Leita í fréttum mbl.is

Fáránleiki endurútreikninga: Skuldar háar fjárhæðir þó lánið hafi verið greitt upp 2007

Í síðari símatíma Reykjavíkur síðdegis á Bylgjunni í gær (27.4.2011) hringdi inn kona sem sagði farir sínar ekki alveg sléttar.  Mig langar að birta grófa endurritun samtalsins hér (þ.e. samfellt mál og öllum endurtekningum og mistökum sleppt).  

Hringjandi:  Góða kvöldið.  Ég er að velta fyrir mér þegar skipt var um kennitölu á bönkunum, þ.e. gamla kennitalan og nýja kennitalan.. 

Útvarpsmaður: Þegar þeir fóru í kennitöluflakkið..

H:  ..þá fengu erlendir kröfuhafar þetta með einhverjum afslætti.  Ég er mikið að velta þessu fyrir mér.  Ég er með erlent lán sem ég greiddi upp árið 2007og er að fá bréf um það, að ég skuldi um 600 þús. af láninu.  Hvernig getur nýi bankinn eignast uppgreidda kröfu í gamla bankanum?

Ú:  Ég vildi nú að ég hefði svar við því.  Þetta er nú alveg óskiljanlegt.

H:   Þetta skil ég ekki heldur.  Eignuðust þeir gamla bankann alveg eða hvað eignuðust þeir?

Ú: Eignuðust þeir ekki kröfurnar?

H:  Uppgreiddar kröfur líka?

Ú:  Þú varst búin að borga?

H:  Ég greiddi þetta lán upp 2007.

Ú:  Hvað ertu að fá í hausinn núna?

H:  600 þúsund og ég má velja á milli fjögurra leiða.

Ú:  Hvaða leiðir eru það?

H:  Það eru alls konar leiðir, ég má velja hvernig ég gangi frá þessu.

Ú:  Við höfum rætt við lögmenn um þetta og þeir segja að þeir sem lendi í þessu eigi bara að stefna bankanum.

H:  Á ég að þurfa að fara kaupa mér lögfræðing út af láni sem ég er búin að borga út af einhverjum banka sem er í eigu ríkisins?  Nýi bankinn er í eigu einhverra erlendra kröfuhafa.  Ég er búin að borga þetta og ríkið á þetta uppgreidda lán.

Ú:  Bankinn metur það þannig að miðað við endurútreikninga hafir þú greitt of lítið af..

H:  Það er greinilegt.  Þeir eru búnir að reikna það út.  En ég skil ekki hvernig nýi bankinn geti eignast uppgreidda kröfu í gamla bankanum.  Það er það sem ég er ekki alveg að kveikja á, skilurðu?

Ú: Það væri gaman að spyrja einhvern að því.

---

Ég er búinn að fjalla um fáránleika laga nr. 151/2010, gengislánalaganna, all nokkrum sinnum.  Ég hef gert það út frá nokkrum sjónarhornum, en aldrei þeim sem hringjandinn nefnir, þ.e. að uppgreidd lán geti ekki talist eign, hvað þá eign nýja bankans.  Hafa skal í huga, að við síðustu afborgun skal lánveitandi senda lántaka stimplað frumrit lánsins til merkis um að lánssamningurinn sé uppgerður.  Um leið er láninu aflýst.  Hann myndar því ekki lengur kröfu og þar með eign í bókum bankans.  Hafi hann verið fluttur yfir í nýja bankann, þá var hann fluttur yfir á virðinu 0 kr.  Það er ekki fræðilegur möguleiki að lán sem bankinn á ekki frumrit af, geti flust frá gamla bankanum til þess nýja sem hugsanlega framtíðarkrafa.  (Tekið skal fram að ég er með annað svona mál hjá mér og þar er skuldin 850 þús.kr. vegna láns með upprunalegan höfuðstól upp á um 1.600.000 kr.)

Ég er búinn að senda tveimur af þeim þremur bönkum sem ég er með áður gengistryggð lán hjá yfirlýsingu, að ég viðurkenni ekki rétt þeirra til að endurreikna gjalddaga vegna tímabils þar sem lánin voru í fullum skilum.  Í öðru tilfellinu voru lán gefin út af banka sem hrundi og síðan færð yfir í þann nýja samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.  Lánin voru í skilum við flutninginn, þ.e. allar innheimtar gjalddagagreiðslur höfðu verið inntar af hendi í samræmi við ákvæði lánasamninganna.  Ég hef því bent bankanum á, að telji hann að ég skuldi vexti vegna gjalddaga meðan lánið var í eigu gamla bankans, þá sé nýi bankinn ekki aðili að því máli.

