17.5.2011 | 00:08
Gengistryggð lán voru færð niður um meira en helming við yfirfærslu til nýju bankanna
Í síðustu viku kom út skýrsla fjármálaráðherra um endurreisn íslensku bankanna. Er þetta mikil skýrsla og fróðleg lesning. Er ég kominn á nokkurn rekspöl með að lesa hana og vil hvetja alla þá sem vilja skilja hvernig þetta fór fram til að kynna sér efni hennar, en henni var dreift á Alþingi í síðustu viku, þrátt fyrir að á forsíðu sé skýrsla tímasett í mars 2011. Hvers vegna ráðherra ákvað að draga það í allt að 10 vikur að dreifa skýrslunn, veit ég ekki, en tel það furðulegt. Kannski var hann að bíða eftir kjördæmaviku svo heldur færi hægt og hljótt um skýrsluna.
Hér vil ég gera eitt atriði að umfjöllunaratriði. Að sjálfsögðu er ég að fjalla um gengistryggingu. Um hana er sérstaklega fjallað í undirkafla 2.4.6.2 Lögmæti gengistryggðra lána. Birti ég kaflann hér í heild.
2.4.6.2. Lögmæti gengistryggðra lána
Í tengslum við og eftir dóma Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána hefur komið upp opinber umræða um hvaða viðhorf hafi verið uppi um þetta atriði hjá samningsaðilum í samningum milli bankanna um yfirfærslu eigna til nýju bankanna. Hafa sumir viljað deila á íslensk stjórnvöld fyrir að hafa ekki í nægilegum mæli tekið tillit til þessa í samningunum og hafa hefði átt fyrirvara um þetta atriði í samningunum.Eins og greinir hér að framan voru sérstök álitaefni við mat eignanna (útlánanna) tengd þeirri staðreynd að skuldarar gengistryggðra lána voru að miklu leyti aðilar með tekjur í íslenskum krónum. Með falli krónunnar var augljóslega ríkuleg þörf á að færa verðmæti þessara lána niður. Það var gert að verulegu leyti. Þó verður að hafa í huga að ýmis erlend og gengistryggð lán voru og eru í fullum skilum, einkum hjá útflutningsatvinnugreinunum. Við samninga um endurgjald fyrir útlánin var farið niður í neðstu mörk Deloitte-matsins og þannig reynt að girða fyrir að áhættur sem tengdust lánasöfnunum myndu reynast nýju bönkunum ofviða. Ef betur gengi myndi hins vegar vera greitt í formi aukins verðmætis hlutabréfa eða útgáfu viðbótarskuldabréfa eins og áður er rakið.
Mat eignanna miðast við októbermánuð 2008 en á þeim tíma voru tugþúsundir gengistryggðra lána í bönkunum sem greitt var af og engum hafði blandast hugur um að væru gildir gerningar. Seðlabanki Íslands og FME höfðu látið þessar lánveitingar óátaldar og þær höfðu tíðkast um árabil. Um það leyti sem endanlega var gengið frá samningum við gömlu bankana heyrðust raddir um að gengistrygging lána kynni að vera ólögmæt. Það atriði var á þeim tíma umdeilt meðal lögfræðinga og algjörlega óraunhæft að meðhöndla öll slík lán sem ólögmæt í samningunum. Bent var á að öll gengistryggð lán hefðu verið afskrifuð um meira en helming við yfirfærslu þeirra til nýju bankanna, engin greining hefði farið fram á lánaskilmálum m.t.t. ólögmætis og þótt svo færi að hluti þeirra yrði metinn ógildur myndu ákvæði 18. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 leiða til þess að upphaflegur höfuðstóll yrði framreiknaður með óverðtryggðum vöxtum.
Þegar þetta er ritað liggja fyrir dómar Hæstaréttar sem skera úr um ólögmæti bindingar lána í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla og hvernig skuli fara með vaxtareikning slíkra ólögmætra gengistryggðra lána vegna bifreiðakaupa og húsnæðislána. Niðurstaða Hæstaréttar er sú að ákvæði um bindingu fjárhæðar láns í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla sé ógilt. Við mat á því hvort lán vegna bílakaupa og húsnæðislán sé gilt erlent lán eða íslenskt lán með ólögmætri gengistryggingu skipti mestu hvort lánsfjárhæð sé ákveðin í íslenskum krónum og að greiða beri lánið til baka í íslenskum krónum. Lögum um vexti og verðtryggingu var breytt í árslok 2010 með lögum nr. 151/2010 þar sem kveðið var með nákvæmari hætti á um framkvæmd endurútreiknings lána sem dæmd hafi verið ógild, auk ákvæða til bráðabirgða um endurútreikning húsnæðislána.
