd á þetta hörmungarferli sem endurreisn bankakerfisins í raun og veru er. Og sú mynd sem lýst er í þessum pistli er svo sem ekki mjög frábrugðin því sem búið er að halda fram allt frá hruni ekki síst á þessu bloggi. Og það undir sterkri afneitun frá stjórnarliðum sem þess utan hafa gengið langt í að ljúga því að hvítt sé svart.
Það sem mig langar hins vegar að vita og það er hver andsk... það er sem drífur verkið hjá mannskap eins og Magnúsi Orra Schram og öðrum af sama sauðahúsi. Hvað fær að því er virðist, þokkalega vel gefið fólk til þess að ráðast á samborgara sína eins og stjórnin hefur gert? Hverju var þessum mannskap lofað fyrir að selja landa sína í þrældóm? Inngöngu í ESB? Mynd af sér í "the banksters hall of fame"?
Það má kannski einu gilda héðan af hvort að þetta lið heldur störfum sínum fram yfir 1. október eða ekki, en miðað við stemminguna í þjóðfélaginu má með réttu draga það í efa að stjórnin komist heil á höldnu á milli dómkirkjunnar og alþingis þann daginn. A.m.k. hefur lögreglan gefið það í skyn að hún hafi fengið nóg af því að verja valdhafana fyrir skæðadrífu af grænmeti og eggjum.
Niðurstaðan úr þessu öllu saman getur aldrei orðið önnur en sú að ákveðnir stjórnmálaflokkar, sem nú eru þéttsetnir af mannorðslausum, trausti rúnum stjórnmálamönnum, munu fara langt með að hverfa af sjónarsviðinu. VG mælist nú með 11-12% fylgi hjá þeim 50% sem taka afstöðu! Einn af hverjum 19 er tilbúinn til þess að sverja þessum glórulausa málstað hollustu sína. Sennilega á Lilja Móses 10 af þessum 11-12 prósentustigum. Sama hlutfall fyrir Samfylkinguna er einn af hverjum 10. Er plott Samfylkingarinnar um að nýta tómarýmið sem myndaðist í íslenskum stjórnmálum snemma árs 2009 til þess að lauma ESB aðild framhjá þjóðinni að heppnast? Tæplega, a.m.k. þá þyrftu þessir flokkar að fara að spila út sínum trompum ef þeir eiga þau ennþá á hendi ef fléttan á að ganga upp.
En afleiðingar þess, að þetta samansafn af kjarklausum skussum þorði ekki að standa í fæturnar þegar þjóðin þurfti mest á þvi að halda, eru hrikalegar. Það er vandséð hvernig stór hluti af heimilum landsmanna á að geta unnið sig upp úr þessari holu sem velferðastjórnin er búin að grafa fyrir þau.
Benedikt Helgason (IP-tala skráð) 19.9.2011 kl. 20:52
Við verðum að trúa því að sannleikurinn um þessi mál standi upp úr á endanum. Þú átt margföld þinglaun skilið fyrir þína vinnu vegna þessara mála og ég veit að þú hefur ekki fengið krónu.
Skömmin er sú að það er her af fólki á ríkislaunum sem á óforskammanlegan hátt lýgur og prettar, sjálfsagt vegna þess að það hentar þeirra sjónarmunum, og kannski hagsmunum, og að þannig er leikurinn leikinn í pólitík.
Þú ert að standa þig. Heldur betur.
Hrannar Baldursson, 19.9.2011 kl. 21:41
Fjölmiðlar munu ekki sýna þessu neinn áhuga fyrr en hvína fer í tunnum og pottlokum öðru sinni. Það er langt síðan ég sannfærðist um að ekkert mun breyta þessu nema við sjálf tökum til hendinni.
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 19.9.2011 kl. 22:22
Væri kannski sniðugt ef einhver fæst til að setja þetta fram meira grafískt í samvinnu við Marinó ? Þekkir einhver einhvern sem vill láta gott af sér leiða og setja meginmálið fram á grafískan hátt.
Einar Guðjónsson, 19.9.2011 kl. 22:52
Marinó, þú mátt ekki láta áhugaleysi mútuþeganna þreyta þig.