Í lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup segir í 81. gr. krafa sem ber vexti:

Kaup á kröfu sem ber vexti ná til áfallinna vaxta sem ekki eru gjaldfallnir á umsömdum afhendingartíma. Greiða skal jafnvirði vaxtanna sem viðbót við kaupverðið, enda hafi krafan ekki verið seld sem óvís krafa.

Þetta ákvæði segir að nýr eigandi kröfu skal greiða jafnvirði áfallinna, ógreiddra vaxta í kaupverði.  Sé svo ekki, þá má gagnálykta að hann sé ekki eigandi vaxta vegna þess tíma, þegar lánið var ekki í hans eigu.  Gamli bankinn á vextina, ef einhverjir vextir eru.  Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur E-5215/2010 ákveður dómarinn að kröfu Arion-banka, að bankinn eigi ekki aðild að endurgreiðslukröfu Sjómannafélags Íslands nema vegna þess tíma þegar lán Sjómannafélagsins var í eigu Arion banka. 

Allt bendir til þess, að afturvirk vaxtahækkun sé í besta falli vafasöm og næsta örugglega ólögleg.  Afturvirk vaxtahækkun á uppgreidd lán er örugglega ólögleg, þar sem greiðandi er búinn að fá afsal vegna lánsins og þar sem greiðandinn gerði ekkert ólöglegt og ekki er hægt að rekja nein mistök til hans, þá er nánast útilokað að hann verði gerður ábyrgur.  Afturvirk vaxtahækkun á þegar greidda gjalddaga, þar sem lántaki stóð við ákvæði lánasamningsins, er nær örugglega ólögleg.  Nú eigi afturvirk vaxtahækkun sér einhverja stoð, þá eiga gömlu bankarnir vaxtakröfuna, ekki þeir nýju.

Í lokin vil ég nefna, að Íslandsbanki - Fjármögnun hefur gefið það út, að ekki verði innheimt skuld á uppgreiddar kröfur komi í ljós við endurútreikning að slík skuld sé til staðar.  Hvernig ætlar bankinn að réttlæta þetta en rukkar okkur hin um vexti fyrir sama tímabil.

Bendi fólki síðan á nokkrar eldri færslur:

Fjármálafyrirtæki í klemmu

Endurútreikningur án samþykkis lántaka hefur enga merkingu - Afturvirk hækkun vaxta er eign gamla bankans

Dæmt að Arion banki eigi ekki aðild að hluta máls - Skaut bankinn sig í fótinn?

Uppgreitt lán skal taka nýja vexti og lántakar skulda 3,5 m.kr. á eftir

Tímamótadómur í Héraðsdómi Reykjavíkur: Afturvirk vaxtabreyting ekki viðurkennd


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hrellir

Þetta er leikhús fáránleikans. 27 þingmenn samþykktu þessar breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu þrátt fyrir ótalmargar ítarlegar umsagnir sem rökstuddu ólögmæti lagabreytinganna.

Á grundvelli þessa reiknuðu fjármálafyrirtækin sér gífurlega háa afturvirka viðbótarvexti og enn eina ferðina þurfa neytendur að leita á náðir dómstóla með tilheyrandi kostnaði og töfum.

Sigurður Hrellir, 29.4.2011 kl. 00:17

2 Smámynd: Sigurður Hrellir

Svo var það hin konan sem hringdi í þessum símatíma. Hún tók 3,5 milljón króna lán og hafði borgað af því í 10 ár. Nú stendur lánið eftir endurútreikning í 7 milljónum.

Sigurður Hrellir, 29.4.2011 kl. 00:46

3 Smámynd: Arnar Bergur Guðjónsson

haha...þetta eru fávitar

ég myndi trompast fengi ég svona rugl,

Arnar Bergur Guðjónsson, 29.4.2011 kl. 01:22

4 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Marinó,

Alveg magnað! 