Ekki liggur enn fyrir að hvaða marki fyrirtækjalán teljast hafa að geyma ólögmæta gengistryggingu en á það mun líklega reyna fyrir dómstólum á næstu misserum, þótt fyrirtæki og bankar hafi raunar í miklum mæli samið um breytingar á þeim lánum. Enn er mjög umdeilt meðal lögfræðinga að hvaða marki fyrirtækjalánin verði talin hafa að geyma ólögmæta gengistryggingu. Hins vegar liggur fyrir að jafnvel þótt stór hluti þeirra falli þar undir mun það ekki hafa í för með sér verulegar umframafskriftir á þeim lánum í heild sinni, þegar tekið er mið af því matsverði sem samningar nýju og gömlu bankanna gerðu ráð fyrir.
Óvissan kringum gengistryggðu lánin var einn af þeim fjölmörgu þáttum sem tekið var tillit til við mat og samninga um eignavirðið. Miðað við þá dóma sem nú þegar hafa fallið um endurreikning ólögmætra lána er tjón nýju bankanna innan þeirra marka sem samningarnir settu. Mikilvægt var á sínum tíma að ljúka samningum og gerð endanlegra stofnefnahagsreikninga bankanna og verður að telja að á heildina litið hafi það verið betri kostur en að stöðva samningaferlið í ljósi þeirrar óvissu sem enn hefur ekki verið eytt að fullu.
(Feitletranir eru mínar og fjalla ég nánar um þær neðar í færslunni.)
Þessi kafli sveiflast á milli þess að vera bullandi afneitun í að vera virkilega mikilvægt vopn handa þeim sem barist hafa fyrir réttlátri niðurstöðu varðandi hin áður gengistryggðu lán. Fyrst að afneituninni:
Eins og ég segi, veit ég ekki í hvaða veröld skýrsluhöfundur/ar hrærðust, en þeir voru augljóslega meðal þeirra sem tóku þátt í þeim viðræðum sem lýst er í kafla 2.4.6. Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra sat sjálfur í sjónvarpssal í Kastljósi 8. maí 2009, þar sem þessi mál voru rædd, aðallögfræðingur Seðlabanka Íslands gerði minnisblað í maí 2009 þar sem hún kemst að þeirri niðurstöðu að gengistrygging væri ólögleg, LOGOS útbjó lögfræðiálit fyrir Seðlabankann í maí 2009 þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að gengistrygging sé ólöglög verðtrygging (LOGOS var ráðgjafi í viðræðum um verðmat á lánum), Björn Þorri Viktorsson sendi bréf á alla þingmenn og ráðherra í lok maí 2009, þar sem varða er við því að gengistrygging sé ólögleg, Gunnar Tómasson sendi sams konar bréf á sömu aðila í september 2009, Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að gengistrygging væri ólöglegt form verðtryggingar 16. júní 2010 og í þeim dómum var ekkert fjallað um það hvort veðið að baki láninu skipti máli. Það vill svo til að ég skrifaði færslu í gær um hvað dómstólar hafa sagt (Hvað hafa dómstólar sagt um áður gengistryggð lán?) og það vill svo til að 14. febrúar féllu tveir dómar í Hæstarétti, þar sem niðurstaðan er, að dómar um ólögmæti gengistryggingar gilda óháð lengd láns og tegund veðs þ.e. tilgangi með lántöku.
Mér finnst með ólíkindum að starfsmenn fjármálaráðuneytisins séu að fela sig bak við óvissu til þess að réttlæta það klúður sem gert var í samningum varðandi gengistryggð lán. Þetta kemur jafnvel ennþá sterkar fram í kafla 2.4.4.2. Útfærsla á gjaldeyrisjöfnuði bankanna, þar sem ekki er minnst einu einasta orði á ólögmæti gengistryggingarinnar, þó svo að hún ein hafi leyst vanda bankanna varðandi gjaldeyrisjöfnuð. Það er auðvelt að taka sér sterk orð í munn, þegar maður sér þessa umfjöllun, en ég læt þingmönnum um að nota þau þegar skýrslan kemur þar til umræðu.