Þingmenn fjórflokkanna og flokkarnir sjálfir hafa þegið tugi og hundruðir miljóna króna í það sem sumir vilja kalla styrki, en aðrir mútur úr vasa nokkurra umsvifamestu glæpamanna landsins.
Og mútuþegarnir eru einfaldlega enn að vinna fyrir þessum peningum.
Þú þarft einfaldlega að taka þessa baráttu yfir á næsta þrep, þ.e. að stofna nýjan flokk fyrir næstu kosningar.
Ég er sannfærður um að þú hefur meira persónulegt fylgi en allir mútuþegarnir til samans í dag.
Stofnaðu flokk Marinó, það þarf alveg nauðsynlega að þrífa skítinn út úr vistheimilinu á austurvelli.
Sigurður #1 (IP-tala skráð) 19.9.2011 kl. 22:58
Sæll Marinó
Ég er einmitt búinn að vera að velta fyrir mér hvort ekki sé rétt að stofna stjórnmála afl/flokk. Það eru svo margir sem skammast sín svo mikið fyrir þá stjórn og stjórnmálamenn sem eiga að vera vinna fyrir okkur og kenna sig t.d. við jafnaðarmenn. Ég fór heinlega að hlæja þegar ég heyrði MOS fara tala um allar nýju álögurnar sem stendur til að setja á fjármálastofnanir.. hljómaði eins og einhverjir smáaurar og frímerki og bara var ekkert svar við umræðunni. Ég held að hann vilji ekki horfa aftur á silfrið. Mér dettur líka í Róbert Marshall sem sagði í silfrinu í vor að það væri viðbúið að leiðrétting lána yrði gert að kosningamáli! Það gæti verið styttra en margan grunar að það þurfi að kjósa. Jón Gnarr er búinn að lofa framboði.
Við þurfum að eiga skýran kost, hafa HH ekkert hugað að framboði?
VJ (IP-tala skráð) 20.9.2011 kl. 00:13
Sæll Marinó og kærar þakkir fyrir allt það sem þú hefur lagt af mörkum Eg legg til að þú sendir ofangreind skrif til ALLRA þingmann og spyrji þá hvort þeir hafi vitað hvernig í pottinn hafi verið búið eða hreinleg samþykkt þetta RÁN - siðleysi gagnvart almenningi í landinu. Þingmenn eru jú í vinnu fyrir m.a. almenning í landinu. Þá væri rétt að spyrja þingmenn hvernig þeir hyggist greiða úr þessu máli (t.d. hvort fella eigi niður des.lögin hans Árna Páls)
Ég held að það sé orðið tímabært að mæta á Ausurvöll 1. okt nk.
Sólveig Jónsdóttir (IP-tala skráð) 20.9.2011 kl. 00:23
Mér finnst að Ísland eigi að líta á heimilisfasteign starfsmanna og rekstrarlegar fasteignir lögaðila, sem grunn Íslensks neytendamarkaðar, og leggja ekki meira en 2,0% eignarskatta á þenna grunn, í heildar samhengi. Það eru vextir vegna heildar lánskostanaðar fylgi 30 ára raunhagvexti eða markmiðum um hann. Þá er byggt upp hér IRR veðsafnaveðskuldar kerfi að hætti Norðulanda, Þýkaland og Frakklands og USA : sem bindur sem minnst að reiðufé samtímas. [ Tryggir, S-Afríka er ríki sem mér geðjast ekki að hafa sem fyrirmyndir]. Veð söfn verði 80% Prime AAA+++ með 3,33% eiginfjárbindingu max sem merkir þá eru þau jafn örugg til að skila raunvirði fasts ársútstreymis og í þessum Ríkjum. Núvernadi vertygging með heildar neyslu álagi er alls ekki að sanna sig frá 1980 í heildina litið. 