Undanfarna mánuði hef ég fylgst með þáttum sem heita "American Greed" á CNBC (http://www.cnbc.com/id/18057119/)  Mér detta alltaf í hug íslensku bankarnir þegar ég horfi á þessa þætti;) 

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 29.4.2011 kl. 01:44

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég myndi einfaldlega bara fara með þetta bréf niður í banka og spyrja hvort ég eigi að hringja í lögregluna og kæra fyrir tilhæfulausar innheimtuaðgerðir. Starfsmenn bankans sem er annt um vinnuna sína vilja væntanlega ekki að hann verði sviptur starfsleyfi.

Guðmundur Ásgeirsson, 29.4.2011 kl. 09:28

6 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Þetta minnir á sögur úr undirheimunum, hvenær taka bankarnir handrukkara í þjónustu sína, það virðist vera það eina sem þeir eiga eftir.

Kjartan Sigurgeirsson, 29.4.2011 kl. 13:37

7 Smámynd: Che

"Þetta minnir á sögur úr undirheimunum, hvenær taka bankarnir handrukkara í þjónustu sína, það virðist vera það eina sem þeir eiga eftir."

Tja, bankarnir eru víst þeir einu sem hafa ráð á að hafa handrukkara á launum. Ég hef heyrt að taxtinn sé um 700 þúsund, sem er meira en venjulegt fólk, sem hyggst taka lögin í sínar hendur getur borgað. Enda fylgja handrukkarar samkeppnislögum og reglum hagfræðinnar um framboð og eftirspurn.

Che, 29.4.2011 kl. 13:49

8 identicon

Vitleysan ríður ekki við einteyming hjá þessum blessuðu stofnunum. Hvað ætli þeir myndu nú segja ef við tækjum upp á því að heimta vexti af öllum peningum sem við höfum nokkurn tíma átt hjá þeim. Þá er ég að tala um frá þeim degi sem viðkomandi upphæð var lögð inn á reikning og fram til dagsins í dag, óháð því hvort við hefðum tekið peningana út úr bankanum eða ekki. Nú svo myndum við að sjálfsögðu fara fram á að greiddir yrðu vextir eins og SÍ ákvarðar þá samkvæmt 10. gr. laga nr. 38/2001.

Ætli það myndu nú ekki heyrast ramakvein um ósanngirni og að þetta stæðist ekki lög o.s.frv.  

Ég er að velta fyrir mér að senda fyrirspurn þessa efnis á minn viðskiptabanka og sjá hvaða svör þeir bjóða uppá. Leikhús fáránleikans við Austurvöll myndi svo kannski setja lög svona til að staðfesta þessa kröfu.

Arnar (IP-tala skráð) 29.4.2011 kl. 13:52

9 identicon

Eftir því sem maður rýnir nánar ofan í þessi Árna Páls lög nr. 151/2010 verður maður alltaf meira og meira undrandi.

Fyrir utan þennan galna afturvirka endurreikning vaxta þá var jafnframt sett inn bráðabirgðaákvæði 5.(XIV.) sem er svohljóðandi: "Fyrningarfrestur uppgjörskrafna vegna ólögmætrar verðtryggingar lánssamninga í formi gengistryggingar reiknast frá 16. júní 2010."  Þetta túlka fjármálafyrirtækin sem svo að ef skuld hefur ekki verið uppgreidd 4 árum fyrir 16. júní 2010 þá eru samningar endurreiknaðir frá upphafi þó svo að lánið sé tekið miklu fyrr.

Hvað gekk mönnum til með þessu ákvæði? Að verja hagsmuni lánþega? NEI.  Þetta ákvæði var sett inn fyrir kröfuhafa sem auka bónus þeim til handa og þessu ákvæði beita fjármálafyrirtækin óspart í sínum afturvirku útreikningum.

Í lögum um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 þá fyrnast vextir og verðbætur skuldabréfa á 4 árum sbr. 3. og 5. grein laganna.

Árna Páls lögunum er því beinlínis ætlað að ganga lengra heldur en lögin í besta falli heimiluðu áður hvað fyrningarfresti varðar.

Maður á ekki til orð yfir þessa lagasetningu og ólögmætri eignaupptöku sem henni fylgir. 