En fátt er svo með öllu illt að ei boði gott. Inn á milli eru mikilvægar upplýsingar, raunar svo mikilvægar að þær fletta ofan af blekkingunum sem hafa verið viðhafðar af tveimur efnahags- og viðskiptaráðherrum. Þar vil ég vísa til eftirfarandi atriða:
- Mat eignanna miðast við októbermánuð 2008 (gengisvísitala svipuð og núna)
- Með falli krónunnar var augljóslega ríkuleg þörf á að færa verðmæti þessara lána niður. Það var gert að verulegu leyti.
- Við samninga um endurgjald fyrir útlánin var farið niður í neðstu mörk Deloitte-matsins og þannig reynt að girða fyrir að áhættur sem tengdust lánasöfnunum myndu reynast nýju bönkunum ofviða. (Kemur annars staðar fram í skýrslunni að var allt niður í 35% endurheimtuvirði lána, en að jafnaði 45% fyrir öll lán.)
- Bent var á að öll gengistryggð lán hefðu verið afskrifuð um meira en helming við yfirfærslu þeirra til nýju bankanna. (Helmingur af gengisvísitölunni 220 er 110!)
- Hins vegar liggur fyrir að jafnvel þótt stór hluti [fyrirtækjalána] falli þar undir mun það ekki hafa í för með sér verulegar umframafskriftir á þeim lánum í heild sinni, þegar tekið er mið af því matsverði sem samningar nýju og gömlu bankanna gerðu ráð fyrir. (Bankarnir þola vel að öll gengistryggð lán verði leiðrétt.)
- Miðað við þá dóma sem nú þegar hafa fallið um endurreikning ólögmætra lána er tjón nýju bankanna innan þeirra marka sem samningarnir settu.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 3
- Sl. sólarhring: 9
- Sl. viku: 37
- Frá upphafi: 1680018
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 33
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
2018
2017
2016
2015
2014
2013
2012
2011
2010
2009
2008
2007
Tenglar
Upplýsingaöryggi og persónuvernd
- Betri ákvörðun ráðgjafarþjónusta Marinós G. Njálssonar
- CISA, CISM, COBIT, Val IT
- Staðlaráð Íslands
- Heimasíða Persónuverndar
Hagsmunabarátta
- Hagsmunasamtök heimilanna
- Hugmyndir að úrræðum fyrir almenning
- Færa þarf höfuðstól lánanna niður
- Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum
- Innlegg í naflaskoðun og endurreisn
- Er raunhæft að afnema verðtrygginguna eða setja henni skorður?
- Aðgerðaráætlun fyrir Ísland
- Hinn almenni borgari á að blæða
- Leið ríkisstjórnarinnar er röng
- Innantómar aðgerðir til stuðnings heimilunum
- Tillögur talsmanns neytenda
- Á hverju munu Íslendingar lifa?
- Verðbólga sem hefði geta orðið
- Aðgerða þörf strax - Tillaga að aðgerðahópum
- Mikilvægast að varðveita störfin
- Hvar setjum við varnarlínuna?
- 385 milljarða til bankanna og reikningurinn til heimilanna
- 2009 gengið í garð, ár endurreisnar, en hvernig endurreisn viljum við?
- Jöklabréf, erlend lán og vaxtaskiptasamningar
Færsluflokkar
- Áhættustjórnun
- Bloggar
- Dægurmál
- Efnahagsmál
- Endurreisn
- Ferðalög
- Ferðaþjónusta
- Heimspeki
- HRUNIÐ
- Icesave
- Íbúðalánasjóður
- Íþróttir
- Lánamál
- Leiðsögn
- Lífeyrissjóðir
- Lífspeki
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Neytendavernd
- Persónuvernd
- Skuldamál heimilanna
- Snjóhengjur
- Stjórnmál og samfélag
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Upplýsingaöryggi
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Athugasemdir
Takk fyrir góða umfjöllun Marinó! Það sem mér finnst ekki síður athyglisvert er þessi setning sem þú vitnar í: "Ef betur gengi myndi hins vegar vera greitt í formi aukins verðmætis hlutabréfa eða útgáfu viðbótarskuldabréfa eins og áður er rakið (2.4.6.2.)." Hér er staðfest að ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms samdi árið 2009 við kröfuhafa bankanna um að betri heimtur á eignasafni bankanna myndi færa kröfuhöfum viðbótargreiðslu að upp kr. 215 milljarða ef heimtur yrðu betri (bls. 32). Þetta var víst í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar um að gæta hagsmuna kröfuhafa (bls. 23) en hvergi var minnst á hagsmunagæslu fyrir Íslensk fyrirtæki og heimili.
Lilja Mósesdóttir (IP-tala skráð) 17.5.2011 kl. 08:48
Sæll Marinó.
Enn ein frábær samantekt hjá þér. Ég er sammála, enn eru stjórnvöld í afneitun og reyna að skrifa söguna sér í hag m.t.t.þ. að þau hafa ekki brugðist við með þeim hætti sem neytendur og fyrirtæki máttu ætla, samfara nýjum dómsniðurstöðum sem augljóslega skýra stöðuna hver á fætur annarri.
Það er t.a.m. með ólíkindum að því sé haldið fram í skýrslunni að "um það leyti sem yfirfærsla lánanna átti sér stað, hafi heyrst raddir um ólögmæti þeirra...." þetta er öldungis rangt, enda var því verki ekki lokið fyrr en í sept/otk. 2009, en opinberlega var fyrst rætt um þessi mál í Kastljósinu í byrjun maí 2009. Það var bara ENGINN vilji hjá stjórnvöldum til að hlusta á þessi varnaðarorð!
Nú í dag er staðan sú, að bankarnir eru að níðast á bæði fólki og fyrirtækjum, neyta að endurreikna lán sem ekki eru með veði í eigin íbúðarhúsnæði, þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi skýrt það rækilega í málinu nr. 603/2010 að það skiptir engu máli hvort einstaklingur eða fyrirtæki tók lánið, hvað var sett að veði eða hvort lánið var stutt eða langt! Sá dómur féll 14. feb. sl., en samt breytist ekki neitt!
þá er einnig með ólíkindum að stjórnvöld skuli bakka NBI hf. í því að viðhalda "möntru" um að beðið sér fordæmis í sk. Mótor-Max máli, þrátt fyrir að Hæstiréttur hafi þegar tekið efnislega á ólögmæti samninga bankans í málunum nr. 30 og 31/2011 sem dæmd voru hinn 8. mars sl. Meðvirknin og afneitunin er fyrir löngu orðin vandræðaleg og skömm þeirra aðila sem eiga að bregðast við og gæta þess að fjármálafyrirtæki gæti lögbundinna réttinda viðskiptavina sinna, er fyrir löngu orðin ævarandi.
Efnahags- og viðskiptaráðuneytið (og þá að ábendingu þess Alþingi)ætti auðvitað að hlutast til um að rétta hlut fólks og fyrirtækja, FME grjótsefur eins og það virðist hafa gert meira og minna frá stofnun þess, Seðlabankinn þorir ekki gegn sjónarmiðum ríkjandi pólitíkur og Neytendastofa og Neytendasamtökin eru orðin að ævarandi aðhlátursefni fyrir löngu fyrir algert aðgerðarleysi. Umboðsmaður skuldara hefur áhyggjur, en því miður sér maður ekki að það embætti ætli heldur að girða sig í brók og sinna lögboðnum skyldum sínum (vonum það þó).
Enn er staðan sú, að einstaklingar og fyrirtæki eru neydd til að fara í dómsmál með ærnum tilkostnaði, jafnvel þótt fyrir lögnu sé búið að komast að niðurstöðu um ágreiningsefnið í fyrri dómsniðurstöðum. Hversu lengi ætla menn að halda áfram að þverskallast í þessum málum?
Við getum svo tekið umræður um afturvirkan vaxtaútreikning síðar, en líklega er þó best að eyða kröftunum í því efni á vettvandi ESA úr því sem komið er.
Mbk. Björn Þorri
Björn Þorri Viktorsson (IP-tala skráð) 17.5.2011 kl. 09:38
Takk fyrri þessa ábendingu.
Eftirmenn Árna Matt virðast einhverra hluta vegna hafa talið það hlutverk sitt að verja eignir nýju bankann með kjafti og kóm.
Hvað veldur ?
Guðmundur Jónsson, 17.5.2011 kl. 10:28
Sæll Marinó,
takk fyrir góða og fróðlega færslu,
það er ljóst af þessu og mörgu öðru að bankarnir hafa verið meðhöndlaðir sem hvítvoðungar. Þeir njóta algjörrar sérstöðu í tilverunni og fá allt sem þá hugnast. Samningarnir bera vott um það að nánast ekkert mátti koma sér illa fyrir nýju bankana. Þegar dómsmálin gengu yfir var rætt um að menn mættu dæma hvað sem er nema það sem kæmi bönkunum illa.
Það er full þörf á því að almenningur velti því fyrir sér hvað veldur eins og Guðmundur spyr. Hvers vegna eru bankar svona spes og hvers vegna fara allir að fyrirmælum þeirra?
Gunnar Skúli Ármannsson, 17.5.2011 kl. 11:29
Takk fyrir Marino að standa vaktina
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir, 17.5.2011 kl. 13:24
Eins og búast mátti við, þá þegja fjölmiðlar þunnu hljóði yfir skýrslunni fyrir utan tilvitnun Pressunnar í þessa færslu. Merkilegur andsk.. hvað ekki má ræða um það sem gerðist.
Marinó G. Njálsson, 17.5.2011 kl. 13:47
Alveg dæmalaust ef hægt er að segja í skýrslunni að óraunhæft hafi verið við samningagerð vegna nýju bankanna að meta gengistryggð lán ólögmæt fyrir dómaniðurstöðu Hæstaréttar, þegar lögin og lögskýringargögnin um vexti og verðtryggingu segja klárlega annað, og um leið segja að 18. gr. sömu laga heimili framreikning miðað við óverðtryggða vexti. Sú túlkun og niðurstaða Hæstaréttar var heldur ekki til staðar þegar bent var á ólögmæti gengistryggðra lána, og er í raun ekki til staðar enn í dag því í frægum vaxtadómi nr. 471/2010, 16. september 2010, urðu aðilar sammála um útreikning eftirstöðva, þ.e. ekki var uppi í málinu tölulegur ágreiningur um útreikning kröfunnar og gerði stefndi [neytandi] ekki athugasemdir við útreikninga stefnanda á kröfum sínum. Þannig var sú niðurstaða Héraðsdóms um óverðtryggða vexti á láninu staðfest í Hæstarétti.
Enn og aftur, slíkur framreikningur með mið af nefndum vaxtadómi leiðir hins vegar til hærri árlegrar hlutfallstölu kostnaðar sem er óheimilt að innheimta sé hún oflágt reiknuð í upphafi. Hver er því niðurstaðan ef neytandi er ósamþykkur slíkum útreikningum? Okkur vantar því enn niðurstöðu Hæstaréttar í máli hvar tölulegur ágreiningur er til staðar vegna gengistryggðs láns.
Erlingur Alfreð Jónsson, 17.5.2011 kl. 14:11
Þetta eru hressilegar upplýsingar.
Sem Sagt, skuldarar fara fram á niðurfellingu höfuðustóls gengislána um 50 %. Allar rukkanir umfram yfirtöku sbr. skýrslu, er þjófnaður í skjóli Ríkisins.
Vaxtaforsendur (LIBOR+ ÁLAG) lána óbreyttar. Verðtryggingarvísitala lækkuð um 50% á verðtryggðum lánum
Ef ekki er fallist á réttlætið, þá hætta allir að greiða af lánum sínum.
Við verðum sjálf að knýja fram réttlátar leiðréttingar, því ekki fáum við aðstoð Ríkisstjórnarínnar því hún virðist stjórna þessari atburðarás óréttlætisins.
Eggert Guðmundsson, 17.5.2011 kl. 16:35
Fróðlegt, svo ekki sér meira sagt. Undirstrikar svart á hvítu að enginn gætir hagsmuna almennings - nema það sjálft sbr. kæruna til ESA svo fátt eitt sé nefnt. Enn hefur ÁPÁ svarað spurningum Eyglóar Harðar og umboðsmaður lánþega (skuldara) þorir ekki að birta niðurstöður könnunar á misónýtum aðferðum við að ólögmæta endurútreikninga gengislána.
Jóna Ingibjörg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 17.5.2011 kl. 17:06
Enn hefur ÁPÁ ekki svarað... átti að standa þarna
Jóna Ingibjörg Jónsdóttir (IP-tala skráð) 17.5.2011 kl. 17:07
Marinó , ef allir skulda þér peninga og ríkið þar meðtalið-hver ræður og hverju þarf þá að breyta?
Gunnar Skúli Ármannsson, 17.5.2011 kl. 18:12
Takk fyrir enn eina uppljóstrunina Marinó. Þessi skýrsla er líklega ein merkilegast heimildin hingað til um eftirhruns-aðgerðir, og hefði líklega flogið undir radarinn ef þú hefðir ekki náð að vekja á henni athygli.
Athugasemdir:
Um gengistryggðu lánin segir: "engum hafði blandast hugur um að væru gildir gerningar" En nú er það skjalfest í umsögn Samtaka Fjármálafyrirtækja um lög um vexti og verðtryggingu, að þeirra skilningur á lögunum var sá að þau bönnuðu einmitt gengistryggingu. Þarna er því beinlínis farið með rangt mál í skýrslunni. Auk þess höfðu þau fyrirtæki sem voru hvað duglegust að veita þessi lán, ekki heimild til þess í starfsleyfum sínum. Þetta er skjalfest í gögnum frá FME, en stofnunin aðhafðist hinsvegar ekkert. Ef það hefur leikið einhver vafi á þessu augljósa atriði innan stofnunarinnar þá er um að ræða óafsakanlegan klaufaskap og ég leyfi mér að segja heimsku. Hinn möguleikinn er auðvitað samsæriskenning...
"...réttlæta það klúður... Þetta kemur jafnvel ennþá sterkar fram í kafla 2.4.4.2. Útfærsla á gjaldeyrisjöfnuði bankanna, þar sem ekki er minnst einu einasta orði á ólögmæti gengistryggingarinnar, þó svo að hún ein hafi leyst vanda bankanna varðandi gjaldeyrisjöfnuð."
Bingó, þetta er einmitt úgangspunktur samsærikenninginarinnar. Þessar "eignir" (gengistryggðu lánin) voru allan tímann bókfærðar sem erlendar eignir bankanna, jafnvel þó að þetta hafi í rauninni verið krónulán til Íslendinga. Þessi stórfellda bókhaldsfölsun var líklega það sem fleytti bönkunum áfram eftir að þeir urðu raunverulega gjaldrota í erlendri mynt þegar "mini-kreppan" reið yfir árið 2006. Það verður að teljast ólíklegt að svona afleiðusvikamylla hafi getað farið fram án a.m.k. þegjandi samþykkis Seðlabankans. Hvort þetta var skipulagður blekkingaleikur frá hæstu stigum er þar sem staðreyndirnar enda og samsæriskenningin byrjar. En það er nokkuð ljóst að það var ekki síst þessi "sterka erlenda eignastaða" bankanna sem hjálpaði þeim að fá þrefalt A í lánshæfismat alveg þar til þeir voru farnir að skrapa botninn og stofna beinlínis þjóðaröryggi í hættu. Fyrirbæri eins og IceSave gerðu ekkert nema að framlengja Ponzi-svikin, á meðan ránsfengurinn var jafnóðum fluttur úr landi gegnum Luxemborg og sendur til Tortola. Undir það síðasta voru það heilu ferðatöskurnar af Evrum, Dollurum og Frönkum sem fóru um borð í farþegaflugvélar. Það var ekkert sérstakt markmið í sjálfu sér að fella krónuna heldur var það óhjákvæmileg afleiðing, hún var einfaldlega kúbeinið sem var notað við ránið.
Loks varðandi gjöfina sem nýju bönkunum var færð með dómi um seðlabankavexti í stað samningsvaxta, þá langar mig að nefna tölur sem skipta máli. Hagnaður stóru bankana 2010 var af stóru leyti vegna"endurmats lánasafna". Með öðrum orðum froða sem var búin til með pennastriki (sjá nánari umfjöllun hér).
- Íslandsbanki: 29,4 ma.kr. þar af 14,5 eða 49% v. endurmats
- Arion: 12,3 ma.kr. þar af 13,4 eða 109% v. endurmats
- Landsbankinn: 27,2 ma.kr. þar af 16,9 eða 62% v. endurmats
Samanlagt högnuðust þessir þrír bankar um 68,9 ma.kr. og þar af voru 44,8 ma.kr. vegna endurmats lánasafna eða 65% af heildarhagnaðinum sem samsvarar 2,9% af VLF 2010. Miðað við eignarhlut ríkisins í nýju bönkunum og samninga við kröfuhafa um skiptingu þessarar "virðisaukningar" þýðir það að allt að 2% af VLF 2010 verða send úr landi ef seðlabankavextir fá að standa í stað samningsvaxta, en það svarar til meira en helmings alls hagvaxtar sem mældist í fyrra. Hinn helmingurinn samanstendur að mestu leyti af þeim hluta froðunnar sem fellur í hlut ríkisins og bankanna sjálfra. Þessi heildarmynd sem hér að komast mynd á gefur til kynna að óhætt sé að ganga út frá því að allar hagtölur á Íslandi séu falsaðar, jafnt fyrir hrun og eftir.Sem fyrr á almenningur að sitja uppi með afleiðingarnar.
Guðmundur Ásgeirsson, 17.5.2011 kl. 21:14
Athyglisverð ný tilskipun : http://ec.europa.eu/internal_market/finservices-retail/docs/credit/mortgage/com_2011_142_en.pdf
Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 18.5.2011 kl. 21:50
Hér eru tvö viðtöl sem er þess virði að hlusta á:
Lilja og Guðlaugur Í bítið á Bygljunni 18.5.2011
Lilja Móses í síðdegisútvarpinu á Rás 2
Marinó G. Njálsson, 18.5.2011 kl. 23:07
Og svo er það náttúrulega grein Ólafs Arnarsonar:
http://www.pressan.is/pressupennar/LesaOlafArnarson/steingrimur-og-johanna-gafu-skotleyfi-a-skuldara
Marinó G. Njálsson, 18.5.2011 kl. 23:39
Þætti gaman í þessum tengslum að fá að heyra frá fróðum mönnum, hvað felst í þessari EU tilskipun, sem hlekkjað er á hér. Ég er hreinlega of vitlaus til að ná botni í svona jargon.
Hólmsteinn gæti kannski brífað okkur aðeins frekar, fyrst hann setti þetta nú inn.
Jón Steinar Ragnarsson, 19.5.2011 kl. 02:37
Sjá t.d. bls 2 : http://www.cep.eu/fileadmin/user_upload/Kurzanalysen/Immobilienkredite/PB_Mortgage_Loans.pdf
Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 19.5.2011 kl. 10:02
Ég er búin að meta þessa skýrslu aðiens betur.
Það kemur fram í henni að ástæða þess að farið var í þessa leynisamninga við kröfuhafana var að reyna að opna aðgang ríkis og banka að erlendu lánsfé.
Það segir okkur að ríkstjórnin Jóhönnu S metur það svo að aðgangur að erlendu lánsfé sé það sem öllu máli skipti fyrir framtíð "sinnar" þjóðar.
Eins og flestir hugsandi menn muna þá var aðgangur að erlendu lánsfé eiginlega bæði upphaf og endir góðærisins á íslandi og erfitt að sjá hvað þeim gengur til að vilja bæta við þann stabba. En af þessu er ljóst að þeirra samnigsmarkmið voru einfaldlega röng.
Mín niðurstaða er eiginlega bara sú að þeim hafi tekist að toppa toppa Svavarssamninginn í þessu.
Guðmundur Jónsson, 19.5.2011 kl. 11:09
Við skulum ekki gleima þeirri staðreynd að hagnaður bankanna var um 70 milljarðar á síðasta ári. Þann hagnað er allan hægt að rekja til þess samnings sem fjármálaráðuneytið gerði við stofnun þeirra og annara leynisamniga eftir það!!
Gunnar Heiðarsson, 20.5.2011 kl. 22:32
"aðgangur að alþjóðlegum fjármálamörkuðum" = safna meiri skuldum
Guðmundur Ásgeirsson, 21.5.2011 kl. 05:25
Gunnar: stærsti hlutinn af hagnaði bankanna í fyrra var vegna "endurmats lánasafna" sem á mannamáli þýðir hagnaðurinn sem þeim var færður með því að leyfa þeim að að endurreikna gengistryggðu lánin á seðlabankavöxtum í stað þess að láta samningsvexti gilda.
Guðmundur Ásgeirsson, 21.5.2011 kl. 05:28
""Gunnar: stærsti hlutinn af hagnaði bankanna í fyrra var vegna "endurmats lánasafna" sem á mannamáli þýðir hagnaðurinn sem þeim var færður með því að leyfa þeim að að endurreikna gengistryggðu lánin á seðlabankavöxtum í stað þess að láta samningsvexti gilda.""
Það var tækleilega aldrei nein hagnaður því virði lánsafna fer eftir greiðslugetu skuldara en ekki duttlungum endurskoðenda.
það eina sem gerist við þetta er að hægt er að greiða löglega út arð núna sem þýðir bara að bankinn þarf meira fé til að mæta afskriftum seinna.
Guðmundur Jónsson, 21.5.2011 kl. 11:01
Þetta er nú orðin svolítil "Haltu / slepptu" umræða. Í þessum pistli hér er umræðan sú að lántakinn eigi að njóta allra þeirra affalla sem urðu til við flutning á lánunum yfir í nýja banka. Annað sé bara ósanngjarnt, græðgi og vitleysa.
Í næsta pistli á eftir kemur síðan grátkór um það að útrásarvíkingar séu allir að halda sínum fyrirtækjum eins og ekkert sé. Hvað mynduð þið þá segja, ef upp úr kjötkötlum kæmi að íslandsbanki hefði keypt öll FL Group lánin á 0 kr. við flutninginn, því væntar endurheimtur væru engar? Ætti ekki bara að sleppa öllum sem "rændu bankann innanfrá", af því lánin voru keypt svo ódýrt yfir í Íslandsbanka? Ætti þá bara Íslandsbanki að láta innheimtu niður falla og leyfa lántakanda "að njóta" affallanna? Ætti Arionbanki að leyfa Jóhannesi að eiga Haga, bara af því lánin voru keypt yfir með afföllum? Lántakandinn átti jú að njóta þessa "afsláttar", ekki satt?
Eiga ekki líka Bakkabræður að eiga Exista skuldlaust af því það var keypt ódýrt við flutninginn?
Það væri þá flotta Íslandið sem við værum með. Þeir sem skulduðu mest fyrir hrun fengju allt gefins en þeir sem skulduðu minnst og mestar líkur væru að borguðu fengju að borga upp í topp!! Frábært tillaga!! (NOT!)
Maelstrom, 23.5.2011 kl. 17:47
Nú ert þú á einhverjum villugötum og ekki í fyrsta sinn, Maelstrom. Skemmtilegur útúrsnúningur samt.
Marinó G. Njálsson, 23.5.2011 kl. 17:55
Maelstrom: Brasklánin til Tortólafélaganna sem þú ert að tala um voru sem betur fyrir skilin eftir í þrotabúum gömlu bankanna að mestu leyti. Nýju bankarnir eiga sem betur fer litla hagsmuni tengda þessum braskfélögum. Stærstu kröfuhafar þessara aðila eru erlendir bankar en ekki íslenskir, og allt saman skiptir þetta ekki neinu einasta máli lengur því þetta er ekki lengur fyrirtæki heldur þrotabú, verði þeim að góðu sem vilja eignast þau.
Þau lán sem voru færð yfir og sem fjallað er um í skýrslu Steingríms, voru lán til einstaklinga (húsnæðislán, bílalán, yfirdráttur og aðrar lausaskuldir) og fyrirtækja með rekstur á Íslandi (fjármögnunarlán, tækjakaupalán, fasteignalán o.s.frv.). Ekki kúlulán út á skeinipappír heldur kjarninn í hinu raunverðmætaskapandi atvinnulífi.
Guðmundur Ásgeirsson, 28.5.2011 kl. 13:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.