150% vinna er ekki á boðstólnum almennt í framtíðinni í 30 ár. Fólk með hærri sáðstöfunatekjur festir eðlilega í dýrari fasteign og hrunið hér alls ekki betur út fyrir það mínu mati. Ég hugsa ekki bara mig heldur heildar grunn Íslenska neytendamarkaðar. Ég er ein af þeim fjölda neytenda sem er búinn að miss allan séreignlífeyrir til að fara ekki á féló strax. ÉG er Neytandmarkaður og MOSi er Ríkið, framtíðar óraunhæfar tekjur er pappírsmál sem eru ekki tapaðar þótt séu afskrifar fyrirfram, meiri hluti neytenda sem fær lækkun nafnvaxta niður í 1,0% eða 40% lækkun á lánshöfuð stóll, verður ekki lengi að fylla bankanna hér með nýjum lántökum. Vextir í vaxta stað. Fyrirfram reiknað vextir eru ranglega kallað hér eiginir og eru erlendis væntanlegar markaðstekjur. Ég er að tala um leiðréttingu og uppbyggingu Prime IRR veðsafna og veðja á að það skili sér í auknum lántökum virkra neytenda. Stefna að eyða bótum úr húsnæðiskerfinu og fjölga skráðum eigendum öruggra langtíma veðskulda og veðeigna. Vera eins og önnur ríki í grunni, bóka hærri tekjur á kennitölu og fella burt bætur á móti. Byggja upp sjálfsímynd neytenda. Gera fasteigna kaup og leigu léttarbærari frá vöggu til grafar fyrir alla. Erlendis eru nýbyggingar með 2,0% raunvaxta kröfu inn í nafnvöxtum jafngreiðlu bréfsins eða breytilegum vöxtunum. Þessi söfn tengjast áhættu um framtíma stöðuleika verð og eru rauntekjurnar notað til afskrifa eigin reiðfjárbindingar veðsafnsins meðan er nýtt [karfa um að eiga fyrir næstu gjaldaveltu]. Íslendingar verða gera þetta í stöðunni í dag lægri þjóðartekjur og fast mikið atvinnuleysi. Þess vegna er best að leiðrétta við alla líka og fjölga virkum neytendum sem fyrst. Palli einn í heimum, gleymist engum næstu 30 ár á 110% leið. Ég gæti aldrei boðið fólki 110% leið sem ég ég get ekki hugsað mér sjálfur: stærð fasteignar skiptir engu máli. Það er verið að nauðga almenningi andlega vegna vaxtasýki stjórnsýslunnar. Stofnuðu flokk Marino
Júlíus Björnsson, 20.9.2011 kl. 00:28
Sæll Marinó,
Einn ættingi minn á Íslandi hefur verið að skoppa í gegnum kerfið undanfarin ár og skrifaði nýlega undir 110% leiðina og "fékk leyfi" til að sækja um sértæka skuldaaðlögun. Á meðan á þessu hefur gengið hefur bankinn lagt litlar 5 milljónir í dráttarvexti á stærsta lánið og samsvarandi á minni lán. Hvernig eiga skuldugir einstaklingar að eiga nokkra einustu von til þess að komast undan þessu rugli??? Ég get ekki séð betur en allar ívilnanir sem hann hefur fengið hafi verið teknar til baka og rúmlega það með álögðum dráttarvöxtum meðan hann BEIÐ eftir útreikningum og úrræðum frá bankanum. Þetta bara nær engri átt. Hversu margir milljarðar í hagnaðartölum bankanna eru útistandandi vextir, vaxtavextir, dráttarvextir og annað rugl sem er verið að reikna á skuldir eins og þessar meðan fólk bíður eftir einhverjum úrræðum, sem eru svo ekkert annað en spotti til að hengja sig í? Alveg ömurlegt að hugsa um þetta:(
Kveðja,
Arnór Baldvinsson, 20.9.2011 kl. 07:00
Ég get sagt þér það Marinó, að skrif þín og barátta allan þennan tíma er eitt af fáu jákvæðu ljósunum sem maður sér í þessum brotsjó sem Ísland varð fyrir.
Sama á við um marga sem ég þekki.
Þú hefur þekkingu til að greina kjarnann frá hisminu í öllum þeim blekkingum og útúrsnúningum sem sjórnvöld og fjármálafyrirtæki spúa yfir landann.
Þú mátt alls ekki verða það þreyttur að þú gefir upp baráttuvilja þinn Marinó !
Barátta þín er ómetanleg og ég vil persónulega þakka þér hjartanlega fyrir þinn hlut í þessari lífsnauðsynlegu baráttu.
Ef það telur eitthvað..þá þarf ég vissulega á skrifum þínum að halda..
runar (IP-tala skráð) 20.9.2011 kl. 18:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.