Gunnlaugur Kristinsson (IP-tala skráð) 29.4.2011 kl. 23:47

10 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gunnlaugur, takk fyrir innlitið.  Ok, segjum að fyring kröfuréttarins sé fjögur ár, en nýi bankinn á ekki kröfuna.  Hún er eign gamla bankans, annað væri órökrétt.  Ekki fóru menn að færa uppgreiddar kröfur frá gamla bankanum til þess nýja?

Þó svo að nýi bankinn eigi kröfuna, þá kemur 81. gr. laga nr. 50/2000 og síðan eins og þú bendir á 3. og 5. gr. laga nr. 150/2007.  Samkvæmt 5. gr. þá er fyrningarfrestur vaxtanna 4 ár.  Það hlýtur að hafa í för með sér, að ekki sé hægt að taka upp vexti lengra aftur en til 16.6.2006, ef á annað borð er hægt að taka upp vexti.  Krafa um vexti vegna tímans fyrir 16.6.2006 er fyrnd, svo einfalt er það.

Annars hnýtti Jón Finnbjörnsson í Arion banka í gjaldþrotamáli um daginn þegar hann segir í niðurstöðuorðum:

Þá er ekki heimilt að reikna á ný afborgun af vöxtum og höfuðstól, ef hún hefur verið greidd að fullu á réttum gjalddaga eins og krafist var.

Nú munu fjármálafyrirtækin vafalaust segja, að þetta banni þeim ekki að reikna gjalddagagreiðslur sem fóru fram eftir gjalddaga! 

Marinó G. Njálsson, 30.4.2011 kl. 00:24

11 identicon

Algerlega sammála með útskýringar þínar varðandi það hver eigi hugsanlega kröfuna og hver ekki.  Ég var kannski ekki að velta því fyrir mér í fyrri færslu, bara velta upp lagabókstafnum og fáránleika hans.

Í þessu bráðabirgarákvæði segir "fyrningartími uppgjörskrafna miðast við..." en ekki "fyrningartími vaxta....miðast við"  Hvernig á að túlka það?

Lýsing útskýrir endurútreikning sinn m.a. með eftirfarandi hætti: "Fyrningarfrestur er 4 ár m.v. 16.06.2010.  Falli gjalddagi samnings innan fyrningarfrests, er samningur endurreiknaður frá upphafi"

Það er algerlega með ólíkindum hvernig fjármálafyrirtækin eru að framkvæma hlutina og hvernig þau eru að túlka lögin.  Það er hinn blákaldi raunveruleiki sem lánþegar standa nánast varnarlausir gegn.

Gunnlaugur Kristinsson (IP-tala skráð) 30.4.2011 kl. 00:54

12 Smámynd: Erlingur Alfreð Jónsson

Þetta er dæmalaus saga sem kom fram á Bylgjunni og hérna er endursögð, en undirstrikar enn og aftur bullið og þvæluna sem viðgengst í fjármálakerfinu okkar. Og enginn tekur í taumana. Ég nenni ekki einu sinni að eyða orðum í að nefna frammistöðu ÁP.

En það sem fólk verður að muna og halda á lofti er ákvæði 2.mgr. 14.gr.laga um neytendalán: "Lánveitanda er eigi heimilt að krefjast greiðslu frekari lántökukostnaðar en tilgreindur er í samningi skv. 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. Sé árleg hlutfallstala kostnaðar, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 6. gr., of lágt reiknuð er lánveitanda eigi heimilt að krefjast heildarlántökukostnaðar sem gæfi hærri árlega hlutfallstölu kostnaðar."

Því er skoðun mín: Heildarlántökukostnaður tilgreindur á greiðsluáætlun er sá hámarkskostnaður sem má innheimta. Um leið og þeirri tölu er náð er samningurinn uppgreiddur.

Erlingur Alfreð Jónsson, 30.4.2011 kl. 01:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Marinó G. Njálsson
Marinó G. Njálsson
Upplýsingaöryggi og persónuvernd eru mínar ær og kýr, þó ég blaðri um allt og ekkert hér á blogginu. Er í Hagsmunasamtökum heimilanna og berst fyrir réttlæti fyrir heimili í landinu.  Loks er ég faggiltur leiðsögumaður.  Netfangið mitt er mgn@islandia.is og netfang fyrirtækisins oryggi@internet.is.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring: 81
  • Sl. viku: 275
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband